Blik 1937, 3. tbl./Úr Eyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. júlí 2011 kl. 14:05 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. júlí 2011 kl. 14:05 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1937



ÚR EYJUM.
Eftir Jes A. Gíslason.

ÞAÐ mun hafa verið þá þegar Markarfljótsbrúin var vígð, er einum af ræðumönnunum var litið til Eyja, að hann lét svo um mælt, að Eyjarnar væru sem safírar, er blikuðu í allri sinni dýrð úti við sjóndeildarhringinn. Svo fagrar og tignarlegar birtust þær sjónum hans. — Útlendingur, sem eitt sinn kom hér að Eyjunum í fögru veðri, líkti Eyjunum við hina fögru eyju Capri og kallaði þær Capri Íslands. Fleiri ummæli mætti nefna í sambandi við fegurð og hátign Eyjanna, sem ávallt blasa við sjónum manna, hvort sem þær eru skoðaðar af sjó eða landi.
Eyjarnar hafa lengi verið álitnar sem hjartað úr skák Íslands og þær hafa oft reynst mörgum bjargvættur til lands og sjávar. Í ofsaveðrum hafa oft tugir skipa leitað hingað skjóls og athvarfs, þegar hvergi var hafnar eða skjóls annarsstaðar að leita við suðurströnd lands; og fyrrum, þegar hungur svarf að eftir langvarandi harð­indi og ísaþök fyrir ströndum landsins, þá var stundum leitað til Vestmannaeyja eftir björg úr hinum fjarlægustu sveitum landsins.
En þrátt fyrir þessa fegurð og hin margvíslegu gæði hér til lands og sjávar, þá er þó einn sá skortur hér aðallega, sem Eyjabúar hafa átt við að stríða frá upphafi, og það er vatnsskorturinn. Og þótt úr þeim skorti hafi að nokkru verið bætt við það, að steinlímdar vatnsþrær (brunnar) hafa verið gerðar við hvert býli hér, þá er þó langur vegur í land enn, að til fulls sé bætt úr þessum sára skorti, sem um aldaraðir hefir verið hér til mikilla vanþrifa á marga lund.
Lítum um öxl, og virðum fyrir okkur ástandið hér fyrir 50—60 árum. Við híbýli manna hér, sem flest voru með torfþaki, voru engir brunnar. Aðeins við húsin svo nefnd, voru settar tunnur til að taka við þakvatni. Þessi ílát entust skammt. Við hús foreldra minna man ég eftir að stóð áma, sem tók 3—4 tunnur. Heimilismenn voru frá 12—14, og má geta nærri, hve lengi sá vatnsforði entist. Allt vatn annað var sótt í fötum eða á ankerum, ýmist inn í Gamla-póst, inn í Dal eða jafnvel upp í Vilpu (til þvotta). —
Vatnsból fyrrum voru þau sömu og nú þekkjast: undir Stóru-Löngu, inn við Hlíðarbrekkur, Nýi-pósturinn (innan við fóðurmjölsverksmiðjuna) inni í Dal (Lindin, Daltjörnin, Silfurbrunnarnir) úti í Stórhöfða og Vilpa fyrir sunnan Vilborgarstaði. Auk þess voru svonefndir brunnar við einstök heimili t.d. Ofanleiti, Dölum, Kirkjubæ, fyrir norðan Miðhús og ef til vill víðar. En þessir brunnar voru smáholur opnar með vatnsheldum móbergsbotni og óþverralegar, eins og geta má nærri.
Viðbjóðslegasta vatnsbólið hér var þó Vilpa. Að henni og í hana rann og safnaðist allur sá óþverri, sem runnið getur ofan í laut, sem hallar að á alla vegu.
Mikil mildi að „hvíta dauða“ sóttkveikjan var þá ekki eins tíð hér og síðar varð raun á, því að þá er ég hræddur um, að margur hér hefði fengið bleika kinn fyrir aldur fram.
