Blik 1961/Fyrsta bifreiðin kemur til Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. ágúst 2010 kl. 09:42 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. ágúst 2010 kl. 09:42 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1961



Fyrsta bifreiðin kemur
til Vestmannaeyja


Í júnímánuði 1918 stofnuðu Vestmannaeyingar félag, sem hafði það að markmiði að festa kaup á bifreið, sem flutt yrði til bæjarins og notuð í þágu útgerðarinnar fyrst og fremst. Þetta skyldi vera vöruflutningabifreið. Að félagi þessu stóðu um 20 manns.
Ekkert varð úr þessu félagi eða starfi þess.
Í júlí 1919 kom fyrsta bifreiðin til Vestmannaeyja. Hana keypti til bæjarins Eyþór Þórarinsson bónda á Oddsstöðum Árnasonar. Skip Eimskips, Gullfoss, flutti hana til Eyja. Þetta var allstór flutningabifreið. Fyrsti bifreiðarstjóri hennar var Oddgeir Þórarinsson, bróðir Eyþórs. Ég hef skrifað honum og beðið hann að segja mér það, sem honum er minnisstæðast um þetta markverða framtak þeirra bræðra.

Oddgeir Þórarinsson.

Oddgeir Þórarinsson skrifar mér á þessa leið:
Það var vorið 1919, að Eyþór bróðir minn kom að máli við mig og bað mig að aka fyrir sig bifreið, sem hann var að fá frá Reykjavík. Ég gekkst inn á þetta, þó að ég væri kvíðinn, því að þá hafði ég aldrei augum litið bifreið.
Svo kom bifreiðin og með henni Björgvin Jóhannsson, útlærður og ágætur bifreiðarstjóri. Hann dvaldist í hálfan mánuð í Eyjum og kenndi mér það helzta um meðferð og akstur bifreiða.
Þetta var MAXVELL-bifreið, stærð 1 1/2 smálest, með húsi og með framrúðu á hjörum.
Bifreiðin reyndist óheppileg. Hún var langbyggð og þung. En það versta var þó, að hún var með þykkum gúmmgjörðum á hjólunum en ekki hjólbörðum, eins og nú tíðkast. Þess vegna skar hún sig niður, þar sem ekki var nægilega hart undir. Einnig var bifreiðin óliðleg, svo löng sem hún var, þar sem flest allar götur í bænum voru þröngar og ekki ætlaðar öðrum farartækjum en handvögnum.
Ég lærði að aka bifreiðinni á þessum hálfa mánuði. Meðan ég var að læra, var engu ekið nema krökkum og þeim var ekið frá torginu við gamla bankahúsið, Heimagötu 1, upp að Norðurgarðshliði. Fargjald var 25 aurar. Oftast var mikil ös og aðsókn að ferðum þessum, því að fáir höfðu þá séð bifreið, hvað þá fengið að aka í henni. Svo fór Björgvin úr Eyjum og ég tók að fullu við bifreiðinni. Töluvert var þá að gera. Ég ók fiski til og frá, sandi og grjóti í byggingar og grjóti í fiskreiti. Þegar leið á haustið, var nóg að gera.
Þessi bifreið var notuð í Eyjum aðeins hálft annað ár, aðallega vegna þess, hve hún var óhentug.
Ég ók ekki þessari bifreið nema þetta sumar. Um haustið fór ég til Reykjavíkur og tók bifreiðastjórapróf.
Engin einkennistala var á bifreiðinni. Það var ekki til siðs í þá daga. Umferðin gekk alveg furðanlega eftir öllum ástæðum. Þá voru í Eyjum nokkrir menn, sem höfðu atvinnu af því að aka með hestum. Þeir voru stundum dálítið óþjálir við mig. En allt gekk þetta þó árekstra- og slysalaust.
Einu atriði hefi ég gaman af að segja frá í sambandi við þessa fyrstu bifreið í Eyjum. Eftir nokkra notkun bilaði gírkassinn. Þá var ljótt í efni. Enginn þekkti neitt til þess að lagfæra slík ökutæki og bifreiðin var ekki ökufær. Þá fékk ég Óskar Sigurhansson, sem þá var að enda nám hjá Th. Thomsen, til að hjálpa mér að ná gírkassanum úr bifreiðinni og taka hann sundur. Þegar það var gjört, kom í ljós, að annað gírhjólið var ónýtt. Þá var hringt til Reykjavíkur til þess að fá nýtt hjól, en það var ekki til í landinu. Óskar gerði sér þá lítið fyrir og smíðaði hjólið. Sú smíði heppnaðist svo vel, að hjólið var í bifreiðinni, þegar hún var seld frá Eyjum.


Þetta var þá aðalefni bréfsins hins fyrsta bifreiðastjóra í Vestmannaeyjum, Oddgeirs Þórarinssonar frá Oddsstöðum, og þökkum við honum alúðlega fyrir fræðsluna, sem er sögulegs gildis.
Þessi bifreiðakaup Eyþórs Þórarinssonar höfðu þau áhrif, að nokkrir menn í Eyjum ruku aftur upp til handa og fóta og stofnuðu á ný félag til bifreiðarkaupa. Það félag var stofnað um miðjan júlí 1919 eða nokkrum dögum eftir að Gullfoss flutti fyrstu bifreiðina til Eyja. Það er einhversstaðar tekið fram, að flutningabifreið hins nýja félags skuli aðallega flytja fisk og fiskslóg. Það dróst á langinn, að draumur þessi rættist og bifreið þessi kæmi í bæinn. Um það bil tveim árum síðar kom svo loks önnur bifreiðin, sú er um getur í grein Árna Árnasonar á öðrum stað í ritinu.

Þ.Þ.V.