Einar Sv. Jóhannesson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Einar S. Jóhannsson)
Fara í flakk Fara í leit

Einar Sveinn Jóhannesson fæddist 13. apríl 1914 og lést 26. september 1994.
Einar bjó á Urðavegi 8, húsinu Steinar.

Einar var formaður m.a. með Mugg.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Einar:

Jóhanns arfi orku knár
Einars meður heiti
mundar afla í Mugginn klár,
mar þó drekann bleyti.

Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.

Frekari umfjöllun

Einar Sveinn Jóhannesson.

Einar Sveinn Jóhannesson frá Seyðisfirði, sjómaður, vélstjóri, skipstjóri, útgerðarmaður fæddist þar 13. apríl 1914 og lést 26. september 1994.
Foreldrar hans voru Jóhannes Sveinsson, f. 2. júní 1866, d. 21. nóvember 1955 og kona hans Elín Júlíana Sveinsdóttir húsfreyja, f. 10. júlí 1883, d. 25. apríl 1952.

Einar hóf sjómennsku 1929, fékk vélstjóraréttindi 1933, lauk fiskimannaprófi 1939.
Hann var vélstjóri í Eyjum og á Austfjörðum 1933-1940, var síðan vélstjóri og skipstjóri á ýmsum bátum, Nirði, Skíðblaðni, Birgi, Svanhólm, Erlingi, Mugg, Skaftfellingi, Vonarstjörnunni, og Farsæl.
Hann hóf áætlunarsiglingar á Skaftfellingi VE 1951, keypti Vonarstjörnuna 1955 og stundaði mjólkurflutninga til Eyja til 1959. Þá varð hann ráðinn skipstjóri á Lóðsinum og gegndi því starfi til 1984 og síðar í afleysingum, en var þá bryggjuvörður.
Hann var sæmdur heiðursmerki sjómannadagsins fyrir störf að björgunarmálum. Á 20. þingi Landssambands Slysavarnafélaga Íslands 1984 var hann heiðraður fyrir störf að björgunarmálum. 17. júní 1985 var hann sæmdur fálkaorðunni fyrir störf að björgunarmálum.
Þau Sigríður giftu sig 1937, eignuðust fimm börn. Þau bjuggu í Sætúni 1937 og 1940, á Hásteinsvegi 7 1942, í Sætúni 1945, í Steinum 1949, í Holti um skeið, á Faxastíg 45 1958 og síðan.

I. Kona Einars, (2. október 1937), var Sigríður Ágústsdóttir húsfreyja, f. 5. júní 1912, d. 14. október 1996.
Börn þeirra:
1. Sigurhanna Ágústa Einarsdóttir húsfreyja í Kópavogi, forstöðukona heimilisþjónustu Kópavogs, f. 10. febrúar 1937 í Sætúni. Maður hennar Ólafur Valdimar Oddsson verktaki.
2. Dóróthea Einarsdóttir húsfreyja í Mosfellssveit, matráðskona, f. 10. febrúar 1940 í Sætúni, d. 2. desember 2021.
3. Elín Bryndís Einarsdóttir húsfreyja í Reykjavík, sjúkraliði, f. 1. apríl 1942 á Hásteinsvegi 7.
4. Þorbjörg Guðný Einarsdóttir húsfreyja í Eyjum, fiskverkakona, f. 12. apríl 1950 í Steinum.
5. Sveinn Einarsson vélstjóri í Eyjum, f. 14. maí 1958 á Sjúkrahúsinu.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.
  • Morgunblaðið 8. október 1994. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.