Björgvin Guðmundsson (Viðey)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. desember 2019 kl. 18:23 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. desember 2019 kl. 18:23 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Björgvin Guðmundsson (Viðey)“ ([Breyta=Leyfa aðeins stjórnendur] (ótiltekinn) [Færa=Leyfa aðeins stjórnendur] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Björgvin

Björgvin Guðmundsson fæddist 15. maí 1915 og lést 9. mars 1999. Hann bjó í húsinu Viðey við Vestmannabraut 30. Seinni ár ævi sinnar bjó hann í Reykjavík en var jarðsettur í Vestmannaeyjum.

Björgvin var formaður á Ársæli VE 1948-1967, hann átti hlut í bátnum.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Björgvin:

Ársæl báru afla klár
ýtir gniðar meyja,
býsna hár og brima knár
Bjöggi Viðar-eyjar.

Óskar samdi seinna aðra vísu um hann:

Björgvin þétt fiski fargar
fírinn Guðmunds órýri,
baðar Ársæl í æði
öldunnar hríðar köldu.
Sterklegur áfram arkar
aldrei með mála skvaldur,
geðugur grérinn téði
gætir að formanns sæti.

Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.
  • Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.

Frekari Umfjöllun

Ragnar Björgvin Guðmundsson.

Ragnar Björgvin Guðmundsson frá Streiti í Breiðdalshreppi, S-Múl., skipstjóri, útgerðarmaður fæddist þar 15. maí 1915 og lést 9. mars 1999 í Reykjavík.
Foreldrar hans voru Guðmundur Pétursson frá Mýrum í Skriðdal, bóndi, vitavörður á Streiti, f. 8. júlí 1886, d. 11. september 1966, og kona hans Björg Höskuldsdóttir frá Streiti, húsfreyja, f. 1. október 1883, d. 26. júní 1930.

Föðursystkini Björgvins, í Eyjum:
1. Björg Pétursdóttir húsfreyja á Fífilgötu 5, ljósmóðir, f. 10. febrúar 1876, d. 5. ágúst 1947, kona Guðmundar Bjarnasonar.
2. Guðrún Pétursdóttir húsfreyja á Geirlandi, f. 15. október 1883, d. 18. mars 1923, kona Geirs Guðmundssonar.

Björgvin var með foreldrum sínum í æsku.
Hann fluttist ungur til Eyja, tók hið minna vélstjórapróf í Eyjum 1937 og námskeið á vegum Stýrimannaskólans 1940.
Björgvin var í Sólhlíð 26 1940, með konu sinni í Viðey 1942.
Hann var á ýmsum bátum, m.a. Garðari VE og Sjöfn VE. Síðar gerðist hann skipstjóri og útgerðarmaður á Ársæli VE 8, sem hann átti með mági sínum Ármanni Ó. Guðmundssyni. Þeir Björgvin og Ármann gerðu Ársæl VE 8 út í mörg ár hann varð þurrafúanum að bráð og urðu þeir félagar þá að hætta útgerð.
Eftir þetta réri Björgvin í nokkur ár sem vélstjóri á Sæborgu VE með Sveini Valdimarssyni frá Varmadal og síðar á Suðurey VE 20 með Arnoddi Gunnlaugssyni frá Gjábakka.
Björgvin hætti sjómennsku 1973 og hóf störf hjá Álverinu í Straumsvík og vann þar til starfsloka vegna aldurs.
Ingibjörg lést 1998 og Ragnar Björgvin 1999.

Kona Ragnars Björgvins, (24. desember 1942), var Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Viðey, húsfreyja, f. 19. apríl 1917 á Ytri-Hóli í V-Landeyjum, d. 14. október 1998 á Sjúkrahúsinu.
Börn þeirra:
1. Ragnheiður Björgvinsdóttir húsfreyja, f. 28. mars 1942 í Viðey.
2. Guðmundur Óskar Björgvinsson, f. 28. júlí 1947 í Viðey.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.


Myndir


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.