Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Frásögn af fiskveiðum í lok 19. aldar

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Frásögn af fiskveiðum í lok 19. aldar
Sennilega skráð af Magnúsi Guðmundssyni á Vesturhúsum


Þann 10. apríl 1897 fórum við með 1600 króka lóð í fyrsta sinni. Við vorum búnir að róa þann 7. og 8. þess mánaðar og fara víða og fá 1 í hlut í hvorum róðri. Það virtist alveg fiskilaust á vanalegum fiskimiðum á handfæri að minnsta kosti. Við beittum lóðina um morguninn og rérum nálægt kl 10. Deginum áður hafði smábátur hlaðið inn á Flúðum af þorski og fékk ég hrognin úr þeim fiski í beitu. Svo fékk ég keilu og smáfisk hjá sama bát. Með þessu beittum við lóðina og var meir en helmingur lóðarinnar beittur með þessari ljósabeitu.
Það var gott veður þegar við rérum. Við byrjuðum að leggja lóðina nokkuð austur af Réttarklakk og lögðum beint austur. Þegar við vorum nýbúnir að leggja fór að vinda á austan. Við lágum við austurenda og létum liggja í 1 klukkustund. Þegar farið var að draga bólfærið, var það fast á hrauni, og svo illa, að það slitnaði. Svona byrjaði það þá að ná upp lóðinni.
Við fórum í næsta ból, á milli þeirra voru 2 bjóð eða 400 krókar og þegar farið var að draga var það líka fast. Mér leið nú ekki vel og var satt að segja ekki farið að lítast vel á þetta, en svo losnaði færið. Það var þó heilt, en þegar stjórinn kom, voru þrír krókar af austurálmunni við stjórann. Það voru tapaðir ¼ af lóðinni, en hinumegin við stjórann voru víst 10 úti. Það voru ekki háfar, það voru þorksar, og það var engin festa á lóðinni, og þegar þessir 10 voru inni, sáust enn margir, og drógum við það, sem eftir var lóðarinnar viðstöðulaust til enda, og alltaf voru margir úti, næstum allt stór þorskur. Við höfðum lent austur í hinu stóra Mannklakkshrauni, sem enginn vissi af, með það af lóðinni, sem tapaðist.
Á þessi 1200 króka, sem við náðum fengum við 21 í hlut af þorski og 2 af ýsu í 24 hluti. Það var kominn austanstormur, þegar við vorum búnir að draga, og þegar við vorum komnir til segls, þá lá nú vel á köllum, allir sungu og voru glaðir og var það ekki von, - fiskiríið spáði góðu og byrjunin var glæsileg.
Nú fengum við nóg af hrognum í næsta róður, en austanáttin, sem byrjaði með þessum degi, hélst til 17. sama mánaðar. Þá rérum við í annað sinn með lóðina, það er 1600 króka, en beitan var nú orðin mjög úldin, en við fengum 24 í hlut af þorski og 4 af ýsu, og þá misstum við ekkert af lóðinni. Með deginum, sem við byrjuðum með lóðina og þar til við hættum 6. maí rérum við 11 róðra, alltaf með lóð. Þá vorum við búnir að missa í Mannklakks-hrauninu að heita helming af lóð þeirri, sem sett var upp í byrjun. En þá kunnum við að leggja með því öllu að vestan.
Í þessum 11 róðrum fiskuðum við á skip 5596 þorska og 1416 ýsur. Eftir því sem ég best man, reyndu svo fjögur skip önnur en við, 2 með enska lúðulínu og tvö með sem svarar einu bjóði hvort af gamalli þorskalínu að austan.
Þessa vertíð byrjuðum við að róa 4. mars, (janúar og febrúar var það ár með fádæmum stormasamur) , og vorum búnir að fiska 218 í hlut, og má gera ráð fyrir að lítið hefði við það bæst, eftir því sem það reyndist hjá þeim, sem með færi voru til loka.
Næstu vertíð, 1898, voru öll skip, sem hér gengu á vetrarvertíð útbúin með lóð. Það voru hafðir 200 krókar í bjóði og tveir menn beittu bjóðið. Það voru 2 álnir milli tauma og mest 2 ¼ alin, alltaf var beitt þorsk- og ýsuhrognum, þegar það var hægt, en ef ekki voru nóg hrogn, þá var beitt ljósabeitu, helst lúðu og steinbít.
Fyrst í stað voru margir lengi að beita, og var ekki frítt við, að við sem vorum orðnir vanir lóðinni, gerðum okkur gaman að sumum köllunum. Sagt var, að eitt sinn hefðu tveir, sem beittu saman, fengið eitthvað af bjóði sínu í flækju. Þeir urðu alveg í vandræðum og að síðustu sáu þeir ekki annað ráð betra en skera í sundur alla hina flæktu tauma.
Eitt sinn sá ég þrjá vera að beita sama bjóðið úr stokk. Einn tók krókinn úr trénu, annar lét beituna á og þriðji lagði niður í bjóðið. Það mundi nú þykja dýrt að borga þrem svona mönnum með tímavinnu og það jafnvel næturtímakaupi. Þessa vertíð 1898 var þó ekki alltaf brúkuð lóð og svo var með nokkrar næstu vertíðir.
