Jón Ísak Sigurðsson
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Jón Sigurðsson“
Jón Ísak Sigurðsson fæddist í Merkisteini í Vestmannaeyjum 7. nóvember 1911 og lést 28. júní 2000. Foreldrar hans voru Sigurður Björnsson bátasmiður og Sigríður Árnadóttir. Árið 1939 kvæntist Jón Klöru Friðriksdóttur frá Látrum í Vestmannaeyjum. Þau eignuðust fjögur börn, Friðrik, Svövu Sigríði, Guðjón Þórarinn og Ragnar.
Að loknu barnaskólaprófi fór Jón í unglingaskóla sem þá var starfræktur í Eyjum. Seinna, árið 1933, lauk hann prófi frá vélstjórnarnámskeiði sem veitti 50 hestafla réttindi sem síðar voru hækkuð í 250 hestöfl.
Jón á Látrum, eða Jón lóðs eins og hann var oft kallaður, var hafnsögumaður í tugi ára. Jón sat í bæjarstjórn á vegum Sjálfstæðisflokksins um árabil og var formaður hafnarstjórnar í áratugi. Ýmsum fleiri ábyrgðarstöðum gegndi hann, lengi í stjórn Bátaábyrgðarfélagsins, formaður í Björgunarfélagi Vestmannaeyja í 28 ár, formaður í Starfsmannafélagi Vestmannaeyja í 20 ár og ræðismaður Norðmanna um langt skeið svo nokkuð sé nefnt. Þá var Jón einn af hvatamönnum þess að reyndur var svifnökkvi - loftpúðaskip milli lands og Eyja.
Jón Ísak var kjörinn heiðursborgari Vestmannaeyja á 75 ára afmæli kaupstaðarins.
Heimildir
- Morgunblaðið, 15. júlí 2000. Minningargreinar um Jón Ísak Sigurðsson.