J.J.F. Birck

From Heimaslóð
Revision as of 20:33, 24 February 2017 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search

Johan Julius Frederik Birck fæddist 1817 og lézt í Eyjum 13. marz 1851.
Birck var lærður trésmiður og var í upphafi ráðinn til Íslands til að byggja myllu í Þingholtunum í Reykjavík. Jens Benediktssen kaupmaður í Garðsverzlun réð hann síðan til að reisa myllu á brauðgerðarhúsi verzlunarinnar 1842. Hann lauk því verki í september það ár.
Á árinu 1845 stofnaði Birck verzlun í Tanganum milli Tangaviks og Bratta.
Hann reisti stóra sölubúð, stórt íbúðarhús og fleiri byggingar til atvinnurekstrar á árunum 1846-1849. Fiskgarðar, sem þar voru, tókust af. Birck nefndi staðinn Juliushaab með vísan til nafns síns og líklega vonar um velgengni, en alþýða manna kallaði hann Tangaverzlun, Tangabúð eða aðeins á Tanganum.
Birck þótti undarlegur í háttum og sérvitur. Lét hann sér fátt finnast um verzlunarreksturinn, hélt mest til í lýsishúsinu og hafði þar svefnhús sitt. Smám saman jókst geðveila hans og að lokum týndi hann sér sjálfur vestur í Skanzaklettum 13. marz 1851.
Verzlunin var seld á uppboði í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn 30. desember 1851. N. N. Bryde, þá kaupmaður í Garðsverzlun, hreppti verzlunina og afhenti syni sínum J.P.T. Bryde, sem þá var rúmlega tvítugur. Átti að heita, að sonurinn hefði keypt hana, því að þá mátti sami kaupmaður ekki eiga nema eina verzlun á hverjum verzlunarstað. Afsal var gefið út af A. Baumann sýslumanni í Eyjum 1. september 1852.
Með stjórnarráðsbréfi, sem dagsett var 23. október 1909, var Juliushaabverzlunin tekin af J.P.T. Bryde, þar sem hann notaði hana ekki lengur til verzlunarrekstrar. Lóðin var síðan leigð Pétri Thorsteinssyni á Bíldudal 8. marz 1910, en hann framseldi leiguréttinn fyrirtækinu Gunnar Ólafsson & Co, en hluthafar þess voru Pétur Thorsteinsson, Gunnar Ólafsson og Jóhann Þ. Jósefsson. Ári síðar keypti Pétur Thorsteinsson Juliushaab af Herluf Ingjald syni J.P.T. Bryde. Fór afsal fram 19. febrúar 1910.
Pétur Thorsteinsson kom lítið nálægt rekstrinum og gekk úr félaginu 1915. Eftir það var félagið í rekstri þeirra Gunnars og Jóhanns og var Gunnar aðalforstjóri þess áratugum saman.
Félagið reisti sölubúð í suðausturhorni lóðarinnar 1910 og var það síðan verzlunarhús Tangans um áratugi, en byggingar frá tímum Bircks og síðar stóðu lítt breyttar nema lýsishúsið og bræðslan, sem voru rifin og þar byggt aðgerðarhús úr steinsteypu. Byggt var sunnan við gömlu búðina og gerð steinbryggja þar, sem gamla bryggjan var, en hún gekk síðar inn í Básaskersbryggjuna.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.