Blik 1957/Landakirkja í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1957JÓHANN GUNNAR ÓLAFSSON, bæjarfógeti:


Landakirkja

í Vestmannaeyjum


I.


Jóhann Gunnar Ólafsson.

Landakirkja er með elztu kirkjum á Íslandi. Hún var byggð á árunum 1774—1778 eða 1780, og er því um þessar mundir 178 ára gömul. Á þessu ári hafa verið gerðar á henni svo stórfelldar breytingar, að ástæða hefur þótt til að rifja upp byggingarsögu hennar. Hún er byggð úr höggnu og óhöggnu hraungrjóti, tvíhlaðin, og er veggjaþykktin um 2 álnir. Í upphafi var hún turnlaus, sneitt af burstum, og engin forkirkja. Hún var látlaus og einföld í sniðum, með litlum gluggum, og hafði ekkert af hinum fordildarlega stíl aldar sinnar. Hún mun vera fyrsta kirkja á Íslandi, sem byggð var utan kirkjugarðs. Í upphafi var ráð fyrir því gert, að hún yrði lengi í smíðum, enda var hún stórbygging á þeirri öld, og því var hin gamla og hrörlega kirkja, sem var inni í gamla kirkjugarðinum látin standa, svo hægt væri að fremja guðsþjónustugerð í guðshúsi meðan á steinbyggingunni stóð.
Í kringum kirkjuna var lögð steinstétt, og umhverfis var gerð rimlagirðing úr timbri. Fyrir vesturgafli var sett upp klukknaport fyrir kirkjuklukkurnar. Auk höfuðdyra á vesturgafli voru kórdyr á austanverðri norðurhlið. Síðar var fyllt upp í þær.

Landakirkja eins og hún mun hafa litið út fullgerð 1778 eða 1780.


Altaristaflan í Landakirkju.Í kirkjunni var og er margt fagurra og góðra og gamalla muna. Kirkjuklukkurnar eru tvær og báðar stórar og hljómmiklar. Þær eru steyptar árin 1617 og 1744. Fögur olíumynd er á altari, máluð á rauðavið, og tvær aðrar myndir á kórgafli. Tveir ljósahjálmar eru í kirkjunni og er annar þeirra frá árinu 1662, gjöf frá Hans Nansen borgarstjóra í Kaupmannahöfn. Hann rak um skeið verzlun í Vestmannaeyjum og dvaldi þar. Þá eru þar fagrir altarisstjakar, tveir þeirra frá 1642 og 1766, og skírnarfontur frá 1749. Fleiri gamla muni á kirkjan. Að öðru leyti vísast til greinar séra Jes A. Gíslasonar í Víði 1948, þar sem byggingunni er nákvæmlega lýst, og Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen bæjarfógeta, I. bindi.

II.

