Blik 1955/Tvennir tímar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. júní 2010 kl. 22:05 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. júní 2010 kl. 22:05 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1955



ÞORSTEINN JÓNSSON, Laufási:


Tvennir tímar


Þorsteinn Jónsson.

Þorsteinn Jónsson, fyrrv skipstjóri, frá Laufási i Eyjum, hefur ritað þessa grein handa ársritinu að beiðni okkar. Kunnum við honum beztu þakkir fyrir.

Fáir þeirra, sem nú eru á æskuskeiði, trúa frásögnum um þá erfiðleika, sem voru á lífsafkomu flestra, er tróðu barnsskóna á landi hér fyrir 60—70 árum. Þar voru Eyjarnar okkar engin undantekning, því að hér hafði þá gengið yfir langur og strangur harðinda- og aflaleysiskafli, svo að fólk hafði flúið landið í stórhópum í leit að betri lífskjörum en þeim, sem fósturjörðin gat veitt.
Á þessum árum var ekkert farið að rofa fyrir þeirri stórkostlegu atvinnu- og efnahagsbyltingu, sem síðan hefur átt sér stað. Þeirri framvindu virðist lítil takmörk sett, ef athafnaþrá og athafnafrelsi manna er ekki of þröngur stakkur skorinn.
Með því að þekkja til hlítar ástandið eins og það var í lok síðustu aldar, geta menn fyrst myndað sér réttar skoðanir um þann árangur, sem þegar hefur náðst í efnalegum þroska þjóðarinnar.
Ýmsar greinar atvinnulífsins, sem fyrir aldamótin síðustu þótti sjálfsagt að hagnýta til fullnustu, eru nú horfnar eða að hverfa í gleymskunnar djúp með þeirri kynslóð, er nú hefur runnið sitt skeið.
Fyrir síðustu aldamót mátti oft á sumrum sjá hópa af fólki, körlum, konum og unglingum, við heyskap víða um Heimaklett.
Vilborgarstaðajarðirnar, átta að tölu, áttu þau hlunnindi, sem Heimakletti fylgdu, en það voru fuglatekja, hagaganga, slægjur, þang- og sölvatekja á innri og ytri eyrinni (Hörgaeyri) og hvannarótatekjur í Dufþekju, sem jafnvel kvenfólk tók þátt í, en þær voru þó að mestu lagðar niður um 1890.
Hver af hinum átta fyrnefndu jörðum átti sína sérstöku slægjubletti, sem voru Hákollar, Hetta, Þuríðarnef, Lágukollar og Slakkinn ofan og vestan til við Dönskutó. Svo áttu þrjár jarðirnar Slægjurnar svo nefndu, sem er hin stóra brekka ofan frá Grasnefi umhverfis Einbúa og niður á bjargbrún.
Þess skal getið, að fjórir fyrstnefndu staðirnir mega teljast allgóðir og hættulitlir við sjálfan sláttinn og raksturinn. Slægjurnar, en þó sérstaklega Slakkinn, var stórhættulegur, þar sem brattinn er mjög mikill, ekkert viðnám meðfram bjargbrúninni, en 120—200 metra standberg í sjó niður, svo að ekki var að efa, hver afdrifin yrðu, ef mönnum skrikaði illa fótur við störf sín.
Þó að slátturinn og þurrkun heysins væri háð miklum erfiðleikum og hættum, keyrði þó fyrst um þverbak, þegar koma skyldi heyinu heim.
Faðir minn fékk ábúðarrétt á einni Vilborgarstaðajörðinni um 1890. Þeirri jörð tilheyrði versti slæjubletturinn upp af Dönskutó. Þó að ég væri ekki nema 10 ára, var ég látinn aðstoða við heyskapinn þarna eftir minni litlu getu.
Áður en heyið var bundið, varð að grafa stall í brekkuna, svo að hægt væri áhættulítið að binda og axla baggana, ella hefðu þeir oltið ofan fyrir. Síðan voru þeir bornir á bakinu vestur á Efri-Kleifar. Þaðan gefið niður á Neðri-Kleifar. Þaðan aftur bornir á bakinu á Löngunef. Gefið þaðan niður í bát. Baggarnir síðan fluttir yfir botninn og að lokum reiddir á hrossum heim í hlöður.
Þegar hugleidd er sú óhemjufyrirhöfn, þó að hættunni sé sleppt, sem þessari heyöflun var samfara, má það undravert teljast, að nokkur skyldi leggja þetta á sig. En það var strangur herra, sem á eftir rak, nefnilega neyðin. Enda þótt þessi heyskapur væri ekki mikill að vöxtum, var þó hægt að halda lífi í nokkrum kindum með heyi þessu, eða gefa í kú, þó að ekki væri nema einn dag í viku hverri, og fá mjólk í staðinn. Var það í daglegu tali kallað að gefa í. Þó munu þau heimili ekki hafa verið fá á þessum árum, sem helzt aldrei sáu mjólk. Svo var það hjá foreldrum mínum fyrstu árin, sem þau bjuggu hér.
Til þess að sleppa við heyburðinn um Heimaklett, var reynt að raka heyinu eða draga það undan brekkunni af þeim slæjublettum, sem þannig lágu við. Mikla varkárni þurfti að hafa við þetta. Mönnum var lengi í minni, að eitt sinn, þá verið var að raka lausu heyi ofan af Hettu, hljóp það, þegar komið var niður í sniðið. Tók það með sér einn manninn, er þó stöðvaðist í götunni, sem þarna er alldjúp, rétt við bjargbrúnina, en heyið sópaðist yfir hann og niður undir Löngu.
