Blik 1980/Bréf til vinar míns og frænda
- Bréf til vinar míns og frænda
- Tveir æviþættir
- Heill og sæll minn kæri.
- Bréf til vinar míns og frænda
Þú ert ekki fjarri þeirri hugsun, að ég hafi illa brugðizt þér, þegar Blik mitt kom út síðast (1978). Rétt er það hjá þér, að ég lét orð falla í þá veru í bréfinu til þín 1976, að ég myndi segja þér í næsta riti skrýtlur frá Eyjum af málaferlunum miklu, sem yfir mig dundu á velgengnisárum kúnsúlamenningarinnar í kaupstaðnum og oddborgaranna með svörtu hanastélin. - Nú vil ég reyna að standa við þau orð mín og segja þér lampasprittskrýtluna dæmalausu. Hún hefur oft vakið hjá mér kátínu, þegar ég minnist hennar. Eyjafólk kallaði þessi átök sprittmálið.
Þegar þú lest þessa frásögn mína, skaltu láta liggja vel á þér eins og jafnan, - einnig þegar mér tekst ekki að greina þér frá atburðunum eins spaugilega og ég hefði óskað.
Ég var skipaður formaður áfengisvarnanefndarinnar í Vestmannaeyjakaupstað árið 1939. Það var ég
næstu 13 árin eða til ársins 1952.
Formannsstarf þetta í áfengisvarnanefndinni var með eindæmum erfitt á styrjaldarárunum, ef eitthvað gott átti af því að leiða. Ekki er því að neita, að ástandið fór á ýmsa lund illa með sálarlíf mitt.
Bátar og skip frá Eyjum voru á stanzlausum siglingum með fisk til Bretlands og vörur heim. Margar færeyskar skútur voru einnig leigðar til þessara flutninga. –Þá var einnig mikið áfengi flutt til Eyja í leynd með skipum þessum og bátum. Því var dreift milli heimila innan bæjar sem utan. Við lifum í landi kunningsskaparins, sagði stjórnmálamaðurinn. Það er víst og satt. Og ekki lasta ég það, þegar þau kunningjasambönd veita okkur hamingju og farsæld.
Við þessu áfengisflóði varð ekki spornað að neinu ráði, þó að þau lagabrot og öll sú ógæfa, sem af því stafaði, ylli mörgum miklu sálarlegu tjóni og mörgum heimilum sárri óhamingju.
Annað fór þó ennþá verr með sálarlífið mitt. Það var hin látlausa lampasprittsala lyfjabúðarinnar í Vestmannaeyjum. Í rauninni var það sárasta bölið, enda kynntist ég því svo að segja daglega.
Eftir að við stofnuðum Sparisjóð Vestmannaeyja og tókum til að starfrækja hann í apríl 1943, átti ég svo að segja daglega leið fram hjá dyrum lyfjabúðarinnar við Vestmannabraut. Þá var það daglegur viðburður, að 2-3 menn voru þar á rölti meira og minna ölvaðir. Þeir tóku m.a. börn tali. Við vissum, hvað þar fór fram. Þeir báðu börnin að kaupa fyrir sig í lyfjabúðinni suðu- eða lampaspritt, þegar þeir sjálfir gátu ekki fengið fleiri glös þann daginn af þessum vökva. Og börnunum voru boðnir aurar fyrir greiðann.
Þarna röltu þeir um Vestmannabrautina og nálægar götur áberandi ölvaðir dag eftir dag og við vissum, að þeir drukku einvörðungu lampaspritt.
Þau ár, sem ég var formaður Áfengisvarnanefndarinnar (1939-1952), ræddi ég þetta vandræðaástand iðulega við lyfsalann. Hann lofaði þá öllu fögru. Og vissulega dró úr þessum hörmungum næstu daga eftir samtalið. En svo sótti alltaf bráðlega í sama horfið.
Lengi veigraði ég mér að láta til skarar skríða og gera „áhlaup“ á lyfjabúðina fyrir lagabrot þetta og fjárhagslega ásælni, eins og ég kallaði það samkvæmt sannfæringu minni. - Vissulega var þetta einskonar veiklun, sem átti sér stað innra með mér að hlífa lyfsalanum við árás og láta þannig ekki til skarar skríða eða til stáls sverfa, eins og forfeður okkar orðuðu það.
Eftir að ég lét af störfum í áfengisvarnanefndinni 1952, ályktaði ég, að ástand þetta færi vaxandi mörgum heimilum í bænum til óumræðilegra hörmunga.
