Tyrkjaránið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. júní 2007 kl. 11:43 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. júní 2007 kl. 11:43 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Þann 16. júlí 1627 réðust um 300 sjóræningjar frá Algeirsborg á Vestmannaeyjar. Vestmannaeyingar höfðu komið sér upp vörnum við höfnina en sjóræningjarnir sigldu fram hjá höfninni, suður með eynni og gengu þeir á land á Ræningjatanga og komu þannig Eyjamönnum í opna skjöldu. Sjóræningjarnir dvöldu 3 daga í Vestmannaeyjum, með aðsetur á Ræningjaflöt í Lyngfellisdal. Þeir handtóku fólk, bundu á fótum og höndum og geymdu í dönsku verslunarhúsunum, drápu þá sem veittu mótspyrnu eða þóttu ekki söluvænir og eltu uppi flóttafólk sem flúið hafði til fjalla. Alls námu sjóræningjarnir 242 Vestmannaeyinga á brott og seldu hæstbjóðendum á uppboði í Algeirsborg. Þeir drápu um 36 manns og um 200 manns tókst að fela sig. Vestmannaeyingar földu sig á ýmsum stöðum, meðal annars í Hundraðmannahelli og Fiskhellum.

Aðdragandi og sögulegt umhverfi Tyrkjaránsins í Vestmannaeyjum

 
Ræningjatangi.

Þann 16. júlí 1627 gekk fjölmennt lið ræningja á land í Vestmanneyjum úr þremur sjóræningjaskipum frá Algeirsborg, núverandi höfuðborg Alsír, sem lagt höfðu upp í ránsleiðangur til Íslands meðal annarra landa á norðurslóðum. Þeir höfðu þegar farið um með ránshendi og drepið fólk á leið sinni um Austfirði frá 5. - 13. júlí. Þeir voru með alls 110 íslenska fanga um borð auk danskra sjómanna við komuna til Eyja. Eyjamenn sem þegar höfðu frétt af atferli ránsmanna í Grindavík höfðu í fyrstu nokkurn viðbúnað en þegar vikurnar liðu og ekkert sást til ræningja færðist værð yfir fólkið. Á leiðinni höfðu sjóræningjarnir hertekið enska duggu og neytt áhöfnina til að vísa sér góða leið til Vestmannaeyja. Sagan segir að einn skipverja af duggunni hafi vitað af fyrirhugaðri mótspyrnu við höfnina og því ráðið ræningjum frá því að lenda þar. Sjómaðurinn, sem var líklega vel kunnugur á þessum slóðum, vísaði þeim á afvikinn stað, á tanga, suður af Brimurð sem heitir síðan Ræningjatangi. Þaðan réðust ræningjarnir til atlögu Eyjamönnum að óvörum. Það hafði sést til skipanna silast í átt til eyjanna allt frá því um morguninn en er kvölda tók yfirgaf varnarliðið stöður sínar því að margir töldu að þarna væri um dönsk varðskip að ræða og að auki höfðu þau vart mjakast nær vegna mótvinds allan daginn.

Tyrkjarán í Grindavík

Annar leiðangur ræningja frá Salé í Marokkó hafði þá nýlega yfirgefið Ísland eftir viðkomu í Grindavík þar sem þeir tóku 15 Íslendinga til fanga og drápu tvo. Það reyndist þeim erfitt að ná fólki í Grindavík sökum þess að það flúði inn á Reykjanesið og faldi sig víða í hrauninu. Einnig rændu þeir fé, hirtu öll verðmæti, hertóku tvö kaupskip og tóku áhafnirnar til fanga. Ferðinni var síðan heitið til Vestfjarða en sjóræningjarnir hættu við er þeir fréttu af enskum herskipum á þeim slóðum. Í staðinn var sótt að Bessastöðum þar sem tekið var á móti þeim með fallbyssuskotárás úr Skansinum þar. Á fjöru strandaði skip þeirra á skeri. Þeim tóks að losna en þetta varð til þess að þeir hörfuðu heim á leið. Siglt var með fanga til Salé þar sem þeir voru seldir í þrældóm. Einhverjir komust til baka úr þrældómnum þar. (Þorsteinn Helgason, Jón Þorsteinsson og Helgi Þorláksson.)

Ástandið í Evrópu og verslunin við Englendinga

Allt frá siðaskiptum hafði ríkt mikill ófriður í Evrópu sem náði hámarki í 30 ára stríðinu frá 1618—1648. Hollendingar voru t.a.m. í frelsisstríði gegn Spáni. Spánverjar áttu líka í endurteknum útistöðum við Englendinga og Danir við Svía. Svíar og Rússar voru lengi vel í stríði og sömuleiðis Frakkar og Þjóðverjar. Til þess að toppa þetta voru Ottómanar, að öðru nafni Tyrkir, að herja á Evrópu frá Balkanskaganum. Mikill ágreiningur myndaðist sökum allra þessarra stríða um kaupsiglingar milli ríkja og heimsálfa og ólga jókst í samskiptum ýmissa aðila.

Þegar herafli ófriðarríkja var veikur gripu stjórnvöld oft til þeirra ráða að veita sjóræningjum opinbert leyfisbréf til að herja á andstæðingana og var gróða skipt eftir ákveðnum hlutföllum. Spánverjar komu sér t.d. upp sjóræningjamiðstöð í flæmska hluta Niðurlanda (þá Spænsku Niðurlöndin, nú Belgía) sem enn tilheyrði þeim, einkum borginni Dunkirk. Á tímum Tyrkjaránsins áttu bæði Englendingar og Danir fullt í fangi með stríðsrekstur svo ekki sé minnst á stöðug sjórán bæði „Tyrkja“ og Dunkirkmanna í Atlantshafi. (Þorsteinn Helgason)

Englendingar höfðu sótt miðin við Íslandsstrendur og stundað viðskipti í verulegum mæli frá upphafi 15. aldar. Danir höfðu gert ítrekaðar tilraunir til að banna eða a.m.k. takmarka umsvif Englendinga en því var tekið misalvarlega. Árið 1583 samþykktu Englendingar að versla ekki við Íslendinga og veiða aðeins á tilteknum svæðum með tilskildum leyfum. Dönum var sérstaklega í mun að vernda hagsmuni sína í Vestmannaeyjum því þær þóttu mjög arðbærar. Danakonungur talaði t.a.m. um löndin sín tvö; Ísland og Wespenö (Vestmannaeyjar).

Vegna ófriðar á Atlantshafi var dönskum og enskum kaup- og fiskiskipum veitt fylgd á leiðinni til Íslands til að verjast sjóræningjum en vegna bágs ástands bæði í Danmörku og í Englandi 1627 voru Íslandsstrendur auk danskra og enskra skipa nær óvarin fyrir árás Tyrkjanna.

Tyrkjaránið

Eftir að Vestmannaeyingar gerðu sér grein fyrir að Tyrkirnir myndu ekki koma á land við höfnina, reið danski kaupmaðurinn, Lauritz Bagge, ásamt nokkrum mönnum suður eftir eyjunni til að sjá hvort hægt yrði að verjast innrásinni. Hann sá að settir voru út bátar þegar skipin voru komin suður í Bót milli Sæfjalls og Litlahöfða en þar er alls staðar bratt uppgöngu. Hann sendi skilaboð til skipstjórans á dönsku skipi sem lá við bryggju, um að safna liði vopnaðra manna til að verjast komu ræningjanna. Vörnin hefði verið möguleg ef ræningjar hefðu reynt innrás frá þeim stað. Fljótlega sá hann þó að ræningjunum snerist hugur og stefndu þeir suður fyrir og komu í land á Ræningjatanga sem auðveldur er uppgöngu. Kaupmaðurinn Lauritz áttaði sig á því að um ofurefli yrði að etja og sneri við til kaupstaðarins. Á leiðinni mætti hann skipstjóranum og liði hans og sneru þeir allir til kaupstaðar. Kaupmaðurinn og skipstjórinn, ásamt fjölskyldu og fylgdarliði, komust undan á árabátum til meginlandsins. Fyrir flóttann hafði skipstjórinn reynt að sökkva skipi sínu sem lá við festar til að koma í veg fyrir að ræningjarnir næmu það á brott. Einnig bjó kaupmaðurinn svo um að fallbyssurnar yrðu gagnslausar ræningjunum ef þeir tækju þær á sitt vald.

