Ritverk Árna Árnasonar/Hugdreifar um Þjóðhátíð

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar
Hugdreifar um þjóðhátíð


Það hefur oft verið sagt um Eyjamenn, að þeir væru að mörgu leyti all sérstætt fólk. Þeir væru miklir framkvæmdamenn, sem oft hafi verið frumkvöðlar að ýmsum merkilegum nýjungum á sviði verklegra framkvæmda.
Þeir hafi fyrstir landsmanna orðið til þess að stofna fyrsta barnaskóla á Íslandi, 1745, þeir hafi einir landsmanna átt sér vel þjálfaðan herflokk til varnar yfirgangi og ránum erlendra sjóræningja, o. m. fl.
Eyjamenn eru og sagðir manna samheldnastir, er út fyrir heimahaga þeirra kemur, þótt jafnvel heima fyrir þekkist þeir vart í daglegri umgengni. En þegar upp til meginlandsins komi, þá sjáist hið rétta eðli Eyjabúans í framkomu hans gagnvart samsveitungum sínum. Þá er heilsast innilega, spurt og spjallað sem um alúðarvini sé að ræða. Þetta sjáist strax, er Eyjamenn hittist í Reykjavík, svo ekki sé nú talað um gagnkvæma framkomu þeirra, er komið er í fjarlægar sveitir eða í útlöndum.
Alþekkt eru ummæli Norðlendinga um Eyjamenn, hve þeir séu samheldnir þar nyrðra og fljótir að taka upp hanzkann hver fyrir annan, sé á félaga þeirra á einhvern hátt hallað í orðum eða athöfnum. Það sé alveg sérstök framkoma og engu líkari en um bræður sé að ræða, en ekki aðeins samsveitunga.
Það er og sagt, að þeir haldi öðrum fremur við fornar siðvenjur á mörgum sviðum, t.d. í öllu, er lúti að fuglaveiðum og bjarggöngum. Hér séu ennþá fuglamannaveizlur einstakra úteyjafélaga, auk allsherjarhófs allra bjargveiðimanna. Fuglaveiðarnar voru fyrrum snar þáttur í atvinnulífi og framfærslu Eyjamanna, en eru nú mest stundaðar sem skemmtun og þareð sjálfsagt þykir að viðhalda þeim ævaforna sið, þótt þörf fyrir fugl og egg sé raunverulega ekki til að dreifa lengur. En íþróttinni að síga í björgin, klífa þau og aðsækja til fuglaveiða, þykir eyjaskeggjum sjálfsagt að viðhalda, enda eru hér landsþekktir sigamenn, bjargöngu- og veiðimenn.
Sá er siður hér enn, að á 1. sumardag fá konur sjómanna dagsafla manna sinna til eigin umráða, hvort sem um mikinn eða lítinn afla er að ræða. Sumir þeir menn, sem í landi vinna, hafa og þennan sið til að viðhalda fornri venju og til að gleðja konur sínar, sem sjómennirnir gera. Hvort slíkur siður er viðhafður út um meginlandið, veit ég ekki, en hér er hann blómstrandi ennþá, kvenfólkinu til gleði og ánægju. Þannig mætti lengi telja.
Þá er þjóðhátíðin okkar einstæður siður, nærri hundrað ára gamall, sem enginn gæti hugsað sér að niðurfella, þ.e. að hætta að koma saman á okkar landsfræga og undurfagra stað Herjólfsdal, og halda þar þjóðhátíðina. Er það hvorttveggja, að hátíð þessi er sú sérkennilegasta hérlendis og hátíðarsvæðið eitt hið fegursta á landi hér, að hún verður öllum ógleymanleg að yndi og ánægju. Margur Eyjamaðurinn á sínar fegurstu æskuminningar tengdar við þessi hátíðarhöld í Herjólfsdal, sem ganga næst jólunum í augum fjölmargra. Eyjamenn hafa verið samhentir í því sem öðru, að viðhalda þjóðhátíðinni, hafa gert hana að föstum sið, langþráða og afhaldna af öllum.
Þótt árið 1874 væri um margt merkilegt í sögu lands og þjóðar, og allt landið fagnaði þá viðburðum ársins með þjóðhátíðum um land allt, þá hefir þeirri hátíð þó hvergi verið viðhaldið í minningu atburðanna nema hér í Eyjum. Annars hygg ég, að síðari tíma þjóðhátíðir okkar séu fremur haldnar sem héraðsmót, en beinlínis til minningar um 1000 ára byggð Íslands, stjórnarskrána og konungskomuna. En hvað um það. Þjóðhátíð höldum við enn og árlega síðan 1901 að árinu 1914 undanskildu. Þá féll hún niður. Það ár ætlaði Kvenfélagið Líkn að halda hana eins og að undanförnu, en vegna styrjaldarótta var hætt við að hafa þjóðhátíð það árið. Það urðu mörgum sár vonbrigði.
Sumir hafa viljað halda því fram, að engin þjóðhátíð hafi verið 1915, en það er ekki rétt. Eftir því sem ég bezt veit, tók Íþróttafélagið Þór að sér, þá í fyrsta skipti, að halda þjóðhátíðina. Kvenfélagið Líkn hafði þá rólu, sem upp var sett í Dalnum, og fékk kvenfélagið ágóðann, sem af henni varð, óskertan. Vitanlega kostaði nokkra aura að fá að sitja í rólunni, 5 mínútur í einu. Að öðru leyti hafði Kvenfélagið Líkn ekkert með hátíðina að gera. Mig minnir fastlega, að hreinn ágóði af þjóðhátíðinni 1915 hafi orðið kr. 232,-, sem þótti offjár og ekki mátti hafa hátt um!
Gísli Engilbertsson skáld orti að venju þjóðhátíðarkvæði, og var það sungið af söngflokki Brynjúlfs Sigfússonar. Kvæði þetta var gefið út fjölritað. Var mér gefið eitt eintak af kvæðinu fyrir nokkrum árum og ber það heitið: Þjóminningardagur 1915. Þareð þetta kvæði mun ekki í margra höndum og það nær 50 ára gamalt, finnst mér ekki óviðeigandi að birta það hér. Slík orð eiga ávallt erindi til allra:

Vér, sem búum heims á hala,
höldum tryggð við feðramál,
elskum Frón með dætrum dala
drenglund, sem að göfgar sál.
Lifa þarf í allra æðum
eldheitt frelsis hetju blóð.
Brautir manndóms, mennta þræðum
magnist líf í kærleiks glóð.


Björgin óma af endurminning
Ísafoldar þennan dag.
Það á skylt við þjóðarminning
þarfir láðs og niðja hag.
Lítum fram og líka aftur,
land vort reyndi marga þraut.
Fjörgi blóð vort frelsiskraftur,
fjölgi líf á sigurbraut.


Ef vér réttinn eigum forna,
ei má þjóðin hika spor.
Móti beittum broddum sporna,
burt með hálfvolgt sannleiks þor.
Ráðum bót á brýnum þörfum,
byggjum landið skynsemd með.
Hlynnum vel að Íslands örfum,
andans þroski stilli geð.


Milli fjalla og fiskimiða
félagsanda strengjum band.
Fylgjum vel þeim fyrirliða
feðra, sem að elskar land,
sem í orðum eins á borðum
eflir, styrkir þjóðarhag.
Sannleiksást í sæti skorðum
sæmdar til hvern ævidag.


Fagurt aldrei niður níðum,
náttúrunnar hjálpum hönd.
Tún og grundir grösum prýðum,
græðum út og ræktum lönd.
Móðurlandsins blómin bliki,
beri vott um þrek og dáð.
Sjómenn eins á sæmdarstriki
safni gulli, prýði láð.
Gísli gamli


Ofanritað tel ég fullkomnar sannanir fyrir því, að þjóðhátíðin féll aðeins niður árið 1914. Það var og, sem sagt, öllum til sárra vonbrigða. Eyjaskeggjar geta ekki án þjóðhátíðarinnar verið. Þeir sakna um of samgleðinnar, friðsælunnar og unaðarins, sem er að finna í þessum töfrasal hamraborgarinnar — Herjólfsdal, — því að „hvar er að finna yndi, ef ekki þar?“ Í fögru veðri er hann óviðjafnanlegur hátíðarsalur, meginstöð bræðralags og samgleði, þar sem hver og einn keppist um að lifa á bandi friðarins og einingu andans. Allt löggæzluvald er óþarft í Herjólfsdal á þjóðhátíðinni, þótt allir íbúar Eyjanna séu þar saman komnir í 3 daga, auk aðkomugesta í jafnvel þúsundatali.
Þessir bræðralags eiginleikar Eyjamanna vekja furðu gestkomandi hér og fólks úti á landsbyggðinni, þareð venjulega um líkt leyti (og mikið oftar), berast fregnir um slys og róstur miklar af margskonar héraðsmótum víðsvegar frá af landinu. Þar þarf jafnvel lögreglumenn í tugatali til þess að halda uppi reglu og friði á mikið mannfærri útiskemmtunum og héraðsmótum. Hér vill enginn verða til þess að rjúfa friðhelgi þjóðhátíðarinnar, - það þykir hverjum heimamanni hin mesta og ófyrirgefanleg hneisa.
Ennþá höfum við verið svo heppin, að þessi hugsunarháttur og friðhelgi hrífur svo hugi aðkomugesta, að þeir hegða sér nákvæmlega eins, þ.e. sem sannir þjóðhátíðargestir, sjálfum sér til gleði og öðrum til fyrirmyndar. Slíkt aðkomufólk er Eyjabúum aufúsugestir.
Um þetta mætti segja:

„Heilir komið hingað þér
Herjólfs inn í dalinn,
allir jafnir, enginn hér
öðrum fremri talinn. —
Látum sjást, að sundrung ber
sætið yzst til hliðar.
Gleðjumst því, unz gengin er
gullin sól til viðar.“

En til þess að þjóðhátíðin geti orðið öllum ungum og gömlum til ánægju, þarf veður að vera gott, sólbjart og hlýtt. Allt byggist á því, samfara tímafórnum einstakra manna við undirbúning hátíðarinnar. Allir vilja gera sitt bezta til þess að allt megi vel fara. En það kostar mikið erfiði einstaklinga og félagasamtaka. Lúðrasveitin þarf að æfa sína menn. Oddgeir að semja nýtt þjóðhátíðarlag, sem er orðinn fastur siður og vel þeginn. Kirkjukórinn þarf að æfa, íþróttamenn og konur æfa af kappi o. m. fl.
Nú saknar margur Vestmannakórs og hins snjalla söngstjóra hans, Brynjúlfs Sigfússonar, sem manna mest hefur lagt til alls söngs á þjóðhátíðum frá fyrstu tíð hans sem söngstjóra, - og til dauðadags.
Á þeim söngvettvangi Brynjúlfs, mætti gjarnan minnast þess, að aldursforseti starfandi söngmanna þessa bæjar, Árni J. Johnsen frá Suðurgarði, syngur nú í ár í 50. sinn á þjóðhátíð. Hann mun nú syngja með Kirkjukórnum, sem hann er meðlimur í ennþá. Má segja, að Árni hafi verið syngjandi og leikandi á hljóðfæri, síðan hann var barn að aldri. Með Brynjúlfi Sigfússyni var Árni í Lúðrasveit Vestmannaeyja svo lengi, sem Brynjúlfur stjórnaði henni, Kirkjukórnum og Vestmannakór.
Slíkir menn hafa töluvert lagt fram af kröftum sínum til þess að gera þjóðhátíðina ánægjulega. Þeir höfðu lítinn tíma sjálfum sér til skemmtunar, t.d. meðan þeir störfuðu bæði í Lúðrasveitinni og söngkór Brynjúlfs Sigfússonar, þar eð það var sungið og spilað til skiptis. Og sem sagt, nú syngur Árni J. Johnsen í 50. sinni á þjóðhátíðinni. Leyfi ég mér í því tilefni að færa honum mínar beztu hamingjuóskir með söngvaraafmælið. Vona ég ennþá einu sinni að fá að heyra hann syngja einsöng í Þórði malakoff, sem hann hefur gert við ágætan orðstír í fjölmörg ár, sennilega 49.
Allt þetta ofannefnda fólk á ekki frí frá störfum, þótt á þjóðhátíð sé. Það er nú eitthvað annað. Þá er krafizt ýtrustu starfskrafta einstaklingsins og síðast en ekki sízt, þess félags, sem að hátíðinni stendur hverju sinni. Þar þurfa mörg handtök að koma til, allt frá því fyrst í júlí til þjóðhátíðarloka, svo mikið starf, að við þjóðhátíðargestir getum vart gert okkur þau í hugarlund.
Við gerum okkur heldur ekki ljóst, hve gífurlega mikið það kostar að halda þjóðhátíð, og þess vegna er aðgangseyrir að henni mörgum erfiður kostnaðarauki. — Það kostar meira nú en t.d. 1901. Þá voru seldar slaufur handa fullorðnum og kostaði nokkra aura slaufan. Og þegar kostnaður hátíðarinnar var uppgerður, voru kr. 5.00 afgangs. — Mun sú upphæð síðan hafa verið í bankabók í vörzlu Gísla Johnsen og er nú líklega nálægt 80—100 krónum, með vöxtum og vaxtavöxtum, (sbr. Víði 1942).
En nú eru tímarnir aðrir og mikið breyttir, ekki sízt í peningamálum, miðað við árið 1901. Ekki hef ég getað fengið upplýst með neinni vissu, hvað aðgangseyrir var hár að þjóðhátíðinni 1901, en líklega mun hann hafa verið 25 aurar fyrir fullorðna, aðrir segja 10 aura og frítt fyrir börn.
Þótt aðgangseyrir sé nú nokkuð hár, þá bætir það mikið úr, að börn eru undanþegin aðgangseyri, enda væri erfitt fyrir barnmargar fjölskyldur að veita sér þann munað að fara í Dalinn, ef börn ættu að greiða aðgangseyri í hlutfalli við fullorðna. Þá gæti svo farið, að margur yrði að sitja heima með fjölskyldu sína, að heimilisfeðurnir þyldu ekki þann kostnaði vegna hátíðarinnar í mat og klæðum.

