Úr fórum Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Bjarnarey, - frásagnir og kveðskapur
Mjög snemma voru í Bjarnarey við fuglaveiðar:
Jón Einarsson, Garðstöðum,
Guðlaugur Vigfússon, Vilborgarstöðum,
Guðlaugur Sigurðsson, Brekkuhúsi,
Sæmundur Ingimundarson, Draumbæ,
Guðjón Eyjólfsson, Kirkjubæ.
Ekki áttu allir strákar auðvelt með að komast í úteyjar og þá sérstaklega þurrabúðarstrákar. Strákum frá bændaheimilum gekk allt miklu betur í þeim sökum. Ef þurrabúðarstrákum heppnaðist að komast í útey, voru sumir hinna ráðandi manna þar oft óþjálir í framkomu við þá. Mörg dæmi eru tiltæk um þetta, sem átt hafa sér stað fyrr og síðar, þótt óþjál framkoma við drengi sé nú algjörlega horfin.
Eitt sinn var faðir minn sem oftar við veiðar í Bjarnarey. Auk hans voru þar þeir Sigurður Sveinbjörnsson, Brekkuhúsi, Snorri Þórðarson í Steini, Ólafur Svipmundsson, Löndum, Sæmundur Ingimundarson, Draumbæ, og tveir strákar, þeir Sigurgeir Jónsson, Suðurgarði og Kristmundur Sæmundsson, Draumbæ. Ég hafði lengi rellað í pabba að fá að koma til hans nokkra daga. Svo loks fékk ég boð að koma út í ey með næsta sókningsbát, sem var næsta laugardag.
Ég bjó mig út með nesti og nýja skó og fór með bátnum austur í Bjarnarey. Var lagt að Hvannhillu-steðjanum. Ég sat í skutnum og beið rólegur, meðan ýmsu dóti var komið upp til þeirra á steðjanum. Þegar öllu var uppskipað, kallaði pabbi í mig og sagði mér að koma fram í bátinn og koma upp. Hann stóð á steðjanum, neðstur við afgreiðslu bátsins. Þá sagði Sigurður Sveinbjörnsson með allmiklum þjósti: „Strákurinn fer ekki hingað upp.“ „Jú, hann fer einmitt hér upp,“ svaraði pabbi og var nú mjög fastmæltur. „Nei, hann skal ekki hér upp,“ svaraði Sigurður. „Ég kasta honum niður í bátinn aftur.“ „Nei, það gerir þú ekki, Sigurður, ef þú vilt ekki fara sjálfur á hausinn ofan í bát. Og upp skal drengurinn, hvað sem þú segir.“ Ég man vel eftir þessari orðasennu, hef aldrei getað gleymt henni. Sigurður sagði ekki eitt einasta orð, en pabbi bað sókningsmennina að leggja að steðjanum og aðstoða mig við að komast upp.
Ég var fljótur að hlaupa upp og tók pabbi á móti mér. Ólafur Svipmundsson tók síðan vinalega í hönd mér og hjálpaði mér lengra upp og sagði, að hér skyldi ég nú bíða, uns búið væri að afgreiða bátinn til fulls, en það voru einhverjir smápinklar, sem eftir voru bæði í bátnum og á steðjanum. Ég sat þarna eins og brúða, horfði á uppgönguna, á fuglinn og umhverfið. Enginn sagði neitt. Menn unnu þegjandi að afgreiðslu bátsins. Að því loknu var svo haldið up Hvannhillu og upp í kofann. Strákarnir tóku mér vel, og ræddum við saman, meðan verið var að hita kaffið.
Skömmu síðar hóf Sigurður umræður um mig aftur og sagði, að ég yrði að fara heim með næstu ferð, þ.e. næstu sókningsferð. Ekki man ég til, að neinn andmælti þessu, því Sigurður hefir víst verið ráðamaður eyjarinnar. Efalaust hefir föður mínum þótt þetta mjög leitt mín vegna og svo að hafa orðið orðasennu þessari valdandi. En hann hefir talið fullvíst, ég fengi að vera 3-4 daga, ef ég kæmi austur í eyna. Sennilega hefir ekki verið um þetta rætt, áður en ég kom, milli Sigurðar og hans. En faðir minn ansaði Sigurði engu, hefir eflaust viljað forðast frekari orðasennu. Hann var hins vegar nauðbeygður til að vera áfram í eynni vegna brýnna þarfa að fá fuglinn í heimilið. Pabbi var fátækur þurrabúðarmaður, sem hafði lítið upp á að hlaupa annað en fuglaveiðar, og róa á vetrum, vor og haust.
