Blik 1954/Minnisvarðinn í Bjarnarey

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1954ctr


Minnisvarðinn í Bjarnarey.1. ágúst s.l. fór fram afhjúpun á minnisvarða, er reistur hafði verið í Bjarnarey. Minnisvarði þessi var reistur í minningu Sigurgeirs Jónssonar frá Suðurgarði, en fyrir verkinu stóðu, ásamt Félagi bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum, veiðimenn í Bjarnarey og fleiri.
Minnisvarði þessi er hár steinkross, gerður úr járnbentri steinsteypu, er stendur á traustum fæti og blasir á mótí Vestmannaeyjakaupstað, þar sem hann stendur efst á norðvestur-horni Bjarnareyjar, aðeins norðan við Hrútaskorur, þar sem Sigurgeir heitinn hrapaði.
Minnisvarði þessi er allur hinn vandaðasti að frágangi. Útlínur allar hreinar og fagrar og heildarsvipur hans látlaus, en þó festulegur. Teikningu af minnisvarðanum gerði Árni Árnason, formaður Félags bjargveiðimanna. Smíði og uppslátt steypumóta annaðist Þorsteinn Sigurðsson frá Melstað.
Sjálfur krossinn sem og fótstallur hans eru húðaðir með kvarsi, hrafntinnu og silfurbergi og glittir á minnisvarðann á sóríkum sumardögum, enda hefur ferðamönnum þeim, er farið hafa fram hjá eynni, orðið starsýnt á þennan látlausa en þó tignarlega minnisvarða. Múrhúðun annaðist Óskar Kárason. Störf þessara manna sem og þeirra, er hér verða ekki taldir, eru störf unnin af þegnskap og fórnfýsi fyrir það málefni að heiðra minningu látinna vina og afreksmanna úr hópi bjargveiðimanna, enda er það eitt af megin stefnumálum Félags bjargveiðimanna.
Á vesturhlíð krossins er eirskjöldur fagurlega gjörður og er þetta á hann letrað:

„Til minningar um Sigurgeir Jónsson frá Suðurgarði, f. 25. júní 1898.
Hrapaði norðan við Hrútaskorunef í Bjarnarey á uppstigningardag 30. maí 1935.

Reist í júní 1953.
Félag bjargveiðimanna o. fl.“

Með byggingu þessa minnisvarða hefur verið hrundið í framkvæmd merku máli, — máli, sem hefur ótrúlegt menningargildi.
Okkur er það öllum ljóst, að hraustra, áræðinna og frækinna manna sporum er ekki öllum hent að fylgja. Í störf bjargveiðimanna hljóta því að veljast hraustir, áræðnir og ötulir menn og fráfall slíkra manna er því fráfall atgjörvismanna.
Með brautryðjendastarfi Félags bjargveiðimanna er því stigið spor í þá átt að heiðra minningu margra okkar ágætustu manna og óskabarna Eyjanna, en um leið sýnt í verki, hvers við metum þá mannkosti, er helzt mega okkur prýða. Þeim mönnum, er ljá slíkum málum lið, er vert að þakka.

Sigfús J. Johnsen.