Ég byrjaði þó með lóð 22. febrúar og næstu róðra, en fiskaði lítið, og svo vildi það reynast í fleirri vertíðir á eftir, að fiskur var mjög stöpull á lóðina þar til kom fram að apríl, og þegar loðnan kom, sem oftast var í kringum miðjan mars, þýddi sjaldan að brúka lóðina. Þetta mun hafa stafað af því, að beitan á lóðinni var svo einhæf. Þó fékkst stundum góður afli á lóð „Inná Ál“, þegar loðnan var gengin, en vanalega var meira af ýsu en þorski.
Fyrstu vertíðina, eftir að lóð varð hér aðal veiðarfærið, voru lóðirnar lagðar á svæðið frá Klökkum og Ledd heim að Heimmiðum austur að Dýpri-Mannklakk og inn að Rófu og Sandahrauni og enfremur hér um Álinn. Þegar fram í sótti og skipum fór að fjölga, fóru menn að sækja lengra sérstaklega var Súlnaskersklakkur fiskisæll og eftirsóttur. Eitt sinn var einn formaður að berja þangað hafstorm í 6 klukkustundir, en sumir sögðu, að hann hafi verið 6 klukkustundir suður á móts við Hellisey og mun það réttara.
Okkur gekk vonum betur að draga út, Þegar við vorum komnir það langt að. „Skötukjaftur var úti“, sagði ég að setja upp og einrifa öll segl, því ég ætlaði að skreppa undir Sand. Nokkrir hásetar mínir létu þess getið, að þeim litist ekki á veðrið og mundi gera austanrók svo það yrði ekki sætt, þegar við kæmum undir Sand, og einn háseti minn sagðist vera búinn að róa 30 vertíðir á stórskipi, og vissi hann ekki til eða kvaðst hafa heyrt þess getið, að það hafi komið fyrir fyrr en nú, að svo fast hafi verið sótt í austanátt, að þurft hefði að rifa segl, en nú væri fullsiglt með öllum seglum einrifuðum.
Þegar komið var inn á 7 faðma undir Sandi, voru segl dregin niður og möstur felld og andæft á allar árar. Við urðum strax vel fiskvarir, enda sátum við þarna í 2 klukkustundir og fengum 12 fiska hlut. Þá var ekki sætt lengur, því að færin stóðu langt fram, enda komið rok. Þá var sett upp og öll segl tvírifuð og siglt út að Eiði. Frá því segl voru dregin upp og þar til þau voru felld út við Eiðisdranga var tæpur hálfur klukkutími, enda var það með því mesta, sem þetta skip mun hafa hlaupið undir seglum. Við hefðum getað náð fyrir austan, en að fara þá leið var miklu verra, enda talið ófært með öllu og okkur vísað frá með merkiflöggum.
Þegar við lentum á Eiðinu var kominn mikill fjöldi karlmanna þangað og allmargt af kvenfólki. Karlmennirnir tóku skipið og röðuðu sér á það svo margir, sem að því komust, og settu það yfir.
Veður var orðið þá svo mikið, að með því að falla á allar árar, vorum við ekki of sælir að draga yfir höfnina og ná í rétta vör. Mjög mun róður þessi hafa verið umtalaður, bæði daginn sem hann var farinn og nokkuð lengi á eftir, og flestum, jafnvel öllum, mun hafa þótt hann illa stofnaður og ég var þeim sjálfum sammála. En hann var farinn af sérstökum ástæðum, sem ég greini ekki frá. En hann sýndi jafnframt, hvað mátti bjarga sér á svona skipi.
Í norðanátt var oft siglt inn á áttræðingum með öllum seglum einrifuðum. Og stundum komust menn í logn, þegar austur með Sandi kom. Eitt sinn snemma morguns var fallið á inn að „Skershala“. Þar var allt einrifað og svo var farið að sigla. Við náðum fyrir Elliðaey að norðan. Þá varð að rifa meira. Gekk svo nokkuð lengi og enn jók veðrið og að síðustu var komið svo mikið ofan veður, að ekki þoldi nema við frumseglinu einu tvírifuðu, enda vorum við þá nýbúnir að snúa við og með þessu segli sigldum við undir Bjarnarey og þaðan heim. Tvö skip, sem voru nokkuð langt á undan okkur að sigla inn, komust í logn austur með Eyjafjallasandi. Tóku þau sem svarar hálffermi í skipin af fiski sigldu út með Sandi og hleyptu svo út í Eyjar. Þennan dag var 12 gráðu gaddur.
Næstu vertíð, þann 18. mars, hlóðum við hér suður með landi og um kl. 11 komum við að. Hér um bil samtímis okkur kom annað skip, líka hlaðið. Það voru fyrstu skipin. Við rérum út og eins hitt skipið, því að þá var en gott sjóveður, dauður sjór að austri og norðan kaldi.
Þegar við erum að fara út Leiðina, er stór sílatorfa undir Heimakletti, heldur austar en á móts við Hringskerið. Þá var skipið, sem kom að undir eins og við að róa út og var komið nokkuð á undan okkur og hélt suður með því. Þar hafði það hlaðið um morguninn eins og við.
