Blik 1965/Sína í Vesturhúsum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



Sína á Vesturhúsum

Magnúsína Magnúsdóttir um áttrætt.


Hérna birtir Blik lesendum sínum mynd af háaldraðri konu, sem endur fyrir löngu var unglingsstúlka hér á Vesturhúsum og síðar löngu kunningjakona þess, sem þetta skrifar. Það var á Austfjörðum.
Við skulum bregða okkur eina öld aftur í tímann. Á Kirkjubæ í Vestmannaeyjum býr ekkjumaður, sem heitir Magnús Oddsson. Hann er dugnaðarmaður mikill, sem nýtur trausts og virðingar samborgara sinna. Hann er margt í senn, þessi maður, bóndi á Kirkjubæ, hafnsögumaður hér og skipstjóri, já, meira að segja á hann þilskip, sem hann gerir út á handfæri eða hákarl og stjórnar því sjálfur. Það er þilskipið Helga.
Magnús bóndi Oddsson unir illa skorti umhirðusamrar og notalegrar kvenhandar í heimili sínu á Kirkjubæ. Hann leitar því undir Fjöllin til þess að fá sér bústýru. Þar höfðu forfeður hans og náfrændur jafnan fundið beztan kvenkostinn, ekki aðeins til umhirðu og matargerðar. Engu síður til hlýju og ástafunda, þegar komið er heim frá volki og voða af söltum sæ.
Vorið 1861 flytur 30 ára gömul heimasæta úr Dalsókn til Eyja. Hún er ráðin bústýra hjá Magnúsi Oddssyni, skipstjóra að Kirkjubæ. Þessi hlýja og heimilislega heimasæta heitir Margrét Magnúsdóttir. Aðstandendur hennar voru nákunnugir Magnúsi Oddssyni.
Ekki hafði Margrét Magnúsdóttir lengi búsýslað á Kirkjubæ, er Magnús Oddsson fékk þá flugu í höfuðið, að víst gæti hann notið fleira hjá þessari bústýru sinni en hagra handa hennar, matargerðar og annarrar búsýslu utan veggja sem innan. Ekki þarf ég að orðlengja þetta. Manninn er aldrei lengi að bera að konunni, eins og við vitum öll, ef hún er tilkippileg á annað borð, og svo fór hér. Í sept. um haustið lýsti prestur til hjónabands með Magnúsi Oddssyni og yngismeynni Margréti Magnúsdóttur. Svo fór giftingin fram á tilsettum tíma 8. okt., og svaramennirnir voru vissulega engir slordónar, Bjarni E. Magnússon, sýslumaður, og Chr. factor Magnusen í Goodthaab. Þeir útaf fyrir sig gefa okkur hugmynd um, hver Magnús Oddsson, hafnsögumaður og skipstjóri á Kirkjubæ, í raun og veru var. En enginn veit, hvað framtíðin ber í fangi sínu og færir okkur. Enginn veit sín örlög, og það er gott.
Árin liðu. Í aprílmánuði 1867 sigldi þilskipið Helga út leiðina í Vestmannaeyjum. Og þó er þetta ekki satt. Þeir réru þilskipið út úr hinu þrönga hafnarmynni, höfðu það í togi áttærings, en síðan voru undin segl að hún og haldið á haf út.
Þegar þetta gerðist, hafði Margrét húsfreyja á Kirkjubæ hálfgengið með fyrsta barn þeirra hjóna.
Aprílmánuðurinn leið með vonzkuveðrum, já, stórviðrum á stundum, en allt var þó öruggara um mannslífin á þilskipi en á opnu fleytunum, — það hlaut svo að vera. — Mánuðir liðu og ekki kom þilskipið Helga að landi. Blíðuveður hin mestu höfðu verið, síðan aprílmánuði lauk. — Sorg, vonleysi, örvænting. Séra Brynjólfur Jónsson hafði oft vitjað heimilis Magnúsar Oddssonar að Kirkjubæ, eftir að sá grunur greip um sig, að slys hefði átt sér stað og þilskipið Helga ætti ekki eftir að koma aftur að landi.
Í júlímánuði um sumarið hafði presturinn sjálfur misst alla von um endurfundi hans og þeirra manna, sem á þilskipinu voru, 6 kunnir Eyjabúar. Þá skráði prestur slysið í bækur kirkjunnar og ályktaði, að það mundi hafa átt sér stað í í illviðrunum í aprílmánuði.
Margrét Magnúsdóttir, húsfreyja á Kirkjubæ, var orðin ekkja. Hún var þá 38 ára.
29. ágúst fæddi hún barnið, sem hún gekk með. Það var stúlkubarn og varð heitið eftir föður sínum, skírt Magnúsína.
Margrét húsfreyja reyndi að halda jörðinni og búa eftir að hún varð ekkja. Fyrsta árið hélt hún vinnumann. Annað árið gekk búskapurinn á tréfótum, þar sem stopul var hjálp á karlhönd og björg þurfti að rækja í sjó og fjöll, því að enginn dró fram lífið í Eyjum á búskapnum einum.
