Blik 1962/Saga Bókasafns Vestmannaeyja, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. ágúst 2010 kl. 20:13 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. ágúst 2010 kl. 20:13 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



HARALDUR GUÐNASON:


Saga Bókasafns Vestmannaeyja


(Lestrarfélag Vestmannaeyja — Sýslubókasafn — Bæjarbókasafn)


1862-1962


Það er vor í Eyjum 1862, fremur kuldalegt vor. Vertíðin hafði ekki verið gjöful fremur en endranær*. Þó var svo guði fyrir að þakka, að engin fleyta týndist á liðinni vertíð. En ekki var gott í efni, ef fiskurinn brást; þá gapti við allsleysi og eymd.
Í byrjun aldarinnar voru 173 sálir í þessu sjóplássi umluktu hafi á alla vegu. Íbúum fjölgaði, þegar vel aflaðist, en kyrrstaða í vondum árum. Jarðir allar voru fullsetnar, en þeir, sem ekki áttu því láni að fagna að fá jarðarskika, urðu að búa í tómthúsum. Þau voru um þrjátíu, er hér var komið sögu. Sum tómthúsin heita skringilegum nöfnum, svo sem Ömpuhjallur, Önnuhjallur og Grímshjallur.
Þau hafa verið byggð upp úr fiskhjöllum. Önnur hétu virðulegum nöfnum stórborga, svo sem París og London. Ársleiga eftir tómthús var 60 fiskar, sem greiddir voru landeiganda.
Byggðin var á þessum árum í fjórum hverfum og þrjú þeirra að mestu innan girðinga. Austasti hluti þessa sjávar- og sveitaþorps var í Austurgirðingu. Innan hennar voru 26 jarðaábúðir og Vilborgarstaðir þeirra stærst. Þá var Niðurgirðingin. Í Niðurgirðingunni var m.a. Skanzinn, Kornhóll og Miðhús. Uppgirðing var vestur af Dölum. Innan hennar voru Ofanbyggjarajarðir, alls 10. Túnum var skipt í skákir eða reiti með steinum. Jarðirnar voru lengst af 49 talsins.
Híbýli voru með svipuðum hætti og tíðkaðist í sveitum fram yfir aldamótin síðustu, torfbæir. Veggir voru hlaðnir úr torfi og grjóti. Baðstofur voru flestar með skarsúð. Á þeim flestum voru timburstafnar og í þeim trégólf, þó ekki öllum. Þök voru snidduhlaðin eða tyrfð, en mikill skortur var á torfi og torfskurður háður vissum reglum. Torf var oft keypt af landi og þótti dýrt. Húsagarðar voru hlaðnir úr grjóti.
Árið 1861 voru 12 baðstofur í ágætu standi, 14 bærilegar, en 14 lélegar eða næstum fallnar. Í Vesturhúsum var fjósbaðstofa. Þar var stór skáli óþiljaður og í honum moldargólf. Kýr gengu um sömu göng og heimamenn. Fjósbaðstofur munu þó hafa verið fátíðar í Eyjum.
Skammt frá höfninni voru hús kaupmanna og verzlunarfólks. Þau báru langt af öðrum húsum, enda voru Danir „fína fólkið“. Timburhús voru að Ofanleiti, Vilborgarstöðum og Stakkagerði. Í þau var að nokkru notaður rekaviður. —
Í baðstofunni týrir á lýsislampa. Það er vondur þefur inni, stækja af fýlungafiðri í rúmfletunum. Efnameira fólk hefur lundafiður, en það er fátt. Þröngt er inni; því er þefurinn rammari en ella mundi vera. Það er verið að elda matinn á hlóðum og brennt hörðum lundaskrokkum, fýlavængjum, þorskhryggjum, þangi eða taði. Já, það er ekki að undra, þó fnykurinn sé ekki góður. Ekki bætir það úr skák, að inni hanga kannski lýsisborin skinnklæði húsbóndans.
„Uppá eldivið eru bágindi, þar hér er mjög lítil þangfjara og forslær ekki til svo margra. Verður fólkið að vera ánægt, svo sem annarsstaðar við sjávarsíðuna, með það lítið sem fellur af kúateðslu og hörðum fiskbeinum, af hverjum beinum sérdeilis mjólkurmaturinn fær vansmekk.“
Svo segir séra Gissur Pétursson í lítilli tilvísan um Vestmannaeyja háttalag og bygging 1687—1713. Og hann bætir við: „Allar eyjar eru með annmörkum plaga menn að segja.“
Séra Jón Austmann víkur að þessu sama vandamáli. Hann segir, að vatnsskorturinn sé slæmur, þurfi því að sækja vatn í Dalinn, jafnvel frá bæjum fyrir ofan Hraun. „Liggur við, að ókostir hafi yfirhönd, þó einn lífvænlegasti hluti landsins.“ Þá voru engir brunnar nema smáholur grafnar í jörðu, en vatn sótt í ankerum eða skjólum í Dalinn, Gamla Póst eða Vilpu. Fólk innan Austurgirðingar og í nokkrum tómthúsum, sótti vatn í Vilpu, ,,í hverja rann þó mikil óklárindi“ frá næstu bæjum.
Þrátt fyrir „óklárindi“ neyzluvatnsins varð ekki sannað, að notkun þess hafi valdið sjúkdómum. Versti vágesturinn var hinn ægilegi ginklofi, sem drap um 3/4 ungbarna á fyrsta ári.
Varla hefur þrifnaði verið öllu meira áfátt hér en í öðrum sjóplássum, en samt getur héraðslæknirinn ekki orða bundizt um þetta í bréfi til Jóns Hjaltalíns landlæknis. Læknirinn, Magnús Stephensen, skrifar m.a.:
,,Úr þessum asnakjálka ætla ég mér til gamans að hripa yður fáeinar línur. Fréttirnar eru héðan engar, eins og lög gera ráð fyrir, því hér er ekki hugsað um annað en fýl og lunda, og svo er sóðast áfram eins og bezt má. Já, svínaríið hérna, það tekur í hnúkana, og að dónarnir skuli halda heilsu í þessum kofum, það gengur yfir mig; forirnar eru rétt við bæjardyrnar, og fýlan úr þeim leggur inn í bæinn, sem undir er fullur af fýladaun og allskonar óþverra. En þarna hýrast þeir í þessum kompum, og líður vel, nema hvað lúsin ónáðar þá ... Ég er búinn að biðja sýslumanninn að skipa þeim að færa forirnar, en hvort þeir hlýða því, er nú eftir að vita, því engin eru hér lög um óþverraskap og þessháttar, því síður um, að þeir ekki megi búa í hvaða kompu sem er. Einn býr hér í gömlu hænsnahúsi, og þykir veglegt.“ (Bréf skr. 24. sept. 1864).
Eyjabúar lifðu á landsins gæðum að mestu, enda lengstum gott til matfanga. Fiskur, nýr eða saltaður, var aðalfæðan. Jafnan voru nægar birgðir af söltuðum fugli. Fýlasúpan þótti herramannsmatur. Varla er hægt að nefna kaup vinnuhjúa. Þau voru ánægð, ef matarvist var góð og þau fengu nægilegt fata til að skýla nekt sinni.
Það gat brugðizt til beggja vona um sjávaraflann; ávöxtur jarðarinnar var árvissari. Heimilin voru tæpt hundrað og helmingur þeirra hafði jarðarafnot, en flestar voru jarðirnar litlar. Vegna landþrengsla varð að kaupa ýmsa búvöru af landi, t.d. mikið smjör. Þá eyddist mjög grassvörður vegna torfskurðar. Bæði var það, að torf þurfti til eldsneytis og á húsþök. Hinsvegar voru hér heyhlöður. Torf var því títt keypt af landi, og „ekki gefið eyjabúum,“ segir séra Jón. Landvörur voru oft greiddar með fugli og skreið. Þá segir séra Brynjólfur Jónsson í hinni merku Vestm.eyjalýsingu sinni, að vöntun á áburði sé tilfinnanleg vegna þess, að hann sé tekinn til eldsneytis. Því þurfi að kaupa kol til viðbótar.
Vestmannaeyingar munu um þessar mundir hafa verið á undan öðrum landsmönnum í matjurtarækt. Kálgarðar voru hér hundrað árið 1862. Dönsk merkiskona, frú Jóhanna Roed, var brautryðjandi í garðrækt í Eyjum.
Vestmannaeyjar voru þó verstöð fyrst og fremst og flestir landbændur höfðu líka útveg. Stutt var á fiskimiðin, sem oft voru furðu fengsæl, þrátt fyrir frumstæða veiðiaðferð. Hin stærri vertíðarskip voru 10—12, langflest áttæringar, þá nokkur „jul“ fjórróin og tveggjamannaför.
Eyjamenn sóttu fast sjóinn og færðu honum líka oft þungar fórnir. Árið 1863 var hér hæst dánartala á landinu, 5,6 af hundraði. Ægir og ginklofinn voru stórhöggvastir. Tala látinna á aldrinum 15—40 ára var 31%; sjómannaekkjur voru hlutfallslega langflestar í Vestmannaeyjum. Til marks um sjósókn má nefna, að jafnan var róið á sunnudögum, ef fært var, en það var annars fátítt á þeim tíma. Þá var siður að messa í bíti, áður en farið var á sjó. Þeir sem ekki fóru í kirkju, ýttu ekki heldur úr vör fyrr en messu var lokið.
Varla er teljandi, að menn störfuðu að öðru en útgerð og búskap, utan verzlunarþjónar, sem flestir voru danskir. Til iðnstétta töldust aðeins fimm menn 1860, 2 beykirar, 1 gullsmiður, 1 járnsmiður og 1 trésmiður.