Timburkirkjurnar í Vestmannaeyjum áttu sér ekki langan aldur. Að jafnaði entust þær ekki nema í 20-30 ár. Sennilega hefur oft og tíðum ekki verið til þeirra vandað, en hitt þó ráðið meiru, hversu veðrátta hefur verið rakasöm í Eyjum. Árið 1723 var reist ný kirkja. Hafði kirkjan þá verið léleg um langt skeið. Árið 1705 féll þannig pallstúkan ofan á fólkið meðan stóð á messugerð. Eftir það var um skeið messað í kjallara í verzlunarhúsunum inni í Skanzinum. Þessi kirkja varð ekki til langframa. Undir miðja öldina var hún komin að falli. Þegar Sigurður Jónsson prófastur í Holti visiteraði í Eyjum sumarið 1748, hafði kirkjan „verið niðurtekin í grunn til uppbyggingar á kostnað konungs“. Við hina nýju kirkjubyggingu var lokið á þessu ári. Þegar prófastur kom á ,,yfirreið“ næsta sumar, var byggingunni lokið. Í gerðabók sína ritaði prófastur nákvæma lýsingu á henni, og lætur þess getið, að hún hafi verið byggð úr timbri í hólf og gólf og umhverfis. Þessi kirkja stóð í elzta hluta Landakirkjugarðs, og sést hún á uppdrætti séra Sæmundar Hólms frá 1776. Austan við kirkjuna og utan garðs sýnir séra Sæmundur kirkjuklukkurnar í gálga, en það á kannske fremur að skoðast sem táknmynd um kirkjustaðinn. Það mundi vera einsdæmi að kirkjuklukkur væri utan garðs. Rétt hjá kirkjunni stóð gapastokkur héraðsins með járnhlekkjum og hespu. Þar máttu minni háttar afbrotamenn dúsa um embætti „til skræk og advarsel for menigheden“.
Kirkjan frá 1748 varð ekki til frambúðar. Um 1770 var hún orðin svo hrörleg, að nauðsyn þótti, að gerður væri reki að endurbótum á henni.
Frá fornu fari ríkti sú venja, að dönsku kaupmennirnir í Vestmannaeyjum höfðu með höndum allt fjárhald Landakirkju, og með konungsúrskurði 25. marz 1778 var það lögfest. Skyldu þeir innheimta tekjur kirkjunnar og færa þær í reikningabókina. Í þjóðskjalasafni eru ennþá varðveittar þessar reikningabækur. Sú elzta þó aðeins í afriti, en hún hefst árið 1631 á reikningshaldi um endurbygging Landakirkju eftir Tyrkjarán. En þeir brenndu fyrstu kirkjuna, sem reist var á Fornu-Löndum árið 1573. Úr hópi bænda voru að vísu umsjónarmenn með kirkjunni, en kaupmenn höfðu af henni veg og vanda, enda gáfu þeir henni góðar gjafir í ornamenta, sem enn eru til og skreyta hana.
Hans Klog kaupmaður starfaði um langt skeið við konungsverzlunina í Vestmannaeyjum. Haustið 1771 komst hann að þeirri niðurstöðu, að Landakirkja mundi þurfa mikillar viðgerðar, ef hún ætti að vera nothæf til messugerða. Ritaði hann Thodal stiftamtmanni rækilega um ástand Landakirkju og lagði til, að annaðhvort færi fram stórfelld endurbót á kirkjunni, eða byggð yrði ný kirkja úr steini eða timbri.
Stiftamtmaður skrifaði rentukammeri um málið, en sumarið 1772 fór það fram á nánari upplýsingar um ýmis atriði varðandi kirkjuna. Meðal annars vildi kammerið fá að vita, hve mikið fé hefði safnazt í sjóð kirkjunnar síðan 1748, að kirkjan var endurbyggð. Þá var óskað eftir því, að nákvæm skoðunargerð færi fram á ástandi kirkjunnar, og var spurt um það, hvort nægja mundi að gera nú við kirkjuna og hvað helzt þyrfti að gera við. Þá var um það spurt, hversu mikið mundi kosta að byggja kirkjuna úr timbri að nýju og hvort hægt væri og heppilegt fyrir framtíðina að byggja hana úr steini, og af þeirri stærð, sem Hans Klog kaupmaður hefði nefnt í beiðni sinni. Loks var eftir því grennslazt, hvort grjót væri til á staðnum í útveggina og hve mikið mundi þurfa í hana af múrsteini, kalki, við í bjálka, loft, sperrur og þak, og hver kostnaðurinn mundi verða. Þá var beðið um uppdrætti af kirkjunni, hvort heldur hún yrði úr timbri eða steini. Um sama leyti skrifaði stiftamtmaður Finni Jónssyni biskupi í Skálholti og skýrði honum frá erindi Hans Klogs kaupmanns og fyrirspurnum hins