Ritverk Árna Árnasonar/Sveinbjörn Hjálmarsson (vélstjóri)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Kynning.

Sveinbjörn Hjálmarsson.

Sveinbjörn Hjálmarsson vélstjóri, gjaldkeri og umboðsmaður Skeljungs fæddist 11. september 1931 á Reynivöllum og lést 27. október 2016.
Foreldrar hans voru Hjálmar Jónsson frá Dölum, f. 5. júní 1899 í Bólstað í Mýrdal, d. 25. júlí 1968, og kona hans Guðbjörg Einara Helgadóttir húsfreyja, f. 16. október 1898, d. 23. júní 1958.

Börn Hjálmars og Guðbjargar:
1. Þorgerður, f. 14. janúar 1921, d. 28. maí 2004.
2. Jón Gunnsteinsson, f. 30. desember 1922, d. 31. ágúst 2014.
3. Kristín Helga, f. 11. mars 1925, d. 21. ágúst 1995.
4. Svava, f. 16. ágúst 1929, d. 16. janúar 1988.
5. Sveinbjörn, f. 11. september 1931.
6. Jakobína, f. 2. nóvember 1932.
Barn Hjálmars fyrir hjónaband; með Þórunni Guðmundsdóttur, síðar húsfreyju í Fíflholts-Vesturhjáleigu, f. 28. apríl 1888, d. 24. nóvember 1972:
7. Markús Hjálmarsson, f. 27. desember 1918, d. 18. október 2010.

Kona Sveinbjörns var Erna Margrét Jóhannesdóttir húsfreyja, umboðsmaður, f. 2. janúar 1937, d. 22. maí 2017.
Börn Sveinbjörns og Ernu eru:
1. Guðrún, f. 22. október 1955.
2. Guðbjörg Helga, f. 1. ágúst 1957.
3. Egill, f. 25. júní 1963.
4. Ásdís Ingunn, f. 9. ágúst 1968.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Sveinbjörn er lágur vexti, svarthærður, allþrekinn um herðar og samsvarar sér vel. Hann er léttlyndur og sviphýr, skemmtilegur í viðræðum og góður í félagsskap.
Hann hefir lítið verið við veiðar og sú íþrótt honum því ótöm, þegar þetta er ritað (nóvember 1954). En alla kosti hefir hann til að bera til þess að geta orðið slyngur veiðimaður, léttur og lipur, snar og fylginn sér, þótt ekki sé hann hár í loftinu.
Lífsstarf hans er vélstjórn, bæði á sjó og landi. Harðduglegur sjómaður og vellátinn af félögum sínum þar. Hann var einn af þeim er björguðust af mb. „Guðrúnu“ VE-163, og var honum þakkað að miklu leyti, hve vel tókst björgun þeirra. Hann er nú opinberlega trúlofaður Ernu, dóttur Jóhannesar Gíslasonar frá Eyjarhólum svo að þar tengjast tveir veiðimannaliðir frá Álsey.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.