Blik 1951/Í sjávarháska
Það var mánudaginn 21. marz 1949. Klukkan 9 um morguninn tygjuðu þeir sig til róðrar, systrasynirnir Guðjón Magnússon og Hallgrímur Þórðarson í Vestmannaeyjum. Ferðinni var heitið upp undir Landeyjasand með handfæri, því að síli hafði gengið og mikið fiskazt þar undanfarna daga. Farkosturinn var trillubáturinn Birgir, opinn, tæpl. þrjár smálestir að stærð.
Einnig fór á sömu slóðir þilfarsbáturinn Agnar. Skipshöfn tveir menn.
Á ellefta tímanum renndu þeir frændurnir fyrst færum á tíu faðma dýpi. Veður var blítt og kyrrt en talsvert brim. Um ellefu leytið dundi regnskúr yfir og sló fyrir golu af norðaustri.
— Eftir fjórðung stundar var komin suðvestan bræla. Þá færðu þeir frændur sig nær Agnari. Þegar þeir nálguðust hann, kom í ljós, að vél hans var ekki í gangi, en báturinn kominn ískyggilega nálægt brimgarðinum í álandsvindinum. Komu þeir frændur þá taug í Agnar og drógu hann frá landi, þar til menn Agnars álitu sér borgið, því að vélin væri að komast í gang. Þó vildu þeir frændur dvelja við, þartil víst væri, að vélin fengist í gang. Það heppnaðist ekki að sinni. Kipptu þeir þá Agnari ennþá dýpra og slepptu honum ekki fyrr en vélin tók á rás. Þá var kominn stormur. Héldu þá báðir bátarnir heim á leið. Stefndi Birgir austanvert við Elliðaey og hafði storminn á kinnung, en Agnar hélt á Yztaklett, og var hann á að gizka 200 metrum á eftir Birgi.
Eftir svo sem fimmtán mínútna ferð fengu þeir frændur sjó á bátinn. Við það rifnaði borð í botni bátsins bakborðsmegin og myndaðist tveggja metra löng rifa frá stefni. Þar streymdi inn sjór í stríðum straum, því að rifan var sumstaðar um fingurþykkt á breidd. Stöðvuðu þeir þá vélina samstundis til þess að draga úr lekanum. Tók annar til að troða í rifuna vettlingum, tvisti, fóðri, er hann reif úr jakka sínum, o.fl., og smurði yfir með koppafeiti. Hinn veifaði Agnari í ákafa. Menn Agnars virtust ekki sjá neyðarmerkið. Reyndist svo vera, þegar í land kom. Þar skildi því með bátunum. Var þá kominn töluverður sjór í Birgi, og tóku þeir til að ausa af öllum mætti. Þeir höfðu tvær fötur í bátnum og góða handdælu. Þau tæki gáfu þeim strax lífsvon.
Þegar þeir frændur höfðu gengið frá rifunni svo sem kostur var á, settu þeir upp segl, stórsegl og þríhyrnu, og sigldu liðugan beitivind til hafs í þeirri von að hitta togbát eða togara.
Þegar þeir höfðu siglt á að gizka hálfa klukkustund, komu þeir auga á togara og tóku stefnu á hann. Skall þá hríð á með ofsa stormi eða 8—10 vindstigum. Þeir tóku þá stórseglið niður og sigldu á þríhyrnunni einni, því að báturinn þoldi ekki bæði seglin. Í hríðinni misstu þeir sjónar á togaranum. Jókst nú bæði lekinn og ágjöfin. Þeir hleyptu því bátnum nær vindi, bundu stýrið og jusu báðir af kappi, meðan élið stóð yfir en höfðu vakandi auga á sjó eða kvikum.
Þegar élinu létti, dró úr storminum. Settu þeir þá upp segl á ný. Brátt sáu þeir aftur togarann, sem þeir ályktuðu að væri að veiðum.
Þeir hugðu sig eiga svo sem hálfrar stundar siglingu að honum, þegar hann tók stefnu til hafs og hvarf þeim úr sýn. Urðu þeim það mikil vonbrigði.
Sjór fór vaxandi, og fengu þeir nú brátt sjó á bátinn, sem hálffyllti hann. Þeir hleyptu nú enn bátnum upp í vindinn, bundu stýri og jusu báðir af kappi.
Nokkru síðar sáu þeir bát á heimleið. En svo djúpt var hann, að engin von var til, að hann kæmi þeim til hjálpar. Hann hvarf þeim brátt.
Þegar þeir höfðu þurrausið bátinn, var seglið sett upp á ný og siglt áfram til hafs með þeirri ætlan að ná fyrir Dyrhólaey fyrir myrkur. Sigldu þeir þannig nær klukkustund í stríði við leka og ágjöf.
Skyndilega kom í augsýn bátur, sem fór mjög nálægt þeim. Þeir þekktu þegar bátinn. Það var Jón Stefánsson skipstjóri Björgvin Jónsson frá Úthlíð í Eyjum. Urðu þeir þá mjög glaðir við. Annar veifaði til bátsins, en hinn jós af kappi. Þeir veifuðu og veifuðu en án árangurs. Nú var báturinn kominn æðilangt fram hjá þeim. Það þyrmdi yfir þá og vonleysið settist að þeim.
„Þetta virðist ætla að verða okkar síðasta ferð,“ sagði annar þeirra. Hinn jánkaði því. Þetta var í fyrsta sinn í hrakningnum, sem dauðinn flögraði í hug þeirra. Kappið og viðfangsefnið að halda bátnum ofansjávar hafði til þessa tekið hugann allan.
Allt í einu sjá þeir, að bátnum er snúið í áttina til þeirra. Af hreinni tilviljun hafði einn skipverja á Jóni Stefánssyni komið auga á Birgi í æðandi storminum og briminu. Gleði þeirra frænda verður ekki með orðum lýst. Björgunin tókst vel, og Birgir var dreginn á þilfar hins stóra báts. Þá voru þeir frændur 11 sjómílur austur af Eyjum. Þeir eru hraustir menn og voru ótrúlega lítið þrekaðir. Þeir eru líka trúmenn, sem trúa því, að hin gifturíka skipshöfn Jóns Stefánssonar hafi lánazt björgunin fyrir atbeina æðri máttarvalda.
Klukkan eitt þennan dag voru þrír stórir bátar sendir út til þess að leita að Birgi. Þegar Jón Stefánsson hafði siglt til lands svo sem hálfa klukkustund, eftir að hann bjargaði Birgi, mætti hann leitarbátunum, sem voru á leið austur með landi og höfðu samflot með vissu millibili.
Klukkan fimm um kvöldið flaug þá sagan um hina giftulegu björgun um bæinn og snart þorra Eyverja, því að ,,eitt er bandið, hvar sem þér í fylking standið“.
- Þ.Þ.V. skráði.