konunglega, norska kammers. Bað hann um tillögur biskups og prestanna í Vestmannaeyjum um málefni Landakirkju. Stiftamtmaður heimti allar upplýsingar um haustið 1772 og skrifaði kammerinu 5. september. Í þessu bréfi skýrði hann frá því, að honum hefði borizt í hendur 2. sept. erindi Hans Klogs og prestanna. Hafi veður hamlað, að prófastur kæmist út í Eyjar, en nú kvaðst hann senda svar Klogs kaupmanns, áætlun hans um efniskostnað og uppdrætti hans af kirkjunni, timburkirkju og steinkirkju. Þá sendi hann skoðunargjörð Klogs og prófasts og vottorð biskups og umsögn um kirkjubygginguna. Stiftamtmaður tók fram, að hann teldi ekki þörf á því, að kirkjan væri klædd innan með múrsteini, enda væri það of dýrt. Virðist helzt af þessum ummælum mega ráða, að stiftamtmaður hafi þá talið víst, að byggð yrði steinkirkja. Um sömu mundir skrifaði stiftamtmaður Klog kaupmanni og bað hann að skýra kammerinu frá því, hvort til væru í Eyjum flatir, kantaðir steinar hæfilegir í kirkjubygginguna.
Árið 1773, nálega allt, var bygging kirkjunnar síðan til athugunar hjá rentukammeri og hinni konunglegu byggingastjórn eða bygginganefnd. Leitað var tillagna Anthons, konunglegs byggingameistara og umsjónarmanns hinna konunglegu halla, og lagði hann til, að kirkjan yrði byggð úr steini, „af Grundmuur af de ved Stedet havende kaldede Brunsteene“. Áætlun hans um byggingarkostnaðinn var dags. 21. apríl 1773.
Um haustið var þetta málefni lagt fyrir konung og 15. nóvember 1773 var gefið út konungsbréf um það, að eftir tillögum og uppdrætti Anthons byggingameistara skyldi á kostnað ríkissjóðs reisa Landakirkju úr steini. Áætlaður kostnaður var talinn 2.735 ríkisdalir. Þannig voru tillögur Hans Klogs kaupmanns komnar í deigluna. Rentukammer ritaði 4. desember 1773 til bygginganefndarinnar og skýrði henni frá málavöxtum. Hefur efni bréfsins verið rakið hér að framan. Jafnframt var frá því skýrt, að Anthon byggingameistara hefði verið falið að útvega efni í bygginguna og lagt fyrir nefndina að tilkynna verzlunarstjórninni að vera við því búin að flytja allt efni til kirkjunnar á næsta vori og danska iðnaðarmenn til þess að vinna að byggingunni. Bent var á Berger múrara til að standa fyrir steinbyggingunni, því hann væri kunnugur staðháttum á Íslandi vegna dvalar sinnar áður þar í landi. Þá var lagt fyrir verzlunarstjórnina að fela kaupmanni sínum í Vestmannaeyjum, að rífa gömlu kirkjuna, og skýra honum frá því, að frekari fyrirmæli mundu koma frá stiftamtmanni. Anthon gerði síðan 27. desember 1773 skrár um efni, sem þyrfti að flytja upp til byggingarinnar. Meðal annars taldi hann að þurfa mundi 11.000 Flensborgarmúrsteina og 900 tunnur af kalki í bygginguna auk trjáviðar. Þurfti margt til jafn stórrar byggingar í verkfærum og efnivið, en gert var ráð fyrir, að kirkjan yrði 27 1/2 alin á lengd og 16 álnir á breidd. Gólfið skyldi lagt tígulsteinum og bogar vera yfir gluggum og dyrum. Veggir voru tvíhlaðnir úr höggnu og óhöggnu hraungrýti um tvær álnir á þykkt.
Yfirsmiður var ráðinn þýzkur steinsmiður, Kristófer Berger að nafni, og átti hann að fá 940 ríkisdali fyrir að hlaða kirkjuna. Skyldi hann taka með sér Jóhann Berger, bróður sinn, og tvo danska iðnaðarmenn. Anthon byggingameistari gerði 21. maí 1774 samning við Kristófer Berger og staðfesti rentukammer hann 25. s.m. Sá samningur er ennþá til og er hann geymdur í þjóðskjalasafni í Reykjavík. Berger átti að fá nóga starfsmenn í Eyjum til steinhöggs og aðflutninga. Af verkfærum fékk hann 6 hjólbörur, 4 handbörur, 1 vagn, 1 sleða og aktygi á 4 hesta.
