Blik 1961/Myndir úr Byggðarsafni
Myndir af nokkrum munum
í Byggðasafni Vestmannaeyja
(Minjasafni Vestmannaeyja)
MYNDIR AF NOKKRUM MUNUM Í BYGGÐASAFNI
VESTMANNAEYJA, (MINJASAFNI VESTMANNAEYJA).
Niður til vinstri:
Efsti göngustafurinn er úr dánarbúi Ingimundar bónda Jónssonar. Vestmannaeyingar heiðruðu hjónin Ingimund og Margréti konu hans á gullbrúðkaupi þeirra haustið 1908 með því að halda þeim samsæti og færa þeim gjafir. Þá gáfu þeir Ingimundi þennan staf en Margréti húsfreyju gáfu þeir nælu úr gulli. Margt fleira úr dánarbúi þeirra hjóna er á minjasafninu. Þennan staf gaf safninu Jón Stefánsson í Mandal, en Ingimundur var langafi hans.
Næst efsti stafurinn á myndinni er úr dánarbúi Árna Filippussonar skólanefndarformanns í Ásgarði við Heimagötu. Kennarar barnaskóla Vestmannaeyja gáfu honum stafinn á 70 ára afmæli hans 17 marz 1926 fyrir fórnfúst starf og mikilvægt til gengis barnaskóla kaupstaðarins. Árni Filippusson var fyrst kosinn í skólanefnd hér 1908 og var gjaldkeri barnaskólans og formaður skólanefndar frá 1916 til dánardægurs 6. janúar 1932. Gefendur: Börn Árna og konu hans Gíslínar Jónsdóttur.
Þriðji stafurinn er úr dánarbúi Halldórs Brynjólfssonar frá Norðurgarði. Stafurinn er vinnuhjúaverðlaun frá Búnaðarfélagi Íslands veitt Halldóri 1928 fyrir 25 ára vinnumennsku hjá Jóni bónda í Gvendarhúsi.
Fjórði stafurinn er úr dánarbúi Bjarna Þorsteinssonar í Gvendarhúsi og er vinnuhjúaverðlaun frá Búnaðarfélagi Íslands fyrir vinnumennsku í tugi ára einnig í Gvendarhúsi Gefandi: Valdimar Árnason, Sigtúni.
Fyrir neðan stafina eru myndir af 4 blóðtökukoppum, sem
Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja í Suðurgarði átti og notaði við lækningar og líknarstörf sín hér í Eyjum um árabil. Kopparnir eru nautshornsstiklar með gati. Gefandi: Jóhann sonur þeirra hjóna Ingibjargar og Jóns Guðmundssonar, bónda í Suðurgarði.
Neðan við blóðtökukoppana er mynd af æðabíld úr sama dánarbúi.
Þá er mynd af gamla brunalúðrinum í bænum. Hann var notaður, áður en rafmagn var tekið í notkun, árið 1915.
Neðst er svo mynd af elzta blásturshljóðfæri, sem vitað er að hingað kom til Eyja, líklega 1902—1904. Vitað er, að Brynjúlfur Sigfússon, organisti, sem stjórnaði hér fyrstur manna lúðrasveit, lék á þetta hljóðfæri.
Niður til hægri:
1. Mjólkurfata og strokkur.
2. Kola úr dánarbúi Einars bónda Jónssonar og Árnýjar Einarsdóttur, hjóna í Norðurgarði vestri. Gef.: Guðbjörg húsfreyja í Norðurgarði Einarsdóttir.
3. Kertastjakar úr látúni. Kertastjakinn til hægri er úr dánarbúi séra Brynjólfs Jónssonar á Ofanleiti.
4. Prjónuð peningabudda með lás úr málmi. Hún á þessa sögu: Sumarið 1895 réru þeir saman á litlu juli með færi Gísli Lárusson bóndi og gullsmiður í Stakkagerði og Gísli bóndi Eyjólfsson á Búastöðum. Dag einn stóðu þeir í örum fiski sunnan við Súlnaskersklakk. Einn þorskurinn ældi upp þessari buddu, er honum var bylt inn fyrir borðstokkinn.
Um og eftir aldamótin sáust Englendingar hér oft með buddur af þessari gerð.
Gefendur: Systkinin Eyjólfur og
Lovísa, börn Gísla Eyjólfssonar.