Blik 1980/ Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum (framhald), II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. október 2010 kl. 17:41 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. október 2010 kl. 17:41 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum
(Framhald frá árinu 1976)
(2. hluti)


10. Kaupfélag Vestmannaeyja


Síðan eru liðin hart nær 30 ár.
Sú frétt barst um Eyjabyggð, að tveir starfsmenn Sambands íslenzkra samvinnufélaga (S.Í.S.) væru staddir í bænum og ynnu að því að gera upp reikninga Kaupfélags verkamanna, sem nú yrði látið hætta öllum verzlunarrekstri, þar sem það væri gjaldþrota.
Að kvöldi hins 9. okt. 1950 var dyrabjöllunni hringt að Goðasteini, íbúðarhúsi okkar hjóna, nr. 11 við Kirkjubæjabraut. Komumenn voru tveir, báðir kunnir starfsmenn Sambandsins og erindrekar, þeir Björn Stefánsson, fyrrv. kaupfélagsstjóri á Austurlandi og víðar, og Kristleifur Jónsson, nú bankastjóri Samvinnubankans í Reykjavík, titlaður fulltrúi í greinarkorni þessu.
Og erindið? - Gestir þessir tjáðu mér, að þeir hefðu að undanförnu unnið að því að veita Kaupfélagi verkamanna nábjargirnar (það er mitt orðalag), gera það upp gjaldþrota fyrirtæki. Það hafði sem sé orðið að leggja upp laupana sökum skulda við S.Í.S. - Og erindið til mín væri það að leita hófanna eða beiðast þess, að ég beitti mér nú fyrir stofnun nýs kaupfélags í bænum og tæki að mér formennsku í stjórn þess. Þeir tjáðu mér jafnframt, að þessi beiðni væri hin einlægasta frá sjálfum forstjóra Sambandsins, Vilhjálmi Þór. Jafnframt tjáðu þeir mér, að forustumenn hinna vinstri sinnuðu stjórnmálaflokka í bænum hefðu eindregið æskt þess við þá, að þeir fyndu mig að máli og leituðu hófanna við mig um þetta mál. Vandi er velboðnu að neita og hafna trausti góðra manna, hugsaði ég, og gaf kost á starfinu. - Já, naumast gat ég neitað þessu framtaki, þar sem hér áttu hluta að máli samstarfsmenn mínir í bæjarstjórn kaupstaðarins og skipuðu þar meiri hluta með mér, fimmta fulltrúanum.
Hið nýja kaupfélag skyldi að sjálfsögðu fá strax og skilyrðislaust inngöngu í S.Í.S. og njóta stuðnings þess í öllum rekstri sínum í vinsamlegum samskiptum. Undir eins við stofnun þess og starfrækslu skyldi hið nýja kaupfélag fá afnot af verzlunarhúsi Kaupfélags verkamanna við Bárustíg (nr. 6). Þá skyldi það einnig fá vörulager þess keyptan við vægu verði, það sem söluhæft væri af honum.
Kaupfélagsstjóri hins gjaldbrota kaupfélags, Friðjón Stefánsson, hafði tjáð mér þessa fyrirætlan trúnaðarmanna Sambandsins daginn áður, svo að mér hafði gefizt kostur á að hugleiða þetta erindi þeirra lítillega.
Svar mitt við óskum þessara manna varð jákvætt, þó að ég væri önnum kafinn fyrir. Vissulega var ég reiðubúinn að fórna vilja og starfskröftum til að safna liði til stofnunar nýju kaupfélagi í bænum með þeirri hugsun einni að leiðarljósi, að þau samvinnusamtök gætu stuðlað að hagkvæmum verzlunarkjörum alls almennings með því að halda niðri vöruverði til kaupdrýginda og annarra hagsbóta verkalýðnum til sjós og lands í kaupstaðnum. - Að vísu hafði ég lítinn tíma frá daglegum skyldustörfum til þess að ganga í hús fólksins og tala þar máli samvinnuhugsjónarinnar og fá það til þess að vera þátttakendur í kaupfélags stofnuninni. Ég vann þá skólastarf mitt frá morgni til nóns hvern virkan dag sex daga vikunnar, eins og þá tíðkaðist, og síðan vann ég skyldustörf mín í Sparisjóði Vestmannaeyja frá nóni til miðaftans. En þrjú kvöld vikunnar átti ég frjálsar stundir frá leiðréttingarstarfi við íslenzku stílana mína, sem fylgdu kennslustarfinu. Þau frjálsu kvöld hugsaði ég mér að nota til heimsókna og viðtals í þágu hins nýja samvinnufélags í bænum, sem við vildum þá stofna innan skamms. Svo átti ég líka góða og áhugasama samstarfsmenn á félagssvæðinu, sem voru fúsir til að veita mér aðstoð, rétta mér hjálparhönd. Sú varð og raunin á. Margir kunningjar mínir og samstarfsmenn lögðu mér drjúgt lið og söfnuðu liðsmönnum í tugatali.
