Blik 1957/Stakkagerðisvöllurinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1957



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON, skólastjóri:


Stakkagerðisvöllurinn



Til hægri á myndinni er íbúðarhúsið Eystra-Stakkagerði, sem þau hjónin Gísli og Jóhanna byggðu sumarið 1899. Meðan á byggingu stóð, bjuggu þau með börn sín í goodtemplarahúsinu, sem sést á myndinni lengst til hægri (einn gluggi sést á húsinu og dyr á vesturstafni). Til vinstri á myndinni er bærinn Borg, (rifinn 1925), hin eiginlegu jarðarhús á Vestra-Stakkagerði.
Frá vinstri: Smiðja. Undir þessari burst voru einnig bæjardyrnar, og sjást útidyr á myndinni.
Miðburstin er yfir baðstofunni.
Lengst til hægri er hjallur. Á myndinni sjást norður af Borg íbúðarhúsin Sandprýði (t.v.) og Garðar. Þau voru einhver fyrstu húsin, sem byggð voru í „Þykkva bænum“ suðaustast í Nýjatúni, í krikanum milli Bárugötu og Vestmannabrautar.



Með því að meginið af túnum Stakkagerðisjarðanna hefur hlotið þau örlög að verða samkomustaður Eyjabúa við viss hátíðleg tækifæri og þess utan leikvangur yngstu kynslóðarinnar í bænum, þykir hlýða að birta hér nokkur drög úr sögu Stakkagerðisvallarins síðustu hundrað árin. — Völlur voru jafnan tvær jarðir nefndar, bæru þær sama nafn. —
Vorið 1859 fékk Landeyingur nokkur byggingu fyrir jörðinni Eystra-Stakkagerði. Sá hét Árni Diðriksson. Árni þessi varð síðan einn af mestu athafnamönnum hér í Eyjum á sinni tíð, mikill dugnaðar- og merkismaður, sem sat vel jörð sína, meðan kraftar entust, og gerði garðinn frægan af athöfnum sínum og störfum. Árni Diðriksson bóndi í Stakkagerði var hreppstjóri hér og meðhjálpari um árabil. Hann var útgerðarmaður og formaður og fengsæll í bezta lagi. Um Árna Diðriksson er þetta kveðið í formannavísum:

Happadrjúgur hreppstjórinn,
hölda meður frækinn,
síðastur og sökkhlaðinn
syndir Árni í Lækinn.