Innrásin hefst

Um þrjú hundruð manns stigu á land í Vestmannaeyjum, skiptu sér í þrjár fylkingar og héldu í átt að höfninni. Fyrsta fylkingin hélt í átt að Ofanleiti, önnur fór vestan Helgafells og kom að bæjunum í Dölum. Þriðja fylkingin fór austan við Helgafell og komu þeir að Kirkjubæ og að Vilborgarstöðum. Á efstu bæjunum komu þeir eyjarbúum mest á óvart því ekki var búist við komu þeirra sunnan frá og átti fólkið þar sér engrar undankomu auðið. Íbúar neðar í byggðinni höfðu hins vegar einhverja viðvörun af háreystinni á eyjunni og gátu forðað sér á flótta. Sjóræningjarnir gripu alla sem urðu á vegi þeirra, bundu á höndum og fótum, og smöluðu þeim saman í dönsku verslunarhúsin.

Flótti undan sjóræningjum

Vestmannaeyingar, sem veittu mótspyrnu eða litu ekki út fyrir að vera söluhæfir, voru umsvifalaust drepnir. Þegar föngunum hafði verið komið fyrir í húsunum voru nokkrir ræningjanna látnir standa vörð. Á meðan fóru hinir í leit að fólki sem komist hafði undan og lá í felum um alla eyjuna. Þeir fundu marga, sem flúið höfðu, í fiskbyrgjum hátt uppi í Fiskhellum, sem er þverhnípt bjarg. Flóttafólkið varð furðu lostið af undraverðri fimi ræningjanna við bjargklifið. Þeir sem ræningjarnir náðu ekki til voru umsvifalaust skotnir niður.

Kaupmaður flýr

Þegar kaupmaðurinn í Vestmannaeyjum, Lauritz Bagge, sá ræningjaskipin bak við Helgafell reið hann suður á eyju og sá ræningjana koma á land. Þá fór hann beinustu leið niður í bæ og boraði göt í stórt kaupskip sitt áður en hann tók fjölskyldu sína og reri í árabát sínum upp á meginlandið. Sömu leið komust skipstjóri kaupskipsins ásamt mönnum sínum. Ekki er vitað að fleiri náðu að flýja þessa hörmulegu atburði á þennan hátt.

Saga Jóns píslarvotts

Austur á Urðum, í Rauðahelli , var séra Jón Þorsteinsson á Kirkjubæ í felum ásamt skyldfólki sínu og fleirum. Einn manna hans gægðist út um hellismunnann til að gá að ferðum ræningjanna en þá sást til hans og var hann drepinn. Með því komst upp um felustaðinn. Jón gekk út og var höggvinn og fólk hans tekið höndum. Sagan segir að um 100 manns hafi falið sig í helli við Herjólfsdal sem síðan er kallaður Hundraðmannahellir.

Sagan af Sængurkonusteini

Sagan um Sængurkonustein er líka alkunn. Kona ein ól barn sitt þar en steinninn er norðvestur af Helgafelli. Ræningjarnir hlífðu bæði konunni og barninu og reif annar laf af skikkju sinni til að sveipa um barnið.