Þrem vikum eftir að gestina bar að garði í Goðasteini, eða 29. október, boðuðum við til stofnfundar kaupfélagsins, Kaupfélags Vestmannaeyja, eins og við vildum láta nýja kaupfélagið okkar heita. En samkvæmt ákvæðum gildandi landslaga, varð bæjarstjórn kaupstaðarins að samþykkja nafngiftina, af því að fyrirtækið var kennt við kaupstaðinn. – Samþykkt bæjarstjórnarinnar fyrir nafninu fengum við nokkru síðar, enda heimatökin hæg og góð, þar sem hjálparhellurnar mínar úr hinum vinstri flokkunum í bænum áttu áhrifaríka fulltrúa í bæjarstjórn.
Stofnfundur Kaupfélags Vestmannaeyja, sem er skammstafað K.F.V. samkvæmt firmaskrá, var sem sé haldinn 29. okt. 1950, eins og ég gat um, og sátu hann 70-80 manns, heimilisfeður og húsmæður í bænum. Mikill einhugur og félagsandi var ríkjandi með þessu fólki. Við vorum ánægðir og bjartsýnir. Og við vorum þakklátir þessu fólki fyrir það, hversu það brást vel við og kom drengilega á móti okkur, sem beittum okkur fyrir kaupfélagsstofnuninni.
Áður en stofnfundurinn var haldinn, höfðum við samið hinu nýja kaupfélagi lög og notið við það starf aðstoðar fulltrúa S.Í.S. Þar voru lög annarra kaupfélaga höfð til hliðsjónar. Í þessum nýju lögum okkar var þetta tekið fram m.a.:
Tilgangur félagsins er a) Að útvega félagsmönnum góðar vörur og ná hagfelldum kaupum á þeim. b) Að selja framleiðsluvörur félagsmanna og efla vöruvöndun. c) Að sporna við skuldaverzlun og óreiðu í viðskiptum.

Í 10. grein kaupfélagslaganna var tekið fram: Félagsstjórnin ræður framkvæmdastjóra. (Þ.e. kaupfélagsstjórann.)

Í 11. grein kaupfélagslaganna er sagt: Kaupfélagsstjórnin felur framkvæmdastjóra að ráða starfsmenn kaupfélagsins í samráði við stjórnina og semja um laun þeirra.

Þessi ákvæði kaupfélagslaganna, sem samþykkt voru af S.Í.S., vil ég góðfúslega biðja lesendur mína að hafa í huga, þegar þeir lesa framhald þessarar greinar minnar um gerræðið mikla og valdbeitinguna, sem greint er frá hér í samvinnusögu þessari.
Á stofnfundi kaupfélagsins voru þessir menn kosnir í stjórn þess:
Gunnar Sigurmundsson, prentsmiðjustjóri, Filippus Árnason, yfirtollvörður, Ólafur Björnsson, trésmíðameistari, Jón Stefánsson, vaktmaður Landssímans og undirritaður.
Kaupfélagsstjórnin hélt síðan fyrsta fund sinn að Goðasteini 1. nóvember eða að tveim dögum liðnum frá stofnfundinum. Þar skiptu stjórnarmenn með sér verkum þannig: Formaður stjórnarinnar var kjörinn Þorsteinn Þ. Víglundsson; ritari Gunnar Sigurmundsson; varaformaður stjórnarinnar og þá kaupfélagsins: Jón Stefánsson. Þannig áttu vinstri flokkarnir þrír, sem báru ábyrgð á stjórn kaupstaðarins, sinn fulltrúann hver í kaupfélagsstjórninni. Allt var þetta unnið og gjört í bezta bróðerni og ómengaðri velvild að bezt varð fundið.
Bráðlega eftir stofnfundinn sóttum við um inngöngu í Samband islenzkra sammvinnufélaga f.h. Kaupfélags Vestmannaeyja.
Fyrr í sama mánuði ræddi ég þessa upptökubeiðni okkar við forstjóra S.Í.S., Vilhjálm Þór. Hann tók þessari málaleitan okkar sérstaklega vinsamlega, enda allt þetta félagsstarf unnið að vilja hans og beiðni, þó að starfsmenn hans væru þar málflytjendur.