Árni Diðriksson var slyngur fjallamaður og bjargveiðimaður ágætur. Hann notaði hér fyrstur manna háf við lundaveiðar. Það var sumarið 1875. J.P.T. Bryde kaupmaður útvegaði Árna háfinn frá Færeyjum.
Engu veiðitæki virtist Árni bóndi þó unna jafn mikið og byssunni sinni eða réttara sagt byssunum sínum, því að hann átti margar byssur ýmissa tegunda. Var það honum metnaðarmál að fága þær og fægja og hirða vel, enda var hann hirðumaður mikill í öllum búskap sínum og atvinnurekstri. Árni var skytta með afbrigðum. Hann gekk oft og iðulega meðfram strönd Heimaeyjar með byssu sína og aflaði sér búsílags. Var það bæði fuglakjöt og selkjöt.
Árni bóndi Diðriksson var maður skapfastur og traustur, virðulegur í framkomu og höfðingi í lund, þegar því var að skipta. Hann var mikill maður að vallarsýn og höfðinglegur álitum, harður á brún og einbeittur og lítt við hvers manns hæfi, en áreiðanlegur og hjálplegur, ef til hans var leitað, og orðheldinn í hvívetna.
Strákum hér í Eyjum stóð stuggur af hreppstjóranum í Stakkagerði og óttuðust hann.
Bóndi þessi svaf eigi í herbergi með konu sinni, þó að hjónalífið væri ástríkt og traust, heldur hafði hann sitt svefnherbergi niðri í Stakkagerðisbænum og hafði þar hjá sér hinar gljáfægðu byssur sínar og skotfæri. Torsótt var það gestum og gangandi að fá að koma þangað inn, ekki sízt strákum, þó að fáir þráðu heitar að fá að sjá „allar byssurnar hans Árna í Stakkagerði“ en einmitt þeir.
Árni Diðriksson var maður fáskiptinn og óáleitinn. Þótti hann oft knappur í svörum og kleip þá sjaldnast utan úr þeim.
Einhverju sinni arkaði ungur maður, sem þóttist eiga töluvert undir sér, á fund Árna bónda og leitaði samþykkis hans um ráðahag við Jóhönnu einkadóttur þeirra Stakkagerðishjóna. ,,Fyrr skal af mér hausinn,“ svaraði bóndi. Fleiri orð ekki sögð. Málið var útkljáð.
Á tímum Herfylkingarinnar var Árni bóndi Diðriksson foringi fyrir 2. flokki hennar.
Hannes Jónsson, síðar hafnsögumaður, hóf sjómennsku sína 13 ára á opna skipinu Gideon (byggt 1836) undir stjórn Árna Diðrikssonar. Þegar Hannes var 18 ára, fól Árni honum skipið. Hannes var síðan formaður með Gideon í 30 vertíðir, og var Árni sameignarmaður hans um skipið, meðan hann lifði.
Árni bóndi Diðriksson fæddist í Hólminum í Landeyjum 18. júlí 1830. Ólst hann þar upp til 18 ára aldurs, en árið 1848 fluttist hann hingað til Vestmannaeyja. Faðir hans var Diðrik bóndi í Hólminum í Landeyjum Jónssonar bónda í Gaularáshjáleigu Diðrikssonar. Móðir Árna bónda var Sigríður Árnadóttir frá Voðmúlast., (f. 1798, Hafliðasonar og k.h. Ingveldar Þorsteinsdóttur. Heimild um þessa ættartölu er frá Árna Árnasyni símritara). Kona Árna bónda Diðrikssonar var Ásdís Jónsdóttir, og var hann seinni maður hennar.
Ásdís húsfreyja í Stakkagerði var komin af Austurlandi, fædd í Núpshjáleigu í Berunessókn árið 1816, dóttir Jóns bónda yngra í Núpshjáleigu (f. 1789) Jónssonar bónda og hreppstjóra í Gautavík (f. 1749) Jónssonar. Móðir Ásdísar og kona Jóns yngra var Þórdís dóttir Einars á Teigarhorni Þorbjarnarsonar. (Heimild: Árni Árnason símritari).
Fyrri maður Ásdísar húsfreyju var Anders Asmundsen, norskur skipstjóri, frá Arendal. Þegar Ásdís var ung stúlka í heimasveit sinni, Berufirði, var hún um tíma í vist í Papey. Þangað kom þessi gjörvilegi norski skipstjóri á skútu sinni, en hann stundaði veiðar á henni fyrir Austurlandi. Norski skipstjórinn varð hugfanginn af þessari austfirzku bóndadóttur, og felldu þau hugi saman. Þau fluttust síðan hingað til Eyja og settust hér að. Anders skipstjóri stundaði héðan sjó á skútu sinni. Hún fórst með allri áhöfn árið 1851, nálægt Reykjanesi, að talið var.
Eitt örnefni hér er kennt við hinn norska skipstjóra, það er Anesarvikið. Það var sandvik nokkurt, er lá upp með Tangaklöppunum eða Bratta austanverðum suður undir Litlabæ. Sjór fyllti þetta sandvik um flæði. Þá gat það orðið hættulegt t.d. börnum. Munnmæli herma, að Asmundsen skipstjóri hafi eitt sinn bjargað barni, sem var að drukkna í vikinu, og hafi vik þetta síðan verið við hann kennt. (Andersarvik verður Anesarvik).
Hin ungu hjón, Ásdís og Anders leigðu sér húsnæði niður við höfnina fyrstu búskaparárin sín hér í Eyjum, en fengu síðan byggingu fyrir Eystri-Stakkagerðisjörðinni. Þar bjuggu þau, þegar hann fórst.
Svo sem venja hefur verið hér frá ómunatíð, hélt ekkjan jörðinni eftir fráfall manns síns fyrst hún æskti þess. Ásdís húsfreyja hélt því áfram að búa á Eystra-Stakkagerði eftir sjóslysið. Þau hjón, Ásdís og Anders, áttu þrjár dætur barna. María var elzt, f. 1839. Hún giftist Gísla Jóhannssyni Bjarnasen verzlunarstj. Þau hjón fóru til Danmerkur 1883 ásamt 6 börnum. Frú María dó þar 1916.
Önnur dóttir Ásdísar og Anders hét Tomína. Mun hún hafa fæðzt 1842 eða '43. Fór til Danmerkur og giftist þar.
Yngsta dóttirin hét Soffía Lisebet f. 8. okt. 1847, að Hlíðarhúsum hér í Eyjum. Hún kemur við sögu hér í Eyjum með því, að fjöldi afkomenda hennar er hér búsettur. (Sjá mynd á bls. 119, (Innskot: Fjölsk. Gísla Stefánssonar hér í ritinu).
Hinn ungi Landeyingur, Árni Diðriksson, réðist til Ásdísar Jónsdóttur ekkju í Stakkagerði eftir slysið 1851 og gerðist „fyrirvinna“ hennar. Með tímanum varð hann ástfanginn af húsmóður sinni, þó að hún væri 14 árum eldri en hann. Hún þekktist einnig hinn unga röskleikamann, og þau giftust 8. október 1858.
Ásdís Jónsdóttir húsfreyja var hin mesta myndarkona í hvívetna, ráðsett og skýr, og orðlögð fyrir mannlund og gæði; sérstaklega barngóð. Hún var lág kona vexti, frekar þrekin, og bar hún með sér gæðin og mildina, hvar sem hún fór.
Þau hjón Árni og Ásdís, bjuggu saman á Eystra-Stakkagerði í 33 ár, eða þar til Ásdís dó 1892, 21. nóv.
Árni Diðriksson hrapaði til dauðs í Stórhöfða 28. júní 1903. Gekk hann þar í Höfðanum einn síns liðs við að safna æðardún. Hann hrapaði úr svonefndri Rauf norðan í Höfðanum. Líkið fannst á litlu dýpi eilítið skaddað, svo að óvíst var, hvort hann hefði dáið í fallinu eða drukknað.
Einkabarn þeirra hjóna var Jóhanna Sigríður (f. 11. nóv. 1861), er giftist Gísla Lárussyni gull- og silfursmið frá Búastöðum.
Einn af vinnumönnum þeirra Árna og Ásdísar orti þessa vísu um einkadótturina, er hún var lítil stúlka:

Ein fögur faldananna,
sem fríðust allra þykir svanna,
hennar heiti er Jóhanna,
og hefur brúðu í keltu sér.
Yndi er að fá að finna hana
og hafa undir vanga sér.
Hjónin Gísli Lárusson og Jóhanna Árnadóttir með tvö börn sín Árna og Theódóru (d. 1920).

Árið eftir að Ásdís húsfreyja lézt, fengu hjónin, Gísli og Jóhanna, byggingu fyrir Eystra-Stakkagerði og dvaldist svo Árni faðir Jóhönnu hjá dóttur sinni og tengdasyni til dauðadags.
Þegar Árni Diðriksson fékk byggingu fyrir Eystra-Stakkagerði, var húsakostur þar sem hér segir svo og aðrar fylgi eignir samkvæmt Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen:

1. Baðstofa, 12 al. (7,8 m) á lengd og 3 1/4 al. (2 m) á breidd.
2. Bæjargöng, 3 1/4 al. (2 m) á lengd og 1 1/4 al. (78 cm) á breidd.
3. Húsagarður, 5 faðma (9.4 m) langur.
4. Túngarður 180 faðm. (339 m) langur.
5. Fiskigarður.
6. Kró í Skipasundi.
7. Byrgi í Fiskhellum.

Þau hjónin, Gísli og Jóhanna, fengu byggingu fyrir Eystra-Stakkagerði (1893), var húsakostur þar sem hér segir, svo og aðrar fylgieignir jarðarinnar:

1. Baðstofuhús undir meðfylgjandi lofti allt þiljað innan 6 1/2 al. (4,1 m) á lengd, 5 1/4 al. (3,2 m) á vídd og 3 áln. og 9 þuml. (2,1 m) undir loft. Álízt í góðu standi.
2. Eldhús, 6 áln. (3,8 m) langt, 3 1/2 al. (2.2 m) á vídd með 4 sperrum og meðfylgjandi bitum og stöfum, 3 langböndum á hvorri hlið, er lélegt að veggjum og viðum.
3. Bæjardyr, 8 álnir (5 m) á lengd, 1 1/2 (95 cm) al. á vídd með fjalagólfi, þiljaðar innan; eru í góðu standi.
4. Heytóft, sem rúmar hér um bil eitt kýrfóður; er fallið að nokkru leyti.
5. Fiskhús í Skipasundi, 8 ál. (5 m) á lengd, 4 ál. (2,5) á vídd, veggir og gaflar úr tré, járnþak öðru megin, tré-papp-klætt hinu megin. Hús þetta, sem er hátt jarðarhús, er í ágætu standi.
6. Fiskverkunarpláss, sem tekur 800—900 af þorski.
7. Kálgarðar nyrzt í túninu, 280 ferfaðmar (993 ferm), girtir með grjóti á allar hliðar að undanskildum 18 föðmum, sem trégrindur eru í. Kálgarðar heima við bæinn eru 220 ferfm. (780 ferm) að stærð, girtir með grjóti, torfi og trégrindum; — í standi.
8. Túngarður, 180 faðmar (339 m) á lengd, að mestu úr grjóti. Þarf endurbóta á nokkrum stöðum.
Túnið í órækt sökum áburðarskorts. Landskuld (eftirgjald) 72,5 meðalálnir.

Þegar Gísli og Jóhanna höfðu búið 6 ár í gamla bænum á Eystra-Stakkagerði, hófu þau byggingu íbúðarhúss á jörðinni. Rifu þau þá gamla bæinn og byggðu húsið á bæjarstæðinu. Meðan á byggingunni stóð, sumarið 1899, bjuggu þau hjón með börn sín í Goodtemplarahúsinu, sem stóð á Mylnuhól, þar sem Samkomuhús Vestmannaeyja stendur nú.
Enn sést móta fyrir túngörðum þeim, sem um getur í 8. lið, bæði sunnan við Sjúkrahúsið og norðan akbrautarinnar heim að því, austan við Eystra-Stakkagerðishúsið (sjá mynd á bls. 111), (Innskot: Hér efst á síðu). Nyrst í landareign Eystra-Stakkagerðis standa nú þessi hús m.a.: Póst- og landsímastöðin, gamla sjúkrahúsið (áður kallað Franski spítalinn, nú nr. 20 við Kirkjuveg); Lyfjabúðin, Samkomuhús Vestmannaeyja, Heilsuverndarstöðin (Arnardrangur) og Sjúkrahús Vestmannaeyja, sem byggt var í miðju túni jarðarinnar og afhent Vestmannaeyjakaupstað fullbyggt árið 1927 af byggjandanum Gísla J. Johnsen, konsúl.


Bærinn á Eystra-Stakkagerðisjörðinni, sem hjónin Gísli Lárusson og Jóhanna Árnadóttir Diðrikssonar tóku við af Árna bónda Diðrikssyni 1893. (Sjá úttekt hér á eftir). Frá vinstri: Fjós, stofa, uppi yfir stofunni, á lofti, voru 3 herbergi. Nyrzt var svefnherbergi Ásdísar húsfreyju og Jóhönnu dóttur hennar, meðan hún var að alast upp, með glugga gegn norðri, (sjá kaflann um Árna bónda í greininni um Stakkagerðisjarðirnar). Þá herbergi vinnumanna og í suðurherbergi, er við sjáum gluggann á, bjuggu tvær gamlar konur, sem voru á heimili Árna og Ásdísar um langt skeið. Önnur konan var móðir Árna bónda, Sigríður, sem mun hafa dáið um 1896 og þá rúmlega hálf tíræð að aldri. — Fjórða burstin eru bæjardyrnar. Þar voru yfir á lofti íbúðarherbergi. Þar sváfu aðkomumenn á vertíðum. — Fimmta burstin er skemma. Þar var einnig svefnloft. Sváfu þar oft sjómenn, er réru á Gideon, hinu opna skipi Árna bónda.







Á styrjaldarárunum (1939—1945) voru grafnir skurðir á dálitlu svæði á túni Vestra-Stakkagerðis í námunda við leikvöll barnanna. Skyldu börnin bjarga sér í skurði þessa ef loftárás bæri að höndum skyndilega. Umhverfis skurðina var sett girðing til þess að hindra, að fólk dytti í þá, þegar skuggsýnt var.




Vorið 1865 tekur hinn góðkunni sýslumaður Vestmannaeyja, Bjarni E. Magnússon, til ábúðar „vesturjörð Stakkagerðis með öllum þeim réttindum og ítökum. Eftirgjald: 3 vættir og 20 fiskar. Feiti engin,“ eins og segir í Úttektarbók.

Jarðarhús:
1. Eldhús, 6 ál. (3,80 m) á lengd og 3 áln. (1,9 m) á breidd, stæðilegt að veggjum og viðum.
2. Framhús, 4 áln. (2,5 m) á lengd, 3 1/2 al. (2,2 m) á breidd. Frá því liggur gangur inn í eldhúsið. Stæðilegt að veggjum og viðum.
3. Smiðja, lengd 5 1/2 al. (3,4 m), breidd 3 áln. (1,9 m). Í bærilegu standi. Þessi smiðja var rifin 1867.
4. Skemma, 6 áln. löng, 3 áln. á breidd með timburþaki og timburþili. Sýslumaðurinn B.E.M. byggði skemmu þessa, og fylgir hún þess vegna ekki jörðinni.
5. Heygarður, 6 áln. á lengd, 4 áln. á breidd. Stæðilegur.
6. Túngarður, 130 faðma (245 m) langur; þar af 50 faðmar í slæmu standi.
7. Byrgi í Fiskhellum í standi.

Vorið 1869 er Jóni Salómonsen verzlunarstjóra byggð Vestri-Stakkagerðisjörðin frá 14. maí næsta ár (1870). Þeir Jón verzl.stjóri og Bjarni sýslumaður höfðu þá skipti á jörðum með leyfi stiptyfirvaldanna. Flutti sýslumaður á þá Vilborgarstaðajörðina, er Jón Salomonsen hafði búið á.
Þá var jörðin Vestra-Stakkagerði talin fóðra eina kú og einn hest, hafa hagagöngu handa 12 sauðum á Heimalandi og 10 sauða beit í Álsey; fuglatekju í báðum þessum stöðum og í Súlnaskeri móts við aðra sameigendur. Landsskuldin var 140 fiskar á ári, sem gjaldast skyldu í peningum í fardögum ár hvert eftir verði á hörðum fiski samkvæmt gildandi verðlagsskrá hverju sinni.
Haustið 1869, 15. nóv., fór fram úttekt á jörðinni vegna ábúendaskiptanna næsta vor, 1870. Voru þá fylgieignir jarðarinnar sem hér segir:

l. Bæjardyr, 3 ½ al. á lengd, 3 áln. á breidd. Stæðileg.
2. Eldhús, 7 áln. langt og 3 áln. á breidd. Hlaupinn veggur.
3. Kálgarður, 35 ferfaðmar (124 m²).
4. Túngarður, 133 faðma (250 m) langur; þar af 8 faðmar bilaðir.

Kona Jóns Jónssonar Salómonsen verzlunarstjóra var Jórunn Jónsdóttir prests Austmann.
Eftir dauða Jóns Salómonsen hélt Jórunn jörðinni samkvæmt fornri venju. Hún giftist síðan Engilbert Engilbertssyni verzlunarmanni við Tangaverzlun. Þau hjón bjuggu í Jómsborg en nytjuðu framvegis Vestri-Stakkagerðisjörðina.
Jórunn lifði báða menn sína. Hún hélt jörðinni til ársins 1899. Fengu þá hjónin Gísli og Jóhanna líka byggingu fyrir þeirri jörð og höfðu nú byggingu fyrir öllum Stakkagerðisvellinum.
Landskuld skyldi vera hin sama og á eystri jörðinni, 72 1/2 alin.
Gerðist nú Gísli gullsmiður hinn mesti athafnamaður. Með búskap sínum og handverki rak hann útgerð, vann að menningarmálum, svo sem örnefnasöfnun, var forustumaður í bindindismálum Eyjabúa, studdi íþróttamál og önnur félagsmál unga fólksins o.fl. Frú Jóhanna gegndi forustuhlutverki í félagssamtökum kvenna hér og var hin mesta myndarkona, hjálpleg og hjartahlý.
Úttekt Vestur-Stakkagerðisjarðarinnar 1899 er svo hljóðandi og mun vera lýsing á Borg, en svo voru gömlu bæjarhúsin á jörð þessari nefnd. (Sjá mynd á bls. 111).