Í maímánuði 1774 tilkynnti verzlunarstjórnin Hans Klog kaupmanni, að Kristófer Berger hefði verið ráðinn samkvæmt heimild í rentukammerbréfi frá 14. des. 1773 til þess að byggja kirkjuna, og 6. júlí s.á. skrifaði stiftamtmaður til Klogs kaupmanns. Skýrði hann honum frá því, að samkvæmt rentukammerbréfi 4. maí eigi Berger steinsmiður að sjá um steinbrot og allt steinverk Landakirkju. Hinsvegar beri kaupmanni að útvega verkafólk og allt annað, sem með þyrfti. Hann mundi hafa fengið fyrirmæli frá verzlunarstjórninni að hafa umsjón með efni, sem til félli úr gömlu kirkjunni, þegar hún yrði rifin, og varðveita kirkjugripina. Um sömu mundir skrifaði stiftamtmaður biskupi og kvaðst senda honum öll skjöl, sem honum hefði borizt um byggingu Landakirkju frá stjórnardeildunum dönsku.
Erlendis var nú öllum undirbúningi undir kirkjubygginguna lokið, og frá Kaupmannahöfn lagði í maímánuði 1774 skip hlaðið efni til kirkjunnar, og þar voru einnig um borð hinir dönsku og þýzku kirkjusmiðir. Skipið kom til Vestmannaeyja í byrjun júlí og hófst afferming 7. júlí, en var ekki lokið fyrri en 22. ágúst. Í júlímánuði var hafizt handa um undirbúning að kirkjubyggingunni. Var fyrst lagður vegur þangað, sem kirkjan átti að standa. Hafði verið horfið að því ráði, að láta gömlu kirkjuna standa áfram meðan steinkirkjan væri í byggingu og reisa Landakirkju á flöt vestan við kirkjugarðinn. Var það fyrsta kirkja, sem reist var utan garðs á Íslandi.
Í júlímánuði mun einnig hafa verið byrjað á því að grafa fyrir undirstöðum kirkjunnar. Séra Sigurður Jónsson prófastur að Holti undir Eyjafjöllum visiteraði Landakirkju 9. ágúst 1774, og er í gjörðabók hans ritað, að gamla kirkjan geti komið að notum til guðsþjónustuhalds „allt þangað til sú nýja, áformaða kirkja kemst í fullkomið stand, fyrir hverri búið er að grafa til grundvallar allt um kring.“ Síðan er sagt: „Þó kirkjan flytjist úr þeim stað, sem hún nú stendur, er til ætlað að kirkjugarðurinn skuli samt haldast við hefð og magt“. Hefur svo verið til þessa dags, nema hvað kirkjugarðurinn hefur að sjálfsögðu verið stækkaður verulega, aðallega í austur. Suðvesturhorn garðsins er hinn elzti hluti, þar sem Landakirkja stóð áður. Þessa visitazíugerð undirrita þessir menn, auk prófasts: Hans Klog kaupmaður, séra Benedikt Jónsson á Ofanleiti, séra Guðmundur Högnason á Kirkjubæ, og bændurnir: Jón Jónsson, Ormur Jónsson, Eiríkur Bjarnason, Nikulás Gunnsteinsson, Erlendur Ólafsson og Jón Jónsson.
Kristófer Berger og Hans Klog gáfu rentukammeri árlega skýrslur um verkið, og verður nú hægt að sjá af þeim, hversu byggingunni miðaði áfram. Skýrslur þessar eru í Þjóðskjalasafni með Landakirkjuskjölum. Verður nú í höfuðdráttum sagt frá því, hversu verkinu leið frá ári til árs. Eins og áður getur hófust byggingarframkvæmdirnar í júlímánuði 1774. Þá var lagður vegur að Landakirkju og grafið fyrir grunni kirkjunnar. Vafalaust má gera ráð fyrir, að steinbrotið hafi hafizt þá þegar. Þetta ár unnu flest 17 menn við bygginguna, en fæst 2. Árið 1775 var stöðugt unnið við bygginguna, og voru þar flest 7 menn, en fæst tveir. Árið 1776 var unnið frá 1. janúar til desember, og unnu þá flest 8 menn við bygginguna, en fæst tveir. Árið 1777 vantar skýrslu frá Berger, en sjá má af bréfi frá Hans Klog kaupmanni til Thodals stiftamtmanns dags. 8. júlí 1777, að þá hefur Berger átt eftir 3ja daga vinnu af steinsmíðinni, og 7. ágúst s.á. skrifar Thodal rentukammeri, og tilkynnir, að allri steinsmíði við kirkjubygginguna sé lokið. Hafi Kristófer Berger í hyggju að fara utan þá um haustið.
Í þessu sama bréfi skýrir stiftamtmaður frá því, að ekki sé ennþá byrjað á trésmíði við kirkjuna. Bar hann um leið upp þá fyrirspurn, eftir beiðni Klog kaupmanns, hvort ekki mætti gera alla innviði og þak úr nýju timbri. Taldi hann við úr gömlu kirkjunni ónothæfan til þess, enda mætti ekki rýja svo þá kirkju, að hún yrði ónothæf til guðsþjónustu, fyrri en hinni væri lokið. Þegar stiftamtmaður skrifaði þetta, hafði engin skoðunargerð farið fram á steinsmíðinni, en hann hét að útvega hana. Sú skoðunargerð er þó ekki með Landakirkjuskjölum.
Engar skýrslur eru nú til um það, hvernig áfram miðaði trésmíði við bygginguna. Þó er kunnugt, að gluggar í kirkjuna komu með vorskipi 1777. Yfirsmiður við bygginguna mun hafa verið Guðmundur Eyjólfsson, bóndi í Þorlaugargerði, kóngssmiður nefndur, faðir séra Bjarnhéðins á Kirkjubæ. Hann hafði áður fengizt við kirkjubyggingar og þótti góður forsmiður.
Líklega hefur kirkjubyggingunni verið lokið að fullu árið 1778, fremur en 1780, þó var henni ekki lokið 25. marz 1778, þegar gefinn var út úrskurður um tekjur Landakirkju og prestanna í Vestmannaeyjum. Undir 8. lið í úrskurði þessum er komizt svo að orði, að þegar kirkjan sé fullbyggð, komið á hana tvöfalt þak, ásamt öðru, sem falli undir fullnaðarsmíði hennar, skuli árlega skafa þak kirkjunnar og viði, svo að fúi komist ekki í timbrið, og bika það vandlega. Sama máli skyldi gegna um gluggahlera og annað, sem varið yrði gegn fúa með biki. Veggi skyldi kalka að nýju, ef þörf yrði á, svo að engar skemmdir kæmi upp vegna vanhirðu. Þetta var allt í umsjá og á ábyrgð umboðsmannsins, þ.e. kaupmanns. Það kom fljótt í ljós, að viðhald yrði nokkurt á byggingunni. Árið 1781 getur Páll Sigurðsson prófastur þess, að ástand kirkjunnar sé eins og s.l. ár, „nema hvað útspekningin er meira og meira að bresta, að utanverðu helzt“.
Frá árinu 1778 finnst nú ekki bókun um vísitazíuna, en í bókun um visitazíu prófasts 20. júlí 1780 er sagt, að kirkjan sé með sama hætti og árið 1778. En þess er þá getið, að „klukknaportið“ hafi verið fært nær kirkjunni, „í hverju sú minni klukka gefur af sér mikið slétt hljóð, hvað prófasturinn álítur að kólfinum kunni ekki að tilskrifast“. Í þessari sömu bókun er sagt: „Steinbrú er lögð allt í kringum kirkjuna“. Að síðustu er tekið fram: „Prófasturinn afsakar sig frá að uppskrifa kirkjuna að öllu leyti, þar það mundi víst útheimta 4 daga“.
Þetta gæti bent til þess, að kirkjubyggingunni hefði ekki verið að fullu lokið fyrri en 1780, og úttekt á henni hefði átt að fara fram í þetta sinn, en prófastur færzt undan því, til þess að teppast ekki í Eyjum, ef veðri breytti og brimaði. Og víst er um það, að reikningsskilum fyrir byggingarkostnaðinum var ekki lokið fyrr en árið 1781. Byggingin hafði kostað 5.147 ríkisdali og 69 1/2 skilding, og þannig farið um 2.740 ríkisdali og 21 1/2 skilding fram úr upphaflegri áætlun. Með konungsúrskurði 30. apríl 1781 var heimilað að greiða upphæð þessa og allan kostnaðinn úr ríkissjóði, og var jafnframt ákveðið, að viðhald kirkju og girðingar um hana skyldi verða greitt af ríkissjóði. Hafði girðingin um kirkjuna kostað 107 ríkisdali og 52 skildinga. Við prófastsvisitazíu 4. júní 1781 fer Páll Sigurðsson prófastur í Holti þessum orðum um girðinguna: „Af grindverkinu, sem er umkring kirkjuna, og annars kallast stakitværk, eru 9 álnir brostfeldugar og þurfa bráðrar endurbótar, for resten sýnist grindverkið gjörvallt ekki verða lengi varanlegt.“ Þegar prófastur visiteraði 1784 lætur hann þess getið, að rimlagirðingin hafi brotnað í stórviðri í vetur, en þá hefði verið gert við hana. Það reyndist orð að sönnu, að girðingin varð ekki til frambúðar. Nú er fyrir nokkrum árum búið að gera steingirðingu um kirkjuna.
Landakirkja var mikil bygging, vönduð og fögur að utan og innan. Hún varð mjög dýr. Telst mér til, að hún muni hafa kostað ríkissjóð um 2 1/2 milljón króna reiknað til þess verðlags, sem nú er. Hætt er þó við, að hún yrði ekki byggð núna fyrir þá upphæð. Hún á eftir að vera enn um langt skeið veglegt guðshús, fagurt minnismerki um stórhug þeirra manna, sem hugmynd áttu að byggingunni.