Hinn 7. desember (1950) hélt stjórn kaupfélagsins þriðja fund sinn. Þá höfðu tugir manna bætzt við á undirskriftarlistana og þannig óskað að vera með í þessum samvinnusamtökum. Þeir vildu vissulega leggja sitt til, að svo góð og göfug hugsjón mætti verða að veruleika, eins og þetta blessað fólk komst að orði stundum.

Enn liðu dagar án þess að svar bærist okkur frá forstjóra Sambandsins við inntökubeiðni okkar og þó nálguðust áramótin. Þá áttum við að taka við vörubirgðum hins gjaldþrota kaupfélags og reka verzlun “eigin búða” eftir það.

Það leyndi sér ekki, að farið var að fara um stjórnendur Neytendafélags Vestmannaeyja, sem var eins konar samvinnufélag fúlustu andstæðinga S.Í.S og svo Framsóknarflokksins í landinu. Það verzlunarfélag var rekið í húsi nr. 7 við Bárustíg gegnt verzlunarhúsi Kaupfélags verkamanna, húsinu, sem ætlazt var til, að kaupfélagið okkar keypti af Sambandinu.

Sögur gengu af erfiðum rekstri Neytendafélagsins og háum víxlaskuldum, sem stjórnendur þess báru ábyrgð á gangvart Útvegsbankanum, sem var einn af stærstu lánadrottnum þeirra samtaka. – Neytendafélaginu réðu kunnir menn í forustuliði Sjálfstæðisflokksins. Þar voru æðstir stjórnarmenn og kunnastir Steingrímur Benediktsson, kennari, formaður stjórnarinnar, Páll Eyjólfsson, ritari hennar og Jón Eiríksson, héraðsdómslögmaður, að ég bezt veit.
Þegar við höfðum stofnað Kaupfélag Vestmannaeyja, skrifaði formaður Neytendafélagsins blaðagrein, sem spillti mjög andrúmsloftinu. Hún birtist í blaði Sjálfstæðisflokksins í bænum. Þar var farið mjög niðrandi orðum um stofnun hins nýja kaupfélags og okkur, sem að því stóðu. Þar gaf að lesa þessi orð m.a.: „Er ef til vill meira framtíðaröryggi í hinu nýja félagi, sem hefur blekkingar og pólitíska valdagræðgi að hyrningarsteini?“
Vissulega særðu þessi orð okkur og marga félagsmenn okkar og þá ekki sízt húsmæðurnar.
Og svo allt í einu barst sú fregn um bæinn, að fulltrúi forstjóra S.Í.S væri kominn til Eyja. Vitaskuld hlaut hann að hafa með sér jákvætt svar við upptökubeiðni okkar kaupfélagsmanna í Sambandið.
Fulltrúinn vildi við okkur tala. Í tilefni þess var boðað til stjórnarfundar í Kaupfélaginu.
Á stjórnarfundi þessum færði fulltrúinn okkur bréf frá forstjóra Sambandsins. Þar tjáði hann okkur þau gegvænlegu tíðindi, að við fengjum ekki inngöngu í S.Í.S. eða stuðning þess til þess að reka Kaupfélag Vestmannaeyja, nema stjórn þess fengist til að sameina fyrst leifar hins nálega gjaldþrota Neytendafélags Kaupfélagi Vestmannaeyja, því stjórnendur þess væru að gefast upp við reksturinn og byðu nú Sambandinu allt hafurtaskið sitt til eignar, -vörubyrgðir, skuldir og húseign, ef að sameiningunni gæti orðið.
Tveir stjórnarmenn Neytendafélagsins, þeir Steingrímur og Páll, höfðu þá nýlega verið sendir með nokkurri leynd á fund forstjórans, V.Þ., til þess að fá hann til að fallast á þessa sameiningu verzlunarfélaganna.
Jafnframt þessum geigvænlegu fréttum var það krafa forstjórans, að við vékum tveim mönnum úr stjórn Kaupfélagsins. Í þeirra stað tækjum við inn í stjórnina tvo fyrrverandi stjórnarmenn Neytendafélagsins, sem þá var að verða gjaldþrota, að okkur skildist helzt. – Hvað nú um hyrningarsteininn og hina pólitísku valdagræðgi eins og prentað stóð í blaði Flokksins?
Ýmislegt benti til þess, að Steingrími og Páli hefði tekizt að dáleiða sjálfan forstjórann. Eða ættum við heldur að orða það þannig, að þeir hefðu stolið úr honum hjartanu? Það fannst okkur ganga kraftaverki næst. Sá hjartastuldur var þá einstakt afrek í okkar augum. Í gremju okkar gátum við þó naumast varist hlátri. Svo kynlegt fannst okkur þetta fyrirbrigði.
