Blik 1962/Saga Bókasafns Vestmannaeyja, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. febrúar 2010 kl. 17:29 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. febrúar 2010 kl. 17:29 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: Efnisyfirlit 1962 =Saga Bókasafns Vestmannaeyja= ::::(III. hluti) <br> <br> Eftir ellefu ára dvöl í Eyjum er svo komið, að hið mikilvirka yfirvald Eyjaskeggja ...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962




Saga Bókasafns Vestmannaeyja

(III. hluti)



Eftir ellefu ára dvöl í Eyjum er svo komið, að hið mikilvirka yfirvald Eyjaskeggja flytur þaðan búferlum. Bjarni sýslumaður hefur fengið veitingu fyrir Húnavatnssýslu. Honum var veitt sýslan 24. júlí 1871, en hann fluttist ekki norður fyrr en næsta vor. Sá búferlaflutningur mundi þykja allsögulegur nú á tímum. Eiríkur á Brúnum, sá seinna þjóðkunni maður, flutti sýslumanninn og fjölskyldu hans að Klausturhólum í Grímsnesi. Þangað kom svo Erlendur í Tungunesi til móts við hann, ásamt fleiri bændum, og var nú haldið norður Kaldadal. Þá lá leiðin norður Stórasand. Innbúið eða meginhluti þess var sent með haustskipi til Kaupmannahafnar og kom upp með vorskipi til Skagastrandar. Ekki er vitað með fullri vissu, hvað olli brottför Bjarna sýslumanns úr Eyjum, en menn ætla, að ýmsar samslungnar orsakir hafi legið til þessa. Launin voru lág og hluti af tekjum sýslumanns skyldi vera 2 fiskar af hundraði, en lítt mun sá skattur hafa drýgt tekjurnar á þessum aflaleysisárum, og varla ríkt eftir gengið. Þá var og ætlað, að frú Hildur hafi aldrei fest yndi í Eyjum. Ekki er ólíklegt, að einangrunin hafi átt illa við svo athafnasaman mann sem Bjarni var. Hefur honum trúlega þótt verksviðið þröngt. Sýslumannsfjölskyldan bjó í lélegu húsnæði, Nöjsomhed. Hús þetta var reist 1833, illa byggt í upphafi, en ekki bætti úr skák, að viðhald var ekkert og hélt húsið hvorki vindi né vatni. Bryde kaupmaður átti húsið, en vildi selja og því ógjarna leggja fé í viðhald þess.
Sýslumaður hafði árið 1866 sótt um 800 rd. lán til byggingar íbúðarhúss, en stjórnarvöldin sinntu ekki umsókninni. Þetta síðasta og hitt að auki, mundi kannski hafa mestu ráðið um búsetuskiptin.
Og þá mundi ekki annað ógert hjá yfirvaldinu en skila af sér og kveðja.
Sýslumaður skilaði af sér reikningum og öðrum gögnum lestrarfélagsins 1. júní 1872 til M. Aagaards, er tók við sýslumannsembættinu, en ekki séra Brynjólfs, sem var þó meðstjórnandi í lestrarfélaginu. Léttur var sjóður félagsins, sem von var, en skuldlaust var það og vel það. Bókaeignin var 600 bindi, að mestu úrvals bækur; var það vel á haldið eftir aðeins 10 ára starf. Sýslumaður greiddi 4 rd. árstillag fyrir árið 1872, um leið og hann hætti störfum. Og endurgjaldslaust hafði hann unnið við safnið frá stofnun þess.
Bjarni E. Magnússon kveður nú þessar fögru eyjar og íbúa þeirra. Hann veit, að hann muni sakna margs er hann hverfur á brott, og Eyjarbúar munu sakna síns röggsama yfirvalds og foringja í andlegum og veraldlegum málum. Í kveðjuræðu sinni (þinglokaræðu) segir hann meðal annars:
,,Ég hef of lítið getað gert og er dimmt og dökkt fyrir sjónum, en huggun er, að Vestmannaeyjar á þessu tímabili hafa tekið eigi litlum framförum í ýmsum greinum, jarðabætur, kálgarðarækt, vegabætur og húsabyggingar, sem á síðari tímum hafa tekið miklum framförum og sýna góðan smekk og fegurðartilfinningu manna. Skipaábyrgðarfélagið blómgast vonum framar til eflingar fiskveiðum. ... Svo hafa Vestmannaeyingar á þessu tímabili eignazt fróðlegt bókasafn, er á 600 bindi og sem Eyjunum er til sæmdar og menntagjörnum mönnum til uppbyggingar og lærdóms. Ég bið ykkur að láta þessa sólskinsbletti örva til dáða, dugnaðar og frama, andlegu og líkamlegu gagni, því nógu er að sinna. ... Verksviðið er nóg, en tíminn er stuttur. Hann líður fyrir hverjum einum of ört, óðar en varir og kemur eigi aftur.“
Að lokum biður hann Eyjabúa að meðtaka sitt hjartans þakklæti fyrir velvildina í sinn garð og hann kveður þá með innilegri ósk um, að ,,þér mættuð taka framförum í öllu góðu. Verið og farið alla tíma farsælir.“

SÉRA BRYNJÓLFUR OG BÓKASAFNIÐ
(1874—1884)

Séra Brynjólfur Jónsson.

Séra Brynjólfur Jónsson tók að sér rekstur lestrarfélagsins árið 1874 fyrir tilmæli Aagaards sýslumanns, og sá hann um safnið til æviloka 1884. Séra Brynjólfur var allt í senn: forstöðumaður og annaðist bókavörzlu og útlán. Aagaard veitti safninu forstöðu 1872—73, en Þorsteinn læknir og Wilhelm Thomsen hlupu undir bagga með bókavörzlu öðru hvoru.
Michael M.L. Aagaard var veitt Vestmannaeyjasýsla 1872 (29. júní). Hann var fæddur í Hjörring á Jótlandi 30. júní 1839. Hann var skipaður birkidómari í Fanö í Danmörku 1891 og andaðist þar árið 1898. —
Séra Brynjólfur var fæddur 8. sept. 1826 að Hofi í Álftafirði í Suður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Rósa Brynjólfsdóttir, prófasts Gíslasonar og séra Jón Bergsson. Hann lauk prófi við Reykjavíkurskóla 1848, með hæstu einkunn, en úr prestaskólanum útskrifaðist hann 1850 með „sérlegu lofi“, I. einkunn. 18. sept. 1852 var hann skipaður aðstoðarprestur hjá séra Jóni Austmann á Ofanleiti. Séra Jón lézt árið 1858.
Þá var séra Brynjólfur settur í embættið, en veitingu fyrir prestakallinu fékk hann 3. ágúst 1860 og þjónaði því til dauðadags. Kona Brynjólfs var Ragnheiður, dóttir Jóns Salómonsens. Þau eignuðust átta börn, sjö dætur og einn son; meðal þeirra voru Jónína, kona Sigfúsar Árnasonar á Löndum, Ingibjörg, kona Magnúsar Björnssonar prófasts á Prestbakka og Gísli, læknir í Khöfn.
Séra Brynjólfur var jafnan í fremstu röð um allt, er til framfara horfði í héraðinu. Áður er getið um þátt hans í stofnun lestrarfélagsins. Þá var fyrir hans atbeina stofnað bindindisfélag 1864 og formaður þess var hann meðan honum entist aldur. Félagið var öflugt á tímabili og dró þá að mun úr drykkjuskap. Þá var séra Brynjólfur meðstofnandi Skipaábyrgðarfélagsins, var í fyrstu stjórn þess og síðan um mörg ár meðstjórnandi.
Séra Brynjólfur var áhugamaður mikill um aukna uppfræðslu almennings. Hafði hann m.a. á hendi eftirlit með barnafræðslu í Eyjum. Þar var við ramman reip að draga, barnaskóli enginn og kennsla í heimahúsum mjög í molum. Prestur átti sæti í sýslunefnd frá því hún var kosin fyrsta sinn 1872 og til æviloka. Beitti hann áhrifum sínum í nefndinni fyrir stofnun barnaskóla, og síðustu árin sem hann lifði sá hann þá hugsjón sína rætast; barnaskólinn var endurreistur árið 1880.
Í búnaðarmálum var séra Brynjólfur á undan sínum tíma. Hann vann sjálfur að sléttun túnsins að Ofanleiti og stækkaði það að mun. Þá hafði hann mikla matjurtarækt og grænmeti ræktaði hann til heimilisþarfa. Hann keypti plóg, sennilega þann fyrsta, sem kom til Eyja. Hann fékk fyrsta hestvagninn í Eyjum og vindmyllu til kornmölunar reisti hann að Ofanleiti. Séra Brynjólfur hlaut verðlaun fyrir miklar búnaðarframkvæmdir.
Smiður góður á tré og járn var séra Brynjólfur, smíðaði allt til heimilisnota og gerði við úr og klukkur. Hann smíðaði m.a. bát til að róa á úr Klaufinni. Þá batt prestur bækur sínar sjálfur.
Séra Brynjólfur er talinn brautryðjandi leikstarfsemi í Eyjum, er hófst fyrir 1860 með sýningum á Hrólfi og Narfa eftir Sigurð Pétursson, en líklega hefur hann ekki leikið sjálfur.
Mörg opinber störf hlóðust á séra Brynjólf; var lengi í fátækrastjórn, sem var mikið starf og vandasamt á þeim erfiðu tímum. Hann lét sér annt um framfarir allar, hag Eyjabúa og menningu. Sóknarlýsingu Vestmannaeyja skrifaði hann að tilhlutan Bókmenntafélagsins, hið merkasta rit, er kom út 1873 og aftur 1918 í útgáfu Fræðafélagsins.
Séra Brynjólfur þótti góður kennimaður og siðavandur alvörumaður. Árið 1873, er Mormónatrúboðar frá Utah voru sendir til Eyja, hóf hann harða baráttu gegn þeim. Kærði hann trúboðana fyrir sýslumanni og kirkjustjórn og varð af mikið málaþóf. Varð „Síðustudaga heilögum“ nokkuð ágengt í Eyjum. Féll presti það mjög þunglega, en fékk lítið að gert.
Séra Brynjólfur var þingmaður Vestmannaeyja 1859 og 1863. Ekki þótti hann áhrifamaður á þingi að sama skapi og heima í héraði. Þess er þó vert að minnast, að hann var annar þjóðkjörinna þingmanna, sem fylgdi lækningastefnu Jóns Sigurðssonar í fjárkláðamálinu. Sveinn Skúlason segir um séra Brynjólf í palladómum um alþingismenn 1859, að hann sé ,,nettur maður og kurteis. Hann talar alllangt, en framburðurinn er ekki viðfeldinn, lágur og nokkuð gamaldags prestlegur.“
Þegar séra Brynjólfur hafði verið forstöðumaður lestrarfélagsins eitt ár, boðaði hann til aðalfundar 13. júní 1875. Höfðu þá aðalfundir fallið niður allmörg ár. Á þeim fundi gerir hann einskonar úttekt á safninu. Sagði, að það hafi verið komið í algeran rugling. Við niðurröðun hafi komið í ljós allmikil vöntun bóka. Skoraði hann á menn að skila bókunum, en fátt kom í leitirnar. Örfáir höfðu greitt árgjald 1874 og allmargir skulduðu nokkur ár. Ennfremur skýrir séra Brynjólfur frá því, að safnið hafi verið svo gott sem húsnæðislaust, er hann tók við því, en nú hafi hann komið því fyrir á kirkjuloftinu, búið um það í skápum og raðað samkvæmt bókaskránni. Nýr skápur var fenginn og má ætla, að prestur hafi smíðað hann sjálfur, því ekkert er fært til reiknings nema efnið í hann.
Sá ruglingur, sem séra Brynjólfur ræðir um á aðalfundinum, hefur ekki átt rætur að rekja til Bjarna E. Magnússonar sýslumanns, heldur hefur hann orðið þau tvö ár, er safnið laut engri fastri stjórn og enginn einn maður ábyrgur fyrir útlánum og rekstri félagsins, enda auðsætt, að sumar lánaðar bækur hafa lent utangarðs.
Hagur félagsins var ærið lakur þessi árin. Tekjurnar voru flest árin 20—30 krónur, mestar 1884, kr. 30,99. Félagsmenn voru fáir, enda hart í ári oftastnær. Árið 1875 voru þeir flestir, þá 27, og helzt sú tala að mestu næstu 2 ár, en fór svo fækkandi og komst niður í 11 árið 1882. Flestir greiddu 1 krónu 66 aura árstillag, svo að ekki voru miklar inntektir í félagssjóðinn. Sumir borguðu með bókum, t.d. borgar Þorsteinn hreppstjóri sitt árgjald 1876 með Alþýðubók Þórarins Böðvarssonar og Þorsteinn læknir með Mannamun Mýrdals. Á þessu tímabili voru keyptar 5—6 nýjar bækur árlega, auk Bókmenntafélagsrita. — Sem dæmi um verð á bókbandi í þá daga má nefna, að band á Snót kostaði 50 aura, Ljóð Sigurðar Breiðfjörðs 25 aura og Eyrbyggja 33 aura.
Útlán voru ekki teljandi nema hálft árið (okt.—marz) og opið einu sinni í viku að jafnaði. Mest voru lánuð 20 bindi á dag. Hæst var tala lánaðra bóka árið 1884, 209 bindi, en minnst 1882, 80 bindi, en yfirleitt var útlánatalan 100—180 á ári.
Í stjórnartíð séra Brynjólfs gengu í félagið nokkrir miklir bókamenn, sem reyndust því traustir félagar um áratugi og meðal kunnustu Eyjabúa um langa hríð. Meðal þeirra má nefna Hannes JónssonHannes á Miðhúsum]] (félagi 1874), Gísli Engilbertsson (1874), Finnbogi Björnsson (1876), Sigurður Sigurfinnsson (1874), Guðmundur Þórarinsson, Vesturhúsum (1876), Sigfús Árnason, Löndum (1876), Ögmundur Ögmundsson, Landakoti (1883) og Jón Einarsson, Hlaðbæ (síðar bókavörður, 1884). Árið 1884 er Aagaard sýslumaður eini Daninn í félaginu og úr því voru þeir fáir, 2—3 á skrá ár hvert. — Stöku sinnum fengu landmenn bækur, er þeir stunduðu róðra frá Eyjum, t.d. Eiríkur á Brúnum, Jón á Tjörnum og Sigurður í Kirkjulandshjáleigu.
Ætla má með nokkurn veginn fullri vissu, að safnið hafi verið geymt á kirkjuloftinu þau tíu ár, sem séra Brynjólfur veitti því forstöðu, a.m.k. er ekkert skráð um flutning á því þessi ár. —
Enn voru þær bækur, sem taldar voru í kaflanum hér að framan, „efstar á vinsældalistanum“. Árið 1876 eru t.d. 30 útlán á Íslendingasögum, af 150 útlánum alls. Nú er þessu öfugt farið, eftirspurnin sáralítil í flestum söfnum. En nú bætast nokkrar bækur við, sem lengi voru í miklum metum hjá alþýðu, svo sem Iðunn gamla, Smásögur, er Pétur Pétursson biskup safnaði og þýddi, alltaf í láni um langt árabil, ljóðasafnið Svava var talsvert lesið og frá 1883 eru ljóð Jónasar Hallgrímssonar lánuð nokkrum sinnum. Lestrarbók Þórarins Böðvarssonar (útg. 1874) varð nú ein eftirsóttasta bók safnsins um áratugi, þá kemur Mannamunur Jóns Mýrdals, sem varð með afbrigðum vinsæl. Og enn þann dag í dag heldur gamli Jón velli sem skemmtisagnahöfundur.
Danskar bækur voru nú mun minna lesnar en fyrr, þó var þar enn um sinn um auðugastan garð að gresja í Eyjasafni. Þeir, sem einna mest notuðu safnið á þessu tímabili voru Jósef Valdason, Jón Rustmann yngri, Týli Oddsson, Hannes á Miðhúsum, Guðmundur á Vesturhúsum, Jón í Gvendarhúsi, Þorsteinn læknir, Eyjólfur Hjaltason, Helgi Jónsson faktor, W. Thomsen, Finnbogi Björnsson og Sigfús á Löndum.
Nú er komið að leiðarlokum hjá séra Brynjólfi á Ofanleiti. 2. maí 1884 lánar hann sóknarbörnum sínum bækur í síðasta sinn. Heilsan var á þrotum, rithöndin, sem fyrrum var skýr og falleg, ber hrumleikanum vitni. Hann andaðist 18. nóvember sama ár. Greftrun fór fram 22. desember að viðstöddu fjölmenni, en jarðsunginn var hann ekki fyrr en 22. apríl 1885, því að þann veg var samgöngum háttað, að viðtakandi sóknarprestur, séra Stefán Thordersen, komst eigi fyrr út til Eyja.
Aagaard sýslumaður flutti húskveðju 22. des., en Þorsteinn Jónsson læknir hélt ræðu við gröfina. Sýslumaður sagði m.a., að samvizkusemi og skyldurækni hefði einkennt líf séra Brynjólfs, enda væri nú mikill manngrúi samankominn til að heiðra minningu hans. En drottinn var honum náðugur í því, að láta hann eigi finna til mæðu langra veikinda.
Þorsteinn læknir sagði, að nú ríkti héraðssorg, allir innbúar þessa litla hólma syrgja góðan kenniföður, árvakran og skyldurækinn embættismann. Hann stofnaði hér bindindisfélag, skipaábyrgðarfélag með öðrum og var hvatamaður að stofnun barnaskóla. Hann tók mikinn þátt í öðrum héraðsmálum. „Árið 1862 stofnaði hann í samfélagi með tveimur öðrum heiðursmönnum lestrarfélag hér í Eyjum, til að efla fróðleik og menntun sóknarbarna, og var forstöðumaður þess hin 10 síðustu ár ævi sinnar. Félag þetta hefur blómgast svo, að það á nú 600 bindi af fróðlegum og nytsömum bókum.“
Læknirinn lýsir séra Brynjólfi á þessa leið: „Hann var fríður sínum, í hærra lagi á vöxt, vel limaður, léttur á fæti og karlmannlegur á velli, jarpur á hár og skegg áður en hann tók að hærast, fölleitur í andliti, góðmannlegur, en nokkuð alvarlegur á svip, stilltur og kurteis, þægilegur í viðkynningu. Hann var hagleiksmaður, iðjumaður, og óhlífinn sér. Skemmtilegur, einkum í fámenni, en ekki gefinn fyrir glaum.... Hann var tilhliðrunarsamur í tekjuöflun og tekjur aldrei miklar, enda ekki auðmaður. Gestrisni hans var mikil. Hann var eigi rólegur fyrr en allt var á réttri stundu og stað.“
Við kirkjudyr var flutt kveðjuljóð eftir H.J. (Helga Jónsson?). Í því standa meðal annars þessar ljóðlínur:

Aumur kom enginn,
svo að Ofanleiti,
að bóndin hjálpfúsa
þeim hjálp að rétti.
Guð borgar góðverkin,
geldur tífalt,
og iðgjöld þín verða
um eilífð mikil.

FRAM Á LEIÐ.
1884 — 1905.

Á öndverðu ári 1884 tók heilsu séra Brynjólfs mjög að hnigna; fékk hann þá Lárus Árnason, stúdent á Vilborgarstöðum, til þess að veita lestrarfélaginu forstöðu fyrst um sinn. 7. desember 1884 boðaði Lárus til fundar í lestrarfélaginu. Skyldi sá fundur kjósa félaginu forystumann í stað séra Brynjólfs. Fundurinn var vel sóttur, 20 manns á fundi. Var þá samþykkt að kjósa þriggja manna nefnd til þess að stjórna félaginu. Kosnir voru í þessa fyrstu þriggja manna stjórn þeir Lárus Árnason stúdent með 17 atkv., Jósef Valdason skipstjóri með 9 atkv. og Helgi Jónsson verzlunarstjóri með 8 atkv. Lárus hlaut kosningu sem bókavörður félagsins.
Á fundinum kom fram tillaga um, að samin yrðu ný lög fyrir félagið, því að „margt væri í þeim gömlu, sem ætti ekki við nútímann.“ Tillagan var samþ. og hinni nýkjörnu stjórn, ásamt Þorsteini Jónssyni lækni, falið að semja lögin.
Nokkurt fjör virðist hafa færzt í félagslífið, er ungur og áhugasamur menntamaður valdist til forystu; en félagið naut hans ekki lengi, því Lárus hætti bókavörzlu í janúar 1885 og fluttist alfarinn til Kaupmannah. Sjá mynd á bls. 92.
Lárus var fæddur í Vestmannaeyjum 24. jan. 1862. Foreldrar hans voru Árni Einarsson alþm. og hreppstjóri á Vilborgarstöðum og kona hans Guðfinna, dóttir séra Jóns Austmanns. Lárus varð stúdent 1884 og cand. phil. 1886. Hann las læknisfræði um hríð, en tók ekki próf. Hann var fyrsti kennari, sem ráðinn var við barnaskólann hér 1884 og sundkennari nokkur ár. Lárus gerðist lyfsali í Chicago laust fyrir 1890. Hann andaðist 14. nóvember 1909, ókvæntur og barnlaus.
Eftir að Lárus lét af störfum í LV var Jósef Valdasyni í Fagurlyst falin bókavarzlan. Var hann jafnframt kosinn í stjórn félagsins og átti þar sæti til dauðladags.: Nú var vinnumaðurinn á Gjábakka, sem gekk í félagið 1867, orðinn kunnur skipstjóri í Eyjum og alþekktur að gáfum og dugnaði. Hafði honum tekizt að afla sér ótrúlega mikillar bóklegrar og verklegrar þekkingar. —
Jósef var Eyfellingur að ætt, fæddur 6. marz 1848. Hann fluttist ungur til Eyja og var nokkur ár vinnumaður hjá Ingimundi á Gjábakka. Hann kvæntist Guðrúnu Þorkelsdóttur er ættuð var frá Eyrarbakka og undan Fjöllum — Útlánabók LV ber þess glögg merki, að skipstj. í Fagurlyst hefur notað vel tómstundirnar í landi til þess að lesa þær beztu fræðibækur, sem völ var á. Jósef var mikill reikningsmaður. Sjómannafræði lærði hann hjá dönskum manni og var skipstjóri á hákarlaskipi nokkur ár, en milli vertíða vann hann að seglasaumi. En öðru hvoru brá hann sér á sjó á smáferju, sem svo voru kallaðar. Hann fórst í einum slíkum róðri suður af Bjarnarey 12. janúar 1887.
Var Jósefs saknað úr hópi vaskra Eyjamanna, sem og annarra góðra drengja, er gistu hina votu gröf. Hann var maður glaðvær og skemmtilegur, en líka einarður og skapmikill, ef því var að skipta, og allir báru honum drengskaparorð. — Þau Guðrún og Jósef eignuðust þrjú börn, meðal þeirra var Jóhann Þorkell, þingmaður Vestmannaeyinga um nær þriggja áratuga skeið og ráðherra á tímabili. Ekkjan Guðrún giftist síðar Magnúsi Guðlaugssyni frá Fíflholtshjáleigu í Landeyjum. Magnús var einn þeirra, er kosnir voru aðstoðarmenn við útlán 1891 og lengi síðan. — Hann var formaður í Eyjum og drukknaði í fiskiróðri suður af Bjarnarey 20. maí 1901.
Jósef Valdason var bókavörður 1885—1887. Starf sitt leysti hann af hendi með alúð og nákvæmni. Líklegt má telja, að hann hafi hvatt menn til þess, að notfæra sér þau tækifæri, er safnið veitti mönnum til þess að auka þekkingu sína, því að félögum fjölgar verulega í tíð hans. 1886—87 eru félagar um 40 bæði árin og útlán jukust að sama skapi, urðu stundum 40 á dag. Síðara árið, sem Jósef var bókavörður, urðu útlán 500 bindi, sem var hið langmesta frá stofnun félagsins. —
Eftir lát Jósefs var Kristmundur Árnason á Vilborgarstöðum ráðinn til bókavörzlu. Hann var bróðir Lárusar stúdents. Kristmundur var fæddur 1863. Hann var húsgagnabólstrari að iðn, en kennari hér 1883—84. Kristmundur var ekki bókavörður lengur en til marzloka 1887. Hann fluttist til Ameríku 1893 eða 94, fyrst til Chicago en seinna til Los Angeles, og þar andaðist hann árið 1914. Kristmundur var í stjórn LV 1887.

Eiríkur Hjálmarsson.

Í marz 1887 tók Eiríkur Hjálmarsson kennari á Vegamótum við bókavörzlu. Eiríkur var ættaður frá Ketilsstöðum í Mýrdal, fæddur þar 11. ágúst 1856. Hann andaðist 5. apríl 1931. — Þetta ár jukust enn útlán. Voru alls lánuð á árinu 870 bindi. Var þá útlánadagur einu sinni í viku eða tvisvar í mesta lagi. Eiríkur var bókavörður fram til hausts 1888, en oft fyrir og eftir hefur hann rétt hjálparhönd í safninu, ef með þurfti. Útlánaskrá frá tíð Eiríks er mjög glögg og handbragðið með miklum snyrtibrag, enda þótti hann afbragðs skriftarkennari á sínum tíma og gætir enn áhrifa kennslu hans í skriftargerð margra miðaldra manna hér í Eyjum. — Eiríkur kennari átti sæti í stjórn lestrarfélagsins 1887— 88.

Jón Einarsson.

Þá er haustútlán hófust 1888, er nýr maður kominn til sögu, Jón Einarsson í Hlaðbæ, seinna á Hrauni. Jón var fæddur 26. marz 1851, að Seljalandi undir Eyjafjöllum. Jón hóf búskap að Gularáshjáleigu í Austur-Landeyjum, en fluttist til Eyja 1883. Jón hafði hér nokkra útgerð og rak verzlun um hríð. Hann átti sæti í hreppsnefnd nokkur ár og var lengi í sáttanefnd. Hann var maður mjög bókhneigður, hagorður og greindur vel. Jón var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Þórunn Þorsteinsdóttir frá Steinmóðarbæ. Hún lézt árið 1903. Síðari kona Jóns var Sólveig Jónasdóttir frá Háamúla. Þau áttu eigi börn, en meðal barna Jóns og Þórunnar er Þorsteinn, fyrrv. skipstjóri og rithöf. í Laufási. Jón andaðist 3. ágúst 1924.
Jón Einarsson gekk í LV 1886 og næsta ár var hann kosinn í stjórn þess og mun hafa átt sæti í henni unz sýslubókasafn var stofnað 1905. Þá var Jón bókavörður félagsins frá 1888 til aldamóta og að líkindum til 1905, en öruggar heimildir skortir um 4 árin síðustu. Hefur Jón þá verið bókavörður lestrarfélagsins í 17 ár. Varla hafa launin hvatt hann til starfans, þótt svo skipaðist, að Jón yrði fyrsti bókavörðurinn, sem fékk örlitla þóknun fyrir starf sitt, meðan félagið var sjálfseignarstofnun. Ekki mun Jón þó hafa krafizt þóknunar, heldur samþykkti aðalfundur 1891, að félagið greiddi bókaverðinum kr. 6.00 á ári fyrir starf sitt, en árgjald greiddi hann sem aðrir. Þá voru kosnir 4 aðstoðarmenn við útlán. Þeir lásu upp bókanöfn og sóttu bækur í skápana. Fyrstu aðstoðarmenn voru þeir Finnbogi Björnsson, Norðurgarði, Ögmundur Ögmundsson í Landakoti, Magnús Guðlaugsson, Fagurlyst og Guðmundur Þorbjarnarson (síðar bóndi á Stóra Hofi). Skyldu þeir koma til starfa hvern útlánsdag, en vera gjaldfríir. Tveim árum síðar var aðstoðarmönnum fækkað um tvo og hélzt sú skipan allmörg ár.
Á aðalfundi 1892 var borin upp tillaga um, að borga bókaverðinum 10 kr. á ári. Tillagan var samþykkt með 7 atkv., en 12 voru á fundi. Má því ef til vill álykta, að sumum hafi þótt þetta ofrausn. Jón lýsti þá yfir, að hann tæki starfið að sér fyrir 8 krónur á ári, og hélzt svo meðan Jón hafði bókavörzluna á hendi.
Vinnuskilyrði í safninu voru ekki sérlega aðlaðandi. Safnið mun hafa verið flutt af kirkjuloftinu við fráfall séra Brynjólfs í Nöjsomhed, sem var hinn versti hjallur. Var ársleigan fyrir húsnæði þetta 5 krónur. Úr Nöjsomhed var safnið flutt í þinghúsið Borg árið 1893. Kostaði flutningurinn á bókum og búnaði 2 krónur. Í þinghúsinu var oft ærið kalt á vetrum, því að engin var hitagjafinn. Kvartaði Jón stundum yfir því, að sér ódrýgðist mjög blek, því að ósjaldan botnfraus á byttunni. Blekið mun bókavörðurinn hafa lagt sér til, en kerti voru færð á reikning félagsins. Litlir olíulampar munu þó hafa verið notaðir við útlán að jafnaði.
Í þinghúsinu voru bækurnar geymdar í tveim lokuðum skápum. Stóðu þeir sinn hvoru megin við innganginn. Þorsteinn í Laufási, er oft hjálpaði föður sínum við afgreiðsluna, segir að sér sé minnisstætt, hversu dönsku bækurnar báru af hinum íslenzku í útliti með sína fagurgylltu kili. Mjög var það umhendis við afgreiðslu, að afgreiðsluborðið var innarlega í húsinu. Varð því að vera á sífelldum þönum milli bókaskápa og afgreiðsluborðs, þar sem bókavörður skrifaði öll útlán inn í sína stóru bók.
Útlán fóru vaxandi í tíð Jóns Einarssonar. Frá 1888 til '90 voru útlán nokkuð yfir 800 ár hvert, en drógust saman næstu þrjú ár, voru þá 600—650. 1894 aukast þau svo aftur, og 1895 var útlánatalan hæst frá stofnun félagsins til aldamóta, 1200 bindi. Lækkaði svo niður í 650 næsta ár, en hækkar aftur verulega, var 840—1000 til aldamóta.
Félagatala var svipuð frá 1887—1900, um 30 flest árin. Síðasta félagaskráin með hendi Jóns er frá árinu 1899; þá eru félagsmenn 37. Allar félagsmannaskrár frá 1880—1910 bera því vitni, hversu mikillar virðingar embættis- og kaupsýslumenn nutu. Hefur ekki þótt hæfa annað, en skrá nöfn slíkra jafnan efst á blað. Á félagatalinu 1899 er röðin t.d. þessi: Þorsteinn Jónsson læknir, Magnús Jónsson sýslumaður, Oddgeir Guðmundsson prestur, J.P. Bjarnasen verzlunarstjóri, Kolbeinn Árnason verzlunarmaður, Þórarinn Gíslason verzlunarmaður, Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri, Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum og Jón Einarsson, Hlaðbæ, bókavörður.
Um aldamót voru stofnendurnir allir horfnir úr hópnum, enda nær 4 áratugir liðnir frá stofnun félagsins. Lengst þraukuðu þeir Jón gamli í Gvendarhúsi (til 1892) og Ingimundur á Gjábakka, sem var síðast á félagaskrá 1911. — Ögmundur í Landakoti er enn félagi og var til 1921. Þorsteinn læknir var félagi frá 1867 til 1906, Sigurður hreppstjóri til 1912 og Jón Einarsson til 1919. Ein kona var í félaginu 1899, Guðrún Jónsdóttir í Gerði. Aðeins einn þáverandi félagsmaður er enn á lífi, Sigfús V. Scheving, fyrrv. skipstjóri, núv. skrifstofumaður hjá Olíusamlaginu. — Enginn Dani er nú á skrá, en 1890 eru þar tveir, þeir síðustu C. Roed og Jes Thomsen.

IV. hluti

Til baka