Um eftirmiðdaginn var farið til veiða, og fór ég með og sat hjá pabba. Hann veiddi ágætlega að venju og ekki spillti, að ég sat hjá honum og „hændi að“ með því að bjástra rétt ofan við hann, þar sem hann sat í veiðistaðnum. Lundinn tók vel eftir mér, og varð forvitni hans honum að falli. Þetta skapaði pabba betri veiði, enda tíundaði hann langsamlega hæsta veiði um kvöldið.
Þrátt fyrir allt lá vel á mér. Voru þeir Snorri og Ólafur Svipmundsson mér þægilegir í viðmóti og röbbuðu við mig eins og allt væri í besta lagi. Sæmundur var mér og þægilegur og strákarnir auðvitað eins og best gat verið, en Sigurður man ég ekki til að yrti á mig. Nóttin færðist yfir og þögn ríkti brátt í kofanum, nema menn voru farnir að hrjóta, a.m.k. sumir. Ég gat ekki sofnað, og ég sá að pabbi var vakandi. Hann hélt í hönd mér, uns svefninn sigraði litla strákinn hans.
Ekki var veiðiátt eða fugl við daginn eftir, allir voru við ból. Ekkert var frekar um heimferð mína rætt, og virtist allt vera fallið í réttar skorður. Nokkur vestan kaldi var á og þoka. Það var sunnudagur, sem ég minnist víst lengi.
Skömmu eftir hádegið kom bátur að heiman. Á honum voru þeir Sveinbjörn í Dölum og Guðni J. Johnsen og mig minnir Sigurður Ólafsson í Vegg væri með til þess að liggja á bát, meðan þeir skryppu upp í ey. Þeir Sveinki og Guðni komu svo upp í kofa. Voru það skemmtilegir gestir og dvöldu þeir úti í ey líklega allt að 3 tímum.
Þegar þeir fóru að tygja sig til heimferðar, sá ég að pabbi átti tal við Sveinka. Hann kallaði síðan í mig og sagði mér svo, að best væri, að ég færi nú heim með þeim Sveinka og Guðna til þess að komast hjá frekari illdeilum. Þeir vildu taka mig með sér heim og, þar eð ég væri í ónáð úti í ey, væri þetta heppilegast. Hann sagðist svo koma eftir nokkra daga heim, og skyldum við þá fá Heimaklett leigðan til veiða. Þar gætum við veitt báðir. Eitthvað ræddi hann meir um þetta, en ekki man ég vel, hvað það var, minnir hann líka segja, að Sveinki færi ef til vill í Álsey og færum við þá með honum. Man þetta ekki vel greinilega. Vitanlega hlýddi ég orðalaust þessari ráðstöfun pabba, tók saman pjönkur mínar, sem ekki voru miklar og batt þær í böggul og var þá tilbúinn til heimferðar. Ég kvaddi svo strákana og man ég vel, hve undrandi þeir voru yfir því, að ég væri að fara heim strax. Svo kvaddi ég Snorra og Óla eins glaðlega og ég gat. Ég var þó ekki glaður, því að vitanlega langaði mig að vera lengur. Ég man handtak Óla gamla, það var hlýtt, og heyrði ég hann segja „strákgreyið“. Svo labbaði hann í hægðum sínum götuna norður á ey. Snorri var bæði hissa og ég held leiður yfir þessu. „Svo þú ætlar heim nú?“ Ég jánkaði því. „Ójá, rétt er nú það, en þetta er ekki gott leiði í dag.“ Hann tók svo í hönd mér, svo að hún hvarf inn í hans stóru og styrku hönd. Svo fór hann inn í kofa. Ég fór inn líka, því að Sæmundur var þar inni. Ég kvaddi hann. „Hva, ætlarðu heim núna? Af hverju bíðurðu ekki til miðvikudags, drengur? Það er ekki gott leiði. Það er að koma þoka.“ Eitthvað sagði hann meira, en svo kallaði pabbi og sagði, að þeir væru að fara. Þá stóð Sæmundur upp og sagði pabba, að ekkert vit væri í að láta drenginn fara heim núna. Það væri komin þoka og töluverð vestanbræla. Þá hélt ég, að ég mundi fá að verða eftir, en pabbi sagði, að nóg væri að gert og best væri, ég færi heim. Sæmundur sagði, að það væri ekkert vit í þessu „með strákinn“. Hann var besti maður og vildi öllum vel. En þarna réði hann víst engu eða litlu.