Stjórn Kaupfélags Vestmannaeyja afréð þegar að senda tvo menn á fund forstjóra S.Í.S í Reykjavík til þess að ræða þessi mál við hann. Ég var annar þessara sendisveina. Nafn hins liggur í þagnargildi.
Og vissulega var okkur veitt sú náð að fá að mæla hann máli. Þeirrar náðar naut ég hins vegar ekki síðar, er ég fór þess á leit. Á viðræðufundi þeim, sem við áttum með honum, færðum við fram ástæðurnar fyrir því, hvers vegna okkur hrysi hugur við að hafa afskipti af fjármálum og vörulager Neytendafélagsins, - hirða upp reytur þess, stórar og smáar, svo og skuldir þess og skít, eins og við orðuðum það í beiskju okkar. Auðvitað leitaði forstjórinn orsakanna.
Að okkar áliti hafði Neytendafélagið verið til þess rekið, að hnekkja samtökum samvinnumanna í bæjarfélaginu. Að því stæðu og hefðu alltaf staðið fúlustu fjandmenn samvinnusamtakanna í landinu með konsúlaklíku bæjarins í fararbroddi. Svo áberandi hafði þessi andróður orðið, að kunnir samvinnu- og Framsóknarmenn í bænum höfðu á undanförnum árum sagt sig úr Neytendafélaginu og hætt að skipta við það. Félagi minn og sam-sendisveinn var mun stóryrtari en ég. Ég var hreykinn af honum.
Hann sagði sem satt var, að það væri grunur okkar og ef til vill nokkur vissa, að Neytendafélagið stæði höllum fæti fjárhagslega. Það gæti því staðið Kaupfélagi Vestmannaeyja fyrir vexti og viðgangi að taka á sig skuldbundingar þess og til sín vörulagerinn. Mundi það koma harðast niður á S.Í.S., töldum við. Í alla staði væri það betra, að Neytendafélaginu væri leyft að fara á hausinn, og ættum við þá að hirða upp leyfarnar. Ef hér væru gjörð mistök, bytnuðu þau harðast á S.Í.S. Forstjórinn vildi ekki á þetta tal okkur hlusta. Ég leyfði mér að benda á, að lánstraust þess fyrirtækis, sem væri látið hefja tilveru sína með því að taka við gömlum vörulager og skuldum gjaldþrota fyrirtækis, yrði ekki því vaxið að skapa sér lánstraust peningastofnana í kaupstaðnum og enginn vildi bera ábyrð á rekstri þess.
Þá var forstjóranum sýnd blaðagreinin um hyrningasteininn og pólitísku valdagræðgina. Hann hristi höfuðið þegjandi og hljóðalaust eins og hann væri dáleiddur.
Enn kom annað til. Samferðamaður minn benti forstjóranum á þá staðreynd, að Framsóknarmenn mynduðu þá sem stæði meiri hluta með Alþýðuflokknum og Kommúnistum í bæjarstjórn kaupstaðarins. Ef sú samvinna rofnaði t.d. eftir næstu bæjarstjórnarkosningar, væru kommúnistar ekki ólíklegir til að beita sér fyrir því, að áhrif samvinnu - og Framsóknarmanna í stjórn Kaupfélagsins yrðu að engu gerð með því að Kommar tækju höndum saman við fyrrverandi stjórnarmenn Neytendafélagsins og gerðu þá þannig að stjórnarhatti Kaupfélagsins. Sú tilhögun væri svo líkleg til að auka fylgi Sjálfstæðismanna í bænum og þar með kaupmannavaldsins. Þetta fannst forstjóranum barnalegar hugsanir. Þar með var þeim samfundi lokið.
Ég drep hér á þessar umræður til gamans mér og nokkurs fróðleiks seinni tíma mönnum, sem hugleiða vildu þessi mál.
Og nú áttum við sem sé að víkja tveim samvinnumönnum úr stjórn hins nýja kaupfélags og fá kosna þar tvo fúla fjendur S.Í.S. í staðinn, eins og við orðuðum það okkar á milli í gamni og alvöru, spaugi og beiskju.
Einnig sótti forstjórinn það fast, að nokkrir búðarmenn Neytendafélagsins yrðu ráðnir til starfa hjá Kaupfélagi Vestmannaeyja. Þegar við mótmæltum þessum síðustu óskum forstjórans eindregið og hörkulega, sló forstjórinn undan og játaði, að hinn væntanlegi kaupfélagsstjóri réði allt starfsfólkið í samráði við stjórnina samkvæmt 11. grein kaupfélagslaganna.
Þegar við komum aftur heim til Eyja, var boðað til fundar með nokkrum framámönnum Framsóknarflokksins í bænum til skrafs og ráðagerða.