Svo gerðist það í september 1954, að kona kom að máli við mig. Hún gat naumast stunið upp erindinu fyrir sorg og sálarkvölum. Þá hafði eiginmaður hennar stundað látlausan drykkjuskap undanfarnar vikur, og áfengið, sem hann drakk, var einvörðungu lampaspritt, sem hann keypti eða keypt var fyrir hann í lyfjabúðinni. Hann fékk þessa ólyfjan keypta á 50 gramma glösum og þau mörg á dag, að konan sagði.-
Ég fylltist meðaumkun með drykkjumannskonu þessari og tók þetta mál til gaumgæfilegrar íhugunar. Að lokum afréð ég að láta til skarar skríða. Ég ákvað að gera „árás“ á lyfjabúðina. Auðvitað hlaut sú „árás“ að kosta málaferli. Ég hafði skemmtilega reynslu af konsúla- og oddborgaraklíku bæjarins frá málaferlunum miklu á árunum 1950-1952 og var við öllu búinn. (Sjá Blik árg. 1976, bls. 51-104).
Ég skrifaði stutta grein í Framsóknarblaðið í Eyjum. Ég var þá ritstjóri þess. Hún birtist í blaðinu 15. september um haustið (1954). Og ég sendi þér hana hér með.
„Bölvaldur“
Fyrir nokkrum dögum kom að máli við mig drykkjumannskona hér í bænum. Hafði þá maður hennar verið ölvaður nokkurn veginn samfleytt í þrjár vikur. Hvað drakk hann? Mestmegnis lampaspritt. Hvar keypti hann það? Í lyfjabúðinni hér í bæ.
Þessi drykkjumannskona taldi lyfjabúðina hérna hinn mesta heimilisbölvald sinn.
Þegar ég var í áfengisvarnanefnd hér, kvartaði ég margsinnis yfir því við lyfsalann, hversu sprittsala hans virtist eiga sér lítil takmörk. Vitað var þá, að ýmsir drukku sig ölvaða af spritti lyfsalans dögum og vikum saman.
Eftir þetta viðtal virtist lyfsalinn eða fyrirtæki hans selja sprittið með meiri varúð en fyrr. Sú sálarbetrun stóð aðeins stuttan tíma.
Nú skal teningnum kastað. Nú hefi ég tekið það ráð, að ræða þetta bölvað sprittástand lyfsalans í blaðinu hér. Ég heiti honum því um leið, að blaðið skal vera honum hangandi sverð yfir höfði, meðan ég er við það riðinn, ef hann hættir ekki þeim ósóma að selja eða láta selja drykkjumönnum lampaspritt eða aðra áfenga drykki.
Það er vitað, að drykkjumönnum hér er í lófa lagið að nota jafnvel smábörn til sprittkaupa, því að í lyfjabúðinni virðist ekkert um annað fengizt en að selja lampasprittið til þess að seðja gróðafýsn lyfsalans. Hann hlýtur að vera þess meðvitandi, hvað hann er að gera með þessu háttalagi öllu. Þegar frúin gerðist hér lyfsali, var þess vænzt, að drykkjumannaheimilunum hér mundi sízt stafa ógæfa af verzlunarrekstri hennar. „Konu-hjartað“ var talið nokkur trygging fyrir því og lífsreynsla frúarinnar sjálfrar. Allt annað hefur orðið uppi á teningnum. Sprittsala frúarinnar hefur mjög oft leitt óumræðilegar hörmungar yfir æðimargar kynsystur hennar í þessum bæ og börn þeirra. Hyggur frúin, að peningar þeir, sem hún nælir inn á eymd og volæði annarra, verði henni hamingjugjafi í lífinu? Og ef svo er ekki, til hvers er þá unnið?
Ég læt hér staðar numið að þessu sinni. En það verður aðeins um stundarsakir, ef lyfsalinn heldur áfram þessum hætti um sprittsöluna, er hann hefur haft í verzlunarrekstri sínum um áraskeið.
Fólk, sem gerir sér eymd annarra að féþúfu, á engan rétt á því að halda óskertu mannorði sínu.“
Eftir að grein þessi birtist almenningi í bænum, komst hreyfing á þetta mál. Þegar ég var formaður áfengisvarnanefndar, hafði ég haft samband við Vilmund landlækni Jónsson um þetta böl, sem ýmsum heimilum í bænum stafaði af sprittsölu lyfjabúðarinnar. Hann vildi uppræta ósómann en virtist vanta bolmagn.
Ég vissi, að lyfsalinn var nástæður leynifélagsskap broddborgara í bænum, þar sem maður hennar hafði verið félagsmaður. Af eldri reynslu minni frá málsóknum á mig á árunum 1950-1952 vissi ég örugglega, að leynifélagsskapur þessi mundi taka mál þetta fyrir á fundi sínum og samþykkja að veita lyfsalanum aðstoð í málsókn sinni á hendur mér. Þessi vissa féll mér vel í geð.
Ég hafði ríka reynslu af þessum félagsskap. Hann stóð jafnan vörð um félagsmenn sína og lét verja málstað þeirra til hins ítrasta, jafnvel þó að glæpsamlegur væri að okkar áliti.
Í þessum hópi átti ég trúnaðarvin, sem sagði mér flest, sem þar fór fram.
Og nú var boðað til fundar og samþykkt að aðstoða lyfsalann eftir mætti í málsókn á mig sökum grófra meiðyrða, sem þeir fundu í grein minni.
Seint um kvöldið var hringt til mín og mér tjáð, hvað fram fór á fundinum og samþykktir hans. Daginn eftir mætti ég bæjarfógetanum, Torfa mínum Jóhannssyni, á götu. Ein málsgrein kom mér í hug, er ég mætti honum, sem jafnan var mér hlýr og þóttalaus: „Þið voruð á fundi í gærkvöld. Þið hefðuð getað leitað sætta við mig, og ég hefði fallizt á að greiða lyfsalanum nokkrar miskabætur úr eigin vasa, ef þá hefðu getað tekizt sættir með okkur.“ „Þetta sagði ég þeim,“ sagði bæjarfógeti, en þeir vildu ekki á það hlusta.“ „Vertu blessaður,“ sagði ég. Þarna fékk ég sönnun fyrir því, sem mér var sagt af fundi leynifélagsmanna. Ég var ánægður og hló innra með mér.
Á fundi þessum voru menn á einu máli um það, að ekki væru tiltök að senda á mig Jón Eiríksson, héraðsdómslögmann, sem annaðist málsóknirnar á árunum
1950-1952. Einhverra hluta vegna átti hann ekki traust þeirra lengur. Nú skyldi sækja á æðri staði, þar sem vænta mætti meira vits og lögfræðilegrar þekkingar og fullkomnari meðferðar á málstaðnum. Valinn var til málflutningsins Gunnar Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður í Reykjavík og fyrrverandi bæjarfógeti í Vestmannaeyjakaupstað. Innra með mér var ég næstum barnalega hreykinn af þessum ákvörðunum þeirra. Það var þó alltaf munur að mæta hæstaréttarlögmanni í
bæjarþinginu! Þegar ég var að alast upp, voru þessir menn titlaðir hæstaréttarmálaflutningsmenn, og var það þá talinn lengsti titill í heimi. Og nú átti ég, litli kallinn minn, að njóta þeirrar ánægju að verja helgan málstað gegn sókn þessa hátitlaða manns. Var ég bara ekki strax orðinn að gjalti?
Og svo komu þá blessaðir stefnuvottarnir heim í Goðastein okkar hjóna og afhentu konunni minni stefnu, eins og vant var, þegar ég var að rækja skyldustörf mín í bænum.
Mér var stefnt fyrir sáttanefnd, eins og lög gera ráð fyrir. Þar mættumst við málsaðilarnir 1. okt. 1954. Til sátta bauð ég þarna lyfsalafrúnni að greiða henni persónulega úr eigin vasa nokkra fjárupphæð árlega, ef hún gæti á það fallizt að hætta að baka heimilum í bænum hinum beiskustu hörmungum með sprittsðlu sinni. Þá varð annar sáttanefndarmaðurinn æfur og fullyrti, að ég byði lyfsalanum mútur eða þá, að ég væri að gera gys að honum. Ég kímdi breitt. Þar með lauk þeim sáttafundi. Á leiðinni heim af honum hló ég hjartanlega innra með mér.
Að viku liðinni eða 7. okt. var mér síðan stefnt fyrir bæjarþingið í kaupstaðnum. Ég læt það eftir þér að birta hér stefnu bæjarfógetans í máli þessu:
„Torfi Jóhannsson bæjarfógeti í Vestmannaeyjum gjörir kunnugt:
Mér hefur tjáð frú Aase Sigfússon, lyfsali hér í bæ, að hún sé knúin til að höfða má1 fyrir bæjarþingi Vestmannaeyjakaupstaðar á hendur Þorsteini Þ. Víglundssyni, skólastjóra og ritstjóra Framsóknarblaðsins, að neðangreindu tilefni:
Í Framsóknarblaðinu 11. tölubl. 17. árgangs, sem út kom 15. sept.1954 er á 2. bls. grein, sem nefnist „Bölvaldur“, undirrituð af Þorsteini Þ. Víglundssyni. Í nefndri grein segir stefnandi að séu mörg móðgandi og ærumeiðandi ummæli um hann höfð, m.a. þessi:
1. „Þessi drykkjumannskona taldi lyfjabúðina, verzlun frú Aase Sigfússon, sinn mesta heimilisbölvald.“
2. „... sprittsala hennar virðist eiga sér lítil takmörk. Vitað var þá, að ýmsir drukku sig fulla af spritti hennar dögum og vikum saman.“
3. „Nú skal teningunum kastað. Nú hefi ég tekið það ráð, að ræða þetta bölvað sprittástand frúarinnar í blaðinu hér. Ég heiti henni því um leið, að blaðið skal vera henni hangandi sverð yfir höfði ...“
4. „... ef hún hættir ekki þeim ósóma að selja eða láta selja drykkjumönnum lampaspritt eða aðra áfenga drykki.“
5. „... í lyfjabúðinni virðist ekkert um annað fengizt en að selja lampasprittið til þess að seðja gróðafýsn lyfsalans.“
6. „... Sprittsala frúarinnar hefur mjög oft leitt óumræðilegar hörmungar yfir æðimargar kynsystur hennar í þessum bæ og börn þeirra. Hyggur lyfsalafrúin, að fé það, sem hún nælir inn á eymd og volæði annarra, verði henni hamingjugjafi í lífinu? Og ef svo er ekki, til hvers er þá unnið?“
7. „Ég læt hér staðar numið að þessu sinni. En það verður aðeins um stundarsakir, ef frúin heldur áfram þeim hætti um sprittsöluna, er hún hefur haft á verzlunarrekstri sínum um áraskeið.“
8. „Fólk, sem gerir sér eymd annarra að féþúfu, á engan rétt á því að halda óskemmdu mannorði sínu.“
Svo er vitnað í landslög, þar sem stefnandi telur viss ákvæði vera til mannorði sínu og verknaði tilverndar og skjóls. Í skjóli þeirra ákvæða gerir stefnandi þessar dóm kröfur:
„1. Að framantilvitnuð orð og ummmæli verði öll dæmd dauð og ómerk.
2. Að stefndur verði látinn sæta viðeigandi refsingu lögum samkvæmt fyrir að skrifa þau og láta birta í blaði.
3. Að stefndur verði dæmdur til að greiða stefnöndu (Ég undirstrika orðmyndina, Þ.Þ.V.) hæfilegan kostnað við að birta væntanlegan dóm (forsendur og niðurstöður) í opinberu blaði.
4. Að stefndur verði dæmdur til að greiða stefnöndu hæfilegar miskabætur, sbr. 264 gr. hegningarlaganna, að fjárhæð kr. 25.000,00 eða aðra fjárhæð að mati dómsins.
5. Að stefndur verði dæmdur til að greiða stefnöndu hæfilegan málskostnað að mati dómsins ...“
Síðan var afráðið í stefnu þessari, að ég skyldi mæta í bæjarþingi Vestmannaeyjakaupstaðar í dómsalnum við Hilmisgötu fimmtudaginn 7. okt. 1954, kl. 10 árdegis, til þess þar og þá „að sjá skjöl og skilríki í rétt lögð, á sókn sakar og réttarkröfur að hlýða, halda uppi vörn og sæta dómi í framangreinda átt. Stefnufrestur ákveðst einn sólarhringur. Til staðfestu er nafn mitt og embættisinnsigli.
- Bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum
..........................
Að sjálfsögðu mætti ég í bæjarþinginu 7. okt. og tók þar við greinargerð stefnanda, sem var undirrituð af Gunnari Þorsteinssyni, hæstarréttarlögmanni, Rvk. sem tekið hafði að sér að verja mál lyfsalans og sækja mig til sekta fyrir blaðagrein mína. Ég lagði fram eftirfarandi greinargerð. Síðan var veittur hæfilegur frestur í málinu til þess að afla frekari gagna.
Mér finnst réttmætt, frændi minn sæll, að þú fáir að kynnast þessari greinargerð minni til varnar málstað mínum í „Sprittmálinu“.
Hún var á þessa lund:
„... Ég skila aftur málsskjölum 1-3.
Leikmaður í lögum hefur mér ávallt skilizt, að megintilgangur sóknar og varnar í máli hverju fyrir rétti, væri sá að leiða sannleikann í ljós, svo að dómaranum mætti sem allra ljósast verða hið sanna og rétta í málinu, áður en til dóms er gengið.
Það vill nú einmitt svo vel til í þessu máli, að næst guði sjálfum mun enginn vita betur hinn eiginlega sannleika í málinu en sjálfur dómarinn, fulltrúi lögreglustjórans í bænum. Honum hlýtur að vera það allra manna ljósast til hve mikils drykkjuskapar brennslu- og mentholsprittssala stefnanda hefur leitt undanfarin ár. Þá er það jafnljóst og vitað, hvílíkar hörmungar og heimilisböl hefur stafað af áfengissölu þessari.
Ástæðurnar fyrir blaðagrein minni, „Bölvaldur“ í Framsóknarblaðinu 15. sept. s.l. eru því æði ærnar.
Auðvelt mun einnig að verja þann verknað minn gegn þeim laga- og reglugerðarbrotum, þar sem vitneskja sjálfs dómarans í því máli fyllir út í þær eyður, er kynnu að reynast í fullnægjandi sönnunum mínum fyrir umræddri áfengissölu og drykkjuböli af hennar völdum.
Á sáttafundinum, er sáttamenn héldu með okkur stefnanda 1. þ.m. óskaði ég að sættast við hann og lagði fram sáttagrundvöll í því skyni. Hann var þess efnis, að ég hét að greiða stefnanda fúlgu fjár úr eigin vasa á nokkrum árum, ef hann gæti fallizt á að selja ekki brennsluspritt eða aðra áfenga vökva í lyfjabúð sinni nema gegn lyfseðli eða á annan þann hátt, að viturra og lærðra manna yfirsýn, að ekki stafaði teljandi neyzla af eða ölvun.
Ekki hafði sáttanefndarmaðurinn Bjarni Bjarnason fyrr lokið við að lesa þennan sáttagrundvöll minn í heyrenda hljóði, en að hann sjálfur mótmælti honum og taldi hann brot á landslögum. Hinn sáttanefndarmaðurinn, St.B., lagði með þögninni blessun sína yfir þessa sáttatilburði embættisbróður síns í þessu eiðsvarna trúnaðarstarfi. Þannig voru allar sættir fyrirmunaðar á sáttafundinum.
Málsókn bessi hefst þannig á lægsta dómsstigi með því, að brotin eru á mér ákvæði 3. greinar laga nr. 85 frá 1936 um meðferð einkamála í héraði og önnur þau ákvæði í lögum, er fjalla um óhlutdrægni og samvizkusemi trúnaðarmanna í
mikilvægu trúnaðarstarfi.
Af ofanskráðri staðreynd krefst ég þess, að högg þetta á framrétta hönd til sáttar, verði metið mikilvægt atriði vörn minni og málstað öllum til framdráttar og bóta í máli þessu.
Ég mótmæli því eindregið, að umrædd blaðagrein í Framsóknarblaðinu, skerði í einu eða neinu hagsmuni lyfjabúðarinnar hér eða verzlunarrekstur stefnanda, nema ef vera kynni að því er varðar sölu á áfengum vökvum til neyzlu, en slík sala er brot á 11. grein áfengislaga frá 24. apríl 1954, og brot á 1. grein og 6. grein reglugerðar um sölu áfengis til lækninga frá 13. maí 1952. Rök mín fyrir þeim mótmælum eru þau m.a., að lyfjavörurnar brennsluspritt og mentholspritt, er hún selur í lyfjabúðinni, verða neyzludrykkur, - er selt til neyzlu. Þannig er það augljóst mál, að þessi áfengissala lyfjabúðarinnar hér er brot á 11. gr. áfengislaga frá 1954, eins og áður er tekið fram, og annarra samskonar ákvæða, er áður giltu í eldri áfengislögum, svo og brot á reglugerð um sölu áfengis til lækninga.
Til starfs míns og frá starfi mínu í Sparisjóði Vestmannaeyja hefi ég næstum hvern einasta virkan dag s.l. 11 ár lagt leið mína fram hjá dyrum lyfjabúðarinnar hér. Mjög oft hefi ég þá séð kunnustu og mestu drykkjumenn bæjarins vera að ganga inn í búðina til kaupa, sitja þar eða standa, koma út úr lyfjabúðinni með glas eða glös í höndum, oft mikið ölvaðir.
Á umliðnu sumri varð ég tvívegis þess ásjáandi, að tveir af kunnustu og mestu drykkjumönnum bæjarins stóðu við dyr lyfjabúðarinnar, þegar hún var opnuð að morgninum, og gengu þar inn. Eftir örlitla stund komu þeir út aftur með glös í höndum, og var ég sannfærður um, að á glösunum var áfengi, enda storkaði annar drykkjumaðurinn mér, bindindismanninum, er hann gekk fram-hjá. Á glasinu stóð skráð orðið „Mentholspritt“. Það var 100 gr. glas, sem var fullt, og kvaðst drykkjumaðurinn hafa greitt fyrir það 16 krónur. – Ótrúlega skammri stundu síðar voru báðir þessi menn orðnir mikið ölvaðir á götum bæjarins.
En þetta er aðeins saga, sem hver maður, sem kominn er til nokkurs vits og þroska, veit hér í bæ og segir þeim næsta.
Vitneskjan um hörmungarnar og heimilisbölið af völdum þessarar sprittsölu, brot á áfengislögunum og reglugerðum, hefur valdið mér miklum sársauka og miska á undanförnum árum sem samúðarríkum manni með þeim, sem ég veit líða, - sem eldheitum bindindismanni og borgara, sem er sérstaklega löghlýðinn og vill láta virða lög og rétt.
Þannig hefi ég orðið að þola, vita og sjá lífshugsjón mína troðna undir fótum með lagayfirtroðslum og reglugerðarbrotum. Í beiskju, sem sprottin er af þessum ástæðum, er umrædd grein skrifuð. Hins vegar mótmæli ég því eindregið, að greinin sé skrifuð af illgirni og illfýsi, eins og umboðsmaður stefnanda lætur sér sæma að halda fram. Mér er á engan hátt illa við sjálfan stefnanda, þó að ég harmist yfir áfengissölu hans.
Þar sem nú stefnandi telur sér sæmst, þrátt fyrir skýlaus brot á lögum og reglugerð í starfi, samkv. ofanrituðu, að krefjast kr. 25.000,oo miskabóta af mér vegna blaðagreinarinnar, þá mótmæli ég þeirri kröfu hans gjörsamlega.
Með því að selja áfenga vökva til neyzlu, hefur stefnandi misboðið bindindishugsjónum mínum og tilfinningum um langt skeið og sterkum og einlægum ásetningi mínum að halda lög og rétt sjálfur og þola ekki yfirtroðslur annarra um gildandi landslög og reglugerðir. Þetta hefur stefnandi gert með ótilhlýðilegu hátterni um sölu áfengra drykkja til neyzlu. Ég krefst því einnig af þeim sökum algjörrar sýknunar af kröfum stefnanda eða umboðsmanns hans um
refsingar á hendur mér í einni eða annari mynd. Sú krafa mín hefur siðferðilega stoð í lífsins lögum og lagastoð í 239. grein almennra hegningalaga.
Áttunda málsökin hjá stefnanda á málskjali nr. 3 á ekki fremur við um hann sjálfan en hvern annan, sem kynni að gera sér eymd annarra að féþúfu. Ályktun þessi er því almenns eðlis. Samkvæmt stjórnarskrá ríkisins hefi ég óskoraðan rétt til að hafa þessa skoðun um þá, sem yfirleitt gera sér eymd annarra eða sjúkleika að gróðalind, hvort sem sú eymd eða sjúkleiki birtist í drykkjufýsn eða á annan hátt.
Ég endurtek mótmæli mín gegn öllum kröfum stefnanda og umboðsmanns hans á hendur mér um fjárútlát eða refsingar í annari mynd fyrir skrif og birtingu umræddrar greinar.
Ég áskil mér og geymi mér óskoraðan rétt til að leggja fram síðar í máli þessu skjöl og skilríki málstað mínum til sönnunar og leiða vitni í rétt í sama skyni.
- Vestmannaeyjum, 19. okt. 1954
- Virðingarfyllst
- Virðingarfyllst
- Þorsteinn Þ. Víglundsson.
- Til bæjarþings Vestmannaeyja.“
Auðvitað ber þessi vörn mín það með sér, að hún er ekki samin af löglærðum manni eða með lögfræðing við hlið sér.
Eins og greinargerð hæstaréttarlögmannsins ber með sér, þá leggur hann mikla áherzlu á þau sálarlegu sárindi, -miska, - sem grein mín hafi valdið lyfsalanum. Þess vegna taldi ég það veigamikið atriði í vörn minni að tjá dómaranum þau sárindi, þann sálarlega miska, sem áfengissala lyfjabúðarinnar hefði ávallt valdið mér, löghlýðnum og samúðarríkum bindindismanni, sem varð að vita af og horfa á þessi lögbrot framin án allrar tillitssemi og miskunnar.
Áður en lengra er haldið, þykir mér rétt að skjóta hér inn dálítið athyglisverðum atburði. - Eftir að stefnuvottarnir afhentu konu minni stefnuna, þar sem mér var stefnt fyrir bæjarþingið, fann ég, að eitthvað þungt hvíldi á hjarta hennar. Það lét ég ekki fram hjá mér fara íhugunar- og afskiptalaust. Hvað amaði að? Það var þá kvíðinn fyrir því, að ég yrði dæmdur til að greiða
kr. 25.000,oo í sekt fyrir afskipti mín af sprittsölu lyfjabúðarinnar. Þessi upphæð nam þá 8-10 mánaða launum gagnfræðaskólakennara. Þessi vanlíðan konu minnar féll mér þungt, svo að ég var sár. Við höfðum staðið í húsbyggingarframkvæmdum á undanförnum árum og efnahagurinn var þröngur þess vegna. Það var heldur engin furða, þó að hún tortryggði réttarfarið í bænum í slíkum málum, þar sem vitað var, að kunnir áfengisneytendur áttu þess kost að dæma bindindismann fyrir árás á áfengissala.
Þegar ég settist við skrifborð mitt í Sparisjóði Vestmannaeyja þennan dag, hafði ég aldrei þessu vant litla eirð í sálu minni og engan hug til starfa. Ég fann til með konunni minni.
Dagblað lá þarna á borðinu hjá mér. Ég tók að glugga í það annars hugar. – Þarna var m.a. tilkynning þess efnis, að dregið hafði verið í happdrættisláni ríkissjóðs og þarna var vinningaskráin birt. Mér varð starsýnt á eitt númerið í skránni, nr. 51283. Var þetta ekki númer á einu happdrættisbréfi okkar hjóna? Ég stakk vinningaskránni í veskið mitt.
Að loknu verki í Sparisjóðnum þennan dag, skundaði ég heim eins og vant var. Jú, rétt reyndist það. Við áttum þetta happdrættisnúmer á einu skuldabréfinu okkar frá ríkissjóði og við höfðum unnið kr. 10.000,oo. Vissulega lét ég ekki dragast úr hömlu fyrir mér að tjá konunni minni happið. Og nú skrái ég orðin upp úr dagbókinni minni: „Þarna sérðu, konan mín, að forsjónin stendur með mér eða þjónar hennar i dularheimum. Þeir vilja, - þeir óska þess, að ég segi sannleikann og standi fastur á málstað þeirra, sem líða, en síðan hjálpa
þeir mér að rísa undir afleiðingunum. Þessu máttu trúa, konan mín, eins og ég. Nú hefurðu þreifað á því.“
Konan mín átti naumast orð. Svo undrandi varð hún. Hún kvaðst alltaf hafa verið gæfunnar barn. Þau orð hennar glöddu mig innilega.
Nú afréð ég með sjálfum mér að nota þennan happdrættisvinning til þess að skjóta „sprittmálinu“ til Hæstaréttar, ef mér félli ekki vel dómur undirréttarins, því að tortryggni lét á sér kræla innra með mér af sérstökum ástæðum. Nú skyldi þetta mál svo sannarlega fá að ganga sér til húðar.
Daginn eftir að happdrættisvinningurinn féll okkur í skaut, hringdi til mín einn af forustumönnum bindindisstarfsins í landinu. Það var Brynleifur heitinn Tobíasson, sem þá var áfengisráðunautur ríkisins. Hann tjáði mér, að Vilmundur Jónsson, landlæknir, hefði lesið grein mína í Framsóknarblaðinu 15. sept. s.l. Síðan hefði hann fylgzt með málaferlunum og þeir allir í forustuliði bindindisstarfsins í landinu. – Áfengisráðunauturinn kvað landlækni hafa skrifað lyfsalanum í Eyjum harðort bréf varðandi þessi áfengismál, þessa látlausu og ólöglegu sprittsölu.
Ég stóð þá heldur ekki einn hérna megin tilverunnar, hugsaði ég í trú minni.
Nú hófst mikið starf. Ég stefndi „sprittsalanum“ til réttarhalds, þar sem ég lagði fyrir hann margar spurningar varðandi þessa verzlun hans. Þá stefndi ég líka til réttarhaldsins tveim afgreiðslustúlkum lyfjabúðarinnar. Svör þeirra við áleitnum spurningum mínum urðu einnig málstað mínum til framdráttar. T.d. var sá framburður þeirra bókaður, að þær seldu á stundum sama drykkjumanninum mörg sprittglös á dag til þess að fá frið í búðinni, þegar ekki náðist í lögreglu eða hennar var ekki óskað, eins og oftast var.