Ég fór að litast um eftir Sigurði. Hann var ofan við kofann að gera að háf, mig minnir setja spækur á hann eða net. Ég gekk til hans, rétti fram höndina og sagði: „Vertu sæll Sigurður, ég er að fara með Guðna og Sveinka.“ Þótt Sigurður hafi sennilega verið fljóthuga og stórgeðja og viljað ráða ráðum sínum, þá var það ekki sjáanlegt nú, er ég beið með útrétta höndina. „Það er mesta vitleysa að fara heim núna, svarta þoka og bræla. Þeir koma ekki heim fyrr en seint í kvöld.“ „Sveinki segir besta leiði og dauðan sjó,“ sagði ég ókvíðinn. Ég þóttist í góðum höndum með þeim á bátnum. Þá man ég vel eftir, að Sigurður sagði: „Bölvuð vitleysa er þetta alltsaman.“ Ég fann að hann var ekkert ánægður yfir þessu ferðalagi með mig strákpattann, illa klæddan til þess að þvælast lengi úti á sjó í þoku og barningi. Nei, Sigurði var alls ekki sama, og hann sýndi það líka glögglega.
Hann gekk fasmikill fram á hlaðið og sagði við pabba eitthvað á þá leið, að það væri mesta heimska að láta mig fara vegna vaxandi vinds af vestri, ég gæti beðið eftir sókningsbátnum. Pabbi sagði, að þetta væri fyrsta ferð heim og nóg væri að gert og heim færi ég. Eitthvað ræddu þeir meira um þetta, sem ég man nú ekki lengur, en það voru engar illdeilur, það man ég vel. Ég rétti svo Sigurði hendina aftur og kvaddi og þakkaði fyrir samveruna. „Jæja drengur minn, vertu sæll, en samveran er nú stutt og hefði getað orðið lengri.“ Eitthvað mjög þessu líkt fóru orð milli okkar, er ég kvaddi hann. Ég fann vel þá og síðar, að þetta var honum hryggðarefni, þótt ekki gætu þeir jafnað sig á þessu pabbi og hann í þetta skipti. Hefir þar um ráðið skapgerð þeirra beggja. Pabbi gat verið þungur fyrir, ef hann reiddist og þá nokkra stund að jafna sig, þó var hann ekki langrækinn. Sigurður var sem sagt fljóthuga og stórhuga, þótti af sumum vilja ráða ráðum sínum sjálfur. Hann var mér eftir þetta ætíð góður og reyndist mér vel í orðum og gjörðum. Man ég glöggt, að nokkru eftir þetta bauð hann mér veru í Bjarnarey, ef ég vildi, um hálfsmánaðartíma, sem ég þó gat ekki notfært mér, þar eð ég fór það sumar í sveit, að Bryggjum í Landeyjum. Einnig vissi ég, að hann bauð pabba að vera við veiðar í eynni, og á vetrum leyfði hann honum að veiða fýl í Hamrinum. Ég bar aldrei neinn kala til hans og sem sagt, hann var mér oft mjög góður í orðum og gjörðum, og þetta atvik í Bjarnarey gleymdist og varð ekki að neinu sundurlyndi.
Það fór eins og Sigurður hafði spáð um heimferðina. Við fengum svarta þoku heim úr Bjarnarey og töluverðan barning. Vorum við lengi á leiðinni og komum loks upp undir Flugin. Var þá orðið framorðið dags. En gaman var á leiðinni. Þeir sungu við raust og nóg var nestið. Ég fékk að róa annað slagið til að halda á mér hita, en lá svo frammi í, og var þar breitt ofan á mig segl og fleira, svo að mér yrði ekki kalt. Þannig lauk þessari Bjarnareyjarveru minni. Og þótt allt endaði vel og með fullri vinsemd, fór svo, að í eyjuna kom ég ekki fyrr en mörgum árum seinna. Þá fórum við Álseyingar í skemmtitúr þangað vestan úr Álsey með mb. Skógafossi. Það var sama sumarið, sem skemmtiferðaskipið þýska, „General von Steuben“, kom fyrst til Eyja.
Þetta umrædda sumar, er ég fór heim úr Bjarnarey með þeim Sveinka og Guðna, fengum við pabbi leigðan Heimaklett og veiddum þar um sumarið sem eftir var lundatímans, ásamt þeim Magnúsi Vigfússyni, (Manga Dalla) og Magnúsi í Hlíðarási. Hann var oft með Guðberg son sinn með sér. Varð sumarafli okkar góður í Klettinum, en erfitt fannst mér að stunda hann nær daglega og langur burður og erfiður á fuglinum. Magnús Vigfússon var allgóður að veiða, og var þó þetta sumar kominn þó nokkuð til ára. Oft veiddi hann undir steininum norður á Efri-Kleifum. Pabbi veiddi þá oft í Hettu að vestan, í Vatnsgili og austan við það. Þá vorum við og oft austan í Heimakletti í svonefndum Steinkatli og veiddum vel. Þar er t.d. ágætur veiðistaður norður við brún rétt neðst og gaman að veiða þar. Þá köstuðum við oftast fuglinum í sjó niður, en bátur var þá til taks að tína upp fuglinn, jafnótt og niður var kastað, og flutti hann síðan fuglinn heim á bryggju.
Þótt ég hafi sagt allnákvæmlega frá þessu atviki um veru mína í Bjarnarey, þá er það ekki gert til þess að rægja Sigurð ráðamann eyjunnar eða neinn annan. Honum hefir eflaust fundist nægilegt að hafa tvo stráka í einu, þótt ekki kæmi sá þriðji, sem var ekki einu sinni frá neinni eignarjörð Bjarnareyjar, og ég kom svo að honum óspurðum. Ef til vill hefir hann og álitið mig einhvern óþekktaranga, sem enginn réði við. En ég held, að með framkomu minni hafi ég unnið hug hans og þeirra hinna, er þar voru. Körlunum hefir sinnast þarna á steðjanum, og ég sennilega komið þar í algjörri andstöðu við Sigurð, þótt faðir minn hafi eflaust átt tal um þetta við hina viðlegumennina, og þeir álitið, að mér myndi óhætt að koma. Ég myndi ekki verða sendur heim, ef ég væri kominn þangað. En þetta fór nú eins og ég hef lýst hér að framan. Gefur það góða hugmynd um erfiðleika sumra unglinga að komast í úteyjar, sem þó var þeirra einlægasta ósk. En það sannar líka, að það var ekki verra að hafa ráðamann eyjunnar með sér, ef vel átti að fara.
Þetta mun ávallt verða mér í minni sem eitt einkennilegasta atvik úr fuglaveiðisögu minnar eigin persónu.
Bjarnareyingar eiga einnig sinn úteyjasöng, söng um hina fögru og tignarlegu eyju sína. Kvæðið er samið af Árna Árnasyni undir hinu alþekkta lagi „Hreðavatnsvalsinn“. Þótt kvæðið sé ekki stórbrotinn skáldskapur, þykir rétt að láta það fylgja þessum úteyjasögnum og hinum fátæklega kveðskap, sem um úteyjarnar og fuglaveiðarnar er að finna. Bjarnareyingar syngja þetta mikið, bæði úti í eynni sinni og svo á afmælishófum Bjargveiðimannafélagsins, þar sem það fyllir upp dagskrá þeirra. Kvæðið heitir
- Bjarnarey:
- Hátignar frjóland fríða,
- friðsæla Vanadís,
- með skrúðgræna brekku blíða,
- blómanna paradís.
- Hún glóir í glitvefsklæðum
- og gullhlað um enni ber,
- í kvöldroðans kynjaglæðum
- hún kallar mig að sér.
- Í Bjarnarey gisti og böl af mér hristi
- um bjartan sumardag,
- eykur yndishag
- auðugt vængjaslag.
- Útsýni fegra og stórglæsilegra
- ég aldrei leit um kring,
- fegri fjallahring,
- fyllri algleyming.
- Ástsöngur hljómar af yndi og ómar
- frá eyjunnar fugla-kór,
- blóm dansa á hillum, bekkjum og syllum,
- brumar þar undir sjór.
- Lognsærinn glitrar, í tíbránni titrar
- hver tindur Eyjalands,
- heillar huga manns
- Heimaeyjar glans.
En margt fleira hefur heyrst kveðið í Bjarnarey, þótt flest af því sé nú glatað. Flest hygg ég það hafa verið vísur um veiði og viðlegu þar, skemmtiferðafólk, sem mjög oft kemur þangað fyrr og síðar.
Þess utan hafa svo orðið til gleðibragir, sem sungnir hafa verið til gamans í úteyjum og á afmælishófum Bjargveiðimannafélagsins. Fyrir nokkrum árum varð eftirfarandi til. Það var nefnt Heimsókn í Bjarnarey. (Sjá kaflann um Óskar Kárason í Bjarnarey 1952):
- Veiðimannavísur um Bjarnareyinga árið 1952
Prolog: | Bjarnarey | ||||||
Bjarnareyjar bóli frá | Hæsta eyna Bjarnar, blíð | ||||||
birst mér Heimaey getur | baðar sólin glæsta | ||||||
yndi hennar ei ég sá | næsta iðin flárnar við | ||||||
annars staðar betur. | faðmar bylgjan æsta. | ||||||
Þakkað kojulán: | |||||||
Blasir gegnum breiðan skjá | Sofið hef ég Siffi minn | ||||||
blessað aftanskinið | sæll á þinni dýnu. | ||||||
á mig svífur Sveini frá | Þar hefir verið, það ég finn | ||||||
sallafína ginið. | þröngt fyrir hana Stínu. | ||||||
Meyjarmyndir hjá Súlla: | |||||||
Siffa ég og Súlla minn | Ýmsir eiga alveg nóg | ||||||
Sigga meður trega | eina meður píu. | ||||||
öls í fínu útlátin | Súlli hefir þarna þó | ||||||
alveg hræðilega. | þrjár fyrir utan Bíu. |
Suður í Geldung þessa þrjá
þramma sá ég kalla.
Gisti ég því glöðum hjá
Garðshorns-Bjarna og Lalla.
Gins í órum greina skal
glæsta eyjar þunda,
sem í fríðum fjallasal
fuglaveiðar stunda.
- Jarðamannasöngur
- Jarðamannasöngur
- (Lag: Ship o hoj. Höf. ókunnur)
- Bjarnarey, Bjarnarey
- bjargfögur rís úr sæ
- eggjavarp og útvarp
- oftlega gleður vorn bæ.
- Mundi á nikkuna leikur af list
- lögin, sem mennirnir dönsuðu fyrst.
- Bjarnarey, Bjarnarey,
- burt rekur sorg og víl,
- jarðamenn, jarðamenn,
- étið þið súlu og fýl.
- Á lokadegi
- Á lokadegi lítill fæddist snáði¹)
- í landi fjarri gamla Ísaláði.
- En björgin heilla hugann og hafið vítt og blátt,
- er fuglar frjálsir kvaka um fagra sumar nátt.
- Bjarnarey, best er þér að unna,
- Bjarnarey, bjargmenn einir kunna,
- Bjarnarey.
¹) Þessi snáði hlýtur að vera Lárus G. Árnason bróðir Árna Árnasonar. Hann fæddist Vestanhafs 11. maí 1896 og lést 15. febrúar 1967. Hann var einn aðal Bjarnareyingur á sínum tíma.
Sem annars staðar í Eyjum hefir Bjarnarey ekki sloppið við, að menn hafi hrapað þar. Þau slys hafa tilheyrt fuglaveiðum og fjallagöngum allt frá fyrstu tíð fram á þennan dag, enda þótt nú sé allur útbúnaður til siga í björgum mikið fullkomnari en áður var.
Úr Bjarnarey hafa hrapað til dauðs, sem kunnugt er um:
7. júlí 1861 Björn Magnússon Bergmann, unglingur frá Gjábakka. Hann hrapaði úr Hrútaskorum. Hann var aðeins 13 ára gamall.
Sigurgeir Jónsson frá Suðurgarði, einn af snjöllustu fjallagöngumönnum, sem Eyjarnar hafa alið. Hann hrapaði úr Hrútaskorunefi 30. maí, þ.e. á uppstigningardag 1935. Hann var fæddur 25. júní 1898.
Bjarni Ó. Björnsson, Bólstaðarhlíð, hrapaði við eggjatöku í Bjarnarey að austan 4. júní 1959. Hann var rösklega tvítugur að aldri. Hann hrapaði úr Skorunni svonefndu, sem er mót ASA á eynni. Fannst ekki, ýtarlega slætt.
Þá er og talið, að Jón dynkur hafi hrapað úr Langvíuréttum í Bjarnarey, þ.e.a.s., að honum hafi verið kippt niður af gagnvað. Hrapaði hann í sjó, meiddist lítið sem ekkert. Hrap hans var um 10 faðma hátt. Þegar honum skaut upp á yfirborðið aftur, var það fyrsta er hann spurði „Heyrðuð þið ekki dynk, piltar?“ Þaraf fékk hann viðurnefnið Jón dynkur. Hvenær hann var uppi veit nú enginn, heldur ekki, hver eða hverra manna hann var. Sagt er, að hann hafi síðar hrapað úr Molda og þá sennilega látist.