Elsa Vilmundardóttir (jarðfræðingur)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. janúar 2023 kl. 17:17 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. janúar 2023 kl. 17:17 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Elsa Guðbjörg Vilmundardóttir.

Elsa Guðbjörg Vilmundardóttir frá Skálholti við Landagötu 22, húsfreyja, jarðfræðingur fæddist þar 27. nóvember 1932 og lést 23. apríl 2008.
Foreldrar hennar voru Vilmundur Guðmundsson frá Hafranesi við Reyðarfjörð, vélstjóri, f. 3. september 1907 á Fáskrúðsfirði, drukknaði 25. október 1934, og kona hans Guðrún Björnsdóttir frá Fagurhóli í A.-Landeyjum, húsfreyja, saumakona, f. 26. október 1903 í Káragerði í Landeyjum, d. 10. febrúar 1975. Fósturforeldrar hennar um nokkurra ára skeið voru móðurforeldrar hennar Kristín Þórðardóttir húsfreyja og Björn Einarsson bændur á Fagurhóli.

Börn Guðrúnar og Vilmundar:
1. Kristbjörn Vilmundarson, f. 1931, d. 1931.
2. Elsa Guðbjörg Vilmundardóttir, f. 27. nóvember 1932, d. 23. apríl 2008.

Elsa var með foreldrum sínum í Skálholti og á Siglufirði, en faðir hennar drukknaði, er hún var tæpra tveggja ára. Hún fór í fóstur til móðurforeldra sinna að Fagurhóli í Landeyjum. Þau létust 1940 og 1941. Þá fór Elsa með móðursystur sinni að Bollakoti í Fljótshlíð, var þar næstu fjögur árin, en fór þá til móður sinnar í Reykjavík.
Elsa lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1953, lauk fil. kand.-prófi í jarðfræði í Stokkhólmsháskóla 1963.
Hún vann hjá Raforkumálaskrifstofunni, síðan hjá Orkustofnun við jarðfræðirannsóknir og gerð jarðfræðikorta til loka starfsaldurs síns 2002. Eftir það vann hún einkum við kortlagningu móbergs á eystra gosbeltinu í samvinnu við Orkustofnun og og Íslenskar orkurannsóknir.
Elsa var formaður Sóroptimistaklúbbs Kópavogs 1977-1979 og vann ýmis trúnaðarstörf fyrir klúbbinn. Hún sat í stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands. Hún var einn af stofnendum Heilsuhringsins og sat í stjórn hans frá 1977 og var varaformaðr í 16 ár, var formaður starfsmannafélags Orkustofnunar 1983-1985 og einn af stofnfélögum Jarðfræðafélags Íslands og var formaður þess 1986-1990. Elsa gekk til liðs við Oddafélagið 1991 og sat í stjórn þess 1991 til 2002. Þá sat hún í stjórn Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands 2000-2003 og í stjórn Víkurdeildar Rauða krossins frá 2004 til dánardægurs.
Elsa ritaði fjölda greina í bækur og tímarit um jarðfræði og önnur áhugamál sín, var meðhöfundur bóka um jarðfræðinginn Helga Pjeturs. Hún var meðhöfundur bókarinnar 100 Geosites in South Iceland.
Þau Pálmi giftu sig 1960, eignuðust tvö börn.
Elsa lést 2008 og Pálmi 2022.

I. Maður Elsu, (19. nóvember 1960), var Pálmi Lárusson byggingaverkfræðingur, f. 27. febrúar 1937, d. 4. febrúar 2022. Foreldrar hans voru Lárus Pálmi Lárusson frá Álftagróf í Mýrdal, verslunarmaður, skrifstofumaður, f. 15. maí 1896, d. 22. júní 1954, og Guðrún Elín Erlendsdóttir frá Mógilsá á Kjalarnesi, húsfreyja, ritari, f. 27. september 1897, d. 24. september 1994.
Börn þeirra:
1. Vilmundur Pálmason rafmagnsverkfræðingur, f. 19. nóvember 1965. Barnsmóðir hans Sesselja Bjarkar Barðdal. Sambúðarkona hans Lilja Björk Pálsdóttir.
2. Guðrún Lára Pálmadóttir búfræðikandídat, umhverfisfræðingur, f. 29. október 1967. Fyrrum sambúðarmaður Böðvar Baldursson. Unnusti hennar Oddur Valur Þórarinsson.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 7. maí 2008. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Verkfræðingatal. Ritstjóri: Þorsteinn Jónsson. Þjóðsaga ehf. 1996.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.