Eitt sumar á þessum árum fengu faðir minn og Guðmundur Þórarinsson á Vesturhúsum allar slægjurnar í Heimakletti til heyskapar. Þarna var um allmikið heymagn að ræða, eftir því sem þá gjörðist. Heyinu var gefið í skip þarna beint niður, þó að hátt sé. Allmikinn útbúnað og marga menn þurfti við þetta. T.d. voru tveir staurar grafnir niður á endann, annar nokkuð upp í brekkunni, þar sem grafinn hafði verið stallur, sem heyið var fært á til bindingar.
Neðri staurinn var grafinn niður á bjargbrúninni. Á honum voru baggarnir gefnir niður í bátinn, sem flutti heyið í land. Á milli stauranna var strengdur kaðall þeim til stuðnings og öryggis, sem baggana fluttu frá bindingsstað til niðurgjafarstaðar. Ekki tapaðist nema einn baggi ofan fyrir í þetta sinn. Það þótti heppni, að hann skyldi ekki lenda á bátnum, því að það hefði að líkindum kostað líf bátsverja.
Einnig var ég á æskuárum mínum við heyskap á Stóra-Klifi. Þar var gaman að heyja. En erfiður var ofanflutningurinn, því að heyið var borið ofan af Klifinu.
Á þessum árum var heyjað að jafnaði í eftirtöldum fjöllum og eyjum: Heimakletti, Stóra og Litla-Klifi, Yztakletti, Bjarnarey og Elliðaey. Þar áttu Prestshús Suðurflatir, sem var stór slægjublettur. Í Úteyjunum, og til þeirra taldist Yzti-klettur, var heymagnið bæði mikið og gott, því að nóg var teðslan. Fuglinn sá um hana. En þar sem sérstök veðurskilyrði urðu að vera fyrir hendi til þess að flytja heyið sjóleiðis heim úr þessum stöðum, var því hlaðið í klettaskúta, sem nefndir voru ból (heyból, fjárból) og látið brjótast þar, eða í heytóftir, ef engin ból voru nálægt frá náttúrunnar hendi svo sem í Yztakletti. Þó mun fyrir mitt minni hafa verið heyjað víðar, en ég hefi hér nefnt, t.d. í Suðurey og á Grasnefinu í Miðkletti. Því til sönnunar er það, að skömmu eftir síðustu aldamót var merkishjónum hér í Eyjum haldið samsæti í tilefni af gullbrúðkaupi þeirra. Brúðguminn var spurður um ýmislegt frá langri ævi og liðnum árum, m.a. um Heklugosið 1845. Jú, gamli maðurinn mundi það vel. Sérstaklega var honum þó minnisstætt í sambandi við það, að hann og hún Gudda, sem hann skilgreindi ekki frekar, hefðu verið við heyskap austur í Grasnefi í Miðkletti, og hefði hún þá verið í gráum prjónabuxum. Þeim, sem á hlýddu, þótti það einkennilegt, að buxnalitur starfssystur hans skyldi eiga nærri því ríkari ítök í minningum gamla mannsins en sjálft Heklugosið, er þó verða ætíð talin til mestu atburða, sem eiga sér stað á landi hér.
Sigfús M. Johnsen telur í hinni miklu Vestmannaeyjasögu sinni, bls. 34, að einnig hafi verið heyjað til forna í Stórhöfða, Litlhöfða, Sæfjalli og Sveinum á Dalfjalli. Sá staður virðist þó sízt til heyskapar fallinn af þeim, er hér hafa verið nefndir.
Í kjölfar aukinna aflafanga fyrir og um síðustu aldamót var hafizt handa um aukna ræktun á Heimaey. Þá tók að draga úr heyskap í fjöllum hér og eyjum. Þó mun hafa verið heyjað í Bjarnarey til 1920. En 1927 var síðast heyjað í Elliðaey, eftir því sem kunnugur maður hefir tjáð mér. Þórður Stefánsson frá Raufarfelli mun síðastur hafa heyjað í Yzta-kletti sumarið 1940.
Um nokkurra ára bil heyjaði Matthías Finnbogason frá Litlhólum á Stóra-Klifi, síðast að því er hann telur, árið 1942. Þar með er að líkindum lokið stórmerkum atvinnuþætti þessa byggðarlags um margra alda skeið.
Þó að ég harmi það ekki og líklega fáir, að þessi atvinnuvegur Eyjaskeggja, sem hér hefir verið lítillega að vikið, leggist niður, þá er það víst, að fátt stælti betur hug og hönd en ýmis þau störf, sem allir urðu að taka virkan þátt í fyrr á tímum. Fjölbreytni var þá yfirleitt meiri í störfum karla og kvenna. Sameiginlegar hættur, sem mörgum störfum fylgdi, glæddi þá meðvitund, að enginn mætti bregðast, hvorki í orðum né athöfnum.
En hvernig er þessu varið nú á dögum.
Atvinnuþróun sú, sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi, hefur verið svo hraðstíg, að margt verðmætið hefir farið í súginn. Sem betur fer virðist nú að komast hreyfing á að spyrna nú við fótum og virða ekki að vettugi allt, sem talið er gamalt. Enda ætti öllum að vera það ljóst, að það sem varpað hefur mestum ljóma yfir íslenzku þjóðina með öðrum þjóðum, eru verk þeirra manna, sem höfðu manndáð og hæfileika til að sinna því gamla og semja úr því slík verk, að jafnfætis stendur því bezta í bókmenntum heimsins.
Það er feigðarboði hverri þjóð, ef hún slítur þau bönd, sem binda fortíð og nútíð saman. Það er því þarft verk, sem þeir hafa með höndum, er vinna að því að koma upp vísi að byggðarsafni hér í eyjum. Til þess að safn þetta nái tilgangi sínum, þarf þar að fylgjast að safn og saga.

Þ.J.