Fuglaveiðar voru sóttar af miklu kappi. Veiðiaðferðin var fljótvirk, en heldur ómannúðleg. Var fuglinn kræktur út úr holunum með svonefndum greflum. Síðar var sú aðferð bönnuð. Fyrir hundrað árum var fýlaveiðin samkvæmt tíund 22 þús. fuglar, en lundaveiðin um 200 þús. Höfðu menn drjúgar tekjur af fuglinum, auk þess sem jafnan voru miklar birgðir af söltuðum fugli. Á betri heimilum þótt ekki við hæfi, að eiga öllu minna en tvo kagga af fugli, þá er nýtt veiðitímabil hófst.
Það lætur að líkum, að menningarlíf hafi verið fremur fátæklegt í þessari eyjabyggð, sem var svo einangruð frá samskiptum við annað fólk, að samgöngur tepptust stundum svo mánuðum skipti. Var þá kannski oftar en góðu hófi gegndi gripið til til þeirra gullnu veiga „sem lífga sálaryl“, ef eitthvað draup úr lekabyttu danska kaupmannsins. Vín var ódýrt í þá daga, kostaði 19 skildinga potturinn. Til samanburðar má nefna, að tólgarpundið kostaði þá 20 skildinga. Búðarstöður voru miklar og lítt fallnar til aukins þroska. Þó er talið, að þessi ósiður hafi talsvert lagzt niður, er sá danski sýslumaður Kohl stofnaði Herfylkingu Vestmannaeyja. Kohl lét reisa þinghús, hið fyrsta í Eyjum. Var fangageymsla í öðrum enda þess. Í þessu húsi voru geymdar bækur nokkrar, herfylkingarmönnum til andlegrar upplyftingar. Er talið, að þar hafi verið fyrsti vísir að bókasafni í Eyjum.
Séra Jón Austmann segir í sóknarlýsingu sinni, að siðferði sé miður gott, en fari batnandi, t.d. hafi víndrykkja við eða í kirkju lagzt niður. Hinsvegar var almenn menntun ekki á marga fiska. Um 1862 fór tala ólæsra barna á aldrinum 10—12 ára hækkandi. Það ár voru 13 börn læs innan 10 ára aldurs, en 148 ólæs. Næsta ár voru 30 af hundraði íbúanna ólæsir, en svo fór þetta batnandi. Árið 1884 voru ekki nema tæp 12% ólæsra. Má þakka þann góða árangur elju séra Brynjólfs á Ofanleiti og án efa hefur lestrarfélagið hvatt til aukinnar lestrarkunnáttu. Árið 1873 voru 151 skrifandi, en 419 óskrifandi.
Þótt lífið væri harla tilbrigðalítið um þessar mundir, er þó talið, að fjör og glaðsinni hafi verið vonum meira. Menn skemmtu sér við heimboð, spil og tafl, lundaveizlur, fýlaveizlur, að ógleymdum brúðkaupsveizlunum, sem voru mikill viðburður fyrir þá, sem voru svo heppnir, að vera meðal hinna útvöldu. Þá má nefna álfabrennurnar um þrettándann og sjónleiki. Leikstarfsemi hófst í Eyjum um 1860, að frumkvæði séra Brynjólfs. Var þá fiskhúsi Brydes kaupmanns breytt í leikhús. Sjónleikir Sigurðar Péturssonar, Hrólfur og Narfi, voru hinir fyrstu á sviði hér og nutu mikillar hylli. Allar tilkynningar um mannamót og opinberar tilskipanir voru festar upp við kirkjudyr.
Bókakostur var ærið fábreyttur, sem von var. Mest nauðsyn þótti, að eignast einhverja guðsorðabók, svo komu þá ef til vill nokkrar rímur og fornsögur. Um miðja öldina voru hér 36 biblíur, 27 passíusálmar, 28 Sturmshugvekjur, 9 grallarar og 100 Sjöorðabækur, en séra Jón Austmann hafði gengizt fyrir því, að útvega eyjabúum nokkuð af guðsorði.
Sögulestur var einkum iðkaður frá veturnóttum til vertíðar. Voru mest lesnar Íslendingasögur, Noregskonungasögur og rímur kveðnar. „Fólk las aðeins bækur á íslenzku,“ segir Sigfús M. Johnsen í Vestmannaeyjasögu. Bækur á dönsku voru líka lesnar nokkuð, eins og að verður vikið síðar.
Á vordögum 1862 stofna þeir Bjarni E. Magnússon sýslumaður, séra Brynjólfur Jónsson og Bryde kaupmaður lestrarfélag, eitt með þeim fyrstu á landinu. Tveim árum síðar stofnar presturinn bindindisfélag, með góðum stuðningi sýslumanns. Fleiri nytsöm félagssamtök fylgdu í kjölfarið. Það var vor í lofti. Fólkið var farið að hrista af sér hlekki margra alda kúgunar. Viðreisnin var hafin. Í Vestmannaeyjum bar hæst tvo brautryðjendur, handhafa hins veraldlega og andlega valds, Bjarna sýslumann og klerkinn á Ofanleiti. Enn í dag tala verk þeirra af blöðum sögunnar.
* Verulega fór að bera á fiskitregðu árið 1855 og hélzt svo um langt árabil.