Framsóknarflokkurinn hafði nokkra sérstöðu í kaupstaðnum. Á kjörtímabilinu 1946-1950 hafði hann ekki átt neinn fulltrúa í bæjarstjórninni. Til þess hafði hann skort fylgi. Nú vorum við Helgi Benediktsson báðir í bæjarstjórninni fulltrúar flokksins. Svo mikinn sigur hafði hann unnið við bæjarstjórnarkosningarnar, sem fram fóru í jan. 1950. En þetta fylgi flokksins í bænum var vissulega ekki traust. Og það var okkur öllum ljóst, að kjósendur okkar, allur þorri þeirra, dró ekki skarpar línur milli Framsóknarflokksins annars vegar og Sambands íslenzkra samvinnufélaga hins vegar.
Ég minnist orða eins af flokksmönnum þarna á fundinum. Hann var meira en gramur. Hann var reiður og notaði orðið samvinnunasismi. Á fundi þessum afréðum við að halda þessum fyrirbrigðum og þessari sáru reynslu sem allra mest leyndri fyrir kaupfélagsfólkinu af ótta við fylgis- og atkvæðatap. Hljóðir og sárir lutum við ofbeldinu. Og fyrir orð samstarfsmanna minna og flokksfélaga samþykkti ég að vera áfram formaður kaupfélagsstjórnarinnar með því skilyrði þó, að ég hefði algjörlega frjálsar hendur um öll viðskipti Sparisjóðs Vestmannaeyja við K.F.V. Þar skyldu engin lán eða víxlakaup eiga sér stað nema, Sambandið sjálft stæði ábyrgt að þeim viðskiptum. Og öll skyldu þau viðskipti lúta persónulegum vilja mínum og hagkvæmni sparisjóðsins í hverju tilviki.
Hinn 19. des. (1950) héldum við almennan fund með kaupfélagsmönnum. Sú samþykkt var gjörð þar, að víkja tveim samvinnumönnum úr stjórn Kaupfélags Vestmannaeyja og taka í þeirra stað tvo fulltrúa hins gjaldþrota félags Sambandsandstæðinganna í stjórnina, þar sem ég fékk því ekki framgengt að 7 menn skipuðu stjórnina. Þá hefðum við ekki þurft að sparka okkar mönnum til þess að koma þar að andstæðingum okkar, sem fyllyrt höfðu í blaðagrein, að við hefðum „blekkingar og pólitíska valdagræðgi að hyrningarsteini“ fyrir samvinnustarfi okkar.
Aðeins 56 fyrrverandi félagsmenn Neytendafélagsins sálaða æsktu þess að gerast félagsmenn Kaupfélags Vestmannaeyja, en þá höfðum við fengið 250 manns áður til þess að vera með í samtökunum. Þannig urðum við að lúta því sökum ofbeldis, að þessir 56 menn réðu 2/5 af kaupfélagsstjórninni gegn 250, sem réðu 3/5 hennar.
Þá var að hefjast handa á ný og reyna að byggja upp sterkt kaupfélag, sem þó var vonlítið næstu árin, eins og allt var í pottinn búið, því að viðskiptaleg ógæfa í þessu starfi blasti við augum margra okkar, sem bezt þekktum það ,,heimafólk“, sem nú hafði náð næsta ótrúlegum tökum á einveldi samvinnusamtakanna í landinu. Og meira var framundan.
Hinn 10. janúar 1951 hélt kaupfélagsstjórnin fyrsta fund sinn eftir áramótin. Fund þennan sat fulltrúi forstjóra Sambandsins, Kristleifur Jónsson. Í ljós kom á fundi þessum, að vörulager Neytendafélagsins hafði verið „tekinn út“ án vitundar okkar þriggja í kaupfélagsstjórninni og sameinaður vörulager kaupfélagsins. Aðeins fyrrverandi stjórnarmenn Neytendafélagsins voru þar viðstaddir og með í ráðum. Það voru ráð forstjóra S.Í.S., að fulltrúinn tjáði okkur. Þannig voru þá samvinnutrippin rekin í landi því. Í þröngum hring okkar, sem mest höfðum beitt okkur fyrir stofnum kaupfélagsins og unnið þar mest og bezt, ríkti kátína og glettni í beiskri staðreynd. Við vorum vissulega reynslunni ríkari og afréðum í þröngum hring, að aldrei skyldu þeir háu valdsherrar fá okkur til þess, að bindast neinni skuldbindingu, t.d. með samþykkt eða útgáfu vöruvíxla. Þar skyldi Sambandið eiga allt á hættu.