Vorið 1869 eða tveim árum eftir að hún varð ekkja, sleppti hún jörðinni, en hana fengu þá til ábúðar hjón austan úr Öræfum, Árni Þórarinsson og Steinunn Oddsdóttir, afi og amma þeirra Johnsensbræðra í móðurkyn. Margrét flutti með litlu stúlkuna sína í tómthúsið Sjólyst. Þar dvaldist hún til ársins 1873. Þá flutti hún að Löndum. Fyrstu árin þar var hún „sjálfrar sín“ eins og það var kallað, en seinustu árin, sem hún var starfandi, var hún „húskona“ í skjóli þeirra, sem fengu inni í tómthúsparti þeim, er hún hafði haft þar, meðan hún var sjálfra sín. Margrét Magnúsdóttir lézt 19. júlí árið 1900.
Magnúsína Magnúsdóttir dvaldist með móður sinni til ársins 1880. Þá var hún á 14. ári. Þá tók hreppurinn hana á framfærslu sína, enda hætti þá Margrét móðir hennar að hokra á eigin spýtur, farin að heilsu og mædd af andstreymi lífsins í fátækt og basli.
Lánið var hinsvegar með Magnúsínu litlu Magnúsdóttur, þrettán ára hnátunni. Hún fékk dvalarstað á einu myndarlegasta heimili Eyjanna, að Vesturhúsum hjá hjónunum Guðmundi Þórarinssyni og Guðrúnu Erlendsdóttur. Þarna var hún „Sína á Vesturhúsum“, eins og hún heitir í gömlum bréfum.
Hjá þessum merku hjónum fermdist hún árið eftir. Þegar hún var 15 ára, skyldi hún tefla á eigin spýtur, sjá fyrir sér sjálf. Þá gerðist hún vetrarstúlka í Dölum, hjá ungum hjónum þar, Þorsteini Péturssyni og Ástrós Sigurðardóttur, sem þá hófu búskap á annarri Dalajörðinni.
Það var árið 1883. Eftir þann vetur var hún vinnukona á ýmsum heimilum í Eyjum og þótti jafnan liðtæk vel og dugleg, eins og hún átti kyn til.
Um tíma var Magnúsína vinnukona í Garðinum og síðan nokkur ár hjá frú Sigríði Árnadóttur í Frydendal. Á þeim árum kynntist hún manni að nafni Tómas Ólafsson, sjómaður hér á vertíðum, en annars frá Leirum undir Eyjafjöllum. Með þessum manni átti Magnúsína barn. Það er hinn kunni sjómaður hér, Magnús Tómasson, Hrafnabjörgum hér í bæ. Hann er fæddur 10. september 1896.
Margskonar erfiðleikar steðjuðu nú að Magnúsínu Magnúsdóttur. Um hjónaband varð ekki að ræða milli hennar og Tómasar, barnsföðurins. En drottinn leggur jafnan líkn með þraut. Það eru vissulega spekiorð íslenzkrar alþýðu grundvölluð á reynslu kynslóðanna um aldir. Húsmóðir hennar, frú Sigríður í Frydendal, reyndist henni nú sérstaklega vel í vonbrigðum og raunum hennar, já, eins og skilningsrík og ástúðleg móðir.
Vorið 1896 afréð Magnúsína að leita sér atvinnu á Austfjörðum þrátt fyrir það, að hún fór ekki ein saman. Þar dvaldist hún síðan frameftir sumri en fór suður aftur síðari hluta ágústmánaðar og ól barn sitt fyrri hluta septembermánaðar, eins og á er drepið. Húsmóðir hennar beitti nú myndugleik sínum og áhrifaaðstöðu og útvegaði barni því, er Magnúsína ól, varanlegt fóstur með samþykki móðurinnar, sem engar hafði aðstæður til að hafa barnið hjá sér eða ala það upp. Barninu var komið fyrir hjá hinum kunnu gæðahjónum í Gerði, Jóni Jónssyni og Guðbjörgu Björnsdóttur. Þangað var Magnús Tómasson fluttur þriggja vikna gamall og þar ólst hann upp.
Sumarið eftir (1897) hittum við Magnúsínu aftur í kaupavinnu á Austfjörðum, og nú á Seyðisfirði.
Eftir þessa dvöl hennar hjá fjölskyldunni í Frydendal, hélzt um tugi ára góðvildarsamband milli sumra barna frú Sigríðar og Magnúsínu. Þau töldu sig eiga henni gott upp að inna, síðan hún vann hjá móður þeirra og gætti barna hennar eða annaðist þau. Þannig komst ég eitt sinn að því af tilviljun, að Gísli J. Johnsen sendi Magnúsínu dálitla peningaupphæð árlega, eftir að skyggja tók í álinn fyrir henni á Austfjörðum og ástvinamissir og fátækt steðjuðu að henni. Ég vona, að G.J.J. afsaki það, þó að ég geti þessarar staðreyndar hér án leyfis.
Fyrir aldamótin giftist Magnúsína Jóni Jónssyni úr Mjóafirði. Þau hjón eignuðust þrjú börn. Eitt þeirra misstu þau þegar eftir fæðingu, tvíbura, stúlkubarn.
Eftir fá hjónabandsár missti Magnúsína Jón mann sinn. Hann drukknaði af árabáti með Jóni Konráðssyni kaupm. Hjálmarssonar.

Synir Magnúsínu, Jóhann (t.v.) og Hermann Viktor.

ctr

Oktovía Björnsdóttir
á bernskuskeiði.

Í fátækt sinni og umkomuleysi hafði ekkjan tveim sonum þeirra fyrir að sjá, Hermanni Viktor og Jóhanni. Meðan þeir voru ungir og að vaxa úr grasi sótti Magnúsína stundum atvinnu á vertíðum hingað til Vestmannaeyja og naut þá oft góðvildar og fórnarvilja fólks hér henni til stuðnings og hjálpar.
Ekki liðu mörg ár. Þá missti hún Jóhann son sinn, svo að hún átti aðeins Hermann einan eftir. Eftir Hermanni Jónssyni man ég glögglega. Hann var mikill efnismaður og sjómaður, svo að orð fór af. Hann kvæntist fyrir austan.
Einnig honum varð Magnúsína að sjá á bak. Hann drukknaði 1934. Þá var Magnúsína 67 ára. Einn þáttur í ævi hennar er ósagður enn. — Ekki löngu eftir að hún missti Jón mann sinn, giftist hún aftur. Síðari maður hennar hét Björn Ásmundsson, Norðlendingur. Með honum eignaðist hún tvö börn, dreng og stúlku. Sveinninn dó nýfæddur en stúlkan lifir, Oktavía Björnsdóttir yngisstúlka í Neskaupstað. Hún er fædd 31. okt. 1905. Þau Björn og Magnúsína skildu samvistum.
Níu síðustu árin, sem Magnúsína lifði, dvaldist hún á Elliheimilinu í Neskaupstað. Hún andaðist þar 9. ágúst 1953, 86 ára gömul.
„Og brýr og kinnar voru sem bókfell margra alda“, en sálin var hlý þrátt fyrir allt, sem á dagana hafði drifið, þótt sálarlífið væri jafnan sem blæðandi und. Því olli sífelldar sorgir og margháttað annað andstreymi á langri ævi. Þá kviku tilfinninganna megnaði tíminn aldrei að græða.
Blessuð sé minning gömlu konunnar.

Þ.Þ.V.