Stefanía Guðjónsdóttir (Háagarði)
Stefanía Guðjónsdóttir húsfreyja á Hóli í Nesi í Norðfirði og síðar Neskaupstað, síðast í dvöl í Háagarði, fæddist 28. september 1860 í Reykjadalskoti í Hrunamannahreppi og lést 14. jan. 1943 í Háagarði.
Faðir hennar var Guðjón bóndi í Reykjadalskoti, síðar í Hlíð þar, f. 1821, d. 22. október 1879, Bjarnason bónda í Reykjakoti og á Hrísbrú í Mosfellssveit, f. 1792, Eiríkssonar bónda í Kálfakoti í Kjósars., f. 1760, d. 18. september 1820, Bjarnasonar, og konu Eiríks í Kálfakoti, Gróu húsfreyju, f. 1756, d. 29. mars 1827, Þorsteinsdóttur.
Móðir Guðjóns í Reykjadalskoti og kona Bjarna var Lilja húsfreyja, f. 1791, d. 1. júlí 1826, Jónsdóttir „eldri“ bónda á Lómatjörn, Borgargerði og víðar í Eyjafirði, f. 1742, d. fyrir 1815, Sigurðssonar, og konu Jóns „eldri“, Guðrúnar húsfreyju, f. um 1760, d. 21. apríl 1843, Eiríksdóttur.
Móðir Stefaníu var Valgerður húsfreyja, f. 24. ágúst 1822, d. 1911 á Norðfirði, Jónsdóttir bónda í Tungufelli, f. 23. október 1794, d. 21. mars 1862, Sveinbjarnarsonar bónda á Kaldbak í Hrunamannahreppi, f. 1749, d. 8. janúar 1801, og konu Sveinbjarnar, Valgerðar húsfreyju, f. 1762, d. 4. desember 1831, Snorradóttur.
Móðir Valgerðar og kona Jóns í Tungufelli var Guðrún húsfreyja í Tungufelli, f. 7. ágúst 1789, d. 16. október 1860, Guðmundsdóttir bónda í Hellisholti 1816, f. 1763, d. 1. maí 1837, Ólafssonar, og konu Guðmundar, Rannveigar húsfreyju, f. 1767, d. 1. september 1846, Jónsdóttur.
Stefanía var með búandi foreldrum sínum í Hlíð í Hrunamannahreppi 1870, var ógift bústýra Vigfúsar Sigurðssonar trésmiðs og sjómanns í Mjósundi í Útskálasókn á Reykjanesi 1890 og hjá þeim var ekkjan Valgerður Jónsdóttir móðir hennar 68 ára.
Við manntal 1901 var Stefanía gift húsfreyja á Hóli í Norðfirði með Vigfúsi, barninu Óla S. Vigfússyni 9 ára og hjá þeim var Valgerður móðir hennar.
Við manntal 1910 er sama fólk á Hóli, en nú hefur bæst í hópinn tökubarnið Þorsteinn Víglundsson 11 ára.
Maður Stefaníu var Vigfús Sigurðsson landverkamaður og sjómaður í Neskaupstað, f. 22. október 1862, d. 25. apríl 1937.
Vigfús var Landeyingur, frá Kúfhól í A-Landeyjum. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson bóndi þar, f. 6. ágúst 1833, d. 29. október 1885, og kona hans Sigríður Pétursdóttir, f. 30. ágúst 1830, d. 26. desember 1903 í Ólafshúsum í Eyjum.
Börn þeirra Sigurðar og Sigríðar í Eyjum voru:
1. Elín, f. 1865, d. 1906, húsfreyja í Ólafshúsum, gift Jóni Bergi Jónssyni eldri, - fyrri kona hans;
2. Steinunn, f. 1867, húsfreyja í Oddakoti í A-Landeyjum, Lambhaga og Þingeyri, kona Jóns Jónssonar á Þingeyri;
3. Sigurður formaður í Frydendal, f. 1869, drukknaði 1912, sambýlismaður Önnu Sigríðar Árnadóttur;
4. Sigríður húsfreyja í Lambhaga, f. 1874, d. 1962, gift Guðmundi sjómanni í Lambhaga.
Börn þeirra Vigfúsar voru:
1. Óli S. Vigfússon, f. 15. október 1891, lést af slysförum 2. nóvember 1923.
2. Fóstursonur þeirra var Þorsteinn Þ. Víglundsson, síðar skólastjóri og sparisjóðsstjóri í Eyjum, f. 19. október 1899, d. 3. september 1984.
Þau Stefanía bjuggu í Neskaupstað til ársins 1937, en hún fluttist til Eyja 1938 og dvaldi hjá Þorsteini og Ingigerði til dd. 1943.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Pers.
- Manntöl.
- Íslendingabók.is.