Blik 1957/Sæstrengur til Eyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1957


Sæstrengur til Eyja


Blik birtir að þessu sinni þrjár myndir varðandi lögn sæstrengs (rafstrengs) milli lands og Eyja. Þessar myndir hefir stjórn Sambands íslenzkra rafveitna vinsamlegast lánað ritinu. Þær birtust í ársskýrslu sambandsins 1954. Í skýrslu sambandsins þ.á. er prentaður fyrirlestur sá, er Jakob Gíslason raforkumálastjóri flutti á ársfundi S.Í.R. hér í Vestmannaeyjum 26. ágúst 1954.
Með því að vitað er, að þessi raforkumál eru einhver mestu nauðsynja- og framfaramál Eyjanna, og allir Eyjabúar hafa mikinn hug á að fylgjast með öllu, sem að þeim lýtur og í þeim málum er gert, þá óskar Blik að birta hér kafla úr fyrirlestri raforkumálastjóra. Þar er saga botnmælinganna hér við Eyjar til undirbúnings sæstrengslögninni rakinn í sem fæstum dráttum.
Þar segir m.a.:
„Á árinu 1938 var varðskipinu ,,Þór“ falið að mæla dýpi og rannsaka botninn á þeirri leið milli Vestmannaeyja og lands, sem líkleg þætti fyrir sæstrenginn. Þá þegar þótti reynslan af botninum vera slæm á þeim leiðum, sem sæsíminn lá um, og því ákveðið að reyna nokkru austar. Byrjaði skipið þá á vertíðinni athuganir sínar í námunda við Eyjar, en hætti þeim fljótlega aftur og varð lítill árangur af. ...

ctr

Á sumrinu 1950 voru botnrannsóknir teknar upp að nýju. Var þá vitamálastjórnin beðin að framkvæma bæði dýptarmælingar og botnrannsóknir, og sá Pétur Sigurðsson, sjómælingafræðingur, um framkvæmd þess verks. Þetta sumar var vitaskipinu „Hermóði“ falið að taka, með bergmálsdýptarmæli, dýptar-,,prófíl“ eða þverskurð af sundinu milli Vestmannaeyja og lands.
Eftir að þessi „prófíll“ var fenginn, þótti auðsætt, að næsta skrefið í rannsóknunum ætti að vera það að gera með nákvæmum bergmálsmælingum dýptarmælingu af öllu svæðinu, sem til mála kæmi að leggja strenginn á. Var þetta gert árið eftir og eftir þeim dýptarmælingum gerður allnákvæmur uppdráttur af breiðu svæði milli lands og Eyja.

ctr


ctr

Lauslegt jarðfræðilegt riss af Kópavík og umhverfi hennar. „Kópavík er talinn heppilegasti staðurinn til landtöku sæstrengsins í Eyjum, og er álitið, að skilyrði séu þar mjög sæmileg.“

Af uppdrættinum mátti sjá, að ógerlegt yrði að velja strengnum leið á þeim slóðum, sem sæsíminn hafði verið lagður um sökum þess, hversu mjög þar úir og grúir af hrauntindum, klapparhryggjum og klökkum. Bergmálsdýptarmælingarnar voru nógu nákvæmar til þess, að lesa mátti úr þeim, hvar klakkar og hryggir komu upp úr sandinum, þótt ekki væru tekin nein sýnishorn af efni botnsins... Hvergi er um að ræða að fá hreinan ál fyrr en töluvert austan við Faxasker, en sá áll er svo hlykkjóttur og þröngur, að ekki þykir fært að nota hann sem leið fyrir rafmagnsstreng. Það er ekki fyrr en spölkorn austan við Bjarnarey og Elliðaey, að uppdrátturinn sýnir nokkurnveginn hreinan, sléttan botn á allbreiðu svæði alla leið frá Eyjum til lands. Þó náðu þessar mælingar tæplega nógu langt til austurs til þess að fullyrða mætti, að hið hreina svæði væri nægilega breitt til sæstrengslagnar. Var nú ákveðið að rannsaka nánar um það bil eins kílómetra breiða braut frá Bótinni austanvert í Heimaey í boga austan Bjarnareyjar og Elliðaeyjar og í land rétt austan við ósa Álanna. (Sjá mynd á bls. 95).
Þessi rannsókn fór einnig fram undir umsjón Péturs Sigurðssonar. Auk verkfræðinga raforkumálaskrifstofunnar hefir Bjarni Forberg verið með í ráðum um allar athuganir. Þær viðbótarmælingar, sem nú fóru fram, sýndu, að skammt fyrir austan þá leið, sem dregin er á mynd á bls 95, tekur aftur við hraun og ósléttur botn, en breidd hinnar sléttu brautar er þó talin nægileg fyrir rafstreng.“

Í jólablaði Framsóknarblaðsins í vetur birti ég Eyjabúum mynd af sjávarbotninum norðan og austan Heimaeyjar, og var sá uppdráttur gjörður samkvæmt mælingum, sem raforkumálastjóri getur um í fyrirlestri sínum.

Þ.Þ.V.