Við vissum mæta vel, að töluverður hluti af vörulager hinna gjaldþrota samvinnufélaga, sem Kaupfélagið okkar var látið yfirtaka, voru skemmdar vörur og ekki seljanlegar. Samt skyldu þær hafðar á boðstólum hjá nýja kaupfélaginu, þrátt fyrir ákvæðin í 2. grein kaupfélagslaganna, þar sem stendur skýrum stöfum, að útvega skuli félagsmönnum góðar vörur og ná hagfelldum kaupum á þeim. Það var í upphafi markmið okkar, sem stóðum að kaupfélagsstofnuninni. Og fyrirmynd laganna var okkur send frá skrifstofu Sambandsins. - Við vissum, að ein skuld Neytendafélagsins sálaða var víxilskuld við Útvegsbankann í kaupstaðnum kr. 200.000,00, sem kaupfélaginu var gert að yfirtaka. Þeir um það, þeir um það. Við komum þar hvergi nærri. Þetta var viðkvæðið í okkar valdalausu herbúðum. - Útistandandi „kladda-skuldir“ Neytendafélagsins námu kr. 85.000,00. Þessar skuldir vorum við neyddir til að taka í eigu kaupfélagsins sem 100% eign. - Lögfræðingi var falið að innheimta skuldir þessar. Um 50% greiddust af þeim. Hinn hluti þeirra var fyrndur, var fjögurra ára og eldri, - tapað fé sökum vanrækslu.
Löglega kosnir endurskoðendur Kaupfélags Vestmannaeyja voru þeir Karl Guðjónsson, kennari frá Breiðholti og síðar alþingismaður, og Filippus Árnason, yfirtollvörður. Þeim var heldur ekki gefinn kostur á að vera viðstaddir, þegar vörulager Neytendafélagsins var fluttur í vörugeymslu og búð Kaupfélagsins. Þeir börmuðu sér og þeim fannst sér misboðið. Við hinir viðurkenndu samvinnumenn kímdum en blygðuðumst, - þögðum þunnu hljóði. Auðvitað vissum við hinn lagalega rétt þeirra eins og okkar, mannanna, sem hinir mörgu og einlægu stofnendur kaupfélagsins höfðu kjörið til þess að fylgjast með daglegum rekstri, ef svo mætti segja, vera vökulir eftirlitsmenn um rekstur þess og velfarnað.
Að beiðni okkar stjórnarmanna rannsökuðu endurskoðendurnir vörubirgðir Kaupfélagsins nokkru eftir að það tók að reka verzlun sína. Þeir gáfu síðan stjórninni skýrslu. Í skýrslu sinni kvörtuðu þeir sáran undan birgðum af skemmdum vörum, sem kaupfélagið lægi með. Í skýrslu þeirra stóð orðrétt: „...Enda liggur í augum uppi, að vörur, sem ekki hafa selzt á undanförnum misserum, þrátt fyrir hina alkunnu vöruþurrð í landinu, eru ekki útgengilegur varningur.“
Nú var ég einn eftir af hinum eiginlegu samvinnumönnum í stjórn kaupfélagsins. Hinir tveir, sem þar voru með mér upprunalega, höfðu orðið að víkja, og tveir Sjálfstæðismenn, fyrrverandi stjórnendur Neytendafélgsins, tekið sæti þeirra samkvæmt valdboði forstjóra S.Í.S. En annar endurskoðandinn var enn Framsóknarmaður og þá samvinnumaður að sannfæringu. Það var Filippus Árnason.
Okkar á milli og í einrúmi ræddum við um skemmdu vörurnar og urðum á það sáttir að nefna þær ekki við kaupfélagsmenn sökum ótta við það, að þessi viðbjóðslega staðreynd yrði að blaðamáli í bænum og notuð af andstæðingum Framsóknarflokksins og Sambandsins til þess að ófrægja hvort tveggja og hnekkja þeim. Það gat leitt til þess, að töluverður hluti kaupfélagsmanna, sem annars voru traustir fylgifiskar okkar eins og sakir stóðu, misstu trúna og brigðust til andstöðu við ofbeldið og ófyrirleitnina. Þá var hið pólitíska fylgishrun framundan.
Með vörulager Neytendafélagsins, sameiningu hans við vörubirgðir hins nýja kaupfélags, sem voru meira og minna lélegar leifar frá Kaupfélagi verkamanna, var kippt stoðunum undan þeirri hugsjón okkar, að Kaupfélag Vestmannaeyja gæti um árabil orðið efnalega sjálfstæð stofnun. Enda komu afleiðingar þessarar óbilgirni og kúgunar brátt í ljós í rekstri K.F.V. Miklu varð að fleygja af vörubirgðunum, eftir að kaupfélagið var neytt til að yfirtaka þær á innkaupsverði með dálitlum afslætti. Eftir fyrsta starfsárið nam vörurýrnunin 5,63% samkv. skýrslu endurskoðendanna til stjórnarinnar. Þar olli mestu þær vörur, sem varð að fleygja, aka þeim vestur af Hamrinum, sökum skemmda. Þessi vörurýrnun stafaði fyrst og fremst af skemmdum vörum frá hinum gjaldþrota samvinnufyrirtækjum en ekki þjófnaði starfsfólksins úr búðum verzlunarinnar.