Þá mættu í réttinum þrír lögregluþjónar í bænum. Þeim þurfti ég ekki að stefna fyrir réttinn. Þeir komu án þess. - Lögregluþjónarnir fullyrtu, að þeir hefðu „oft tekið ölvaða menn úr umferð, sem hafa verið með 1-2 og allt upp 4 glös af brennsluspritti á sér úr lyfjabúðinni hér, suma mikið ölvaða.“
(Þessi fullyrðing þeirra er hér tekin orðrétt upp úr réttarhaldsbókinni).
Þá fullyrtu lögregluþjónarnir, að þeir hefðu oft orðið vitni að miklum „heimilisófriði og heimilisvandræðum“, eins og þar er bókað, og alltaf af völdum áfengisneyzlu, og „stundum hafi þeir, sem heimilisófriðnum ollu eða heimilisvandræðunum, haft undir hendi
brennsluspritt en glösin, sem þeir voru með, voru merkt lyfjabúðinni.“ -
Þetta var vitnisburður lögregluþjónanna.
Næst í þessu máli skyldi fara fram munnlegur málflutningur. Þá skyldi ég fá að mæta sjálfum hæstaréttarlögmanninum í almætti sínu og lögfræðilegri tign. Þá yrði lögfræðileg speki á borð borin. - Gárungar geta stundum verið svo orðmargir og orðheppnir. – Þessi maður var fyrrverandi bæjarfógeti í Vestmannaeyjakaupstað, og þá og fyrr og síðar hæstaréttarmálaflutningsmaður eins og þeir voru titlaðir í mínu ungdæmi. Ég var stórhrifinn í allri smæð minni.
Hinn munnlegi málflutningur í bæjarþinginu átti sér ekki stað fyrr en 18. maí árið eftir (1955). Sá dagur er mér í mesta máta minnisstæður.
Þjónar bæjarþingsins voru seztir við borðin sín, dómarinn, sem var fulltrúi bæjarfógeta, og svo réttarvitnin. Bæjarþingsalurinn var þéttsetinn, svo að hvert sæti var skipað.
Ég sat þarna í námunda við réttarþjónana og auður stóll var á móti mér við borðið. - Við biðum með eftirvæntingu eftir sóknarherra lyfsalans, hæstaréttarlögmanninum. - Og svo gekk hann loks í salinn og settist í auða stólinn gegnt mér.
Mér féll strax illa svipurinn á hæstaréttarlögmanninum. Drambið og þóttinn leyndu sér þar ekki. Hann var auðsýnilega sá, sem bjó yfir vitinu mikla, hinni lögfræðilegu alvizku og hinni óskeikulu dómgreind. - Illir straumar runnu mér í blóð.
Svo hóf hæstaréttarlögmaðurinn mál sitt og talaði stanzlaust í þrjár klukkustundir. Margir voru þá horfnir úr salnum, hundleiðir og þreyttir á sál og líkama. Aðrir höfðu skotizt þarna inn til þess að skoða fólkið og hlusta á ræðuna.
Það reyndi vissulega á sálarlífið að hlusta á allt þetta málæði, þar sem fjallað var um heima og geima, sem ekkert komu málefninu við, og
mjög fjarri því.
Eftir sem sé þrjár stundir hóf ég varnarræðu mína, þreyttur og hundleiður á málæðinu. Fyrst í stað var mér þá ríkast í huga að lækka eilítið rostann í andstæðingnum, hleypa úr honum mesta hrokanum með því að lítillækka hann. – Hin illa gerð mannssálarinnar leynir sér sjaldnast, vinur minn, ef hún er þarna á annað borð, - og sálartetrinu er misboðið.
Ég hóf mál mitt með því að lýsa yfir samúð minni með okkur öllum, sem höfðum neyðzt til að sitja þarna í þrjár stundir til þess að hlusta á þessa endemisþvælu úr hæstaréttarlögmanninum, þar sem málefnið var að mestu leyti gjörsamlega skágengið, en þess í stað farið með mærðarrollu og málþóf, sem engu tali tók. „Hvað kemur það t.d. þessu máli við, hversu margar bækur hver prófessor við Háskóla Íslands hefur skrifað á undanförnum árum og önnur þvæla í þeim dúr? Hvernig hrekur sú fræðsla staðreyndirnar um allt það böl, allar þær hörmungar, sem áfengissala lyfjabúðarinnar hér í bæ veldur fjölskyldum og heimilum í kaupstaðnum? Sú staðreynd stendur óhrakin þrátt fyrir þriggja stunda þvælu þessa hæstaréttarlögmanns hér í bæjarþingssalnum.“