Lok flóttans

Ræningjarnir leituðu að flóttafólki fram á kvöld þann 18. júlí. Talið er að um 200 manns hafi tekist að fela sig fyrir ræningjunum í þá þrjá sólarhringa sem þessi heimsókn stóð. Eftir að öllum föngunum hafði verið komið fyrir í dönsku verslunarhúsunum, Dönskuhúsum, var hafist handa við að skilja að þá sem átti að flytja með til Algeirsborgar og hina sem ekki var líklegt að lifðu ferðina af. Þeir sem ekki voru líklegir til sölu voru þvingaðir inn í verslunarhúsin á ný, útgönguleiðir voru byrgðar og kveikt í húsunum. Ræningjarnir brenndu einnig Landakirkju og höfðu á brott með sér skip danska skipstjórans sem honum hafði ekki tekist að sökkva. Talið er að alls hafi um 36 manns verið teknir af lífi. Ræningjarnir hafa líklega yfirgefið eyjarnar með 242 fanga sína, sem var þá líklega um helmingur íbúa. Einnig höfðu þeir á brott með sér búfénað, kirkjumuni og margt annað verðmætt.

<video> Tyrkirnir.flv </video>

„Tyrkirnir“

Á þeim tíma sem Tyrkjaránið átti sér stað var Ottóman-heimsveldið að stækka mjög ört. Það náði að mörkum Ungverjalands (sem tilheyrði mestmegnis Austurríki) í Evrópu, og að Indlandi (þá kallað Hindoostan) í Asíu. Í Algeirsborg, þangað sem þrælarnir voru fluttir, var æðsti maðurinn nefndur Pasha (پاسها), en það orð er af sama stofni og íslenska orðið „faðir“.

Það nafn sem við notum yfir Tyrkina er því samheiti yfir menn frá þessu gríðarstóra svæði. Ekki er vitað um uppruna sjóræningjana, svo þeir gætu hafa verið frá öllu Ottóman-heimsveldinu.

 
Evrópsk skip í höfn í Algeirsborg.

Algeirsborg (الجزائر, El-Jezair) var að formi til hjálenda soldánsins í Miklagarði (Istanbúl). Marokkó stóð hins vegar utan við Tyrkjaveldi. Íbúar beggja landa voru þó oft kallaðir Tyrkir eins og múslímar voru yfirleitt nefndir um aldabil. Mikið hatur og tortryggni ríkti á milli hinna kristnu Evrópuþjóða og hinna múslimsku „tyrkja“. Það má m.a. rekja til brottreksturs tugþúsunda Mára frá Spáni. Hin múslimsku borgríki uxu sem sjóræningjamiðstöðvar með flota atvinnusjóræningja herjandi á ströndum Miðjarðarhafsins. Í flota þeirra var fjöldi evrópskra sjómanna og skipstjórnarmanna sem gerst höfðu liðsmenn Tyrkja.

Algeng störf þræla í Algeirsborg voru til dæmis sem burðarmenn fyrir kaupmenn, kynþrælar (þá gjarnan í kvennabúrum), hestasveinar og ræðarar á galeiðu-skipum þar sem voru allt að 300 þrælar hlekkjaðir við árar á þremur hæðum og látnir róa á vöktum og var vinsælt fyrirkomulag þar sem þetta þótti ódýr lausn og öllu einfaldari en notkun segla. Skipstjórar þessarra skipa, sem voru réttu nafni kölluð Xebec (borið frem „síabekkó“) voru undir stjórn tveggja aðila - skipstjóra annars vegar, og svo raïs („ræísh“), sem var yfir öllum hernaði. Meðan á siglingum stóð voru raïs og hans menn í yfirumsjón „hvatningarmála“ um borð, þ.e., að þeir börðu þá þræla til róðrar sem sýndu einhvern slaka, þá yfirleitt með þurrkuðum nautsreðri.

Það verður þó að skoða þetta þrælahald með hliðsjón af því að um 1627 var þríhyrningsverslunin í bernsku sinni. Bretar, Frakkar, Hollendingar og margar aðrar þjóðir stunduðu þrælahald í stórum stíl til þess að halda uppi nýlendum sínum. Munurinn var kannski helst sá að Tyrkirnir stunduðu ekki bara þrælahald, heldur einnig þrælasöfnun — á meðan hinar þjóðirnar forðuðust að óhreinka hendur sínar (og mannorð) við slíkt, og keyptu mestan part sinna þræla frá Tyrkjum og öðrum þjóðum sem áttu lönd að strandlínu Afríku.

Afdrif brottnuminna Vestmannaeyinga

Tyrkirnir rændu 242 Vestmannaeyingum. Þegar komið var til Algeirsborgar var fólkið selt hæstbjóðanda. Algeirsborg var höfuðborg sjóræningja og var illræmt ræningjabæli. Flestir voru seldir sem almennir þrælar en nokkrar konur voru keyptar í hjúskap, voru þær keyptar út á fríðleik og gjörvileik. Meðferðin á þeim konum var mun mannúðlegri en í garð óbreyttra þræla. Þær konur fengu ambáttir og þræla til að stjana við sig. Anna Jasparsdóttir var seld háu verði ríkum höfðingja, Iss Hamett að nafni. Hún lifði í lystisemdum og var af almenningi kölluð drottningin af Algeirsborg. Hún fékk mann sinn til þess að greiða lausnargjald fyrir föður sinn og farareyri til Vestmannaeyja.

Ekki fengu allir eins góða meðferð og Anna Jasparsdóttir. Einar Loftsson vildi ekki taka upp múhameðstrú og var því pyntaður. Af honum voru skorin eyrun og framan af nefi ásamt því vera ristur í andlit. Með eyrnasnepla þrædda á band um hálsinn var hann leiddur um götur Algeirsborgar þangað til hann missti meðvitund og lá þar. Miskunnsamur maður kom honum þá undir læknishendur. Fjórum árum síðar keypti hann sér frelsi og tók að sér aldraða móður sína sem hafði verið hent út.

 
Listræn höggmynd af Tyrkja-Guddu.

Ólafi Egilssyni, öldruðum presti, var sleppt stuttu eftir komuna til Algeirsborgar til þess að hann gæti skipulagt söfnun lausnargjalds heima á Íslandi. Söfnunin gekk heldur dræmt fyrst um sinn enda Vestmannaeyjar í lamasessi eftir árásina og brottnám um helmings íbúanna og danska konungsveldið var í fjárhagsvandræðum. Hann sté á land í Vestmannaeyjum 6. júli 1628, rétt tæpu ári eftir brottflutninginn. Hann færði fólkinu fréttir sem ollu bæði fögnuði og hryggð.

Tilraunir til að frelsa þrælana báru fyrst árangur með almennri fjársöfnun á Íslandi, í Danmörku og í Noregi nokkrum árum síðar. Um 35 Íslendingar voru leystir úr ánauð og af þeim sneru 27 aftur lifandi til Vestmannaeyja eftir 9 ára vist í Alsír. Margir karlmannanna gátu greitt eigin lausnargjöld með því fé sem þeir höfðu unnið sér inn með vinnu sinni í Algeirsborg. Lausnargjöld kvennanna voru hærri; t.d. var borgað hæsta lausnargjaldið fyrir konu séra Ólafs, en hún var seinni kona hans, ung og fríð. Nokkrum tókst að leysa sig á annan hátt t.d. með því að slá sér lán hjá hollenskum kaupmönnum.

Jón Jónsson, sem kallaði sig Jón Westmann, fékk menntun og komst til mikilla metorða. Hann varð skipherra og fór í sjóræningjaferðir. Hann lést í Kaupmannahöfn 24 árum eftir Tyrkjaránið. 10 árum eftir ránið komu 27 Íslendingar heim úr Barbaríinu. Flestir voru úr Vestmannaeyjum. Ein þeirra sem kom heim var Guðríður Símonardóttir. Hún var gift Hallgrími Péturssyni. Hún skrifaði frægt bréf frá Algeirsborg sem varðveist hefur fram á okkar dag. Hér er bréfið frá Guðríði, sem oft er nefnd Tyrkja-Gudda:

Algier þann 20. nóvember anno 1631.
Blessaðan Guðs föður, forlíkan og eftirlausn vors herra Jesú Kristi, huggun og upplýsing heilags anda sé í, með og yfir yður alla tíma, minn dyggðaríki húsbóndi og ektaherra, Eyjólfur Sölmundsson. Ástsemi Guðs vors annist yður á sál og lífi. Heilsan í Guði sé með yður alla tíma. Ég minnist við yðar hendur með minni ást og augnaráði elsku. Sælir og blessaðir séuð þér í drottni alla tíma.
Minn ástkæri ektamaður. Enn þó ég, aum mannskepna, óskaði hjartanlega að vita og skilja yðar velgengni, sem þó lukkusemi, þá sýnist þó svo fyriross sem það sé ómögulegt, og er á að sjá sem vér séum allra þjóðabann og þær skepnur sem enginn ann. En Guð vor, sem enginn ann. En Guð vor, hann unni oss í sinni heilagri ástsemi, langa og góða lukkusemi, langa og góða velgengni, langa og góða heill og friðsemi, langt og gott líf og langa lífdaga.
Guðríður Símonardóttir frá Stakkagerði í Vestmannaeyjum.

Félagsleg vandamál í kjölfar Tyrkjaránsins

Margvísleg vandamál sköpuðust í hinni löngu fjarveru Íslendinganna. Margir karlar höfðu t.a.m. misst eiginkonur sínar í hendur Tyrkjanna og öfugt. Makarnir sem heima sátu tóku oft saman við aðra í sömu stöðu. Ekki var mögulegt að veita giftingarleyfi nema maki hefði verið fjarverandi í 7 ár og því taldist athæfið hórdómur sem samkvæmt lögum var refsiverður með dauðadómi. Fæstum þótti mannúðlegt að beita þessari hörðu hegningu á samfélagið sem hafði þegar þolað svo mikið. Því var leitast við að fá dóma mildaða í slíkum tilfellum. Gefinn var út heldur loðinn konungsúrskurður en hann var túlkaður á þá leið að milda skyldi dóma yfir fólki í þessari stöðu. Eyjólfur Sölmundarson í Stakkagerði, maður Guðríðar Símonardóttur (sem síðar var kölluð Tyrkja-Gudda) var dæmdur til líflátshegningar fyrir að eignast barn með vinnukonu sinni, mörgum árum eftir að kona hans var hertekin. Dómnum var þó ekki fullnægt, þar sem að Eyjólfur drukknaði nokkru síðar og var mál hans þar með úr sögunni.

Mikið reiðileysi ríkti í Vestmannaeyjum eftir Tyrkjaránið. Eyjarnar voru fámennar og vantaði fólk í ýmis störf. Á næstu árum kom alls konar „landshornalýður“ til Vestmannaeyja og jafnvel sekir menn. Til að sporna gegn komu þessa fólks var gefið út bann á komu flækingsfólks.

Nýjar varnir

Eftir Tyrkjaránið kom einnig í ljós að Vestmannaeyingar þurftu nauðsynlega á vörnum að halda. Stjórnvöld hröðuðu viðgerðum á varnarvirkinu, Skansinum, sem var upprunalega byggt árið 1586 til að verja konungsverslunina í Eyjum ágangi breskra kaup- og sjómanna. Danskur herþjálfari var fenginn til að hafa umsjón með landvörnum frá Skansinum. Starf hans fól í sér að skipuleggja vökur á Helgafelli og að hafa gát á skipum. Hann átti einnig að stofna og þjálfa upp herlið heimamanna. Æfingar voru haldnar einu sinni í viku og voru allir byssufærir menn skyldaðir til þátttöku. Árið 1639 tók Jón Ólafsson Indíafari við stöðu byssuskyttu við Skansinn og eftirmaður hans og síðasta byssuskytta Skansins var Gunnar Ólafsson. Vestmannaeyingar héldu vökur á Helgafelli fram yfir árið 1700.

Sagnaritun

Margar bækur hafa verið ritaðar um Tyrkjaránið. Á síðustu árum hafa komið út nokkrar sögulegar skáldsögur sem fjalla um atburði Tyrkjaránsins og afdrif fólks í Algeríu og lengra. Má nefna bækurnar Hrapandi jörð og Rauð Mold eftir Úlfar Þorsteinsson. Fjalla þær um miskunnarleysið og lífsbaráttu Íslendinga í nýjum heimi.

Sjá einnig

Tenglar


Heimildir