Björgvin Þórðarson (Vallartúni)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Björgvin Guðmundur Þórðarson sjómaður, vélstjóri, kaupmaður fæddist 11. maí 1924 í Víkurgerði í Fáskrúðsfirði og lést 26. maí 2001.
Foreldrar hans voru Þórður Gunnarsson bóndi, útgerðarmaður, f. 25. júlí 1883 á Kleifastekk í Breiðdalshreppi, S-Múl., d. 7. janúar 1948, og kona hans Guðrún Jónasdóttir húsfreyja, f. 4. júlí 1880 á Hlíðarenda í Breiðdalshreppi, d. 3. júní 1945.

Bróðir Björgvins var Gunnar Jónas Þórðarson, fyrri maður Lilju Finnbogadóttur frá Vallartúni, f. 15. febrúar 1920, d. 1. maí 1959.

Björgvin lauk hinu minna vélstjóraprófi í Neskaupstað 1943.
Hann var sjómaður í Eyjum frá 1941, en flutti til Eyja 1946, var vélstjóri á ýmsum bátum 1943-1950, m.a. í vöruflutningum með Nönnu RE 9 frá Reykjavík til Eyja, en vann eftir það við fiskimat, átti Skýlið í Friðarhöfn með Ólafi Finnbogasyni mági sínum og sá um rekstur þess.
Björgvin sat í stjórn Vélstjórafélags Vestmannaeyja 1947-1952.
Þau Ásta giftu sig 1948, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu í fyrstu í Vallartúni, en á Herjólfsgötu 6 frá 1958. Þar bjuggu þau til Goss 1973, en þá í Keflavík og að síðustu í Hafnarfirði, fyrst á Suðurvangi 14, en að síðustu á Sólvangsvegi 3 í 22 ár.
Björgvin Guðmundur lést 2001.
Ásta dvaldi síðast á Hrafnistu í Hafnarfirði. Hún lést 2020.

I. Kona Björgvins Guðmundar, (13. nóvember 1947), var Ásta Guðfinna Finnbogadóttir frá Vallartúni, húsfreyja, fiskverkakona, f. 21. febrúar 1927, d. 11. janúar 2020.
Börn þeirra:
1. Guðrún Þórdís Björgvinsdóttir býr í Svíþjóð, f. 16. febrúar 1949, d. 14. október 2004. Maður hennar Gísli Tómas Ívarsson.
2. Gunnar Jónas Björgvinsson, f. 15. september 1950, d. 5. nóvember 1968, fórst með Þráni NK 70.
3. Lilja Björgvinsdóttir sjúkraliði, f. 27. maí 1967. Maður hennar Þórhallur Óskarsson.
4. Gunnar Björgvinsson slökkviliðsmaður, starfsmaður Rauða krossins, f. 9. febrúar 1969. Fyrrum kona hans Margrét Gunnarsdóttir. Kona hans Birna Blöndal.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.
  • Morgunblaðið 27. janúar 2020. Minning Ástu.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vélstjóra- og vélfræðingatal. Ritstjórar: Þorsteinn Jónsson og Franz Gíslason. Þjóðsaga 1996 og 1997.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.