Blik 1974/Stofnaður iðnskóli í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974



Stofnaður iðnskóli í Vestmannaeyjum

(Sjá bréf til vinar míns og frænda).


Þegar minnzt var 50 ára afmælis kaupstaðaréttinda Vestmannaeyjabæjar sumarið 1969, var efnt til sögusýningar í mörgum og markverðum deildum. Eina af þessum deildum áttu iðnaðarmannasamtökin í kaupstaðnum. Í þessari deild var m.a. rakin saga Iðnskólans í Vestmannaeyjum, eftir því sem þeir, er að sýningunni stóðu, vissu sannasta og réttasta. Ekki varð annað ráðið af þeirri fræðslu, sem þar var veitt, en að iðnskóli hefði fyrst verið starfræktur í bænum nokkrum árum síðar en staðreyndir sanna og samþykktir stóðu til. Satt að segja féll mér ekki vel í geð þessi fávizka vestmanneyiskra iðnaðarmanna um sögu síns eigin skóla. Réði þar mestu um, að mér fannst hylmað þar yfir dálítinn kafla úr starfsævi minni. - Hver er sjálfum sér næstur.
Ég hóf kennslu í Iðnskóla Vestmannaeyja haustið 1930. Þá var skólinn sá stofnaður. Það var gert samkvæmt samþykktum og óskum skólanefndar gagnfræðaskólans í kaupstaðnum. Þá var Iðnskóli Vestmannaeyja sem sé stofnaður. Skólinn var þá starfræktur í fjóra mánuði, eða frá 1. okt. haustið 1930 til janúarloka 1931.
Svo höfðu skólamál þróast í þjóðfélaginu okkar, að árið 1930 samþykkti Alþingi lög um gagnfræðaskóla í nokkrum bæjum landsins: Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Reykjavík, Ísafirði og Akureyri.
Í 14. grein þessara laga voru þessi ákvæði: „Nú eru haldin námskeið við gagnfræðaskóla í bóklegum eða verklegum fræðum, eigi skemur en 2 mánuði og kennsla hvers nemanda 12 stundir á viku eða meira, og skal þá greiða úr ríkissjóði 6 krónur fyrir mánaðarkennslu hvers nemanda gegn 9 króna lágmarksframlagi úr bæjarsjóði. Nemendur greiði kennslugjald í hlutfalli við námstímann eftir ákvörðun skólanefndar.“
Þessi skólalöggjöf tók gildi vorið 1930.
Haustið 1930 samþykkti skólanefnd Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum að stofna til iðnskólavísis við skólann til þess að geta notfært sér og bæjarbúum í heild ákvæði gagnfræðaskólalaganna nýju um styrk úr ríkissjóði til námsskeiðsins samkvæmt framanskráðu.
Skóladeild þessi hlaut nafnið Iðnskóli Vestmannaeyja.
Skóladeild þessa setti ég 1. okt. 1930. Hún var síðan starfrækt í 4 mánuði, eða til janúarloka. Kennsla fór fram í barnaskólahúsinu á kvöldin kl. 7-9 dag hvern, laugardagskvöld sem önnur kvöld. Iðnmeistararnir gáfu ekki iðnnemunum kost á námstíma að deginum, heldur urðu iðnnemarnir að stunda bóklega námið í sínum eigin tómstundum.


Þessir voru iðnnemarnir fyrsta skólaárið:
1. Alfreð Sturluson, Hvassafelli, málaranemi.
2. Ágúst Guðmundsson, prentnemi.
3. Friðþjófur Matthíasson, Hásteinsvegi 24, málaranemi.
4. Gísli Pálsson, Lundi, málaranemi.
5. Guðjón Guðjónsson, Bifröst, rakaranemi.
6. Guðni Loftsson, Lögbergi, trésmíðanemi.
7. Leifur Loftsson, Lögbergi, málaranemi.
8. Ólafur Gränz, Heimagötu 20, trésmíðanemi.
9. Sigurður Jónsson, Garðstöðum, bakaranemi.
10. Steingrímur Sveinsson, Dal, járnsmíðanemi.
11. Þorsteinn Sigurðsson, Melstað, trésmíðanemi.

Námsgreinar voru þessar:
Rúm- og flatarteikn. 3 stundir á viku
Fríhendisteikning .... 2 — - —
Reikningur .............. 2 —- —
Íslenzka .................... 2 —- —
Danska ..................... 2 —- —
Bókfærsla ............... 2 —- —
Alls .........................12 stundir á viku.

Sigurður Finnbogason, vélfræðingur úr Reykjavík, kenndi rúm- og flatarteikningu. Fríhendisteikningu kenndi Engilbert Gíslason, listmálari. Arnbjörn Sigurgeirsson, barnaskólakennari, kenndi dönsku, reikning, og íslenku kenndi ég undirritaður.
Engin próf voru þreytt að loknu námskeiðinu.
Við enda þess beitti ég mér fyrir því, að iðnnemarnir stofnuðu með sér félagsskap: Iðnnemafélag Vestmannaeyja.
Að lokum hef ég bókað hjá mér þessi orð: „Iðnaðarmannafélag Vestmannaeyja stendur að þessum litla skólavísi. Eru þar ýmsir áhugasamir menn um eflingu og vöxt skólans. Heill sé þeim og öðrum, sem efla vilja gott og gagnlegt starf.“

Þ.Þ.V.





ctr


Mannfjöldinn hlýðir á ræðu forseta 4. júlí 1974.