Árni Stefánsson (Ási)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. ágúst 2013 kl. 22:15 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. ágúst 2013 kl. 22:15 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Árni Stefánsson, póstmaður fæddist í Vestmannaeyjum 11. nóvember 1919 og lést 8. mars 1994. Hann var sonur hjónanna Stefáns Gíslasonar, útvegsbónda og konu hans Sigríðar Jónsdóttur. Kona Árna var Guðrún Sigurðardóttir. Sonur þeirra er Þorsteinn Árnason, bifreiðastjóri.

Árni var félagsmaður í Taflfélagi Vestmannaeyja upp úr seinna stríði og tefldi m.a. með sveit félagsins á móti sveit Reykjavíkur 1945. Hann tók þátt nokkrum Íslandsmótum á árunum 1944-1950. Hann var hörkusterkur skákmaður og sigraði eitt sinn m.a. Max Euwe, fyrrum heimsmeistara í fjöltefli 1948.

Árni varð fyrsti Skákmeistari Vestmannaeyja 1958 og hélt titlinum einnig 1959. Hann fluttist seinna til Reykjavíkur og varð m.a. kunnur af því að semja skákdæmi sem birtust bæði í blöðum hér og í tímaritum erlendis. Árni var um tíma meðal fremstu skákmanna Reykjavíkur og stundaði talsvert bréfskák og var í bréfskáklandsliði Íslands í meira en 20 ár. Hann var einn af stofnendum tímaritsins Skák 1947 og stóð að útgáfu þess í tvö ár. Árni varð Bréfskákmeistari Íslands 1975, 1982 og 1983.

Ættingjar Árna færðu Taflfélagi Vestmannaeyja taflbókasafn hans að gjöf vorið 1998, en bókasafnið er merkilegt og mikið að vöxtum og var gjöfin afhent félaginu vorið 1998.


Heimildir

  • Samantekt skrifaði Karl Gauti Hjaltason
  • Mest efnið er úr grein e. Björn Ívar Karlsson eldri í Dagskrá 17. apríl 1998

Frekari umfjöllun

Árni Stefánsson frá Ási, fæddist 11. október 1919 og lést 8. mars 1994.
Foreldrar hans voru Stefán í Ási, útgerðarmaður og formaður, f. að Hlíðarhúsum 6. ágúst 1876, d. 11. janúar 1952, og kona hans Sigríðar Jónsdóttir, f. 27. apríl 1877, d. 3. desember 1941.

I. Kona Árna Stefánssonar var Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja í Birkihlíð Þórðarsonar. Þau voru barnlaus, en barn Guðrúnar var Ellen.
II. Barn Árna og Unnar Þorbjörnsdóttur á Kirkjubæ, f. 16. maí 1919, d. 10. október 1990:
1. Þorsteinn Árnason frá Kirkjubæ, f. 27. júní 1946.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Árni er meðalmaður að hæð, rauðbirkinn, ljós yfirlitum, samsvarar sér vel að gildleika, fremur breiðleitur, liðlega vaxinn og snerpulegur sem aðrir bræður hans. Hann er léttur í lund og viðræðugóður. Hann er nokkuð hlédrægur og fremur feiminn í margmenni. Hann er ágætur félagi, með fremstu lundaveiðimönnum, stilltur og gætinn við veiðar. Hann hefir verið mest í Ystakletti, Heimalandi, Álsey og þess utan stundað veiðar fyrir bændur á Kjalarnesi í eyjunum þar, hvarvetna við góðan orðstír. Hann er bifreiðastjóri að atvinnu, traustur og gætinn. Hann bjó um tíma í Reykjavík, en flutti síðan aftur til Eyja.
Árni mun ávallt verða talinn til bestu veiðimanna Eyjanna. Hann er dagfarsprúður og hinn besti drengur.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Myndir