STOFNAÐ LESTRARFÉLAG VESTMANNAEYJA


ctr


Landlyst fyrsta bókasafnshús Vestmannaeyja.
(Þetta mun vera elzta mynd, sem til er af húsinu).


Bjarni E. Magnússon hafði ekki verið nema eitt ár í Eyjum, er hann hófst handa um stofnun samtaka til þess að efla framfarir og menningu í byggðarlaginu. Árið 1862 stofnar hann Skipaábyrgðarfélagið og það sama ár Lestrarfélag Vestmannaeyja. Hafði hann fengið til liðs við sig þá séra Brynjólf á Ofanleiti og Bryde kaupmann. Þeir félagar sömdu þá ávarp til Eyjamanna, sem trúlega hefur verið látið ganga rétta boðleið milli bæja og tómthúsa. Reglugerð fyrir hið væntanlega félag fylgdi ávarpinu, ódagsett en skrifuð í júní 1862 með rithönd séra Brynjólfs, en auk hans undirrituðu reglugerðina Bjarni sýslumaður og J.P.T. Bryde kaupmaður. Málið dregur dám af embættismannastíl þeirrar tíðar.
Athugagrein um stofnun lestrarfélagsins, eftir Bjarna E. Magnússon, er birt í Þjóðólfi 24. sept. 1863, en útlán hófust 14. sept. það ár. Reglugerðin er svo birt í sama blaði 1864.
Ávarpið og reglugerðin er á þessa leið, birt með upprunalegri stafsetningu:

„Hverjum manni má kunnugt vera, hve mjög almenn menntan og þekking styður að því að efla heill og velferð lýða og landa, og má með sanni álítast sem grundvöllurinn undir andlegum og líkamlegum framförum hvers einstaks manns og þjóðfélags yfir höfuð; því upplýsingin og þekkingin hvetur menn til dáðar og dugnaðar, en til þess að neyta krafta sinna, sér og öðrum til gagns og nota, því með almennri upplýsingu fylgir allajafna almenn velferð, dáð og dugur, en með vanþekkingu ódugnaður og eymdarskapur.
Af þessum ástæðum hefur oss undirskrifuðum, er fúslega viljum stuðla til þess, er miðar Vestmannaeyjum til heilla og velferðar, komið ásamt um, að til þess að efla og glæða almenna og nytsama þekkingu meðal Eyjabúa, sem vér, eins og nú er getið, álítum svo áríðandi, væri mjög nauðsynlegt að bókasafn yrði stofnsett hér í Vestmannaeyjum, innihaldandi ýmsar fróðlegar og lærdómsríkar bækur á íslenzku og dönsku máli, er frætt gæti alþýðu, og virðist oss þetta hér því æskilegra, sem enga skólamenntun er að fá hér handa börnum og unglingum, sem menn á öðrum stöðum, einkum í útlöndum, geta orðið aðnjótandi, eins og það á hinn bóginn er alkunnugt, að mörgum, bæði ungum og gömlum, bæði hér og annarsstaðar á Íslandi, þykir mikil unun að bókum, en geta opt eigi sökum fátæktar eða annarra orsaka vegna, fengið þær. Undir eins og vér því erum fullvissir um, að margir hér muni hafa vilja til þess að afla sér þess fróðleiks, er glætt geti sanna framfaralöngun í andlegu og líkamlegu tilliti, ef þess gæfist kostur, viðurkennandi sannleika hins forna málsháttar, „að blindur er bóklaus maður“, verðum vér jafnframt að játa, að flesta skortir efni til, að afla sér nytsamra og fróðlegra bóka, og viljum því — þar félagsskapur og samtök góðra manna geta ráðið bót á þessu — skora á þá af Eyjabúum, sem einhver efni hafa, og vilja vel sér og þessum afskekkta Hólma, að ganga í lið með oss, og styrkja oss með tillögum sínum, og stofna bókasafn, sem tilheyra á Vestmannaeyjum, og heita „BÓKASAFN VESTMANNAEYJA LESTRARFÉLAGS“ og miða til upplýsingar og uppfræðingar fyrir alþýðu hér á eyju. — Bráðabirgðar reglugjörð fyrir félag þetta fylgir hér með, til eftirsjónar fyrir þá, er kynnu að vilja ganga í ofangreint Lestrarfélag.

