Blik 1978/Ég man þig
Að þessu sinni birtir Blik kvœði eftir Reinhardt Reinhardtsson. Hann er kunnur hagyrðingur, svo að ekki sé of mikið sagt.
R.R. er fæddur Mjófirðingur eins og við hjónin og lifði þar bernskuárin sín eins og við. Síðan dvaldist hann í Norðfjarðarþorpi um árabil. Hann er sagður norskur að föðurkyni.
Fjörutíu vikna gamlan tók Steinn Jónsson, þá kunnur barnakennari í Mjóafirði, þennan litla og munaðarlausa dreng í fóstur. Síðan deildu þeir saman gæðum lífsins og gjöfum þess í 43 ár. Steinn Jónsson var m.a. kennari okkar hjóna á uppvaxtarárum okkar og þroskaárum. Hann lézt árið 1952.
R.R. og við hjónin eigum þess vegna af gildum ástœðum margar œskuminningar sameiginlegar. Með því að birta þessi kvæði í Bliki, minnumst við öll í sameiningu bernsku- og œskustöðvanna og svo hins góða kennara okkar, mannkostamannsins Steins Jónssonar.
Kona R.R. er frú Ólöf Ögmundsdóttir frá Þistilfirði. Þau hjón hafa lengi átt heima í Reykjavík. Þau reka þar Efnalaug Austurbœjar með útibúum.
- Ég man þig
- Ég man þig, er sumarsólin blíð
- við sæinn bláa og græna hlíð
- minntist á morgni fríðum;
- og fuglar sungu á hverri grein
- í dölum djúpum og víðum.
- Ég man þig, er kvöldsólin kyssti hlíð
- á kinnar rjóðar sem móðir blíð
- og hvarf bak við heiðina bláa.
- Ég man, þegar haustnóttin hélurós
- að hjarta þér lagði, og stjörnuljós
- kveikti á himninum háa.
- Þótt beri mig fley að fegri strönd,
- og fagni mér brosandi sólarlönd
- með skuggsæla skógarlundinn,
- ég þrái ilminn úr þinni mold;
- af þínu bergi er mitt veika hold,
- og andi minn er þér bundinn.
- Til fóstra míns
- Steins kennara Jónssonar
- Öldungur með æru hreina,
- orðum mínum til þín beina
- vil ég; sönnu sízt skal leyna.
- Gæzku þína og ástúð alla,
- eg þó flytti ræðu snjalla,
- þér ég gæti þakkað varla.
- Ungan mig á örmum barstu;
- aldrei brauð við nögl þér skarstu;
- faðir mér og móðir varstu.
- Af þér nam ég alls kyns fræði,
- æfintýri og fögur kvæði,
- mér til gagns og gamans bæði.
- Þegar tár mín vanga vættu,
- vermdu hjartað, sinnið kættu
- orð þín mild og böl hvert bættu.
- Ætíð mun í mínu hjarta,
- meðan lifi, fegurst skarta
- minningin um bernsku bjarta.
- Glímu þreytir þú við elli,
- þó að lokum hún þig felli,
- hróður þinn mun halda velli.
- Norðfjörður
- Aftur lít ég fjörðinn fríða,
- fagurbláa, djúpa, víða
- blunda fast í faðmi hlíða;
- vökul standa verði á
- sveipuð glæstum árdagseldi
- og aftanskinsins rauða feldi
- fjöllin brött og himinhá.
- Egils rauða byggðin breiða
- blasir við frá strönd til heiða,
- lækir glitra, fossar freyða;
- fjalls um vanga strýkur blær.
- Sér við atlot sumartíðar
- svartar brúnir Skuggahlíðar
- lyfta himinljósi nær.
- Syngur blítt á silfurstrengi
- sumarljóð við tún og engi
- áin tæra. Ljúft og lengi
- hólmar grænir hlýða á.
- Upp við sævarsandinn kalda
- sína hörpu stillir alda;
- hvítt er skaut og skikkjan blá.
- Yfir sveit ég augum renni;
- örnefni þar flest ég kenni;
- björtu jökuls undir enni
- fagran lít ég Fannadal.
- Droplaugar við djörfum sonum
- dvelur hugur minn að vonum,
- er um fjalla ég svipast sal.
- Hof, þér lutu heiðnar tíðir,
- hvassa branda er skóku lýðir,
- blóðs svo runnu straumar stríðir
- og styrjargnýr um loftið smaug.
- Hér á vöggu sína saga,
- sem allt fram á vora daga
- krýnir ljóma kappans haug.
- Heyri ég kirkjuklukkur hringja,
- klerka prúða messur syngja;
- minningarnar aftur yngja
- upp hinn fagra Skorrastað.
- Hér var rausn og höfðingsbragur,
- héðan lýsti eins og dagur
- trúarsól, er syrti að.
- Býlin dreifð um blómagrundir
- bröttum fjallahlíðum undir
- minna á æsku-unaðsstundir,
- allt of fljótt, sem liðu hjá.
- Tímar breytast; húsin hækka;
- herfi og plógur túnin stækka.
- Þó má gamla svipinn sjá.
- Berum undir bjargsins fótum
- bærinn vex af fornum rótum.
- Áfram, nýjar brautir brjótum,
- boðorð vorra tíma er.
- Létta byrði af lúnum bökum,
- lyfta þyngstu Grettistökum
- elfarfoss og heiðahver.
- Fjöllin upp í heiðið háa
- huga lyfta, og djúpið bláa
- sjónhring víkki, samt því smáa
- sé ei gleymt; það virða skal.
- Væna sveit, þig vor hvert yngi;
- vögguljóð þér aldan syngi;
- Blessun streymi um strönd og dal.
Frá vinstri: Björn Sigurðsson frá Pétursborg (nr. 56B við Vestmannabraut). Theodór Jónsson frá Háagarði (nr. 26 við Austurveg), Runólfur Runólfsson frá Brœðratungu (nr. 27 við Heimagötu), Georg Gíslason frá Eystra-Stakkagerði, Sigurður Jónsson, rafvirki og Bryngeir Torfason frá Búastöðum.