Blik 1974/Bréf til vinar míns og frænda, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 11. apríl 2017 kl. 18:19 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 11. apríl 2017 kl. 18:19 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda

(1. hluti)


Vestmannaeyjum, í apríl 1974.
Kæri vinur og frændi.
Það gladdi mig verulega, að þú skyldir hafa ánægju af síðasta bréfi mínu, - bréfinu í Bliki 1973. Ég þakka þér af alúð bréfin þín og hinn brennandi áhuga þinn á Vestmannaeyjabyggð, sögu hennar, atvinnulífi og menningu frá liðnum tímum. Ýmsu því geturðu kynnzt, ef þú lest af alúð þau hefti af Bliki mínu, sem ég hef nú sent þér. Þá vil ég minna þig á Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen fyrrv. bæjarfógeta hér í kaupstaðnum. Hún er uppspretta sögulegs fróðleiks og náma, sem ég leita oft til í sögulegu grúski mínu og bauki.
Ef ég á að taka fyrir það efni, sem þú leitar fastast eftir að fá skráð, þá seturðu mig í illa klípu. Þú vilt láta mig tjá lesendum Bliks baráttu okkar hjóna fyrir tilverunni hér í Eyjum fyrri aldarfjórðunginn, sem við bjuggum hér og störfuðum.
Eftir langa íhugun og miklar vangaveltur læt ég loks tilleiðast. Og þú sérð, að ég tel konuna mína með, því að hún hafði mikilvægu hlutverki að gegna í öllum þeim átökum, því sálarlega stríði, sem ég varð að heyja. Ég fór ekki einn saman til þeirra átaka, þó að fæstir vissu, hver bakhjarl hún var mér, hug mínum og sálarlífi.
Þess vil ég biðja þig eindregið, að þú lesir þessa frásögn mína með léttum hug og gáskagleði, eins og mér er innanbrjósts, þegar ég skrifa þér þetta bréf.
Ég hlæ innilega og skemmti mér konunglega, þegar ég við lestur bæjarblaðanna rifja upp ýmsa atburði þessara ára, hræðslu valdhafanna hér í bæ við mig, sauðmeinlausan manninn, sem stritaði daginn út og daginn inn við þá hugsjón mína að koma hér á legg eilitlum unglinga- eða framhaldsskóla.


Orð meistaranna
Það má ekki seinna vera, segir þú, að ég skrái og láti prenta ýmsa atburði frá þessum árum, sem varða sögu mína og tilveru.
Þegar ég nú loks læt tilleiðast, vildi ég mælast til þess eindregið, að þú sálgreindir mannskepnuna, sálgreindir þá hugsun og þá menningu, ef ég mætti orða það þannig, sem ríkti með forustumönnum byggðarlagsins á þeim árum, sem ég greini hér frá, það er tímaskeiðið frá 1927-1947, ofsóknartímabilið mikla. Ég veit, að þú ert vel lesinn í sálarfræði. Og þú ert ýtinn og brýnir mig með þessum orðum Einars ríka og Þorbergs meistara, þar sem þeir komast þannig að orði í bók sinni Fagur fiskur í sjó: „Þorsteinn stofnaði Kaupfélag alþýðu og fékk mig til að hjálpa sér við bókfærsluna. Ég held, að Kaupfélag alþýðu hefði orðið stórfyrirtæki, ef Þorsteins hefði notið þar við framvegis. En hann var ofurliði borinn af mönnum, sem ekki voru vandanum vaxnir . .. Það kynni að hafa verið gaman að sjá, hvað hann hefði komizt áfram í einkarekstri, til að mynda við útgerð eða stjórn á frystihúsi. En hann var köllun sinni trúr og hélt áfram að vera skólastjóri, þó að hann ætti í sífelldum erjum við suma af ráðamönnum bæjarfélagsins. En sú saga hefur sýnt, hvað í hann var spunnið, að hann skyldi ekki bogna í þeim átökum, sem hann stóð í, oftast einn gegn ofureflinu, að því er virtist.“
Svo mörg eru orð þeirra meistaranna. Og meira segja þeir, þó að ég hirði ekki frekar um þeirra ágætu skrif hér í þessu máli mínu.
Bókfærsluhjálp Einars vinar míns mér til handa sannar bezt frjálslyndi hans og drengskap, þó að andstæðingur hans í stjórnmálum ætti í hlut og fyrirtæki, sem keppti við hann um verzlun í bænum og var staðsett gegnt honum hér við Skólaveginn.
Ýmsir fleiri en þú, sem lesið hafa þessi orð meistaranna, hafa skilið þau á þá lund, að ég muni eiga bágt með að sitja á sárshöfði við menn, þar sem ég hafi þurft að standa í látlausum deilum við vissar persónur í bænum öll þessi ár. Þetta er ekki þannig að skilja hjá meisturunum. Til þess ætlast Einar ekki. Það veit ég. Við þekkjumst of vel til þess. Þó er það ekki nema eðlilegt, að þessi orð þeirra verði misskilin af þeim, sem ekkert þekktu til hér á þessum árum. Þess vegna verður þetta bréf mitt til þín öðrum þræði varnarskjal mér til handa.
Ég átti aldrei í deilum við neinn hér í kaupstaðnum eftir liðið ár 1952, enda fékk ég eftir það að vinna í friði að hugsjónamálum mínum. Árið 1952 beittu kunnir menn sér fyrir því, að forustumenn Flokksins í Eyjum hættu ofsóknum sínum og áreitni sinni gagnvart mér og skólastarfi mínu og græfu innra með sér heiftarhuginn, enda hafði mér þá tekizt með hjálp góðra manna að koma upp gagnfræðaskólabyggingunni, þrátt fyrir látlausa baráttu Flokksins og andúð gegn því framtaki og heillastarfi. Þessir tveir mætu menn voru Bjarni Benediktsson, þá dómsmálaráðherra, og Torfi Jóhannsson, bæjarfógeti hér í bæ. Báðir voru þeir vitrir menn og velviljaðir. Þeim lánaðist að koma vitinu fyrir flokksbræður sína gagnvart Gagnfræðaskólanum og mér eftir málaferlin miklu á árunum 1950-1952, sem ég segi þér frá í Bliki 1975, ef við tórum þá. Allt eru þetta mér hugljúfar endurminningar, sem vafalaust lengja líf mitt og skapa mér sérkennilega ánægju í ellinni.
Áður en lengra er haldið, kýs ég að svara strax orðum meistaranna varðandi hugsanlega útgerð eða stjórn mína á frystihúsi „í einkarekstri“. Ég fullyrði, að mér hefði orðið lítið úr þeim atvinnurekstri að minni hyggju. Til þess skorti mig eiginhagsmunahvötina. Þetta fullyrði ég eftir langa starfsævi og rannsókn á eigin sálarlífi.