Eftir tveggja mánaða rekstur og sölu á skemmdum vörum varð Sambandið að lána Kaupfélaginu stórfé, eins og það var á þeim tíma, hálfa milljón króna, til þess að endurnýja vörulager sinn í stað skemmdu varanna, sem var fleygt í ótrúlega ríkum mæli. Við brostum í beiskju okkar, og létum hvergi skuldbinda okkar í öllum þessum skollaleik viðskiptalífsins, og þá ekki heldur Sparisjóð Vestmannaeyja.
Jón Gunnarsson hét fyrsti kaupfélagsstjórinn, sem forstjóri Sambandsins sendi Kaupfélagi Vestmannaeyja. Hann hafði áður verið kaupfélagsstjóri í litlu kauptúni á Norðurlandi, þar sem lítil var samkeppnin í viðskiptalífinu. Kaupfélagið þar var næsta einrátt í verzlun og viðskiptum. Í Vestmannaeyjum gegndi öðru máli.
Endurskoðendur Kaupfélags Vestmannaeyja urðu þess bráðlega varir, að kaupfélagsstjórinn var slyngur bókfærslumaður, svo að þeir dáðust að starfi hans á því sviði. Hins vegar kom það brátt í ljós, að hann bar ekki skyn á þann vanda, sem mikil samkeppni í verzlun hefur í för með sér. Þá reynir vissulega á hyggju- og fjármálavit. Yfir þessari óstjórn var kvartað iðulega við mig, formann kaupfélagsins. Þetta var viðkvæmt mál og vandasamt, þar sem hver þekkir annan í vinsemd og kunningsskap. - Stjórnin ræddi þessi mál við kaupfélagsstjórann. Kaupfélagsstjórnin vildi ráða deildarstjóra til þess að annast daglega umsjón með starfsfólkinu og afgreiðslunni í heild. Á það gat kaupfélagsstjórinn ekki fallizt, þó að stjórnin væri þar öll á einu máli. Afstaða hans í þessu mikilvæga hagsmunamáli fyrirtækisins vakti óánægju með stjórnarmönnum. Þar olli miklu, hversu kaupfélagsmenn kvörtuðu hávært undan stjórnleysinu í búðunum og óviðeigandi viðskiptaháttum. T.d. voru þarna starfandi tveir hljómlistarmenn við daglega afgreiðslu. Þeir höfðu hljómlistartækin með sér í starfið og iðkuðu hornablástur og gítarspil að hurðarbaki, þegar hlé var á afgreiðslustörfum og létu þá stundum bíða eftir því, að tónverkinu lyki.
Deildarstjóraefni höfðum við stjórnarmenn á hendinni og vorum sammála um ágæti þess. En kaupfélagsstjóri neitaði að hlusta á þá tillögu stjórnarmanna. Á stjórnarfundi með kaupfélagsstjóra 10. okt. 1952 var þessi deildarstjóraráðning sérstaklega tekin fyrir og mikið rætt um óstjórnina í búðum kaupfélagsins, þar sem nánast enginn agi virtist eiga sér stað. Þá tjáði kaupfélagsstjórinn stjórninni, að nafngreind afgreiðslustúlka hjá kaupfélaginu hefði tilkynnt honum, að hún væri fyrirfram ákveðin að lúta engri stjórn nema hans við afgreiðslustörfin, og kvaðst kaupfélagsstjórinn vera stúlku þessari hjartanlega sammála (samanber fundargerð stjórnarfundar 10. okt. 1952). Við það sat að sinni. Okkur, sem skipuðum meiri hluta kaupfélagsstjórnarinnar, var ekki list sú léð að leggja árar í bát. Eftir viku sagði kaupfélagsstjórinn upp starfi sínu við kaupfélagið með löglegum fyrirvara. Við dáðum hann fyrir það að vilja nú aftur leita heim til „föðurhúsanna“ í fang forstjóra Sambandsins.