Það er nógu fróðlegt að lesa það, sem síra Gissur Pétursson (prestur hér frá 1689—1713) segir um „vatnsuppsprettur og brunna“ í sóknarlýsingu sinni. (Lítil tilvísan um Vestmannaeyja háttalag og bygging). Hann kemst svo að orði.
„Almennilegt vatnsból alls byggðarlagsins er inn í Herjólfsdal, — þar Herjólfur setti bústað sinn. — Þar er ætíð nóglegt vatn, og er þangað á hestum sótt alstaðar úr bygðinni, þá vatn þrýtur í brunnum heima við bæi í langþerrum, í lind þá er ofan yfir er byggt, og fram kemur so sem úr nokkrum göngum, af mönnum hlaðin, með hellum og vallgróinni jörðu. Enginn þykist vita, hversu löng þessi göng eru.
... Gamalt fólk hefir frá því sagt, að kona hafi um kvöldtíma átt að ausa vatn í skjólu úr neytslubrunni í Dölum með vatnsósa bolla, og hafi bollinn sloppið úr hendi henni, en fundist aftur um morguninn eftir inni í lindinni í Daliver eða Herjólfsdal, hvar af þeir fyrrimenn hafa í tilgátum haft, að þau göng mundi niður í jörðinni liggja til landssuður í þá átt til Helgafells og mæta svo holri jörð, og það vatn mundi undir jörðinni renna frá Helgafelli. En hver vill þessu trúa? — Tveir brunnar eru í Skriðuhólnum í Herjólfsdal. (Silfur-brunnarnir). — Þar þvo konur léreft sín. — Ef fleiri vatnsæða skal hér geta, þá er í Klettshelli í Ystakletti, innst í hellirinum eitt hol inn í bergið, að vídd eins og hálftunnu sponsgat, úr því stendur fram í loftið vatnsbuna, en með því að sjórinn gengur innst inn í hellirinn, bæði með flóði og fjöru, þá kemur ekki þessi vatnsbuna í augljós, fyr en með hálfföllnum sjó út. Þegar menn fara farmaferðir milli Eyja og meginlands og eru mæddir og þyrstir, víkja þeir sér með lágu vatni inn í hellirinn, þá þeir koma fyrir klettsnef og halda austurtrogum sínum undir bununa og svala so þorsta sínum, ... að því er enginn fjöruvatnssmekkur, heldur að öllu líkt því vatni undir Löngu, sem danskir og fleiri brúka fyrir neysluvatn.“ br> Þannig farast síra Gissuri meðal annars orð um vatnið og vatnsbólin hér. Silfurbrunnarnir í Herjólfsdal, sem margir hér muna, eru nú horfnir, huldir möl og mold. Vatnsbunan í Klettshelli er einnig horfin, því að bergið, þar sem bunan var, mun hafa rifnað í sjó niður. —
Þótt ýmislegt hafi verið reynt hér til þess að afla vatns, þá hafa þær tilraunir misheppnast. Alstaðar sem grafið hefir verið eftir vatni, hefir komið niður á sjó. Rannsóknir, sem gerðar hafa verið, hafa lítinn árangur borið til þessa. Nú mun jafnvel ein slík rannsókn vera í vændum og er vonandi, að hún verði til nokkurs. Úr vatnsskortinum verður að bæta, ef ekki að öllu, þá að minnsta kosti að miklu eða einhverju leyti. Við Eyjabúar verðum bráðlega að geta fengið svo mikið vatn, að við getum þvegið af okkur vatnsskortseinkennin. Minnist ég í því sambandi á lítið atvik, sem kom fyrir mig í Reykjavík. Ég var að láta vatn í skál til þess að þvo mér úr. Nærstaddur Reykvíkingur athugull sagði þá við mig: „Þið Vestmannaeyingar eru auðþekktir á því, hvað þið notið lítið vatn til þess að þvo ykkur úr.“ Hefi ég síðan veitt því eftirtekt, að þessi umsögn er að mörgu leyti rétt.