Blik 1978/Þrír ættliðir, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1978



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Þrír ættliðir.


Þáttur eiginkonunnar
í uppbyggingu vélbátaútvegsins
í Vestmannaeyjum
(2. hluti)


I
Afi og amma.
Erfið lífsbarátta háöldruðu fólki.


Við hvörflum huga undir Eyjafjöllin og litumst um á Skálabæjunum á síðasta fjórðungi síðustu aldar. Þar er þríbýli. Í Suðurbænum, sem svo er kallaður, búa hjónin frú Kristín Björnsdóttir og Jón Einarsson, bóndi og meðhjálpari. Hann er fæddur þarna á bænum 14. apríl 1838, sonur hjónanna Einars bónda Sighvatssonar og konu hans frú Arnlaugar Sveinsdóttur. Jón var yngsta barn þeirra.


ctr


Hjónin Jón Einarsson og frú Kristín Björnsdóttir


Jón Einarsson gerðist snemma víðlesinn og fróður, enda fróðleiksfús og stálminnugur, og las allt, sem hann átti kost á til lestrar, en þó mest Íslendingasögurnar og þjóðsögur. Hann var jafnframt vinnuglaður og hreinskilinn, snyrtimenni í hvívetna, en fjarri því að hafa hug til kvenfólks, svona ungur maður og upprennandi í byggðinni. Margar litu hann þó hýru auga, því að glæsilegur þótti hann og talinn gott mannsefni í bændastétt.
Kristín Björnsdóttir hét prestsdóttirin í Holti undir Eyjafjöllum. Orð fór af hlýju og yndisleik hennar og fólk undraðist, að þessi efnilega og vel ættaða heimasæta með allan sinn yndisþokka hefði ekki enn látið freistast til ástarleika og giftingar.
Hún var dóttir séra Björns sóknarprests í Holti Þorvaldssonar prests og sálmaskálds Böðvarssonar. Séra Þorvaldur Böðvarsson hafði einnig verið sóknarprestur í Holti á sínum tíma. Það var á árunum 1824-1836.
Móðir Kristínar heimasætu var fyrri kona séra Björns sóknarprests, maddama Halldóra Finnbogadóttir frá Vík á Flateyjardal í Suður-Þingeyjarsýslu, nyrzta bænum þar í sveit. Kristín Björnsdóttir fæddist að Stafafelli í Lóni 3. september 1839. Þar var faðir hennar þá sóknarprestur. — Ung missti hún móður sína. En brátt kvæntist presturinn aftur og gekk að eiga Sólveigu Einarsdóttur. Þannig atvikaðist það, að Kristín ólst upp hjá stjúpu sinni, sem reyndist henni eins og bezta móðir. Milli þeirra ríkti hlýhugur alla tíð, meðan báðar lifðu.
Séra Björn Þorvaldsson, faðir Kristínar heimasætu, var prestur í Holti undir Eyjafjöllum á árunum 1862-1874. Systir séra Björns var frú Hólmfríður Þorvaldsdóttir, eiginkona hins kunna stjórnmálamanns í sögu okkar, Jóns Guðmundssonar, ritstjóra Þjóðólfs m.m.
Eitt sinn dvaldist Kristín heimasæta hjá frú Hólmfríði föðursystur sinni í Reykjavik. Þá bar þar gest að garði. Þetta var myndarlegur maður og spengilegur á velli en kominn af æskuskeiði. Hann hafði skilaboð að færa ritstjóranum Jóni Guðmundssyni frá föður sínum Einari bónda Sighvatssyni á Yzta-Skála, sem var góðkunningi ritstjórans, dyggur kaupandi Þjóðólfs og lesandi.
Frú Hólmfríður horfði lengi á eftir gestinum, þar sem hann hvarf út um dyrnar og fjarlægðist íbúðarhúsið. Síðan snýr frúin sér að Kristínu frænku sinni og segir: „Þarna sá ég mannsefnið þitt.“ — Svo liðu árin undir Eyjafjöllum eins og annars staðar og þó ekki mörg. Og Kristín Björnsdóttir og Jón Einarsson, bóndasonurinn á Yzta-Skála, felldu hugi saman. Þau giftust 14. júní 1873. Þá var hann hálffertugur að aldri og hún árinu yngri eða 34 ára. Þá settu þau saman bú á Yzta-Skála, en faðir hans brá þá búi 81 árs að aldri. Hafði hann þá búið þar í 55 ár.
Kunnugur tjáir mér, að hjónaband Jóns Einarssonar og frú Kristínar Björnsdóttur hafi verið „sjaldfengið ævintýri í mannheimi,“ eins og ég skrifaði orð þessi upp eftir honum. „Ást þeirra og hjónayndi stóð óhaggað af sér öll élin og allan barninginn langa ævi. Allt, sem á bjátaði, eyddist í þeim yl.“ Og svo bætti hann við þessi orð sín, þessi víðlesni og gagnfróði náfrændi þeirra: „Hólmfríður frænka hennar frú Kristínar var ávallt sannfærð um, að sálir þeirra hefðu unnazt í fyrri tilveru.“ — Ég undraðist stórum þessi síðustu orð fræðimannsins. Ekki minntist ég þess að hafa nokkru sinni heyrt þessari hugsun fleygt, síðan norskur fræðimaður flutti eitt sinn fyrirlestur um indverska heimspeki fyrir okkur, ungt skólafólk í Noregi fyrir um það bil hálfri öld. Þá las ég fyrst Hinn guðdómlega gleðileik eftir Dante, þetta heimsfræga skáldverk. Síðan hefur þessi grunur leynzt innra með mér, þegar ég minnist ástar skáldsins á hinni kornungu Beatrice. Atvik í eigin lífi hafa ávallt haldið við þeirri hugsun.
Meðan þau hjón, Jón og Kristín, bjuggu á Yzta-Skála, áttu þau hlut í opnu skipi með nábúa sínum, Einari Jónssyni, bónda þar og hreppstjóra, sem bjó í Miðbænum á Skálatorfunni. Þetta skip var áttæringur og hét Kristbjörg. Nafnið á því var sett saman úr nöfnum eiginkvenna eigendanna, frú Kristínar konu Jóns, og frú Ingibjargar Jónsdóttur frá Steinum, konu Einars hreppstjóra.
Áttæringurinn Kristbjörg reyndist jafnan mikið happaskip og kom oft að landi við Eyjafjallasand hlaðið vænum færafiski á vetrarvertíðum, þegar ládeyða var við Sandinn og logn um allan sæ, og fiskurinn gekk í torfum fram með ströndinni.
Hjónin frú Kristín Björnsdóttir og Jón bóndi Einarsson eignuðust fjögur börn, svo að mér sé kunnugt. Þau hétu: Halldóra, Gísli, Sveinn og Björn. Tvö þeirra koma hér við sögu, Halldóra og Sveinn. Gísli sonur þeirra lézt um 1950. Hafði hann þá verið um 40 ár formaður á opnu skipi, sem gert var út frá Eyjafjallasandi.
Hjónin fluttu frá Yzta-Skála til Vestmannaeyja árið 1908. Þá voru þau um sjötugt og höfðu búið á Skálajörðinni í 25 ár. Bæði voru þau þá orðin þreytt og vinnulúin. Jón bóndi hafði ávallt verið mikill eljumaður við bústörfin. Hann gegndi einnig meðhjálparastarfinu í sókninni um árabil.
Frú Kristín húsfreyja var mikil búkona og tóvinnukona með afbrigðum. Marga stundina þeytti hún rokkinn sinn við týruljósið frá litla steinolíulampanum sínum. Á sama tíma kvað hún rímur, sem hún kunni utanbókar, eða hún söng ljóð fyrri alda skálda. Stundum las hún góða bók, meðan hún spann. Hvergi skeikaði. Allt lék í höndum hennar.
Frú Kristín Björnsdóttir húsfreyja í Yzta-Skála er sögð hafa eignazt eina af allra fyrstu saumavélunum, sem keypt var þar í sveit. Það var árið 1880.
Í Vestmannaeyjum voru tvö börn þeirra hjóna búsett, þegar þau fluttu þangað: Halldóra, sem gift var Bjarna Einarssyni frá Yzta-Skála og Sveinn formaður á Landamótum, kvæntur frú Kristínu Þorleifsdóttur.
Ungu hjónin frá Yzta-Skála, frú Halldóra Jónsdóttir og Bjarni Einarsson, höfðu byggt sér þægilega stórt íbúðarhús í Vestmannaeyjum, þegar hér er komið sögu, svo að þau gátu veitt öldruðu hjónunum húsaskjól.
En hvernig fóru svo gömlu hjónin að því að framfleyta sér, þegar til Eyja kom? Engan var þá ellistyrkinn að fá nema segja sig til sveitar. Það var þeim fjarri skapi, þó að þau væru orðin vinnulúin og Jón bóndi ekki fær til þess lengur að standa í erfiðu starfi, svo sem aðgerð og öðrum fiskvinnslustörfum. Efni þeirra voru ekki mikil eftir búreksturinn á Yzta-Skála í aldarfjórðung og minna varð úr þeim, þegar flutt var af jörðinni. Ógjarnan vildu þau vera ómagar dóttur sinnar og tengdasonar, nema þau ættu einskis annars úrkosta.
Jón Einarsson fékk sér hest og kerru og hafði það að atvinnu á vertíðum að aka fiskslógi í matjurtagarða Eyjamanna. Einnig fékk hann sér land og ræktaði rófur og kartöflur. Markaður fyrir þá framleiðslu var góður í Eyjum. Garðræktin að vorinu var honum erfiðust, því að plógur var enginn til í byggðarlaginu. Þess vegna pældu allir garða sína með reku, og það var erfitt verk, ekki sizt öldnum og vinnulúnum.
Þá ræktaði Jón Einarsson einnig gulrófnafræ af völdum rófustofni og seldi það bæði í Eyjum og utan þeirra, sérstaklega til bænda í Rangárvallasýslu, þar sem þau hjón áttu marga kunningja og vini. Einnig hafði Jón bóndi það að atvinnu að „aka skarni á hóla“ fyrir þá, sem höfðu túnblett í Eyjum, höfðu ræktað sér túnbleðil til þess að hafa svo sem eina kú eða svo til heimilisnota.
Þannig tókst Jóni Einarssyni frá Yzta-Skála að fleyta fram sér og konu sinni fyrstu árin, sem þau dvöldust í Eyjum. En síðustu ár ævinnar voru þau algjörlega á framfæri Halldóru dóttur sinnar og tengdasonar. Þá var vinnuþrekið þrotið og til engra að leita um styrk til framfærslunnar nema hjónanna í Hlaðbæ, dóttur og tengdasonar.
Frú Kristín Björnsdóttir lézt í Hlaðbæ hjá dóttur sinni 19. marz 1924, 85 ára að aldri. Tveim árum síðar eða 1926 lézt eiginmaður hennar Jón Einarsson. Þá var hann 88 ára gamall.

III. hluti

Til baka