Mér datt í hug að reyna þarna í sílatorfunni, því að það var lítill krókur. En þá hafði ég aldrei vitað til að fiskur hefði elt síli svo langt inn á Vík. Við renndum þarna færum og fengum fljótlega um 600 þorska. Eftir lítinn tíma komu tveir eða þrír smábátar með mönnum, sem voru í landi, aðallega verslunarmönnum. En þeir voru varla fyrr komnir út en það tók að brima af austri, svo að þeim var sagt að fara í land, af formanni á skipi, er þá var að koma af sjó.
Við komumst svo út undir Klettshelli og vorum nú smá létthlaðnir. Þá var búið fyrir lítilli stundu að boða „aðgæsluverða leið“ með einu flaggi. En nú óx sjórinn enn meir á orskömmum tíma; við höfðum upp færi og héldum í land, en þegar við vorum utan til á grynnstu legu, er verið að hnýta hinu merkiflagginu í línuna, sem þýddi “ófær leið“. Við höfðum fallið á árar inn að leið, og þetta voru síðustu augnablikin til að fara inn, áður en flaggið kæmi upp, og það var „lag“ á Sólboða. Svo ég „kalla lagið“. En þegar ég hafði sleppt orðinu gengur ólagið á Sólboða. Ég gat lagt út yfir og hætt við að fara inn. En ég lét skipun mína standa í þeirri von, að við mundum nauðuglega sleppa. Ég kallaði tvisvar í þá, sem réru, að þeir yrðu að róa sem þeir mest gætu, jafnvel þó að ég vissi, þeir gerðu svo, enda fengum við fyrsta sjóinn mikið brotinn. Hefðum við verið skipslengd aftar, þarf ekki að efa, að sjórinn hefði sökkt okkur. Þennan dag urðu flest skipin að lenda á Eiðinu.
Eftir þessa vertíð réri ég eitt sinn á bátnum Hannibal suður að Geirfuglaskeri. Það var að vori um varptímann. Ég hafði róið áður þá um vorið á julinu Immanúel, sem áður er skýrt frá í frásögnum þessum og fiskur var þar alltaf nógur, og við höfðum orðið að fleygja mörgum stórum lúðum í hverjum róðri, og af þeim ástæðum fengum við Hannibal. Við vorum 7 á bátnum. Um morguninn, þegar við rérum var dimmt í lofti, en logn og veður gott, svo að við rérum alla leið suður að skeri. Strax á fyrsta kipp byrjaði að kalda á austan. Við komumst þarna í allgóðan fisk á vissum bletti, svo að fljótt varð að kippa, en jafnhliða óx austanvindurinn. Þegar við vorum búnir að leita þarna þrjá kippi, sagði ég að banka upp, og setja upp, en nokkrir hásetar mínir sögðu að óhætt væri að kippa einn til. En ég aftók það með öllu og sagði meðal annars, að langt væri heim, og vesturstraumurinn mundi boða austanstorm, þótt ekki væri meiri vindur, enda væri of lengi setið, en ekki of skammt, og þar með var lagt af stað.
Þegar við vorum búnir að sigla sem svarar í 10 mínútur, þá hvessti svo, að nú varð að rifa og nokkru eftir að því var lokið varð að rifa enn meira. Jafnhliða sáum við, að mjög hrakti úr leið, og mun hafa verið mjög harður straumur, enda þótt enn ætti að vera austurfall. Þegar við hættum að sigla vorum við langt vestar af Breiðuvík. Mig minnir, að þaðan værum við um tvo klukkutíma að berja upp að Álfsey. Þegar þangað kom, var þar allt í einu rokkófi. Og þegar ég skipaði að seglbúa og setja skjögtarstag úr færum á möstrin, sögðu hásetar mínir, að þeim fyndist ekki tiltök að sigla, og það eina væri að liggja undir Moldanefinn. En ég sýndi þeim fram á, að það væri uppgangur af austri. Við værum allir holdblautir, matarlausir og því nær vatnslausir, ég þekkti botninn betur en þeir, enda mundum við slarka yfir flóann, ef ekkert bilaði, og seglin væru góð. Við hefðum hæfilega kjölfestu og gætum rifað seglin niður á smábleðla.
Eftir svobúið hreyfði enginn mótmælum og var svo siglt undan eynni. Og þó að gæfi á bátinn inn eftir flóanum, þá gerði það minna til, hitt gerði gæfumuninn, að ekkert bilaði, enda náðum við fyrir Hænu. Þegar búið var að láta inn við Stafnnes, var lagt á stað austur með landi. Tvisvar var lagt á fyrir „Gatið“ en alltaf sló úti. Í þriðja sinn var enn reynt og þá höfðu betur ræðararnir á það borðið, sem áður hafði slegið á og þá höfðum við austurmeð, en það var langur og strangur barningur, þar til hægt var að hvíla sig við Örn. Þaðan var líka strangt upp að Eiði. En þar var líka tekið vel á móti manni, nóg kaffi og matur.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit