Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Ræður fluttar á 25 og 30 ára afmæli Vestmannakórs
Ræða er formaður Vestmannakórs hr. Sveinn Guðmundsson flutti á árshátíð Vestmannakórs að Hótel HB. Það var á 25 ára árshátíð söngkórsins.
Háttvirtu gestir. Góðir söngfélagar.
Ég skal ekki þreyta ykkur með oflangri tölu, enda þótt ærið tilefni sé til þess, þar sem Vestmannakór, með því nafni, er 25 ára gamall.
Þetta nafn hlaut kórinn í október 1925. Nafnið gaf honum söngstjóri kórsins Brynjúlfur Sigfússon.
Hann gat þess við mig eitt sinn, að hann á göngu sinni um Eyjarnar og í það skipti inni í Dal, hefði hann velt fyrir sér, hvaða nafn kórinn skyldi hljóta. Hefði sér þá dottið í hug, að ýmsir staðir hér í Eyjum væru nefndir kórar, svokallaðir fuglakórar, en þeir eru bundnir vel flestir við einn merkilegan atvinnurekstur eyjabúa, fuglatekjuna. En þeir, sem þá atvinnugrein stunda, telja, að fátt veiti þeim meiri gleði, fyrir utan fjárhagslegan ávinning. Kórsöngur er mikill gleðigjafi og veitir þeim, er skyn bera á tóna, andlega næringu. Kór er líka svo sem kunnugt er, samnefni margra radda. Enn eitt kom hér til greina. Brynjúlfur sagðist oft í æsku, ásamt félögum sínum, hafa farið inn í Sýslumannskór, en hann er sem kunnugt er austan í Hánni, og sungið þar og þótti mikið til koma. Það vita þeir, sem reynt hafa, að í hellisskútum og hellum er gaman að syngja. Hamraveggirnir endurkasta tónunum og gera sönginn hreimmeiri, þar sem góð skilyrði eru fyrir hendi. Það er og alkunnugt, að hér á landi heita margir hellar sönghellar. Fyrri hluti nafnsins er líka auðskilinn. Hann er bundinn við nafn Eyjanna. Að kvöldi þessa dags sagðist Brynjúlfur hafa fært þetta nafn inn í minnisbók sína, minnisbók kórnum viðkomandi.
Því miður get ég ekki rakið sögu kórsins hér s.l. aldarfjórðung, enda þótt ærið tilefni sé til þess. En til þess skortir mig allar heimildir. Þær einu sem til eru, eru í vörslum söngstjóra Brynjúlfs Sigfússonar, en þeirra er ekki hægt að afla sér að svo komnu og verður því að bíða betri tíma. Eigi að síður veit ég, að ýmsar heimildir, ekki ómerkar, eru hjá Brynjúlfi, þareð hann er mjög nákvæmur í öllu starfi sínu og þá ekki síst á þessu sviði.
Við segjum, að Vestmannakór sé 25 ára gamall. Það er þó raunar ekki nema hálfur sannleikur. Það væri jafnrétt að segja, að kórinn væri kominn yfir fertugsaldur. Það eru til öruggar heimildir fyrir því, að Brynjúlfur Sigfússon stjórnaði hér blönduðum kór 1908 við konungskomuna, og af þeim vísi, sem þá var lagður, er Vestmannakór stofnaður. Hlaut hann nafn sitt 1925, en fékk loks formlega félagsstjórn og sett lög 1937. Kórinn var því raunar kominn á gjafvaxta aldur, er hann hlaut nafnið, en svo leyfi ég mér að kalla blandaða kórinn, sem Brynjúlfur Sigfússon stjórnaði í 4o ár. Síðan hefir blandaður kór jafnan starfað hér undir stjórn Brynjúlfs. Vestmannakór er þessvegna með elstu blönduðum kórum á landinu utan höfuðstaðarins. Er það ekki ómerkur þáttur í sönglífi Eyjanna. Vestmannakór var einnig einn af 5 blönduðum kórum, sem stofnuðu Landssamband blandaðra kóra - L.B.K.
Á þessum merku tímamótum getið þið eldri félagar látið hugann reika til liðinna ára og ég efast ekki um, til margra ánægjulegra stunda er að minnast, bæði sjálfum ykkur viðkomandi og ekki síður vitundarinnar um það, að hafa átt þess kost að veita samborgurum ykkar ánægjulegar stundir. Það er og ef til vill gleðin mesta.
Það er athygglisvert, að hér inni eru söngfélagar, sem sungið hafa í blönduðum kór undir stjórn Brynjúlfs Sigfússonar allan þennan tíma eða yfir 4o ár. Og ég vil ekki láta hjá líða að geta 3ggja félaga, sem lengst hafa sungið í Vestmannakór (eins og fyrr getur leyfi ég mér að nefna kórinn því nafni frá byrjun): Bergþóra Árnadóttir frá Grund, sem okkur til mikillar ánægju er hér stödd, söng 12 ára gömul á Þjóðhátíð Vestmannaeyja; Árni J. Johnsen, er söng á þjóðhátíð 14 ára gamall. Þá er litlu yngri á söngbrautinni fr. Inga Þórarinsdóttir. Enn syngja þessir félagar sem ungir væru. Enn mun frú Bergþóru vera leikur einn að syngja upp á F og A með sinni ágætu sópranrödd. Inga Þórarinsdóttir leiðir Altinn með ágætum og Árni J. Johnsen rymur enn bassann með sinni hreimfögru bassarödd. Þið sjáið af þessu, að það hafa verið styrkar stoðir, sem stóðu að stofnun Vestmannakórs. Fleiri mætti nefna. Þessum áhugamönnum á flokkurinn og sönglíf Eyjanna mikið að þakka. Nöfn þeirra eru geymd, en ekki gleymd.
Á þessum árum er mér kunnugt um, að einsöngvarar kórsins hafa verið: Frú Jóhanna Ágústsdóttir og frú Ásta Sigurðardóttir í sópran, Árni J. Johnsen í bassa (barriton), Páll Ólafsson, Sunnuhvoli í bassa, fyrrum, Ármann Guðmundsson, Steinum í bassa, Sigurður Bogason, Stakkagerði, Konráð Bjarnason, Blátindi í tenór. Einsöng í Alt-rödd sungu frú Torfhildur Sigurðardóttir og ungfrú
Áslaug Johnsen.
Ég þori að fullyrða, að Vestmannakór hefir aflað sér almennra vinsælda og hylli Eyjabúa. Svo tengt er nafnið „Vestmannakór“ við nokkra tylli- og hátíðisdaga Eyjanna, t.d. Þjóðhátíð Vestmannaeyja, 17. júní, 1. desember og fleiri, að ég hygg, að í langflestum tilfellum hafi kórinn lagt til skemmtikrafta á þessum hátíðisdögum síðastliðinn aldarfjórðung. Það er sönnun þess, annarsvegar, að Vestmannakór hefir lagt drjúgan skerf til menningar Eyjanna, hvað söng- og félagsmál áhrærir og hinsvegar gefur það fyllilega ástæðu til að ætla, að kórinn hafi notið almennra vinsælda. Svo samgróinn var og er Vestmannakór Þjóðhátíð Eyjanna að um það var talað þau árin, sem kórinn starfaði ekki, að margur hafi saknað þar vinar í stað. Sé þetta rétt, geta endurminningarnar okkar um kórinu og starf hans verið sannari, og hver og einn félagi getur verið stoltur af því að hafa verið meðlimur hans og lagt fram krafta sína, hver eftir bestu getu. Ef allar þær stundir, sem kórfélagar hafa varið til æfinga þennan aldarfjórðung, væru lagðar saman, ætla ég hver og einn ætti þar alllangan vinnudag að baki. Þessi vinna hefir að sjálfsögðu verið ynnt af höndum af fórn og áhuga fyrir list listanna, þ.e. sönglistinni. Sú fórn hefir af mörgum verið tvöföld, sérstaklega kvennanna, sem oft við erfiðar aðstæður hafa sótt æfingar og fórnað heimilisönnum og heimilisánægju fyrir sönglistina. Þó er sú fórnin mest, sem söngstjóri kórsins Brynjúlfur Sigfússon hefur látið hugðarmáli sínu í té, sönglistinni og Vestmannakór. Það starf, sem önnur menningarstörf, verður aldrei metið að krónutali. Endurgjaldið fyrir fórnfúst starf er fyrst og fremst vitundin um það að hafa lagt fram skerf til menningarmála byggðarlagsins og aukið gleðistundir sjálfs síns og samborgara sinna.
