Þórður Diðriksson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. mars 2015 kl. 18:38 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. mars 2015 kl. 18:38 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Þórður Diðriksson.

Þórður Diðriksson mormóni, trúarleiðtogi, múrsteinshleðslumaður frá Hólmi í A-Landeyjum fæddist 25. mars 1828 á Hólmi og lést 9. september 1894 í Utah.
Faðir hans var Diðrik bóndi í Hólmi í A-Landeyjum, f. 16. september 1794 á Önundarstöðum þar, d. 11. júlí 1841 í Hólmi, Jónsson bónda í Gularáshjáleigu þar, f. 1765 á Önundarstöðum, d. 21. október 1827, Diðrikssonar bónda á Önundarstöðum, f. 1729, d. 7. nóvember 1802 á Önundarstöðum, Bjarnasonar, og konu Diðriks, Margrétar húsfreyju, f. 1731 í Kúfhóli þar, d. 2. nóvember 1820 í Fagurhóli þar, Einarsdóttur.
Móðir Diðriks og kona Jóns Diðrikssonar var Ingibjörg húsfreyja, f. 1767, d. 31. júlí 1816 í Gularáshjáleigu, Magnúsdóttir bónda í Haukadal á Rangárvöllum, f. 1725, d. 12. maí 1804, Jónssonar, og konu Magnúsar, Helgu húsfreyju, f. 1725, d. 22. ágúst 1785, Erlendsdóttur.

Móðir Þórðar Diðrikssonar og kona Diðriks var Sigríður Árnadóttir húsfreyja, síðast í Stakkagerði, f. 25. ágúst 1798 í Syðri-Hól u. Eyjafjöllum, d. 17. desember 1892.

Fósturforeldrar Þórðar voru Ólafur Jónsson og Guðlaug Einarsdóttir bændur í Fagurhól í A-Landeyjum, en Ólafur var bróðir Einars síðari manns Sigríðar móður Þórðar.

Systkini Þórðar Diðrikssonar í Eyjum voru:
1. Sigurður Diðriksson vinnumaður á Kirkjubæ 1843, f. 10. apríl 1826.
2. Árni Diðriksson bóndi, hreppstjóri og formaður í Stakkagerði f. 18. júlí 1830, d. 28. júní 1903.
3. Guðmundur fósturbarn á Vesturhúsum, f. 23. febrúar 1834, d. 25. maí 1848.
4. Magnús vinnumaður í Stakkagerði og í Görðum, f. 1. apríl 1837, d. í mars 1863.
5. Guðlaugur vinnumaður á Miðhúsum, f. 25. júní 1838, d. 14. febrúar 1860.
6. Hálfbróðir Þórðar Diðrikssonar, sonur Sigríðar með síðari manni sínum, var Guðmundur Einarsson tómthúsmaður í Sjólyst, f. 31. október 1848, d. 23. ágúst 1882, kvæntur Auðbjörgu Bjarnadóttur.
Þau fóru áleiðis til Utah 1882 frá Sjólyst, ásamt fimm börnum sínum.

Þórður var tökubarn á Hólmi 1835, á Búðarhóli 1840, vinnudrengur þar 1845, vinnuhjú þar 1850.
Hann virðist hafa haft stuttan stans í Eyjum. Koma hans þangað og flutningur þaðan finnast ekki skráð, en við húsvitjun í lok árs 1854 er hann skráður „viðlegumaður“ í Nýja- Kastala hjá Margréti Jónsdóttur ekkju og húsfreyju. Þar var Hannes sonur hennar tveggja ára.
Þórður skírðist til mormónatrúar 17. febrúar 1855 og hélt áleiðis til Utah frá Eystri-Hólmum í Landeyjum í júlí 1855.
Leið hans til Utah lá um Kaupmannahöfn og Liverpool, síðan með skipi til New York. Ferðin til New York varaði 10 vikur. Yfir þver Bandaríkin tók ferðin um 3 mánuði, með járnbraut, fljótaskipum á Missisippi og gangandi yfir óbyggðir og eyðimerkur. Hann komst til Utah 1856.
Þórður var múrsteinshleðslumaður og leiðtogi meðal mormóna í Spanish Fork.
Talið er, að hann sé fyrirmynd Laxness að Þjóðreki biskupi í Paradísarheimt.
Hann skrifaði ferðasögu sína og samdi trúboðsritið „Athvörunar og sannleiksraust um höfuthatrithi trúar „Jesú Kristi kirkju af sithustu daga heilögum““.

Þórður átti 3 konur.
I. Kona hans, (1858), var Helga Jónsdóttir húsfreyja í Spanish Fork í Utah, f. 1813. Hún hafði farið vestur með Samúel Bjarnasyni og Margréti Gísladóttur 1854. Þau Þórður og Helga voru barnlaus.

II. Kona Þórðar var Mary Jakobsen, dönsk að ætt.
Börn þeirra voru:
1. Theo Dedrickson.
2. Inger Grace Dedrickson.

III. Kona hans, (1880), var Rannveig Jónsdóttir, f. 1853 í Álftveri.
Börn þeirra:
3. T.O. Dedrickson í Bakersfield í Kaliforníu.
4. John Dedrickson í Salt Lake City í Utah.
5. Helga Dedrickson Grant.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • halfdan.is. The search of Zion. The Emigration from Iceland to N-America-Pioneer of Utah Þórður Diðriksson.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1946.