Evlalía Nikulásdóttir
Evlalía var frá Berjanesi, undir Austur Eyjafjöllum, þar sem foreldrar hennar höfðu búið. Við manntalið 1845 búa þær mæðgurnar Helga Jónsdóttir, ekkja 61 árs og dóttir hennar Evlalía 25 ára og fósturdóttir 12 ára, á einu af 4 býlum í Berjanesi.
Árið 1852 flytur hún til Vestmannaeyja, ásamt heitmanni sínum Jóni Guðmundssyni, 36 ára, sem verið hafði vinnumaður þeirra mæðgna. Þau settust að í Móhúsum, sem var lítil baðstofa með moldargólfi og eldhúskytra. Þau giftu sig 1853, en varð ekki barna auðið, og 2.maí 1862 lést Jón úr sullaveiki. Evlalía var áfram í Móhúsum og hafði hjá sér niðursetning, sem hét Sverrir Jónsson.
Árið 1864 flutti til hennar, úr Rangárvallasýslu, Gísli Brynjólfsson ekkill og 12 ára sonur hans Þorsteinn.
Næstu 10 ár var Gísli fyrirvinna í Móhúsum, en hann drukknaði 13. mars 1874, ásamt 5 öðrum, er sexæringurinn Gaukur fórst suður af Klettsnefi. Meðal þeirra sem drukknuðu voru:
Árni Árnason áVilborgarstöðum, afi Árna símritara frá Grund, og Jón Jónsson húsmaður í Dölum, faðir Unu skáldkonu á Sólbrekku.
Þegar Gísli drukknaði var Þorsteinn orðinn holdsveikur og ófær til vinnu, og hugsaði Evlalía um hann það sem eftir var og smurði hin ólæknandi sár með heimatilbúnum smyrslum, sem hún sauð úr heimulu og vallhumli, blönduðu fýlafeiti og kröbbum og skeljum. Þorsteinn dó 5.júní 1894 eða 1896? á fimmtugsaldri.
Evlalía bjó áfram í Móhúsum, sem var orðið “óskaplega lélegt,” til 1901?, en þá tók Jón líkkistusmiður og bóndi í Túni hana til sín og önnuðust dætur hans, þær Tóta og Lína hana, það sem eftir var. Evlalía dó 12. nóv. 1903 á Vestri Oddstöðum hjá Guðjóni, syni Jóns, því verið var að byggja nýtt hús í Túni og Jón bóndi hafði látist 1. mars 1903.
(Sjá grein um Evlalíu í Bliki 1969: Konan sem vann kærleiksverkið mikla).
Heimildir
- Gísli Eyjólfsson frá Bessastöðum