Elín Albertsdóttir (Stapa)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Elín Albertsdóttir.

Elín Albertsdóttir frá Engidal, húsfreyja, sjúkrahússstarfsmaður, skólafulltrúi fæddist í Engidal 27. október 1933 og lést 19. ágúst 2015.
Foreldrar hennar voru Albert Helgason múrari f. 18. júní 1901 í Hafnarfirði, d. 30. apríl 1961, og kona hans Jóhanna Nikólína Guðjónsdóttir húsfreyja, f. 19. september 1909 í Bræðraborg, d. 19. apríl 1976.

Börn Jóhönnu og Alberts voru:
1. Elín Albertsdóttir húsfreyja, skólafulltrúi, f. 27. október 1933, d. 19. ágúst 2015.
2. Hólmar Albertsson stýrimaður, f. 3. mars 1936, d. 7. febrúar 2012.
Barn Jóhönnu Nikólínu með Erlendi Erlendssyni matsveini, veitingamanni, síðast í Kanada, f. 3. september 1904, d. 14. september 1958 var
3. Sigríður Alda Eyland Erlendsdóttir Bradley, húsfreyja í Bandaríkjunum, f. 29. september 1930 á Vatnsleysuströnd, d. 23. desember 2001 í Bandaríkjunum. Maður hennar var Odell Pete Bradley.

Elín var með foreldrum sínum meðan þau bjuggu saman, flutti á öðru aldursári með þeim til Reykjavíkur.
Hún var í sveit á Eiðsstöðum í Blöndudal öll sumur frá 7 til 14 ára aldurs.
Hún gekk í Austurbæjarskóla og síðar Laugarnesskóla og þaðan lá leið hennar í Verslunarskóla Íslands, þar sem hún nam í þrjá vetur, en hætti námi þar 16 ára, þegar hún fluttist með móður sinni og Hólmari bróður sínum til Eyja 1950.
Hún var við fiskverkun í Eyjum, giftist Ólafi 1952. Þau eignuðust fjögur börn, en misstu eitt þeirra á þriðja aldursári þess.
Þau bjuggu á Stóru-Heiði og síðan Litlu-Heiði í fyrstu, byggðu hús og bjuggu að Túngötu 20, en síðustu 43 árin bjuggu þau á Stapa.
Elín starfaði í eldhúsinu á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja og síðar á skrifstofu sjúkrahússins. Varð síðar rekstrarfulltrúi Hraunbúða og um tíma skólafulltrúi hjá Vestmannaeyjabæ.
Hún lést á Stapa 2015.

I. Maður Elínar, (27. desember 1952), var Ólafur Ragnar Sigurðsson sjómaður, lögreglumaður, lögregluvarðstjóri, vélstjóri frá Vatnsdal, f. 3. mars 1931.
Börn þeirra:
1. Sigurður Ólafsson, f. 20. október 1952, d. 26. janúar 1955.
2. Sigurður Ingi Ólafsson skipstjóri, f. 23. febrúar 1956. Kona hans Aðalheiður Hafsteinsdóttir.
3. Svanhvít Ólafsdóttir húsfreyja, læknaritari í Reykjavík, f. 22. júlí 1957. Maður hennar Jóhann Baldursson.
4. Guðjón Ólafsson rafeindavirki í Reykjavík, f. 2. júní 1965. Fyrrum kona hans Sigríður Pálína Færseth.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 2. september 2015. Minning.
  • Múraratal og steinsmiða. 2. útgáfa, aukin. Þorsteinn Jónsson, Brynjólfur Ámundason. Þjóðsaga 1993.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.