III.

Á því leikur enginn vafi, að Hans Klog kaupmaður var frumkvöðull að því, að steinkirkjan var reist. Verður því nánari grein gerð fyrir honum hér. Einnig verða rakin helztu æviatriði Anthons byggingameistara, sem uppdráttinn gerði að Landakirkju og lagði til við rentukammer og konung, að steinkirkjan væri byggð.
Þriðji maðurinn, sem án efa hefur haft mikil áhrif á það, að kirkjan var byggð svo myndarleg í sniðum, var Jón Eiríksson stjórnardeildarforseti. Hann átti um þessar mundir sæti í þeim ráðuneytum og nefndum, sem um málefni Landakirkju fjölluðu, og hefur með öðrum embættismönnum þeirra undirritað þau skjöl og bréf, sem úrslitum réðu. Þannig var hann einn þeirra, sem staðfestu byggingarsamninginn við Berger af hálfu Westindiske og Guiniske Rente samt General Toldkammeret. Jón var um langt skeið mikill valdamaður um málefni Íslands í dönsku ráðuneytunum, enda var hann hálærður gáfumaður og fylginn sér. Bar hann hag Íslands mjög fyrir brjósti og stuðlaði eftir mætti að viðreisn landsins og lausn úr einokunarfjötrunum. Hann var fæddur að Skálafelli í Suðursveit árið 1728, en andaðist í Kaupmannahöfn árið 1787.
Hans Klog kaupmaður var danskur maður. Um 1750 kom hann fyrst til Íslands ungur að aldri og gerðist verzlunarþjónn. Árið 1788 keypti hann konungsverzlunina í Vestmannaeyjum, Garðsverzlun. Þá hafði hann starfað 37 ár á Íslandi og verið 21 ár í Vestmannaeyjum. Hafði hann um skeið verið yfirkaupmaður við Garðsverzlun, eða í hinum danska Garði, en svo var verzlunarstaðurinn stundum nefndur, af því að hann var inni í Skanzinum, umgirtur á alla vegu. Klog var mikill umsvifamaður. Árið 1787 hafði hann búskap bæði á Kornhól og Miðhúsum, og voru þá 27 manns í heimili hjá honum. Klog byrjaði verzlunarrekstur sinn á harðindaárum. Fólki fór um þær mundir sífækkandi í Eyjum og aflabrögð voru rýr. Verzlun hans fór hnignandi, svo að hann gat ekki staðið í skilum við lánardrottin sinn, ríkissjóðinn. Árið 1798 voru allar eigur hans af honum teknar og Garðsverzlun seld öðrum. Klog var merkismaður og höfðingslundaður. Sagt er, að hann hafi alið upp og kostað til náms séra Pál Jónsson, og ef til vill einnig alið upp Þuríði, systur hans. Þegar hún giftist 1793 Páli Guðmundssyni assistent í Bakkahjáleigu, var Hans Klog svaramaður hennar. Þau Þuríður og Páll misstu foreldra sína, þegar þau voru ung að aldri. Jón Eyjólfsson, undirkaupmaður, faðir þeirra, hafði verið samstarfsmaður og þjónn Klogs, og virðist sem hann hafi talið, að hann hefði skyldur við börnin þess vegna.
Það bar við árið 1775, að 5 skip úr Mýrdal hrakti undan óveðri alla leið til Vestmannaeyja. Þar voru 90 manns um borð. Klog kaupmaður veitti þeim höfðinglegar móttökur og segir séra Jón Oddsson frá atvikum í kvæði sínu um hrakninginn á þessa leið:

Viðtektir góðar veitti þjáðum
Vestmannaeyja þjóðin flest,
gáfu þeim kost með kærleiksdáðum,
kaupmaður Hans þó allra bezt,
nákvæma sýndi hjúkrun hann
hverjum, sem til hans koma vann.


Þá, sem að aumri öðrum vóru,
í sín hýbýli taka vann,
tuttugu þeirra til hans fóru,
trúlega þessa fæddi hann,
gaf þeim svo upp með sómasöfn
sérhvern kostnað og fyrirhöfn.

Meðal barna Klogs voru Tómas Klog landlæknir að Nesi við Seltjörn, Jens verzlunarstjóri í Vestmannaeyjum og Anna Soffía. Hans Klog mun hafa flutzt til Danmerkur, þegar verzlunin var tekin af honum, og andazt þar.
Georg David Anthon var fæddur í Þýzkalandi 1714, en dó í Danmörku 1781. Hann lærði múraraiðn, en varð 1738 teiknari hjá Eigtved byggingameistara, einhverjum frægasta byggingameistara Dana. Árið 1751 varð hann konunglegur byggingameistari á Jótlandi og Fjóni, en síðar einnig á Sjálandi.
Anthon þótti ekki mikill listamaður, en naut að Eigtveds. Anthon var kvæntur bróðurdóttur hans, Önnu Margréti Eigtved. Eftir lát Eigtveds 1754 stóð Anthon fyrir nokkrum byggingum eftir uppdráttum Eigtveds. Landakirkja mun vera með beztu verkum Anthons byggingameistara.

Des. 1956.
Jóh. Gunnar Ólafsson.