Guðrún Erlingsdóttir (bæjarfulltrúi)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Guðrún Erlingsdóttir húsfreyja, framreiðslumaður, verslunarmaður, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar í Eyjum, varaþingmaður, blaðamaður fæddist 18. október 1962.
Foreldrar hennar Erling Pétursson frá Karlsbergi við Heimagötu 22, skipstjóri, útgerðarmaður, f. 25. október 1942 í Fagradal í Mýrdal og fyrri kona hans Jóhanna Guðrún Jónsdóttir frá Þorlaugargerði, húsfreyja, f. 20. desember 1942, d. 8. mars 2022.

Börn Jóhönnu Guðrúnar og Erlings:
1. Pétur Erlingsson sjómaður á Sauðárkróki, skipstjóri á Gullhólmi frá Grundarfirði, f. 17. nóvember 1961 í Reykjavík. Kona hans er Aðalbjörg Anna Gunnarsdóttir verslunarmaður, f. 19. júlí 1965.
2. Guðrún Erlingsdóttir húsfreyja, bæjarfulltrúi í Eyjum, verkalýðsleiðtogi, varaþingmaður, BA-atvinnulífsfræðingur, blaðamaður, f. 18. október 1962 í Eyjum. Maður hennar er Gylfi Sigurðsson húsasmíðameistari, f. 26. janúar 1959.
3. Erling Erlingsson framreiðslumaður, sjómaður í Reykjavík, skipstjóri á Steinunni frá Höfn, f. 25. október 1965 í Eyjum. Kona hans er Arnheiður Edda Rafnsdóttir bankastarfsmaður, f. 9. maí 1965.
4. Berglind Erlingsdóttir húsfreyja, matartæknir, mannfræðingur, hjúkrunarnemi, f. 15. desember 1974 í Eyjum, var búsett í Portland í Oregon í Bandaríkjunum, nú í Hafnarfirði. Maður hennar er dr. Styrmir Sigurjónsson verkfræðingur, f. 14. apríl 1974. Hann vinnur við líftækni. Hann er sonarsonur Jóhönnu Sigurjónsdóttur Sigurðssonar frá Þingeyri.
Barn Erlings er
5. Víkingur Freyr Erlingsson rafvirkjanemi á Selfossi, f. 20. ágúst 1996.

Guðrún var með foreldrum sínum, á Austurvegi 22, á Heiðarvegi 20, á Ásavegi 12, á Hásteinsveg 32 og á Höfðaveg 36.
Hún varð stúdent í Framhaldsskólanum í Eyjum 1996, lauk BA-prófi í norsku og atvinnulífsfræði í Háskóla Íslands 2016 og MA-prófi í blaða- og fréttamennsku í Háskóla Íslands 2018.
Guðrún vann við fiskiðnað, við framreiðslu á veitingastað og hóteli, í húsgagnaverslun, leikskólum og fleira.
Hún var formaður Verslunarmannafélags Vestmannaeyja 1993-2007, formaður deildar VR í Vestmannaeyjum og sérfræðingur á kjaramálasviði VR 2007-2012, blaðamaður á Morgunblaðinu 2017-2019, ráðgjafi í kjaramálum hjá Félagi grunnskólakennara 2019-2022 og hefur verið mennta- og kynningarfulltrúi STF, Sambands stjórnendafélaga, frá 2022. Hún hefur líka verið lausapenni hjá Eyjafréttum, Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja og Þjóðhátíðarblaði Vestmannaeyja eftir að hún kláraði meistaranámið í blaðamennsku.
Guðrún var bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum 1998-2006, forseti bæjarstjórnar 2003-2004. Hún sat í fjölmörgum nefndum og ráðum fyrir Vestmannaeyjabæ auk fjölda nefnda og ráða í félags-, verkalýðs- og lífeyrissjóðamálum. Hún var varaþingmaður Suðurkjördæmis fyrir Samfylkinguna og tók sæti á þingi 2009 og 2012. Hún var formaður Stjórnar Viðlagatryggingar Íslands, nú Náttúruvár, 2011-2014.
Þau Gylfi fluttu úr Eyjum 2012.
Guðrún leikur á gítar, semur lög og texta, hefur sungið í Gospelkórnum, hélt tónleika í Salnum í Kópavogi 2016, hélt tónleika á Hjallakirkju í tilefni afmælis kirkjunnar. Eitt af áhugamálum hennar er ,,að safna upplýsingum um líf og líðan íbúa í Vestmannaeyjum í kjölfar eldgossins 1973.“
Þau Gylfi giftu sig 1985, eignuðust tvö börn og eitt kjörbarn. Þau bjuggu við Áshamar 14, búa við Brekkubyggð í Garðabæ.

I. Maður Guðrúnar, (28. júlí 1985), er Gylfi Sigurðsson húsasmíðameistari, f. 26. janúar 1959.
Börn þeirra:
1. Erling Þór Gylfason flugstjóri í Hafnarfirði, f. 28. júlí 1980 í Eyjum.
2. Bjartey Gylfadóttir, myndlistarkennari í Eyjum, f. 8. ágúst 1983. Maður hennar Sæþór Gunnarsson bílamálari.
3. Jóhanna Björk Gylfadóttir sjúkraþjálfari í Kópavogi, f. 30. janúar 1990. Unnusti hennar Þórir Helgi Hallgrímsson grafískur miðlari.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Guðrún.
  • Íslendingabók.
  • Knudsensætt 1-2. Ritstjóri Þorsteinn Jónsson. Sögusteinn 1986.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.