1. Baðstofa með grjótveggjum, grjótgafli og torfþaki, 5 álna (3,15 m) löng og 4 álna (2,5 m) breið. Að sunnan er stutt þil með 4 rúðu glugga. Í húsinu eru 4 sperrur, 2 bitar, 8 stafir tveggja álna háir, tvö móleður*, skarsúð að nokkru leyti ný í hvorri hlið. Suðurgafl er þiljaður að innan og veggir að hálfu leyti. Fyrir göngum er hurð á járnum. Með því að veggjaþiljur og 2 rúmstokkar, er fráfarandi á, fylgir fyrir fyrningu álízt húsið í þolanlegu standi.
2. Bæjardyrahús með grjótveggjum, grjótgafli og gangdyrum á járnum. Á hvorri hlið eru 2 langbönd og raftar undir torfi, 2 móleður, 6 stafir 2 álnir og 10 þumlungar á hæð, 2 bitar, hálf þil að sunnan og hurð á járnum með læsingu í fyrir dyrum. Húsið, sem jörðinni fylgir, er 3 1/2 alin á lengd og 3 1/2 alin á breidd. Það álízt í bærilegu standi.
3. Kálgarður er sunnan við jarðarhúsin 64x33 ferfaðmar að flatarmáli. Kringum hann er torfgarður 16 faðm. á lengd, 1 1/2 al. á hæð, og grjótgarður, 13 faðmar á lengd og 2 álnir á hæð. Torfgarðurinn er að miklu leyti fallinn.
4. Kálgarður norðan við túngarðinn, 26 ferfaðmar að stærð, en umgirtur með túngarðinum og þurrabúðargörðum.
5. Túngarður, 130 faðmar (245 m) á lengd, 3—4 fet (94—125 cm) á hæð, þar af 65 faðmar af grjóti í ytri hleðslu, allt annað af torfi.
Af torfgarðinum eru 26 faðmar meira og minna ónýtt og af grjótgarðinum 10 faðmar að nokkru leyti fallnir.
6. Túnið, að mestu leyti slétt af náttúrunnar völdum, en í órækt, og á það vantar allan áburð, en áburður enginn til á jörðinni**.
* Móleður er syllan nefnd, þar sem súð baðstofunnar og veggur mœtast, lausholt, staflægja.
** Þar sem ekki er annars getið, er heimild mín um stærð jarðarhúsa og aðrar fylgieignr jarðanna Úttektabók umboðsins hér í Vestmannaeyjum. Ég hefi breytt álnum og föðmum í metra og sett í sviga til þess að athugull lesandi geti fremur gert sér grein fyrir stærðum húsa og kálgarða og lengd túngarða. Þ.Þ.V.

Sameignarmennirnir Gísli Lárusson gullsmiður (t.v.) og Bernótus Sigurðsson skipstjóri.

Þannig var þá um jörðina, þegar Gísli Lárusson gullsmiður fékk byggingu fyrir henni 1899.
Það mun verið hafa árið 1906 að hingað til Eyja flutti maður að nafni Bernótus Sigurðsson. Hann var frá Kirkjulandshjáleigu í Landeyjum. Giftur var hann Jóhönnu Þórðardóttur, systur Ágústs Þórðarsonar yfirfiskimatsmanns að Aðalbóli hér og þeirra systkina. Brátt eftir að Bernótus Sigurðsson settist hér að, gerðist hann sameignarmaður Gísla Lárussonar um útgerð. Áttu þeir fyrst saman með fleirum vélbátinn Björgvin. Síðan létu þeir Gísli og Bernótus byggja sér vélbát, sem þeir nefndu . Hann fórst árið 1920. Bernótus var formaður á bátnum og fórst með honum. Árið 1910 lét Gísli Lárusson Bernótusi sameignarmanni sínum eftir nytjar af Vestur-Stakkagerðisjörðinni. Bernótus byggði íbúðarhús í túni jarðarinnar. Það er húseignin Vestra-Stakkagerði gegnt Alþýðuhúsinu. Eftir slysið, er v/b Már fórst, vildi Jóhanna Þórðardóttir, ekkja Bernótusar, segja jörðinni lausri. En Ágúst bróðir hennar og næsti nágranni, taldi það óráð fyrir hana. Bauðst hann til þess að hjálpa henni að nytja jörðina. Það varð úr.
Jóhanna Þórðardóttir dó árið 1923. Þá fékk Ágúst bróðir hennar afnot jarðarinnar, enda þótt hann fengi ekki byggingu fyrir henni. Ágúst nytjaði síðan jörðina árin 1923—1934. Þá var honum tilkynnt, að hann fengi ekki afnot hennar lengur.
Bærinn Borg, gömlu jarðarhúsin, stóðu í suðurhluta túnsins, en suðurmörk þess voru sem næst sanni Hvítingavegurinn.
Vesturmörkin eru við garðana austanvert við húsin með Skólaveginum. Kirkjuvegurinn fylgir hinsvegar austurmörkum eystri jarðarinnar. Þar lá gatan upp að Landakirkju og niður í Sand. Kirkjuvegurinn var lagður í bugðu eftir túnjaðrinum.
Gísli Lárusson „setti út“ túnið sunnan við túngarðinn suður af Sjúkrahúsinu suður undir Hvítingaveginn.
Enn sést móta fyrir hleðslunni í norðurgaflhlaði Borgar austan við húseignina Aðalból.
Um margra ára skeið bjó Guðmundur Ögmundsson járnsmiður í Borgarbænum. Hann var faðir Ástgeirs bátasmiðs í Litlabæ. Guðmundur var hagleiksmaður mikill og hafði smiðju sína þarna í Borg. Hann smíðaði fiskiöngla, sem þóttu sérlega veiðnir og voru frægir og eftirsóttir („önglarnir hans Guðmundar í Borg“), skeifur, bátanagla, brennimörk o.fl. Var hann sem næst karlægur í Borg síðustu árin.
Eftir að Guðmundur Ögmundsson dó, fékk gömul kona, húsnæðislaus, Anna Benónýsdóttir að nafni, leyfi Ágústs Þórðarsonar til þess að búa í Borg. Flutti hún þaðan í Sjúkrahúsið og dó þar. Þá reif Ágúst Þórðarson Borg. Það var árið 1925.
Húseignin Kaupangur er byggð nyrzt í túnjaðri Vestra-Stakkagerðis eða í kálgarði þar við jaðar túnsins. Svo er og um fangahúsið og brunastöðina.
Sumarið 1926 tók Sjúkrahús Vestmannaeyja, sem þá var í smíðum, við Vestra-Stakkagerðisjörðinni og nytjum hennar, enda þótt Ágúst Þórðarson nytjaði túnið til ársins 1934 eins og fyrr segir. Engin jarðarhús fylgdu þá jörðinni. Túnið var þá talið hafa orðið fyrir skemmdum, sem stafaði af byggingu fangahússins og brunastöðvarinnar.
Jóhanna Árnadóttir húsfreyja í Eystra-Stakkagerði dó árið 1932, en Gísli maður hennar 27. sept. 1935.
Vorið eftir dauða hans var jörðin tekin út. Í úttektarskránni stendur skrifað: „Þar sem Sjúkrahúsið stendur í miðju túni jarðarinnar, kalla úttektarmenn norðurtún og suðurtún.“
Norðurtúnið er þá talið vera 5.230 m² að stærð. Suðurtúnið 4.144 m², alls 9.374 m² eða tæpur 1 ha. Jarðarhús talin engin. Kálgarðar tveir, 500 m² og 210 m².
Hafði þá Sjúkrahús Vestmannaeyja, eða eigandi þess, kaupstaðurinn, hlotið afnot beggja Stakkagerðisjarðanna.
Nokkru síðar var ymprað á þeirri hugmynd, að norðurhluti V.-Stakkagerðistúnsins yrði gerður að barnaleikvelli. Sú hugsjón rættist brátt. Síðan lýðveldið var stofnað, hafa Vestmannaeyingar efnt til hátíðarhalda á túnbletti þessum og minnzt þar fullveldisins. Á undanförnum árum hefir sjómannastéttin í bænum efnt þar til hátíðar á sjómannadaginn og minnzt þar starfs síns og lífs.
Sigurður Bogason bókari keypti íbúðarhúsið á Eystra-Stakkagerðisjörðinni árið 1940 og býr þar enn með konu sinni. Þau hafa hins vegar aldrei haft nein afnot jarðarinnar.