REGLUGJÖRÐ
fyrir Lestrarfélag Vestmannaeyja.
1.

Það er mark og mið lestrarfélags Vestmannaeyja með stofnun bókasafns, er innihaldi ýmsar fróðlegar og nytsamar bækur, einkum á íslenzku og dönsku máli, að efla almenna þekkingu á öllu því, er stutt geti að andlegum og líkamlegum framförum, og þar með fylgjandi heill og hagsæld Eyjabúa sérílagi.

2.

Hver sem verða vill meðlimur félags þessa, borgi, um leið og hann gengur í það, og svo lengi sem hann er i því, ár hvert, að minnsta kosti tvö mörk hvort heldur er í peningum eða með einhverri þeirri bók, er forstöðunefnd félagsins álítur félaginu gagnlega, og skal hann hafa goldið tillag sitt innan maímánaðarloka hvert ár.

3.

Sá félagsmaður sem lætur eitthvað af hendi rakna við félagið, fram yfir það, sem minnst er tiltekið, skal hafa þeim mun meiri rétt til bókalána hjá félaginu.

4.

Hver sá er auðsýna kynni félaginu einhverja sérlega velgjörð, getur á aðalfundi félagsins, ef fleiri atkvæði eru með en móti, orðið kjörinn sem heiðursfélagi.

5.

Hvern þann félaga, sem ekki greiðir hið minnsta tiltekna tillag í 2 ár samfleytt, má eptir uppástungu forstöðunefndar útiloka úr félaginu, nema því aðeins að hann þá borgi skuld sína, og æski framvegis að vera í félaginu.

6.

Sá, sem vill segja sig úr félaginu, gjöri það ekki seinna en misseri á undan aðalfundi.

7.

Félagi þessu, sem nú stofnast, sé hið fyrsta ár veitt forstaða af sýslumanni og sóknarpresti Vestmannaeyja, og velji þeir sér til aðstoðar þann mann, er þeir álíta bezt til þess fallinn; — en að þessu ári liðnu og framvegis, skulu 3 menn kosnir í forstöðunefnd af félagsmönnum, á aðalfundi félagsins, er jafnan skal haldinn einu sinni á ári, um fardaga leyti.

8.

Meðlimir forstöðunefndarinnar skulu eptir samkomulagi sín á milli, hafa öll þau störf á hendi er viðkoma félaginu, svo sem bókhald, bókageymslu og reikninga yfir tekjur og gjöld félagsins, skal nefndin hafa 3 bækur, eina gjörðabók, aðra yfir reikninga félagsins og hina 3ju innihaldandi bókalista og útlán bóka.

9.

Á aðalfundi félagsins, sem getið er í niðurlagi 7. greinar, skal forstöðunefndin skýra frá aðgjörðum félagsins um hvert undanfarið ár, einnig framleggja reikning yfir fjárhag þess.

10.

Forstöðunefndin lánar út bækur til meðlima félagsins einu sinni í viku hverri (og mun hún, þegar þar að kemur, gefa félagsmönnum nánari ávísun um meðferð bóka og annað þar að lútandi).

11.

Þyki þess þörf að gjörð sé breyting á reglum þessum eða við þær bætt, skal þar um rætt á almennum fundi.

Reglugjörð þessi er samantekin af stofnendum félagsins. —

Vestmannaeyjum í Júnímánuði 1862.
B.E. Magnússon. — Br. Jónsson. — J.P.T. Bryde.“

II. hluti