Blik 1939, 5. tbl./Nokkur sker fyrir sunnan Eyjar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939


Nokkur sker fyrir sunnan Eyjar

.


Áður fyrr voru Litli og Stóri Geldungur fastir saman með steinboga. Undir þessum boga var gat álíka stórt og gatið á Dyrhólaey. Yfir gatið mátti ganga á boganum. Geldungur er hærri en Súlnasker en minni um sig. Uppi á honum verpir mikið af Súlu, lunda og fýl, og utan í honum mjög mikið af svartfugli. Í jarðskjálftunum miklu árið 1896 féll þessi bogi niður og síðan hafa þessir klettar verið kallaðir Litli og Stóri Geldungur. Litli Geldungur er norðar og er minni.
Rétt við Geldunginn er Þúfusker. Hæð þess er það mikil, að svartfugl verpir þar. Þar er einnig Hundasker og brýtur yfir það í miklum brimum. — Fyrir vestan það var svonefndur Bládrangur. Hann var frábrugðinn öllum öðrum dröngum hér í kring, því að hann var úr stuðlabergi. Í Erni og fleiri dröngum eru lög af því. Þessi drangur var jafn breiður að ofan og neðan og stóð lóðrétt upp í loftið og var hann ókleifur. En svo myndaðist sprunga í bergið og upp um hana var hægt að komast. Fyrsti maðurinn, sem komst upp, var Ólafur Ólafsson. Þegar hann kom upp, var svartfuglinn mjög spakur, því að hann hafði aldrei mætt neinni styggð og hann settist utan á mennina. Þar drápu þeir 1600—1800 svartfugla. Það var gizkað á, að hæð drangsins væri 40—60 metrar. Hann stóð á móbergi, en standurinn var úr stuðlabergi.
Þessi einkennilegi drangur hvarf í einu stórbrimi árið 1907. Það vissi enginn fyrr en hann var farinn. Sprungan, er hafði myndast í bergið, hafði smátt og smátt gliðnað í sundur. Nú sjást aðeins leifar eftir hann.
Heimildarmaður er Þorst. Jónsson útvegsbóndi og formaður í Laufási.

Skráð hefir Jón Þorsteinsson,
II. bekk.