Vestmannakór hefir ynnt brautryðjendastarf af hendi. Það hefur hann með starfi sínu skráð á spjald sögunnar. Og það verður ekki afmáð.
Áður en ég lýk þessum sundurlausu hugleiðingurn mínum um 25 ára afmæli kórsins, vil ég ekki láta hjá líða að geta þess, að ég hygg hæst beri í minningakeðju okkar um starf kórsins, söngför sú, er hann fór 1941 hér upp á land um Stokkseyri og austur í Vík, og í annað sinn til Reykjavíkur 1944. Ég hygg, að þessar söngfarir hafi eftir efnum og ástæðum verið kórnum til sóma og þó sérstaklega aukið honum nauðsynlegt sjálfstraust og glætt áhuga fyrir áramhaldandi starfi, enda þótt á því hafi verið nokkur brestur, af ástæðum, sem ykkur eru öllum kunnar.
Til gamans skal ég geta þess, að eitt ár kom kórinn hér fram 9 sinnum opinberlega og var þó neitað að syngja einu sinni eða tvisvar það árið. Þótt efni þessu mætti gera meiri og allítarlegri skil, læt ég hér staðar numið af ástæðum, sem ég gat um í upphafi.
En að endingu leyfi ég mér fyrir hönd Vestmannakórs að tilkynna þeim Árna J. Johnsen, Bergþóru Árnadóttur og Ingveldi Þórarinsdóttur, að þau eru hérmeð gerð að heiðursfélögum kórsins fyrir langan og með afbrigðum góðan starfsferil innan kórsins, og vil hérmeð afhenda þeim heiðursskjöl, sem lítinn þakklætisvott, sem staðfesta þessa vinfesti okkar og þakklæti. Er það einlæg ósk Vestmannakórs að fá að njóta starfskrafta ykkar sem allra lengst í þágu söngmenntar þessa byggðarlags. Kórinn mun ávallt minnast ykkar sem þriggja af máttarstólpum sínum, sem aldrei brugðust. Njótið heil þessa heiðursvotts Vestmannakórs.
Það eru nú liðin 5 ár, síðan Vestmannakór hélt upp á 25 ára afmæli sitt. Orsakir til þess eru ykkur öllum kunnar, - óneitanlega finnst mér þessi ár hafa verið óþægileg eyða í sögu söngmála Eyjanna. Vil ég þó ekki á nokkurn hátt draga úr því ágæta starfi, sem aðrir söngkórar og hljómsveitir hafa haldið uppi með ágætum hér í Eyjum undanfarin ár.
En Vestmannakór, undir stjórn Brynjúlfs Sigfússonar, var búinn að skapa sér þann sess í sönglífi Eyjanna, að mörgum mun hafa fundist skarð fyrir skyldi, er kórinn lagðist niður, er stofnandi hans og stjórnandi varð að hætta störfum vegna veikinda árið 1946. Síðan hefir kórinn ekkert starfað fyrr en á s.l. ári, að heitið geti,vegna vöntunar á söngstjóra.
Að Brynjúlfur Sigfússon lét af stjórn Vestmannakórs var raunar þyngra áfall en við flest gerum okkur grein fyrir. Það er af þeirri einföldu ástæðu, að Vestmannakór var fósturbarn Brynjúlfs Sigfússonar. Hann skóp kórinn - og ef ég mætti svo að orði komast - ól hann við brjóst sitt frá upphafi til þess dags, er hann lét af störfum. Vestmannakór og Brynjúlfur voru ódeilanleg eining.
Frístundir sínar helgaði Brynjúlfur kórnum og öðrum hugðarefnum á sviði söngs og tóna. Hygg ég, að með sanni megi segja, að margur kórfélagi hafi á gagnkvæman hátt helgað kórnum sínar frístundir, þegar þess var óskað. Einn snarasti þáttur í lífi Brynjúlfs Sigfússonar hér um margra ára skeið var helgaður kórnum. Þegar svo þessi hlekkur brast, megingjörðin í starfi og lífi kórsins, stjórnandi hans og stofnandi hætti störfum, þá hlaut það að verða kórnum stórt áfall. Kórinn var í þessu tilfelli eins og jurt, sem svift er upp með rótum og færð í annan jarðveg um stundarsakir. Hún visnar, svo að það tekur sinn tíma að gefa henni líf að nýju. Það hlaut að taka hann nokkurn tíma að samlagast nýjum vaxtarskilyrðum, enda þótt þau væru útfærð með ágætum. En minningar liðinna ára um ánægjulegt starf á að vera kórnum kyndill og vegvísir til áframhaldandi starfs.
