Þorbjörn Guðjónsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 26. september 2010 kl. 21:17 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 26. september 2010 kl. 21:17 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Þorbjörn Guðjónsson fæddist 6. október 1891 í Rangárvallasýslu og lést 23. nóvember 1974.

Árið 1911 fluttist Þorbjörn til Vestmannaeyja í atvinnuleit, þá tvítugur að aldri. Næstu árin var hann háseti á vélbátum á veturna en leitaði sér atvinnu til Austfjarða á sumrin eins og þá var algengt á meðal Sunnlendinga.

Þorbjörn hafði sparað fé sitt vel og hann notaði þann pening í að eignast hluta af vélbát, Happasæl, og var þar ráðinn formaður. Einnig var Þorbjörn formaður á Marz.

Þorbjörn kvæntist heimasætunni í Háagarði, Helgu Þorsteinsdóttur 1918 en hún var dóttir Þorsteins Ólafssonar sem var meðeigandi Þorbjörns að vélbátnum, og konu hans Ingibjargar Hjörleifsdóttur.

Þau hjón höfðu mikinn áhuga á ná sér í jörð í Vestmannaeyjum og þar sem Þorbjörn hafði ráð á meiru en flestir þá fengu þau byggingu fyrir einni Kirkjubæjarjörðinni. Það gerðist árið 1919. Þá festu hjónin kaup á húseignum ekkjunnar á Kirkjubæ, Sigurlaugar Guðmundsdóttur, sem gift hafði verið bóndanum Ísleifi Guðnasyni. Jafnframt því að kaupa húseignirnar fengu hjónin byggingu fyrir jörðinni hjá umboðsmanni Vestmannaeyjajarða Karli Einarssyni sýslumanni.

Fyrstu 16 búskaparárin var Þorbjörn í útgerð en eftir það sneri hann sér að jarðræktinni á Kirkjubæ og að félagssamtökum bænda svo og öðrum félagsmálum. Var meðal annars mjólkurframleiðsla á Kirkjubæ og gerðu þau garðinn frægan með ræktunarframkvæmdum sínum.

Þorbjörn var meðal þeirra manna sem beittu sér fyrir stofnun Búnaðarfélags Vestmannaeyja sem átti að stuðla að aukinni ræktun og auknum búskap í Vestmannaeyjum.

Hjónin á Kirkjubæ ræktuðu um 26 hektara lands, tún og matjurðagarða. Það var stór hluti af því landi sem ræktað var í Eyjum á þessum tíma.

Þorbjörn og Helga eignuðust fimm börn. Þau eru Þórný Unnur Þorbjörnsdóttir, Leifur Þorbjörnsson, Engilbert Þorbjörnsson, Björn Þorbjörnsson og Ingi Þorbjörnsson.

Sjá nánar Blik 1971, — Hjónin á Kirkjubæ, Helga og Þorbjörn


Heimildir