Fyrsti aðalfundur Kaupfélags Vestmannaeyja var haldinn í Alþýðuhúsinu í bænum 3. júní 1952. Vörusala félagsins á árinu 1951, fyrsta starfsárinu, nam kr. 3.774.650,71 samtals. Þar af keyptu fastir félagsmenn vörur fyrir kr. 2.174.839,77. Halli af rekstri kaupfélagsins fyrsta árið nam tæpum kr. 200.000,00. Þá höfðum við afskrifað ónýtar vörur að verðgildi kr. 40.500,00 og svo ýmislegt fleira frá þrotabúi Neytendafélagsins, alls kr. 34.097,00. Samtals námu afskriftir þessar kr. 74.597,85, - ónýtar vörur og tapaðar útistandandi skuldir. Endurskoðendur luku upp einum munni um það, að reikningar allir væru vel og skilmerkilega færðir hjá kaupfélagsstjóranum.
Á aðalfundi Sambands íslenzkra samvinnufélaga, sem haldinn var í Bifröst sumarið 1951, flutti forstjórinn, Vilhjálmur Þór, margar ræður. Ein þeirra fjallaði um nauðsyn þess að stofnað yrði „Vinnumálasamband samvinnufélaganna“, eins og hann orðaði það og vildi kalla þessi samtök. Þetta var í eina skiptið, sem ég átti þess kost að sitja aðalfund Sambandsins. - Ég fylltist tortryggni við þennan málflutning forstjórans. Áttu samvinnufélögin í landinu að mynda eins konar varnarvegg við hlið Sambands íslenzkra atvinnurekenda gegn launþegasamtökunum í landinu, gegn verkalýð til sjós og lands? Var kaupfélögunum í landinu ætlað að verða eins konar máttarstólpar í þessum hagsmunavegg atvinnurekendanna? Mér bauð í grun. Já, ég fylltist tortryggni. Ég lét í ljós tortryggni mína á þessum fundi. Ég taldi slík samtök kaupfélaganna í landinu samrýmast illa samvinnuhugsjóninni og ekki drengileg gagnvart því fólki, sem t.d. stóð að stofnun Kaupfélags Vestmannaeyja. Átti að gera kaupfélagið að einskonar mótaðila gegn hagsmunum þess og kjarabaráttu fólksins, sem alltaf ætti undir högg að sækja gegn atvinnurekendastéttinni um afkomu sína og lífskjör? -
Auðséð var á andlitum tilheyrenda minna þarna á fundinum, að þeir undruðust og litu á mig sérlegum augum. Bölvuð ófyrirleitni! Einstakur stráksskapur! Andblær íslenzkra samvinnu undir einræðisstjórn. Ekki mundu fundarmenn til þess, að nokkur slíkur fundargestur Sambandsins hefði fyrr leyft sér að gagnrýna þannig ræðu forstjórans. Ræða mín virtist því hneyksla samvinnusöfnuðinn, nema þá nokkra menn, sem höfðu vit á að þegja. Og auðvitað fannst sjálfum forstjóranum ræða mín ekki svaraverð. Ég skemmti mér konunglega.
Hinn 28. ágúst sumarið 1951 lá fyrir stjórnarfundi okkar kaupfélgsmanna bréf frá Sambandi íslenkra samvinnufélaga, þar sem óskað var eftir stuðningi Kaupfélagsins við „Vinnumálasamband samvinnufélaganna.“ – Eftir nokkrar umræður ályktaði stjórn kaupfélagsins einróma, að félagið tæki ekki að svo stöddu afstöðu til „Vinnumálasambands samvinnufélaganna“, eins og það er orðað í fundargjörðabók kaupfélagsstjórnarinnar.
Auðvitað vissi forstjóri S.Í.S., hver hefði þarna ráðið mestu um afstöðuna til Vinnumálasambandsins. Svona sjálfstæðri hugsun og óbundum ályktunum virtist hann vera óvanur hjá forgöngumönnum kaupfélaganna í landinu. Það fékk ég að reyna. Kaldir streymdu straumarnir að mér. Ég lét mér það vel lynda, enda dúðaður fyrir.
Á öðru ári Kaupfélagsins okkar stofnuðum við til innlánsdeilar og mynduðum dálítinn rekstrarsjóð. Við árslok 1951 höfðum við í sjóði þessum kr. 38.416,91. Út af fyrir sig sannar þetta framtak okkar, hversu gott var að vinna að félagsmálum með fólki Kaupfélagsins. – Allur þorri þess var fátækt fólk, sem bar ekki mikið úr býtum mánaðarlega eða árlega. Okkur fannst, að skilningur þess á heilbrigðu og gagnlegu félagsstarfi hefði farið vaxandi á undanförnum árum og tekið ánægjulegum þroska. Það fann ég einnig glögglega í sparisjóðsstarfi mínu.
Ríkan þátt í þessum vexti og félagsþroska áttu vitaskuld kaupfélögin, sem starfrækt höfðu verið í bænum á undanförnum áratugum, og svo verkalýðssamtökin.