Gísli Friðrik Petersen (prófessor)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Gísli Friðrik Petersen)
Fara í flakk Fara í leit
Gísli Friðrik Petersen.

Gísli Friðrik Petersen læknir, prófessor fæddist 21. febrúar 1906 í Reykjavík og lést 18. júlí 1992.
Foreldrar hans voru Aage Lauritz Petersen verkfræðingur af dönskum ættum, símstjóri, síðar skattstofufulltrúi, f. 14. desember 1879, d. 2. mars 1959, og fyrri kona hans Guðbjörg Gísladóttir húsfreyja, síðar á Gimli, f. 25. ágúst 1880 í Hlíðarhúsi, d. 29. nóvember 1969.

Börn Guðbjargar og Aage:
1. Ásdís Elísabet Petersen húsfreyja, f. 19. desember 1902, d. 6. desember 1984.
2. Ágústa Hansína Petersen Forberg húsfreyja, f. 4. janúar 1905, d. 27. október 1987.
3. Gísli Friðrik Petersen læknir, prófessor, f. 21. febr. 1906, d. 18. júlí 1992.
4. Ágúst Ferdinand Petersen listmálari, f. 20. desember 1908, d. 7. nóvember 1990.

Barn Guðbjargar og Sæmundar Jónssonar frá Jómsborg, f. 2. apríl 1888 í Efri-Holtum u. Eyjafjöllum, d. 31. mars 1968.
5. Jón Karl Sæmundsson ljósmyndari í Reykjavík, f. 18. september 1921, d. 30. júní 1993. Kona hans var Sigurlína Árnadóttir.

Börn Aages og síðari konu hans Guðnýjar Magnúsdóttur talsímakonu, húsfreyju, f. 13. ágúst 1898, d. 17. febrúar 1975.
6. Stella Petersen skrifstofumaður, gift í Englandi, f. 30. september 1917 á Símstöðinni.
7. Betsy Petersen, f. 4. nóvember 1918 á Símstöðinni, d. 25. desember 1944.
8. Magnús Petersen verkamaður í Reykjavík, f. 29. október 1920, d. 19. júlí 1992.
9. Gunnar Petersen gullsmiður í Reykjavík, f. 16. janúar 1929, d. 6. október 1980.

Gísli var með foreldrum sínum fyrstu ár sín, í Reykjavík til 1908, er þau fluttu til Eyja, bjuggu á Hól, á Símstöðinni 1912-1914. Foreldrar Gísla skildu 1915 og hann var með móður sinni á Hól, en hjá föður sínum í Reykjavík 1919-1924, en þá varð hann stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík.
Gísli lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1930, varði doktorsrit sitt við Háskólann 10. janúar 1942.
Hann fékk almennt lækningaleyfi 1930 og sérfræðingsleyfi í geislalækningum 13. desember 1940.
Námsdvöl átti hann víða, í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Berlín, í London og sat fjölmörg þing norrænna geislalækna og alþjóðaþing geislalækna.
Hann var staðgengill héraðslæknisins í Eyjum sumarið 1930, settur héraðslæknir í Nauteyrarhéraði 1. ágúst 1930, en gat ekki sinnt því vegna vanheilsu. Hann var staðgengill á Vífilsstaðaspítala mars 1931-ágúst 1932.
Gísli var við sérnám í Svíþjóð og Danmörku, var aðstoðarlæknir á röntgendeild Landspítalans frá 1934 til júlí 1940, síðan deildarlæknir þar og yfirlæknir frá nóvember 1948, veitt lausn 1974.
Hann var læknir við berklavarnastöð Líknar 1937-1939.
Gísli var aukakennari í röntgenfræðum við læknadeild Háskólans 1959, dósent frá febrúar 1960 til 1967 og prófessor frá júlí 1967 til nóvember 1975. Stundakennari þar var hann 1975-1978.
Gísli sat í ýmsum stjórnum og nefndum, sem snertu sérsvið hans og áhugasvið.
Hann reit fjölda greina í erlend og innlend læknarit og sat í ritstjórn Acta Radiologica Scandinavica um skeið, og hlaut viðurkenningar fyrir störf sín.

I. Kona Gísla Friðriks Petersen, (3. nóvember 1934), var Sigríður Guðlaug Brynjólfsdóttir húsfreyja, organleikari, söngkennari, söngstjóri, f. 23. febrúar 1910, d. 18. ágúst 1996. Foreldrar hennar voru Brynjólfur Þorláksson organleikari og söngkennari í Reykjavík, f. 22. maí 1967, d. 16. febrúar 1950, og kona hans Guðný Mgnúsdóttir húsfreyja, f. 10. janúar 1870, d. 20. mars 1931.
Börn þeirra:
1. Már Gíslason, f. 12. ágúst 1936, d. 13. ágúst 1936.
2. Þórir Gíslason tannlæknir, f. 8. desember 1937, d. 30. júlí 2023. Kona hans var Helga Sigurjónsdóttir.
3. Áki Gíslason cand. mag., bókavörður, f. 26. mars 1945, d. 13. febrúar 1986.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Læknar á Íslandi. Gunnlaugur Haraldsson. Þjóðsaga 2000.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.