Einn var ég aldrei
Einn var ég aldrei, þó að Einar vinur minn yrði þess ekki var í hinni daglegu lífsbaráttu minni við hin heiftúðugu og þröngsýnu öfl í bæjarfélaginu. Hin sýnilegu og áþreifanlegu öfl hér í kaupstaðnum voru mörg mér til stuðnings og hugsjónum mínum, þó að þau létu ekki svo mjög á sér kræla opinberlega. Þó gerðu sum það líka. Og hin voru svo öflug, að barátta andstæðinganna var frá fyrstu tíð vonlaus þeim. En þeir vissu það ekki og hefðu sjálfsagt aldrei trúað því, þó að sjálfur páfinn (eða þá Hitler) hefði sagt þeim það.
Fyrst og fremst var heimilið mitt hið óvinnandi vígi og verndarstaður. Þess vegna tel ég konuna mína með í baráttu þessari fyrir hugsjónum mínum. Ekki sízt verndaði hún og styrkti sálarlíf mitt og efldi þrótt minn og þor, þó að hún sjálf sé allra manna mest friðelskandi vera.
Fylgi sóknarprestanna, séra Sigurjóns Árnasonar, og svo séra Halldórs Kolbeins, eftir að séra Sigurjón flutti úr bænum, var mér ómetanlegur stuðningur. Báðir voru þeir kennarar hjá mér við skólann, óvenjulega traustir menn og í alla staði miklir mætismenn.
Í þriðja lagi voru nemendur mínir mér hin styrkasta stoð, framkoma þeirra, hlýleiki og ræktarsemi. Það var mér allt ómetanleg brynja. Margir aðrir hér í kaupstaðnum lögðu mér jafnan gott orð, - líka Flokksmenn valdsins mikla, svo sem séra Jes A. Gíslason, sem lengi var barnakennari hér í kaupstaðnum, eftir að hann hætti skrifstofustörfum hjá mági sínum Gísla J. Johnsen, kaupmanni.
Séra Jes var mikill áhrifamaður innan goodtemplarareglunnar hér í bæ um langan aldur. Aldrei gleymdi hann því, er ég gekk í stúkuna hans, St. Báru nr. 2, með meira en helming nemenda minna, þegar stúkan átti erfitt uppdráttar og gat naumast haldið fundi sökum fólksfæðar. Unga fólkið var fengur félagsskapnum, og hann efldi með því staðfestu og góðan vilja til bindindissemi og reglusemi í heild. Það var vissulega í anda skólans allan minn starfstíma þar. Og ég fullyrði, að þessir eiginleikar einkenndu æskulýð þann í kaupstaðnum, sem andi skólans náði til þau 36 ár, sem ég var hér skólastjóri.
Þá minnist ég þess stuðnings, sem ég naut hjá nokkrum einstaklingum, svo sem Ólafi útgerðarmanni Auðunssyni í Þinghól, sem jafnan var mér vinveittur. Hann var bæjarfulltrúi Flokksins árin tvö, sem ég fékk að reka vinnuskóla fyrir drengi í atvinnuleysi þeirra á kreppuárunum 1938 og 1939.
Fyrir þann stuðning við mig fékk Ólafur ónot hjá flokksbræðrum sínum. Hann samþykkti fjárframlag úr bæjarsjóði til skólans gegn vilja flokksbræðra sinna og með vinstri öflunum í bæjarstjórninni. Blessuð sé minning hans fyrir þann stuðning við gott málefni. Þá átti ég tvo hauka í horni enn. Annar þeirra var Jón Ólafsson útgerðarmaður á Hólmi. Hann var ekki bæjarfulltrúi og hafði þess vegna ekki áhrifaaðstöðu eins og hinn fyrr nefndi Flokksmaður. Hann var þá á ýmsan hátt í forustuliði útvegsbænda hér í Vestmannaeyjum, í verzlunarsamtökum þeirra og fleiri félagsmálum.
Þá óska ég að geta Jónasar Jónssonar, útgerðarmanns, sem var starfsmaður Tangaverzlunarinnar. Þó lagði hann mér öflugt lið f.h. útvegsbænda til þess að starfrækja matsveinanámskeið Gagnfræðaskólans á árunum 1937 og 1938 (sjá bls. ..), þar sem piltar lærðu að matbúa og gerðust síðan matsveinar á hinum stærri bátum Eyjamanna. Í þessu samstarfi reyndist J. J. mér einlægur og góður samstarfsmaður, þótt hann væri Flokksmaður af lífi og sál. Þetta dæmi sannar mannkosti hans.
Svona gæti ég nefnt fleiri velvildar- og stuðningsmenn mína að nytsömum og góðum málefnum til eflingar atvinnulífi bæjarins. En þessir menn reyndust valdalausir, þegar á reyndi. Og ef valdið mikla þurfti að níðast á andstæðingi, var ekkert hirt um það, þó að atvinnulífið liði við það eða menningarstarf í bænum. Svölunin var öllu ofar.
Áður hef ég minnzt í Bliki á samband okkar Magnúsar útvegsbónda Guðmundssonar á Vesturhúsum. Og síðast en ekki sízt vil ég geta hér míns ágæta samstarfsmanns og velunnara, Páls skólastjóra Bjarnasonar, en hans naut svo stutt við, því að hann lézt árið 1938.
Nei, ég var ekki einn í baráttunni. Fjarri fór því.
Og bezt fer á að bæta því hér við, frændi minn góður, að ég nota dagana fyrir og eftir hina sœlu og blíðu sigurhátíð kristinna manna til þess að pára þér þessar línur. Ég hef líka átt mína gröf og mína upprisu. Svo má víst að orði komast um marga þá, sem átt hafa sér hugsjónir, sem þeir hafa viljað fórna öllu fyrir.


Þróun efnahags- og atvinnulífs í Vestmannaeyjum
Eftir að vélbátaútvegurinn hófst hér í Vestmannaeyjum á árunum 1906 og 1907, flykktist fjöldi manna til Eyja og settist hér að. Á árunum 1906 til 1912 tvöfaldaðist mannfjöldinn í kauptúninu. Gróðavonin dró fólkið í verstöðina.
Hinir efnaðri innflytjendur reyndu að eignast hlut í vélbát. Þar var gróðavonin mest. Þannig myndaðist brátt allfjölmenn útvegsbændastétt í kauptúninu, þó að allur þorri þeirra eignaðist ekki nema eilítinn hlut í vélbát, flestir 1/6-1/3 hlut. Mjög fáir höfðu fjárhagslegt bolmagn til þess að eignast stærri hlut í vélknúinni fleytu.
Þessir mörgu og smáu útvegsbændur í Eyjum stóðu yfirleitt vel saman um hagsmuni sína. Viss hugsunarháttur varð þar ríkjandi. Þess vegna þjöppuðu þeir sér saman í sama stjómmálaflokkinn. Þar voru foringjarnir „krýndir“ menn, konsúlar, kaupmenn og umboðsmenn alls konar. Það létti mörgum smáútvegsbóndanum lífið, og þá ekki síður frúm þeirra, að vita sig þannig undir voldugum hatti, vita sig eiga samleið með „pólitískum höfðingjum“. Og útvegsbændurnir voru síður en svo óskynugir náungar. Það sýndu þeir og sönnuðu í fjárhagssamtökum sínum, því að þeir notuðu samvinnusamtök til þess að vernda hagsmuni sína fyrir ágengni „vinanna“ og foringjanna. Það var viturlega gert. (Kf. Bjarmi, Kf. Fram. Sjá grein um þau verzlunarsamtök hér í ritinu).
Utan við þennan mammonshring konsúlanna og kaupmannanna, útvegsbændanna og embættismannanna og nokkurra áberandi iðnmeistara stóð svo allur hinn hópurinn, - hinn óbreytti verkalýður til sjós og lands, sjómenn, verkakarlar og verkakonur. Það fólk varð fjárhagslega séð að lúta atvinnurekendunum, stórum og smáum, í einu og öllu, - hlíta ákvæðum þeirra um allt kaupgjald, sæta þeim reglum og kaupgreiðslum, sem þeim þóknaðist að ákvarða sjálfir hverju sinni.
Verkalýðs- og sjómannasamtök í þessum gróðahyggjubæ voru lengi aðeins nafnið eitt, máttvana samtök gegn ofurvaldinu mikla. Það kostaði næstum blóðsúthellingar („saltslagurinn“ árið 1929) að brjóta þeim samtökum leiðina fram til sigurs.
Gróði útvegsbændanna fyrstu ár vélbátaútvegsins var alveg ótrúlega mikill. Ekki voru það óalgeng fyrirbrigði, að sumir eigendur þessara litlu vélbáta græddu andvirði þeirra að fullu á einni eða tveimur vertíðum, áttu þá skuldlausa eftir eitt eða tvö útgerðarár. Og nýbyggð íbúðarhús sín áttu þeir einnig skuldlaus að mjóg fáum árum liðnum.
Þessi efnalega velgengni hafði býsna mikil áhrif á hugsunarhátt gróðamannanna og fjölskyldumeðlima þeirra, efldi með þeim yfirstéttarhugsun og hroka gagnvart öllum hinum, sem engin framleiðslutæki áttu en þurftu að vinna nótt með degi til þess að hafa í sig og á, þurftu að þiggja í auðmýkt molana af borðum framleiðendanna. Þennan hroka varð ég þó sáralítið var við í skólastarfi mínu. Aðeins bólaði á honum hjá sumum börnum embættismannanna, sem töldu pabba og mömmu þær persónur, að börnin þeirra þyrftu ekki að lúta aga í skóla fremur en þeim gott þætti sjálfum.
Jafnframt þessu sjónarmiði mínu af langri reynslu vil ég undirstrika það, að allur þorri útvegsbændanna var afburða dugnaðarfólk, sem vann mikið. Það gerðu konur þeirra einnig. Starfsfólkið, vertíðarfólkið til sjós og lands, bjó að miklum hluta á heimilum þeirra á vertíð, þ. e. a. s. aðkomufólkið, og þar reyndi þá ekki lítið á dugnað, hyggjuvit og bústjórn eiginkonunnar, sem þar hafði alla stjórn á hendi.
Margir útvegsbændanna voru sjálfir formenn á bátum sínum og stjórnuðu jafnframt atvinnurekstri sínum í landi.


Tólf krónur fyrir tuttugu og átta stunda vinnu
Gengi útgerðin vel, væru aflaföng ríkuleg, svo að gróðavon mikil væri af atvinnurekstrinum, voru útvegsbændur vísir til að „gefa“ góðum starfsmanni aukagreiðslu að vertíðarlokum, skjóta að honum nokkurri þóknun t. d. fyrir nætur- og helgidagavinnu á vertíðinni.
Ég fékk sjálfur að þreifa á valdinu mikla um öll kjör og allar kaupgreiðslur, því að ég vann að aðgerð eftir að sex mánaða skóla mínum lauk. Við hófum t. d. vinnu klukkan átta að morgni laugardaginn fyrir páska (1929). Við unnum síðan að aðgerðinni allan daginn, alla nóttina, og ég fram að hádegi á páskadag. Matmálstímar voru í allra stytzta lagi þessar 28 stundir, sem ég vann í þessari lotu, því að kapp okkar var mikið og verkefnið næstum óþrjótandi.
Þegar upp var gert að vertíðarlokum, bar ég úr býtum 12 krónur fyrir þessar 28 stundir, sem ég vann að nokkru leyti á stórhátíð, svo að hún hvarf í tímans haf án meðvitundar um það, að hún hefði nokkru sinni verið haldin þetta ár. Jafnmikið hefði ég borið úr býtum, þó að vinnudagurinn hefði aðeins verið 10 stundir, eins og þá var alltaf miðað við.
Atvinnurekendur þessir og valdsmenn í bænum reiknuðu ekki nætur- og helgidagavinnu til verðs, en sjálfsögð þótti hún samt, ef atvinnurekandinn þurfti hennar við til þess að bjarga aflanum frá skemmdum. Þetta voru reglur, sem hinir alls ráðandi atvinnurekendur hér í Vestmannaeyjum höfðu sett hinum „vinnandi lýð“, og þær skyldu í heiðri hafðar eins og allt annað, sem varðaði hagsmuni þeirra.
Kaupfélagið Fram mun hafa verið fyrst til að brjóta þessar reglur með því að skjóta þeim ákvæðum inn í vinnusamninga við bræðslukarlana sína, að þeir fengju sérstaka greiðslu fyrir sunnudagavinnu við lifrarbræðslustörfin. Jón Hinriksson, kaupfélagsstjóri, var potturinn og pannan í þessari „uppreisn“.


Stéttaskipting
Hinn góði efnahagur annars vegar og fátæktin og úrræðaleysið hins vegar leiddi til einskonar stéttaskiptingar í byggðarlaginu, þó að ekki bæri svo mjög á því fyrirbrigði í daglegu lífi fólksins. Kaupmenn og konsúlar, útvegsbændur og embættismenn undu glaðir við sitt. Hinn fjöldinn tók við því, sem þessar velmegandi stéttir réttu að honum daglega. Hann hafði flutzt til Eyja í sárustu fátækt sinni og virtist þola þá neyð áfram með þögn og þolinmæði, þar til upp var risið og kaupgjaldsóeirðir dundu yfir. Hinar allsráðandi stéttir þurftu að vera á verði og gæta hagsmuna sinna, - líka gagnvart því, að ekki væri vinnuaflið bundið eða því skákað inn á skólabekk á hávertíð.
Þannig þróaðist þetta mannlíf í Eyjum á árunum 1907-1930. En þá hófst fjárkreppan mikla með fallandi afurðaverði og sölutregðu á allri framleiðslu. Þá urðu sumir fátækastir, sem ríkastir voru áður, en það er önnur saga.


Áhrif „slæmra“ kennara stórhættuleg
Og nú sný ég mér að skólamálunum. Til skilningsauka þykist ég hafa búið þig eilítið undir þá frásögn mína. Þessi kafli, sem hér birtist, er ekki lítill þáttur í ævisögu minni, og það er einmitt það, sem þú ætlast til í bréfum þínum.
Ýmsir áhrifamenn, sem komizt höfðu til góðra efna á vel heppnaðri útgerð, lifðu í þeirri sannfæringu, að engin ástæða væri til að loka unglingana inni á skólabekk eftir ferminguna. Heldur ættu þeir að vinna, ekki sízt á vertíð, þegar vinnukraftur var jafnan af skornum skammti, þegar „sá guli“ var vel við. Þarna hafði feðrum og mæðrum heppnazt að komast í nokkrar álnir með sparsemi og elju og happasælum atvinnurekstri. Eins gæti það tekizt hinum upprennandi æskulýð, ef rétt væri að uppeldi hans staðið.
En fleira kom hér til hjá þeim, sem „dýpra“ hugsuðu og höfðu mest völdin sökum yfirburðanna. Unglingarnir gátu orðið fyrir slæmum áhrifum á skólabekk hjá „slœmum“ kennurum, „uppfræðurum“, sem höfðu afleitar skoðanir, voru misheppnaðir menn á vissum sviðum félagsmálanna á þessum byltingar- og átakatímum t. d. Dagsbrúnar í Reykjavík og víða um land. Ekki voru þær heldur félegar sumar fréttirnar, sem bárust frá útlöndum um átök í kaupgjaldsmálum og margskonar annan hroða gagnvart þeim, sem betur máttu sín fjárhagslega sökum meðfœddra hœfileika.
Þannig gátu blessaðir unglingarnir villzt af förnum vegi foreldra sinna í gróða-og valdaaðstöðu fyrir áhrif slæmra skóla, svo að valdhöfunum í bænum gat stafað mikil hætta af skólastarfi þessara vandræðamanna, þegar hin unga kynslóð kæmi að kjörborðinu síðar meir.


Ég lýk kennaraprófi og ræðst til Eyja
Vorið 1927 lauk ég kennaraprófi við Kennaraskóla Íslands eftir eins vetrar nám í skólanum. Ég var gjörsnauður maður nýkvæntur. Ég skuldaði mikil námslán, svo mikil, að segja mátti um mig svipað og hinn frægi keisari sagði um sjálfan sig: Mig skorti þá 3000 krónur til þess að eiga ekki neitt. Og svo uppgötvaði ég, að mér yrði oflítið úr fyrra námi mínu, bæði búfræðinámi, lýðháskólanámi og norska stúdentsprófinu mínu nema ég næði því marki að eignast kennarapróf. En fjárhagslegt bolmagn til tveggja ára náms í Kennaraskólanum hafði ég ekki. Vinkona konu minnar, hjúkrunarkona í Reykjavík, lánaði okkur hjónum kr. 1100,00, sem nægði mér til 8 mánaða dvalar í Reykjavik. Konan mín vann fyrir sér með saumum allan veturinn austur á Nesi í Norðfirði, þar sem við áttum heima.
Hér naut ég vissulega manngæzku Magnúsar skólastjóra Helgasonar. Hann sótti um leyfi fyrir mig til námsins hjá Menntamálaráðuneytinu, þegar ég hafði gjörla tjáð honum, hvernig ástatt var fyrir mér efnahagslega. Svo var það þá mitt að vinna eða tapa.
Ég sótti kennslustundir í 2. og 3. bekk skólans, eftir því sem ég gat komið því við og vann sleitulaust allan veturinn. Ég skammtaði mér 10 stundir á sólarhring hverjum til svefns og matar allan veturinn. Aðrar stundir sólarhringsins las ég eða sat í kennslustundum í skólanum. Ég hlýt að taka þetta fram hér sökum þess, að hið mikla vinnuþrek mitt og hinn öflugi vilji, sem mér var og er áskapaður, varð þess valdandi, að kennari minn, Ásgeir Ásgeirsson, sem þá var að verða fræðslumálastjóri, síðar forseti, sendi mig til Vestmannaeyja um haustið til þess að vinna þar upp unglingaskóla, sem reynt hafði verið að halda þar lífi í og efla árum saman án teljandi árangurs.
Við kennaraprófið um vorið (1927) varð ég í öðru sæti við hliðina á Jóhanni Þorsteinssyni, fyrrv. kennara í Hafnarfirði.
Þessi frásögn mín, frændi minn góður, er ekki fastari í reifunum en svo, að ég þykist mega skjóta hér inn dálitlu spaugi, sem stendur mér enn ljóst í huga frá vetrinum í kennaraskólanum.
Séra Magnús skólastjóri gat verið léttur og spaugsamur í kennslustundum. Allt var það gaman græskulaust og meinlaust. Einu sinni minnist ég þess, að hann ræddi um kennaraprófsréttindin, hversu sumum sýndust þau eftirsóknarverð. Dæmi væru þess, að menn hlypu svo að segja upp úr hjónasænginni nýgiftir til þess að dveljast meiri hluta ársins við það álag allt að ná kennaraprófi og létu brúði sína eiga sig í öðrum landsfjórðungi á meðan allan veturinn. - Allir í bekknum kímdu og litu á mig. Ég var eini kvænti nemandinn í skólanum. Ég tók þessu spaugi eins og það var sagt og borið fram. Ég hló með sjálfum mér og hugurinn hvarflaði austur til hennar, sem beið mín þar.


Það voru gjörðir Ásgeirs en ekki Jónasar
Og nú flíka ég hér leyndarmáli, sem ég hef þagað yfir til þessa, þrátt fyrir stór og gróf orð, sem forustumenn valdsins mikla í Eyjum létu falla um það á sínum tíma, að Jónas frá Hriflu hefði sent þeim þennan vandræða skólamann, þessa róttæku meinvætti, sem ég átti að vera - og var auðvitað - til þess að skaprauna einvaldsklónum í Eyjum sem mest og bezt, - gera þeim mest til bölvunar vegna andstöðu þeirra við „Hriflonsstefnuna óskaplegu.“ - Lestu vel skrif mín hér á eftir, vinur sæll.
Ég hirti aldrei um að svara þessum ósannindum, enda þýðingarlaust. Ég þagði vandlega og lét þá bölva og ragna. Nú flíka ég þessu leyndarmáli við þig. Það voru einvörðungu gjörðir Ásgeirs Ásgeirssonar fræðslumálastjóra og fyrrverandi kennara míns við Kennaraskólann, að við hjónin fluttum hingað til Eyja haustið 1927.
Sumarið 1927 leitaði ég hófanna hjá fræðslumálastjóra um kennarastöðu og skrifaði honum þess efnis. Þegar leið á sumarið, fékk ég bréf frá honum. Það á ég enn. Það er dagsett 12. ágúst (1927) og að meginefni þetta:

„Ég hef aftur átt tal öðru hvoru við barnaskólastjórann í Vestmannaeyjum um unglingaskólann þar. Símaði ég því til hans og tók ábyrgð á yður, ef skólanefndin vildi ráða yður til að veita honum forstöðu. Samkvæmt viðtölum mínum við hann f.h. skólanefndarinnar og eftir símskeytum, sem okkur hefur farið á milli, tel ég yður fastráðinn unglingaskólastjóra í Vestmannaeyjum yrir næsta skólaár, 5 mánuði, með kr. 1500,00 að launum*. Í öðru lagi tel ég framtíðarmöguleika unglingaskólans mikla, ef þangað fæst góður maður, sem tekur forustuna um unglingafræðslumál Eyjaskeggja.
Möguleikarnir munu óvíða meiri en þar í fjölmenninu að skapa ágætan unglingaskóla, sérstaklega lagaðan eftir atvinnulífi og þörfum Eyjamanna. Ég tel yður sérstaklega vel til þess fallinn að taka að yður að leysa af hendi þetta verkefni og vona, að framtíð yðar liggi einmitt þarna.

Virðingarfyllst,

Ásgeir Ásgeirsson.“


Ég var sem sé ráðinn unglingaskólastjóri í Vestmannaeyjum án vitundar minnar og með hálfs árs laun, gjörsnauður maðurinn og meira en það. Hér gerði fræðslumálastjóri ráð fyrir, að ég gengi út í atvinnulífið sem hver annar verkamaður að loknu skólastarfi í febrúarlokin.
Átti ég að neita þessari ráðstöfun fræðslumálastjóra eða lúta henni? - Ég kaus hið síðara, enda benti hann mér á í bréfi, að einn af kennurum barnaskólans í Eyjum væri orðinn aldraður mjög og hlyti að hætta störfum innan tíðar. Þá væri mér auðvelt að fá þá stöðu, ef ég æskti ekki að gegna störfum áfram við unglingaskólann. Þessi aldni barnakennari var Eiríkur Hjálmarsson á Vegamótum.
Jafnframt þessu bréfi frá fræðslumálastjóra fékk ég bréf frá Páli Bjarnasyni, skólastjóra barnaskólans í Eyjum, sem baslað hafði við að halda þarna uppi unglingaskóla s.l. fjögur ár. Lengri var þó saga þessa skóla í basli og niðurlægingu, en sú saga verður ekki rakin hér að þessu sinni, enda fyrr á hana drepið í Bliki.
Hér birti ég kafla úr bréfi skólastjórans til mín. Það gefur til kynna horfurnar um líf skólans og rekstur, ástandið í þessum efnum í þessu fjölmenna byggðarlagi. Bréfið er dagsett 16. ágúst 1927 og hér gefur þér að lesa:

„Ég hét fræðslumálastjóra því í símtali nýlega að senda yður nokkrar línur um fyrirkomulag unglingaskólans hér. Þar er nú ekki um mikla stofnun að ræða. Skólinn hefur verið rekinn fyrir reikning bæjarins s.l. 4 ár og ráðinn til hans sérstakur kennari, en ég haft umsjón með skólahaldinu, þar eð kennararnir hafa allir verið ókunnugir hér. S.l. vetur var skólinn haldinn í 5 mánuði.
Nemendur hafa verið 16-30, stundum skipt í tvær deildir að nokkru eða að öllu leyti . .. Oftast höfum við orðið að taka með nokkur börn úr efsta bekk barnaskólans, en flestir nemendurnir hafa verið 14-16 ára.
Hér er aðeins að ræða um vísi til skóla, og við vonum að með tímanum takist að gera úr honum skóla á tryggum grundvelli.
Mér er það áhugamál, að skólinn geti eflzt sem fyrst, þó að mér hafi ekki auðnazt að blása lífi í hann. Ég hef talið skyldu mína að aðstoða við skólahaldið eftir megni, og svo er enn. Býð ég yður hjartanlega velkominn til starfsins og samvinnunnar ...
Búizt er við fáum nemendum, en sjálfsagt tel ég, að skólanum verði haldið áfram. Kennarar unglingaskólans hafa allir fengið einhverja aukakennslu.

Með kærri kveðju,

Páll Bjarnason.“

Þetta voru þá orð skólastjórans, eftir að hafa stritað við að koma á fót unglingaskóla, svo að sómi væri að, í þessu fjölmenna bæjarfélagi. Og Björn H. Jónsson, hinn landskunni skólastjóri þeirra Ísfirðinganna, hafði gert sitt ýtrasta til að koma upp þessum sama unglingaskóla á undan Páli Bjarnasyni, en gefizt upp og flýtt sér burt úr bænum. Hvers vegna?
Hér réðu vond öfl og riðu ekki við einteyming.
Mér hnykkti við, er ég hafði lesið bréf skólastjórans. Hér var um að ræða einn af stærri bæjum landsins og þar þreifst ekki unglingaskóli. Ég hafði nokkur kynni af unglingafræðslunni á Ísafirði. Þar starfaði Haraldur heitinn Leósson, og honum hafði ég kynnzt í Noregi, þar sem hann kynnti sér rekstur og kennslu Lýðháskólans í Vossabyggð veturinn 1922-1923. Sá skóli var víðgetin fyrirmynd fjölda lýðháskóla á Norðurlöndum.
* Þ.e. kr. 300,00 á mánuði, meðan skólinn starfaði, og var það sama kaup og aðgerðarkarlarnir höfðu við fiskverkunina á vertíðinni.


Við flytjumst til Eyja
Aðfaranótt 28. september 1927 stigum við hjónin á land hér í Vestmannaeyjum. Sagan endurtekur sig, segja vitrir menn. Að minnsta kosti reyndist ekkert rúm handa okkur í gistihúsinu, enda var það víst ekki til í kaupstaðnum á þeim tímum. Kunningi okkar og sveitungi skaut yfir okkur skjólshúsi. Það var Ragnar Benediktsson frá Mjóafirði eystra. Í herbergi hans að Haukabergi sváfum við fyrstu nóttina í Eyjum. Hann hafði annars fest okkur íbúð í Bólstaðarhlíð (nr. 39 við Heimagötu) hjá hinum mætu hjónum þar, frú Ingibjörgu Ólafsdóttur og Birni Bjarnasyni frá Hlaðbæ. - Einkennileg er tilviljunin stundum og dul eru tengslin í lífi okkar mannanna. Svo má um þetta segja. Björn hafði verið vélamaður eitt sumar á báti fóstra míns austur á Norðfirði. Þá var ég innan við fermingu. Þarna lágu vegir okkar saman aftur okkur hjónunum til velfarnaðar. Ávallt síðan hefur haldizt hlýlegt samband milli þessara tveggja heimila.

Aðeins níu nemendur
Hinn 28. september eða daginn eftir að við stigum á land í Eyjum, lagði ég leið mína upp í barnaskóla til þess að heilsa upp á skólastjórann Pál Bjarnason. Jafnframt vildi ég grennslast eftir aðsókninni að unglingaskólanum. Í ljós kom, að einungis níu unglingar höfðu sótt um nám í skólanum og aðeins þrír dagar þar til skólinn skyldi hefjast. Mér brá. Var það svona svart?
Skólastjórinn tjáði mér, að á annað hundrað unglingar á aldrinum 14-17 ára væru heimilisfastir í bænum. Og þarna sannaðist námshvötin með æskulýð bæjarins. Og sannaði ekki þetta áhugaleysi vilja foreldranna og skilning á því, að börn þeirra á þessum aldri sæktu skóla?
Hvað var nú til ráða?
Við komum okkur saman um að rölta til sóknarprestsins, séra Sigurjóns Árnasonar, og leita ráða hans í þessum þrengingum okkar. Prestshjónin bjuggu þá í Eystri-Norðurgarði sökum þess, að íbúðarhúsið á prestssetrinu Ofanleiti var í byggingu. - Ég var þögull og hugsi á leið okkar „upp fyrir Hraun.“ Hverskonar örlög voru þetta? Átti ég að vera hér einskonar leiksoppur? Hvers væntu þau af mér, dularöflin miklu? Voru þau annars með í ráðum? — Ojá, ojá, - kjánalegar spurningar!
Þarna hafði fræðslumálastjóri skákað mér niður við sultarlaun til þess að koma upp unglingaskóla, sem hinir mætustu skólamenn höfðu reynt sig á árum saman. Og þetta gerði fræðslumálastjóri í skjóli þess, að hann vildi senda Eyjabúum „góðan mann,“ eins og hann hafði orðað það í bréfinu. Hvað átti hann við með þeim orðum? Höfðu þeir ekki reynzt „góðir menn“ hinir kunnu skólastjórar, sem hér höfðu starfað og reynt eftir megni að koma upp unglingaskóla, þeir Björn H. Jónsson og Páll Bjarnason? Ef til vill voru þeir ofmikil gæðablóð til þess að það mætti takast í þessu umhverfi. Ef til vill hefði fræðslumálastjóri verið mér algjörlega sammála í þessu tilliti.
Þannig mátti ekki skilja þessi orð fræðslumálastjóra. Síðar fékk ég skýringu á þessum orðum hans. Hann hafði í huga mann með óbilandi vinnuþrek, eins og hann hafði reynt það hjá mér veturinn, sem ég stundaði námið hjá honum í Kennaraskólanum. Þetta sagði hann mér sjálfur síðar. Hann skildi það manna bezt, að sköpun skólans í hinu andlega dauða umhverfi hlaut að kosta vinnu og aftur vinnu og enn vinnu samfara þrautseigju og óbilandi sálarlegu þreki, án þess að sóktzt væri eftir fullum launum eða nokkru þakklæti fyrir hið mikla starf. Þannig varð þessi dauði og þurri akur ræktaður. - Öðruvísi ekki. Og sú rœktun hlaut að taka langan tíma, eins og allt var í pottinn búið í bænum þeim, þar sem jarðneskir fjármunir voru tilbeðnir umfram allt, þó að Landakirkja væri þá furðuvel sótt um helgar. Unglingarnir áttu fyrst og fremst að vinna, - vinna að framleiðslustörfum í bænum, - koma sem fyrst undir sig fjárhagslegum fótum, gerast síðar dugnaðarsjómenn og svo umfram allt útvegsbændur. Svo gætu þeir með tíð og tíma erft fjárhagslega gróða- og valdaaðstöðu feðra sinna í bænum. Þetta fannst mér ósköp mannleg hugsun og heilbrigð á eina vísu,en hins vegar meingölluð og gagnsýrð af eigingirni.
Þegar við Páll skólastjóri Bjarnason höfðum rætt við sóknarprestinn um þetta alvarlega ástand í bænum, gaf prestur þessi ráð: Ég, verkalýðssinninn af Austurlandi og goodtemplarinn, skyldi fá leyfi til að sitja fund í Verkamannafélaginu Drífanda í bænum, og svo fund í stúkunni Báru nr. 2, og tala þar fyrir auknu unglingaskólastarfi í bænum, aukinni aðsókn að unglingafræðslunni. Sjálfur vildi prestur stuðla að því, að ég fengi bráðlega að sitja fund í K. F. U. M. & K. og tala þar fyrir málefninu og hugsjóninni. Þar var hann sjálfur í fararbroddi.
Þannig lauk erindi okkar Páls skólastjóra til sóknarprestsins.
Næstu daga snuðraði ég eftir fundum þessum og fékk að sitja þá. Þar ræddi ég þessi áhugamál mín.
Eftir fáa daga setti ég svo Unglingaskóla Vestmannaeyja með 22 nemendum.
Nú get ég farið fljótt yfir sögu. Ég vann og vann daginn út og daginn inn. Ég kenndi um og yfir 30 stundir á viku hverri. Vann síðan að félagsmálum nemenda eftir megni. Ég hafði með þeim skólafélagsfundi vikulega með ýmsum skemmtiatriðum. Þarna gafst mér kostur á að beita bindindisáhrifum og öðru, sem ég taldi unglingunum til gæfu og gengis síðar meir á lífsbrautinni. Ég kenndi sjálfur flestar námsgreinarnar, og þá fyrst og fremst íslenzku og reikning. Sú kennsla kostaði mikla stílavinnu, sem ég innti af hendi á morgnana, því að ég gat ekki hafið kennsluna fyrr en síðari hluta dagsins, þegar barnaskólinn hafði lokið sér af. Í hans húsi var ég svo með unglingaskólann fram á kvöldið. Annað húsnæði var ekki til í bænum handa unglingaskólanum. Þannig var þetta fyrstu sjö árin mín hér í Eyjum, og eins eftir að Gagnfræðaskólinn var stofnaður samkv. lögum frá 1930.
Mér féll strax vel við kennslustarfið, - já, hafði unun af því. Og unglingarnir voru mér ljúfir og góðir, svo að mér þótti vænt um þá.
Þannig leið tíminn fram í febrúarmánuð. Þá söfnuðu nemendur undirskriftum og sendu skólanefnd áskorun. Þeir beiddust þess, að unglingaskólinn yrði starfræktur til marzloka eða framlengdur um mánuð. Mér komu þessar óskir þeirra mjög á óvart. Ég hafði aldrei látið mér til hugar koma framlengingu skólans, enda ráðinn til febrúarloka og lengur ekki. Skólanefnd varð þó enn meira undrandi við áskorun þessa. Hún samþykkti með ánægju að koma á móti unglingunum, ef ég gæti komið því við að halda áfram kennslustarfinu. Ég fékk frest til að svara, því að ég var ráðinn í fiskvinnu eftir febrúarlokin, — ráðinn við aðgerð til vertíðarloka. Frestinn fékk ég og áfram hélt ég kennslunni. Allt féll í ljúfa löð.
Eftir þennan vetur var ekki á það minnzt, að Unglingaskóli Vestmannaeyja starfaði styttri tíma úr árinu en sex mánuði.

Vikublað stofnað í Eyjum
Sumarið 1917 hóf kaupmaður í Eyjum útgáfu á fréttablaði. Blaðið kallaði hann Fréttir, og var það handskrifað. Aðeins nokkur tölublöð komu út af því. Síðan hóf Gísli J. Johnsen útgáfu blaðs í Eyjum, sem hann kallaði Skeggja. Þá hafði framtaksmaður þessi keypt og flutt prentsmiðju til Eyja. Síðast kom Skeggi út árið 1926.
Ólafur Magnússon er maður nefndur. Hann var stúdent að menntun. Hann var sonur Magnúsar Jónssonar frá Sólvangi í Eyjum, sem var á sinni tíð kunnur vélbátaformaður og útvegsbóndi í kaupstaðnum, þegar við fluttumst þangað. Ólafur Magnússon stúdent stofnaði til blaðaútgáfu í bænum, og gaf hann það út vikulega. Það blað kallaði hann Viði. Það blað hóf göngu sína árið 1928.
Ritstjóri þessi og útgefandi hafði mikinn áhuga á unglingaskólastarfi mínu og skrifaði grein um skólann í ágústmánuði 1929, - mjög vinsamlega grein, sem ég var honum verulega þakklátur fyrir. Hún var skrifuð til að efla skólastarf mitt. Þessa get ég hér sökum þess, að þetta sama blað var síðar notað árum saman til að hnekkja starfinu og úthúða mér persónulega. Að því kem ég öllu bráðum í þessu bréfi mínu.
Ritstjórinn missti heilsuna nokkru eftir að hann hóf þetta útgáfustarf og lézt um aldur fram. Ég var honum ávallt þakklátur fyrir stuðninginn og blessa minningu hans. Ættingjar hans voru mér ávallt vinveittir, og sumir þeirra voru kennarar hjá mér. Þar gætti aldrei andstæðra skoðana í starfinu, þó að flest þetta fólk fylgdi andstæðingunum að málum við kjörborðið.

„Vinn það ei fyrir vinskap manns að ...“
Lengi býr að fyrstu gerð, stendur þar.
Ég hafði kynnzt fátækt verkafólksins á Nesi í Norðfirði á uppvaxtarárum mínum. Ég skildi líka áður en lauk þá kúgun, sem það átti við að búa.
Ég lagði ekki til atlögu við lífið sjálft, duttlunga þess og daglega önn, án þess að minnast reynslu minnar á þessu sviði frá æskuárunum. Reynslan sú hafði mótað hugsanir mínar og skoðanir á vissum sviðum íslenzka þjóðlífsins. Þessar gömlu kenndir létu mjög á sér kræla innra með mér, þegar ég tók að kynnast lífi og reynslu, hug og hugsun verkalýðsins til sjós og lands í Vestmannaeyjakaupstað fyrir 40-50 árum. Kúgun, þrælkun, rangsleitni, ofbeldi, allt var það mér hugarkvöl.
Ég átti í baráttu við sjálfan mig. Átti ég að kjósa frið með því að afneita sjálfum mér, innra manni mínum, - afneita innstu kenndum mínum eða tilfinningum?
Hér dafnaði eða hafðist við óvenjulegt mannlíf, eins og þar sem ég var alinn upp. Fjölmenn framleiðslustétt átti öll atvinnutækin, og foringjar hennar réðu bókstaflega öllu í bænum. Þeir áttu m. a. sex fulltrúa af níu í bæjarstjórn kaupstaðarins. Þeir létu fólkið þræla dag og nótt, nætur og helgidaga sem aðra daga, ef hagsmunir þeirra sjálfra kröfðust þess, án þess að helgidaga og næturvinna væri að nokkrum eyri greidd. Mikill gróði og vellystingar annars vegar, sultur og seyra hins vegar.
Átti ég að láta allt land og leið til þess að tryggja mér frið og ef til vill skólanum gæfu og gengi? Hvaða tryggingu hafði ég þó fyrir vexti skólans og viðgangi? Fylgdi ekki Páll Bjarnason skólastjóri að málum hinum alls ráðandi meirihluta? Ójú, það held ég. Og samt varð hann að þola tómleikann og baktjaldamakk til niðurdreps skólanum, af því að hann dró úr þeim vinnukrafti, sem skapaði gróðastétt bæjarfélagsins arðinn mikla. Nei, hér þurfti annað og meira. Þennan eiginhagsmunamúrvegg þurfti að brjóta niður, hvað sem það kostaði. Með þetta eiginhagsmunavald yfir höfði sér, yrði unglingaskóla aldrei leyft að dafna í þessu bæjarfélagi.
Og hvað sagði ekki Björn Jónsson ritstjóri Ísafoldar í ræðu sinni 18. marz 1904? Hann fullyrti: „Til þess að mennta þjóð þarf sama verklag og til að yrkja land. Það verður að byrja á því að hreinsa jarðveginn og bæta hann. Fyrr er ekki til neins að sá í hann eða bera á hann. Það er erfitt verk, örðugasta verkið. En ekki verður hjá því komizt. Það stoðar ekki að hlífa sér við því. Meingrýti heimsku og hleypidóma verður að pæla upp eða þá að sprengja, ef ekki verður við það ráðið öðruvísi. - Fúamýri þekkingarkáksins verður að ræsa fram, ef þar á að hætta að spretta gráhvít, kjarnlaus sina, en koma í hennar stað hollur gróður og helzt töðugæfur.
Og stinga verður á grænmosadýjum vanþekkingar og gorgeirsins . . .
Þessi undirbúningsiðja er ekki einungis erfið og miður skemmtileg, heldur einnig miður vel þokkuð. Þeir mega ekki vera mjúkhentir, sem þar vilja eitthvað láta sér ganga, og þeir mega ekki kippa sér upp við það, þótt hljóð heyri einhvers staðar. - Grjótsprengingum fylgja hvellir, og grjótflugurnar fljúga í ýmsar áttir ...
Aldrei kemst land í viðunandi rækt, ef meingrýtið er látið í friði.“ Með þessum orðum hughreysti þessi andans maður og brautryðjandi vini sína og velunnara, sem bæta vildu eilítið menningarástand höfuðstaðarins eftir aldamótin síðustu. Jafnframt voru þessi orð huggunar og hvatnigaryrði til hans sjálfs, sem stóð þar í fylkingarbrjósti.
Og hvað hafði ég svo lesið af sígildum kenningum frægra manna? Til hvers hafði ég sett á mig vissar setningar þeirra, sem skráðar voru í mannkynssögunni og íslenzkum bókmenntum? Hvað hafði ekki Lúther sagt, þegar hann þurfti að leggja til orustu við sjálfa katólsku kirkjuna? „Það er háskasamlegt að breyta gegn samvizku sinni,“ hafði hann sagt. Ég var maður rétt eins og hann. Og ég stóð á vegamótum alveg eins og hann. Sama lífslögmálið varðar smáa sem stóra. Lögmál það er aðeins eitt. - Og hvað segir ekki sálmaskáldið okkar: „Vinn það ei fyrir vinskap manns að víkja af brautu sannleikans,“ segir það, og þykir sú kenning sígild.
En hvað svo um atvinnu mína, ef ég léti til skarar skríða? - Að öllum líkindum tækist þeim að flæma mig frá skólanum. Hvað tæki þá við? Ég var fjölskyldumaður, hafði fyrir konu og barni að sjá. - Jú, þá beið mín fiskvinnan allt árið eins og hinna. Og svo var ég kaskur beitingamaður frá uppvaxtarárunum á Norðfirði. Og venjulega var skortur á þeim mönnum í útgerðarstaðnum, þar sem stundaðar voru línuveiðar mikinn hluta ársins. En vildi mig þá nokkur í vinnu með öllum mínum sálarlegu annmörkum? Já, ekki óttaðist ég það. Ég var afkastamaður til allra verka, þó ég segi sjálfur frá, „hörkuduglegur,“ segir Einar ríki. Og alltaf þótti það hagnaður að hafa slíka menn í vinnu, og hagnaðarvonin var alls ráðandi. Þess vegna fann ég til öryggiskenndar. - Burtu úr bænum færi ég ekki, hvað sem það kostaði, úr því sem komið var.

Ég læt til skarar skríða
Ég lét til skarar skríða. Ég gekk í Verkamannafélagið Drífanda í kaupstaðnum, ef ég skyldi með því geta lagt góðu málefni eilítið lið, svo að þau samtök mættu efla hag hinnar undirokuðu stéttar í bænum.
Ráðandi menn í Vestmannaeyjakaupstað ráku upp stór augu, þegar þeir fréttu þetta tiltæki mitt. Það var ekki ástæðulaust að hugsa þessum „barnafræðara“ þegjandi þörfina, en þessa nafngift gaf þingmaðurinn mér á þingmálafundi og í blaðagrein 2-3 árum síðar. - Koma tímar, koma ráð, hugsuðu þeir. Atvinna mín við unglingaskólann var í þeirra hendi. Það vissu þeir. Sá skyldi með tímanum fá að vita, hvar hann Dabbi keypti ölið!
Þó var kyrrð og þögn ríkjandi í kaupstaðnum næstu tvö árin. Og unglingaskólinn í bænum fór vaxandi ár frá ári undir stjórn hins tortryggilega manns.

II. hluti