Við megum ekki festa hugann um of við liðna tímann, enda að jafnaði tilgangslaust að stara inn í gamlar tíðir. Söngkraftar eru enn svipaðir fyrir hendi og áður, og vilji og fórnarlund ætti að geta verið að sama skapi og áður var. Þessvegna hljótum við að geta litið björtum augum til framtíðarinnar. Og þó að ýmsum - ef til vill – finnist, að þungt hafi verið fyrir fæti fyrir starfsemi kórsins undanfarið, þá ætla ég, að til þess liggi mjög eðlilegar ástæður. Þegar núverandi söngstjóri,
Haraldur Guðmundsson, tók við kórnum, hafði kórinn legið niðri um 4-5 ára skeið eins og áður er á drepið. Af þeirri ástæðu einni saman, er ég ekki viss um, að allir hafi gert sér grein fyrir því, að aðstaða söngstjóra var síður en svo góð. Eins og ég hefi minnst á hafði Vestmannakór eingöngu starfað undir stjórn Brynjúlfs Sigfússonar. Er hans missti við, kusu margir eldri félagar að hætta störfum innan kórsins samtímis. Jafnvel nokkrir þeirra elstu höfðu aldrei verið undir stjórn annars söngstjóra en Brynjúlfs. Og Íslendingurinn er fastheldinn og tryggur. Raunin varð því sú, að nokkrir elstu kórfélagarnir vildu draga sig í hlé, enda höfðu þeir vel flestir fulla ástæðu til þess, vegna aldurs og annarra ástæðna. Núverandi söngstjóri þarf því að nokkru leyti að skapa kórinn með nýju fólki. En til þess þarf að sjálfsögðu nokkurn tíma. Ég tel, þegar á allt er litið, þá hafi kórinn undir stjórn Haraldar Guðmundssonar starfað vonum framar.
Að ég lít björtum augum á framtíð Vestmannakórs, dreg ég af tveim ástæðum:
Íslenska þjóðin er söngelsk. Forfeður okkar og -mæður hafa yljað sér margt skammdegiskvöldið við söngvaseið, meðan setið var við kulnandi glæður. Orðsins list - sem er rómuð mjög - hlaut þjóðarsálin að íklæða tónum og hún gerði það. Því til sönnunar er hið mikla þjóðlagasafn Bjarna sáluga Þorsteinssonar. Það talar sínu máli um sönghæfni þjóðarinnar. Enn má og benda á, að á íslenskri sálmasöngbók eru sígild verk íslenskra höfunda, sem sungin eru í hverri kirkju oft á ári. Ég trúi því, að forfeður okkar hafi skilað þessum arfi - sönghneigðinni - til okkar nútímamanna.
Önnur rök, ekki veigaminni, hníga að því, að Vestmannakór eigi framtíð fyrir sér. Við, sem hér búum, höfum þann metnað til að bera að vera og verða ekki eftirbátar annarra byggðarlaga í þessu efni. Svo að segja daglega heyrum við á öldum ljósvakans tónaregn hinna ýmsu kóra víðs vegar að af landinu. Höfum við ekki þann metnað til að bera að halda uppi hróðri Eyjanna á sviði söngs og tóna eftir bestu getu eins og í öðrum greinum? Við getum það, ef við viljum, og við erum fær til þess, ef aðeins viljinn er fyrir hendi. Í ljósi þessara staðreynda ótttast ég ekki um framtíð Vestmannakórs. Við, sem erum orðin nógu gömul í kórnum og að árum, erum sennilega búin að syngja út okkar fegursta skeið. Eigi að síður hvílir sú skylda á okkur að hlaupast ekki af verðinum, fyrr en ungir og betri kraftar eru komnir í staðinn. Jafnframt veit ég, að við eigum þann þroska að þoka um set fyrir nýrri og yngri kröftum, þegar sá tími kemur.
Í ljósi þeirra æskilegu sanninda, að nútíðin sé hæfari um flutning tónverka en fortíðin, og framtíðin verði okkur fremri, þá á sönglistin hér sem annarsstaðar glæsta framtíð. - Því skulum við treysta.