ÍBV

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. júlí 2019 kl. 16:48 eftir Gisli (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. júlí 2019 kl. 16:48 eftir Gisli (spjall | framlög) (→‎Stofnfundur KH ÍBV)
Fara í flakk Fara í leit

Undanfari og upphaf

Eins og nafn Íþróttabandalags Vestmannaeyja gefur til kynna er þetta bandalag margra mismunandi hópa. Mörg félög höfðu verið í Eyjum bæði fyrir stofnun bandalagsins og einnig hafa mörg félög starfað í gegnum árin samhliða ÍBV. Félögin Þór og Týr höfðu verið starfandi frá öðrum og þriðja áratug 20. aldarinnar og hvatt hvort annað áfram með stöðugri samkeppni. Þessi félög, ásamt öðrum sértækari, höfðu haft með sér félög sem kepptu á landsmótum. Hétu félögin Íþróttaráð Vestmannaeyja, ÍRV, og undir stjórn Einars ríka var keppt fyrir hönd KV á landsmótum. Á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar varð hnignun í íþróttamálum í Eyjum vegna þess að ungt fólk fékk vinnu hjá hernum og við síldveiðar á Norðurlandi. Með nýjum íþróttalögum var óskað eftir því að samband íþróttafélaga í Vestmannaeyjum væri stofnað. Hinn 6. maí 1945 var stofnað bandalag íþróttafélaga í Vestmannaeyjum, Íþróttabandalag Vestmannaeyja. Félögin höfðu eitthvað keppt í eigin nafni upp á meginlandinu fyrir stofnun bandalagsins en nú skyldi keppa í nafni ÍBV utan héraðs.

Fyrsta sumarið (árið 1945), sem héraðssamband ÍBV var við stjórnvölinn, var vel skipulögð starfsemi og vissu félögin strax um vorið hvenær þau ættu að sjá um mót, hvort sem var í knattspyrnu, handknattleik eða frjálsum íþróttum. Ekki var keppt í sundi þetta sumar því viðgerðir stóðu yfir á lauginni en strax um haustið hófst sundkennsla hjá Friðriki Jessyni.

Knattspyrnan þurfti að heyja baráttu við fiskinn sem laðaði menn á vertíðir. Það var þó á hásumrin sem menn gáfu sér tíma til að sparka í nokkra bolta. Handknattleikurinn var hins vegar mjög vinsæll og þetta tiltekna sumar hafði uppgangur aldrei verið meiri. Mörg mót voru haldin og voru margir áhorfendur og þá aðallega eldri konur. Frjálsar íþróttir höfðu vaxið í vinsældum frá 1930 og á fjórða og fimmta áratugnum voru Vestmannaeyingar stórveldi í frjálsum íþróttum og unnu til fjölda verðlauna.

Eftir að íþróttafélögin Þór og Týr sameinuðust um áramótin 1996-1997 í eitt félag, ÍBV íþróttafélag, hætti Íþróttabandalagið öllum rekstri á eiginlegri íþróttastarfsemi, en knattspyrnudeild hafði verið haldið úti innan bandalagsins um árabil og séð um rekstur á meistarflokki í knattspyrnu. Fluttist öll íþróttastarfsemi til aðildarfélaga bandalagsins. Starfsemi bandalagsins varð þá eins og til hennar var stofnað í upphafi að vera einskonar regnhlífarsamtök allra íþróttafélaganna í Eyjum og er með aðild að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands fyrir hönd aðildarfélaganna.

Knattspyrnan hefur verið ein aðalíþróttagreinin sem iðkuð hefur verið í Vestmannaeyjum, en hin síðari ár hefur handboltanum vax mjög ásmegin.

Saga ÍBV íþróttafélags í 20 ár - Þar sem hjartað slær

Gísli Valtýsson tók saman.

Í 20 ára sögu ÍBV íþróttafélags er margs að minnast. Í annál félagsins má sjá að félagið er í sjálfu sér stórveldi á íþróttasviðinu, ekki síst í ljósi þess að íbúar Vestmannaeyja eru aðeins 4300 talsins. Í meistaraflokkunum hefur félagið landað 33 titlum, Íslands-, bikar-, Lengju-, Fótbolta.net-, Futsal- og meistarar meistaranna. Þar af 7 Íslandsmeistaratitlum í efstu deildum handbolta og fótbolta. 

Í yngri flokkunum hefur félagið eignast 24 Íslandsmeistaratitla í hinum ýmsu keppnum í handbolta og fótbolta og  6 bikarmeistaratitla auk annarra titla í hinum ýmsu mótum. Samtals hefur ÍBV íþróttafélag hlotið 87 meistaratitla af ýmsum toga.

Þá hefur félagið eignast landsliðsfólk í öllum landsliðum Íslands í handbolta og fótbolta, frá yngstu flokkunum og uppúr, - fleiri en tölu verður á komið og verið Vestmannaeyjum og félagi sínum til mikils sóma. 

Fimm sinnum hefur karlalið ÍBV íþróttafélags tekið þátt í Evrópukeppnum  í knattspyrnu og tvö skipti komist áfram í 2. umferð.

Karlalið ÍBV í handbolta hefur fjórum sinnum tekið þátt í Evópukeppnum og konurnar einnig fjórum sinnum. Árið 2004 komst kvennaliðið alla leið í undanúrslit. 

En titlar eru ekki allt, félagið hefur rekið gríðarlega umfangsmikið barna- og unglingastarf í handbolta og fótbolta, þar sem allir eru velkomnir. Tvö af stærstu knattspyrnumótum hvers árs á Íslandi eru haldin í Vestmannaeyjum á vegum félagsins, Orkumótið fyrir drengi og TM mótið fyrir stúlkur. Þá er á hverju hausti haldið í Eyjum eitt stærsta handboltamót yngri flokkanna, Eyjablikksmótið. 

Um hver áramót er gamla árið kvatt með brennu og flugeldasýningu í  Hásteinsgryfjunni og glæsilegasta þrettándahátíð landsins er í Eyjum á vegum ÍBV. Ekki má svo gleyma stærstu útihátíð landsins, Þjóðhátíðinni, sem enga á sína líka. ÍBV íþróttafélag er því gríðarlega stór hluti af mannlífinu í Eyjum og dregur mörg þúsund manns til Eyja á hina ýmsu viðburði sína og bætir efnahag Vestmannaeyja um stórar fjárhæðir.  

Sennilega er ÍBV það „vörumerki“  í Eyjum, sem flestir landsmenn þekkja.

Aðdragandinn

Stofnun ÍBV íþróttafélags hafði nokkurra ára aðdraganda. Eftir talsverðar byggingaframkvæmdir íþróttafélaganna, Þórs og Týs á árunum eftir 1986, var fjárhagsstaða félaganna orðinn nokkuð þung. Árið 1991 tók  Knattspyrnufélagið  Týr í notkun nýbyggðan íþróttasal við félagsheimili sitt. Sú framkvæmd reyndist félaginu ofviða og var félagið komið í greiðsluþrot á árinu 1996. Sú staða varð til þess að mikill þungi fór í sameiningaviðræður Þórs og  Týs, sem að lokum leiddi  til sameiningar þeirra. Nokkur ár þar á undan  höfðu þau  kastað á milli sín hugmyndum um skiptingu handbolta og knattspyrnu milli félaganna; og/eða að stofna tvö félög, handbolta- og knattspyrnufélag og einnig var rætt um sameiningu Þórs og Týs.  Sýndist  þar sitt hverjum.

Tillögur um framtíðarstarf félaganna

Haustið 1993 varð að samkomulagi milli stjórna félaganna Þórs og Týs og stjórnar Íþróttabandalagsins að fara þess á leit við Stefán Konráðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra ÍSÍ, að hann gerði úttekt á starfi félaganna  Þórs og Týs vegna mikillar umræðu sem verið hafði í Vestmannaeyjum um skipulagsmál íþróttahreyfingarinnar.

Á fundi Stefáns með forvígismönnum íþróttahreyfingarinnar í Eyjum, þann 8. nóvember 1993, kom fram að aðaláherslan yrði lögð á að hann mæti hvort til greina kæmi að sameina eða samtengja starfsemi Þórs og Týs,  og ÍBV í flokkaíþróttum þannig að aukinn árangur yrði samhliða hagræðingu í starfi.

Í desember skilaði Stefán síðan af sér úttektinni þar sem nokkrum möguleikum var velt upp, m.a. að félögin sæju áfram um yngri flokkana, þau skiptu á milli sín íþróttagreinum, eða eins og lagt var til í róttækustu tillögunni að félögin yrðu lögð niður í núverandi mynd og stofnuð sérgreinafélög innan Íþróttabandalagsins. Stefán lagði til að reynt yrði til þrautar að halda sig við hinar leiðirnar á tveimur næstu árum, og lagði fram hugmyndir að uppbyggingu. Ef starfsemin léttist ekki og árangur batnaði ekki á þessu tímabili, teldi hann eðlilegt að fara leið B, sem hann nefndi svo, að leggja félögin niður.

78% vildu sameina undir merki ÍBV

Í nóvember 1993, áður en tillögur Stefáns Konráðssonar höfðu verið birtar, efndi blaðið Fréttir til skoðanakönnunar í Vestmannaeyjum um viðhorf bæjarbúa til íþróttahreyfingarinnar, en spurt var hvort fólk vildi breytingar á skipulagi hennar. Af 250 aðilum, sem spurðir voru, svaraði 171 og svörin voru nokkuð afdráttarlaus. 78% vildu sameina íþróttahreyfinguna undir nafni ÍBV, 12% vildu halda óbreyttu fyrirkomulagi og 10% vildu að annað félagið tæki að sér handboltann og hitt fótboltann.

Sameining í sjálfu sér einföld

Viðræður stjórna Týs og Þórs strönduðu þegar á leið árið 1994. Þar mun mestu hafa um ráðið að stjórn Týs hafði þau skilaboð frá félagsmönnum að Týr yrði að fá fótboltann, yrði greinunum skipt milli félaganna, ekki kæmi til greina að draga um íþróttagreinarnar eins og rætt hafði verið um. Þetta tóku forsvarsmenn Þórs ekki í mál og því var viðræðum hætt.

Einn af forkólfum íþróttahreyfingarinnar í Eyjum og stjórnarmaður í Íþróttabandalaginu,

Stefán Jónsson, tjáði sig um málið í heilsíðugrein Fréttum 1. desember 1994, þegar ljóst var orðið að frekari sameiningaviðræður voru út úr myndinni. Hann mælir með því að bæði félögin verði lögð niður eða sameinuð í einu félagi.  „ÍBV er andlit okkar út á við og að því þurfum við að hyggja og sameina krafta okkar innanbæjar. Þá sameinuðust kraftar þeirra fjölmörgu sem vinna að framgangi íþrótta í einn farveg sem skilaði sér í öflugum íþróttabæ og við ættum möguleika á að tefla fram íþróttafólki í fremstu röð.“

Síðar í sömu grein segir svo:

 „Sameining er í sjálfu sér einföld. Félögin Þór og Týr yrðu lögð niður og eignir þeirra rynnu til ÍBV. Um er að ræða tvö félagsheimili, tvo grasvelli og fleira. Bæjarsjóður yfirtæki skuldir félaganna en á móti yrði íþróttahreyfingin að sætta sig við að rammasamningi yrði seinkað um tvö ár.“

Bæjarstjórnin vildi leggja Þór og Týr niður

Bæjarstjórn Vestmannaeyja óskaði í nóvember árið 1995 eftir viðræðum við íþróttafélögin tvö um væntanlega lausn á fjárhagsvanda íþróttahreyfingarinnar. Þau skilyrði sem bærinn setti félögunum, voru nokkuð afdráttarlaus, ef af þeim stuðningi yrði, skyldu bæði félögin lögð niður.  Þessi tillaga var felld á félagsfundi hjá Þór.

  „Eftir félagsfund hjá okkur sáum við að ekki var hægt að uppfylla það skilyrði og greindum við fulltrúum bæjarins frá því,“ sagði Stefán Agnarsson, formaður Þórs í Fréttum 16. nóvember 1995.  „Við erum opnir fyrir öllu nema að leggja félagið niður. Við sjáum ekki að af því verði sparnaður og svo erum við hræddir við að missa fólk sem borið hefur hitann og þungann af starfinu hjá okkur. Það er hætt við að grasrótin noti tækifærið og hætti, verði félagið lagt niður,“ sagði Stefán ennfremur.

En í herbúðum Týs kvað við annan tón. Helgi Sigurlásson, formaður Týs, sagði ljóst að Þórarar hefðu slúttað þessum viðræðum, hefðu ekki einu sinni viljað sjá hvað væri í pakkanum sem bærinn bauð. Hann bætti einnig við að ljóst væri að dæmið gengi ekki upp hjá hvorugu félaginu.

  „Það er út úr kortinu að sýna reikninga frá síðasta aðalfundi og segjast skulda 1,8 milljónir eins og Þórarar gera. En skuldastaða félaganna er aukaatriði, það þarf að efla íþróttirnar í bænum og það verður ekki gert með öðrum hætti en að bærinn komi til liðs við okkur eins og hann hefur boðist til. Hefðu menn verið tilbúnir til að skoða alla möguleika, eins og t.d. þá að leggja félögin niður, hefðum við fengið að sjá hvað það í raun og veru var sem bærinn bauð upp á. En það vildu Þórararnir ekki einu sinni líta á,“ sagði Helgi.

Guðmundur Þ.B. Ólafsson, sem ásamt Guðjóni Hjörleifssyni bæjarstjóra, tók þátt í þessum viðræðum af bæjarins hálfu, sagðist líta svo á að þeim væri lokið. Vegna afstöðu Þórs væri þetta endapunktur þess sem þeim hefði verið ætlað að gera.

Bæjarstjórn gerir félögunum tilboð

Í byrjun júlí árið 1996 gerði Vestmannaeyjabær, félagi sem stofnað yrði á grunni Þórs og Týs, kauptilboð í félagsheimili félaganna Þórs og Týs, ásamt og íþróttavöllum,  að upphæð krónur 52 milljónir. Í tillögu bæjarstjórnar segir að þetta sé gert til að greiða fyrir og auðvelda sameiningu félaganna og megi skoðast sem aðkoma bæjarsjóðs að fjármálum hins nýja félags. Og tilgangurinn sé að stuðla að öflugri uppbyggingu á íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. Í tilboðinu segir að rammasamningur sem í gildi sé,  um uppbyggingu íþróttamannvirkja milli bæjarstjórnar og Íþróttabandalagsins  falli úr gildi og sé það skilyrði fyrir tilboði bæjarins. Kauptilboðið er tvíþætt, annars vegar býðst bærinn til að kaupa félagsheimilin á 37 milljónir króna á þessu ári og íþróttavellina á næsta ári fyrir 15 milljónir gegn kvaðalausu afsali þeirra annað en áhvílandi veðskuldum. Tilboðið gilti til 18. júlí sama ár.

Samþykkt með tárum

Fundur í Knattspyrnufélaginu Tý nokkrum dögum síðar, samþykkti að ganga að þessi tilboði Vestmannaeyjabæjar. Meira hik var á fundi hjá Íþróttafélaginu Þór sem haldin var 5. september. Fannst fundarmönnum að félaginu væri stillt upp við vegg. Á aðalfundum félaganna sem haldnir voru 10.  nóvember samþykktu  bæði félögin formlega að sameinast um stofnun nýs  íþróttafélags. Ekkert hik var á félagsfundi  Týs, tilboðið var samþykkt með samhljóða 38 atkvæðum. Hjá Þór var tillagan samþykkt með 20 atkvæðum gegn 10 og fjórir sátu hjá. Í  fundargerð Þórs  frá aðalfundinum segir  að tár hafi blikað á hvörmum margra félagsmanna, þegar samþykkt var að ganga að tilboði Vestmannaeyjabæjar.

Lausn á tilvistarkreppu

Í blaðinu Fréttum eftir að niðurstaða aðalfundanna lá fyrir sagði Magnús Bragason, formaður handknattleiksráðs Íþróttabandalagsins að hjá þessu hafi ekki verið komist vegna þróunar síðustu ára. „Vestmannaeyjabær hefði mátt koma inn í dæmið með meiri peninga því einhverjar milljónir standa út af," sagði  Magnús í viðtali við Fréttir og segist óttast að það geti bitnað á hreyfingunni meðan verið er að hreinsa upp skuldir sem eftir eru. „Enn eru nokkrir hnútar óleystir með fyrirkomulag nýja félagsins en ef allir vinna heilshugar að því að leysa þá verður sameiningin til mikils góðs," bætti Magnús við.

Jóhannes Ólafsson, formaður knattspyrnuráðs ÍBV, segir sameiningu hafa verið draum þeirra sem starfa fyrir ÍBV í mörg ár. „Nú er það orðið að veruleika og ekkert eftir nema að bretta upp ermarnar og fara að vinna. Hvet ég alla sem vilja styðja ÍBV til að koma til starfa með okkur," sagði Jóhannes.

Þór Vilhjálmsson, sem situr í samninganefndinni fyrir hönd Þórs, sagði að sú staða sem íþróttahreyfingin var komin í hafi ekki getað gengið lengur. „Það varð að finna lausn á þeirri tilvistarkreppu sem hreyfingin var komin í. Ég ber þá von í brjósti að bæjarbúar séu tilbúnir að leggja okkur lið. Það skiptir ekki bara íþróttahreyfinguna miklu að hún verði virkilega öflug, heldur bæjarfélagið allt,"sagði Þór.

„Ég er ánægður með að þetta skuli vera gengið í gegn," sagði Guðjón Rögnvaldsson sem var fulltrúi Týs í samninganefndinni. „Sameiningin á eftir að verða til heilla fyrir íþróttahreyfinguna og bæinn í heild. Næst er að finna menn í stjórn til að stýra þeirri miklu vinnu sem er framundan. Ég hef fundið mikinn stuðning við sameininguna og heyri ekki annað en að menn ætli að koma heilsteyptir inn í nýja félagið," sagði Guðjón.

Þar með er lokið kafla í íþróttasögu Vestmannaeyja sem hófst með stofnun Íþróttafélagsins Þórs þann 9. september árið 1913.

Stofnfundur KH ÍBV

„Eins og ykkur er öllum kunnugt hafa staðið yfir nokkur undanfarin ár töluverðar umræður um að þörf væri á því að endurskipuleggja starfsemi íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum. Margt hefur breyst í þjóðfélaginu og ekki síst í því umhverfi sem hreyfingin hefur starfað í. Okkur verður að sjálfsögðu að bera gæfa til að staðna ekki og gera það sem við teljum íþróttunum fyrir bestu með það að takmarki að Eyjamenn verði ávallt í fremstu röð, íþróttafólki og bæjarbúum til heilla," sagði Þór Vilhjálmsson á stofnfundi Knattspyrnu- og handboltafélags ÍBV, skammstafað KH ÍBV sem var vinnuheiti félagsins, -  sem haldinn var í Bæjarleikhúsinu 30. desember 1996.

Um 130 manns sóttu fundinn og var stofnun félagsins samþykkt með lófataki. Sjö manna stjórn var kosin á fundinum og  Þór formaður hennar. Með honum í stjórn voru kosin: Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Óskar Freyr Brynjarsson, Eyþór Harðarson, Jóhannes Ólafsson, Birgir Guðjónsson og Arndís Sigurðardóttir.

1997 - Fyrsta starfsárið

Týsmerkið breyttist í ÍBV merkið

Þrettándinn var haldinn með pomp og prakt. Mikið var um dýrðir á Þrettándagleðinni að venju. Jólasveinarnir, Grýla og Leppalúði og ótrúleg kynjaveröld kvöddu jólin með eftirminnilegum hætti í mikilli veðurblíðu og hefur aldrei annar eins mannfjöldi verið viðstaddur þrettándagleði. Týrarar, sem hingað til höfðu séð um þrettándann, tendruðu blys á Molda í síðasta sinn og það var tímanna tákn um breytta tíma að sjá Týsmerkið breytast í ÍBVmerkið.

Völva Frétta segir stráka fara í atvinnumennsku á árinu

Á íþróttasviðinu sá Völva Frétta fram á viðburðaríkt ár. Í handboltanum munu þau óvæntu stórtíðindi gerast að ÍBV mun ná mjög langt í Íslandsmótinu og slá í gegn. Kvennahandboltanum mun hins vegar ganga illa. Í knattspyrnunni sjáum við fram á sumar sem býður upp á mikla dramatík innan leikvallar sem utan og mikið mun ganga á, án þess að Völvan vildi fara nánar út í þá sálma. Völvan segist sjá ÍBV á svipuðum slóðum og í fyrra áður en yfir lýkur. Ekkert bikarævintýri verður í sumar eins og í fyrra en hins vegar mun framganga ÍBV í Evrópukeppninni vekja mikla athygli og verða til þess að við missum stráka í atvinnumennsku í haust.

Leikmenn löglegir með KH ÍBV

Með tilkomu nýja félagsins vöknuðu spurningar hvernig yrði með þá leikmenn sem áður léku með Þór og Tý. Yrðu þeir löglegir með nýja félaginu. Blaðið Fréttir leitaði upplýsinga hjá KSÍ og HSÍ: Leikmenn ÍBV í knattspyrnu og handbolta í meistaraflokki og yngri flokkunum, sem hingað til hafa verið skráðir í Tý eða Þór, eru löglegir með Knattspyrnu- og handknattleiksfélagi ÍBV, samkvæmt upplýsingum frá KSÍ, HSÍ og ÍSÍ. Forráðamenn íþróttahreyfingarinnar í Eyjum hafa óttast að þar sem leikmenn ÍBV hafa hingað til verið skráðir í Tý og Þór, séu þeir ólöglegir eftir að Týr og Þór heyra sögunni til. Sá ótti reyndist ástæðulaus þar sem ráðstafanir hafa verið gerðar af stóru sérsamböndunum, KSÍ og HSÍ, þess efnis að þessar breytingar hafi engin áhrif á stöðu leikmanna ÍBV. Á ársþingi KSÍ í haust var samþykkt að KH ÍBV tæki sæti núverandi sameiginlegra liða Týs og Þórs í mótum á vegum KSÍ frá og með árinu 1997. Að sögn Einars Friðþjófssonar sem á sæti í stjórn KSÍ, tryggir þetta að leikmenn ÍBV, sem voru skráðir í Tý og Þór, séu löglegir með KH ÍBV. Atli Hilmarsson á skrifstofu HSÍ ÍBV segir að erindi hafi borist frá KH ÍBV um þetta mál. Gengið hafi verið frá því hjá HSÍ til bráðabirgða að þeir sem eru skráðir í Þór og Týr séu löglegir með KH ÍBV. „Við gengum þannig frá málinu að ekki sé hægt að kæra ÍBV fyrir ólöglega leikmenn. Formlega verður gengið frá þessu á ársþingi HSÍ í maí nk.," sagði Atli. Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, segir kjarna málsins vera að um leið og stóru sérsamböndin, HSÍ og KSÍ, hafí lagt blessun sína yfir málið, þurfi Eyjamenn ekki að hafa áhyggjur. „Allir samgleðjast Eyjamönnum. Ég hef ekki nokkra trú á því að menn kæri Eyjamenn á sama tíma og þeir stíga þetta farsæla skref að sameina íþróttahreyfinguna. Ef KSÍ og HSÍ hafa gengið frá sínum málum gagnvart þessu nýja félagi ættu allir leikmenn þess að vera löglegir, sagði Stefán.

Fyrsti leikur KH ÍBV

- Grátlegur endir á góðum leik Fyrsti leikur KH ÍBV í Íslandsmóti, var gegn KR í meistaraflokki kvenna í handbolta. Leiknum lauk með KR sigri, 17-18, í hörku spennandi leik þar sem úrslitin réðust á síðustu sekúndunum. Eyjastelpur léku einn sinn besta leik í langan tíma og höfðu yfir í hálfleik, 10-9. Jafnræði var á öllum tölum í seinni hálfleik. KR skoraði sigurmark leiksins úr vítakasti á lokasekúndu leiksins, naumara gat það ekki verið. Eyjastelpur voru að vonum sársvekktar að hafa tapað enda voru þær að keppast við að lenda meðal átta efstu liða og komast í úrslitakeppnina. Sem stendur er liðið í 9. sæti. Í Fréttum sagði að endurkoma Söru Guðjónsdóttur í liðið hafi haft mjög jákvæð áhrif og mikill styrkur í henni. Hún var markahæst hjá ÍBV með 5 mörk. Ingibjörg Jónsdóttir skoraði 3, Stefanía Guðjónsdóttir 3, María Rós Friðriksdóttir 3, Guðbjörg Guðmannsdóttir 2 og Elísa Sigurðardóttir 1. ÍBV stelpur eru komnar í 8 liða úrslit bikarkeppninnar og mæta þar KR á útivelli. Þá fær ÍBV tækifæri til þess að hefna fyrir tapið.

Sigur á Selfyssingum

Það hafði loðað við meistaraflokk karla í handbolta að tapa frestuðum leikjum. Það var því góð tilbreyting að vinna Selfyssinga í tvífrestuðum leik, 28-24. Í Fréttum sagði að leikurinn hefði reyndar ekki verið upp á marga fiska „en stigin telja, það er mikilvægast," sagði Arnar Pétursson, leikmaður ÍBV. Selfyssingar byrjuðu betur og skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins. En þá tóku Eyjamenn við sér og höfðu eins marks forystu í hálfleik, 12-11. Eftir að staðan var jöfn 13-13 tók Gunnar Berg til sinna ráða og ÍBV náði fjögurra marka forystu, 14-18, og tókst að halda henni út leikinn. Varnarleikur ÍBV var hreinasta hörmung en sóknarleikurinn betri. Það var ÍBV til happs að Selfyssingar voru arfaslakir. Mörk ÍBV: Gunnar Berg 9, Belanyi 7/3, Svavar 3, Erlingur 2, Daði 2, Guðfinnur 2, Sigurður 2 og Arnar 1. ÍBV er nú í 5. sæti með 16 stig eftir 14 leiki.

Stjórnsýslan verður í Þórsheimilinu

Guðmundur Þ.B. Ólafsson var fyrsti framkvæmdastjóri nýja félagsins. Hann var í viðtali í blaðinu Fréttum í lok janúar, þar sem hann fór yfir starfið og stöðu félagsins. „Fyrstu verkefnin hafa aðallega falist í að að móta starfið sem snýr að knattspyrnudeildinni og handknattleiksdeildinni. Forsendur hafa breyst því þessar tvær deildir taka nú inn á sig alla yngri flokkana sem voru áður í umsjá Týs og Þórs. Það sem snýr að aðalskrifstofunni þá er öll stjórnsýsla nýja félagsins í Þórsheimilinu en við sjáum um reksturinn á báðum heimilunum. Búið er að ráða starfsmenn í Týsheimilið og góð nýting er á íþróttasalnum. Verið er að hafa samband við helstu styrktaraðila og kennitalan er klár," sagði Guðmundur.

Nýja félagið byrjar með tóma sjóði.

Nýja félagið byrjaði sína starfsemi með tóman sjóð. Aðspurður sagði Guðmundur að vissulega væri það ekki sú staða sem menn höfðu vonast eftir í upphafi. Þegar farið var af stað með nýtt félag var það á þeim forsendum að það hefði úr einhverjum fjármunum að spila í byrjun. Svo er ekki og því séu nokkrir mánuðir í að félagið fái inn tekjur af starfseminni. „Fram að því verðum við að treysta á skilning bæjarbúa og þreyja þorrann. Við höfum víðast hvar fengið góð viðbrögð enda hafa flestir skilning á því að við erum að reyna að búa til farveg fyrir nýja og betri tíma. En það er alveg ljóst að miðað við hvernig rekstrarumhverfið var orðið var kominn tími til að stokka upp spilin í íþróttahreyfingunni," sagði Guðmundur. Sökum þess að nýja félagið byrjar með budduna tóma má búast við því að lengri tíma taki að ýta félaginu úr vör.

Undirbúningur gengur vel.

Að sögn Guðmundar gekk vel að fá fólk til starfa í Pæjumótsnefnd, Shellmótsnefnd, þjóðhátíðarnefnd og stuðningskvennadeild. Flestir þeir sem talað hefur verið við hafa tekið vel í að starfa áfram en einnig er vonast til að ný andlit bætist við. „Þeir sem hafa unnið mikið fyrir Tý og Þór í gegnum tíðina verða margir áfram. En sumir ætla að taka sér frí og höfðu reyndar ákveðið það fyrir löngu. Það er ljóst að við þurfum á öllu góðu fólki að halda og það mætti endilega hafa samband við okkur. Vonandi gera allir sér grein fyrir því að hlutirnir gerast ekki sjálfkrafa, það er mikil vinna framundan," sagði Guðmundur.

20 milljón kr. gat?

Eins og kemur fram í viðtali Frétta við framkvæmdastjóra KH ÍBV, byrjaði nýja félagið á núlli. Vonast hafði verið eftir því að nýja félagið hefði eitthvað á milli handanna í byrjun en svo er ekki. Hins vegar er ljóst, samkvæmt heimildum blaðsins, að töluvert af skuldum standa enn út af borðinu þegar búið verður að gera dæmið upp að fullu með sameininguna. Það mun vera í verkahring skilanefndarinnar að klára þau mál og er verið að vinna í því að finna flöt á því máli. Líklega er vel á annan tug milljóna um að ræða sem verður að klára með einum eða öðrum hætti, samkvæmt heimildum blaðsins.

ÍBV íþróttafélag

Þegar nýja félagið var stofnað, var notast við vinnuheitið Knattspyrnu- og handknattleiksfélag ÍBV. Leitað var eftir tillögum frá bæjarbúum að nafni á félaginu. Yfirgnæfandi meirihluti bæjarbúa valdi nafnið ÍBV íþróttafélag. Á framhaldsaðalfundi félagsins 4. febrúar var það nafn á félaginu samþykkt. Reyndar segir í bókun fundarins að bæjarbúar hafi valið nafnið Íþróttafélagið ÍBV, en þv verðí var síðar breytt í ÍBV íþróttafélag.

Hvernig væri að prófa aða Íslandsmeistarar?

Karlalið KH ÍBV í handbolta var fullt bjartsýni í upphafi árs, eftir sannfærandi sigur á Gróttu í Íslandsmótinu. – „Ég er búinn að segja við strákana, af hverju ekki að prófa að verða Íslandsmeistarar? Strákarnir eru í rosalega góðu formi, þeir eru ekki að glíma í leikjunum heldur spila góðan handbolta, hafa gaman af því sem þeir eru að gera, eiga fullt af trixum og geta gert ýmislegt. Ég lofa náttúrulega engu en við sýndum það á Opna-Reykjavíkurmótinu í haust að ÍBV getur náð langt," sagði Zoltan Belanyi, hornamaðurinn knái í viðtali við blaðið Fréttir. KH ÍBV vann stórsigur á Gróttu á útivelli, 28-19. Þá segir í blaðinu að með sigrinum hafi ÍBV komist í 4. sæti með 18 stig, jafnmörg og Fram en ÍBV á leik til góða. ÍBV breytti stöðunni úr 3-3 í 7-3 og lagði grunninn að góðum sigri. Á þessum kafla var lok lok og læs í vörninni og svo vart keyrt á hraðaupphlaupum þar sem Belanýi var drjúgur. Langt er síðan vörn ÍBV hefur verið jafn öflug og í þessum leik sem lofar góðu um framhaldið. Staðan í hálfleik var 12-8 fyrir ÍBV og enn dró í sundur með liðunum í seinni hálfleik. Mestur varð munurinn tíu mörk. Á lokakaflanum fengu ungu varamennirnir að spreyta sig og stóðu sig vel. Allir leikmenn ÍBV spiluðu vel í leiknum, liðið lék sem ein heild og enginn sem skar sig úr. Markaskorunin dreifðist mikið sem er jákvætt. Meira að segja Sigmar Þröstur, sem átti góðan leik í markinu, komst á blað. ÍBV liðinu hefur vaxið ásmegin í síðustu leikjum og greinilegt að strákarnir eru að komast í toppform á hárréttum tíma. Metnaðurinn er svo mikill að flestir þeirra eru að æfa aukalega til að komast í enn betra form. Það segir ýmislegt. Kæmi ekki á óvart að ÍBV færi a.m.k. í undanúrslit. Og ef þeir taka Belanýi á orðinu væri virkilega gaman að prófa að verða Íslandsmeistari! Ekki satt? Mörk ÍBV: Zoltan Belanyi 8/4, Gunnar Berg 3, Arnar P. 3, Svavar 3, Haraldur 2, Ingólfur 2, Guðfinnur 2, Sigurður 2, Erlingur 2, Daði 1, Sigmar Þröstur 1. Varin skot: Sigmar Þröstur 13/1. Birkir Ívar 1.

Knattspyrnuliðið í mótun

Strax í upphafi árs var knattspyrnudeild KH ÍBV komin á fullt með að móta liðið fyrir sumarið. Ljóst var að Friðrik Sæbjörnsson yrði ekki með liðinu næsta sumar en hann hafði ráðið sig til sjós. Nökkvi Sveinsson segist vera hættur og Jón Bragi Arnarsson hefur lagt skóna á hilluna. Eftir er að ganga frá samningum við markmennina Gunnar Sigurðsson og Friðrik Friðriksson og einnig Sumarliða Árnason. Óvíst er með markmennina en Sumarliði verður áfram í herbúðum KH ÍBV. Þá er Kristinn Hafliðason að spila í Þýskalandi í vetur en verður tilbúinn í slaginn með KH ÍBV í sumar. Búið er að ganga frá samningum við Leif Geir Hafsteinsson og Ívar Bjarklind. Þá hafa þeir Sverrir Sverrisson og Guðni Rúnar Helgason gengið til liðs við ÍBV.

Kvennaliðið til Portúgals

Kvennalið ÍBV í knattspyrnu ætlar sér stóra hluti næsta sumar. Stelpurnar hófu æfingar fyrir áramót undir stjórn Sigurlásar Þorleifssonar og hafa aldrei byrjað svo snemma. Reynt verður að fá liðsstyrk frá útlöndum fyrir sumarið og jafnvel innanlands. Stelpurnar munu halda til Portúgals yfir páskana í æfingabúðir og er þetta í fyrsta skipti sem 1. deildarlið ÍBV kvenna í knattspyrnu mun fara út fyrir landsteinana í æfingabúðir, sem sýnir að metnaðurinn er mikill.

Fjölliðamót yngri flokka

Í Fréttum er sagt frá því að 2. fl. ÍBV hafi leikið tvo útileiki í fjölliðamóti um síðustu helgi. ÍBV tapaði fyrst fyrir FH 30-22 og svo fyrir Víkingi 23- 22. Sigurður Bragason skoraði samtals 18 mörk í leikjunum og Jón Þór Klemensson 7. 3. fl. ÍBV lék einnig tvo útileiki um helgina. ÍBV tapaði fyrir Gróttu 23-21 en sigraði Hauka 19-18. Jóhann Halldórsson skoraði samtals 10 mörk en Ríkharð Guðmundsson var markahæstur í fyrri leiknum með 8 mörk og Gottskálk Ágústsson í þeim seinni með 7 mörk.

Morgunkaffi ÍBV á miðvikudögum á kr. 300

Í byrjun janúar birtist auglýsing í Fréttum þar sem auglýst er morgunkaffi alla miðvikudaga kl. 9.30 í Þórsheimilinu. Á boðstólum er kaffi, kakó og te. „Allir eru velkomnir og það er gott fyrir okkur sem erum að koma nýja félaginu af stað að hitta sem flesta sem vilja leggja nýja félaginu lið. Veitingarnar kosta einungis 300 kr. Seinasta miðvikudag var rjómaterta, vöfflur með rjóma og sultu og grillaðar samlokur með skinku og osti. Sjáumst hress í Þórsheimilinu. ÍBV“

Töpuðu á hörmulegri dómgæslu

Þannig hljóðaði fyrirsögn í blaðinu Fréttum eftir leiki KH ÍBV í meistaraflokki kvenna í handbolta, en þær vermdu botnsætið í 1. deild kvenna eftir tvo tapleiki á þremur dögum, fyrst gegn Víkingi á útivelli og svo gegn FH heima. Eyjastúlkur voru í eltingaleik allan tímann. Víkingur náði góðri forystu en ÍBV jafnaði 6-6. Víkingstúlkur breyttu stöðunni í 12-7 og lögðu grunninn að 5 marka sigri, 21-16. Ingibjörg Jónsdóttir var langbest hjá ÍBV og skoraði 9 mörk. Sara Guðjónsdóttir skoraði 4, Stefanía Guðjónsdóttir 2 og María Rós Friðriksdóttir 1 mark. Liðið fékk svo FH í heimsókn. Sá leikur var í járnum í fyrri hálfleik og hafði FH yfir í hálfleik, 12-11.1 seinni hálfleik tókst ÍBV að minnka muninn í eitt mark í lokin en umdeildir brottrekstrar Eyjastúlkna eyðilögðu leikinn fyrir ÍBV. Svo fór að FH vann leikinn 25- 23. Jón Bragi Arnarsson, þjálfari IBV, var ánægður með leikinn, sérstaklega varnarleikinn og þá var sóknin ágæt. „Stelpurnar voru óheppnar með skotin og við brenndum af fjórum vítaköstum, sem kann ekki góðri lukku að stýra. En við töpuðum leiknum á hörmulegri dómgæslu. Það er verið að senda hingað tvítuga óreynda stráka sem valda ekki sínu hlutverki og þeir klúðruðu okkar möguleikum með óskiljanlegum brottrekstrum. En mórallinn er góður í liðinu og þetta er allt upp á við hjá okkur núna. Þá var ég mjög ánægður með stuðning áhorfenda," sagði Jón Bragi. Ingibjörg fyrirliði fór fyrir sínu liði og var langbest. Hún skoraði 7 mörk, Guðbjörg Guðmannsdóttir átti einnig góðan leik og skoraði 6 og þær Sara og María Rós 4 mörk hvor.

ÍBV íþróttafélag með íþrótta- og handboltaskóla í fyrsta sinn

Skólinn var ætlaður fyrir 5 til 8 ára börn. Aldrei hafa svo ungir iðkendur fengið tækifæri til að kynnast handboltaíþróttinni, segir í frétt í Fréttum. Ekki er bara handbolti í skólanum heldur fá börnin, stelpur og strákar, að kynnast fjölbreyttum æfingum. Að sögn Stefaníu Guðjónsdóttur kennara, sem sér um íþrótta- og handboltaskólann ásamt Arnari Péturssyni, er um alhliða æfingar að ræða til að örva hreyfiþroska krakkanna. Bæði er um einstaklings- og hópæfingar að ræða. „Um 60 krakkar eru í skólanum og erum við mjög ánægð með þátttökuna. Það hefur háð handboltanum að geta ekki tekið krakkana nógu ung inn. Þetta er í fyrsta skipti sem við prófum svona ungan aldur og hefur gengið mjög vel. Sérstaklega er gaman hversu margir fimm ára krakkar eru í skólanum. Um einn tíma er að ræða í viku, á föstudögum klukkan fjögur. Við vitum að sá tími hentar ekki öllum foreldrum. Ekki er of seint að láta skrá sig. Aðeins kostar 1500 kr. í skólann fram að páskum og eru öll börn á aldrinum 5 til 8 ára velkomin. Við erum með einvala leiðbeinendur með okkur og faglega staðið að málum," sagði Stefanía.

Hundóánægður þjálfari þrátt fyrir sigur

Þrátt fyrir öruggan sigur ÍBV íþróttafélags á handboltaliði ÍR í 1. deild karla í Eyjum þann 15. febrúar, 27-22, var það brúnaþungur þjálfari ÍBV sem gekk af velli að leik loknum. Þorbergur Aðalsteinsson, þjálfari ÍBV, sagði í samtali við Fréttir að hann ætlaði að messa yfir mannskapnum fyrir að hafa unnið leikinn með aðeins 5 marka mun. Strákarnir hefðu gert sig seka um að slaka á í lokin og í stað þess að vinna með 7 til 8 marka mun varð munurinn aðeins 5 mörk. Slíkt getur skipt máli í lokin. „Ég ákvað að skipta inn á og leyfa sem flestum að vera með. Ég var ekki sáttur við leik okkar og í stað þess að liggja undir því að gera ekki breytingar þegar illa gekk, ákvað ég að gefa ungu strákunum tækifæri. Það er slæmt að fá á sig 13 mörk í fyrri hálfleik gegn svona liði. Það gengur ekki að treysta alltaf á að hlutirnir gangi í seinni hálfleik," sagði Þorbergur. Á lokakaflanum leystist leikurinn upp í vitleysu og ÍBV hefði átt að vinna leikinn með stærri mun en raunin varð, eða 27-22.

Reksturinn í samræmi við fjárhagslega getu

Í endaðan febrúar birtist fréttatilkynning í bæjarblöðunum frá ÍBV íþróttafélagi, svohljóðandi: Eins og kunnug er þá hefur verið stofnað nýtt íþróttafélag hér í Vestmannaeyjum, „ÍBV-íþróttafélag", en nýja félagið er félag sem Týrarar og Þórarar hafa sameinast í. Vonandi á nýja félagið eftir að njóta stuðnings bæjarbúa og fyrirtækja í ríkum mæli, en slíkur stuðningur er nauðsynlegur bakhjarl svo félagið geti staðið myndarlega að því uppbyggingarstarfi sem því er ætlað, bæjarfélaginu til hagsbóta. Við sem störfum fyrir félagið, viljum leggja metnað okkar í að reka félagið með sem skynsamlegustum hætti. Liður í þeirri ætlan okkar er meðal annars sú að rekstrinum verði hagað í samræmi við fjárhagslega getu á hverjum tíma. Ljóst má vera að róðurinn verður þungur í upphafi en með hjálp bæjarbúa og fyrirtækja má gera ráð fyrir að strax á þessu ári verði byrjunarerfiðleikarnir yfirstignir. Þá er rétt að geta þess að félagið hefur látið prenta sérstakar úttektarbeiðnir og er fyrirtækjum bent á að einungis þeir sem slíkar beiðnir hafa undir höndum hafa heimild til að skuldbinda félagið vegna úttekta og verða reikningar ekki greiddir nema þeim fylgi útfyllt beiðni. Að endingu viljum við geta þess að það er von okkar að fá að njóta velvildar og stuðnings sem flestra í mikilvægu starfi félagsins, því án slíks stuðnings gerum við ekki mikið. Með bestu kveðjum og þakkir fyrir stuðninginn við íþróttirnar í gegnum tíðina.

Reikningur fyrir pizzur

Það er ekki öll vitleysan eins. Í marsbyrjun barst handknattleiksráði ÍBV karla, reikningur frá handknattleiksdeild HK upp á 61.680 kr. vegna leiks HK og ÍBV í janúar, sem „ÍBV mætti ekki til" eins og stendur á sundurliðuðum reikningnum. Þar af er reikningur fyrir 10 pizzur upp á 15.800 kr. Nokkur blaðaskrif urðu um þennan leik. Vél sem ÍBV átti að fara með, áætlunarvél frá Flugleiðum, fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli en lenti aldrei í Eyjum vegna ófærðar. Að sögn formanns handboltaráðs ÍBV reyndu þeir að halda því opnu eins lengi og kostur var að komast til Reykjavíkur en flugvélin hafi að lokum ekki getað lent. HK menn voru ósáttir við hve tilkynningin um þetta barst þeim seint og segjast hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þessa. Handknattleiksdeild ÍBV bendir hins vegar á að hún fái aldrei formlega tilkynningu um að leikjum sem fram eiga að fara í Eyjum sé frestað heldur vita þeir að það ræðst einfaldlega af flugi. Leikur HK og ÍBV fór fram daginn eftir og þá vann HK ansi óvænt. Þess má geta að ÍBV og HK eiga að leika í Eyjum á miðvikudaginn í síðustu umferð Íslandsmótsins. ÍBV er í toppbaráttunni en HK í botnslagnum. Í bréfi HK til ÍBV segir: „Hér með sendi ég ykkur þann kostnað sem HK varð fyrir vegna leiks HK og ÍBV sem ekki var leikinn þrátt fyrir að fært væri frá Vestmannaeyjum um daginn. Hafa verður hugfast að ÍBV lét HK ekki vita að þeir kæmu ekki, þrátt fyrir að Eyjamönnum hafi verið það ljóst kl. 17.00 þann dag. Því hagaði HK undirbúningi sínum eins og á venjulegum leikdegi. Engu að síður erum við hjá HK tilbúnir að láta þennan kostnað jafnast út við þann kostnað sem ÍBV varð fyrir þegar þeir mættu HK í bikarkeppni HSÍ." Sundurliðun á reikningi HK er þessi: 10 pizzur (m/3 áleggsteg.) sem selja átti áhorfendum kr. 15.800,- 5 menn sem hengja upp auglýsingar og koma upp aðstöðu fyrir blaðamenn: kr. 3.000,- Léttar veitingar fyrir leikmenn m.fl. á veitingastað fyrir leik, 900 kr. pr. mann kr. 12.600,- Aukastarfsmaður í Digranesi vegna leiksins kr. 3.880,- Útleiga á sal í 2 klst. kr. 10.000,- Greiðsla til dómara, akstur og dómgæsla kr. 16.400,- Samtals kostnaður við leik HK-ÍBVsem ÍBVmætti ekki til kr. 62.680,- Eyþór Harðarson, gjaldkeri handknattleiksdeildar ÍBV, segist hafa skellihlegið þegar hann las bréf HK. Krafa HK sé glórulaus og algjörlega út í hött. ÍBV hafi á sínum tíma, þegar ljóst var að flugvélin, sem var að ná í ÍBV liðið gat ekki lent í Eyjum, látið HK vita um leið og útséð var að leiknum yrði að fresta. Eyþór sagði auðvelt að lesa á milli línanna í þessu máli. HK og ÍBV hefðu leikið í bikarkeppninni í haust í Kópavogi. Þær reglur gilda í bikarkeppni að innkomu á leikina er skipt jafnt á milli liðanna en heimaliðið fær ekki allan ágóðann eins og tíðkast í deildarkeppni. ÍBV hefur hins vegar enn ekki fengið greiddan sinn hluta af bikarleiknum frá því í haust og HK vilji nota það sem skiptimynt í þessum skrípaleik.

Gott tak á KA

Karlalið ÍBV í handbolta gerði góða ferð norður í byrjun febrúar. Liðið burstaði KA 26-17, og er þetta versta afhroð KA á heimavelli í 1. deild frá upphafi, hvorki meira né minna. Og enginn leikur sér að því að fara norður og hirða tvö stig en ÍBV hefur ekki tapað fyrir KA tvö ár í röð. Síðasta keppnistímabil gerðu ÍBV og KA jafntefli fyrir norðan og ÍBV vann í Eyjum og hélt þar með sæti sínu í deildinni. Síðastliðið haust burstaði ÍBV svo KA á heimavelli og svo aftur fyrir norðan um helgina. Blaðið Fréttir hefur eftir Þorbergi þjálfara, að þeir hefðu lagt mikla áherslu á fyrir leikinn að liðið spilaði meira sem liðsheild, að fækka mistökunum í sókninni til að losna við að fá á sig hraðaupphlaup og að berja meira frá sér í vörninni. Þetta gekk eftir. Sóknir ÍBV voru langar og agaðar þar sem Arnar Pétursson sýndi hvers hann er megnugur og stjórnaði sókninni eins og herforingi. ÍBV hafði undirtökin allan tímann. Staðan í hálfleik var 13- 10. KA tókst að minnka muninn í eitt mark í byrjun seinni hálfleiks en þá fór aftur að draga í sundur með liðunum. Íþróttafréttamaður Frétta, Þorsteinn Gunnarsson skrifaði í blaðið að á lokasprettinum hafi Eyjamenn farið hamförum og sýnt allar sínar bestu hliðar. „Við spiluðum sem liðsheild og það gekk eftir. Nú tökum við stefnuna á 3. sætið," sagði Sigurður Friðriksson hjá ÍBV eftir leikinn. Arnar, Belanyi og Sigmar Þröstur áttu allir stórleik en allir leikmenn liðsins léku skínandi vel. Sérstaklega var varnarleikurinn sterkur og sóknin er öll að koma til. Eftir slakt gengi í undanförnum leikjum tóku strákarnir sig verulega á og sýndu og sönnuðu að á góðum degi er ÍBV eitt besta lið landsins. Eftir sigurinn á KA var ÍBV með 24 stig í 4. sæti, aðeins 3 stigum á eftir KA sem er í 3. sæti og einn leik til góða, gegn Haukum. Mörk ÍBV: Zoltan Belanyi 9/3, Arnar Pétursson 6, Gunnar Berg Viktorsson 3, Daði Pálsson 2, Erlingur Richardsson 2, Svavar Vignisson 2, Guðfinnur Kristmannsson 1, Sigurður Friðriksson l. Sigmar Þröstur varði 15 skot.

Heimspeki- og sálfræðineminn og knattspyrnumaðurinn Ívar Bjarklind

Blaðið Fréttir birti viðtal við Ívar Bjarklind í febrúarmánuði, eftir að hann ákvað að leika áfram með knattspyrnuliði ÍBV. Hann verður að teljast óvenjulegur knattspyrnumaður að því leyti að hann leggur stund á nám í heimspeki og sálarfræði við Háskóla Íslands, en slíkt telst til undantekninga hjá 1. deildarleikmönnum. Blaðamaður Frétta tók hús á Ívari þar sem hann var við nám sitt í Háskólanum, nánar tiltekið í Odda, og spurðu hann fyrst um æskuslóðirnar. „Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri og lít á mig sem Akureyring. Ég var í KA og lék með þeim í gegnum alla yngri flokka upp í meistaraflokk. Tvö undanfarin sumur hef ég svo verið búsettur í Vestmannaeyjum og leikið með liði ÍBV. Samskiptin við Eyjamenn hafa verið mjög góð og þetta er afbragðsfólk sem hefur verið mjög gaman að kynnast." Aðspurður um muninn á samfélögunum á Akureyri og í Vestmannaeyjum segir Ívar: „Hvað snertir aðkomumenn þá eru samfélögin ekki ósvipuð. Þau eru ámóta gestrisin og vinsamleg aðkomufólki en þó á ólíkan hátt. Samfélag Eyjamanna litast auðvitað mjög af því að fólkið býr á lítilli eyju í nálægð fiskimiða þar sem mest allt atvinnulíf snýst um fiskveiðar og fiskvinnslu, og að sjálfsögðu knattspyrnu á sumrin. Því má segja að samfélagið kunni að virðast svolítið lokað án þess að vera óvinsamlegt. Akureyringar virðast á hinn bóginn svolítið góðir með sig og kannski framhleypnari, en eru samt vinsamlegir." Þegar talið best að knattspyrnunni og þeim persónuleikum sem hana iðka, segir Ívar. „í knattspyrnunni er fullt af skemmtilegum einstaklingum sem gaman er að umgangast en málið er að þeir hafa kannski ekki alveg sömu áhugamál og ég. Þess vegna koma stundir þegar maður bara hreinlega finnur sig ekki í andrúmslofti knattspyrnunnar. og þá reynir á að sýna ákveðið æðruleysi því að mennirnir eru auðvitað eins misjafnir og þeir eru margir. Ég hugsa því æ oftar um það hvort maður þurfi ekki að fara að taka sér frí frá knattspyrnuamstri og sinna öðrum hugðarefnum sem setið hafa á hakanum." Oft hefur sá orðrómur heyrst meðal svokallaðra „antísportísta" að knattspyrna og andlegir burðir geti ekki farið saman. Ívar vill síður ræða þau mál af einhverri alvöru en segir að það megi þó alveg viðurkennast að það gæti leynst sannleikskorn í þeim orðrómi. „Knattspyrnumenn er samt ekki hægt að setja alla undir sama hatt og það er hæpið að kalla þá á einu bretti óvitræna. Og þó að lítið fari fyrir knattspyrnumönnum í þessu námi þá segir það lítið um gáfnafar þeirra en kannski meira um áhugasvið."

Ívar er á fyrsta ári í Háskólanum og telur að hann hafi fundið sig vel í sálarfræði og heimspeki en hefur enn ekki gert upp við sig hvora greinina hann muni leggja aðaláherslu á. En hvað er það sem heillar hann mest í fræðunum? „Það er mjög spennandi að „stúdera" manneskjuna og í því sambandi hefur siðfræðin heillað mig." En koma fræðin eitthvað að gagni í knattspyrnunni? „Það er helst að maður leggi sitt af mörkum til betri siðmenningar knattspyrnumanna sem stundum er ekki ýkja rishá. En það má einnig velta því fyrir sér hvort það yrði knattspyrnunni til góðs ef fleiri knattspyrnumenn myndu leggja stund á siðfræði eða hvort knattspyrnan myndi ekki bara missa eitthvað mikilvægt í staðinn."

Lá við að þakið færi af Höllinni

Karlalið ÍBV í handbolta fór mikinn þessa fyrstu daga marsmánaðar. Eftir að hafa rasskellt KA endurtóku þeir leikinn gegn Haukum nokkrum dögum síðar, burstuðu þá 28-19. „Nú er hið unga og efnilega Eyjalið loksins tekið alvarlega“ sögðu Fréttir eftir leikinn. Haukar létu dómgæsluna fara mjög í taugarnar á sér og fengu þrír þeirra rauð spjöld, Baumruk fyrir brot í lok fyrri hálfleiks og svo Aron eftir 45 mín. fyrir tuð og Einar í lokin. Það lá við að þakið færi af höllinni af hrifningu þegar Baumruk var vísað af velli en það virtist hafa verið eitt af markmiðum ÍBV að koma honum útaf í leiknum. Og þegar Aron fauk einnig af velli hrundi leikur Hauka eins og spilaborg. Mörk ÍBV: Zoltan Belanyi 12/7, Svavar Vignisson 5, Gunnar Berg Viktorsson 3, Erlingur Richardsson 3, Arnar Pétursson 2, Guðfinnur Kristmannsson 1, Daði Pálsson 1, Emil Andersen 1. Varin skot: Sigmar Þröstur Óskarsson 17/1. Birkir Ívar Guðmundsson 1.

Alvarlegt umferðarslys - mildi að ekki fór verr

Átta handboltastúlkur úr ÍBV og tvær konur, þjálfari þeirra og fararstjóri lentu í alvarlegu umferðarslysi í byrjun mars, þegar bíll sem þær voru í lenti í hörðum árekstri. Allar voru fluttar á slysadeild. Engin þeirra slasaðist alvarlega en tvær sködduðust í andliti og aðrar hlutu mar og minniháttar skrámur. Í hinum bílnum voru Bandaríkjamenn af Keflavíkurflugvelli og slösuðust þeir mun meira. Hvorugur bíllinn valt en báðir bílarnir eru mikið skemmdir og brotnuðu allar rúður í bíl Bandaríkjamannanna. Stúlkurnar, sem voru í 3. flokki ÍBV í handboltanum og á aldrinum 15 til 17 ára, voru að koma úr Herjólfi í keppnisferðalag þegar slysið varð. Það átti sér stað á Suðurlandsvegi við afleggjarann að Bláfjöllum. Í forsíðufrétt Frétta þann 20. mars segir: „Það er ekki ljóst hver aðdragandinn var því enn á eftir að taka skýrslur af fólki en báðir bílarnir lentu utan vegar. Samtals voru 15 manns í bílunum og voru allir fluttir á slysadeild," sagði lögreglumaður í Kópavogi en slysið varð í umdæmi Kópavogslögreglunnar. Fjórir sjúkrabílar komu á vettvang og fluttu þá slösuðu af slysstað en þeir sem minnst voru slasaðir fóru með lögreglubíl. „Aðstæður voru slæmar og einhver hálka á veginum. Báðir bílarnir eru illa farnir. Ég veit ekki hversu alvarleg meiðsli fólksins eru en tel að það hafi sloppið vel miðað við aðstæður," sagði lögreglumaðurinn. Unnur Sigmarsdóttir, þjálfari stelpnanna ók bílnum sem var 14 manna Econoliner sendibifreið. Hún segir engu líkara en að einhver hafi haldið verndarhendi yfir þeim. „Ég var búin að keyra austur þannig að ég vissi hvernig aðstæður voru. Það voru hryggir á veginum en autt í hjólförunum. Ég var nýbúin að hægja á bílnum. Hvers vegna veit ég ekki og var ég ekki á meira en 50 km hraða þegar ég sá hinn bílinn hendast yfir á okkar vegarhelming. Mér tókst að bremsa en hafði um fátt að velja. Fannst mér skárra að lenda í árekstri en að keyra út af," sagði Unnur um aðdraganda slyssins. Hún segist þakka Guði að ekki fór ver. „Það var eins og einhver héldi verndarhendi sinni yfir okkur. Það sem bjargaði okkur var að flestar vorum við í beltum og við vorum á sterkum og góðum bíl. Ég fór strax að huga að stelpunum sem allar voru með eymsli í hálsi og marðar en enginn þeirra var alvarlega slösuð. Fólkið í hinum bílnum fór miklu ver út úr slysinu. Kona var brotin á þremur hryggjarliðum en hún hentist út um afturgluggann, aðrir voru illa skornir og í einum brotnuðu sjö tennur." Unnur segir þetta hrikalega lífsreynslu og fann hún til mikillar ábyrgðartilfinningar gagnvart stelpunum. „Þegar maður er að þjálfa stelpur á þessum aldri verður maður líka að vera einskonar mamma. Þær voru allar í losti og þurfti ég og Arnheiður Pálsdóttir fararstjóri að hugga þær. Fljótlega komu Gunnar Sigurðsson og Ingi Sigurðsson úr ÍBV á staðinn og var mikill styrkur af þeim. Þegar við komum á Sjúkrahús Reykjavíkur fengum við áfallahjálp sem var mikils virði." Strax voru gerðar ráðstafanir til að koma stelpunum heim til Eyja og flaug Valur Andersen eftir þeim strax á laugardaginn. „Það var nauðsynlegt að koma þeim heim til mömmu því þær þurftu svo sannarlega á móðurumhyggju að halda eftir þessa lífsreynslu. Það var ekki fyrr en um kvöldið að maður áttaði sig á hve umfangsmikið slysið var. Þó maður keyri varlega sjálfur er það ekki nóg. Það sýndi sig þarna en ég tel að ég hafi gert allt rétt miðað við aðstæður," sagði Unnur að lokum.

Grátlegur endir á stórskemmtilegum vetri

„Ég er hundsvekktur. Við áttum að klára þetta þegar við náðum tveggja marka forystu, við fengum tækifæri til þess," sagði Þorbergur Aðalsteinsson, þjálfari ÍBV í viðtali við Fréttir, eftir tap ÍBV fyrir Fram í oddaleik liðanna í fjórðungsúrslitum í Eyjum, 23-25 í framlengdum leik. Íþróttafréttamaður Frétta lýsti leiknum þannig: Óhætt er að segja að þetta hafi verið grátlegur endir á skemmtilegum vetri. ÍBV hefur leikið ljómandi vel á köflum í vetur og Þorbergur, sem hefur byggt upp alveg nýtt lið á tveimur árum, hefur gert góða hluti með liðið. Að ná 4. sæti í deildarkeppninni er frábær árangur með svona ungt og óreynt lið. En því er ekki að neita að vonbrigðin eru mikil að ná ekki að klára oddaleikinn gegn Fram hér í Eyjum og komast í undanúrslit. Frábær varnarleikur og markvarsla einkenndi oddaleik liðanna. Sigmar Þröstur varði 10 skot í fyrri hálfleik en 8 í seinni hálfleik og framlengingu. Reynir Þór hjá Fram varði 5 skot í fyrri hálfleik en 14 skot í seinni hálfleik og framlengingu, og flest úr dauðafærum. Lagði hann öðrum fremur grunninn að sigri Fram. Framarar náðu mest 2ja marka forystu í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var 10-11. ÍBV jafnaði metin 13-13 og náði 2ja marka forystu, 18- 16 og 19-17. Á þessum kafla fékk ÍBV gullin tækifæri til að gera út um leikinn en tókst ekki að nýta það. ÍBV átti svo síðustu sókn leiksins en Reynir varði skot Gunnars Berg. Staðan jöfn 20-20 og því þurfti að grípa til framlengingar. Framarar höfðu þar frumkvæðið, höfðu yfir í hálfleik framlengingarinnar 21-22 og komust svo í 21-23 og þar með var björninn unninn því Fram vann leikinn 23-25. Eyjamaðurinn í Fram, Magnús A. Arngrímsson, sem hafði verið slakur, tók af skarið í framlengingunni og gerði út um leikinn með tveimur góðum mörkum. Markverðirnir voru bestu menn liðanna. Vörn ÍBV var mjög góð en sóknin brást að þessu sinni eins og reyndar í undanförnum leikjum. Lykilmenn ÍBV eru ungir og óreyndir, það kom í ljós í þessum leik. Leikstjórnandinn Arnar Pétursson náði sér aldrei á strik í sókninni og var ragur við að taka af skarið. Gunnar Berg átti ágæta spretti en hafði ekki leikreynsluna til að klára dæmið. Þeir treystu báðir mikið á Belánýi sem átti góðan leik en hann gat auðvitað ekki klárað sóknirnar upp á eigin spýtur fyrir ÍBV. Guðfinnur átti góða spretti en gerði á milli slæm mistök, sendi t.d. boltann tvær sóknir í röð í hendur Framara sem brunuðu upp og skoruðu. Svavar fékk sig hvergi hrært og Sigurður hafði úr litlu að moða í horninu en nýtti færin sín mjög vel þegar þau gáfust. „Ég er rosalega stoltur af strákunum. Þeir eru hetjur í mínum augum. Að koma hingað til Eyja og klára dæmið er frábær árangur. Ég vil þakka Eyjamönnum fyrir drengilega keppni í þessum þremur leikjum. Þetta er tvö svipuð lið en við lékum meira sem lið í kvöld og uppskárum samkvæmt því," sagði Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Fram.

Mörk ÍBV; Zoltan Belánýi 10/4, Gunnar Berg Viktorsson 5, Guðfinnur Kristmannsson 4, Sigurður Friðriksson 2, Svavar Vignisson 1, Erlingur Richardsson 1. Varin skot: Sigmar Þröstur Óskarsson 18/2.

Árangur karlaliðs ÍBV kom Þorbirni Jenssyni landsliðsþjálfara ekki á óvart

Þorbjörn Jensson landsliðsþjálfari handbolta, sagðist hafa í sjálfu sér búist við ÍBV í 4. til 5. sæti deildarinnar. Þess vegna hafi hinn góði árangur liðsins ekki komið á óvart. „ÍBV sýndi með því að sigra á Reykjavík Open í haust að liðið væri til alls líklegt. Þeir hefa verið með þessa ungu leikmenn á uppleið. Hvað úrslitakeppnina varðar hefði ÍBV hæglega getað komist í undanúrslit. Fram og ÍBV eru tvö mjög svipuð lið. Oft er það heppni sem ræður úrslitum í úrslitakeppninni. En framtíðin er ÍBV. Þarna er nægur efniviður sem Eyjamenn verða að hlúa vel að til að gera þeim kleift að halda hópinn," sagði Þorbjörn í samtali við Fréttir. Aðspurður hvort Gunnar Berg Viktorsson, stórskytta ÍBV, væri enn inni í myndinni fyrir heimsmeistarakeppnina í Japan, sagði Þorbjörn svo vera.

Þorbergur endurráðinn

Að lokinni handboltavertíðinni hjá karlaliðinu var skrifað undir samning við Þorberg Aðalsteinsson um þjálfa liðið aftur næsta vetur, þriðja árið í röð. Þorbergur segir í viðtali í Fréttum að það hafi ekki síst vegið þungt á metunum við ákvörðunina að hann er í mjög spennandi starfi í Eyjum sem markaðsfulltrúi Vinnslustöðvarinnar. Að sögn Þorbergs er vonast til þess að ÍBV liðið verði lítið óbreytt næsta vetur. Reyndar hefur Gunnar Berg Viktorsson landsliðsmaður ákveðið að fara í nám til Reykjavíkur og mun væntanlega ganga til liðs við annað lið. „Reynt verður að styrkja liðið enn frekar með nýjum leikmönnum. Það er allt opið í þessu, þetta má ekki verða lakara en í vetur. Annars væri verkefnið ekki áhugavert. Ég vil sjá svipað og helst sterkara lið," segir Þorbergur sem ætlar að leggja alla áherslu á að fá öfluga útiskyttu ef Gunnars Bergs nýtur ekki við.

Fyrsta þjóðhátíðarnefndin

Á stjórnarfundi ÍBV íþróttafélags 3. apríl, var fyrsta þjóðhátíðarnefnd félagsins skipuð. Í henni voru: Birgir Guðjónsson, formaður og með honum; Stefán Agnarsson, Björn Þorgrímsson og Sigurður Þórarinsson.

Frábær æfingaferð mfl. kvenna í knattspyrnu

Meistaraflokkur kvenna fór í viku æfingaferð rétt fyrir páskana til Albufeira í Portúgal. Í hópnum voru 20 stúlkur og svo tveir þjálfarar. Að sögn Sigurlásar Þorleifssonar, þjálfara, var þetta frábær ferð og allur aðbúnaður eins og best varð á kosið. „Ég er nú búinn að fara margar æfingaferðir til útlanda," sagði Sigurlás. „En þetta er það flottasta sem ég hef séð. 1. flokks hótel, vellimir afburðagóðir og svo sól og blíða allan tímann. Að vísu kom leiðindaatvik upp á fyrsta daginn þegar nokkrar stelpumar voru rændar en hópurinn var fljótur að jafna sig á því. Auk æfinga keppti liðið tvo leiki ytra, gegn rússnesku liði sem heitir því skemmtilega nafni Energy. „Og þær stóðu svo sannarlega undir nafni," sagði Sigurlás. „Við áttum lítið í þær að gera enda eru þær rússneskir meistarar og í liðinu eru einar sex eða sjö landsliðsstúlkur. Þetta lið var búið að vera þarna í mánuð í æfingabúðum, enda eru þarna atvinnumenn á ferð. Fyrri leiknum töpuðum við 9-0 og þeim seinni 8-0. Þrátt fyrir þessar tölur voru margir ljósir punktar í því sem okkar stelpur voru að gera og þær gáfust ekki upp.“ Ein stúlkan í ÍBV liðinu, Guðbjörg Guðmannsdóttir, vakti mikla athygli Rússanna og sýndu þeir mikinn áhuga á að fá hana í sínar herbúðir," sagði Sigurlás. Að sögn Sigurlásar var þessi ferð liður í undirbúningi fyrir sumarið, svona til að þjappa hópnum saman. „Það hefur ósköp lítið verið gert fyrir kvennafótboltann í Eyjum fram til þessa," sagði Sigurlás. „Þessi ferð er vonandi upphafið að einhverju meira og betra. Fái þær einhverja slíka umbun erfiðis síns þá eru meiri líkur á því að þær haldi lengur áfram." Sigurlás sagði erfitt að segja nokkuð um komandi sumar og keppni fyrr en æfingaleikirnir hæfust. „En stelpurnar eru bæði sterkari og betur undirbúnar en í fyrra svo að ég held að okkur hljóti að ganga betur. Hópurinn mætti aftur á móti vera sterkari. En við setjum stefnuna upp á við í sumar," sagði Sigurlás að lokum. Þessi frétt birtist í blaðinu Fréttum.

Þrír ungir leikmenn valdir í U-21 í knattspyrnu

Þrír leikmenn ÍBV eru í íslenska landsliðinu skipað leikmönnum U- 21 árs sem mætti Lúxemborg í vináttulandsleik 16. apríl. Þeir eru Gunnar Sigurðsson, Guðni Rúnar Helgason og Bjarnólfur Lárusson. Auk þess er Vestmannaeyingurinn Sigurvin Ólafsson í landsliðinu en hann hefur verið fyrirliði liðsins. Þjálfari er Atli Eðvaldsson, fyrrum þjálfari ÍBV.

Hermann eftirsóttur

Fyrr í vetur hafnaði Hermann Hreiðarsson tilboði frá enska félaginu Crystal Palace um að gerast leikmaður þess en samdi þess í stað við ÍBV um að leika með því út árið 1998. En nú hefur enska stórfélagið Arsenal bæst í flóru fjölmargra félaga í Skotlandi, Sviss, Þýskalandi, Englandi, Noregi og Svíþjóð sem er á höttunum eftir varnarmanninum sterka. Fulltrúi Arsenal hafði samband við Jóhannes Ólafsson, formann knattspyrnuráðs IBV, og spurðist fyrir um samningsstöðu Hermanns og vildi helst fá hann strax út til þess að skoða hann nánar. Af því getur ekki orðið þar sem Hermann á við smávægileg meiðsli að stríða auk þess sem stutt er í Íslandsmótið. Hermann er orðinn mjög eftirsóttur og liggur ljóst fyrir að hann fer í atvinnumennsku næsta haust ef rétt verð fæst fyrir hann, að sögn Jóhannesar. Er því um sannkallaðan gullkálf að ræða fyrir ÍBV. Í viðtali Frétta við Jóhannes segir hann: „Ég hef grun um að njósnari hafi verið frá Arsenal á Kýpurmótinu og fylgst með Hermanni. Ég skýrði fulltrúa Arsenal frá því að Hermann væri eftirsóttur en væri samningsbundinn ÍBV til haustsins 1998. Hins vegar væri Hermann til sölu næsta haust ef rétt verð fengist fyrir hann. Hann bað okkur að leyfa þeim að fylgjast með Hermanni og ætla þeir að senda njósnara hingað til lands til að fylgjast með honum, jafnvel fyrir Íslandsmótið, og ef hann spilar með landsliðinu"

Þjálfarar ráðnir fyrir yngra flokkanna í knattspyrnu

Á vordögum var gengið frá ráðningu þjálfara fyrir yngri flokkana. Mun Elías Friðriksson þjálfa 2. flokk ÍBV sem leikur í B-riðli. Kári Þorleifsson þjálfar 3. flokk. Sigurlás Þorleifsson þjálfar 4. og 5. flokk. Björn Elíasson og Jón Ólafur Daníelsson þjálfa 6. og 7. flokk. Eftir er að ganga frá ráðningu þjálfara hjá stelpunum.

Dyggur stuðningsmaður

Í Fréttum í apríl er auglýst til sölu sumarbústaðarlóð í Grímsnesinu sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ÍBVfélagar geta fengið lóðina á sérstökum kjörum. Seljandinn, Þorsteinn Berent Sigurðsson, er gamall Eyjamaður og er hann giftur Ingu frá Kirkjubæ, sem segir að hann sé veikur í viku þegar ÍBV tapar. Þetta eitt ætti að sýna góðan hug til ÍBV en hann vill gera betur. Hann auglýsir lóðina á 700 þúsund gegn staðgreiðslu, en á 650 þúsund til ÍBV félaga og renna 50 þúsund af þeirri upphæð til ÍBV.

Skrautfjaðrir týnast úr handboltaliðinu

Töluverðar hræringar eiga sér stað hjá handboltaliði ÍBV. Arnar Pétursson mun ekki spila með ÍBV næsta vetur en áður hefur komið fram að Gunnar Berg Viktorsson er einnig á leiðinni í annað lið. Jafnvel er von á því að fleiri leikmenn hugsi sér til brottfarar. Handknattleiksráð er svo í viðræðum við nokkra leikmenn í öðrum liðum, þ.á.m. tvo Eyjamenn. Gunnar Berg Viktorsson ætlar í nám í Reykjavík og mun spila með öðru liði. Arnar Pétursson staðfesti í samtali við Fréttir að hann ætlar í nám næsta vetur í Reykjavík. „Ég mun ekki spila með ÍBV næsta vetur. Því miður er ekkert háskólanám í boði í Eyjum og þyí mun ég spila með öðru liði. Ég treysti mér ekki til að vera í ströngu námi og spila einnig með ÍBV. Það gengur einfaldlega ekki upp," sagði Arnar og bætti því við að nokkur 1. deildarlið hefðu haft samband við sig. Hinir ungu og efnilegu strákar, Birkir Ívar Guðmundsson, Ingólfur Jóhannesson og Daði Pálsson, stefna einnig að námi í Reykjavík.

Vilja gera Belánýi að Íslendingi

Handknattleiksráð vinnur að því öllum árum að fá íslenskan ríkisborgararétt fyrir Zoltan Belánýi. Eru taldar meiri líkur á því en áður að það muni takast. Umsóknir um slíkt eru teknar fyrir tvisvar á ári og lagt fyrir Alþingi. Skilyrði til þess að fá íslenskan ríkisborgarétt er að hafa búið hér á landi í sjö ár og er Belánýi alveg á mörkunum að ná því. Ástæðan fyrir því að handknattleiksráð ÍBV leggur svona mikið upp úr þessu er til þess að fá liðsauka frá útlöndum næsta vetur en þrátt fyrir Bosmandóminn er eingöngu leyfilegt að vera með einn útlending í hverju handboltaliði á Íslandi.

ÍBV-liðið gert út frá Reykjavík?

Ásmundur Friðriksson, formaður Íþróttabandalagsins, kom fram með þá nýstárlegu hugmynd á lokahófi handknattleiksliðs ÍBV, að gera handboltalið ÍBV út frá Reykjavík næsta vetur. Er þetta sett fram í ljósi þess að hluti ÍBV liðsins hyggur á nám í Reykjavík næsta vetur og gengur því til liðs við önnur lið að öllu óbreyttu. Nú þegar hafa Arnar Pétursson og Gunnar Berg Viktorsson ákveðið að fara í nám til Reykjavikur og margt bendir til þess að Ingólfur Jóhannesson, Birkir Ívar Guðmundsson, Daði Pálsson og jafnvel fleiri séu einnig á leiðinni suður. Ásmundur sagði að ekkert væri við því að gera að ungir menn færu í nám til Reykjavíkur. Því miður væri ekki háskólanám í Eyjum og þetta skapaði stór vandamál fyrir handboltalið ÍBV, sem þyrfti að sjá á eftir sínum bestu leikmönnum í nokkur ár. Ásmundur velti upp þeirri hugmynd hvort ekki væri hægt að gera ÍBV liðið út frá Reykjavík næsta vetur. Kjarninn yrði í Reykjavík en hluti hópsins í Eyjum. „Þetta er kannski út í hött en af hverju ekki," sagði Ásmundur og vitnaði til þess að tveir leikmenn ÍBV, Svavar Vignisson og Erlingur Richardsson, voru við nám á Laugarvatni í vetur en lögðu það á sig að spila með ÍBV.

Guðfinnur leikmaður ársins

Guðfinnur Kristmannsson var valinn leikmaður ársins hjá handboltaliði ÍBV íþróttafélags á lokahófi sem haldið var á Höfðanum í lok apríl. Ingólfur Jóhannesson fékk FRÉTTA-bikarinn sem efnilegasti leikmaðurinn, Arnar Pétursson fékk framfarabikarinn og Zoltan Belánýi var markahæsti leikmaður liðsins. Að venju var mikið um dýrðir á lokahófi ÍBV. Magnús Bragason, formaður handknattleiksráðs ÍBV, lýsti yfir mikilli ánægju með árangurinn í vetur og fagnaði endurráðningu Þorbergs Aðalsteinssonar. Magnús sagði að handboltinn væri ekki lengur svarti sauðurinn í íþróttahreyfingunni hvað varðaði reksturinn. Handboltaráð ÍBV skilaði deildinni réttu megin við núllið í ár og þakkaði hann það áræðni gjaldkerans, Eyþórs Harðarsonar. Hann sagði að veturinn sem leið væri besti árangur ÍBV í deildarkeppninni frá upphafi og þakkaði það þjálfara liðsins. Hins vegar vegar bæri skugga á að leikmenn sem ÍBV hefði alið upp, væru að yfirgefa liðið sökum náms en við því væri ekkert hægt að segja. Guðjón Hjörleifsson flutti lokahófsgestum kveðju bæjarstjórnar og Ásmundur Friðriksson aðalstjórnar Íþróttabandalagsins. Jóhann Pétursson veislustjóri flutti minni leikmanna og fór mikinn. Nokkur dansatriði voru með nemendum úr dansskóla Önnu Svölu. Ung pör sýndu Cha cha cha og nokkrar konur á besta aldri ásamt Jóa Ragg sýndu kántrýdansa við góðar undirtektir og nutu fulltingis nokkurra góðra manna, þ.á.m. þjálfara ÍBV. Þá flutti ungt fólk dansatriði úr Stone Free. Helstu styrktaraðilar ÍBV voru heiðraðir og tveir ungir leikmenn, Sigurður Bragason og Jóhann Freyr Friðsteinsson, sýndu vídeómynd sem sló í gegn. Þar tóku þeir fyrir eldri félaga sína í ÍBV, aðallega þá sem kenndir eru við Fagurlyst. (Fréttir greindu frá)

ÍBV deildarmeistari

ÍBV vann verðskuldaðan sigur á Valsmönnum í úrslitaleik deildarbikarkeppninnar í knattspyrnu á Valbjarnarvellinum, 3-2 í framlengdum leik þar sem Tryggvi Guðmundsson skoraði sigurmarkið á síðustu mínútu leiksins með glæsilegu skoti. Leikurinn var hinn fjörugasti en þegar upp var staðið voru Eyjamenn sterkara liðið.

Þvílík byrjun

Íslands- og bikarmeistarar ÍA voru rasskelltir í 1. umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu, 3-1. „En nota bene, það er langt í frá að ÍBV sé orðið Íslandsmeistari eins og sumir bæjarbúar virðast halda“, skrifaði íþróttafréttamaður Frétta í blaðið sitt. „Ekki verður af drengjunum okkar skafið, þeir léku mjög vel og koma mjög vel undirbúnir til leiks. Líklega er þetta besta lið ÍBV í áraraðir. Nýir leikmenn fylla vel upp í skörðin og liðið leikur sem ein heild. Á toppinn í sumar. Liðið er sterkara en undanfarin ár og andstæðingarnir slakari ef marka má fyrstu umferðina. Nú reynir á þjálfara liðsins að halda drengjunum niðri á jörðinni“.

Tryggvi biðst afsökunar

Tryggvi Guðmundsson, framherji ÍBV, sendi fjölmiðlum fréttatilkynningu eftir leikinn við ÍA, þar sem hann baðst afsökunar á óíþróttamannslegri framkomu sinni þegar hann fiskaði vítaspyrnu gegn ÍA í 1. umferð. Á sjónvarpsmyndum sést greinilega að Tryggvi lét sig detta og fór hann því á svartan lista hjá dómurum. Enda kom það í ljós gegn Fram að einhvern tímann hefði verið flautuð vítaspyrna, þegar Tryggvi var felldur innan vítateigs í síðari hálfleik. En dómarinn lét leikinn halda áfram, minnugur leikarahæfileika Tryggva. vítaspyrnudóminum

Stjörnuhrap í Eyjum

Miklar væntingar voru bundnar liði Eyjamanna fyrir sumarið. Sannfærandi sigur á Skagamönnum í fyrsta leik, jafntefli við Fram í 2. umferð og 5 – 0 sigur á Stjörnunni á Hásteinsvelli í 3. umferð. Menn spurðu hvern annan. Verða Eyjamenn stjörnur sumarsins? Fréttir sögðu frá því að líklega hefði 8-0 sigur ÍBV gefið réttari mynd af gangi leiksins. Hópurinn væri greinlega vel samstillur og breiddin eins og þarf til að vera í toppslag.

Engin offside í 5. flokki

Í síðasta heimaleik ÍBV hafði Sigmar nokkur Pálmason, einn Hólsara, uppi stór orð um dómara leiksins. Hafði dómarinn í tvígang dæmt leikmann ÍBV rangstæðan. Kallaði Sigmar þá til dómarans að þetta hefði ekki verið „offside" (rangstæða) fyrir fimm aura. Það hefði ekki einu sinni verið dæmt „offside" á þetta í 5. flokki. Fyrir framan hólinn stóð þá ungur piltur, leikmaður í 5. flokki. Hann snéri sér við, leit með fyrirlitningarsvip á Sigmar og sagði: „Heyrðu manni, það er engin „offside" i 5. flokki." Ekki heyrðist í Sigmari lengi á eftir.

2. flokkur byrjar vel

2. flokkur ÍBV byrjaði keppnistímabilið með glans. ÍBV leikur í B-riðli (2. deild) og hefur sett stefnuna upp í A-riðil. ÍBV burstaði Grindavík í Eyjum um helgina 5-0. Ólafur Guðmundsson skoraði 2 mörk og Bjarni Geir Viðarsson (víti), Bjöm Jakobsson og Þorsteinn Þorsteinsson sitt markið hver.

KÁ helsti styrktaraðili kvennaknattspyrnunnar

Í síðustu viku undirrituðu Jóhannes Ólafsson formaður knattspyrnudeildar ÍBV og Þorsteinn Pálsson framkvæmdastjóri KA undir samning um að Kaupfélagið verði aðalstyrktaraðili kvennaknattspyrnunnar í Vestmannaeyjum í ár og næsta ár. Samningurinn kveður á um ákveðinn fjárstyrk og nær til allra leikmanna meistaraflokks og allra yngri flokkanna. Munu stúlkumar spila í búningum merktum KÁ á brjósti.

Eyjamenn í landsliðum

Hermann Hreiðarsson var valinn í íslenska A-landsliðshópinn gegn Makedóníu í Evrópukeppninni. Hermann missti af síðasta landsleik vegna meiðsla en er nú til í slaginn. Þá eru fjórir Eyjaleikmenn í U-21 árs landsliðinu sem einnig mætir Makedóníu í Evrópukeppninni í þeim aldursflokki. Það eru Gunnar Sigurðsson, Sigurvin Ólafsson, Bjarnólfur Lárusson og Guðni Rúnar Helgason.

Ágætt gengi yngri flokkanna

2. flokkur ÍBV karla, tapaði fyrir Víkingi í Íslandsmótinu í miklum baráttuleik, 1-2. Víkingur náði forystu í fyrri hálfleik en Ólafur Guðmundsson jafnaði metin fyrir ÍBV í upphafi seinni hálfleiks. Víkingar tóku miðju og skoruðu strax annað markið. Eyjamenn sóttu stíft eftir það án þess að skapa sér góð færi. Næsti leikur 2. flokks ÍBV var gegn Þrótti í Reykjavík sem endaði með jafntefli, 0-0. 2. fl. ÍBV, sem er í B-riðli (2. deild), er nú rneð 4 stig eftir 3 leiki 4. flokkur ÍBV drengja lék gegn Val og vann 4-2. Valsarar komust í 2-0 eftir tíu mín- útur en þá var gerð breyting á liðsuppstillingu IBV. Þá tóku Eyjastrákar öll völd á vellinum og unnu öruggan sigur. Hörður Orri skoraði 2 og Sæþór Jóhannesson og Bjarni R. Einarsson eitt mark hvor. 4. flokkur ÍBV lék svo gegn Víkingi. Leiknum lyktaði með jafntefli, 1-1. Ívar Leifsson skoraði mark ÍBV. 3. flokkur ÍBV drengja lék gegn Fjölni og fór leikurinn 1-1. Olgeir Sigurgeirsson skoraði mark ÍBV. 3. flokkur kv. ÍBV lék í Kópavogi gegn Breiðabliki og tapaði 1-2. Aldís Grímsdóttir skoraði mark ÍBV. 6. flokkur ÍBV tók þátt í Legómótinu í Hafnarfirði og stóð sig ágætlega. A-lið ÍBV vann 1 leik, gerði 1 jafntefli og tapaði 2. B-lið ÍBV tapaði 2 og gerði 2 jafntefli. C-liðið vann 3 leiki og gerði 1 jafntefli og D-liðið gerði 4 jafntefli.

Erfið samskipti

Það var flestum ljóst á upphafsárum ÍBV íþróttafélags, að samskipti milli handknattleiksdeildar og knattspyrnudeildar voru stirð. Það var á stjórnarfundi félagsins 6. maí sem þessi samskiptavandi kom til umræðu. Í bókun segir að kominn sé tími til að fólk átti sig á því, að það væri í einu og sama félagi. Gat formaðurinn þess að innan tíðar yrði boðað til fundar með öllum þessum aðilum og breyttra vinnubragða óskað.

Kvennadeildin og knattspyrnumótin

Stjórn kvennadeildarinnar mætti á stjórnarfund 27. maí og lagði fram hugmyndir sínar um framlag deildarinnar til Pepsí-mótsins og Shell-mótsins. Mun deildin sjá um allan morgunmat á mótunum, rekstur sjoppu og sjá um fararstjóragleðskapinn á Pepsí-mótinu. Greiðsla til deildarinnar fái 750 þúsund krónur fyrir hvort mót, deildin fái allan ágóða af sjoppunni og gleðskapnum, jafnframt mun deildin greiða allan hráefniskostnað sem til fellur vegna þeirra þátta sem deildin sér um. Síðar mun kvennadeildin nota það fjármagn sem inn kemur til styrktar og stuðnings félaginu.

Fyrsta Pepsímót ÍBV íþróttafélags

Pepsímót ÍBV í knattspyrnu (hét áður Pepsí-Pæjumót Þórs), fyrir stúlkur frá 8 til 16 ára aldurs, hófst fimmtudaginn 12. júní. Sól og blíða var alla mótsdagana. Alls mættu 18 félög til leiks með 80 lið, samtals vel á níunda hundrað þátttakendur. Var giskað á að um 1300 manns hefðu komið til Eyja vegna mótsins. Keppni hófst kl. 9 og um kvöldið var formleg setningarathöfn á Þórsvellinum. Keppt var á Þórs-, Týs- og Hásteinsvelli. Eins og undanfarin ár var keppt í öllum yngri flokkum kvennaknattspyrnunnar, frá 6. flokki og upp í 2. flokk. Á laugardagskvöldið var kvöldvaka í íþróttamiðstöðinni þar sem töframaðurinn Pétur pókus fór á kostum. Hljómsveitin Skítamórall hélt svo uppi stuðinu langt frameftir kvöldi. Uppskera ÍBV var þrjú gull, tvö silfur og eitt brons. 6. flokkur lenti í 2. sæti; 5. flokkur A og B urðu í 1. sæti; 4. flokkur A í 1. sæti og 4. flokkur B í 2. sæti. Þá lenti 3. flokkur í 3. sæti. Framkvæmdastjóri mótsins var Magnús Sigurðsson, sem hafði stýrt mótinu meðan Íþróttafélagið Þór sá um það.

Tap fyrir Stjörnunni

Meistaraflokkur kvenna ÍBV í knattspyrnu tapaði fyrir Stjörnunni, 1-2, þegar liðin áttust við í Eyjum í endaðan júní. Í Fréttum er sagt að leikurinn hafi ekki verið upp á marga fiska, mest barningur á miðjunni og Eyjastelpur náðu aldrei upp spili. Stjarnan skoraði strax á 3. mínútu og kom markið eins og köld vatnsgusa framan í Eyjastelpur. En eftir að þær höfðu jafnað sig skoraði Fanný Yngvadóttir laglegt mark fyrir ÍBV, fékk boltann inni í teignum og lagði hann fyrir sig og þrumaði í netið. En Stjarnan náði aftur forystunni eftir klaufagang í vörn ÍBV. Stefanía Guðjónsdóttir átti hörkuskot sem markvörður Stjörnunnar varði í slána en staðan í hálfleik var 2-1. Í seinni hálfleik sóttu Eyjastúlkur grimmt án þess að skapa sér afgerandi færi.

......en sigur á ÍBA ÍBV stelpur unnu sinn fyrsta sigur í Stofndeildinni á þriðjudaginn með því að vinna ÍBA á Akureyri, 4-1. Fréttir segja á íþróttasíðu sinni að sigurinn hefði verið mjög mikilvægur því með honum losuðu stúlkurnar sig úr svaðinu þarna neðst niðri. „Eyjastúlkur byrjuðu vel en misstu taktinn um miðjan seinni hálfleik. ÍBA fékk tvö góð færi sem ekki nýttust og það var svo gegn gangi leiksins að Elena Einisdóttir skoraði fyrir ÍBV á 40. mínútu eftir glæsilegt einstaklingsframtak. Í hálfleik kom Dögg Lára Sigurgeirsdóttir inn á og kom heldur betur við sögu. Hún skoraði fljótlega tvö mörk. Íris Sæmundsdóttir átti skot á markið sem Dögg Lára fylgdi vel á eftir og skoraði. Þriðja markið var einstaklingsframtak. Dögg Lára skaut í boga í hornið fjær úr vítateignum, glæsilegt mark. Og Dögg Lára átti heiðurinn af fjórða markinu sem Elena skoraði. Dögg Lára og Elena skoruðu því tvö mörk hvor. Þær tvær áttu frábæran leik. Erna Þorleifsdóttir og Eva Sveinsdóttir léku einnig skínandi vel og Petra Bragadóttir var öryggið uppmálað í markinu.“

Jón Bragi þjálfar meistaraflokkinn

Um mitt sumar var gengið frá ráðningu Jóns Braga Arnarssonar sem þjálfari handboltaliðs ÍBV í kvennaflokki.

Ef við drekkum Jameson

Íþróttafréttaritari Frétta á þessum árum, Þorsteinn Gunnarsson skrifar oft fjörlega um íþróttakappleiki. Eftir tapleik ÍBV gegn KR skrifar hann um leikinn: „Öll munum við eftir ævintýrinu um smalann sem leiddist þófið og kallaði ÚLFUR, ÚLFUR. Allir ruku upp til handa og fóta en svo kom á daginn að enginn úlfur hafði ráðist á hjörðina. En svo þegar alvaran skall á tók enginn mark á drengnum og úlfurinn stráfelldi hjörðina. Þessi saga kom upp í hugann þegar úlfarnir í KR slátruðu Eyjahjörðinni í Eyjum á sunnudaginn og unnu sanngjarnan sigur, 1-2. Fyrir þennan leik hafði Eyjaliðið eitthvað verið að kvarta yfir andstæðingunum, að þeir spiluðu gróft, ÚLFUR ÚLFUR. Enginn tók eftir því. Svo þegar (KR)úlfurinn mætti í eigin búningi á svæðið og Eyjamenn sáu grófan og fólskulegan leik KR-inga var allt um seinan því Eyjaliðið var stráfellt. Svona væll hjá Eyjamönnum um grófan leik andstæðinganna er nýmæli hér um slóðir, yfirleitt hefur þessu verið öfugt farið. Þetta er áhyggjuefni. Ef Eyjaliðið bregst ekki við þessu og berst á móti sjáum við ekki fram á bjarta tíma í boltanum. Svo virðist sem lagið „Við drekkum Jameson" með Pöpunum sem spilað var fyrir leikinn til þess að gera grín að KR-ingum, þar sem þrír leikmenn liðsins voru í agabanni eftir að fengið sér neðan í því, hafi æst upp baráttuandann í þeim röndóttu. Bæði lið léku 4-3-3 aðferðina og kom harka KR í byrjun Eyjamönnum í opna skjöldu. Vörn ÍBV var ótrúlega taugatrekkt og eftir 29. mín. leik skoraði Hilmar Björnsson eftir klaufagang í vörninni. Sverrir, eini alvörujaxlinn í Eyjaliðinu, fór útaf meiddur eftir markið. Í byrjun seinni hálfleiks bætti Andri Sigþórsson öðru marki við fyrir KR og það var rothöggið. Skömmu síðar var einn KR-ingur rekinn útaf og þá þyngdist sókn ÍBV. Sigurvin Ólafsson tók þá öll völd á vellinum og fór á kostum. Hann var allt í öllu og mataði samherjana með fallegum sendingum. KR-ingar björguðu á línu frá Steingrími áður en Tryggvi minnkaði muninn fyrir ÍBV eftir skot Sigurvins í stöng frá vítateigslínunni. Eyjamenn fengu fleiri góð færi en markvörður KR var vandanum vaxinn.“

14. Shellmótið

Fjórtánda Shellmótið og það fyrsta í umsjá ÍBV íþróttafélags hófst 27. júní í sól og blíðu. Framarar báru sigur úr býtum hjá B-liðum, Stjarnan hjá C-liðum og Keflavík hjá D. Eyjaliðunum gekk ekki sem skildi. A-lið ÍBV lenti í 15.-16. sæti, B-lið ÍBV í 16. sæti og C-lið ÍBV í 10.-11. sæti. ÍBV átti einn fulltrúa í pressuliði mótsins, Finnboga Friðfinnsson (Finnbogasonar) en hann var markvörður liðsins. Á Shellmótum er venjan að velja besta leikmann Shellmótsins. Að þessu sinn i kom það í hlut Theódórs Elmars Bjarnasonar í KR.

Kærar þakkir

Að mótinu loknu þakkaði stjórn ÍBV íþróttafélags þeim fjölda fólks sem lagði sitt að mörkum við undirbúning og framkvæmd mótsins. „Það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni að nýverið voru haldin árviss knattspyrnumót hér í Eyjum, Pepsímótið og Shellmótið. Vel á þriðja þúsund manns heimsóttu okkur vegna þessara viðburða og gekk allt eins og í sögu. Við öðru var vart að búast þar sem hundruð sjálfboðaliða lögðu sitt af mörkum til að framkvæmdin yrði sem best og okkur til sóma. Án þessa mikla og fórnfúsa starfs væri borin von að halda mót sem þessi. Sérstaklega var ánægjulegt, þar sem nýtt félag stóð fyrir mótunum, að sjá allt það fólk sem starfað hafði áður að mótunum í sitt hvoru lagi, renna saman í eina heild og starfa hlið við hlið, við bæði mótin eins og það hafi aldrei gert annað. Öllu þessu fólki og öðrum þeim sem á einn eða annan hátt lögðu okkur lið við að gera framkvæmd mótanna mögulega, þökkum við af alhug. Það er erfitt að taka einhverja út úr, hvort heldur þá sem komu beint að framkvæmdinni eða þá sem komu að flutningum eða annarri þjónustu við mótsgesti. Öllu þessu góða fólki ber að þakka. Ákveðið hefur verið að slá upp smá slútti vegna mótanna og munum við grilla inni við Þórsheimili föstudagskvöldið 11. júlí kl. 20.“

Skeljungur aðalstyrktaraðili Shellmótsins

Í upphafi Shellmótsins í knattspyrnu, undirrituðu Kristinn Björnsson forstjóri Skeljungs og Þór Í Vilhjálmsson formaður ÍBV, nýjan samstarfssamning, þess efnis að Skeljungur verði aðalstyrktaraðili Shellmótsins fram að næstu aldamótum.

Stelpurnar töpuðu en strákarnir gerðu jafntefli

ÍBV stelpur sóttu ekki gull í greipar Haukastúlkna þegar þær áttust við í Stofndeildinni í knattspyrnu, efstu deild. Haukar, sem voru án stiga fyrir leikinn sigruðu 3-1. ÍBV stúlkurnar sóttu án afláts í leiknum en nýttu færin sín herfilega illa. Þessa sömu helgi lék karlalið ÍBV við Keflvíkinga í Keflavík og uppskáru jafntefli 1-1. „Þetta var grátlegt helvíti að vinna ekki leikinn. Það var klassamunur á liðunum í þessum leik. Við vorum miklu betra. Með því að gera jafntefli tókst okkur ekki að saxa á forskot Keflavíkur þannig að þetta verður sami eltingaleikurinn áfram," sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari ÍBV í viðtali við Fréttir. Hálfgerð meistaraheppni fylgdi Keflavíkurliðinu sem mátti svo sannarlega þakka fyrir að ná einu stigi á heimavelli gegn sprækum Eyjamönnum sem seldu sig dýrt, fengu fullt af góðum dauðafærum sem þeir nýttu ekki. „Ekki bætti úr skák að dómari leiksins var hörmulegur og hafði eitt mark og vítaspyrnu af ÍBV í leiknum,“ bætti Bjarni við.

Hemmi til Crystal Palace

ÍBV og enska úrvalsdeildarliðið Crystal Palace komst að samkomulagi um að enska félagið kaupi hinn stórefnilega varnarmann ÍBV, Hermann Hreiðarsson. Hermann fer til Crystal Palace 20. júlí en mun spila með ÍBV fram að þeim tíma. Kaupverð Hermanns fékkst ekki uppgefið en samkvæmt heimildum blaðamanna í London sem Fréttir höfðu samband við, er talið líklegt að það sé um 70 milljónir króna. Er því væntanlega um einn hagstæðasta samning að ræða sem íslenskt félagslið hefur nokkurn tíma gert fyrir leikmann. Í Fréttum segir að ÍBV hafi nú slátrað gullgæsinni sinni og spurningin er hvort þetta verði ekki til þess að ÍBV missi af Íslandsmeistaratitlinum í haust.

Stelpurnar ósáttar

ÍBV stelpur segjast mjög ósáttar við að fá ekki að æfa á Hásteinsvellinum eins og meistaraflokkur karla. Stefanía Guðjónsdóttir, fyrirliði, segir að það sé tilgangslaust að spila heimaleikina á Hásteinsvelli nema að liðið fái að æfa þar líka, a.m.k. síðustu æfingu fyrir leik. „Þetta virkar ekki sem heimavöllur ef við fáum ekki að æfa og fá tilfinningu fyrir vellinum og aðstæðum. Það eru vitrir menn sem stjórna orðið í sameiginlegu félagi og ég trúi ekki öðru en við fáum úr þessu bætt," sagði Stefanía í viðtali við Fréttir.

Ekki sátt og samlyndi

Forráðamenn Sparisjóðs Vestmannaeyja og ÍBV-íþróttafélags skrifuðu 12. júlí undir samstarfssamning til 10 ára en í honum eru jafnframt ákyæði um árlega endurskoðun hans. Í samningnum er kveðið á um stuðning Sparisjóðs Vestmannaeyja við ÍBV-íþróttafélag og gagnkvæm viðskipti og kemur þessi samningur í stað eldri samninga um stuðning sjóðsins við knattspyrnu- og handknattleiksdeildir karla og kvenna innan ÍBV, Knattspyrnufélagið Tý og Íþróttafélagið Þór. Auk stjórnar ÍBV íþróttafélags áttu formenn handknattleiks- og knattspyrnudeildar að mæta og skrifa undir styrktarsamninginn. Á stjórnarfundi 14. júlí segir í bókun stjórnar ÍBV íþróttafélags að formaður knattspyrnudeildarinnar hafi forsmáð félagið með því að mæta ekki í mótmælaskyni vegna þessa samnings. Gerði hann þar með lítið úr félaginu að áliti formanns félagsins. Taldi Jóhannes formaður knattspyrnudeildar sig vera að mótmæla því að styrkur Sparisjóðsins átti að renna til greiðslu skulda Þórs og Týs, „en samt afhenti Sparisjóðurinn 600 þúsund krónur til styrktar handknattleiks- og knattspyrnudeildar“ segir í bókuninni. „Taldi Jóhannes Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar sig ekki hafa vitað af því, en það er enginn afsökun að haga sér svona gagnvart félaginu. Það sem verra er, að formaður knattspyrnudeildar lét ekki vita af þessu fyrr en 5 mínútum fyrir fund.“ Jóhannes taldi að sér vegið vegna málsins. „Stjórnin er hinsvegar sammála um að það gangi ekki að haga sér svona.“ Á þessum sama stjórnarfundi var Jóhannes beðinn um skýringu á söluna á Hermanni Hreiðarssyni til Crystal Palace. Hann sagðist bundinn trúnaði vegna þess og ekkert geta sagt. Í bókun fundarins segir: „Fannst formanni félagsins þetta með eindæmum að fá svona vantraust frá undirmanni sínum. Ritari getur ekki skýrt frá öllu sem á þessum fundi gerðist, en telur þó að það mikilvægasta hafi hér komið fram“.

Skallagrímur skyndibiti

Það er eins og ekki hafi verið skipt um smurolíu í gangverki ÍBV fyrir leikinn gegn Skallagrími í Sjóvá-Almennra deildinni. Vélin var lengi af stað, hikstaði í byrjun en hrökk sæmilega í gang eftir því sem leið á. Alla vega dugði olían að þessu sinni enda var langlélegasta lið deildarinnar í heimsókn. ÍBV vann 3-1 og þrjú mikilvæg stig söfnuðust í sarpinn í toppbaráttu Sjóvá-Almennra deildarinnar. Ekki svo sem að það hafi skipt nokkru máli að ÍBV sýndi engan glansleik þar sem sigur vannst. Hins vegar vilja áhorfendur fá meira fyrir sinn snúð. Út á það gengur þetta allt saman, að skemmta áhorfendum. Og Fréttir spurðu: HVAR ERU FÖGNIN? Við söknum þeirra.

4 úr úr leik

Skjótt skipast veður í lofti í fótboltanum. ÍBV, sem hafði breiðasta hópinn í Sjóvá-Almennra deildinni í síðustu viku, hefur heldur betur orðið fyrir skakkaföllum. „Nýjasta áfallið er að Rútur Snorrason verður ekki meira með í sumar“. Meiðslin sem hann varð fyrir gegn Skallagrími voru mun alvarlegri en reiknað var með í fyrstu. Krossband í hné er slitið auk fleiri áverka. Hermann Hreiðarsson fer sem kunnugt er til Crystal Palace. Magnús Sigurðsson er farinn í Val og Fréttir segja að það séu stór mistök að leyfa honum að fara þangað þar sem Hermann er að fara. „Magnús hefði komið að góðum notum í vörninni. Þá fór Sumarliði Ámason til Stjörnunnar og það voru einnig m istök í ljósi þess að Rútur er úr leik. í Íslandsmótinu þarf breiðan hóp en það var nokkuð ljóst að ekkert annað lið en ÍBV hefði eins og aðstæður eru í dag mátt við því að missa jafn öfluga stráka og raun ber vitni“.

9 ÍBV-arar í landslið

Í fyrsta skipti í sögu ÍBV á félagið nú tvo leikmenn í kvennalandsliði Íslands skipuð stúlkum 20 ára og yngri. Það eru þær Sigríður Ása Friðriksdóttir og Elena Einisdóttir. Sjö leikmenn meistaraflokks karla ÍBV voru valdir í íslensk landslið í knattspyrnu. Hermann Hreiðarsson og Sverrir Sverrisson voru valdir í A-landsliðið. Gunnar Sigurðsson, Sigurvin Ólafsson, Bjarnólfur Lárusson og Guðni Rúnar Helgason voru valdir í U-21 árs landsliðið og Björn Jakobsson var valinn í 18 ára landsliðið.

Íslandsmeistaraefni? Að verða eða verða ekki Íslandsmeistarar. Það er spurningin. Í fyrsta skipti síðan eftir 1. umferðina 1995 sat ÍBV í efsta sæti efstu deildar eftir glæsilegan sigur á Íslandsmeisturum Skagamanna 3-1, þegar stutt er í þjóðhátíð. Í leiklýsingu íþróttafréttaritara Frétta segir að:

„Sementsblanda Skagamanna virðist um þessar mundir vera afar viðkvæm. Steypuherðirinn Arnar Gunnlaugsson hvarf á braut. Svo virðist sem sementsblanda ÍA hafi orðið fyrir frostskemmdum í vetur, hún er ekki eins sannfærandi og undanfarin ár. Eyjamenn hafa ekki átt eins gott lið í áraraðir og ekkert því til fyrirstöðu að innbyrða Íslandsmeistaratitil. Það er nú eða aldrei.“

ÍBV stelpur lögðu Val að velli

ÍBV-stelpur gerðu góða ferð til Reykjavíkur síðla júlímánaðar. Þá kepptu þær við Val og höfðu sigur 2-1 í jöfnum, opnum og tvísýnum leik. Valsstúlkur byrjuðu betur og höfðu talsverða yfirburði fram yfir miðjan fyrri hálfleik. Þær náðu líka forystunni á 27. mínútu. En þar með hrökk ÍBV í gang svo að um munaði og var sterkari aðilinn allt til leiksloka.

Flottur árangur á Gull og silfurmótinu

Fréttir gerðu Gull og silfurmótinu í Kópavogi góð skil. Í grein í blaðinu segir: Eyjastelpur náðu aldeilis frábærum árangri á Gull- og silfurmóti Breiðabliks sem haldið var í Kópavogi um síðustu helgi. ÍBV undirstrikaði þar enn eina ferðina að liðið er orðið stórveldi í kvennafótboltanum. ÍBV gerði sér lítið fyrir og keppti til úrslita í öllum flokkum (nema 2. flokki en ÍBV sendi ekki lið í þeim flokki). Uppskeran urðu tveir Gull- og silfurmótstitlar, í 5. flokki A og B, og fimm silfur. 3. flokkur A ÍBV lenti í 2. sæti. Stelpurnar stóðu sig frábærlega og sýndu miklar framfarar frá því í Pepsímótinu enda komnar með þjálfara. Þær unnu alla sína leiki og gerðu eitt jafntefli. Þær töpuðu úrslitaleik mótsins fyrir Val, 1 -5. 4. flokkur A ÍBV varð í 2. sæti. Liðið vann alla sína leiki en tapaði úrslitaleiknum við Val, 3-0. 5. flokkur BB (þ.e. B-lið nr. 2) kom skemmtilega á óvart í Gull- og silfurmótinu, komst í undanúrslit en tapaði fyrir ÍBV(!) og tapaði svo í hlutkesti í undanúrslitaleiknum. 4. flokkur B ÍBV varð einnig í 2. sæti. Stelpurnar unnu flesta sína leiki, gerðu tvö jafntefli en töpuðu úrslitaleiknum fyrir Breiðabliki, 0-1. ÍBV sendi einnig lið nr. 2 í B-liðskeppni 4. flokks. Þær stelpur stóðu sig prýðilega og unnu KR 1-0 í úrslitaleik um 5. sæti. 5. flokkur A ÍBV hélt áfram sigurgöngu sinni. Stelpumar unnu alla sína leiki örugglega og burstuðu Breiðablik í úrslitaleiknum, 4-0. 5. flokkur B ÍBV gaf A liðinu ekkert eftir og vann alla sína leiki í mótinu og urðu meistarar. B-liðið vann Breiðablik í úrslitaleik 1-0. ÍBV sendi einnig lið nr. 2 í B-liðskeppni 5. flokks. Þetta aukalið gerði sér lítið fyrir og spilaði við B-lið ÍBV í undanúrslitum og tapaði 1-2! Aukaliðið spilaði við Val um 3. sætið, var í sókn allan tímann en leiknum lyktaði með jafntefli. ÍBV tapaði svo á hlutkesti. 6. flokkur A ÍBV varð í 2. sæti, vann alla sína leiki auðveldlega en tapaði úrslitaleiknum um 1. sætið fyrir Breiðabliki, 1-5.

6. flokkur B IBV var spútnik lið mótsins, tapaði aðeins einum leik fyrir Haukum sem unnu mótið. 

Að sögn þjálfaranna Stefaníu Guðjónsdóttur og Ernu Þorleifsdóttur stóðu allir flokkarnir sig frábærlega vel og voru til fyrirmyndar. Þær bentu einnig á að svo „einkennilega" vildi til á þessu móti að Breiðablik lenti aldrei með ÍBV í riðli, ekki einu sinni í milliriðlum, sama hvaða flokkur það var. Er þetta hræðsla eða hvað? spyrja þjálfararnir. (Fréttir 24. Júlí)

Zoran til ÍBV

Eftir að landsliðsmaðurinn Hermann Hreiðarsson, varnarjaxlinn í ÍBV-liðinu hélt á vit atvinnuknattspyrnunnar í Englandi var Júgóslavinn Zoran Miljkovic fenginn til liðs við félagið. Hann lék með Akurnesinum í fyrra við mjög góðan orðstír.

Tap og sigur

Kvennalið ÍBV tapaði fyrir Breiðablik 4-1 í undanúrslitum bikarkeppninnar í síðasta leik liðsins fyrir Þjóðhátíð. Karlalið ÍBV skellti hinsvegar Leiftri frá Ólafsfirði, 3-2, í hörkuleik á Hásteinsvelli. Með þessum sigri tyllti ÍBV sér á topp deildarinnar.

Haftið skal vera áfram

Það hefur um árabil verið nokkur höfuðverkur þeirra sem sjá um brennuna á þjóðhátíð að koma efni í hana upp á Fjósaklett vegna grjóthafts vestan til í klettinum og hefur oft verið rætt um að fjarlægja haftið. Á fundi umhverfis- og heilbrigðisnefndar, sem haldinn var þriðjudaginn fyrir þjóðhátíð, lá fyrir bréf frá þjóðhátíðarnefnd, dagsett 7. júlí. Þar var farið fram á að leyfðar yrðu lagfæringar á aðgengi að brennustæðinu á Fjósakletti. Lagt var til að flísuð yrði úr vesturþili klettsins sneið, sem væri einn metri á þykkt og fjórir metrar á lengd. Efnið úr þessari flís yrði síðan notað í óreglulega hleðslu sunnan til í fláanum. Nefndin taldi að með þessu yrði um mjög litla breytingu að ræða á umhverfinu en þetta gerði kleift að bakka vörubíl inn á klettinn og yrði slíkt til að auðvelda störf brennumanna til muna. Bréf þjóðhátíðarnefndar var langt og ítarlegt og fylgdu því myndir og uppdrættir. Nefndin bað um skjóta afgreiðslu á málinu þar sem skammt væri til þjóðhátíðar. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd fundaði síðan um málið þegar tveir dagar voru til þjóðhátíðar og þar kemur fram að nefndin hafði farið á staðinn og skoðað aðstæður en erindinu var síðan hafnað. Það er því ljóst að enn um sinn mega brennumenn á þjóðhátíð bera efniviðinn í brennuna nokkurra metra leið yfir grjóthaftið.

Fyrsta Þjóðhátíð ÍBV íþróttafélags fór vel fram

Gestafjöldi á þessari fyrstu Þjóðhátíð ÍBV íþróttafélags var í kringum 6 þúsund. Að sögn lögreglu fór hátíðin vel fram og gott skipulag á gæslumálum. Formaður Þjóðhátíðarnefndar, Birgir Guðjónsson var líka ánægður og sagði gesti Þjóðhátíðar hafa verið til fyrirmyndar. Á að giska 300-400 manns voru við setningu Þjóðhátíðarinnar, flestir prúðbúnir. Þór Vilhjálmsson formaður ÍBV íþróttafélags setti hátíðina, Kirkjukór Landakirkju söng nokkur lög og prestarnir sr. Jóna Hrönn Bolladóttir og sr. Bjarni Karlsson fluttu stutta hugvekju í leikrænu formi. Þar gerðu þau innihald þjóðhátíðarinnar að umtalsefni. Hátíðarræðuna flutti Stefán Runólfsson. Þoka var fram eftir föstudeginum en létti til síðdegis. Á laugardeginum var blautt annars ágætt veður. Á sunnudeginum vara þoka og regn. Miðaverð á þjóðhátíðina var kr. 7.000,- en 6.500,- krónur í forsölu. Hagnaður af þjóðhátíðinni var um 5.5 milljónir króna. Þjóðhátíðarlagið 1997 heitir, Ég veit hvað þú meinar mær. Lagið er eftir Sigurjón Ingólfsson og textinn eftir Guðjón Weihe og var flutt af Skítamóral.

KR steinlá

Leikur ÍBV og KR á Hásteinsvelli í undanúrslitum bikarkeppninnar, mun seint líða knattspyrnuunnendum í Vestmannaeyjum úr minni. Veðrið var eins og það getur best orðið og hátt í 1300 manns mættu á völlinn þar af mikill fjöldi sem fylgdi KR liðinu. Öll umgjörð leiksins var til fyrirmyndar og þetta skilaði sér í einum besta leik liðsins í sumar. Allir sem einn lögðu þeir sig fram og og áttu KRingar ekkert svar við leik þeirra og urðu að sætta sig við 3 - 0 tap. Þar með voru Eyjamenn komnir í bikarúrslitin. Í Fréttum var sagt að Zoran Miljkovic hafi fallið inn í liðið eins og flís við rass. Hann væri mjög öflugur varnarmaður með mikla reynslu og lesi leikinn einstaklega vel. Og að Hlynur fyrirliði hefði farið á kostum og Ívar og Guðni Rúnar haldið niðri vængmönnum KR, Hilmari og Einari Þór. Miðjan var góð. Sigurvin líklega besti knattspyrnumaður landsins í dag, Sverrir sannað að hann á heima á landsliðinu og það hefði verið virkilega gaman að sjá Kristin Hafliðason vera að ná sér á strik. Tryggvi og Steingrímur voru skeinuhættir og Leifur Geir komið sterkur inn.

Stemmning og stuð

Félagar í Leikfélagi Vestmannaeyja stóðu fyrir skemmtilegum uppákomum vegna undanúrslitaleiksins í bikarnum gegn KR. Fyrir leik fóru þeir um bæinn á litlum pallbíl, íklæddir ÍBV-búningum, veifandi ÍBV-fánum og málaðir í framan. Þeir voru einnig mættir uppi á flugvelli þegar flugvél KR-inga lenti. Stóðu þeir heiðursvörð við landganginn með fánana þegar KR-ingar stigu út úr vélinni. Fyrir leik hlupu þeir hring á Hásteinsvelli og á leiknum sjálfum höfðu þeir sig mikið í frammi. Höfðu þeir sigur á fjölmennum hópi KR-inga meðal áhorfenda.

5. flokkur Íslandsmeistarar

Rétt eftir Þjóðhátíð varð A-lið ÍBV í 5. flokki kvenna Íslandsmeistari í knattspyrnu.. Tapaði liðið ekki leik í Íslandsmótinu. Úrslit í lokakeppninni urðu þessi: ÍBV - Breiðablik 3-0, ÍBV - KA 3-0; ÍBV UMFA 5-0; ÍBV-FH 7-1. Margrét Lára og Thelma skoruðu flest rnörkin. Í B-flokki 5. flokks urðu úrslit þessi: ÍBV - Breiðablik 1-3; ÍBV - Reynir 3-2; ÍBV - UMFA 2-0; ÍBV-Stjarnan 0-1. Þetta nægði stúlkunum til þriðja sætis á mótinu. Fram að þessari keppni hafði liðið ekki tapað leik en nú vantaði nokkra burðarása í liðið og því komu tveir tapleikir. „Við erum mjög stoltar af stelpunum og það má vænta mikils af þeim í framtíðinni, sögðu Erna Þorleifsdóttir og Stefanía Guðjónsdóttir, þjálfarar, í viðtali við Fréttir.

4. flokkur kvenna hreppti 3ja sætið

Úrslitakeppni í 4. flokki kvenna á Íslandsmótinu í knattspyrnu fór fram í Vestmannaeyjum um miðjan ágúst. Leikið var bæði í flokkum a og b liða og átti ÍBV lið í báðum flokkum. Keppti ÍBV við FH um þriðja sætið og sigraði 2-0. Í keppni b-liða keppti ÍBV einnig um þriðja sætið, við Val og sigraði sömuleiðis 2-0.

Íslandsmeistaratitill í augsýn? ÍBV sigraði Grindvíkinga í fyrsta leiknum eftir Þjóðhátíð, 2-1. Þótt aðeins eitt mark skildi liðin að, var sigurinn mjög verðskuldaður. Tryggvi Guðmundsson skoraði bæði mörk ÍBV. Að loknum 13 umferðum í Sjóvá Almennra deildinni er ÍBV í efsta sæti með 28 stig, þremur stigum meira en næsta lið.

2. flokkur kvenna á sigurbraut

2. fl. kvenna ÍBV gerði góða ferð upp á Skaga í lok ágúst. Þær báru sigurorð af ÍA, 2-3 eftir að hafa verið undir um tíma. Og þær bættu síðan um betur þegar KR-stúlkur komu í heimsókn, sigruðu Vesturbæjargellurnar 2-0. Og það voru þær Bryndís og Hjördís sem sáu um að skora mörkin. Sigur ÍBV hefði getað orðið mun stærri miðað við gang leiksins en ÍBV réð lögum og lofum lengst af í honum. Þar með er ljóst að 2. flokkur kvenna er kominn í úrslitakeppni Íslandsmótsins þó svo að einn leikur sé enn eftir í undankeppninni.

Flott frammistaða í Evrópukeppni bikarhafa

Karlalið ÍBV tók þátt í Evrópukeppni bikarhafa. Liðið sigraði Hibernians frá Möltu samanlagt 4-0, en þessir leikir voru forkeppninni. Í aðalkeppninni eru hinsvegar 32 lið. Þegar dregið var í þá keppni fékk ÍBV draumamótherja, Stuttgart frá Þýskalandi, liðið sem Ásgeir Sigurvinsson lék með til fjölda ára og bróðursonur hans, Sigurvin Ólafsson var á mála hjá í fjögur ár. Fyrri leikurinn var leikinn á Laugardalsvelli að viðstöddum 3000 áhorfendum, þar af miklum fjölda sem kom úr Eyjum. Leikurinn var góð skemmtun og Eyjastrákar gátu borið höfuðið hátt. Enginn gerði ráð fyrir að þeir myndu sigra eitt besta félagslið Evrópu. Mark ÍBV gerði Sigurvin Ólafsson. Ótrúlega mikil umgjörð var í kringum leikinn vegna sjónvarpsútsendinga til Þýskalands. Þetta mun hafa verið umfangsmesta sjónvarpsútsending frá knattspyrnuleik hér á landi. Seinni leikur liðanna var svo í Stuttgart og þar tapað ÍBV 1-2. Sigfús Gunnar Guðmundsson var einn þeirra sem fóru á síðari leik Stuttgart og ÍBV í Þýskalandi. Hann segir að um 40 stuðningsmenn ÍBV hafi farið á leikinn frá Íslandi. Einnig voru nokkrir Íslendingar, búsettir í Þýskalandi, á leiknum, auk 15-20 Þjóðverja sem hvöttu ÍBV óspart. Sigfús segir að leikurinn hafi verið mjög góður og skemmtilegur. „Stuttgart sótti reyndar meira," sagði Sigfús. „ÍBV spilaði skynsamlega og varðist vel“. Mark ÍBV skoraði Bjarnólfur Lárusson með gullfallegu langskoti. Þátttöku ÍBV í Evrópukeppninni var þar með lokið þetta árið.

Evrópukeppnin góð landkynning

„Um leið og fólk vissi að ég var frá Íslandi kom í ljós að allir þekktu Vestmannaeyjar. Það má þakka beinni útsendingu frá leik ÍBV og Stuttgart í Evrópukeppni bikarhafa," sagði Gunnar Gunnarsson í viðtali við Fréttir, en hann var eftirlitsdómari á leik Þýskalands og Spánar í undankeppni Evrópukeppni landsliða í handbolta sem fram fór í Hannover um síðustu helgi. „Þetta var alveg ótrúlegt hvað leikurinn hefur haft mikil áhrif. Auðvitað hefur fólk, sem ég hitti í sambandi við leikinn, áhuga á íþróttum en það hefur fyrst og fremst áhuga á handbolta. Það vissi samt að leikurinn hafði farið fram í Reykjavík en ekki Vestmannaeyjum. Ég er sannfærður um að útsendingin er ódýrasta og besta auglýsing sem Vestmannaeyjar hafa fengið í Þýskalandi. Ég gerði mér enga grein fyrir því hvað áhrifin voru mikil og leikurinn á örugglega eftir að örva ferðalög Þjóðverja til Vestmannaeyja," sagði Gunnar að lokum.

1-1 og leika þarf bikarúrslitaleikinn aftur

Bikarúrslitaleikurinn 1997 var milli ÍBV og Keflavíkur og að sjálfsögðu leikinn á Laugardalsvelli 31. ágúst. Eitt einkenni bikarúrslitaleikja er að leikmönnum er uppálagt að taka enga áhættu, hugsa fyrst og fremst um að halda hreinu og reyna að grípa gæsina í sókninni þegar færi gefst. Að spila varfærnislega og gleyma sér ekki í sókninni. Leikmenn Keflavíkur og Vestmannaeyja meðtóku fyrrnefnd skilaboð og fóru eftir þeim. Liðin léku sömu leikaðferð, með fjóra menn í öftustu vörn, fimm á miðjunni og einn frammi. Vinsælt kerfi, sem gefst gjarnan vel með varnarleik í huga, en erfitt útfærslu í sókninni. Mikið mæðir á kantmönnunum sem verða í raun að vera á nær stöðugum spretti allan tímann - fyrstir í vörn og fyrstir í sókn ef dæmið á að ganga upp í sókninni. Hugsi kantmennirnir frekar um varnarhlutverkið er miðherjinn ekki í öfundsverðu hlutverki einn frammi með litla von um aðstoð.

Eins og títt er um stóra leiki fá þeir mikla umfjöllun fjölmiðla og þessi leikur var þar engin undantekning. Morgunblaðið gerði leiknum góð skil og hér er birt umfjöllun blaðsins um hann: "Stuðningsmenn liðanna komu vel stemmdir til leiks og höfðu Eyjamenn vinninginn áður en flautað var til leiks en Haukur Ingi Guðnason hafði góð áhrif á Keflvíkinga þegar á 2. mínútu. Þá fékk hann sendingu inn fyrir vörn ÍBV, var í dauðafæri en skaut framhjá. Skömmu síðar skaut Guðni Rúnar Helgason yfir mark Keflvíkinga af stuttu færi og á 10. mínútu fékk Haukur Ingi annað tækifæri eftir varnarmistök en Zoran Miljkovic náði að bægja hættunni frá. Byrjunin lofaði góðu en ekki varð framhald á. Eyjamenn virtust vera mjög taugaóstyrkir, sendingar þeirra fóru hvað eftir annað til mótherja sem reyndu gagnsóknir í kjölfarið en Haukur Ingi mátti sín lítils einn frammi gegn margnum. Tölurnar í fyrri hálfleik tala sínu máli. Keflvíkingar áttu tvö skot að marki, Eyjamenn þrjú. Keflvíkingar fengu eina hornspyrnu, Eyjamenn tvær. Keflvíkingar voru einu sinni dæmdir rangstæðir, Eyjamenn aldrei. Eyjamenn sókndjarfari Aukinn þungi færðist í sóknarleik Eyjamanna eftir hlé. Bjarki Guðmundsson bjargaði með úthlaupi eftir að Tryggvi Guðmundsson var kominn á auðan sjó í kjölfar sendingar frá Hlyni Stefánssyni á 48. mínútu og skömmu síðar varði hann þrumuskot frá Sigurvini Ólafssyni. Ekki liðu nema tvær mínútur þar til Sigurvin átti skot í slá fékk boltann frá Bjarka, þakkaði fyrir sig og skaut af miðjum vallarhelmingi Keflvíkinga, sem sluppu með skrekkinn. Um miðjan hálfleikinn átti Gestur Gylfason hörkuskot á mark ÍBV eftir góða sókn en Gunnar Sigurðsson varði af öryggi. Tryggvi fékk gott marktækifæri rétt utan markteigs á 72. mínútu en skaut yfir markið rétt eins og í upphituninni. Meiri kraftur Eyjamanna sló Keflvíkinga ekki út af laginu og skömmu áður en venjulegum leiktíma lauk átti Haukur Ingi góðan skalla að marki eftir hornspyrnu Eysteins Haukssonar en boltinn fór utan stangar“. Mikil spenna og gífurleg barátta „Það er erfitt að halda einbeitingu í 90 mínútur og viðbúið að eitthvað láti undan þegar í framlengingu er komið en spurningin er síðan hvort menn nái að nýta sér mistök mótherjanna. Tryggvi gerði það vel á 99. mínútu en markið sem fylgdi í kjölfarið var umdeilt. Sá sem þetta skrifar er á því að brotið hafi verið óviljandi á Bjarka Guðmundssyni áður en Leifur Geir Hafsteinsson skoraði og því hafi átt að dæma aukaspyrnu en ekki mark. Dómarinn virtist ekki viss en dæmdi markið gilt eftir að hafa ráðfært sig við línuvörðinn. Skömmu síðar bjargaði Kristinn Hafliðason við hitt markið eftir skalla frá Hauki Inga en eftir það hugsuðu Eyjamenn fyrst og fremst um að halda fengnum hlut. Keflvíkingar settu að sjálfsögðu aukinn kraft í sóknina á kostnað varnarinnar en mínúturnar liðu og söngur stuðningsmanna Eyjamanna bar þess merki að bikarinn væri á leið til Eyja. Leikmennirnir virtust sama sinnis, þeir spörkuðu boltanum sem lengst fram til að vinna tíma og aðeins tveir voru í teignum þegar þeir fengu hornspyrnu á 119. mínútu. En Keflvíkingar gáfust ekki upp. Þeir sóttu hratt upp vinstri kantinn á síðustu mínútu og Gestur Gylfason jafnaði eftir röð af varnarmistökum. Eyjamenn byrjuðu á miðju og dómarinn flautaði til leiksloka. Sjö mínútum fyrr braut Gestur á Sigurvini og virtist eiga skilið að fá gult spjald sem hefði þýtt rautt þar sem hann var spjaldaður fyrr í leiknum, en dómarinn, sem var vel staðsettur, dæmdi aukaspyrnu og sleppti spjaldinu. Í leikslok fögnuðu Keflvíkingar eins og bikarinn væri í höfn en spennufallið var mikið hjá Eyjamönnum. En svona er knattspyrnan. Keflvíkingar héldu haus allt til loka en Eyjamenn gleymdu að viðureign er ekki lokið fyrr en hún hefur verið flautuð af. Sem fyrr segir var þetta dæmigerður bikarúrslitaleikur. Mikil barátta og gífurleg spenna komu í veg fyrir að menn næðu að spila eins og þeir best geta."

Jafntefli kallaði á þessum tíma á nýjan leik. Eyjamenn og Keflvíkingar þurftu því að leika annan bikarúrslitaleik. Áhorfendur á leiknum voru hvorki fleiri né færri en 6260

Bikardraumurinn að engu

Það var seigla í Keflvíkingum, það verður að viðurkennast eftir að þeir lögðu Eyjamenn í bikarúrslitaleik nr. 2 á Laugardalsvelli. „ Örlögin voru þau að Keflvíkingar áttu að vinna bikarinn vegna þess að (1) þeir jöfnuðu á síðustu mínútu framlengingar í fyrri leiknum, (2) sluppu með skrekkinn hvað eftir annað þegar Eyjamenn brenndu úr dauðafærum, (3) Eyjamenn brenndu af vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks, (4) fyrirliði ÍBV var rekinn útaf undir lok venjulegs leiktíma þar sem dómarinn gerði afdrifarík mistök og (5) vítaspyrnukeppni var eina von Keflvíkinga til að vinna bikarinn og auðvitað fór það svo“. Þannig skrifuðu Fréttir um þennan síðari bikarúrslitaleik. „Þreyta sat í okkar mönnum eftir Stuttgartleikinn. Á því lék enginn vafi. Fyrri hálfleikur var bragðdaufur. Gunnar sýndi snilli sína í markinu og Ingi fékk góð færi áður en hann var felldur en Hlyni tókst að klúðra vítaspyrnunni. Tryggvi treysti sér ekki í verkefnið og fyrirliðinn tók af skarið. Í seinni hálfleik hresstist leikurinn og bæði lið fengu góð færi. Vendipunktur leiksins var þegar Skagamaðurinn, dómarinn Sæmundur „aðalveiki" Víglundsson, rak Hlyn út af. Þvílíkt hneyksli. Hvernig stóð á því að þessi dómari, sem fékk falleinkunn eftir fyrri bikarúrslitaleikinn, var látinn dæma aftur? Eru Skagamenn svona grænir af öfund að þeir máttu ekki una Eyjamönnum þess að vinna tvöfalt'? Keflvíkingum tókst að hanga á jafntefli út framlengingu, eins og maður hafði alltaf á tilfínningunni, að þeir myndu spila upp á vítaspyrnuheppni. Og það tókst þeim og Keflvíkingar dönsuðu stríðsdans í lokin. Þeir höfðu það Suðunesjamenn - á seiglunni. Fjölmargir stuðningsmenn ÍBV þurftu annað árið í röð að horfa upp á bikarinn renna úr höndum ÍBV. En þá er bara að spýta í lófana og taka fjárans dolluna næsta sumar.“

Íslandsmeistaratitill í höfn og messu flýtt

Eyjamenn eru einfaldlega langbestir í ár! Þeir sýndu það og sönnuðu á eftirminnilegan hátt með því að rótbursta Keflavík, 5-1, í 17. og næstsíðustu umferð SjóvárAlmennra deildarinnar, og tryggðu sér langþráðan Íslandsmeistaratitil. Átján ára bið á enda. Leikurinn var settur á kl. 14 eða nákvæmlega á messutíma Landakirkju. En í Landakirkju var fólk við stjórnvöl sem hafði góðan skilning á gildi íþrótta og ekki síður mikilvægi þessa leiks. Því var ákveðið að færa messutímann fram til kl. 13. Séra Bjarni Karlsson sagðist ábyrgjast að messunni yrði lokið kl. 13.45 þannig að enginn ætti að þurfa að missa af leiknum. Bjarni vildi hvetja sem flesta til að mæta í kirkju, „til að efla andann fyrir leikinn,". Fréttir gáfu út aukablað í tilefni Íslandsmeistaratitilsins og er hluti þess efnis birt hér:

Sannkölluð þjóðhátíðarstemmning var í Eyjum að leik loknum og mun hún halda áfram alla þessa viku. Skotið var út flugeldum, kveikt á blysum og Eyjalag Leifs Geirs, „Komdu fagnandi", sungið í gríð og erg. Næsta laugardag er svo ætlunin að halda mikla sigurhátíð í Eyjum. Eftir frekar rólega byrjun skoraði Sigurvin glæsilegt mark úr aukaspyrnu af 25 metra færi á 19. mín., í anda frænda síns, Ásgeirs. En Jóhann Guðmundsson jafnaði strax fyrir Keflavík tveimur mínútum síðar. Aftar róaðist leikurinn en Steingrímur braut ísinn á 41. mín. með laglegu marki eftir sendingu Tryggva. Við þetta komst Tryggvi í gang og hann skoraði þriðja markið í lok fyrri hálfleiks með því að vippa boltanum snyrtilega yfir markvörð Keflvíkinga. Strax í upphafi seinni hálfleiks skoraði Tryggvi beint úr aukaspyrnu. Steingrímur átti nokkur góð færi, skallaði m.a. í slána, áður en Tryggvi fullkomnaði þrennu sína (og 100.000 kr.) með því að pota inn þriðja markinu eftir fyrirgjöf Sverris. Þegar 10 mín. voru eftir af leiknum var Íslandsmeistarabikarinn borinn fram en eins og kom fram stóð til að afhenda hann eftir síðustu umferðina. En auðvitað yar ekki stætt á öðru en að afhenda Íslandsmeistarabikarinn fyrir framan stuðningsmenn ÍBV. Alls mættu 1500 manns á leikinn en þegar yfir lauk, hafa líklega verið rúmlega 2000 manns á vellinum því fjöldi fólks, sem horfði á leikinn í sjónvarpi, dreif sig á völlinn og vildi verða vitni að því þegar Eyjamenn fögnuðu titlinum. Hlynur Stefánsson, fyrirliði ÍBV, tók við titlinum úr hendi Eggerts Magnússonar, formanns KSI, en þarna er um að ræða glænýjan og stórglæsilegan bikar. ÍBV hlaut 40 stig í 18 leikjum, 12 sigrar, 4 jafntefli og 2 töp. ÍA varð í 2. sæti með 35 stig.

Bæjarstjórn bauð til veislu Bæjarstjórn Vestmannaeyja bauð nýbökuðum Íslandsmeisturum ÍBV, eiginkonum þeirra og unnustum og stjórn Knattspyrnudeildar til samsætis á Hertoganum á sunnudagskvöldið. Ólafur Lárusson, forseti bæjarstjórnar byrjaði á því að óska. strákunum til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn og það sama gerðu Guðjón Hjörleifsson bæjarstjóri. - Þór Vilhjálmsson, formaður ÍBV íþróttafélags, flutti liðinu, þjálfara og stjórn knattspyrnudeildar heillaóskir og kveðjur. Hjalti Kristjánsson, stjórnarmaður Íþróttabandalagsins flutti kveðjur stjórnar.

ÍBV hafði borist fjöldi heillaóskaskeyta sem Guðjón las upp. Meðal annars var skeyti frá fráfarandi Íslandsmeisturum, Skagamönnum, sem óskuðu Vestmannaeyingum til hamingju með titilinn og sögðu þá vel að honum komna. Aftur á móti lofuðu þeir Eyjamönnum því að þeir mættu eiga von á harðri mótspyrnu af þeirra hálfu næsta sumar.

Viltu giftast mér

Í hófi bæjarstjórnar upplýsti Bjarni Jóhannsson að hann hefði verið í ágætri sambúð með Ingigerði Sæmundsdóttur í níu ár. Afrakstur sambúðarinnar eru tvíburarnir Bryndís og Brynja en ennþá hafa Bjarni og Ingigerður ekki gefið sér tíma til að láta pússa sig saman. „Þetta hefur ft verið toil umræðu í fjölskyldunni en einhvern veginn höfum við ekki látið verða af því," sagði Bjarni í ræðu sinni. „Það var svo snemma í sumar að Inga fór að tala um þetta og nefndi dagsetningu, nánar tiltekið 6. júní en þá lauk einni túrneringunni sem Íslandsmótinu var skipt upp í. Ég var ekki alveg á því og sagði: - Við skulum gifta okkur þegar Íslandsmeistaratitillinn er í höfn." Bjarni hafði því enga afsökun lengur og dreif í að biðja Ingu sinnar á staðnum. Hún sagði strax já þannig að Bjarni hefur í nógu að snúast þegar tímabilinu lýkur.

Matarstellið reyndist vera Íslandsbikarinn

„Það er stórkostlegt að verða vitni að þessu hér í Vestmannaeyjum, þessari frábæru og stórskemmtilegu stemmningu og myndarlegu umgjörð. Það er virkilega gaman að fá að afhenda Íslandsbikarinn hér á heimavelli. Hér er mikill uppgangur í fótboltanum og atvinnulífinu og ég held að þetta sé bara byrjunin á einhverju meira. Þetta er sérstaklega gaman fyrir stjórnina, svo ég tali nú ekki um Jóhannes Ólafsson formann sem hefur starfað í þessu í tíu ár og lagt ómælda vinnu á sig. Eyjamenn eru að uppskera eins og til var sáð. Ég óska öllum Vestmannaeyingum innilega til hamingju með titilinn. Hann á ÍBV virkilega skilið," sagði Eggert Magnússon, formaður KSÍ. Fyrir leik ÍBV og Keflavíkur hafði það verið gefið út að Íslandsmeistaratitilinn yrði ekki afhentur fyrr en eftir 18. og síðustu umferðina. Eggert segir að ætlunin hafi alltaf verið að afhenda bikarinn í Eyjum ef mótið kláraðist en það hafi ekki mátt segja opinberlega þar sem það hefði truflandi áhrif á undirbúning ÍBV fyrir leikinn. Voru margir Eyjamenn ósáttir við þetta. „Ég var með óvenju mikinn farangur með mér til Eyja. Einn kassinn var merktur BROTHÆTT í bak og fyrir. Þegar ég var spurður að því hvað væri í kassanum sagði ég að þar væri matarstell fyrir nýgift hjón“. Sagði Eggert.

Tap í síðasta leik

ÍBV tapaði fyrir Leiftri, 1-3, á Ólafsfirði í 18. og síðustu umferð Sjóvá-Almennra deildarinnar. Eyjamenn hvíldu Zoran og Sigurvin því ef þeir hefðu fengið gult spjald hefðu þeir misst af bikarúrslitaleiknum.

816 áhorfendur á heimaleiki ÍBV

Alls komu 7.343 áhorfendur á heimaleiki Íslandsmeistara ÍBV í efstu deild í sumar. Alls dró ÍBV liðið að sér 13.502 áhorfendur í sumar ef útileikirnir eru taldir með en þá sóttu 6159. ÍBV er í þriðja sæti í áhorfendafjölda á eftir KR og ÍA. Að meðaltali sóttu 816 heimaleiki ÍBV og 684 útileikina.

Kvennaliðið í 5. sæti

Ekki tókst ÍBV stelpum ætlunarverk sitt, að krækja sér í 4. sætið í Stofndeildinni. Liðið tapaði fyrir Val 3-4 í Eyjum og hrepptu 5. sætið. Eyjastelpur gátu samt sem áður verið ágætlega ánægðar með sumarið. Árangur sumarsins er sá besti í sögu ÍBV en stelpurnar hafa nú haldið sér í efstu deild þrjú ár í röð. ÍBV hlaut 16 stig í ár á móti 10 í fyrra, markatalan hagstæð um eitt mark en óhagstæð í fyrra um 23 mörk! Framfarirnar eru því ótrúlega miklar á milli ára, sérstaklega ef haft er í huga að það fækkaði í leikmannahópnum á milli ára.

Bjarnólfur í atvinnumennsku

Bjarnólfur Lárusson varð næsti atvinnumaður Vestmannaeyinga. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við skoska úrvalsdeildarfélagið Hibernians og gerði það á grundvelli svokallaðs Bosmansúrskurðar. Samningur Bjarnólfs við ÍBV var útrunninn 15. okt. sl. og þess vegna gat hann farið hvert sem hann vildi án þess að ÍBV gæti krafist greiðslu fyrir hann.

Eyjamenn áttu sviðið

Eyjamenn undirstrikuðu yfirburði sína í íslenskri knattspyrnu sumarið 1997, á lokahófi knattspyrnumanna á Hótel Íslandi. Íslandsmeistarar ÍBV sópuðu til sín öllum verðlaunum hjá körlunum og hefur annað eins ekki átt sér stað síðan farið var að veita verðlaunin snemma á níunda áratugnum. Þar að auki var þetta í fyrsta skipti sem Eyjamenn vinna til einstaklingsverðlauna á lokahófi knattspyrnumanna. Tryggvi Guðmundsson var valinn besti leikmaður ársins af félögum sínum í deildinni. Félagi Tryggva, Hermann Hreiðarsson, bar Tryggva á herðum sér upp á svið þegar úrslitin lágu fyrir en Tryggvi virtist ekki trúa eigin eyrum. Það kom engum á óvart að fyrirliði U-21 árs landsliðsins, Sigurvin Ólafsson, skyldi verða valinn efnilegasti leikmaður ársins. Sigurvin kom frá Stuttgart í vor og varð smám saman einn mikilvægasti maður ÍBV-liðsins og fór á kostum seinni part sumars. Ívar Bjarklind, sem átti hreint frábært sumar, var valinn prúðasti leikmaður Sjóvá-Almennra deildarinnar. ÍBV var svo valið prúðasta lið sumarsins og kom það ekki heldur á óvart. Þriðja árið í röð fékk ÍBV fæst spjöldin. Rúsínan í pylsuendanum var valið á liði ársins. ÍBV átti þar hvorki fleiri né færri en sex leikmenn, eða meira en helming liðsins. Þetta segir allt sem segja þarf um þetta stórkostlega sumar sem lengi verður í minnum haft. Ívar, Hermann, Hlynur, Sigurvin, Tryggvi og Sverrir voru valdir í lið ársins. (Frétt úr Fréttum)

Knattspyrnusumarið með augum Þorsteins Gunnarssonar

Íþróttafréttaritari Frétta gerir upp knattspyrnusumarið í blaðinu. Þar skrifar hann: Knattspyrnusumarið 1997 verður lengi í minnum haft, enda náði ÍBV besta árangri sínum í sögu félagsins. ÍBV byrjaði á því að vinna Val í úrslitaleik deildarbikarkeppninnar. ÍBV var langbesta liðið í Sjóvá-Almennradeildinni í sumar og vann deildina með glæsibrag. með samtals 40 stig, eða jafnmörg og Skaginn vann deildina með í fyrra. Árangur ÍBV í Evrópukeppni bikarhafa var glæsilegur. Liðið sýndi allar sínar bestu hliðar gegn einu öflugasta knattspyrnuliði Evrópu, Stuttgart frá Þýskalandi. Í bikarkeppninni þurfti ÍBV að lúta í gras í tveimur úrslitaleikjum gegn Keflavík, eftir tvær framlengingar og vítaspyrnukeppni. Naumara gat það ekki verið. Auðvitað sár vonbrigði en Eyjamenn geta samt litið stoltir yfir árangur sumarsins. ÍBV hefur heldur betur vakið athygli á Vestmannaeyjum á jákvæðan hátt. Liðið hefur vakið mikla athygli fyrir vasklega og prúðmannlega framkomu, enda fékk liðið fæst gulu spjöldin þriðja árið í röð, takk fyrir. Liðið skoraði flest mörkin og fékk fæst mörkin á sig. Nú hlýtur knattspyrnulið ÍBV að fá njóta sannmælis hjá bæjaryfirvöldum og að almennileg aðstaða verði byggð fyrir liðið. Í ljósi aðstæðna er kraftaverk hversu vel hefur gengið í sumar en þar hjálpast að kröftugt knattspyrnuráð, úrvals þjálfari og einstaklega samstillur og góður leikmannahópur.

Dómaraskandall?

Fyrstu leikur karlaliðs ÍBV í handboltanum þetta keppnistímbilið, var við hafnfirska Hauka og var leikið í Eyjum. Eftir mjög dramatískar lokamínútur sigruðu Haukar 29-28. En Eyjamenn voru afar ósáttir við dómgæsluna á lokamínútunum. Þorbergur Aðalsteinsson, þjálfari sagði í viðtali við Fréttir „Dómgæslan var léleg. Mér fannst halla verulega á okkur, sérstaklega hvað varðar jöfnunarmarkið í lokin. Dómararnir gerðu mistök með því að flauta of snemma og þar með hafa af okkur annað stigið." ÍBV tapaði öðrum heimaleik sínum röð með einu marki fyrir Aftureldingu úr Mosfellsbæ. 32-33, eftir að staðan í hálfleik var 16-15 fyrir ÍBV. Var það mál manna að annan leikinn í röð hafi dómararnir verið sér til skammar og höfðu þeir annað stigið af ÍBV, þó það hafi ekki verið með jafn afgerandi hætti og þegar ÍBV tapaði fyrir Haukum í 1. umferðinni.

Sigur á Víkingum

ÍBV lagði Víking á útivelli, 28-26, í 1. deild karla í Víkinni í 3. umferð Íslandsmótsins í handbolta. Leikurinn þótti ekki mikið fyrir augað en Eyjamenn sýndu að það er kraftur og seigla í liðinu. Að vinna lakari lið deildarinnar á útivelli gerist ekki af sjálfu sér og okkar menn, með sinn ekki allt of breiða hóp, innbyrtu sigurinn um leið og þeir fóru að taka á í vörninni.

Tap fyrir Haukum

Handboltalið kvenna ÍBV tapaði fyrir bikarmeisturum Hauka í Hafnarfirði í fyrsta leik sínum, 30-23. Haukum er spáð efsta sæti í deildinni en ÍBV því fimmta.

Fólksfækkun hefur áhrif hjá ÍBV

Nokkur fólkfækkun hefur orðið í Eyjum að undanförnu og hefur víða áhrif. Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari yngri flokka hjá ÍBV, benti Fréttum á að í aldurshópnum 8-12 ára hafi ÍBV misst eða sé að missa hvorki fleiri né færri en níu stráka sem allir séu mikið efni og lykilleikmenn í sínum flokki. Þetta er áhyggjuefni og sýnir að allt hangir þetta á sömu spýtunni í okkar bæjarfélagi, sagði Jón Ólafur.

Skeljungur styrkir handboltann

Í október var undirritaður samstarfssamningur milli Skeljungs og handknattleiksdeildar ÍBV sem felur í sér að Skeljungur verður aðalstyrktaraðili handboltans í Eyjum. Kristinn Björnsson forstjóri Skeljungs og Þór Í. Vilhjálmsson, formaður ÍBV undirrituðu samninginn.

Simmi fer hamförum

Karlalið ÍBV í handboltanum sigraði Íslandsmeistara KA 32 liða úrslitum bikarkeppni HSÍ, 36-28. Þar fór Sigmar Þröstur Óskarsson hamförum og varði alls 28 skot, og hefur greinlega engu gleymt, 36 ára maðurinn.

Þjálfarar ráðnir

Bjarni Jóhannsson sem stýrði knattspyrnuliði ÍBV beint á toppinn í Íslandsmótinu, verður áfram með liðið næsta sumar. Kristinn R. Jónsson, fyrrum leikmaður Fram og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari hans til næstu tveggja ára frá og með næstu áramótum. Auk þess mun hann sjá um þjálfun 2. og 4. flokks karla hjá félaginu. Kristinn hefur umsjón með vetraræfingum Íslandsmeistaranna í Eyjum frá áramótum.

Dyggir stuðningsmenn

ÍBV hefur átt því láni að fagna að eiga öflugustu stuðningsmennina á Reykjavíkursvæðinu og hefur Stuðningsmannafélagið náð þeim glæsta árangri að gera alla velli, nema Akranesvöll, að heimavöllum ÍBV með góðri mætingu. Auk þess hafa félagarnir staðið að fjársöfnunum og fékk knattspyrnudeildin afraksturinn af henni á lokahófinu. Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir, eða Beggó eins og flestir þekkja hana, afhenti hvorki meira né minna en 1,7 milljónir króna.

Lokhóf knattspyrnunnar

Lokahóf knattspyrnumanna ÍBV, meistaraflokka karla og kvenna var haldið í byrjun nóvember. Hæst bar að sjálfsögðu Íslandsmeistaratitil meistaraflokks karla sem auk þess fagnaði deildarbikarameistaratitlinum í vor og eins urðu þeir meistarar meistaranna í fyrrahaust. Þessi árangur strákanna er sá glæsilegasti sem ÍBV hefur náð frá upphafi og þó það kæmi ekki nógu vel fram á hófinu, þá höfðu stelpurnar líka ástæðu til að fagna því þær enduðu í fimmta sæti sem er besti árangur kvennaliðs ÍBV. Margt var til skemmtunar gert og veittar voru viðurkenningar fyrir árangur og frammistöðu einstakra leikmanna. Að þessu sinni kom það í hlut gullkorthafa í Stuðningsmannaklúbbi ÍBV að velja besta og efnilegasta leikmanninn í karlaflokki. Þeir völdu Hlyn Stefánsson sem besta leikmanninn 1997 og Sigurvin Ólafsson þann efnilegasta. Eins og allir vita var Tryggvi Guðmundsson markahæsti maður mótsins og fékk hann hann viðurkenningu frá ÍBV fyrir þann glæsta árangur. Hjá stelpunum var Erna Þorleifsdóttir vali besti leikmaðurinn, Elena Einisdóttir fékk verðlaun fyrir ástundun og framfarir og Íris Sæmundsdóttir var markahæst. Fréttabikarana fengu að þessu sinni Hjördís Halldórsdóttir og Jón Helgi Gíslason.

Byggt við Týsheimilið

Guðjón Hjörleifsson, bæjarstjóri, tilkynnti á lokahófinu að bæjarstjórn hefði ákveðið að veita 15 milljónum króna á fjárhagsáætlun 1998 í búningsaðstöðu við Hásteinsvöll. Jafnframt fellur niður 10 milljóna króna framlag á þessu ári. Er því í raun verið að hækka fjárveitingu þessa árs um 5 milljónir og á verkinu að vera lokið fyrir 15. maí á næsta ári. „Í þessari viðbyggingu við Týsheimilið verða búnings- og sturtuklefar auk snyrtiaðstöðu sem munu nýtast knattspyrnuliðum á Hásteinsvelli og íþróttasalnum. Einnig verður þar salernisaðstaða fyrir vallargesti og samkomugesti í Týsheimilinu," sagði Guðjón. Hafist verður handa við að ljúka teikningum og gerð kostnaðaráætlunar sem allra fyrst og á samstarfsnefnd ÍBV og bæjarins að hafa lokið störfum fyrir 30. nóvember nk. „Í framhaldi af því ræðst hvort ÍBV- íþróttafélag tekur að sér að ljúka verkinu fyrir ofangreinda upphæð eða Vestmannaeyjabær og tæknideild bæjarins bjóði verkið út með verklokum eigi síðar en 15. maí 1998," sagði Guðjón að lokum í viðtali við Fréttir.

Úttekt Viðskiptablaðsins á rekstri íþróttafélaga:

ÍBV best rekna félagið á landinu Knattspyrnu- og handknattleiksdeildir ÍBV eru þær best reknu innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. – Þetta er niðurstaða sem Viðskiptablaðið kemst að í úttekt sinni á áfangaskýrslu um fjármál íþróttahreyfingarinnar. Skýrslan er talin svört en þar kemur fram að íþróttahreyfingin í heild sé rekin með verulegu tapi ár eftir ár. Sérstaklega er peningaleg staða félaga í efstu deildum knattspyrnu, handknattleiks og körfuknattleik skelfileg, eða neikvæð upp á 340 milljónir króna og versnaði um rúmlega 45 milljónir á milli áranna 1995 og 1996. Að sögn Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til mannvirkja félaganna eða deildanna né áhalda og tækja sem notuð eru í daglegum rekstri. Það er talið skynsamlegt þar sem slíkt gæfi tæpast neina raunhæfa vísbendingu um hina raunverulegu stöðu. Í skýrslunni er ekki sérstaklega fjallað um orsakir vandans. Hins vegar er bent á að víða stefni í óefni og niðurstöður ársins 1996 gefa síður en svo til kynna að staðan sé að batna. Áríðandi sé að finna leiðir tíl úrbóta. Hjá knattspyrnuliðunum nam aukning heildarskulda hjá knattspyrnuliðunum 29,2 milljónum króna 1996 og er það mun meiri skuldasöfnun en árið á undan þótt uppgjör vanti fyrir tvö félög. Hjá handknattleiksliðum hafði orðið sú ánægjulega þróun 1995 að heildarafkoman varð jákvæð um 8,9 milljónir. Samkvæmt úttektinni er ÍBV nánast eina félagið sem skilar einhverjum hagnaði að ráði á síðasta ári. Í útreikningum er miðað við peningalega stöðu knattspyrnu-, handknattleiks og körfuboltadeilda innan hvers félags. Handknattleiksdeild ÍBV skilar 560 þús. kr. hagnaði og knattspyrnan 1.3 millj. kr., samtals tæpar 2 millj. kr. Athygli vekur að stórveldin á höfuðborgarsvæðinu koma ákaflega illa út. Þetta verður að teljast mikil viðurkenning fyrir knattspyrnu- og handknattleiksdeildir ÍBV og nokkuð ljóst að staðan verður enn betri á þessu ári, sérstaklega hjá knattspyrnunni.

Karlaliðið í þunglyndispróf hjá Hjalta?

Hvar er leikgleðin, brosið, húmorinn, keppnisandinn og stoltið hjá ÍBV strákunum? Spyr íþróttafréttaritari Frétta. „Hvar er lipurleikinn sem einkenndi liðið í upphafi móts og vakti svo mikla athygli? Eru menn ekki í handbolta til þess að hafa gaman af því sem þeir eru að gera? Hvaða þunglyndi er að angra mannskapinn? Er kannski kominn tími til að senda ÍBV liðið í þunglyndispróf til Hjalta læknis? Þessar spurningar, og reyndar miklu fleiri, vakna eftir hörmulega frammistöðu ÍBV þegar liðið steinlá fyrir Fram, hér heima í Eyjum, 27-32. Þetta er annað stórtap ÍBV í röð í deildinni.“

Kraftaverkamenn í skilanefndinni

Fyrsti almenni fundurinn í ÍBV- íþróttafélagi var haldinn um miðjan nóvember. Þar kom m.a. fram að skilanefndin svokallaða, sem sett var á laggirnar til að hreinsa upp skuldir sem eftir voru vegna sameiningar Týs og Þórs svo nýja félagið gæti byrjað með hreint borð, væri komin vel áleiðis með ætlunarverk sitt. Óhætt er að segja að skilanefndin hafi unnið kraftaverk síðan hún tók til starfa fyrir ári. Skuldir voru alls yfir 90 milljónir. Skuldir sem stóðu út af borðinu eftir sameininguna og sölu eigna til bæjarins á 52 milljónir króna, munu hafa verið rúmar 40 milljónir króna. Skilanefndin samdi við lánastofnanir og tók svo persónulega ábyrgð á þeim skuldum sem eftir voru. Sér skilanefndin fyrir endann á vinnu sinni miðað við gefin loforð hjá ýmsum aðilum. Styrkir frá fyrirtækjunum til skilanefndar vegna fyrrnefndra skulda, koma ekki niður á styrkveitingum til ÍBV-íþróttafélags. Í skilanefndinni eru þeir Viktor Helgason, Bergvin Oddsson, Guðjón Rögnvaldsson, Jóhann Pétursson og Guðjón Hjörleifsson.

Sigur eftir slæmt gengi

Eftir brösugt gengi sýndu ÍBV stelpurnar sínar betri hliðar eftir afleitt gengi að undanförnu. ÍBV tók á móti Víkingi um miðjan nóvember. ÍBV vann 28-25 í hörkuleik. Víkingar byrjuðu leikinn af krafti og höfðu þriggja marka forystu í hálfleik, 11-14. En smátt og smátt saxaði ÍBV á forskotið og breytti svo stöðunni úr 19-21 í 22-19 sér í yil. ÍBV breytti varnarleiknum í seinni hálfleik, úr 6-0 í 5-1 með Andreu fyrir framan vörnina og henni tókst að trufla verulega sókn Víkings og stela boltanum nokkrum sinnum. Andrea átti góðan leik sem og Sandra Anulyte. Athygli vekur að aðeins fjórar stúlkur skoruðu öll 28 mörk ÍBV. Mörk ÍBV: Andrea 11/4, Sandra 9, Ingibjörg 4, Elísa 4. Varin skot: Egle Plétené 9.

Gunnar Heiðar í landslið

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, hinn ungi og efnilegi knattspyrnumaður, hefur verið valinn í 18 manna hóp drengjalandsliðs Íslands, skipað leikmönnum 16 ára og yngri. Langt er síðan ÍBV hefur átt fulltrúa í drengjalandsliði.

Sigurmark á lokamínútunni

ÍBV sigraði HK á útivelli 20-21 eftir að staðan í hálfleik var 8-9, en Zoltan Belanýi skoraði sigurmarkið úr vítakasti á síðustu sekúndunum. Hetja ÍBV var hins vegar hinn efnilegi Sigurður Bragason sem reyndist bjargvættur liðsins á lokamínútunum. Þessi tvö lið voru að berjast um að komast í 8 liða úrslitakeppnina og sigurinn því mikilvægur.

Aðalsteinn verður framkvæmdastjóri ÍBV

Aðalsteinn Sigurjónsson, fyrrum útibússtjóri Íslandsbanka í Vestmannaeyjum, var ráðinn framkvæmdastjóri ÍBV-íþróttafélags í október. Hann tekur við af Guðmundi Þ.B. Ólafssyni sem hefur gegnt stöðunni til bráðabirgða.

Málþing um Þjóðhátíð

Vestmannaeyingar fjölmenntu á málþing um þjóðhátíð sem haldið var sunnudaginn 19. október í safnaðarheimili Landakirkju. Málþingið var haldið að frumkvæði safnaðarprestsins Jónu Hrannar Bolladóttur. Fréttir gerðu málþinginu góð skil og er sú umfjöllun notuð hér. Tillögur og hugmyndir þinggesta voru skráðar niður og er ætlunin að koma þeim til þjóðhátíðarnefndarinnar, ef þær gætu orðið nokkurt leiðarljós fyrir hana að starfa eftir. Jóna Hrönn segir fulla ástæðu til að Vestmannaeyingar fari að huga að næstu þjóðhátíð í tíma. Margar forsendur fyrir hátíðinni séu breyttar og ástæða til að spyrja hvernig þjóðhátíð Vestmannaeyingar vilji halda. Meðal þeirra forsendna sem breyst hafa er sameining íþróttafélaganna Týs og Þórs undir merki ÍBV, einnig að áhyggjuefni þyki hve hátíðin sé farin að færast mikið úr Herjólfsdal inn í bæinn sjálfan. Ofarlega í mönnum var og hverjir ættu að bera fjárhagsleg útlát vegna kostnaðar sem hlýst af löggæslu, heilsugæslu og eftirliti Eru það þeir sem að hátíðinni standa eða þeir sem að öðru jöfnu sjá um að halda uppi slíkri þjónustu í samfélaginu. Frummælendur á þinginu voru: Helga Hauksdóttir fulltrúi sýslumanns, Víðir Óskarsson fulltrúi Læknafélags Vestmannaeyja og Birgir Guðjónsson fulltrúi þjóðhátíðarnefndar. Frummælendur voru sammála um að gera ætti þjóðhátíðina að glæsilegri fjölskylduhátíð og að nauðsynlegt væri að gera hana að þeirri hátíð sem héldi uppi þeim gildum sem vera mættu til fyrirmyndar fyrir unglingana.

- Helga Hauksdóttir sagði að til þess að þessu yrði náð yrði að markaðssetja hana með það í huga og miða yrði við að leita í smiðju heimamanna eftir skemmtiatriðum. Hún velti einnig fyrir sér hvort hátíðin ætti að vera hátíð fyrir aðra en heimamenn og hversu mikið ætti að leggja í það að auglýsa hana í samkeppni við aðrar útihátíðir um Verslunarmannahelgi.

- Víðir Óskarsson varpaði fram spurningu um það hverjir það væra sem bæru ábyrgð á heilsugæslunni. Hann sagði það óásættanlegt að hafa slíkt ekki á hreinu og taldi að úr því hvorki mótshaldarar, né bæjaryfirvöld sæju sér fært að standa undir þeim kostnaði yrði að vera búið að koma því á hreint fyrir næstu þjóðhátíð. Hann sagði einn lækni á vakt á hátíðarsvæðinu allan tímann auk björgunarsveita og einn lækni á vakt á heilsugæslunni í bænum. Víðir sagði að brýnt væri að fá hjúkrunarfræðing til aðstoðar fyrir lækninn á heilsugæslunni. - Birgir Guðjónsson skoðaði málið frá sjónarhóli gamalla og góðra gilda. Og benti á að þjóðhátíð hefði alla tíð verið unnin í sjálfboðavinnu, hins vegar skildi hann vel að tímarnir væru breyttir. Það væri skylda við Eyjamenn og aðra, að halda þjóðhátíð.

- Að loknum framsögum, var orðið gefið laust. Birgir Stefánsson frá Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum vildi koma á framfæri sjónarmiðum unglinga á aldrinum 16-20 ára. Hann gaf stutt yfirlit yfir hvernig þjóðhátíðin hefði áhrif. Hún væri meira og minna í umræðunni allt árið. Hann vildi og meina að hátíðin væri orðin útiskemmtun fyrir unglinga af fastalandinu í stað þess að vera fjölskylduskemmtun heimamanna. Nanna Leifsdóttir var kölluð til og talaði sem móðir og húsmóðir. Hún vildi að hátíðin yrði markaðssett sem rómantísk fjölskylduskemmtun og að leggja yrði meiri áherslu á að gera eitthvað fyrir börnin. Hún stakk upp á því að komið yrði upp leiktækjum, Lagt yrði meira upp úr kappleikjum og þrautum og síðast en ekki síst að draga úr fylleríi og subbuskap sem væri allt of einkennandi fyrir hátíðina og vildi fá að vita hvað íþróttahreyfingin ætti að standa fyrir. Hún spurði hvort nauðsynlegt væri að fá endilega dýrustu hljómsveitirnar, sem trekktu einungis unglinga af fastalandinu. Nanna hafði einnig áhyggjur af því fólki sem væri farið að flýja Eyjar á meðan þjóðhátíð stæði yfir.

- Þorsteinn Gunnarsson sagðist vera mikill þjóðhátíðarmaður og alltaf unnið mikið í kringum hana. Hann lýsti því yfir að hin eina sanna þjóðhátíð væri sú sem færi fram í hústjöldunum. Hann hafði og áhyggjur af því sem foreldri hversu lítið væri gert fyrir börnin. Þorsteinn kom einnig inn á hátt verðlag á hátíðinni og sagði að markmiðið hjá mörgum sjoppum væri að plata fé út úr misölvuðu fólki og taldi það löst á hátíðinni. Hann hafði áhyggjur af „afætunum" sem hann kallaði svo og vildu fá sinn hluta af kökunni á kostnað íþróttahreyfingarinnar. Hann sagði þó Eyjamenn stolta af hátíðinni, en taldi þó fullorðna fólkið slæma fyrirmynd. „Hættum okrinu og tökum betur til eftir hátíðina," sagði Þorsteinn að lokum. Kristján Eggertsson vildi halda í heiðri þeirri rómantísku mynd sem flestir Eyjamenn ættu um þjóðhátíð. Hann vildi meina að „Undurfagra ævintýr..." ætti vel við ennþá sem vörumerki hátíðarinnar og að brekkusöngur og brenna ætti fullan rétt á sér, það þyrfti ekki að kaupa dýr utanaðkomandi skemmtiatriði. Hann sagði hið gamla og nýja ættu hins vegar að taka höndum saman.

- Sigurfinnur Sigurfinnsson steig í pontu og gerði kostnað við gæslu að umræðuefni. Hann spurði hvort nokkurt réttlæti væri í því að þjóðhátíðarnefnd væri að halda uppi löggæslu í bænum og bera kostnað þar af. Hann vildi einnig koma því á framfæri að mikil samkeppni væri milli veitingastaða í bænum og hátíðarinnar. Sigurfinnur vildi meina að spurning væri hvort rétt væri að loka þeim yfir þjóðhátíðina og reyna að halda fólki heldur í Dalnum, vegna þess að ráp um bæinn yki hættu á slysum og að sama skapi fylleríið. Bjartey Sigurðardóttir móðir og húsmóðir vildi efla þjóðhátíðina sem fjölskylduhátíð. Hún spurði hvort hátíðin í núverandi mynd væri fjölskylduvæn og vísaði þar í ótæpilega víndrykkju. Hún vildi að, ef vín væri haft um hönd þá yrði það eftir að börn væru farin heim. Börn og vín færa ekki saman. Hún gerði og að umtalsefni sóðaskapinn eftir hátíðina og vildi að allir Vestmanneyingar yrðu kallaðir til að lokinni hátíð til þess að hreinsa til eftir hana. Jóhann Jónsson frá Laufási hóf mál sitt á því að segja: „Bæ, bæ Vestmannaeyjar og halló Akureyri." Hann vísaði þar til samkeppninnar og þeirrar ónáttúru bæjarfélagsins að taka ekki þátt í kostnaði við löggæslu, læknisþjónustu og eftirliti. Hann sagði þessa liði vera að sliga íþróttahreyfinguna og spurning um að halda áfram á sömu braut. Jóhann tók til samanburðar að ÍBV hefði meiri tekjur af Shellmótinu heldur en þjóðhátíð og að hún myndi leggjast af innan þriggja ára með sama framhaldi. Jóhann lýsti eftir skýrri stefnu frá ÍBV í málefnum þjóðhátíðar og sagði það hámark vitleysunnar, þegar þjóðhátíð væri kennt um ófærð og gestir kæmust ekki til síns heima að henni lokinni. Stefán Jónasson harmaði það að blaðamaðurinn Þorsteinn Gunnarsson skyldi ekki tjá sig um þátt fjölmiðla í fréttum af þjóðhátíð. Stefáni þótti mjög hallað á þjóðhátíð í Eyjum á kostnað Halló Akureyri sem hann tók til samanburðar. Veifaði hann úrklippum úr DV og Morgunblaðinu um síðustu þjóðhátíð, þar sem hann sagði að DV virtist hafa sérstaklega illan bifur á þjóðhátíð.

Tryggvi til Tromsö

Tryggvi Guðmundsson, knattspyrnumaður úr ÍBV, gerði þriggja ára samning við norska liðið Tromsö. „Ég er mjög ánægður með að þetta er í höfn. Ég kem fyrst heim og fer síðan með landsliðinu til Sádi-Arabíu eftir helgina og þegar við komum úr þeirri ferð heldur maður náðug jól, fer síðan til Tromsö í byrjun árs og slær í gegn," sagði Tryggvi kampakátur í samtali við Morgunblaðið.

Skrautlegur kvennaleikur

ÍBV gerði jafntefli við Hauka í 1. deild kvenna, 20-20, í einhverjum ótrúlegasta leik sem sögur fara af hér á landi fyrr og síðar að sögn Frétta. Ingibjörg Jónsdóttir, fyrirliði ÍBV, jafnaði metin á síðustu sekúndunni en Eyjastelpur áttu svo sannarlega skilið annað stigið. En leiksins verður fyrst og fremst minnst vegna ótrúlegrar uppákomu dómaranna undir lok leiksins en gera þurfti hlé á leiknum vegna ósættis þeirra! Fréttir greina svo frá leiknum: Síðustu mínúturnar voru æsispennandi. Þegar 20 sekúndur voru til leiksloka og staðan 23-24 fyrir Hauka, braust ein stúlka Hauka í gegnum vörn ÍBV en var stöðvuð. Utidómarinn dæmdi umsvifalaust ruðning en innridómarinn dæmdi vítakast. innridómarinn sætti sig engan veginn við ákvörðun kollega síns og benti í sífellu á vítapunktinn til að ítreka dóm sinn. Upphófst nú mikil rekistefna og hnakkrifust dómararnir úti á miðjum leikvelli, fyrir framan leikmenn og áhorfendur sem trúðu ekki eigin augum. Innridómarinn hafði ekki sagt sitt síðasta og rauk að ritaraborðinu þar sem Óli Ólsen, eftirlitsdómari á karlaleik ÍBV og KA sem var strax á eftir þessum leik, sat í rólegheitum. Óli sagðist ekki skipta sér af þessu enda væri hann ekki starfsmaður leiksins. Enn þráttuðu dómararnir um sinn og lá við handalögmálum þangað til innridómarinn gaf sig og dómurinn um ruðning stóð. Þessi dómur hafði afgerandi áhrif á lokaniðurstöðu leiksins. Eyjastelpum var nefnilega dæmdur boltinn og þær brunuðu í sókn og jöfnuðu leikinn á síðustu sekúndu leiksins. Þar var að verki Ingibjörg Jónsdóttir fyrirliði. Eyjastelpur fögnuðu innilega en Haukastúlkur voru vægast sagt bálreiðar út í dómara leiksins, þá Guðmund Stefánsson og Tómas Sigurdórsson. Þeir héldu rifrildi sínu áfram að leik loknum alla leið inn í búningsklefa.

ÍBV missti takið

Íslandsmeistarar KA sigruðu ÍBV í Eyjum 25-31, í hörkuleik í Nissandeildinni. Eyjamenn höfðu haft tak á KA í gegnum árin en ekki dugði það að þessu sinni. Þetta var fyrsti sigur norðanmanna á ÍBV í fjögur ár, takk fyrir. Þrátt fyrir að tvo lykilmenn vantaði í KA voru þeir mun sprækari en fyrr í haust þegar þeir voru rassskelltir hér í bikarnum af ÍBV. Enda sagði þjálfari KA að leik loknum að hann hefði alveg verið til í að skipta á úrslitum leikjanna svo að sínir menn væru enn með í bikarnum! Mörk ÍBV: Zoltan Belánýi 9/2, Haraldur Hannesson 4, Hjörtur Hinriksson 3, Svavar Vignisson 3, Erlingur Richardsson 3, Guðfinnur Kristmannsson 2, Robertas Pauzuolis 1. Varin skot; Sigmar Þröstur 10.

ÍBV fékk Dragostyttuna

Á ársþingi Knattspyrnusambands Íslands var knattspyrnuliði ÍBV afhent Dragostyttan svonefnda en hún er afhent því liði sem hlaut fæst refsistigin á Íslandsmótinu í sumar og er þar af leiðandi prúðasta lið mótsins. Annað árið í röð kom styttan í hlut ÍBV.

Staðan um áramótin

Um áramótin var karlalið ÍBV í handboltanum í 8. sæti Íslandsmótsins með 8 stig og 8 mörk í mínus. Kvennalið ÍBV var í 5. sæti með 11 stig og 5 mörk í mínus. Að venju voru áramótin kvödd með brennu í gryfjunni við Hástein sem ÍBV íþróttafélag stóð fyrir.

Þannig leið fyrsta starfsár ÍBV íþróttafélags.

Með töpum og sigrum, stórum stundum og  öflugu starfi hinna fjölmörgu stuðningsmanna félagsins.

Strax á þessu fyrsta ári félagsins unnust Íslandsmeistaratitlar, en starfið var líka öflugt að öðru leyti. Við sameiningu félaganna heltust ýmsir góðir starfskraftar úr lestinni sem áður unnu fyrir Þór og Tý,  en aðrir komu líka í staðinn. Við sameininguna tókust á sterkar tilfinningar og skynsemi. Í dag eru sennilega flestir orðnir sammála um að sameining félaganna var skynsamleg, en hún þurfti bara sinn tíma.

1998 -

Bikarmeistartitill – fólk féllst í faðma og tár blikuðu

Karlalið ÍBV tryggði sér bikarmeistaratitilinn  í  knattspyrnu 30. ágúst 1998, -  þegar það sigraði Leiftur frá Ólafsfirði 2 - 0 í úrslitaleik keppninnar á Laugardalsvelli. Fögnuður Eyjamanna, bæði á leikvellinum og í stúkunni, var mikill í leikslok og margir stundu: Loksins, loksins. ÍBV íþróttafélag og áður Íþróttabandalag Vestmannaeyja, lék nú til úrslita þriðja árið í röð en tvö síðustu árin á undan þurftu Eyjamenn  að sætta sig við tap. Það var því mikil gleði sem ríkti þegar flautað var til leiksloka, fólk féllst í faðma, hrópaði, klappaði og söng og hjá mörgum mátti sjá tár blika á hvarmi.

Stemmningin á leiknum var frábær og náði hámarki í leikslok þegar Hlynur fyrirliði hóf bikarinn á loft, enda ætlaði fagnaðarlátunum á Laugardalsvelli aldrei að ljúka.

ÍBV liðið sigldi til Eyja með Herjólfi eftir leikinn, með bikarinn í farteskinu, og var tekið á móti liðinu á glæsilegan hátt er það kom til hafnar í Eyjum. Þegar fánum prýddur Herjólfur sigldi inn á höfnina með leikmennina og bikarinn á brúarvængnum, var flugeldasýning á hafnargarðinum og í Friðarhöfn og lúðrar voru þeyttir. Mikill mannfjöldi var á Básaskersbryggjunni, bryggjan nánast full af fólki og bílum, og gífurleg gleði ríkjandi.

Eftir móttökuna á Básaskersbryggju var boðið til fagnaðarhátíðar í veitingatjaldinu í Herjólfsdal þar sem fagnað var fram eftir nóttu.

Þú þekkir þá alla Davíð, er það ekki

Þegar Davíð Oddsson, forsætisráðherra, heilsaði upp á leikmenn fyrir bikarúrslitaleikinn kom hann fyrst að Hlyn fyrirliða og heilsaði upp á hann. Síðan er það venjan að fyrirliðinn gangi með heiðursgestinum og kynni leikmennina fyrir honum. Hlynur var meira með hugann við leikinn en formsatriðin fyrir leik og náði ekki að fylgja ráðherranum eftir sem var að flýta sér í skjól undan rigningunni. Hann kveikti svo á perunni þegar Davíð var hálfnaður að heilsa leikmönnunum og fór þá til hans og sagði. „Það þarf ekkert að kynna þá sérstaklega fyrir þér. Þú þekkir þá alla, er það ekki? Þetta eru sömu strákar og undanfarin tvö ár."

Íslandsmeistaratitill hjá 2. flokki kvenna í knattspyrnu

2. flokkur kvenna í knattspyrnu varð Íslandsmeistari í endaðan ágúst 1998. Í úrslitakeppninni sigruðu þær Fjölni 4-0 og Breiðablik 4-0 og voru þar með komnar í úrslitaleikinn sem var gegn Val. Þann leik sigruðu þær 3-1 með marki Hjördísar Halldórsdóttur og tveimur mörkum Bryndísar Jóhannesdóttur. Þar með var Íslandsmeistaratitillinn  í höfn.

Íris Sigurðardóttir fyrirliði sagði í viðtali við Fréttir að mórallinn hefði verið mjög góður. „Ég held að við höfum spilað sem heilsteypt lið með sterka liðsheild. Auðvitað er alltaf smá fiðringur fyrir svona mikilvæga leiki, en við vorum staðráðnar í að sigra og koma með dolluna til Vestmannaeyja. Við þökkum Heimi fyrir frábært sumar og á hann stóran þátt í árangrinum“.

Komu sáu og sigruðu KR – Íslandsmeistarar 2. árið í röð

Leikur KR og ÍBV í lokaumferð Landssímadeildarinnar árið 1998 er einn af fjölmörgum eftirminnilegum leikjum  -   kannski ekki hjá KR-ingum,  heldur hjá Íslandsmeisturum ÍBV  og Vestmannaeyingum öllum.

Í Morgunblaðinu var sagt svo um leikinn:

„Stemmningin var frábær í Frostaskjóli löngu fyrir leik. Þegar flautað var til leiks var greinilegt að dagsskipun KR-liðsins var að leika til sigurs. Strax var blásið til sóknar í herbúðum þeirra, þar sem aðeins sigur færði KR-ingum hinn langþráða Íslandsmeistaratitil, sem þeir unnu síðast fyrir þrjátíu árum, 1968. 

Hugsunin um sókn var það sterk, að leikmenn KR-inga sofnuðu á verðinum og voru slegnir út af laginu eftir aðeins 4 mínútur.  Þá vann Kristinn Hafliðason knöttinn, náði að rífa sig frá tveimur KR-ingum og senda glæsilega sendingu inn fyrir vörn KR, þar sem Ingi Sigurðsson var á réttum stað og sendi knöttinn í netið. Óvænt óskabyrjun Eyjamanna var þeim óneitanlega dýrmæt. Þeir voru með réttu komnir tveimur mörkum yfir, þannig að þrautin var KR-ingum þyngri. Eyjamenn náðu mjög góðum tökum á miðjunni, sem gerði það að róðurinn var afar þungur fyrir leikmenn KR, sem urðu á augabragði yfirspenntir og greinilegt var að þeir þoldu ekki hið mikla álag sem var á þeim. Í seinni hálfleik voru KR-ingar búnir að missa trúna á að geta sigrað leiknum og Eyjamenn fögnuðu gríðarlega í leikslok,

Móttökurnar í Eyjum ógleymanlegar

Jóhannes Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar var að vonum kátur eftir Íslandsmeistaratitlinum var náð. Í viðtali við Fréttir sagði hann: „Þetta er stærsta stund í íþróttum í Vestmannaeyjum að vinna tvöfalt í knattspyrnu sem er langvinsælasta íþróttin hér," sagði Jóhannes. „Vestmannaeyingar geta verið stoltir af sínum mönnum þó við höfum orðið að sækja menn annað. En þessi blanda hefur smollið saman og erum við að sjá árangurinn af því. Stuðningsmenn hér og uppi á landi hafa verið frábærir og eiga stóran hlut í árangrinum." Hann sagði að móttökurnar í Eyjum verði ógleymanlegar, bæði þegar þeir komu með Herjólfi og móttaka bæjarstjórnar á sunnudagskvöldið á Hertoganum. „Að sjá allan þann fjölda sem tók á móti okkur sýnir mikilvægi íþrótta fyrir Eyjamenn.

10 milljónir

Í mars 2009 afhentu Krókódílarnir handknattleiksráði ÍBV styrk að upphæð 10 milljónir króna. Styrkurinn, sem Krókódílarnir afhentu með formlegum hætti var það sem safnast hafði með félagsgjöldunum undanfarin fjögur ár á undan.

Krókódílar er óformlegur félagsskapur sem hefur það að markmiði að styðja við handboltann í Vestmannaeyjum. Mánaðarlega greiða þeir félagsgjald og innifalið í félagsgjaldinu er aðgangur að öllum deildarleikjum ÍBV í handboltanum.

En einnig hefur  félagsskapurinn að markmiði að hjálpa til með öðrum fjáröflunum. 

Malarvöllurinn ónýtur?

Knattspyrnumenn ÍBV sendu bæjarráði Vestmannaeyja bréf fyrir leiktímabilið 1999,  þar sem þeir benda á slæmt ástand malarvallarins við Löngulág.  Endurbætur á vellinum þóttu ekki vel heppnaðar og völlurinn í raun hættulegur. Benda þeir jafnframt á aðstöðumun milli ÍBV og liða á höfuðborgarsvæðinu og hversu dapurlegt það sé að Íslands- og bikarmeistarar skuli búa við slíka æfingaaðstöðu.

Stuðningsmannaklúbburinn flautaði til leiks

Stuðningsmannaklúbbur Íslands- og bikarmeistara ÍBV flautaði til leiks fyrir sumarið 1999 með aðalfundi sem haldinn var á Lundanum. Var ágætis mæting, eða um 30 manns. Þar var rætt um starfsemi klúbbsins, kosin ný stjórn og svo sátu fulltrúar ÍBV-liðsins fyrir svörum. Haraldur Þórarinsson var nýr formaður stuðningsmannaklúbbs ÍBV. Með honum í stjórn voru: Jósúa Steinar Óskarsson, Lúðvík Jóhannesson, Heiðar Egilsson, Tryggvi Már Sæmundsson, Ástþór Jónsson og Guðmundur Erlingsson. 

Simmi hættir

Fyrir leiktímabilið 1999-2000 tilkynnti Sigmar Þröstur Óskarsson, einn besti handboltamarkvörður landsins, að hann hafi ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir 23 ár í meistaraflokki.  Simmi hefur marga fjöruna sopið á þessum tíma.  Simmi hóf ferilinn 15 ára gamall, árið 1976 með Þór og eftir að meistaraflokkarnir voru sameinaðir í ÍBV, stóð Simmi áfram í markinu.  Auk þess að spila með þessum tveimur félögum, lék hann með Stjörnunni og KA. „Þetta er búið að vera mjög gaman en það sem mér þykir verst er að hafa ekki náð meistaratitli með ÍBV,“ sagði Simmi í viðtali í Fréttum. 

Kaffispjall á ný

Á fyrstu dögum ársins 2000 birtist auglýsing í bæjarblöðunum, frá ÍBV íþróttafélagi. Þar er tilkynnt að endurvekja eigi hina vikulega kaffifundi. Þeir verði framvegis í Týsheimilinu kl. 9.30 á fimmtudagsmorgnum. Þessir kaffifundir stuðningsmanna hafa haldið út alla tíð síðan.

Íslandsmeistarar

Kvennalið ÍBV í handbolta mætti Gróttu/KR í þriðja leik úrslitaviðureignar liðanna um Íslandsmeistaratitilinn,  í Eyjum árið 2000. Fyrri hálfleikur var í járnum að flestu leyti, liðin leiddu bæði um tíma en þegar á leið komst Grótta/KR tveimur mörkum yfir 8-10 og liðið leiddi í hálfleik 9-11. Amela Hegic byrjaði leikinn af krafti og skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum ÍBV ásamt því að leggja upp það fimmta. Vigdís Sigurðardóttir var einnig fljót að finna sig í markinu, varði alls níu skot í fyrri hálfleik og átti eftir að láta mikið til sín taka seinna í leiknum.

Sigbjörn Óskarsson þjálfari tók leikhlé og barði baráttuandann í stelpurnar í seinni hálfleik. Liðið tók leikinn í sínar hendur upp frá því og varnarleikur liðsins var ógurlegur og bak við múrinn stóð Vigdís sem varði eins og berserkur.

Það tók ÍBV aðeins rúmlega tvær mínútur að jafna leikinn, 15-15 og aðrar tvær mínútur að ná tveggja marka forystu. ÍBV hafði þar með breytt nánast töpuðum leik í opinn og skemmtilegan leik þar sem ÍBV hafði undirtökin og sigraðu 19-17.

Ingibjörg línumaður

„Innst inni þá trúði ég því að við gætum þetta," sagði Ingibjörg Jónsdóttir fyrirliði við Fréttir eftir leikinn. „Þetta er alveg æðislegt. Frábært að vinna Íslandsmeistaratitilinn fyrir fullu húsi hér í Vestmannaeyjum. Ég á bara ekki til orð yfir þetta. Þetta er toppurinn," og þar með hvarf fyrirliðinn í kossaflóðið.“

Kostnaður við Þjóðhátíð of mikill

Þjóðhátíðarnefndin mætti á fund aðalstjórnar. 25. apríl árið 2000, en Þjóðhátíðarnefndina  skipa, Birgir Guðjónsson, Ólafur Týr Guðjónsson, Sigurfinnur Sigurfinnsson, Friðberg Sigurðsson, Tryggvi Már Sæmundsson, Sigurður Þórarinsson og Stefán Agnarsson. Var rætt um síðustu þjóðhátíð og hvernig til tókst. Voru menn sammála  um að lækka þurfi kostnað við Þjóðhátíðarhaldið og var rætt hvernig það megi gerast.

Fyrsta skóflustungan

Fyrsta skóflustungan að nýjum íþróttasal við íþróttamiðstöðina var tekin á þjóðhátíðardaginn, 17. júní árið 2000. Skóflustunguna tóku fulltrúar aðildarfélaga Íþróttabandalagsins, allt ungir krakkar, og Guðjón Hjörleifsson bæjarstjóri og Birgir Sveinsson varaformaður Íþróttabandalagsins. Íþróttasalurinn rúmar tvo handboltavelli. Salurinn var svo tekinn í notkun haustið 2001.

Jarðskjálfti setti svip sinn á Vöruvalsmótið

Hið árlega pæjumót, sem árið 2000 var kallað Vöruvalsmót ÍBV,  varð eftirminnilegt.  Óhætt er að segja að mikið hafi gengið á.  Jarðskjálftinn á 17. júní setti mark sitt á mótið. Einn leikur var í gangi þegar jörðin hristist. Fljótlega kom í ljós að engin slys urðu á þátttakendum en nokkuð stór hópur frá Breiðabliki var við Sprönguna og rigndi steinum yfir þær. Nokkrar hlutu marbletti og þær fengu strax áfallahjálp. Var ekki annað að heyra á foreldrum stúlknanna en að ánægja væri með hvernig mótshaldarar brugðust við.

Hólsararnir

Þrátt fyrir ágætt gengi ÍBV liðsins í 1. deildinni í knattspyrnu hafa vitringarnir á Hólnum bara versnað ef eitthvað er í athugasemdum sínum og glósum, ekki bara um andstæðingana heldur líka um leikmenn ÍBV liðsins. Þetta mátti lesa í dálknum Orðspor í Fréttum í ágúst árið 2000. Þar segir einnig að  Guðmundur Þ.B. Ólafsson fyrrverandi framkvæmdastjóri ÍBV hafi séð sig knúinn vegna þessa að rita pistil í Fréttir og áminna þessa karla, vildi fá þá til að vera jákvæðari. Einnig fengu þeir á Hólnum óblíðar kveðjur í Leikskrá ÍBV.  „Í leiknum gegn KR mætir svo Atli á Steypustöðinni eins og vanalega á Hólinn fyrir leikinn. Hafði hann á orði að hann þyrði varla lengur að láta sjá sig þarna eftir fjölmiðlafárið um Hólsarana.  Þá kemur Frikki sendibílstjóri aðvífandi, tekur í sama streng og Atli en bætir svo við: „Ég skil nú bara ekkert í þessum skrifum. Ég hef ekki sagt eitt einasta styggðaryrði um þessa djöfulsins vitleysinga."

2. flokkur kvenna bikarmeistari árið 2000

2. flokkur kvenna í knattspyrnu varð bikarmeistari eftir sigur á KR í úrslitaleiknum sem fram fór á Hvolsvelli. Úrslitin urðu 4 - 2 eftir að KR-stelpur höfðu haft frumkvæði í leiknum framan af. Leikurinn var fjörugur, sex mörk og eitt rautt spjald. Jón Ólafur, þjálfari stelpnanna, var að vonum ánægður með sigurinn. „Ég var mjög ánægður með allt liðið en ef ég á að nefna einhver nöfn þá voru Elfa Ásdís Ólafsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir að spila frábærlega en Kelly átti líka góðan leik." sagði Jón Ólafur Daníelsson þjálfari liðsins. Mörk ÍBV: Kelly Shimmin 2, Margrét Lára Viðarsdóttir 2.

Jónsmessuhátíðin flutt í Skvísusund

Árleg Jónsmessuhátíð ÍBV var haldin í Skvísusundi í kringum jónsmessuna með tilheyrandi gleði til anda og efnis ef svo mætti að orði komast. Reyndar var  Jónsmessuhátíðin í Eyjum fyrst haldin á Breiðabakka og þá í umsjón Íþróttafélagsins Þórs. Síðan var hún færð í Herjólfsdal  en sökum skriðufalla í fjöllum Eyjanna sem afleiðing jarðskjálftanna  árið 2000, þótti ekki forsvaranlegt að Eyjamenn veltu sér upp úr Jónsmessudögginni það árið á slíkum háskastöðum. Þess vegna girtu þeir ÍBV bændur Skvísusundið af í báða enda og buðu upp á margvíslega skemmtan og þá aðallega fyrir hlustirnar.

Að öllu leyti fór hátíðin vel fram eftir því sem unnendur sannleikans segja. Ekki komu upp nein vandamál og auðsjáanlegt að fólk hafði komið til þess að skemmta sér.  Þegar flest var munu alls um tvöhundruð manns hafa verið á hátíðinni.

Loksins loksins

Knattspyrnulið ÍBV hjá körlunum þótti hafa valdið flestum stuðningsmönnum sínum vonbrigðum sumarið 2000, bæði með stöðu liðsins í deildinni sem og spilamennsku. Botninum var náð  þegar liðið tapaði á útivelli gegn Stjörnunni með tveimur mörkum gegn engu og var liðið farið að síga skuggalega mikið niður töfluna. En strákarnir voru meðvitaðir um eigið ágæti og vildu umfram allt sýna Eyjamönnum og öðrum stuðningsmönnum liðsins hversu öflugir þeir í raun voru. Á sunnudagskvöld fyrir Þjóðhátíð heimsótti ÍBV liðið Fram og er óhætt að segja að leikmenn liðsins hafi boðið upp á flugeldasýningu af bestu og fjölbreyttustu gerð. Lokatölur leiksins þýddu stórsigur ÍBV, 6-1 gegn andlausum andstæðingum sem verða að teljast heppnir að sleppa svo vel.

Hlynur bestur og hann og Íris í liði ársins

Lokahóf KSÍ árið 2000 fór fram um mánaðamótin september/október og eins og undanfarin ár var hófið hið glæsilegasta. Hápunktur kvöldsins var þegar tilkynnt var um val á bestu leikmönnum Landssímadeildarinnar og að sjálfsögðu var Hlynur Stefánsson valinn besti leikmaður mótsins, ásamt því að vera í liði ársins, einn leikmanna ÍBV. Hlynur sagði að sjálfsögðu væri þetta mikill heiður fyrir sig. „Það að vera valinn besti leikmaður mótsins af öðrum leikmönnum gerir þetta auðvitað mjög sérstakt og óhætt að segja að heiðurinn sé kannski enn meiri fyrir vikið. Maður er náttúrlega alveg í skýjunum með þetta en kannski er þetta bara samvinna milli leikmanna að losna loksins við mig úr þessu." Íris Sæmundsdóttir var ennfremur í liði ársins og var vel að þeirri viðurkenningu komin.

Steingrímur á förum

Haustið 2000 ákvað markahrókurinn Steingrímur Jóhannesson að yfirgefa ÍBV. Steingrímur var ekki ánægður með hlutverk sitt í liðinu undanfarin tvö ár og segist hann hafa verið ósköp einmana sem fremsti maður.  Í  viðtali við Eyjafréttir sagði hann: „Ég var einn að berjast þarna frammi og fékk litla aðstoð.

Skilurðu sáttur við ÍBV? „Já. Ég held að ég geti sagt það en ég var ekki ánægður í sumar. Það var ýmislegt sem betur mátti fara. Stjórnin var að reyna að semja við mig og af því að ég var ekki tilbúinn að ganga að kröfum hennar urðu menn ósáttir. Þetta hafði áhrif á minn leik og ég datt út úr liðinu. Svo beit maður bara á jaxlinn og ég náði sætinu aftur."

Áttu eftir að bœta þig sem knattspyrnumaður? „Það er alltaf hægt að bæta sig og fótboltinn er alltaf að breytast. Þetta er ein ástæðan fyrir því að mig langar til þess að fara erlendis. Síðasta sumar var ég lítið í boltanum og mér fannst ég vera fastur í ákveðnu fari. Það þýðir bara afturför. Aðstaðan hérna er heldur ekki til að hrópa húrra fyrir," segir Steingrímur og á þar við malarvöllinn og hörð vetrarveður. „Okkur vantar  skemmu til að æfa í frekar en gervigras."

Tími breytinga

Tímabilið 1999-2000 var tími mikilla breytinga hjá meistaraflokki karla ÍBV í handbolta. Eftir að Þorbergur Aðalsteinsson hvarf á braut var ráðinn Boris nokkur Akbasev og var hann með nokkuð aðrar áherslur sem er eðlilegt. Róttækar breytingar voru gerðar á leikstíl liðsins, varnarleikurinn færður framar á völlinn og áttu strákarnir nokkuð erfitt með að venjast því. Seinni hluta deildarkeppninnar var ÍBV hins vegar óstöðvandi, var með langbestan árangur allra liða eftir áramót og endaði deildarkeppnina í fimmta sæti, með jafn mörg stig og Haukar sem höfðu betur í innbyrðis viðureignum liðanna og fengu þeir því heimaleikjaréttinn gegn ÍBV. Menn mættu þokkalega bjartsýnir til leiks en Haukarnir sýndu hins vegar styrk sinn og sigruðu ÍBV í þriggja leikja seríu en Haukar urðu svo Íslandsmeistarar.

Bikarinn til Eyja

Bikarúrslitaleikurinn milli ÍBV og Hauka í kvennaliðunum árið 2001 er eftirminnilegur.  Ekki verður hans minnst fyrir góðan handknattleik heldur fyrst og fremst vegna þess að hann var mikil skemmtun þar sem dramatíkin og spennan voru allsráðandi allt til loka. Það þarf varla að taka það fram að ÍBV sigraði í leiknum eftir mikla baráttu og framlengdan leik, 21 -19.

Strax í upphafi leiks var ljóst að taugar beggja liða voru þandar til hins ýtrasta. ÍBV byrjaði leikinn betur og fyrstu tvö skotin rötuðu rétta leið hjá leikmönnum liðsins. ÍBV komst í 2-0 en Haukar svöruðu með þremur mörkum og leiddu nánast allan hálfleikinn með tveimur til þremur mörkum. Í hálfleik var staðan 6- 8 fyrir Hauka, lítið skorað enda var sóknarleikur liðanna slakur en varnarleikur að sama skapi góður. Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri, Haukar leiddu nánast allan leikinn og ÍBV hélt sér inni í leiknum. ÍBV komst reyndar yfir um miðjan hálfleikinn þegar Edda B. Eggertsdóttir kom ÍBV í 14-13 en aftur náðu Haukar að svara fyrir sig með 2 mörkum og komust þar með yfir.

Mikil taugaspenna var í liðunum í byrjun leiks en ekki minnkaði hún þegar á leið og var t.d. ekki skorað mark á níu mínútna kafla undir lok leiksins. Haukar skoraðu sitt sautjánda mark þegar aðeins tvær mínútur voru eftir til leiksloka. En Eyjastúlkur sýndu úr hverju þær voru gerðar og knúðu fram sigur í framlengingu.

ÍBV lék ekki vel í leiknum gegn Haukum, sérstaklega var sóknarleikur liðsins slakur en þegar tekið er með í reikninginn hversu mikið er í húfi er það vel skiljanlegt. Varnarleikur liðsins var ágætur og Vigdís Sigurðardóttir varði mjög vel og hélt liðinu inni í leiknum þegar mest á reyndi.

Of langt til Eyja

Þriðji flokkur karla átti að leika gegn ÍR á vordögum 2001. Í Fréttum var sagt að  eins og svo margir halda virðist leiðin frá Reykjavík til Eyja vera mun lengri en frá Eyjum til Reykjavíkur. ÍR-ingar sáu sér ekki fært að halda í slíka langferð, alla leið frá Breiðholti, niður á flugvöll og svo í flugvél alla leið til Eyja og því sigraði ÍBV í annað sinn í vetur á því að lið mæta ekki til leiks.

10 Eyjapeyjar í byrjunarliðinu

Eyjamenn tóku á móti frískum FH-ingum í knattspyrnu í sínum fyrsta heimaleik í árið 2001. Síðustu árin á undan hafði ÍBV verið ósigrandi á heimavelli, ef frá er talinn síðasti heimaleikur síðasta árs, og engin breyting varð þar á. Jafntefli, 0-0 varð niðurstaðan eftir frekar kaflaskiptan leik þar sem ÍBV var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik en gestirnir voru frískari í þeim síðari. Það er í frásögur færandi að í þessum leik voru tíu leikmenn í byrjunarliði ÍBV sem eru uppaldir hjá félaginu. Voru  ár og dagar síðan það hafði gerst.      

Það leyndist hins vegar engum að  uppbyggingartímabil var í karlaboltanum og ánægjulegt að

sjá að fjórtán af sextán leikmönnum ÍBV voru Eyjapeyjar í húð og hár en Njáll Eiðsson var óhræddur við að láta ungu strákana axla ábyrgðina strax og þannig öðlast dýrmæta reynslu.

Þjóðhátíðin nálgast

Á fundi aðalstjórnar 11. apríl 2001 mætti Þjóðhátíðarnefnd, til að fara yfir næstu Þjóðhátíð. Á fundinum kom fram vilji aðalstjórnar að fá bókhald Þjóðhátíðar inní félagið og einnig að koma af stað beiðnakerfi við undirbúning hennar og að engum verði heimilt að skrifa á félagið nema gegn beiðni. Samþykkt var að athuga hvort hægt væri að fá vinnuskólann eða hreinsunarnefnd bæjarins til að aðstoða við hreinsun Herjólfsdals eftir Þjóðhátíð. Einnig að tryggja að einhver frá barnaverndarnefnd, sálfræðingur og aðili frá áhaldahúsinu o.fl. séu til reiðu meðan á Þjóðhátíð stendur, en oft þarf að leita til þessara aðila. Rætt var um neyðaráætlun fyrir farþega sem ekki komast frá Eyjum eftir Þjóðhátíð vegna veðurs. Þá var upplýst að öll rafmagnstæki úr Dalnum væru ónýt eftir brunann í Ísfélaginu. Taka þarf stefnu í  rafmagnsmálum Dalsins.

Veðurblíða einkenndi Þjóðhátíðina

Það sem einkenndi þjóðhátíðina 2001 var einmuna veðurblíða alla þjóðhátíðardagana.

Föstudagur í þjóðhátíð heilsaði bjartur og fagur og setti það skemmtilegan svip á setningu þjóðhátíðar sem var óvenjulega vel sótt. Heimafólk mætti prúðbúið til setningar eins og verið hafði undanfarnar hátíðir.  Setningin var hefðbundin með lúðrablæstri, kórsöng og hugvekju Kristjáns Björnssonar sóknarprests. Þór Vilhjálmsson, formaður ÍBV- íþróttafélags, setti hátíðina og Gunnlaugur Ástgeirsson flutti hátíðarræðuna.

3. sætið

Síðasti leikur  meistaraflokks ÍBV kvenna í knattspyrnu árið 2001 var gegn Þór/KA/KS og var leikið á Hásteinsvelli. Lokatölur urðu 8-1 fyrir ÍBV. Liðið hafnaði í 3ja sæti Íslandsmótsins. Var þetta besti árangur  liðsins frá upphafi, það komst líka í  undanúrslit bikarkeppninnar. Heimir  Hallgrímsson þjálfari liðsins var ákveðinn í að hætta eftir þriggja ára starf.  „Já alveg harðákveðinn og í sjálfu sér er það engin frétt þar sem það hefur alltaf staðið til." Sagði Heimir við Fréttir.

Við hlutverki Heimis tók Elísabet Gunnarsdóttir.

Aldrei stopp

Það er aldrei stopp hjá ÍBV íþróttafélagi. Og þegar keppni í knattspyrnunni lýkur halda æfingar áfram hjá yngri flokkunum og handboltinn tekur flugið.  Fyrsti leikurinn hjá meistaraflokki karla í handboltanum, undir stjórn Sigbjörn Óskarssonar var gegn KA á Eyjum. Leiknum lauk með sigri  ÍBV 30-29. Sigbjörn sagði í viðtali við Fréttir „Við lögðum upp með það fyrir mótið að klára alla leikina hérna heima og við vissum að við eigum góða möguleika í þeim leikjum. Við misstum markmanninn okkar út fyrir leikinn þannig að það kom í hlut tveggja manna sem lítið hafa spilað undanfarin ár, að verja markið sem þeir gerðu ágætlega. Svo vorum við að fá síðasta leikmanninn til okkar fyrir þremur dögum þannig að við eigum eftir að bæta okkur og þróa okkar leik.“

Bingó

Með reglulegu millibili voru haldin bingó í Þórsheimilinu til styrktar unglingastarfi ÍBV íþróttafélags. 22. nóvember eru þessir munir í vinninga: Vídeo frá Geisla - Peningapottur -Fondu pottur og koníakssett frá Gullbúðinni. - Kertastjaki og skál frá Eyjablóm.- Gjafabréf frá Vöruval og Bifreiðaverkstæði Harðar og Matta. - Lampi og hilla frá Reynistað.  

Björn fær viðurkenningu

Á  aðalfundi Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands árið 2001 fékk Björn Elíasson ÍBV viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka félags síns. Hann hafi lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfarastéttinni til sóma við störf sín segir í frétt frá KÞÍ.

Nýtt íþróttahús

Nýtt og glæsilegt íþróttahús var vígt í endaðan desember árið 2001 og lætur nærri að tæplega 1000 manns hafi mætt á vígsluhátíðina. Með þessu húsi voru Eyjamenn komnir í fremstu röð varðandi aðstöðu fyrir íþróttamenn og með þessu húsi ættu æfingatímar ungra íþróttamanna að færast til og  stefnt að því að allir æfingatímar verði búnir klukkan 21.30. Aðstaða fyrir áhorfendur tók einnig stakkaskiptum og ætti að vera hvati fyrir Eyjamenn að fjölmenna á kappleiki í framtíðinni.

Í  húsinu er einn keppnisvöllur, tveir löglegir handboltavellir, sex minni handbolta- og knattspyrnuvellir, tíu badmintonvellir, þrír blakvellir, tveir körfuboltavellir og fjórir búningsklefar. Sæti og bekkir eru fyrir 800 manns og húsið er í heild 3100 fermetrar.

Bikarinn áfram í Eyjum

Kvennalið ÍBV í handbolta varði bikarmeistaratitilinn árið 2002,  þegar liðið sigraði Gróttu/KR örugglega 22-16 þar sem öflugur varnarleikur skóp sigurinn.  Þó að leikurinn hafi aldrei komist á spennustigið vegna yfirburða ÍBV var hann aldrei leiðinlegur og tefldu Eyjamenn fram einu skemmtilegasta kvennaliði sem sést hefur til hér á landi. Oft var taugatitringur í liðum fyrir þessa leiki en það var eins og ÍBV liðið hafí ekki haft neinar áhyggjur af því. Leikmennirnir spiluðu allir mjög vel, varnarleikurinn skipti miklu og á bak við varnarmúrinn var besti markvörður landsins.

Mörk IBV: Theodora Visokaite 6, Ana Peréz 6/3, Dagný Skúladóttir 5, Ingibjörg Jónsdóttir 3, Andrea Atladóttir 2.

Varin skot: Vigdís Sigurðardóttir 14, Íris Sigurðardóttir 1.

„Það kom okkur mjög á óvart hversu litla mótspyrnu við fengum," sagði Andrea Atladóttir í samtali við Fréttir eftir leikinn. „Ég held að það sem skildi liðin fyrst og fremst að var það hversu vel undirbúnar við vorum. Það var engin taugaveiklun í liðinu, við vorum með kollinn í lagi og þá gengur allt upp. Þær virtust vera stressaðar og það er mjög erfitt. Við unnum þetta hins vegar fyrst og fremst á sterkri vörn, þær komust hvorki lönd né strönd gegn okkur í fyrri hálfleik en svo var maður alltaf að bíða eftir slæma kaflanum. Við töluðum um það í hálfleik að það væri kannski bara ágætt að sleppa honum í þetta skiptið og það gerðum við."

Mikill mannfjöldi tók á móti nýkrýndum bikarmeisturum ÍBV í kvennahandboltanum þegar liðið kom með Herjólfi eftir frækilegan sigur. Skotið var upp flugeldum þegar Herjólfur lagðist að bryggju. Erfitt er að gera sér grein fyrir því hvað margir voru á bryggjunni þegar Herjólfur kom en hópurinn var myndarlegur og fagnaði hann stúlkunum innilega bæði með bílflautum og lófaklappi. Fyrst voru þær leiddar upp á pall framan við afgreiðslu Herjólfs. Þegar skipið kom inn höfnina var kveikt á blysum á Skansinum en flugeldum var skotið upp á Friðarhafnarbryggjunni þegar skipið lagðist að bryggju.

Keppnisleyfi Hásteinsvallar afturkallað enn og aftur

Enn og aftur var aðstaðan á Hásteinsvelli komin inn á borð bæjarstjórnar. Sumarið 2002 var keppnisleyfi vallarins afturkallað af KSÍ þar sem ekki hafði verið staðið við gerð stúku við völlinn. Því var kippt í liðinn með þeim formerkjum að völlurinn hefði  leyfi til næstu fimm ára. Á fundi íþrótta- og æskulýðsráðs þann 3. janúar 2003 gerði íþróttafulltrúi grein fyrir fundi sem hann átti með fulltrúum KSÍ og íþróttahreyfingarinnar í Eyjum ásamt bæjarstjóra vegna reglugerða sem snúa að keppnisleyfum fyrir knattspyrnuvelli þar sem leikið var í efstu deild. Fram kom á fundinum að útgefið leyfi til næstu fimm ára væri ekki lengur í gildi en undanþágu er hægt að veita svo fremi sem lögð sé fram áætlun og samþykktir sem taka mið af því að girða svæðið af. Eins væri stúkan nýreista ekki lengur nægilega góð, því nú væri talað um yfirbyggða stúku. Var þetta vegna reglugerðar Knattspyrnusambands Evrópu. ÍBV-íþróttafélag þurfti að sækja um undanþágu í byrjun mars og áætlunin þá tilbúin.

Sigur hjá þriðja flokki

Laugardaginn 8.febrúar 2003 lék þriðji flokkur karla gegn FH. Leikurinn var jafn og spennandi en Eyjapeyjar höfðu þó alltaf undirtökin og staðan í hálfleik var 13-12 fyrir ÍBV. Í seinni hálfleik voru strákarnir ávallt skrefi á undan þar til undir lokin að þeir náðu að hrista Hafnfirðinga af sér og sigra með fjórum mörkum 24-20. Mörk ÍBV: Grétar Eyþórsson 7, Jens K. Elíasson 5, Vignir Svavarsson 5, Baldvin Sigurbjörnsson 4, Hilmar Björnsson, Leifur Jóhannesson og Magnús Sigurðsson 1.

ÍBV Íslandsmeistari

Fjórði flokkur kvenna lék í úrslitum í Íslandsmótinu í innanhússknattspyrnu 2003,  sem fór fram í Austurbergi. Á fyrsta keppnisdegi fóru fram undanriðlar en þar var leikið í tveimur þriggja liða riðlum og tvö efstu liðin komust í undanúrslit. ÍBV var í riðli með Einherja og Víkingi Reykjavík og unnu stelpumar báða leikina nokkuð örugglega. Í undanúrslitum mætti ÍBV Haukum og urðu lokatölur þar 2- 1 fyrir ÍBV en mörk ÍBV skoruðu þær Svava Kristín Grétarsdóttir og Kolbrún Inga Stefánsdóttir.  Í úrslitaleiknum sjálfum mætti ÍBV Grindavík. Leikurinn var æsispennandi og komst ÍBV yfir 1-0 . Grindvíkingar svöruðu með tveimur mörkum en Eyjastúlkur börðust vel og skoruðu síðustu tvö mörk leiksins, sigruðu því 3-2 og urðu Íslandsmeistarar í innanhússknattspyrnu 2003.  Mörk ÍBV í úrslitaleiknum skoruðu þær Þórhildur Ólafsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Kolbrún Inga Stefánsdóttir. 

Besti árangur ÍBV frá upphafi

Kvennalið ÍBVí handbolta tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn árið 2003,  þegar liðið mætti Haukum í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. Sterkur varnarleikur einkenndi fyrstu mínútur leiksins og fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir fimm mínútur og voru það gestirnir sem skoruðu. Haukar, líkt og í fyrstu viðureign liðanna í Eyjum, héldu forystunni framan af og virtust vera meira tilbúnar í slaginn en heimaliðið. Munurinn varð þó aldrei meira en tvö mörk og þegar flautað var til leikhlés höfðu Haukar betur með einu marki, 10:11. Sama var upp á teningnum í upphafi síðari hálfleiks og náðu gestirnir þriggja marka forystu í upphafi seinni hálfleiks. Þá kom Alla Gorkorian aftur til leiks en hún var tekin út af um miðjan fyrri hálfleik og var greinilega ekki sátt við það. Hún sýndi hversu mikilvæg hún var Eyjaliðinu á þessum kafla, átti glæsilegar sendingar þvert yfir völlinn í hraðaupphlaupum ÍBV, stal boltanum af Haukum og skoraði glæsileg mörk.  Undir lok leiksins  ætlaði allt um koll að keyra á áhorfendabekkjunum í Eyjum. Haukaliðið hafði einn möguleika að knýja fram framlengingu en hrikaleg sending þeirra hafnaði beint í höndunum á Öllu Gorkorian sem brunaði fram ásamt samherjum sínum og skoraði svo sjálf tuttugasta og annað mark ÍBV sem jafnframt var lokamark Íslandsmótsins þetta tímabilið.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í húsinu.Það var enginn vafi hver var maður leiksins. Vigdís Sigurðardóttir átti sannkallaðan stórleik og var það ekki í fyrsta skiptið sem hún dregur vagninn þegar ÍBV er annars vegar, þrjú vítaköst varði hún og samtals 25 skot í leiknum. Mörk ÍBV: Alla Gorkorian 8/2, Ingibjörg Jónsdóttir 3, Birgit Engl 3, Sylvia Strass 3, Anna Yakova 3, Edda Eggertsdóttir 1, Ana Perez 1. Varin skot: Vigdís Sigurðardóttir 25/3.

Í lok leiksins gáfu þær Ingibjörg Jónsdóttir og Vigdís Sigurðardóttir það út að þær hyggist báðar leggja skóna á hilluna.

Jói og Maggi hætta

Einar styrkustu stoðir handknattleiksráðs karla á þessum árum, þeir félagarnir Magnús Bragason og Jóhann Pétursson ákváðu  ákveðið að draga sig í hlé eftir tímabilið 2003. Jóhann sagði í samtali við Fréttir að þeir félagar væru búnir að standa lengi í þessum slag. „Við komum líklega ekki til með að hætta alveg afskiptum okkar af handboltanum og erum alveg tilbúnir að vera í bakvarðarsveit með nýju ráði. Þessi vinna hefur gefið manni mikið en eftir sjö ára samfellt starf þá er komin ákveðin þreyta í mann og við viljum í það minnsta minnka við okkur. Ég tel okkur vera að skila góðu búi enda hefur deildin verið rekin réttu megin við núllið allan tímann."

ÍBV eignast bíla

Á vordögum 2003 gáfu Vinnslustöðin og Ísfélagið tvær 17 manna Ford Transit bifreiðar til ÍBV íþróttafélags. Var þeim ætlað að aka með keppnislið félagsins, þegar þau koma úr Herjólfi og á keppnisstað.  Aksturskostnaður hefur verið verulegur hjá félaginu og þessi gjöf því afar kærkomin.

Aðalfundur ÍBV

Á aðalfundi ÍBV sem fram haldin var 9. apríl 2003  kom fram að skuldir félagsins lækkuðu verulega á árinu á undan.  Páll Scheving, framkvæmdastjóri, sagði lækkun skulda fyrst og fremst helgast af góðri afkomu á þjóðhátíð, fjáröflunum félagsins og aðhaldssemi í rekstri. Töluverð umræða var á fundinum um yfirtöku félagsins á starfsemi Félagsheimilisins við Heiðarveg en samningur þess efnis var gerður fyrir tæpu ári. Ljóst er að ágreiningur er um hvort rekstur Félagsheimilisins og ÍBV fer saman. Málinu var vísað til aðalstjórnar til frekari umfjöllunar. „Menn ræddu samninga og stuðning fyrirtækja við einstakar deildir ÍBV og samræmingu á barnastarfi í Vestmannaeyjum. Þar er átt við að starfsemi ÍBV skarist ekki við æfingar hjá öðrum íþróttafélögum, kirkjunni, skólunum og öðru æskulýðsstarfi," sagði Páll. Stjórn ÍBV var endurkjörin á fundinum en hana skipa: Óskar Freyr Brynjarsson, formaður, Stefanía Guðjónsdóttir, Smári Jökull Jónsson og Tryggvi Sæmundsson.

Hrópleg mismunun á löggæslukostnaði

Fyrir Þjóðhátíðina 2003 sendi ÍBV-íþróttafélag bréf til  dómsmálaráðherra bréf þar sem farið er fram á sem gleggstar upplýsingar um löggæslukostnað og annað sem snýr að þjóðhátíð. „Við hjá ÍBV-íþróttafélagi erum mjög óánægðir með það ójafnrétti sem á sér stað varðandi löggæslukostnað á útihátíðum um verslunarmannahelgi. Þannig þurfa stórar hátíðir eins og Kántríhátíðin á Skagaströnd, Neistaflug á Neskaupsstað, Síldarævintýrið á Siglufirði ekki að greiða löggæslukostnað en eru í beinni samkeppni við Þjóðhátíð Vestmannaeyja sem þarf að greiða milljónir ár hvert. Þá er ógetið stórra hátíða eins og Menningarnætur í Reykjavík og Landsmóts hestamanna sem greiða engan löggæslukostnað," segir í bréfinu. Gerð er sú krafa að þjóðhátíðin sitji við sama borð og aðrar útihátíðir hvað varðar löggæslukostnað.

Stórglæsilegt Shellmót

Tuttugasta Shellmótið var haldið í Eyjum í júní 2003 og voru þátttakendur tæplega 1200, þjálfarar, leikmenn og fararstjórar en óhætt er að fullyrða að um tvö þúsund manns hafi verið í Eyjum í tengslum við Shellmótið. Mótið var sett í blíðviðri en fyrstu tvo dagana var sól og blíða. Á þriðja degi fór að rigna þegar leið á daginn en það kom ekki niður á mótshaldinu og strákarnir létu engan bilbug á sér finna þótt aðstæður væru blautar. Dagskrá mótsins var með hefðbundnu sniði, setning á fimmtudegi, kvöldvaka á föstudegi, grillveisla á laugardegi og lokahóf á sunnudegi en alla dagana var leikið frá níu á morgnana og fram eftir degi. Þess á milli fóru liðin í bátsferðir og rútuferðir og einhverjir reyndu fyrir sér í Spröngunni.

Njarðvík, A-lið, varði titil sinn í Shellmótinu en þeir urðu meistarar árið 2002. Í B-liðum var það svo ÍA sem sigraði, í C-liðum Víkingur og í D-liðum voru það Leiknismenn sem báru sigur úr býtum. Eyjaliðunum gekk þokkalega í mótinu í þetta sinn þó að liðin hafi ekki komist á verðlaunapall. Bestum árangri náði C-liðið sem endaði í 5. til 6. sæti en önnur lið ÍBV léku svokallaða jafningjaleiki en einungis er raðað í efstu átta sæti mótsins, önnur lið spila jafningjaleiki. Mótinu var svo slitið við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni og þar var þröngt á þingi enda um 1400 manns í salnum.

Eftirmálar eftir bikarleik ÍBV og KR

Kvennalið ÍBV sló KR-stúlkur útúr bikarkeppninni með 4-2 sigri á Hásteinsvelli. Nokkur eftirmáli varð af leiknum.  Í  DV fór blaðamaður  hamförum í lýsingum á skrílslátum á leik ÍBV og KR í bikarnum sem hann segist hafa heyrt frá úr mörgum áttum. Þetta og viðbrögð KR-inga eftir leikinn koma mjög á óvart því þeir sem rætt var við könnuðust ekki við skrílslæti eða óvenju ljótt orðbragð í garð leikmanna KR-inga. Margt manna var á leiknum og góð stemmning og ÍBV-stelpurnar náðu að slá KR út úr bikarnum með góðum stuðningi áhorfenda. Stemmningin og tapið var eitthvað sem gestirnir virtust ekki þola og m.a. sá „KR-ingur nr. 11“ ástæðu til að senda Hólnum miður vinsamlega kveðju eftir leik, sagði í Fréttum.  KR sendi inn formlega kvörtun til KSÍ og í kjölfarið voru forráðamenn ÍBV beðnir um að gera greinargerð um málið. Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, sagðist varla vita um hvað greinargerðin ætti að fjalla. „Þetta kom okkur algjörlega í opna skjöldu og við vissum varla hvað við áttum að fjalla um í þessari greinargerð. Það var einfaldlega frábær stemmning á vellinum, mikið af fólki og ég er helst á því að það hafi einfaldlega hrætt KR-inga. Það sjást yfirleitt ekki mjög margir áhorfendur á kvennaleikjum nema hér í Eyjum og í ofanálag lét fólk í sér heyra sem er líka mjög óvanalegt. Ég held að KRingar hafi bara ekki verið undir þetta búnir. Við höfum talað við fjölda fólks sem á leiknum var og það kannast enginn við neitt. Það var byrjað að skrifa um þetta á netinu en við lentum illa í því í fyrra þegar farið var að tala um ákveðin mál í fjölmiðlum. Þetta er hins vegar farið að ganga út í öfgar og mér finnst hreinlega að verið sé að niðurlægja Vestmannaeyinga með þessu og þetta virðist aldrei hætta. Þannig að það er spurning hvort við eigum að svara þessu á einhvern hátt."

Dómaraskandall og einelti

B-lið ÍBV í handbolta spilaði gegn Fylki í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar árið 2003 og var búist við hörkuleik enda B-liðið skipað sannkölluðum þungavigtarmönnum. En Fylkismenn komu heimamönnum á óvart og sigruðu 26-32. Jóhann Pétursson sagði að dómgæslan hafi komið Eyjamönnum um koll. „Dómgæslan var þannig að örugg skytta eins og Magnús Arngrímsson fann sig tilknúinn til að þruma boltanum með reglubundnum hætti í magann á markmanni Fylkis og vildi með því mótmæla dómgæslunni með áberandi hætti. Þá var varnarleikur ÍBV mjög óöruggur og það var ekki fyrr en í síðari hálfleik að Jón Snædal reif sig upp og sýndi gamalkunna takta," segir Jóhann en Jón fékk rauða spjaldið í síðari hálfleik. „En ÍBV-liðið lofar að mæta að ári með sitt sterkasta lið og þá verður ekki látið staðar numið í 16 liða úrslitum, það er víst," sagði Jóhann að lokum. 

Jóhann nýr formaður

Aðalfundur ÍBV íþróttafélags fór fram í lok febrúar 2005 og bar það helst til tíðinda að nýr formaður tók við en Óskar Freyr Brynjarsson lét af störfum eftir þriggja ára starf. Við lyklavöldunum tók Jóhann Pétursson, sem lengi hafði unnið með íþróttahreyfingunni, bæði sem leikmaður og stjórnarmaður.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa, var borin upp ályktun varðandi æfingaaðstöðu knattspymufólks yfir vetrarmánuðina og var ályktunin samþykkt einróma. Ályktunin er eftirfarandi: „ÍBV-íþróttafélag fer þess á leit við bæjarstjórn Vestmannaeyja að hún hefji tafarlaust undirbúning og framkvæmdir með það að markmið í huga að bæta úr bráðnauðsynlegri aðstöðu knattspyrnunnar til æfinga að vetrarlagi. Aðstaða sú er boðið er upp á í dag er fyrir neðan allar hellur. Verði ekkert aðhafst, verður þess ekki langt að bíða að við drögumst langt aftur úr á knattspyrnusviðinu, miðað við þau félög sem við erum að keppa við í dag.“

Fáheyrður árangur – Íslands- bikar- og deildarmeistarar

Leik ÍBV og Hauka í bikarúrslitum kvenna í handbolta árið 2004 verður minnst sem eins skemmtilegasta bikarúrslitaleiks kvenna. Leikurinn bauð uppá allt sem prýðir góðan úrslitaleik, hraða, spennu, dramatík og góð tilþrif. Eyjastúlkur léku mjög hraðan handbolta síðari hluta   vetrar og áttu því margir von á Hafnfirðingar næðu ekki að fylgja þeim eftir, en annað kom á daginn. Það var í raun aðeins í blálokin sem stuðningsmenn ÍBV gátu létt af sér spennunni. Varnarleikur liðsins var slakur og sóknarleikurinn hægur. Liðið hafði oft leikið betur og í raun náðu stelpurnar sér aldrei á flug. Það sýndi hinsvegar styrk ÍBV að ná að sigra Haukastúlkur sem líklega voru að leika sinn besta leik þennan veturinn. Lokatölur urðu 35-32 fyrir ÍBV.

Mörk ÍBV: Alla Gokorian 9/3, Sylvia Strass 9, Anna Yakova 8, Guðbjörg Guðmannsdóttir 4, Birgit Engl 4, Þórsteina Sigurbjömsdóttir 1. Varin skot: Julia Gantimorova 19.

Bikarmeisturunum fagnað við heimkomuna

Það var mikið um dýrðir á Básaskersbryggju þegar Herjólfur lagðist að bryggju rétt um klukkan 20.00 með nýkrýnda bikarmeistara ÍBV í kvennahandboltanum. Fjöldi manns var á bryggjunni og fagnaði stelpunum. Bæjarstjóri og forráðamenn íþróttahreyfingarinnar færðu þeim blóm og heillaóskir og að lokum var mikil flugeldasýning stelpunum til heiðurs. Þær fengu meðal annars blóm og heillaóskir frá Haukastelpum, andstæðingum þeirra í úrslitunum, og KA-sem vann karlabikarinn.

Gat dottið báðum megin

Guðbjörg Guðmannsdóttir var kampakát í leikslok enda búin að sigra í sínum fyrsta bikarúrslitaleik. „Þetta var alveg rosalega gaman og með því skemmtilegra sem ég hef upplifað. Þetta var sigur þó þetta hafi ekki verið fallegasti leikur okkar í vetur. Þetta var spennuleikur eins og þeir gerast bestir og svona eiga bikarúrslitaleikir að vera. Þetta hefði í sjálfu sér getað dottið báðum megin en við tókum þetta í dag og það var frábært."  

Á sjö dögum í mars lék lið ÍBV fjóra leiki í Íslandsmótinu og deildarmeistaratitillinn í húfi.  Vikan fór ekki vel af stað, eftir tap gegn Stjörnunni á heimavelli kom annar tapleikur í röð gegn Gróttu/KR og tækifærunum til að tryggja sér deildarmeistaratitlilinn fækkaði. En tveir sigurleikir gegn Fram gerðu það að verkum að ÍBV varð deildarmeistari 2004.

Þá tryggði ÍBV sér Íslandsmeistaratitilinn í handbolta árið 2004 eftir sigur í fjórða leik ÍBV og Vals, 30-26 -  í úrslitakeppninni  byrjun maí. Voru  yfirburðir ÍBV mun meiri en lokatölur gefa til kynna. Enginn fyrirliði í sögu handboltans hafði náð jafn góðum árangri og Elísa Sigurðardóttir en hún steig fram fyrir skjöldu á mikilvægum augnablikum gegn Val og skoraði mjög mikilvæg mörk og tók svo við Íslandsbikarnum í Valsheimilinu. Allir titlar vetrarins fóru því til ÍBV. – Fáheyrður árangur.

Þar að auki komst ÍBV liðið í undanúrslit í Evrópukeppninn í handbolta. Sennilega er þetta ÍBV lið, besta handboltalið kvenna fyrr og síðar.

Þegar nýkrýndir Íslandsmeistarar komu til  Eyja eftir að hafa setið veðurtepptir á Selfossi um nóttina, var móttökuafhöfn haldin í Höllinni, þar sem og yfir 200 manns mættu og fögnuðu með stelpunum. Óskar Freyr Brynjarsson formaður ÍBV íþróttafélags stjórnaði hófinu. Bergur  Ágústsson bæjarstjóri, sagði í ávarpi sínu til meistaranna að hann væri feginn því að úrslitakeppnin væri loksins búin, hann hefði ekki haft heilsu til að fylgjast lengur með henni.

Viðurkenning til ÍBV frá Eyjasýn

ÍBV íþróttafélag fékk viðurkenningu á árlegri verðlaunaafhendingu Eyjasýnar árið 2005 þar sem valinn var Eyjamaður ársins sem og aðrar viðurkenningar. ÍBV íþróttafélag fékk viðurkenningu fyrir framlag sitt til íþróttamála. Í umsögn Eyjasýnar segir: ,,Það er ekki sjálfgefið að bæjarfélag sem telur rúmlega fjögur þúsund íbúa tefli fram liðum í efstu deild bæði karla og kvenna í handbolta og fótbolta eins og staðreyndin er með Vestmannaeyjar“.

Tæplega 500 peyjar á fjölliðamóti

Í byrjun apríl 2005 fór fram fjölmennt handboltamót í Eyjum en þá var síðasta umferðin í Íslandsmóti sjötta flokks karla. Tæplega 500 þátttakendur voru í mótinu og komu frá sextán félögum en umgjörð mótsins var afar glæsileg. Leikið var á þremur völlum í einu og úrslitaleikirnir fóru fram á aðalvellinum í Íþróttamiðstöðinni og skapaðist afar skemmtileg stemmning. Leikið var frá föstudagi og fram á sunnudag en alls voru leiknir 126 leikir. Keppt var í A-, B- og C-liðum og voru alls 46 lið skráð til keppni frá félögunum sextán. Í lok mótsins fór fram verðlaunaafhending þar sem bæði voru veitt verðlaun fyrir sigur í mótinu og svo voru veitt verðlaun í Íslandsmótinu sem fór þannig fram að þrjú mót voru haldin í vetur, sem töldu til stiga, og varð stigahæsta liðið Íslandsmeistari. ÍBV liðunum gekk þokkalega á mótinu en aðeins var spilað um efstu átta sætin því lentu Eyjaliðin í 9-16 sæti.

ÍBV fékk 400 svefnpoka

Tæknivörur ehf, sem voru umboðsaðilar fyrir Sony Ericsson á Íslandi komu færandi hendi til Eyja í júní 2005, þegar þeir gáfu ÍBV 400 svefnpoka. Það var Ásgeir Sverrisson starfsmaður Tæknivara sem afhenti Páli Scheving Ingvarssyni framkvæmdastjóra ÍBV gjöfina. Ásgeir sagði við það tilefni að þeir gerðu sér grein fyrir þeim mikla kostnaði sem ÍBV þarf að greiða vegna ferðakostnaðar og stefna Tæknivara ehf væri að stuðla að öflugu unglingastarfi og það ætla þeir sér að gera.

Stelpurnar unnu allt

Eina helgi í október 2005 fór fram fjölliðamót hjá fjórða flokki kvenna og var leikið  í Eyjum. Þetta voru fyrstu leikir stelpnanna á Íslandsmótinu en leikið var gegn Gróttu, Víking og FH. Til að gera langa sögu stutta þá unnu stelpurnar alla leiki sína en úrslitin urðu þessi: ÍBV-Grótta 15:10, ÍBV-Víkingur 18-7, ÍBVFH 9:8. Markahæstar voru þær Elísa Viðarsdóttir með 15 mörk og Andrea Káradóttir og Sædís Magnúsdóttir með 7 mörk hvor. Þá stóð Heiða Ingólfsdóttir í markinu og varði samtals 37 skot. 

Shellmótið fékk viðurkenningu

Shellmót ÍBV fékk viðurkenningu í lok ársins 2005 fyrir besta grasrótarviðburð ársins 2005. Fulltrúar KSÍ, sem voru staddir í Eyjum á formannafundi félaga í efstu deild, afhentu fulltrúum ÍBV viðurkenningarskjal og fimmtíu Adidas fótbolta af bestu gerð.

Íslandsmeistarar

Kvennalið ÍBV í handbolta hampaði Íslandsmeistaratitlinum í byrjun apríl 2006. Það var ljóst eftir að liðið sigraði HK í Kópavogi 31-27. Sigur ÍBV í Íslandsmótinu var afar athyglisverður þar sem ÍBV hafði hvorki besta, né stærsta leikmannahópinn, en nýtti sér styrkleika sína. Alfreð Örn Finnsson, þjálfari ÍBV, átti stóran þátt í þessum titli enda hagaði  hann leik ÍBV á skynsaman hátt, einbeitti sér að varnarleiknum þar sem sterkasti leikmaðurinn, markvörðurinn Florentina Grecu naut sín.  Þá er hverju liði mikilvægt að hafa Ingibjörgu Jónsdóttur í sínu liði, sannkallaður leiðtogi þar á ferð.

„Ég fer ekki ofan af því að Vestmannaeyingar  eru bestu stuðningsmenn í heimi og ég er svo ánægður að geta loksins farið með bikar heim til Eyja. Ég vil nú ekki vera eins og væminn sápuóperuleikari en ég dýrka Vestmannaeyjar og ég er svo ánægður að geta komið með dolluna heim í kvöld með Herjólfi," sagði Alfreð Finnsson þjálfari við heimkomuna. En ÍBV stelpunum var tekið með kostum og kynjum á Básaskersbryggju við heimkomuna, þrátt fyrir nístingskulda.

ÍBV dregið úr keppni í Íslandsmótinu

Ekkert kvennalið í meistarflokki í knattspyrnu var tilkynnt til þátttöku í Íslandsmótinu 2006. Sú ákvörðun var tekin í lok mars og tók Þór/KA sæti ÍBV í efstu deild Íslandsmótsins en ÍBV var sömuleiðis dregið úr bikarkeppninni. Þetta var talsvert áfall fyrir félagið enda ekki nema eitt og hálft ár síðan ÍBV fagnaði bikarmeistaratitli og síðustu þrjú ár hafði ÍBV ekki endað neðar en í þriðja sæti.

Vandamál kvennaknattspyrnunnar komu fyrst fram árinu áður en ÍBV tefldi fram mjög þunnskipuðum leikmannahópi. Fljótlega eftir tímabilið fóru svo skrautfjaðrirnar að reytast af liðinu og þegar upp var staðið stóð aðeins fámennur hópur Eyjastúlkna eftir. Kallað var til fundar á haustmánuðum þar sem ákvörðun var tekin um að halda því til streitu að tefla fram kvennaliði í knattspyrnu. Knattspyrnuráð kvenna var myndað og var strax ráðist í það að fá leikmenn til ÍBV Það gekk ekki sem skyldi, einnig var tillaga um sameiningu við Selfoss felld á aðalfundi félagsins. Í kjölfarið hættu þrír meðlimir af sex í knattspyrnuráði kvenna og á fundi, með þeim sem eftir stóðu, var ákveðið að draga liðið úr keppni, bæði í Íslands- og bikarkeppninni en ÍBV hafði áður dregið sig úr keppni í deildarbikarnum.

Af væntumþykju

Eftir þjóðhátíðina 2006 tilkynnti þjálfari karlaliðs ÍBV í knattspyrnu, Guðlaugur Baldursson að hann væri hættur þjálfun liðsins. Gengi þess var afar dapurt þetta sumar og sat það í botnsætinu. Heimir Hallgrímsson tók þá við liðinu - hann hafði reyndar  verið í sömu stöðu áður, því árið 2002 tók hann við karlaliði ÍBV eftir að Njáli Eiðssyni hafði verið sagt upp störfum.

Heimir sagði í samtali við Fréttir að það hefði fyrst og fremst verið af væntumþykju fyrir félaginu að hann ákvað að slá til. „Það hefðu sjálfsagt einhverjir tekið við liðinu fyrir peningana og aðrir fyrir athyglina sem fæst út á það að stýra liði í efstu deild en fyrir mér er það mikilvægast að ÍBV eigi lið í efstu deild. Ég hef það kannski fram yfir aðra sem komu til greina að ég hef auðvitað fylgst mjög vel með liðinu í sumar og ekki er verra að ég vilji sjá liðið mitt áfram í efstu deild."

Fall um deild

Eyjamenn kvöddu úrvalsdeild karla í knattspyrnu með sæmd þegar liðið lagði Fylki að velli á Hásteinsvelli um miðjan september 2006. Lokatölur urðu 2:0 og í raun áttu gestirnir aldrei möguleika í leiknum, slíkir voru yfirburðir ÍBV. Það kom svo í hlut Grindvíkinga að fylgja ÍBV eftir í 1. deildina. Þegar ljóst var að liðið væri fallið var Heimir Hallgrímsson, þjálfari liðsins spurður í Eyjafréttum hvort hann hefði áhuga á að þjálfa liðið áfram: „Ég veit það ekki, þegar ég er spurður svona stuttu eftir að hafa fallið þá hef ég ekki nokkurn áhuga á því enda er ég mjög niðurdreginn eins og er en kannski snýst mér hugur eftir nokkra daga.“

Einhugur að þjappa sér saman

Kvennaekla  hrjáði handboltalið ÍBV veturinn 2007. Liðið var afar þunnskipað Hlynur Sigmarsson formaður handknattleiksráð staðfesti að til umræðu væri að draga liðið úr keppni í Íslandsmótinu.  Aðalstjórn ÍBV-íþróttafélags fundaði svo um málið og sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu: „Ekki kemur til greina af hálfu ÍBV að draga liðið úr keppni á yfirstandandi Íslandsmóti. Stjórn félagsins, leikmenn, þjálfarar og allir stuðningsmenn ÍBV nœr og fjœr eru einhuga um að þjappa sér saman og yfirstíga þá erfiðleika, sem við er að etja. Aðalstjórn ÍBV hvetur stuðningsmenn félagsins alls staðar á landinu til að fjölmenna á leiki liðsins og sýna þannig stuðning í verki."

Friðbjörn framkvæmdastjóri

Í byrjun febrúar 2007 var  Friðbjörn Valtýsson ráðinn framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. Hann tók við af Páli Scheving sem fór til annarra starfa. Friðbjörn sagði í viðtali við Fréttir:

„Ég tel að sameining félaganna hafi verið eitt mesta gæfuspor sem Vestmannaeyingar hafi tekið á síðustu árum“.

Stjórnin endurkjörinn

Á aðalfundi félagsins 30. apríl 2007,  var aðalstjórn  öll endurkjörin en hún var þannig skipuð: Jóhann Pétursson formaður, Tryggvi Már Sæmundsson varaformaður, Olga Bjarnadóttir ritari, Magnús Steindórsson meðstjórnandi, Guðný Hrefna Einarsdóttir meðstjórnandi.  Varamenn Unnur Sigmarsdóttir og Örn Hilmisson.

Í ræðu formanns félagsins, Jóhanns  Péturssonar sagði hann að ÍBV væri sterkt félag sem byggi á grasrótinni. „Og vissulega eigi kvennaíþróttir undir högg að sækja hjá okkur og eru ýmsar ástæður fyrir því, t.d. forgangsröðun hjá kvenfólkinu og gulrótin ekki sú sama og hjá körlunum sem sjá möguleika á að komast í atvinnumennsku."

Íslandsmeistaratitlar hjá 4. flokki kvenna

Bæði A- og B-lið fjórða flokks kvenna urðu Íslandsmeistarar í handbolta á vordögum 2007. Bæði lið enduðu í öðru sæti í deildarkeppninni en í úrslitaleikjunum sigraði B-liðið  KA en  A-liðið sigraði Stjörnuna.  

Í  úrvalsdeild á ný

Karlalið ÍBV tryggði sér sæti í úrvalsdeild í handbolta á ný á vordögum 2007 með því að leggja FH að velli í Hafnarfirði 24:29. Eyjamenn byrjuðu vel í leiknum og náðu góðri forystu, komust m.a. í 7:12 en heimamenn náðu að minnka muninn fyrir leikhlé og staðan var 12:13 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Jafnræði var með liðunum framan af síðari hálfleik en FH-ingar komust í fyrsta sinn yfir í seinni hálfleik 20:19. Eyjamenn svöruðu hins vegar með þremur mörkum í röð og lögðu þar með grunninn að sigrinum.

Lítil móttökuathöfn var á flugvellinum í Vestmannaeyjum þegar liðið kom til Eyja en formaður félagsins, Jóhann Pétursson, færði liðinu blómvönd og óskaði leikmönnum, forráðamönnum og stuðningsmönnum til hamingju með árangurinn.

Sigurður Bragason, fyrirliði ÍBV leyndi  ekki þeirri skoðun sinni að þjálfari liðsins, Gintaras Savukynas, ætti stóran þátt í góðu gengi liðsins. „Hann smellpassar inn í þennan hóp hjá okkur og passar líka mjög vel inn í þetta samfélag hérna“.

Sókn í kvennaboltanum

Um haustið 2007, blásið til sóknar í kvennaknattspyrnunni, stofnuð var knattspyrnudeild kvenna og19 stúlkur skrifuðu undir leikmannasamning við ÍBV íþróttafélag, voru þær allar í 2. flokki.

Fall í 1. deild í karlahandboltanum

Hvorki gekk né rak hjá meistaraflokki karla í handbolta, tímbilið 2007-2008. Lengst af var liðið í neðsta sætinu í efstu deild. Liðið sýndi þó af og til góða leiki, en féll á lágt plan þess á milli. Í síðast leik sínum mættu þeir Val sem endaði með fjórtán marka tapi, 24-38. Liðið féll niður um deild.

18 marka sigur

2. flokkur ÍBV kvenna í knattspyrnu sótti  Hauka heim í Hafnarfjörð í 16 liða úrslitum Visa-bikarsins sumarið 2008. Leikurinn reyndist stelpunum okkar ekki mjög erfiður þar sem þær unnu með átján marka mun. Í hálfleik var staðan 0:8 svo stelpurnar skoruðu tíu mörk í seinni hálfleik.

Um mitt sumar var meistaraflokkur kvenna í 2. sæti 2. deildar. Endurreisn kvennaknattspyrnunnar var komin á fullt skrið. Ekki tókst liðinu þó að komast upp í efstu deild þetta sumarið.

Í efstu deild á ný

Um þjóðhátíðina 2008 var karlalið ÍBV í knattspyrnu í efsta sæti 1. deildar með 34 stig og höfðu 3 stig á næsta lið. Væntingar um að liðið nái aftur sæti í efstu deild voru miklar, enda liðið á fljúgandi ferð undir stjórn Heimis Hallgrímssonar. Í fyrstu leikjunum eftir þjóðhátíð sigraði liðið Víking Ólafsvík 3-1 og Fjarðarbyggð 1-0.

Í síðasta leik lék liðið við KS/Leiftur á Siglufirði og sigraði 1-0. Þar með var ljóst að ÍBV var komið í efstu deild á ný eftir tvö ár í 1. deild.

Það sem var óvenjulegt og sennilega einstakt, var að þjálfari meistarflokksins, Heimir Hallgrímsson, var einnig þjálfari 5. flokks drengja þetta sama sumar, sem náði líka frábærum árangri eins og fram kemur hér að neðan.

Flott uppskera

Strákarnir í fimmta flokki drengja gátu sannarlega fagnað frábærum árangri sumarið 2008 en peyjarnir unnu til silfurverðlauna í tveimur flokkum, A og C. Fimmti flokkur fór með fjögur lið, A, B, C og D alla leið í úrslitakeppni Íslandsmótsins. A-liðið lék undanúrslitaleik gegn HK og vann 2:1 og lék því gegn Stjörnunni um Íslandsmeistaratitilinn á Stjörnuvelli en sá leikur fór 4:1 fyrir Stjörnuna og strákarnir lentu því í öðru sæti. D-liðið vann leiki gegn Val og KR 1:0 og lék gegn Þrótti um Íslandsmeistaratitilinn, en töpuðu eftir framlengdan leik.

Þessir sömu strákar unni líka N1 bikarinn á Akureyri, sem veittur var fyrir besta samanlagða árangur A,B,C,D og E-liða. Þjálfari strákanna var Heimir Hallgrímsson sem einnig þjálfaði meistaraflokk félagsins.

Íslandsmeistarar og Kristín Erna með þrennu

Stelpurnar í 2. flokki kvenna urðu  Íslandsmeistarar í knattspyrnu árið 2008,  en þær tryggðu sér titilinn á sannfærandi hátt þegar þær unnu Val 3-1 . Leiðindarok var á Helgafellsvelli þegar leikurinn fór fram og bætti í vindinn eftir því sem leið á leikinn. Stelpurnar létu það þó ekki á sig fá og voru það Eyjastelpur sem byrjuðu á að leika á móti vindi. Það kom ekki að sök því markamaskínan, Kristín Erna Sigurlásdóttir, var búinn að skora tvö mörk þegar aðeins sex mínútur voru liðnar. Hún bætti síðan við þriðja marki sínu.

Eyjastúlkur  fögnuðu ákaft í leikslok, tóku sigurhring, tolleruðu Jón Ólaf  þjálfara sinn og  sungu og dönsuðu um völlinn.

Mikil minnkun tekna hjá knattspyrnudeild

Sigursveinn Þórðarson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV var í viðtali við Fréttir haustið 2008.  Þar lýsir hann m.a. áhyggjum sínum vegna minnkandi tekna knattspyrnudeildar karla: „Það varð tap á rekstri deildarinnar og sumarið var mjög erfitt rekstrarlega séð. Ákveðnar fjáraflanir gengu ekki eftir en árið er ekki búið. Það eru ákveðin atriði sem enn eru óviss og geta haft töluverð áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Það var mjög slæmt að missa Toyota út, styrkur þeirra einn og sér var tæplega 40% af tekjum deildarinnar og auk þess má reikna með að aðrir dragi úr sínum styrkjum. Ég gæti trúað að tekjur deildarinnar af styrkjum fyrirtækja minnki um allt að 50 til 60%“.

Björt framtíð

Deildarbikarkeppni HSÍ í 6. flokki var haldin Kópavogi síðla janúar 2009.  ÍBV sendi fjögur lið til keppni og óhætt að segja að árangurinn hafi verið frábær. C-lið ÍBV varð Deildarbikarmeistari, vann alla sína leiki en þjálfari þeirra var Unnur Sigmarsdóttir. Í heildina var árangur ÍBV einnig mjög athyglisverður en lið ÍBV unnu ellefu leiki af tólf í riðlakeppninni. 

Átök í knattspyrnunni

Í janúar 2009 var boðað til fundar í Týsheimilinu og til  umræðu voru málefni knattspyrnunnar. Erfið fjárhagsstaða deildarinnar var m.a. rædd og fór Jóhann Pétursson formaður félagsins yfir þá stöðu. Hjá honum kom m.a. fram að  ekki hafi verið staðið við fjárhagsætlunina sem gerð var fyrir tímabilið,  en formaður knattspyrnudeildar Sigursveinn Þórðarson var hinsvegar ekki sáttur við skiptingu tekna ekki síst af þjóðhátíðinni þar sem hann taldi að hallað hefði á knattspyrndeildina.  En viðurkenndi að skelfileg ákveðin mistök hefðu verið gerð sem skrifast verði á  reynsluleysi knattspyrnuráðs.

Fleiri tóku til máls. Heimir Hallgrímsson þjálfari bað menn um að horfa til framtíðar í stað þess að rífast um liðna hluti. Hann benti á að framtíð knattspyrnunnar væri björt, 3., 4., 5. og 6. flokkur drengja væri að berjast um titla og langt síðan að slíkt hefði gerst hjá ÍBV. Auk þess væri knattspyrnuhús að rísa með tilheyrandi innspýtingu fyrir íþróttina. „Það sem mér sárnar mest er þessi félagslegi doði í félaginu. Ég hef sagt það áður að mér hefur fundist ÍBV vera metnaðarlega gjaldþrota, það er nánast engin stefna nema peningaleg stefna“.

Hagnaður af rekstrinum

Á aðalfundi félagsins 29. mars 2009  kom fram að rekstrartekjur félagsins í heild voru rúmar 241 milljónir á árinu 2008 en rekstrargjöld rúmar 212 milljónir. Hagnaður varð af rekstri félagsins á árinu upp á 5,5 milljónir þegar fjármagnskostnaður er tekinn inn í. Til samanburðar varð tap á rekstri félagsins árið 2007 upp á tæpar 17 milljónir og viðsnúningur á rekstrinum því um 22,5 milljónir. Heildarskuldir félagsins voru rúmar 70 milljónir.

Tvær breytingar urðu á stjórn ÍBV- íþróttafélags. Unnur Sigmarsdóttir og Örn Hilmisson hættu en bæði höfðu þau tekið sæti í stjórnum ráða hjá félaginu, Unnur í handknattleiksráði og Örn í knattspyrnuráði karla. Í þeirra stað komu þeir Sigurður Smári Benónýsson og Guðjón Gunnsteinsson inn sem varamenn en í stjórn sitja áfram Jóhann Pétursson, formaður, Tryggvi Már, varaformaður, Guðný Einarsdóttir, gjaldkeri, Olga Bjarnadóttir ritari og  Þórunn Ingvarsdóttir meðstjórnandi.

Friðbirni sagt upp störfum og Tryggvi Már tók við

Friðbirni Ólafi Valtýssyni var sagt upp störfum framkvæmdastjóra ÍBV íþróttafélags um miðjan apríl 2009.  Friðbjörn staðfesti við Morgunblaðið, að ástæðan sem gefin var vegna brottrekstursins væri sögð vera ummæli hans við mbl.is í marsmánuði, þar sem hann sagðist vona að síldveiðar í Vestmannaeyjahöfn myndu skila um 15 milljónum í tekjur handa ÍBV. Hann sagði einnig að stjórnarmaður innan ÍBV hefði sagt við sig, að ummæli hans hefðu eyðilagt þessa fjáröflunarleið. „Það hefur greinilega gleymst að láta mig vita af því að ekki mætti tala um þetta. Þetta var eitthvert tabú hjá þeim. Ég var í góðri meiningu að segja frá skemmtilegu máli sem vakti þjóðarathygli, en svona fór þetta,“ sagði Friðbjörn, sem sagðist ekki ætla að gera meira veður út af málinu, þó svo hann væri mjög ósáttur.

Við starfi Friðbjarnar tók Tryggvi Már Sæmundsson.

Áfram í 1. deild

Kvennalið ÍBV í handbolta 2009 lauk keppni í 2. deild Íslandsmótsins í lok apríl.

þegar liðið lék gegn KA í átta liða úrslitum deildarinnar. Eyjastúlkur áttu ekki möguleika gegn KA-liðinu og töpuðu með 18 mörkum, 36:18 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 17:7. Björn Elíasson, þjálfari liðsins, sagði í samtali við Fréttir að ÍBV hafi einfaldlega spilað illa.

„Við erum auðvitað að hefja okkar þriggja ára ferðalag upp í úrvalsdeild, erum að taka fyrstu skrefin í uppbyggingu á kvennahandboltanum í Eyjum. Næstu skref er að nýta sumarið vel og byggja stelpurnar betur upp líkamlega fyrir næsta vetur.“

Stór handboltamót

Síðustu helgina í apríl 2009 fór fram fjölmennasta handboltamót sem haldið hafði verið í Vestmannaeyjum þegar lokamót í 6. flokki karla í handbolta fór þar fram. Líklega var aðstaða fyrir stórmót sem þetta hvergi betri en einmitt í Vestmannaeyjum þar sem er að finna þrjá löglega handboltavelli og sundlaug, allt undir einu þaki. Tæplega fimmhundruð strákar sýndu hæfileika sína en leikið var á föstudegi og laugardegi. Unnur Sigmarsdóttir þjálfari 6. flokks drengja var ánægð með sína stráka, frammistöðu og hegðun.

Markmiðið að halda sér meðal þeirra bestu

Karlalið ÍBV í knattspyrnu lék sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni á ný árið 2009, þegar liðið heimsótti Fram á Laugardalsvöll. Lokatölur leiksins urðu 2:0 Fram í vil. Heimir Hallgrímsson þjálfari liðsins sagði markmiðið að halda liðinu upp í úrvalsdeildinni.

Liðið var við botninn mestallt leiktímabilið en slapp við fall.

Stórsigur í kvennaboltanum og tap í bikarnum

Stelpurnar í meistaraflokki í knattspyrnu byrjuðu tímabilið 2009 með sannkölluðum stórsigri á útivelli þegar þær sóttu sameiginlegt lið Tindastóls og Neista heim í Skagafjörðinn. ÍBV sigraði norðanstúlkur 0:11 en staðan í hálfleik var 0:8 fyrir ÍBV. Liðin léku í B-riðli 2. deildar eða næstefstu deild.

Liðið var síðan slegið út í 8 liða úrslitum Visa-bikarsins, þegar það tapaði fyrir Fylki 4-0.

Takmarkið að vinna sig upp í efstu deild þetta sumarið tókst ekki.

Bæði lið slegin út í 16 liða  úrslitum

Bikarveisla var í Íþróttamiðstöðinni  21. nóvember þegar bæði karla- og kvennaliðin léku við Fram í 16 liða úrslitum í Eimskipsbikarkeppninni í handbolta. Ekki gekk Eyjaliðunum sem skyldi. Karlaliðið tapaði 26-28 og kvennaliðið 22-40.

Íslandsmeistarar í Futsal

Kvennalið ÍBV í knattspyrnu varð Íslandsmeistari í Futsal í fyrsta sinn í byrjun árs 2010. Liðið vann Þrótt í úrslitaleik 5:1. Áður hafði ÍBV lagt ÍR að velli í undanúrslitum 5:3. Sjö lið skráðu sig til leiks.

Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari ÍBV, var að vonum ánægður með að vinna titilinn. „Það er eitt sem breytist seint í íþróttum. Að vinna titla er alltaf skemmtilegt," sagði Jón Ólafur þegar Fréttir heyrðu í honum hljóðið.

Konurnar áfram í 2. deild

Kvennalið ÍBV reið ekki feitum hesti frá úrslitakeppni 2. deildar í handbolta, sem fór fram á Seltjarnarnesi vorið 2010.  Fjögur lið tóku þátt í úrslitakeppninni en auk ÍBV voru það Grótta, FH og Víkingur. ÍBV tapaði öllum leikjunum og niðurstaðan því fjórða sætið sem hljóta að teljast vonbrigði.

Unnur Sigmarsdóttir, annar tveggja þjálfara liðsins sá þó ekki bara svartnættið þótt niðurstaðan hafi ekki verið eins og stefnt var að. Hún sagði í viðtali við Fréttir: „Þetta er dýrmæt reynsla sem stelpurnar fá úr þessum leikjum. Framtíðin er björt, við erum komnar í átta liða úrslit Íslandsmótsins í unglingaflokki og 4. flokkur er í undanúrslitum, bæði í A- og B-liðum þannig að hér er efniviður fyrir hendi. En eins og staðan er í dag, þá verðum við áfram í 2. deild næsta vetur."

......og karlarnir líka

Karlalið ÍBV í handbolta féll úr leik í umspili um laust sæti í úrvalsdeild haustið 2010. Eyjamenn töpuðu viðureigninni gegn Aftureldingu 2:0 en leikið var heima og heiman. Tvo sigurleiki þurfti til að komast áfram.   Þetta var annað tap ÍBV á heimavelli um veturinn. Þrátt fyrir það komst liðið ekki upp í efstu deild, og voru að vonum mikil vonbrigði.

Hvenær opna hvítu tjöldin? – Gleymst að spyrja bæjarbúa

Í aðdraganda þjóðhátíða birtast árlega margar greinar í bæjarblöðunum um þessa einstöku hátíð. Árið 2010 var árið sem Landeyjahöfn var tekin í notkun. Þjóðhátíðarhaldarar bjuggust því við miklum fjölda gesta á hátíðina og undirbjuggu það með ýmsu móti. Sitt sýndist þó hverjum, að fá allt þetta fólk til Eyja. Valgerður Magnúsdóttir skrifaði grein í Fréttir og þar sagði hún m.a.: „ÍBV hefur notið mikils velvilja í samfélaginu og verður vonandi áfram, en hrædd er ég um að það geti breyst ef græðgin ein er höfð að leiðarljósi. Hætt er við að þjóðhátíðin glati sérstöðu sinni og verði eins og hver önnur Hróarskelduhátíð. Forsvarsmenn hátíðarinnar mega líka fara að hemja sig í fjölmiðlunum, um gestrisni Eyjamanna. Það veldur bara misskilningi. Samanber unga parið sem bankaði uppá eitt kvöldið og spurði „hvenær opna hvítu tjöldin?"

Þá skrifaði Sigurður  Vilhelmsson einnig í  Fréttir og gagnrýndi hvernig staðið var að byggingu á stóra sviðinu í Herjólfsdal. „Engin tilraun var verið gerð til að spyrja bæjarbúa að því hvort þeir vilji yfir höfuð þessi varanlegu mannvirki. Engin umræða fór fram um þessar framkvæmdir og þeim var beinlínis laumað í gegnum umhverfis- og skipulagsráð. Kærufrestur vegna deiliskipulags var ekki einu sinni runninn út þegar framkvæmdir voru komnar á fullt. Því miður eru þessi vinnubrögð ekkert einsdæmi hér í bæ. Svo virðist sem einhugur hafi ríkt í bæjarstjórn um þessar framkvæmdir, en einhverra hluta vegna hefur gleymst að spyrja bæjarbúa“.

Markmiðið er Evrópusæti

Fyrsti leikur karlaliðs ÍBV í Íslandsmótinu í knattspyrnu var um miðjan maí 2010 þegar liðið sótti  Fram heim á þjóðarleikvanginn. Leikurinn tapaðist 2:0. Liðin mættust einnig í fyrstu umferð Íslandsmótsins í fyrra á sama velli þar sem Framarar höfðu betur í jöfnum leik, 2:0. Leikurinn þá var upphafið að einni verstu byrjun ÍBV í Íslandsmótinu,  en liðið tapaði fyrstu fjórum leikjunum og skoraði ekki mark. Heimir Hallgrímsson var áfram þjálfari liðsins.  Hann gaf það út,  að markmiðið fyrir ÍBV sé að berjast um Evrópusæti. Hann segir það eðlilegt næsta skref hjá ÍBV „Hvaða markmið er það að ætla sér að ná aftur 10. sætinu? Er það eitthvert markmið“?

Vegna gossins í Eyjafjallajökli á þessum tíma, var ekki hægt að æfa á Hásteinsvelli en ekki þótti fært að æfa utandyra vegna öskufalls. ÍBV strákarnir héldu því til á fastalandinu við æfingar um nokkurn tíma.

Þjóðhátíðin eftir Landeyjahöfn

Tilkoma Landeyjahafnar gerði Þjóðhátíðina 2010 þá fjölmennustu fram til þess. Allt í einu voru Vestmannaeyjar komnar í alfaraleið og samgöngur ekki sami hemill á fjölda þjóðhátíð- argesta og áður. Það var því með nokkrum kvíða sem Eyjamenn horfðu til þjóðhátíðarinnar 2010, óttuðust að með metfjölda gætu skapast aðstæður sem erfitt yrði að ráða við. Fjöldi gesta var tæplega 14 þúsund. Sá fjöldi reyndist viðráðanlegur og veður með ágætum. Þjóðhátíðarhaldarar, lögregla og gestir báru hátíðinni vel söguna, en einhverjar stimpingar fylgja alltaf þar svo margir koma saman.  Búið var að reisa neðri hluta Brekkusviðsins þar sem er aðstaða sölubúðanna og sviðsfólksins, sú aðstaða er síðan er notað sem geymsla milli þjóðhátíða. Bráðabirgðahús var að þessu sinni sett þar ofan á sem svið. Fjöldi hústjalda var með mesta móti á þessari þjóðhátíð sem bendir til að fjöldi heimamanna hafi líka verið með mesta móti. Miðaverð í Dalinn var kr. 13.900 og kr. 11.900 í forsölu.

Kvennaliðið í efstu deild á ný

Á sameiginlegum fundi leikmanna kvennaliðs ÍBV í handbolta og handknattleiksráðs í sumarið 2010, var ákveðið að sækja um þátttöku í efstu deild á ný. - ÍBV hafði leikið í 2. deild undanfarin þrjú ár, en sú deild er eins og utandeild og lið vinna sig ekki upp um deild. Handknattleiksráð taldi að kominn væri tími til að stelpurnar reyni sig meðal þeirra bestu. HSÍ fagnaði þessari ákvörðun og samþykkti  beiðnina.

2. flokkur dreginn úr keppni

Seinni part sumars 2010 var ákveðið að draga 2. flokk kvenna hjá ÍBV í knattspyrnu úr keppni Íslandsmótsins. Ákvörðunin kom talsvert á óvart enda byrjaði liðið mjög vel, vann fyrstu sex leiki sína í mótinu og var um tíma í efsta sæti A-deildar. En liðið gaf eftir og hafði tapað  þremur leikjum sínum í röð,  síðast 7:1 gegn Aftureldingu. Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari ÍBV, sagði ástæðu þess að flokkurinn er dreginn úr keppni ekki vera uppgjöf, heldur að öll áhersla sé lögð á meistaraflokk.

Halló úrvalsdeild

Kvennalið ÍBV í knattspyrnu komst haustið 2010  upp í úrvalsdeild eftir fimm ára hlé. Stelpurnar tryggðu sér sæti meðal þeirra bestu með því að vinna Selfoss afar sannfærandi 8:1 samanlagt eftir tvo leiki. Í kjölfarið var svo spilað gegn Þrótti í úrslitaleik 1. deildar, en bæði lið voru örugg með sæti í úrvalsdeild næsta sumar. Þar höfðu Eyjastelpur sigur og fóru því í gegnum sumarið með því að tapa aðeins tveimur leikjum, einum í Íslandsmótinu og einum í bikarkeppninni.

Evrópusæti tryggt

Karlalið ÍBV í knattspyrnu lauk keppni í Pepsídeildinni árið 2010  með tapi gegn Keflavík, 4:1, í Keflavík, stærsta tapi ÍBV þá um sumarið. Leiðinlegur endir á annars frábæru tímabili hjá ÍBV, sem átti möguleika allt fram á síðustu stundu á Íslandsmeistaratitlinum. Það var eitthvað sem enginn átti von á þegar lagt var af stað um vorið en Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV hafði mikla trú á sínu liði og stefndi ótrauður á að tryggja liðinu sæti í Evrópukeppninni.  Það tókst og gott betur en Heimir viðurkennir að úr því sem komið var, hafi verið súrt að ná ekki enn lengra. „Auðvitað er maður sáttur og verður eflaust ánægðari með árangurinn því lengra sem líður frá síðasta leik. Miðað við það sem við lögðum upp með í sumar þá erum við að ná mun betri árangri en flestir áttu von á og það eitt að við skyldum vera búnir að tryggja okkur Evrópusæti þegar einhverjar fjórar til fimm umferðir voru eftir, var alveg frábært.“

Samstarf við Rangæinga

Haustið 2010  skrifuðu forsvarsmenn ÍBV íþróttafélags og Knattspyrnufélags Rangæinga undir samstarfssamning fyrir sumarið 2011.  Samningurinn náði yfir samstarf í knattspyrnunni en félögin tvö munu halda úti æfingum í sínum sveitarfélögum en halda sameiginlegar æfingahelgar reglulega. Þá munu félögin tvö tefla fram sameiginlegu liði undir merkjum ÍBV í yngri flokkunum í Íslandsmótinu. Samningurinn er ótímasettur en skal endurskoðaður í lok hvers sumars.

Nýtt fjölnota íþróttahús tekið í notkun

Laugardaginn  8. janúar 2011 var nýtt fjölnota íþróttahús við Hásteinsvöll vígt, að viðstöddu fjölmenni. Framkvæmdir við grunn hússins hófust í ársbyrjun 2010 og fyrsta skóflustungan var tekin í september 2007.  Húsið gjörbylti vetraræfingaaðstöðu knattspymufólks í Vestmannaeyjum og langþráð æfíngaaðstaða frjálsra íþrótta varð að veruleika með nýja húsinu. Elliði Vignisson, bæjarstjóri, sagði í vígsluræðu, íþróttaaðstöðu í Vestmannaeyjum vera einstaka á landsvísu, jafnvel á heimsvísu. „Húsið markar tímamót í sögu íþróttaiðkunar í Vestmannaeyjum og því ber að fagna," sagði Elliði og bætti við að Vestmannaeyjabær hafi í gegnum tíðina lagt mikinn metnað í að búa öflugu íþrótta- og tómstundastarfí góða aðstöðu. „Við erum með fjóra grasvelli, þrjá stóra íþróttavelli innanhúss, lítinn íþróttasal, þrjá líkamsræktarsali, hálfan yfirbyggðan knattspyrnuvöll, 18 holu golfvöll, 25 metra innilaug, vatnagarð með rennibrautum og heitum pottum, motocrossbraut og tvö tjaldstæði."

Nýja knattspyrnuhúsið er 50x60 metrar, með gervigrasi. Kostnaður við byggingu hússins losar 500 milljónir króna.

Torfþak á sviðið í Herjólfsdal

ÍBV-íþróttafélag sótti um byggingaleyfi fyrir yfirbyggingu á stóra sviðið í Herjólfsdal, en neðri hæðin var byggð sumarið 2010. Umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í byrjun mars en ráðið frestaði erindinu og óskaði eftir frekari gögnum. Tryggvi Már Sæmundsson, framkvæmdastjórí ÍBV, sagði að félagið geri ráð fyrir að byggingin í Herjólfsdal yrði byggð í þremur áföngum. „Við erum búin að byggja fyrstu hæðina, gerum ráð fyrir að byggja efri hæðinni 2011  en í síðasta áfanga er gert ráð fyrir að klára bygginguna að utan. Þá verða settar grjóthleðslur utan á veggi og húsið gert þannig úr garði að það myndi samfellu og þakið tyrft. Þakið verður dregið yfir alla bygginguna og fellt niður til suðurs þannig að það falli inn í brekkuna," sagði Tryggvi Már.

Jón Óli sá besti

Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari kvennaliðs ÍBV, var  valinn besti þjálfari fyrri umferðar Pepsídeildar kvenna sumarið 2011. Það voru sérfræðingar á vegum KSÍ sem völdu hann bestan en þeir völdu einnig lið fyrri umferðarinnar og þar voru þær Elísa Viðarsdóttir og Birna Berg Haraldsdóttir. Jón Ólafur var einnig valinn besti þjálfari fyrri umferðarinnar á vefnum Fótbolti.net og skal engan undra enda komu nýliðar ÍBV mest á óvart í Íslandsmótinu.

Þegar  nálgast Þjóðhátíð

Umræða um Þjóðhátíð er árviss. Ýmist er hún jákvæð eða neikvæð, flestir vilja henni vel, en með misjöfnu móti. Hlynur  Guðlaugsson skrifað grein í Eyjafréttir  þar sem hann var m.a. ekki sáttur við valið á Þjóðhátíðarlaginu árið 2011.

„Í vegabréfinu mínu stendur að fæðingarstaður minn sé Vestmannaeyjar og því fylgir ákveðinn kaleikur, heiður og ábyrgð. Ástæðan fyrir þessum greinarskrifum mínum er Þjóðhátíð Vestmannaeyja, en mikil umræða hefur farið fram í fjölmiðlum og í orðum á milli fólks um þessa frábæru hátíð sem skipar stóran sess í hjörtum okkar margra. Þegar hið nýja þjóðhátíðarlag Páls Óskars var gert opinbert held ég að margir hafi spurt sig hvar þessi hátíð sé stödd og hvert hún sé að fara?

Ég bíð bara eftir að götur hvítu tjaldanna verði nefndar í höfuðið á gosdrykkjum eða snakki. Hver vill tjalda á Pepsíbraut eða í Doritossundi? Fólk hefur einnig haft það á orði að goslokahátíðin sé að fara í sama farið.

Komnir í efsta sætið og Heimir hættir

Eyjamenn náðu efsta sætinu um tíma í Pepsídeildinni í knattspyrnu, með góðum sigri á Þór frá Akureyri, 3:1 þar sem  Aaron Spear gerði tvö mörk og Andri Ólafsson eitt.

Strax eftir leik ÍBV og Þórs kvisaðist út að Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlaliðs ÍBV síðustu ár, myndi hætta þjálfun liðsins eftir tímabilið 2011, í hans stað kæmi Magnús Gylfason.

Skóflustunga

Fyrsta skóflustunga að nýrri stúku við Hásteinsvöll var tekin laugardaginn 3. desember 2011.  Það var Eyjólfur Guðjónsson, útgerðarmaður, sem tók fyrstu skóflustunguna en Eyjólfur var einn þeirra sem söfnuðu fé í framkvæmdina.

ÍBV fær góða dóma

ÍBV-íþróttafélag fær góða dóma hjá KSÍ fyrir uppeldisstarf félagsins í knattspyrnunni. Þeir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSI og Dagur Sveinn Dagbjartsson, starfsmaður fræðsludeildar heimsóttu félagið í upphafi ársins 2012 og tóku út knattspyrnuhlutann í starfi félagsins.

1000 marka maðurinn

Í upphafi árs 2012 lék ÍBV við Víkinga í handboltanum. Þetta var tímamótaleikur hjá Sigurði Bragasyni sem skoraði sitt 1000. mark í Íslandsmótinu fyrir  ÍBV. Fyrsta markið sem Sigurður skoraði fyrir ÍBV var árið 1994 og þá gegn Fjölni.   Hann hafði verið á leikskýrslu í 332 leikjum sem gera þá rúmlega 3 mörk í leik. Alla tíð hefur Sigurður leikið með ÍBV utan  veturinn 2000-2001 þegar hann lék með  Víkingum. Hann er markahæsti leikmaður ÍBV frá upphafi.

Aðalfundurinn

ÍBV íþróttafélag hélt aðalfund sinn fyrir árið 2011 um miðjan apríl 2012. Það sem helst bar til tíðinda var mikill viðsnúningur í rekstri félagsins. Félagið tapaði 19.4 milljónum árið 2011 en hagnaðist um 34,8 milljónir árið 2010. Er þetta viðsnúningur uppá 54 milljónir króna. Skuldir félagsins námu í árslok 2011 136,2 milljónum.

Ný stúka

Veturinn og sumarið 2012 var unnið að byggingu nýrrar áhorfendastúku á Hásteinsvelli á vegum ÍBV íþróttafélags.  Stúkan var í fyrsta skiptið notuð í bikarleiknum gegn KR sunnudaginn 8. júlí og var þétt setin.

Jónas Sigurðsson skrifaði í Eyjafréttir, skemmtileg grein um fyrstu notkun á stúkunni og þá hópa sem hafa verið fastheldnir á sín stæði á Hásteinsvelli.

Stúkan Fólk var svolítið feimið og vissi ekki alveg hvar það átti að setjast, einhver spurði hvar er Hóllinn? Einn mætti í KR-búningi, það settist enginn í sömu sætaröð, enginn í röðina fyrir aftan eða framan. Hugrakkur KR-ingur. En smátt og smátt þéttist í stúkunni og nánast setið í hverju sæti þegar leikurinn hófst. Það var góð stemmning og ágætis kór sem lét heyra vel í sér þegar dómarinn flautaði leikinn á.

Snautlegra líf

Páll Magnússon alþingismaður ritaði grein í Eyjafréttir um mitt sumar 2012. Í niðurlagi greinar sinnar skrifar hann:  „Fyrir utan beinan og óbeinan fjárhagslegan ávinning, sem allt samfélagið hefur af starfi ÍBV, hefur svo til hver einasta fjölskylda hér í Eyjum nánast daglegan snertiflöt við félagið í gegnum íþrótta- og æskulýðsstarf fyrir börn og unglinga. Þannig skipar ÍBV afar stóran sess í öllu daglegu lífi okkar Eyjamanna og Eyjólfur á Gullberginu hitti naglann nákvæmlega á hausinn þegar hann sagði í viðtali við Moggann „...lífið væri snautlegt í Eyjum án ÍBV“.

Hálftími í brekkusönginn

Einn af hápunktum þjóðhátíða er brekkusöngurinn. Árið 2012 sáu Jarl Sigurgeirsson og Sæþór vídó um hann. Nema um þjóðsönginn, þar var komið að þætti Árna Johnsen sem átti að  enda með þjóðsöngnum, Íslands þúsund ár, en það dugði Árna ekki. Hann kom því skilmerkilega á framfæri að hann væri hin eina sanna rödd Brekkusöngsins sem hann byrjaði með 1977.  Þetta margítrekaði hann og til að undirstrika það söng hann í rúman hálftíma og var klukkan komin fram yfir hálf eitt þegar kom að þjóðsöngnum.

Íþróttaakademían

Íþróttaakademíur ÍBV og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum (FÍV) annars vegar og Grunnskóla Vestmannaeyja (GRV) héldu sínu striki árið 2012 en alls voru 66 ungmenni sem æfðu handbolta og fótbolta á þeirra vegum eldsnemma á morgnana.  Þjálfarar voru þeir Erlingur Birgir Richardsson, sem sá um handboltann og styrktarþjálfun og Ian Jeffs, sem sá um fótboltann. Erlingur hafði yfirumsjón með starfsemi akademíunnar en hann sagði að skipting nemenda hafi verið nokkuð jöfn.  „Það er nokkuð jöfn skipting á milli FÍV og GRV og sömuleiðis á milli fótbolta og handbolta.  Það eru tveir á framhaldsskólaaldri sem flakka á milli beggja greinanna og eru þá á einni æfingu í fótbolta og einni í handbolta, í stað þess að vera á tveimur æfingum í sömu greininni.“

Silfurstelpurnar okkar

Kvennalið ÍBV í knattspyrnu sló heldur betur í gegn á lokakafla Íslandsmótsins 2012. Eftir niðurlægjandi tap gegn FH á Hásteinsvelli, brettu stelpurnar upp ermarnar og töpuðu ekki leik í síðustu sjö umferðunum.  Og þegar upp var staðið, þá náði ÍBV 2. sætinu í Pepsídeildinni, sem er jöfnun á besta árangri kvennaliðs ÍBV í efstu deild. Sannarlega glæsilegur árangur hjá Jóni Ólafi Daníelssyni, þjálfara ÍBV og lærimeyjum hans.

Styrkur frá UEFA

ÍBV,  líkt og áður fékk sinn hlut af greiðslu UEFA til KSÍ vegna ágóða af Meistaradeild Evrópu 2011-2012.  Féð var eyrnamerkt barna- og unglingastarfi en hlutur ÍBV var 3.620.000 kr.  Alls fengu íslensk félög 43 milljónir, sem skiptust milli félaga í efstu deild karla.  Því til viðbótar ákvað KSÍ að reiða fram 40 milljónir sem skiptust milli liða í öðrum deildum Íslandsmótsins.  Eitt af skilyrðum var að félögin haldi úti yngri flokkum beggja kynja.

Nýr framkvæmdastjóri

Um miðjan janúar 2013 lét Tryggvi Már Sæmundsson af störfum sem framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. Nýr framkvæmdastjóri er Dóra Björk Gunnarsdóttir. Hún er kennaramenntuð og hefur starfað við  Grunnskóla Vestmannaeyja.

Páll Scheving hættir í  stjórn ÍBV og Þjóðhátíðarnefnd

Páll sat  í þjóðhátíðarnefnd í tólf ár, þar af tíu ár í röð og formaður í fjögur ár. Þjóðhátíðin tók  miklum breytingum á þessum árum og margt gert í framfaraátt. Hátíðin var aðlöguð breyttum tímum og brugðist við auknum kröfum.

Það hefur  blés hressilega um þjóðhátíðina þar sem Páll stóð í  stafni. Gagnrýnin hefur á stundum verið bæði óvægin og óréttlát en stundum átt rétt á sér. Páll viðurkennir það en benti líka á að besta leiðin til að gera ekki mistök sé að gera ekki neitt.

Úrvalsdeildarsætið í höfn

Karlalið ÍBV í handbolta tryggði sér sæti í úrvalsdeild tímabilið 2012-2013 með glæsilegum sigri á Stjörnunni í Garðabæ. Mest náðu Eyjamenn átta marka forystu í leiknum en óvænt spenna hljóp í leikinn á lokakaflanum þegar Garðbæingar náðu að minnka muninn niður í tvö mörk. En lengra komust þeir ekki og lokatölur urðu 24:27. Þjálfarar liðsins voru Arnar Pétursson og Erlingur Richardsson.

David James semur við ÍBV

Enski landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi, David James, skrifaði undir samning hjá ÍBV vorið 2013.  James er án efa þekktasti knattspyrnumaðurinn sem hefur verið á mála hjá íslensku liði og sannkallaður hvalreki fyrir ÍBV og í raun íslenska knattspyrnu.  James lék með  ÍBV um sumarið og starfaði einnig sem aðstoðarþjálfari við hlið Hermanns Hreiðarssonar. Eins og gefur að skilja vakti koma James til ÍBV verðskuldaða athygli. Enskir fjölmiðlar sýndu málinu mikinn áhuga og var m.a. sagt frá vistaskiptum markvarðarins á vef The Guardian, Sky Sports og BBC.

Þung undiralda á aðalfundi

Salurinn í Týsheimilinu var þétt setinn á aðalfundi ÍBV-íþróttafélags 17. apríl 2013.  Stórkarlalegar yfirlýsingar stjórnarmanna dagana á undan höfðu örugglega átt sinn þátt í áhuga á fundinum. Það var áfram þungi í mönnum en umræðan var þó vel innan velsæmismarka. Það sem stóð  uppúr var glæsilegur árangur félagsins árið á undan og öflugt starf en dökka hliðin  að félagið skuldar of mikið. Um þetta var tekist á fundinum og féllu þung orð, m.a. sagt að þjóðhátíð skilaði ekki því sem gera mætti ráð fyrir miðað við umfang og veltu. Því var mótmælt og sýnt fram á að tekjur af þjóðhátíð skipta máli fyrir rekstur félagsins þó alltaf megi deila um hvað sé ásættanlegt og hvað ekki.

Á framhaldsaðalfundi nokkrum dögum síðar var Sigursveinn Þórðarson kjörinn formaður félagsins og með honum í stjórn,  Íris Róbertsdóttir, varaformaður, Guðmundur Ásgeirsson, gjaldkeri og Arnar Richardsson, ritari. Aðrir í stjórn eru Páll Magnússon, Stefán Jónsson, Ingibjörg Jónsdóttir, Styrmir Sigurðarson og Hannes Sigurðsson.

Fyrsti Íslandsmeistaratitill ÍBV íkarla  handbolta

Tveir flokkar ÍBV í handbolta urðu Íslandsmeistarar 2013, yngra ár 4. flokks drengja og eldra ár 5. flokks kvenna.

Þessi sigur 4. flokks drengja var fyrsti Íslandsmeistaratitill í handbolta í sögu ÍBV íþróttafélags. Þjálfarar drengjaliðsins var  Jakob Lárusson en þjálfari stúlknaliðsins var Unnur Sigmarsdóttir.

Skemmtilegur opnunarleikur

Það var augljóst að mikil eftirvænting ríkti í Vestmannaeyjum þegar blásið var til leiks í opnunarleik Íslandsmótsins í knattspyrnu 2013, sem að þessu sinni fór fram á Hásteinsvelli.  Þar áttust við heimamenn í ÍBV og ÍA en í liði ÍBV var stórstjarnan David James. Það fór líka ekki á milli mála að stuðningsmenn liðsins vildu berja stórstjörnuna augum, enda voru ríflega eitt þúsund manns á vellinum og fjölmargir voru mættir mjög tímanlega. ÍBV hafði betur í leiknum 1:0 með marki Gunnars Más Guðmundssonar. 

Stórveldi á íþróttasviðinu

ÍBV fékk afhentan unglingabikar HSÍ á lokahófi sambandsins 2013, þar sem ÍBV sópaði að sér verðlaunum. Unglingabikar er eftirsóknarverður bikar en hann fær það félag sem að mati HSÍ hefur sinnt unglingastarfi hvað best á tímabilinu. Undir unglingastarfið falla 3. flokkur og yngri iðkendur í karla- og kvennaflokki. ÍBV bætti því enn einni rósinni í hnappagatið og vel að þessum titli komið.

Heimir

Heimir Hallgrímsson er án efa sá þjálfari sem hefur náð lengst af þeim íþróttaþjálfurum sem Eyjarnar hafa alið af sér.  Heimir náði frábærum árangri með karla- og kvennalið ÍBV og ekki síður yngri flokka félagsins. Hann var í kjölfarið ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari. Undir stjórn Lars Lagerbäck og Heimis náði íslenska karlalandsliðið sögulegum árangri, þótt sætið á HM hafi runnið úr greipum á lokasprettinum.   Heimir var svo ráðinn landsliðsþjálfari.

90 nemendur í Íþróttaakademíunni 2013

Góður rómur hefur verið gerður af starfsemi Íþróttaakademíu ÍBV og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum og Grunnskóla Vestmannaeyja.  Nemendur fá góða kennslu í viðkomandi íþróttagrein, þá er gerð krafa á nemendur beggja akademía um hollt líferni, góða framkomu og námsárangur.    Tímabilið 2013-14 voru samtals 90 nemendur í íþróttaakademíu, 39 í FÍV og 51 í GRV.

Ian David Jeffs var skólastjóri  en hann var þriðji til að sinna starfinu.  Árni Stefánsson byrjaði, Erlingur Richardsson tók við af honum og nú Jeffsy, eins og hann er kallaður.

Baráttan um Íslandsmeistaratitlinn 2014 endaði  með sigri ÍBV

Það varð enginn vonsvikinn af því að hafa fylgt karlaliði ÍBV í handbolta, til Hafnarfjarðar í síðasta leik liðsins í úrslitarimmunni.  Verið var að leika hreinan úrslitaleik gegn Haukum og stuðningsmenn ÍBV voru sem fyrr frábærir.  Meira en klukkutíma fyrir leik var stúkan orðin full Eyjamegin.  Þetta sýndi hug Eyjamanna, - titlinum skyldi landað.

Örtröð myndaðist þegar byrjað var að selja miða í hópferð á leikinn.  Forsalan fór fram í afgreiðslu Herjólfs og biðröðin náði langt út á bryggju. 

Fjölmargir Eyjamenn tryggðu sér einnig miða í forsölu Hauka og svo síðar á leikdegi.  Enda var það þannig að á leiknum á Ásvöllum voru um 2.500 manns og ekki minna en helmingur voru Eyjamenn.  Þrautreyndur Haukamaður sagði að hann hefði aldrei áður séð jafn marga í íþróttahúsinu, ekki einu sinni þegar Hafnarfjarðarliðin Haukar og FH mætast. Hann bætti því líka við að hann hefði aldrei áður séð jafn mikla stemmningu á handboltaleik á Íslandi og þótti mikið til stuðningsmanna ÍBV koma.  Stuðningsmenn ÍBV hafa farið á kostum í úrslitakeppninni, og reyndar fyrir hana líka.  Hvítu riddararnir höfðu verið fremstir í flokki, haldið uppi stemmningunni og aðrir stuðningsmenn ÍBV ekki látið sitt eftir liggja. Stuðningsmenn ÍBV hafa lyft handboltanum á Íslandi upp á hærri stall í vetur.  Þetta eru stór orð en full innistæða fyrir þeim. 

Leikurinn sjálfur var nánast sem í blámóðunni fyrir mörgum, þvílík var spennan.  Fyrri hálfleikur var jafn, Eyjamenn þó með undirtökin en í síðari hálfleik náðu Haukar fjögurra marka forystu og einhverjir farnir að velta því fyrir sér hvort draumurinn væri úti.  „Fyrir það fyrsta, við erum að spila úrslitaleik strákar mínir.  Njótiði þess. Smá bros og losum okkur við spennuna,“ sagði Arnar Pétursson, annar tveggja þjálfara ÍBV í leikhléi sem ÍBV tók um miðjan seinni hálfleikinn þegar staðan var 22:18.  Arnar hitti naglann á höfuðið.  Leikmenn byrjuðu að spila með gleðina að vopni og það sem fylgdi í kjölfarið fer í sögubækurnar.  Peyjarnir okkar söxuðu á forskot Hauka og Theodór Sigurbjörnsson kom ÍBV yfir 23:24 þegar 12 mínútur voru til leiksloka.  Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem liðin skiptust á að hafa forystuna.  Staðan var jöfn þegar mínúta var eftir.  ÍBV fór í sókn, markvörður þeirra varði frá Agnari Smára Jónssyni, sem kastaði sér inn í teig, náði frákastinu og kom boltanum í netið í annarri tilraun. Þvílík tilþrif hjá Agnari Smára, sem skoraði þrettán mörk í leiknum, hvorki meira né minna.  Vörn Eyjamanna stóð svo af sér síðustu sókn Hauka og fagnaðarlætin í leikslok voru mögnuð.  Leikmenn og forráðamenn féllust tárvotir í faðma með stuðningsmönnum sínum.   Fyrsti Íslandsmeistaratitill meistaraflokks karla ÍBV í handbolta staðreynd. 

Árangurinn náðist því allir lögðust á eitt, leikmenn, þjálfarar, forráðamenn, stuðningsmenn og fleiri.  Að nýliðar ÍBV skuli standa uppi sem sigurvegarar í Íslandsmótinu í fyrsta sinn er ótrúlegt, ekki síst í ljósi þess að fyrir aðeins rúmum tveimur árum var ÍBV næstlélegasta lið landsins.  Þessi vegferð hófst ekki í haust, hún hófst fyrir nokkrum árum þegar deildin var í skuldaklafa.  Skuldirnar voru greiddar upp og þá hófst uppbyggingin sem  fjölmargir komu að.   En uppskeran er góð, ÍBV er besta handboltalið landsins.

Heimkoma sem seint gleymist

„Við komum kl. hálftvö í nótt með Herjólfi og það var full bryggjan af fólki til að taka á móti okkur. Það var slegið upp flugeldasýningu og fleira til gamans gert. Þá var slegið upp veislu sem stóð fram eftir nóttu. Það var seint farið að sofa og snemma farið á fætur í morgun þar sem konan mín var að byrja að vinna eftir fæðingarorlof. Sonur minn 10 mánaða hafði engan skilning á að ég var þreyttur í morgun,“ sagði Gunnar Magnússon, annar þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara ÍBV í handknattleik karla, glaður í bragði.

Íslands- og bikarmeistarar

Eyjamenn eignuðust enn á ný Íslandsmeistara í handbolta þegar 4. flokkur kvenna, yngri, vann Fram í úrslitaleik mótsins í Austurbergi.  Lokatölur urðu 20:18 eftir framlengingu en eftir venjulegan leiktíma var staðan 17:17.  Eyjaliðið var lengi í gang enda var Fram yfir í hálfleik 11:7.  En stelpurnar unnu sig inn í leikinn með mikilli baráttu og eiga hrós skilið fyrir veturinn, enda bæði Íslands- og bikarmeistarar.  Þjálfari liðsins var Unnur Sigmarsdóttir.

Loksins kom heimasigur

Gengi karlaliðs ÍBV í knattspyrnu stóð ekki undir væntingum sumarð 2014 en loksins tókst meistaraflokki karla að sigra í heimaleik í Pepsi-deildinni en sigurinn kom á Hásteinsvelli gegn Fjölni í mjög svo skemmtilegum leik þar sem Eyjamenn stjórnuðu ferðinni, þó aðallega í seinni hálfleik. Eyjamenn höfðu unnið síðustu tvo útileiki áður en kom að þessum en það voru útisigurinn í Keflavík og bikarsigurinn gegn Þrótti. Lokatölur voru 4:2 sem verður að teljast sanngjarnt.

Stærsta þjóðhátíðin

Sumarið 2014 hélt ÍBV íþróttafélag stærstu þjóðhátíð sína, en tæplega 15 þúsund gesti voru þá í Herjólfsdal. Hún tókst með ágætum. Veður var ágætt alla dagana, sól og blíða á föstudeginum, skúrir á laugardeginum og skýjað og nokkur vindur á sunnudeginum. Dóra Björk Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags sagði m.a.  í viðtali við  Eyjafréttir:   „Það var líka gaman að sjá að hvítu tjöldunum er að fjölga, voru núna 326 á móti rúmlega 290 í fyrra.

6. flokkur Íslandsmeistari

Stelpurnar í 6. flokki kvenna hjá ÍBV urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu um mánaðamótin ágúst/september 2014.  B- og C-lið flokksins náði einnig mjög góðum árangri, liðin tvö enduðu í þriðja sæti Íslandsmótsins.  A-liðið hafði gríðarlega mikla yfirburði í sumar og vann til að mynda sinn riðil með fullt hús stiga og komst því leikandi í úrslitariðilinn sem fram fór nokkrum dögum síðar. Þar voru stelpurnar alls ekki hættar og ákváðu að vinna alla leikina þar. Þær gerðu það svo vel að ekkert annað lið í riðlinum var með jafn gott markahlutfall. Stelpurnar eru vel að titlinum komnar og eiga bjarta framtíð fyrir sér. Athöfn var á bryggjunni við komu Herjólfs en stelpunum sem skiluðu sér til Eyja voru færðir blómvendir. 

Evrópukeppni kvennaliðsins

ÍBV stelpurnar okkar héldu út til Ítalíu um miðjan október 2014 til þess að keppa tvo leiki gegn ítölsku liði í forkeppni Evrópudeildar. Fyrir ferðina var ljóst að ítalska liðið var gríðarlega sterkt og með nokkrar reyndar stelpur sem höfðu áður leikið í Meistaradeildinni.

Fyrri leikur liðanna fór fram á föstudegi og var mikið jafnræði á með liðunum. Stúlkurnar okkar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik en að honum loknum var staðan 14:14. Í síðari hálfleik fóru stelpurnar illa með færin sín og lokatölur urðu 27:24. Það var því ljóst að erfitt verkefni beið stelpnanna næsta dag. Mörk ÍBV í fyrri leiknum skoruðu Jóna S. Halldórsdóttir 7, Telma Amado 6, Díana Dögg Magnúsdóttir 4, Vera Lopes 3, Ester Óskarsdóttir 2 og Elín Anna Baldursdóttir 2. 

Síðari leikurinn fór, eins og fyrri leikurinn, fram í höll þar sem mikill hiti var og margir stuðningsmenn ítalska liðsins, aðstæður sem stelpurnar þekkja ekki. Í leiknum varð snemma ljóst að þær myndu ekki ná að vinna upp muninn sem hafði myndast eftir fyrri leikinn. Allar stelpurnar fengu því að spila og tapaðist leikurinn með níu marka mun 34:25.

Mörk ÍBV skoruðu Jóna S. Halldórsdóttir 8, Vera Lopes 3, Telma Amado 3, Elín Anna Baldursdóttir 3, Sandra Dís Sigurðardóttir 2, Ester Óskarsdóttir 2, Bergey Alexandersdóttir 1, Sóley Haraldsdóttir 1 og Ásta Björt Júlíusdóttir 1.

Gríðarlegur ferðakostnaður

Ferðakostnaður ÍBV-íþróttafélags fyrir árið 2014 var kr. 56.500.000,-.  Eingöngu er um að ræða ferðir í Íslandsmót en ekki í bikarkeppni, æfingaleiki, deildar og Lengjubikar, Faxaflóamót og fleira. Ferðajöfnunarsjóður kom til móts við þennan kostnað  og úr honum komu  nálægt kr. 6.000.000- Til þess að standa straum af þessum kostnaði hefur ÍBV notið mikillar góðvildar einstaklinga og fyrirtækja sem og Vestmannaeyjabæjar.

1200 leikir – 43 starfsmenn á launaskrá – 50% grunnskólabarna æfa íþróttir hjá félaginu

Á viðurkenningahátíð Íþróttabandalagsins ræddi Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags um félagið og starf þess. Hún sagði að á árinu 2014 hefði ÍBV spilað rúmlega 1200 leiki í Eyjum og félagið var þá sem oftast áður stærsti  viðskipavinur  Herjólfs í farþegaflutningum. Félagið átti 23 íþróttamenn sem léku fyrir Íslands hönd með landsliðum og þrír  þjálfarar félagsins stýrðu landsliðum Íslands og félagið ætti þar að auki handboltaþjálfara eins besta félagsliðs heims.   ÍBV íþróttafélag varð Íslandsmeistari í þremur yngri flokkum og bikarmeistari í tveimur. Og Íslandsmeistari í meistaraflokki  karla í handbolta. ÍBV íþróttafélag hefði að jafnaði 43 starfsmenn  á launaskrá, félagið verslaði við fyrirtæki og stofnanir í Eyjum fyrir rúmar 100 milljónir króna. 50% allra grunnskólabarna stunda íþróttir á vegum félagsins og uppeldismenntað fólk sem sér um kennslu yngstu iðkenda félagsins er 10 talsins.  80 ungmenni stunda nám í Íþróttaakademíunni

Bikarmeistarar - Hafa unnið 17 leiki í röð

Stelpurnar í þriðja  flokki ÍBV í handbolta voru ótrúlegar. Þær töpuðu ekki leik á tímabilinu 2014-15 eftir slakan fyrsta leik gegn Selfyssingum. Þær mættu þeim einmitt í úrslitum bikarsins. Þrjár stelpur sem spila stórt hlutverk hjá meistaraflokki spila með liðinu. Þær Erla Rós Sigmarsdóttir, Arna Þyrí Ólafsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir en þær spiluðu allan leikinn.

Í upphafi leiksins var mikið jafnræði á með liðunum en ÍBV virtist þó alltaf vera einu til tveimur skrefum á undan. Í hálfleik var staðan 12:10 eftir flottan kafla ÍBV undir lok fyrri hálfleiks.   Í síðari hálfleik sást vel hvort liðið væri á toppi deildarinnar. Stelpurnar sýndu sínar bestu hliðar en það var þó ein sem stal senunni. Sóley Haraldsdóttir átti frábæran leik og skoraði ellefu mörk. Þegar sóknir stelpnanna virtust vera að renna út í sandinn gat Sóley bjargað málunum. Lokatölur leiksins urðu 24:18 og var Sóley valin kona leiksins.    

Bikarinn til Eyja

Karlalið ÍBV í handbolta fékk FH sem mótherja í úrslitaleik bikarkeppninnar 2015 eftir að hafa unnið Hauka í dramatískum leik. - Það gekk allt upp hjá Eyjamönnum í upphafi og var staðan 6:6 eftir fimmtán mínútna leik. FH-ingar náðu þá góðum kafla,  spiluðu ótrúlega vörn og góða sókn, þeir breyttu stöðunni í 6:10 á svipstundu.

Þá hófst frábær kafli Eyjamanna, áður en flautan gall í hálfleik höfðu strákarnir jafnað í 11:11. Þessi kafli hélt áfram í upphafi síðari hálfleiks og var staðan orðin 19:14 áður en síðari hálfleikur var hálfnaður. Kolbeinn Aron Arnarson var í ótrúlegu stuði í leiknum en hann varði alls þrjú vítaköst.  Staðan var svo 23:19 þegar einungis sex mínútur voru eftir en þá voru flestir farnir að bóka sigurinn. Þá klikkaði nánast allt sem gat klikkað  hjá Eyjamönnum þessar síðustu mínútur. FH-ingum tókst að minnka muninn niður í eitt mark og höfðu boltann þegar mínúta var eftir.  Vörn ÍBV varði slakt skot frá ungri skyttu FH-inga og sigldi þar með sigrinum í höfn. Allt ætlaði um koll að keyra í Laugardalshöllinni en ótrúleg stemning var í húsinu.

Kolbeinn Aron Arnarson var ótrúlegur í úrslitaleiknum og varði nítján skot, þar af þrjú vítaköst. Hann varði einnig mörg skot úr opnum færum á mikilvægum tímapunktum í leiknum. Agnar Smári Jónsson skoraði mest Eyjamanna í leikjunum eða tíu mörk. Hann skoraði síðasta markið gegn FH.

Hvítu Riddararnir stjórnuðu stemningunni mjög vel  en þessi stórkostlega  stuðningsmannasveit  hefur staðið sig ótrúlega vel síðustu tvö ár. Leikmenn og þjálfarar liðsins fara ekki í eitt einasta viðtal án þess að þakka fyrir stuðninginn og stemninguna sem hefur ekki verið meiri í íslenskum handbolta í mörg ár. Og uppskeran er fyrsti bikarmeistaratitill karla frá árinu 1991 þegar Íþróttabandalag Vestmannaeyja vann Víking  eftir að hafa lent sjö mörkum undir.

Við heimkomu bikarmeistaranna  með Herjólfi  var skotið upp flugeldum og blys loguðu á Heimakletti, Miðkletti og Ystakletti.

Erfitt er að segja til um hvað margir voru samankomnir á bryggjunni til að samfagna Bikarmeisturunum en þeir voru eitthvað á milli 1000 og 2000 manns. Og til að undirstrika enn hvert hugur veðurguðanna beinist í handboltanum á Íslandi lagðist hvít slikja yfir Eyjarnar eftir móttökuna með Herjólfi. Hvítt er jú litur ÍBV.  Þarna endurtók sig sagan frá síðasta vori þegar ÍBV kom heim með Íslandsmeistaratitilinn. Þá skartaði náttúran sínu blíðasta, stjörnubjörtu kvöldi, fullu tungli og logni.

Á eftir var sigurhátíð  í Höllinni og á Háaloftinu fyrir strákana þar sem frítt var inn og sungið og dansað í fullu húsi fram á morgun.

5. flokkur Íslandsmeistari

Stelpurnar í 5. flokki kvenna eru með langbesta liðið á Íslandi í sínum flokki. Þær unnu öll fimm mótin sem voru í boði á árinu 2015, en ekki nóg með það, því liðið vann hvern og einn einasta leik. Rétt eins og það hafi ekki verið nóg þá vann liðið alla leikina nema tvo með tíu marka mun eða meira.   Þetta er ótrúlegur árangur hjá stelpunum sem hafa svo sannarlega hælana þar sem önnur lið komast ekki með tærnar. Á síðasta tímabili urðu stelpurnar einnig Íslandsmeistarar. B-lið stelpnanna er einnig það besta á landinu, í síðasta móti vetrarins komst B-liðið upp í fyrstu deild. Engu öðru B-liði hefur tekist að tryggja sér sæti í efstu deild 5. flokks kvenna.  Stelpurnar eru einnig með fyrirmyndarþjálfara en feðgarnir Björn Elíasson og Hilmar Ágúst Björnsson stýra þeim.

Tryggvi lét af störfum fyrirvaralaust

Tryggvi Guðmundsson,  lét af störfum sem aðstoðarþjálfari knattspyrnuliðs karla  ÍBV í endaðan júlí 2015. Hann var  ekkert  að fegra sinn hlut sinn í málinu. Tryggvi  mætti undir áhrifum áfengis á æfingu og þá sem aðalþjálfari í forföllum Jóhannesar Harðarsonar yfirþjálfara. Í kjölfarið varð að samkomulagi milli hans og knattspyrnuráðs ÍBV að hann hætti.

Meistarar meistaranna 2015

ÍBV varð  meistari meistaranna í karlaflokki í handknattleik eftir nauman sigur á Haukum, 25-24 sigur í Schenker-höllinni.  Með sigrinum tókst strákunum að hefna fyrir tapið í fyrra gegn Haukum í sama leik en þá tapaði ÍBV með eins marks mun.   Þjálfarar liðsins voru Arnar Pétursson og Sigurður Bragason.

Minningarathöfn, Abel kvaddur

Landakirkja var þéttsetin í minningarathöfn um Abel Dhaira, markmann ÍBV sem lést 27. mars 2016, aðeins 28 ára gamall eftir stutta baráttu við krabbamein. Það var ÍBV og vinir hans sem stóðu fyrir athöfninni þar sem sr. Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur Landakirkju og Guðni Hjálmarsson, forstöðumaður Hvítasunnusafnaðarins í Eyjum fluttu minningarorð. Hvítasunnufólk sá um tónlist og Árný Heiðarsdóttir, sem gekk honum í einskonar móðurstað. ÍBV fáninn var í kór klæddur sorgarklæði þar sem leikmenn meistaraflokks karla sátu.  Athöfnin var látlaus og í anda Abels sem ekki lét mikið fyrir sér fara nema þegar hann var mættur á milli stanganna í marki ÍBV. 

3. flokkur Íslandsmeistari

ÍBV eignaðist Íslandsmeistara í 3. flokki karla í fyrsta skiptið, þessir sömu strákar unnu fyrsta Íslandsmeistaratitil ÍBV í 4.flokki  árið 2013.  Í ár var liðið undir stjórn Svavars Vignissonar og tefldi það fram tveimur liðum, einu sem spilaði í 1. deild og öðru sem spilaði í 3. deild. Liðið sem var í 3. deild var einungis skipað leikmönnum fæddir 1999, á yngra ári flokksins.

Ágúst Emil Grétarsson var útnefndur maður leiksins en hann skoraði átta mörk, í öllum regnbogans litum. Strákarnir fengu síðan móttöku við hæfi á Básaskersbryggju eftir leik þar sem þeir höfðu ferðast með bikarinn til Eyja í Herjólfi með tilheyrandi látum og söngvum.

Þriðji flokkur karla vann einnig  í B-úrslitum.   Liðið tapaði ekki leik á öllu tímabilinu. Þeir unnu 15 af sínum 16 leikjum í deildinni og voru með 178 mörk í plús.

Lengjubikarmeistarar 2016

Eftir mikla velgengni í Lengjubikarkeppninni tók meistaraflokkur kvenna  á móti Breiðabliki í úrslitunum á Hásteinsvelli. ÍBV stelpurnar  höfðu betur í 3:2 sigri og fengu því Lengjubikarinn í ár.

ÍBV stelpurnar byrjuðu frábærlega en eftir 25 mínútur var staðan orðin 3:0 fyrir okkar stelpum. Blikastelpurnar minnkuðu muninn í 3:1 á 27. mínútu. Staðan var 3:1 í hálfleik. Gestirnir skoruðu svo annað mark sitt á 85.mínútu leiksins og voru því lokatölur leiksins 3:2 og ÍBV stelpurnar því handhafar Lengjubikarsins 2016.  

Mörk ÍBV skoruðu þær Chloe Lacasse, Lisa Marie Woods og Rebekah Bass. 

Þannig fór það

Það  var stór áfangi hjá ÍBV að eiga lið bæði í karla- og kvennaliði ÍBV í knattspyrnu í úrslitum Borgunarbikarsins  2016, sem fram fór á Laugardalsvelli dagana 12. og 13. ágúst. Því miður urðu Eyjamenn og konur að sætta sig við silfurverðlaunin en stuðningsmennirnir klikkuðu ekki og voru síst færri á pöllunum og létu vel í sér heyra.

ÍBV stelpurnar tóku á móti Blikum í úrslitaleiknum. Þær höfðu farið nokkuð erfiða leið þar sem þrjú Pepsi-deildar lið urðu á vegi þeirra. KR, Selfoss og Þór/KA slógu þær úr leik en leikurinn við Þór/KA fór alla leið í framlengingu þar sem Eyjakonur reyndust sterkari aðilinn.  Í úrslitaleiknum byrjaði leikurinn alveg skelfilega. Olivia Chance, nýr leikmaður Blika, skoraði mark eftir rúma mínútu þar sem hún átti skot fyrir utan sem rataði í netið.   Berglind Björg Þorvaldsdóttir, uppalin Eyjakona, skoraði annað mark Blika eftir rúmlega tuttugu mínútna leik þar sem hún skallaði í netið eftir hornspyrnu. Svona var staðan í hálfleik og Blikar líklegri til að bæta við marki heldur en ÍBV að minnka muninn.

Lið ÍBV kom þó virkilega ferskt út í seinni hálfleikinn þar sem Natasha Anasi minnkaði muninn eftir tæpar fimm mínútur í seinni hálfleik. Þá leit allt eins út fyrir að ÍBV gæti jafnað leikinn. Tíu mínútum seinna komust Blikastelpur í 3:1 þegar önnur Vestmannaeyjamær skoraði en Fanndís Friðriksdóttir átti þá hnitmiðað skot út við stöng.

Leikurinn fjaraði fljótt út og voru mínúturnar ekki lengi að líða þar sem ÍBV vantaði mörk, allt kom fyrir ekki og tap í bikarúrslitunum því staðreynd

Karlalið ÍBV spilaði við Valsara eftir að hafa farið erfiðu leiðina í bikarúrslitin, liðið sló út Huginsmenn, Stjörnuna, Breiðablik og FH. Í úrslitaleiknum mætti liðið Val  og ekki byrjaði leikurinn gæfulega fyrir Eyjamenn.   Valsarinn Sigurður Egill Lárusson fékk fyrsta færið og skoraði fyrsta markið eftir tæpar tíu mínútur, hann var síðan aftur á ferðinni þegar hann tvöfaldaði forystuna eftir tuttugu mínútna leik. Í millitíðinni hafði Gunnar Heiðar Þorvaldsson fengið gott tækifæri til að jafna leikinn fyrir Eyjamenn.  Restin af leiknum var nokkuð tíðindalítill og ekki mikið sem gerðist í síðari hálfleik, ÍBV fékk fá eða engin færi til að minnka muninn og Valsarar í raun verðskuldaðir sigurvegarar.

Hrafnhildur til fyrirmyndar

Ansi áhugavert atvik átti sér stað í handboltaleik ÍBV og Hauka í Íslandsmótinu í handbolta haustið 2016.   Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari kvennaliðs ÍBV, sýndi þá af sér afar íþróttamannslega hegðun. Forsaga málsins er sú að leikmaður ÍBV varð fyrir hnjaski í leiknum og var spurð af dómara leiksins hvort hún þyrfti aðstoð sjúkraþjálfara. Hún svaraði því neitandi en þá var sjúkraþjálfari Haukaliðsins engu að síður lagður af stað inn á völlinn til að hlúa að leikmanni ÍBV en Hrafnhildur hafði beðið sjúkraþjálfara Hauka um að aðstoða sinn leikmann þar sem sjúkraþjálfari ÍBV var staddur inni í klefa að hlúa að öðrum leikmanni. Þar sem dómarar leiksins höfðu ekki gefið sjúkraþjálfara Hauka leyfi til þess að stíga inn á völlinn fékk Haukaliðið tveggja mínútna brottvísun og þurfti að spila manni færri. Það fannst Hrafnhildi ósanngjarnt þar sem hún hafði beðið sjúkraþjálfarann um að fara inn á völlinn. Brá hún þá á það ráð að kippa einum af sínum leikmönnum útaf líka næstu tvær mínúturnar svo áfram yrði jafnt í liðum.Tekið skal fram að ÍBV var undir á þessum tímapunkti og liðið endaði líka á að tapa leiknum. Hrafnhildur fær þó mikið hrós fyrir þessa gríðarlega íþróttamannslegu hegðun en ætla má að afar fáir þjálfarar hefðu gert það sama í þessari stöðu.

Jafnréttisstefna ÍBV íþróttafélags

Stefnt skal að því að réttur hvers og eins einstaklings til að stunda íþróttir sé ávallt fyrir hendi. Uppbygging íþrótta, hvort sem um æfingar eða keppni er að ræða, þarf að tryggja að allir hafi sömu tækifæri. Þessi jafnréttishugsjón þarf að verða eitt megineinkenni íþrótta. Einstaklingur á rétt á að vera metinn af verðleikum sínum en ekki vegna uppruna, þjóðfélagsstöðu, litarháttar eða kyns.

Hvers vegna á íþróttahreyfingin að vinna að jafnrétti kynja? “Rannsóknir í íþróttaiðkun barna og unglinga sýna að þátttaka í íþróttum hefur bein áhrif á andlega og félagslega vellíðan og styrkir sjálfsmynd þeirra.” (RUM, Þórólfur Þórlindsson o.fl. 1994). Þessar sömu rannsóknir sýna einnig að þátttaka stúlkna og drengja er ekki sambærileg. Stúlkur stunda íþróttir síður en strákar og brottfall þeirra er mun meira en stráka. Það er óumdeilt að íþróttir hafa uppeldislegt, menningarlegt og heilsufarslegt gildi fyrir þá sem þær stunda. Því er mikilvægt að íþróttafélögin séu meðvituð um ábyrgð sína og áhrifamátt hvað þetta varðar og tryggi að allir hafi þar sambærilega möguleika.

ÍBV gerir sig út fyrir það að bjóða upp á æfingar í öllum flokkum í báðum kynjum. Reynt er að bjóða upp á sama æfingamagn hjá báðum kynjum með eins vel menntuðum þjálfurum og kostur er á hverju sinni.

(Heimildir: Eyjafréttir, Morgunblaðið, fundargerðir ÍBV íþróttafélags, Íþróttafélagið Þór í 100 ár)

Með þeirri sögu sem hér hefur verið sögð, er reynt að varpa  ljósi á það umfangsmikla starf sem fram fer hjá ÍBV íþróttafélagi.  Það gerist þó ekki af sjálfu sér. Mikill fjöldi sjálfboðaliða og stuðningsmanna leggja mikið á sig til að halda merki félagsins og Vestmannaeyja hátt á lofti og eru ástæða þess að félagið er jafn öflugt og raun ber vitni.  Það nýtur líka mikils velvilja bæjarbúa sem seint verður fullþakkað. Meðan félagið nýtur slíks, er framtíð þess björt. Þetta afmælisblað ÍBV íþróttafélags er tileinkað öllu því góða fólki sem að baki félagsins stendur. 

___________________________________________________________________________

Ótrúlegur árangur

Árangur af íþróttaiðkun er ekki einhlítur, fleira gott leiðir hún af sér en titla. En í þessari samantekt er eingöngu horft á titla félagsins frá því það var stofnað í lok ársins 1996. Á ýmsu hefur gengið á tímabilinu. Sigrar hafa unnist, en líka hafa sum árin valdið vonbrigðum eins og gengur. En óneitanlega hefur árangur félagsins verið glæsilegur. Alls hefur félagið hlotið 87 meistaratitla í handbolta og fótbolta, þar af 7 meistaratitla í efstu deildum þessara íþróttagreina. Að 4300 manna samfélag eins og Vestmannaeyjar geti státað af þeim árangri sem náðst hefur í handbolta og knattspyrnu, er sennilega einstakt. Og að eiga lið í öllum efstu deildum þessara íþróttagreina getur ekkert annað sveitarfélag státað af nema Reykjavík.

Lið                                                                                                         Þjálfari

Meistaraflokkur karla  í knattspyrnu        Íslandsmeistari                    Bjarni Jóhannsson

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu         Deildarbikarmeistari            Bjarni Jóhannsson

5. flokkur kvenna í knattspyrnu                Íslandsmeistari                    Erna Þorleifsd./Stefanía

1998

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu         Íslandsmeistari                    Bjarni Jóhannsson

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu         Bikarmeistari                       Bjarni Jóhannsson

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu         Meistarar meistaranna         Bjarni Jóhannson

2. flokkur kvenna í knattspyrnu                Íslandsmeistari                    Heimir Hallgrímsson

4. flokkur B kvenna                                  Íslandsmeistari                    Íris Sæmundsdóttir

1999

4. flokkur kvenna í knattspyrnu                Íslandsmeistari                    Íris Sæmundsdóttir

4. flokkur kvenna í innnahússknattsp.      Íslandsmeistari

6. flokkur karla í knattspyrnu                   Shellmótsmeistari A-liða    Jón Ólafur Daníelsson

4. flokkur karla í handbolta                      Bikarmeistari                       Sigurður Bragason/Akba

2000

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Íslandsmeistari                    Sigbjörn Óskarsson

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Meistarar meistaranna         Sigbjörn Óskarsson

6. flokkur B kvenna í knattspyrnu            Íslandsmeistari

2. flokkur kvenna í knattspyrnu                Bikarmeistari

3. flokkur kvenna í innanhússknattsp.      Íslandsmeistari

5. flokkur kvenna í handbolta                   Íslandsmeistari                    Stefanía Guðjónsdóttir 

2001

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Bikarmeistari                       Sigbjörn Óskarsson           

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Meistarar meistaranna         Erlingur  Richardsson

3. flokkur kvenna í knattspyrnu                Íslandsmeistari

2. flokkur kvenna í innanhússknattsp.      Íslandsmeistari                    Sindri Grétarsson

4. flokkur kvenna í handbolta                   Deildarmeistari                    Michael Akbasev

2002

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Bikarmeistari                       Erlingur Richardsson

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Meistarar meistaranna         Unnur Sigmarsdóttir

2003

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Íslandsmeistarar                  Unnur Sigmarsdóttir

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Deildarmeistarar                  Unnur Sigmarsdóttir

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Meistarar meistaranna         Aðalsteinn Eyjólfsson

4. flokkur kvenna í innanhússknattsp.      Íslandsmeistarar                 

2004

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Íslandsmeistarar                  Aðalsteinn Eyjólfsson

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Bikarmeistarar                     Aðalsteinn Eyjólfsson

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Deildarmeistarar                  Aðalsteinn Eyjólfsson

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Meistarar meistaranna         Aðalsteinn Eyjólfsson

Meistaraflokkur karla í handbolta            Íslandsmeistarar í 1. deild   Erlingur Richardsson

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu      Bikarmeistari                       Heimir Hallgrímsson

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu      Deildarbikarmeistari            Heimir Hallgrímsson

5. flokkur C kvenna í handbolta               Íslandsmeistari

5. flokkur C kvenna í handbolta               Deildarmeistari

4. flokkur B kvenna í knattspyrnu            Íslandsmeistari

2005

3. flokkur kvenna í handbolta                   Íslandsmeistari í 2. deild

5. flokkur A kvenna í handbolta               Íslandsmeistari

5. flokkur A kvenna í handbolta               Deildarmeistari

5. flokkur B kvenna í  handbolta              Deildarmeistari

2006

Meistaraflokkur kvenna í handbolta         Íslandsmeistari                    Alfreð Örn Finnsson

6. flokkur A karla í knattspyrnu                Íslandsmeistari                    Heimir/Íris Sæmundsd.

6. flokkur karla í knattspyrnu                   Shellmótsmeistari                Heimir/Íris Sæmundsd.

2007

4. flokkur A kvenna í handbolta               Íslandsmeistari                    Unnur Sigmarsdóttir

4. flokkur B kvenna í handbolta               Íslandsmeistari                    Unnur Sigmarsdóttir

3. flokkur kvenna í knattspyrnu                Íslandsmeistari 7 m/lið       

3. flokkur kvenna í knattspyrnu                Pæjumótsmeistari B-liða

3. flokkur kvenna í knattspyrnu                Símamótsmeistari B-liða

2008

Meistaraflokkur karla í  knattspyrnu        Íslandsmeistari í 1. deild     Heimir Hallgrímsson

6. flokkur C kvenna í handbolta               Íslandsmeistari

2. flokkur kvenna í knattspyrnu                Íslandsmeistari                    Jón Ólafur Daníelsson

2009

6. flokkur C karla í handbolta                   Deildarbikarmeistari 

2010

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu      Íslandsmeistari innanhúss   Jón Ólafur Daníelsson

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu      Íslandsmeistari í 1. deild     Jón Ólafur Daníelsson 

2012

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu         Íslandsmeistari innanhúss   Magnús Gylfason

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu      Íslandsmeistari innanhúss   Jón Ólafur Daníelsson

2. flokkur karla í handbolta                      Deildarmeistari í 2. deild

2013

Meistaraflokkur karla í handbolta            Íslandsmeistari í 1. deild     Arnar Pétursson/Eringur

4. flokkur yngri karla í handbolta             Íslandsmeistari                    Jakob Lárusson

5. flokkur eldri kvenna í handbolta           Íslandsmeistari

2014

Meistaraflokkur karla í handbolta            Íslandsmeistari                    Arnar Pétursson/Gunnar

4. flokkur eldri karlar í handbolta            Bikarmeistari                       Stefán Árnason

4. flokkur  yngri kvenna í handbolta        Íslandsmeistari                    Unnur Sigmarsdóttir

6. flokkur eldri kvenna í handbolta           Íslandsmeistari                    Elísa Sigurðardóttir

4. flokkur yngri kvenna í handbolta         Bikarmeistari                       Unnur/Jón G.Viggósson

6. flokkur A kvenna í knattspyrnu            Íslandsmeistari                   

5. flokkur kvenna í knattspyrnu                Símamótsmeistari A-liða    Sigríður Ása Friðriksd.

2015

Meistaraflokkur karla í handbolta            Bikarmeistari                       Gunnar Magnúss/Sig.B.

Meistaraflokkur karla í handbolta            Meistarar meistaranna         Sigurður Bragas/Gunnar

3. flokkur kvenna í handbolta                   Bikarmeistari                       Jón Gunnl. Viggósson

3. flokkur kvenna í handbolta                   Deildarmeistari í 1.deild     Jón Gunnl. Viggósson

5. flokkur yngri kvenna í handbolta         Íslandsmeistari                    Hilmar Ágúst Björnsson

5. flokkur B kvenna í knattspyrnu            Íslandsmeistari                    Sigríður Ása Friðriksd.

2016

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu         Fótbolti.net meistari            Bjarni Jóhannsson

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu      Lengjubikarmeistari            Ian Jeffs

3. flokkur karla í handbolta                      Íslandsmeistari                    Svavar Vignisson

3. flokkur karla í handbolta                      Deildarmeistari í 1. deild    Svavar Vignisson

3. flokkur karla í  handbolta                     Íslandsmeistari b-liða          Svavar Vignisson

3. flokkur karla í handbolta                      Deildarmeistari í 3. deild    Svavar Vignisson

3. flokkur kvenna í handbolta                   Deildarmeistari í 2. deild    Hrafnhildur Ósk Skúlad.

4. flokkur eldri karla í handbolta              Íslandsmeistari B-úrslit       Hilmar Ágúst Björnsson

4. flokkur yngri kvenna í handbolta         Deildarmeistari í 2. deild    Björn Elíasson

5. flokkur eldri kvenna í handbolta           Íslandsmeistari                    Hilmar Ágúst Björnsson

6. flokkur yngri kvenna í handbolta         Íslandsmeistari                    Bergvin Haraldsson  

(Samantekt: Gísli Valtýsson)      

Verðlaun og meistarar

Íþróttamenn ársins

Meistaraflokkur karla knattspyrnu

(Fram til ársins 1997 var keppt undir merkjum Íþróttabandalags Vestmanneyja. Eftir það var keppt undir merkjum ÍBV íþróttafélags í knattspyrnu og handbolta.)

Íslandsmeistarar í efstu deild:

  • 1979
  • 1997
  • 1998

Bikarmeistarar:

  • 1968 ÍBV-KRb 2:1
  • 1972 ÍBV-FH 2:0
  • 1981 ÍBV-Fram 3:2
  • 1998 ÍBV-Leiftur 2:0

2. sæti í bikarkeppni:

  • 1970 ÍBV-Fram 1:2
  • 1980 ÍBV-Fram 1:2
  • 1983 ÍBV-ÍA 1:2
  • 1996 ÍBV-ÍA 1:2
  • 1997 ÍBV-Keflavík 1:1, 0:0, 4:5 Víti
  • 2000 ÍBV-ÍA 1:2

Deildarbikarmeistarar:

  • 1997 ÍBV - Valur 3:2

Sigurvegarar í næstefstu deild:

  • 1967
  • 1976
  • 1985

Meistarar Meistaranna:

  • 1980 ÍBV-Fram 0:0, 4:3 í vítakeppni
  • 1984 ÍBV-ÍA 2:1
  • 1996 ÍBV-ÍA 5:3
  • 1998 ÍBV-Leiftur 2:1

Drago-styttan (prúðasta lið deildar miðað við fæst gul og rauð spjöld):

  • 1976 (næstefsta deild)
  • 1996
  • 1997
  • 1998

Prúðmennskuverðlaun KSÍ og MasterCard: (prúðasta lið valið af nefnd):

  • 1995
  • 1996
  • 1997
  • 1998

Prúðasti leikmaður efstu deildar:

Besti leikmaður efstu deildar:

Efnilegasti leikmaður efstu deildar:

Markakóngar í efstu deild:

  • 1972 Tómas Pálsson 15 mörk
  • 1981 Sigurlás Þorleifsson 12 mörk
  • 1982 Sigurlás Þorleifsson 10 mörk
  • 1997 Tryggvi Guðmundsson 19 mörk
  • 1998 Steingrímur Jóhannesson 16 mörk
  • 1999 Steingrímur Jóhannesson 12 mörk
  • 2004 Gunnar Heiðar Þorvaldsson 12 mörk

Meistaraflokkur kvenna knattspyrnu

Bikarkeppnin:

  • 2003 ÍBV-Valur 1:3, 2. sæti
  • 2004 ÍBV-Valur 2:0, Bikarmeistarar

Deildarbikarmeistarar:

  • 2004 ÍBV-Valur 3:1

Knattspyrnukona Íslands:

Markahæstar í efstu deild:

  • 2004 Margrét Lára Viðarsdóttir, 23 mörk

Prúðasti leikmaður efstu deildar:

Kvennabikarinn (veittur fyrir gott starf í kvennaknattspyrnu):

  • 1998

Meistaraflokkur karla handknattleik

Deildarmeistarar 2. deild:

  • 1988
  • 1995

Bikarmeistarar:

  • 1991

Meistaraflokkur kvenna handknattleik

Íslandsmeistar:

  • 2000
  • 2003
  • 2004
  • 2006

Bikarmeistarar:

  • 2001
  • 2003
  • 2004

Deildarmeistarar:

  • 2003
  • 2004

Meistarar meistaranna:

  • 2000
  • 2001
  • 2002
  • 2003
  • 2004

Íþróttabandalag Vestm.eyja

Eftirtalin félög eru aðilar að Íþróttabandalagi Vestm.eyja:

Stjórn Íþróttabandalags Vestm.eyja frá upphafi

Formenn

Sjá einnig


Tenglar


Heimildir

50 ára afmælisrit Íþróttabandalags Vestm.eyja, Eyjafréttir, Morgunblaðið, Íþróttafélagið Þór 100 ára