Í Herjólfsdal
Lag: í fögrum dal hjá fjallabláum straumi.
Í Herjólfsdal við hrannabláa voga,
hjartans eldar glaðir tíðum loga,
lýsa sveini og svanna
um sumarkvöldin löng,
kærleiks vegi að kanna
í klettafjalla þröng.

En mér dettur í hug: „Eru ekki einhverjir möguleikar á að létta aðgangseyrinum af gamalmennum ofan einhvers viss aldurstakmarks?“ Þau eru eflaust nokkur, sem ekki eru alltof vel fjáð eða eiga jafnvel engan að til þess að létta undir með sér, svo að þau komist í Dalinn. En einmitt þau eiga sér líka fagrar endurminningar tengdar við þjóðhátíðina, endurminningar, sem þau langar að rifja upp, en hafa máske alls ekki efni á slíkum munaði. —— Það væri gaman, ef Íþróttafélagið Þór gæti nú hafið slíkt fyrirkomulag í tilefni af 50 ára afmæli félagsins á næsta ári. Efalaust mundi það mælast vel fyrir meðal almennings.
Ég enda þessar hugdreifar með beztu hamingjuóskum Íþróttafélaginu Þór til handa í tilefni þjóðhátíðarinnar, og þjóðhátíðargestum öllum óska ég góðrar skemmtunar í töfrasal Hamrahallarinnar á Heimey — Herjólfsdal.
Gleðilega hátíð!
Árni Árnason frá Grund.
P.S. Þór œtti að gefa þeim Stefáni Árnasyni og Árna J. Johnsen duglegt húrra á þjóðhátíðinni. Stefán á 40 ára kallaraafmœli, byrjaði 1922, og Árni 50 ára söngvaraafmœli. Hann er búinn að syngja i Dalnum á 49 þjóðhátíðum.
(Á.Á.)

Í Herjólfsdal
Ljóð eftir Sveinbjörn Á. Benónýsson
Í Herjólfsdal hamragarðar skýla,
í Herjólfsdal himneskt er að hvíla,
í Herjólfsdal.


Ótalmargt hér anda mannsins gleður,
einkum þegar gott og bjart er veður,
og þjóðhátíð vér höldum
í þessum fagra dal,
timbrað upp er tjöldum,
troðið nesti í mal.
Hér er skjól, höfgra blóma angan,
glóir sól, gjörir brúnan vangann,
glóir sól.


Heyra má þar Oddgeirs lögin óma,
unaðsþýð í hlustum manna og blóma,
sungin fullum hálsi
í sumars aftan kyrrð,
berast létt með blænum
í bláa loftsins firrð.
Klettarið og kórinn undir taka,
Út um svið öldur bláar vaka,
út um svið.


Þegar sólin sezt að Ægi köldum,
sungið er við raust í mörgum tjöldum,
og glóa guðaveigar
sem gull á hverri skál,
teknir vænir teygar,
töfrað fjör í sál.
Koss á vör er kvenna og pilta gaman,
ótal pör upp’i í brekkum saman,
ótal pör.


Klukkan tólf, er kveikir Siggi bálið,
kárnar gaman, fer að vandast málið,
því allt, sem skuggar huldu
er orðið skelli-bjart,
nú sést það, sem þeir duldu,
ja, svei mér, furðu margt.
Vissast er varlega að fara,
hafa á sér heldur betri vara,
— hollast er.
Sveinbjörn Á. Benónýsson


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit