Magnús Helgason (Engidal)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Magnús Helgason fæddist að Húsatóftum við Grindavík 8. september 1896 og lést 10. október 1976. Foreldrar hans voru Herdís Magnúsdóttir og Helgi Þórðarson, bæði ættuð úr Ölfusi, hún frá Litla-Landi, en hann frá Króki. Magnús fluttist á öðru ári til Hafnarfjarðar með foreldrum sínum, þar sem hann átti heima til 18 ára aldurs, en þá fluttust þau til Reykjavíkur. Hann stundaði nám við Flensborgarskóla og lauk þaðan prófi. Seinna lauk hann prófi frá Verzlunarskóla Íslands.

Magnús

Magnús kvæntist Magnínu Sveinsdóttur frá Engidal v/Skutulsfjörð 23. júni 1919. Sama ár fluttust þau til Vestmannaeyja, Í Vestmannaeyjum fæddust þeim fimm börn, þeirra á meðal var Magnús H. Magnússon bæjarstjóri Vestmannaeyja 1966-1975.

Magnús og Magnína settust að í Engidal. Fyrst var Magnús endurskoðandi hjá Eyþóri Þórarinssyni. Síðar var hann skrifstofumaður hjá Jóni Einarssyni á Gjábakka. Síðan setti hann á stofn eigin verslun.

Um þetta leyti varð mikil trúarvakning í Vestmannaeyjum og hrifust þau hjónin þar með. Þau voru meðal stofnenda aðventsafnaðarins þar og urðu meðal virkustu meðlima. Magnína var um langt skeið í forystu liknarstarfs safnaðarins, fyrst í Vestmannaeyjum og siðar i Reykjavík og fulltrúi í mæðrastyrksnefnd.

Árið 1927 tók hann hið minna fiskimannapróf hjá Sigfúsi Scheving og í kjölfarið tók hann við formennsku á bátnum Hebron sem hann átti í félagi við nokkra aðra.

Árið 1930 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur, þar sem þau áttu heima síðan, og starfaði Magnús við söfnuð aðventista i nær fjóra áratugi, sem gjaldkeri Samtaka sjöunda dags aðventista á Íslandi. Hann lést í Reykjavík, 80 ára gamall.

Myndir


Heimildir

  • Sjómannablaðið Víkingur. 5 tbl. 1968. Farmanna- og Fiskimannasamband Íslands.
  • Minningargreinar í Morgunblaðinu, 19. október 1976.