Blik 1954/Halldór Brynjólfsson. Hetju minnzt

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1954


ctr



Eitt sinnn, er ég vann við gagnfræðaskólabygginguna, kom til mín einn af unnendum þess framtaks. Við ræddum m.a. um staðsetningu skólahússins, umhverfi þess, fegurð Eyjanna og hina tignarlegu landsýn í tæru og hreinu haustloftinu.
Hann spurði hvort ég vissi, hver hefði ræktað túnið, sem gagnfræðaskólabyggingin er byggð á. Ég kvað nei við því, það hafði ég enga hugmynd um. Hann kvað það verið hafa blindan mann, sem hér hefði fæðzt og alizt upp og verið blindur frá æskuskeiði.
Þetta þótti mér athyglisverð frásögn. Blindur maður ræktar tún! Lét hann ekki aðra gera það fyrir sig? Nei, hann ræktaði það með eigin hendi. Túnstæðið var graslendi, óræktarlegt og þýft. Hinn blindi maður lá á hnjánum við að rista grasrótina af þessu landi. Þannig gat hann betur þreifað fyrir sér og innt verkið af hendi til hlítar. Síðan pældi hann landið, bar í það og þakti það síðan aftur grasrótinni. Óræktarmóa hafði verið breytt í frjósamt graslendi.
Jafnframt sannfrétti ég, að börn og unglingar hér í Eyjum hefðu oft eða jafnan hjálpað blinda manninum, þegar hann þurft að aka fiskslógi í túnið á vetrarvertíðum.
Þetta dæmi um hjálpsemi og göfuglyndi æskulýðsins hér við þennan blinda mann jók forvitni mína til að vita eitthvað meira um ævi hans. Mér finnst ég mega til með að segja nemendum mínum frá honum í ársritinu okkar, svo að þeir geti tekið sér hið fagra fordæmi eldri kynslóðarinnar sér til fyrirmyndar.
Þessi blindi maður hét Halldór Brynjólfsson. Hann var fæddur í Vestri-Norðurgarði hér í Eyjum 12. jan. 1875. Faðir hans var Brynjólfur Halldórsson bóndi þar og stefnuvottur hér í hreppi og sýslu.
Brynjólfur bóndi í Norðurgarði var jafnframt dugnaðar sjómaður, eins og svo margir Eyjabúar fyrr og síðar. Hann var um árabil formaður á hinu kunna opna skipi hér, Áróru, og gat sér á því góðan orðstír.
Brynjólfur bóndi var giftur Jórunni Guðmundsdóttur. Þau áttu saman 14 börn. Eitt þeirra var Margrét, móðir Jórunnar að Vesturhúsum, konu Magnúsar bónda Guðmundssonar. Halldór var yngstur þeirra systkina og var kornbarn, þegar faðir hans lézt (1874). —
Þegar Brynjólfur bóndi dó frá öllum barnahópnum, var mörgum börnunum komið í fóstur hjá bændum hér í Eyjum. Halldóri var komið í fóstur hjá Jóni bónda Jónssyni í Gvendarhúsi og konu hans, Sesselju, hálfsystur Hannesar Jónssonar hafnsögumanns.
Halldór óx úr grasi öflugur og efnilegur drengur og hinn mannvænlegasti. Hugur hans hneigðist snemma að sjómennsku. Á hans uppvaxtarárum og fram yfir aldamót var það algengt hér í Eyjum, að drengir hæfu að stunda sjóinn innan við og um fermingaraldur. Réru þeir þá gjarnan fyrst að sumrinu og voru þá jafnan hálfdrættingar. Veiðarfærið var eingöngu handfæri. Halldór Brynjólfsson hóf sjómennskuferil sinn 13 ára gamall.
Á 13. ári tók hann að kenna meins í öðru auganu. Leitað var læknishjálpar, en ekkert stoðaði. Sjónin hvarf vonum fyrr, svo að hann missti að fullu sjónina á öðru auganu á einu ári.
Ekki löngu síðar varð hann fyrir óhappi, að hann segir sjálfur, rakst á hurð og meiddist á hinu sjáandi auga. Tók hann nú brátt að missa sjón á því líka. Leitað var læknishjálpar, en án árangurs. Innan við tvítugsaldur var Halldór orðinn alblindur.
Framtíðarhorfur voru nú ærið dapurlegar fyrir þessum unga manni. Alblindur í blóma lífsins! — Getum við gert okkur í hugarlund þá hugarraun? Framtíðin brosti við jafnöldrum hans og leikbræðrum til athafna, sjálfstæðs heimilislífs og félagslífs. Hann einn var hrifinn úr röðum þeirra, ýtt til hliðar, blindur. Hvers átti hann að gjalda? Hvernig gátu örlaganornirnar níðzt þannig á honum, tápmiklum æskumanninum, sem vildi fram með orku og athafnaþrá eins og leikbræður hans og æskuvinir?
Hann var lengi að átta sig á hörmungum sínum, sætta sig við óhamingju sína, sigrast á hugarangist sinni og lamandi sorgum.
Guð leggur jafnan líkn með þraut, segir gamalt orð, sem byggt er á reynslu þrautpíndrar þjóðar. Það sannaðist á Halldóri Brynjólfssyni. Afstaða hans og ákvarðanir til þess lífs, sem beið hans í svarta myrkrinu, vitnar um þá hugarorku og þann manndómsvilja, sem í honum bjó. Samt skyldi hann verða sjálfstæður þegn. Sitt ítrasta skyldi hann gera til þess að verða ekki byrði annarra, meðan starfskraftar og heilsa leyfðu honum að vinna.
Eins og áður segir, hóf Halldór að stunda sjóinn 13 ára gamall. Hann stundaði síðan sjó hér í 35 ár. Fyrst réri hann á opnum skipum og síðan á vélbátum, eftir að þeir komu til sögunnar.
Um 13 ára skeið réri Halldór á hinu mikla og kunna skipi Gideon með Hannesi Jónssyni. Á opnu skipunum réri Halldór Brynjólfsson alltaf í austurrúmi. Þar annaðist hann austur, þegar siglt var en réri ella.
Halldór var þannig skapi farinn, að hann var jafnan léttur í orði og gamansamur. Hann átti það til að láta fjúka í kviðlingum.
Árni hét maður, kenndur við Steinsstaði. Hann var eitt sinn fyrir skipi séra Oddgeirs að Ofanleiti.
Í útdrætti var Gideon í námunda við Ofanleitisskipið. Skipsfélagar Halldórs ræddu þá um formennsku Árna á Steinsstöðum. Þá tók Halldór til að yrkja. Þessi vísa hans þaut um þóftur:

„Siglir hann Árni sjóinn á;
sá er formaður nýr.
Útdráttarkaffi á að fá;
ei verður sopinn rýr.
Miskunnar hendi maddaman
mettar hún Árna sinn;
á kringlum og sykri krýnir þann
kappsama formanninn.“

Þegar Halldór var á æskuskeiði, bar það við, að ungur maður héðan úr Eyjum, kunningi hans, fór vor eitt austur á land til þess að leita sér atvinnu. Vann hann þar við beitningu allt sumarið og hafði fengið kr. 45,00 á mánuði í laun. Halldór greip nú brennandi löngun til að reyna þetta líka, leita sér atvinnu austur á sumrum. En þá þurfti hann að læra fyrst að beita línu, svo að hann gæti hlotið sæmilegt kaup fyrir viðunandi afköst. Allt hlaut þetta að verða miklu erfiðara og seinna honum blindum. Halldór tók nú sjálfur að þjálfa sig í beitningu. Bjó hann sér til einskonar líkingu af línu. Hann fékk sér prik eða stöng og hnýtti á hana önglaðan taum. Síðan skar hann gulrófu í smábita og nældi þeim á krókana. Þannig æfði Halldór sig til væntanlegs sumarstarfs á Austurlandi. Fátt sannar betur óþreytandi vilja hans til sjálfsbjargar.
Halldór Brynjólfsson réðist fyrst austur í Mjóafjörð til Gunnars Jónssonar útvegsbónda í Holti. Síðan sótti hann atvinnu sína 13 sumur til Austurlands, eins og svo fjölda margir Sunnlendingar á þeim árum eða því tímaskeiði.
Halldór dvaldist ýmist í Mjóafirði, Norðfirði eða á Þórshöfn þau sumur, sem hann stundaði sumarvinnu á Austurlandi. Hann fylgdist alltaf austur með kunningjum sínum og átti alltaf einhvern góðan að til að leiða sig og liðsinna sér á ferðalaginu.
Eftir að Halldór óx úr grasi, gerðist hann vinnumaður hjá Jóni fóstra sínum í Gvendarhúsi. Dvaldist þar í 25 ár eða þar til hann eignaðist eigið heimili. Alltaf var einhver hjálplegur til þess að fylgja Halldóri frá Gvendarhúsi niður að höfn og á skipsfjöl, þau ár, sem hann stundaði róðra ofan fyrir hraun.
Fyrir dygga þjónustu í vinnumennsku sinni í Gvendarhúsi hlaut Halldór verðlaun frá Búnaðarfélagi Íslands árið 1928, silfurbúinn göngustaf. Hann er nú geymdur í byggðarsafni kaupstaðarins með mörgum öðrum hlutum úr eigu Halldórs og konu hans.
Ýmislegt var það fleira en dugnaðurinn, sjálfsbjargarhvötin og viljaorkan hjá Halldóri Brynjólfssyni, sem vakti athygli manna á honum. Hann var t.d. með afbrigðum söngvinn, hafði mjög næmt hljómlistareyra. Hann lærði að spila á harmoniku, svo að orð fór af. Seinni hluta ævi sinnar spilaði hann einnig tvíhent á orgel, svo að undrun vakti. Þessi listagáfa létti honum lífið í myrkrinu. Nokkur sönglög mun Halldór einnig hafa samið, en líklega eru þau gleymd, þar sem þeim hefur ekki verið haldið til haga.
Árið 1907 flutti hingað til Eyja kona nokkur, Kristín Vigfúsdóttir að nafni. Hún var frá Keldum á Rangárvöllum og réðist vinnukona til Jóns bónda í Gvendarhúsi. Hún hafði með sér litla stúlku, sem hún átti, Steinunni að nafni.
Ekki hafði Kristín verið ýkja lengi í Gvendarhúsi, er þau Halldór tóku að fella hugi saman. Leiddi það til hjónabands þeirra.
Árið 1909 eignuðust þau dreng saman. Þau misstu hann tveimur árum síðar. Fleiri börn eignuðust þau ekki.
Þau Halldór og Kristín fluttust frá Gvendarhúsi niður í kaupstaðinn og byggðu sér lítið hús nálægt höfninni. Það hefur til þessa borið nafnið Sjávargata. Þar hafði Halldór það að ígripavinnu, þegar hann stundaði ekki sjó, að skera neftóbak og selja.
Afkoma þeirra hjóna mun oftast hafa verið góð, eftir því sem þá gerðist. Þau voru mjög samhent og samrýnd og hjónaband þeirra ástúðlegt og gott.
Kristín Vigfúsdóttir mun hafa verið kona gædd miklum mannkostum. Reyndist hún manni sínum allt í öllu, hans styrkasta stoð í lífinu. Hún annaðist hann með stakri alúð, ástríki og nærgætni. Hún var hlédræg kona og drýgði hetjudáðir sínar hávaðalaust og í kyrrþey eins og svo fjölda margar stéttarsystur hennar, húsmæðurnar okkar, eiginkonur og mæður. Vegna mannkosta sinna og ástríkis naut Kristín aðdáunar manns síns og alúðarfyllsta þakklætis bæði lífs og liðin. Hún var andlegt ljós hans og ylur, líf og lán í myrkrinu svo að Halldór Brynjólfsson skildi við lífið þakklátur fyrir allt hið góða, sem hann hafði hlotið og notið, þrátt fyrir allt. Tvennt átti drýgstan þátt í að skapa honum það hugarþel og hugðnæmu minningar: hans létta lund og hans ástríka og góða eiginkona.
Þau hjón ræktuðu sér matjurtagarð vestan við húseignina Götu vestan Heiðarvegar. Þann garð yrktu þau hvert ár um langt skeið. Halldór pældi garðinn sinn eins og hver sá, er heill gengur til skógar. Kristín fylgdi honum, vann með honum og leiðbeindi og annaðist hann við störfin.
Þegar Halldór vann að því að rækta túnið (1916), er ég gat um í upphafi þessa máls, skorti hann áburð. Hugkvæmdist honum þá að leita eftir áburði í réttinni undir Fiskhellum. Þar hafði fé verið réttað um langan aldur. Hann fann þar sauðatað í gólfi réttarinnar. Þá var eftir að flytja það austur og upp í tún. Samvinna þeirra hjóna um það verk er táknræn um allt þeirra samlíf, þar sem hönd studdi hönd og fótur fót, sem bezt og göfugast má verða við frumstæð lífsskilyrði. Þau höfðu sinn pokann hvort. Hennar poki þó minni en hans. Síðan báru þau áburðinn á bakinu austur í túnið, og leiddi Kristín jafnframt mann sinn.

Halldór Brynjólfsson.

Árið 1931 fluttu þau Halldór og Kristín héðan úr bænum og settust að í Hafnarfirði. Þar stundaði Halldór svokallaða eyrarvinnu, meðan hann gat og þoldi.
Kristín dó árið 1936.
Til þess tíma hafði Halldór verið hraustur, svo að honum varð helzt aldrei misdægurt. En nú tók heilsu hans að hnigna. Þar mun söknuðurinn eftir hinn trúa og ástríka förunaut hafa haft sín áhrif.
Eftir að Kristín dó, naut Halldór aðhlynningar og umönnunar stjúpdóttur sinnar og barna hennar, sem bjuggu þar í námunda við íbúðarhús Halldórs í Hafnarfirði. Þau hjón og börnin reyndust honum í alla staði vel.
Halldór dó árið 1948 hálfáttræður að aldri. Seinustu árin stytti hann sér stundirnar við að flétta körfur og stunda aðra blindraiðn.
Halldór Brynjólfsson bar ávallt hlýjan hug til Eyjanna, eftir að hann fór héðan. ,,Þar hef ég hlegið bezt og grátið mest,“ sagði hann. „Þar þekkti ég mig og gat farið um allt hjálparlaust með stafprikið mitt“ ... ,,Ég hafði þá reglu,“ sagði hann, ,,að hlæja a.m.k. tvisvar á dag.“ Önnur meginregla hans var að hafa alltaf eitthvað fyrir stafni. Vinnan létti honum myrkurgönguna. Vinnan var honum blessun.
„Ég finn, þegar kveikt er ljós og snögg umskipti verða. Og eins get ég fundið, þegar ég nálgast einhverja hluti, t.d., þegar ég er úti við og kem að einhverju húsi, þá finn ég það á mér, hvar húsið er, þegar ég kem nálægt því. En ekkert veit ég af hverju þessi tilfinning stafar. Þegar ég geng hérna vestur götuna og sólskin er, þá finn ég, hvenær skugga ber á mig af húsunum og get á þann hátt komizt að raun um, hve húsin eru mörg ...“ „Þið, sem sjónina hafið, sjáið, hvernig hvert einstakt verk á að vinna, en við, sem erum blind, verðum að hugsa okkur þetta allt, við verðum að sjá hvern hlut með sálaraugunum.“
„Aldrei sá ég konuna mína, en ég vissi svona hér um bil, hvernig hún var. Og þó að ég hafi aldrei fyrir hitt nema gott fólk, þá hjálpaði nú konan mín mér mest og bezt gegnum þetta líf, þetta myrkur. Það þótti nú á sínum tíma heldur óaðgengilegt fyrir hana að eiga mig, en með guðs hjálp þurftum við aldrei að leita á annarra náðir í efnahagslegu tilliti, og þegar öllu er á botninn hvolft, þá hefir mér liðið alveg eins vel og jafnöldrum mínum og æskufélögum, sem fengu að halda sjóninni og sjá enn.“ ... „Draumar og áform æskumannsins falla í einni svipan. En svo má illu venjast að gott þyki, og þrátt fyrir allt lifi ég og dey í fullri sátt við þetta líf, — en í mikilli þakkarskuld við marga, sem hafa hjálpað mér. Ætti ég þess kost að fá sjónina aftur, er það tvennt, sem ég hefði mestan hug til að sjá, það eru mótorbátar og tízkubúningur kvenfólksins. Ég hefi aldrei séð mótorbáta, þótt ég hafi verið á þeim vertíð eftir vertíð og káfað um þá hátt og lágt. Og svo segja mér fróðir menn, að nú sé ekki hægt að þekkja sundur mann og konu nema við ítarlega rannsókn, því að bæði séu eins klædd og klippt. Svo mundi ég fara með fyrstu ferð til Eyja og skoða bernskustöðvarnar og horfa á fjöllin, sem ég man svo vel eftir. Þá ætlaði ég mér yfir öll þessi fjöll, en komst svo hvergi.
Svo mundi ég fara að heilsa upp á strákana og stelpurnar, sem nú er víst farið að kalla karla og kerlingar. Fyrir hugskotssjónum mínum standa leiksystkini mín og æskufélagar ætíð sem gáskafullir unglingar, því að mér entist ekki sjónin til að sjá þau verða gömul.“

Halldór Brynjólfsson bregður körfu úti við húsvegg sinn.

Margar myndir héngu í stofu Halldórs í Hafnarfirði. Gestur hans hefur orð á því við hann. Halldór kvað konu sína eiga þær. Síðan bætti hann við: „Svo kann ég betur við að hafa eitthvað, sem minnir á æskustöðvarnar,“ og um leið benti hann á þilið, þar sem hékk snoturt málverk af Heimakletti.
Á efri árum, eftir að þyngjast tók fyrir Halldóri að stunda eyrarvinnu, var honum kennt að bregða körfur, svo sem fyrr getur. Þorsteinn Bjarnason framkvæmdastjóri Blindravinafélags Íslands, mun hafa annazt þá kennslu og það starf Halldórs, eins og svo fjölmargra annarra blindra manna og kvenna. Minntist Halldór Þorsteins með þakklátum hug fyrir þá hjálp og taldi hann einn af mestu velgjörðarmönnum sínum.
Á efri árum minntist Halldór oft á Eyjarnar sínar, og það með þeirri hugarhlýju, að engum duldist, að þar hafði hann alsjáandi skynjað fólkið og umhverfið.
Halldór Brynjólfsson dó 28. janúar 1948.
Eftir að hann missti konu sína, var stjúpdóttir hans, Steinunn, styrkasta stoðin hans, eins og fyrr segir. Dóttir hennar var oft hjá honum, annaðist hann og veitti yl og birtu inn í líf hans. „Þögn einverunnar er oft áleitin,“ sagði Halldór heitinn. Sjálfur hafði hann svo létta lund og var gæddur svo mikilli sálarbirtu, að lengst af ævi sinnar gat hann veitt ylgeislum gleði og listar inn í líf meðbræðra sinna. Hann unni lífinu þrátt fyrir allt og dó þakklátur meðbræðrunum fyrir rétta hjálparhönd og hugarhlýju, þó að eiginkonu sinni hefði hann mest að þakka eins og hann sagði sjálfur.
Hann gat þess í lifanda lífi, að þeir einir hefðu stungið hann „títuprjónum“, sem kölluðu hann „Dóra blinda“, og kenndu hann þannig við sorg sína og lífsins skugga.

Þ.Þ.V.

Heimildir:
1. Nokkrir einstaklingar hér í Eyjum;
2. Tímaritið „Ægir“ XII. árg. og XXXVII. árg.;
3. Lesbók Morgunblaðsins 12. jan. 1943.

Þ.Þ.V.