Bjarni Bjarnason (bryti)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Bjarni Bjarnason.
Anna Kristjánsdóttir.

Bjarni Guðjón Bjarnason sjómaður, matsveinn, bryti fæddist 3. janúar 1926 í Sigtúni og lést 12. apríl 2015 á Hrafnistu í Hafnarfirði.
Foreldrar hans voru Bjarni Eyjólfsson verkstjóri, f. 2. nóvember 1904, d. 30. janúar 1985 og Guðrún Guðjónsdóttir húsfreyja frá Sigtúni, f. 10. ágúst 1898, d. 16. ágúst 1983.

Börn Guðrúnar og Bjarna Eyjólfssonar:
1. Bjarni Guðjón Bjarnason bryti, f. 3. janúar 1926, d. 12. apríl 2015.
2. Guðný Bjarnadóttir húsfreyja, sjúkrahússstarfsmaður, f. 25. apríl 1931, d. 27. ágúst 2017.
Barn Guðrúnar fyrir hjónaband og fósturbarn Bjarna:
3. Elínu Loftsdóttur húsfreyju, f. 5. mars 1922, d. 22. janúar 2005.

Bjarni var með foreldrum sínum í æsku, með þeim í Sigtúni, Háagarði og Ingólfshvoli.
Hann stundaði sjómennsku og farmennsku frá unglingsárum, var í siglingum til Bretlands með fisk á árum síðari heimstyrjaldar. Hann var matsveinn og bryti hjá útgerðum í Vestmannaeyjum, hjá Landhelgisgæslunni, skipafélaginu Jöklum, auk eigin skipafélags,Víkurskipa, sem hann og félagar hans ráku. Skip þeirra var m.a. Eldvík.
Hann vann einnig um skeið í landi hjá Hótel Holti og Hótel Sögu.
Bjarni var formaður Brytafélagsins og í stjórn Sjómannadagsráðs og hlaut æðstu heiðursmerki beggja þeirra félaga, ásamt því að hljóta heiðursmerki færeysku landstjórnarinnar fyrir björgun á sjó.
Þau Anna giftu sig 1951, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu m.a. í Fellsmúla og Hringbraut og á Hjallabraut og Sléttahrauni í Hafnarfirði.
Bjarni Guðjón lést 2015 og Anna 2019.

I. Kona Bjarna Guðjóns, (25. desember 1951), var Anna Kristjánsdóttir frá Akureyri, húsfreyja, f. 16. október 1932, d. 28. september 2019. Foreldrar hennar voru Kristján Stefánsson frá Fáskrúðsfirði, sjómaður, f. 1. september 1908, d. 28. ágúst 1963, og kona hans Sigurlaug Magnúsdóttir frá Fáskrúðsfirði, húsfreyja, f. 1. nóvember 1908, d. 30. ágúst 1998.
Börn þeirra:
1. Sigurlaug Kristín Bjarnadóttir, f. 11. október 1953. Maður hennar Þröstur Haraldsson.
2. Guðrún Bjarney Bjarnadóttir, f. 18. nóvember 1954. Maður hennar Viðar Halldórsson.
3. Bjarni Guðjón Bjarnason, f. 2. júní 1960. Fyrrum kona Helga Ingólfsdóttir.
4. Anna María Bjarnadóttir, f. 11. ágúst 1968. Maður hennar Kristbjörn Óskarsson.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.