Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Jón Ingimundarson, Mandal

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 26. apríl 2016 kl. 14:01 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 26. apríl 2016 kl. 14:01 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) (Ný síða: <center><big><big>'''Jón Ingimundarson, Mandal'''</big></big></center><br> Jón Ingimundarson í Mandal var einn úr hópi þeirra göml...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Jón Ingimundarson, Mandal


Jón Ingimundarson í Mandal var einn úr hópi þeirra gömlu og góðu Eyjasjómanna, sem lifðu hér og störfuðu á seinni hluta síðustu aldar og fyrstu tugum þessarar. Margra þeirra hefur að litlu eða engu verið getið, þó að þeir væru mikils metnir af sínu samtíðarfólki, en svo var um Jón í Mandal.
Jón Ingimundarson var fæddur hér á Gjábakka 3. ágúst 1856. Hann var elzra barn hjónanna Margrétar Jónsdóttur og Ingimundar Jónssonar, er bjuggu allan sinn langa búskap á Vestri Gjábakka, eða í rúmlega hálfa öld. Fluttist Ingimundur hingað austan úr Mýrdal um 1850 og varð hér mikils metinn maður, góður fjallamaður og formaður margar vertíðir með sexæringinn Björgu, eða þar til sonur hans, Kristján í Klöpp, tók við formennsku af honum árið 1895. Margrét, kona Ingimundar, var fædd og uppalin á Gjábakka, dóttir hjónanna Jóns Einarssonar og Sigríðar Sæmundsdóttur, sem þar bjuggu.
Ekki er að efa, að Jón hefur byrjað að róa sem hálfdrættingur 12 til 13 ára með föður sínum, en það var venjan með drengi, sem ólust hér upp, á meðan handfærin voru eingöngu notuð til fiskveiða. Línuveiðar hófust hér sem kunnugt er ekki fyrr en seint á vertíð 1897.
Um tvítugs aldur varð Jón formaður með áttæringinn Enok, og sýnir það bezt, hve gott traust menn hafa haft á honum sem góðum sjómanni. Voru ungir menn ekki valdir í formannssröðu á stóru vetrarvertíðarskipin, nema þeir hefðu sérsraka sjómannshæfileika, útsjón og lagni til að stýra skipi og verja það ágjöf og áföllum, kynnu að hagræða seglum eftir vindi og væru miða- og veðurglöggir.
Vertíðina 1887 tók Jón við formennsku á áttæringnum Mýrdælingi, er Þorsteinn Jónsson, bóndi og hreppstjóri í Nýjabæ, hafði verið formaður með margar vertíðir, og átti hann einn þriðja hluta í því skipi. Þorsteinn var alþingismaður Vestmannaeyja frá 1875 til 1886 og andaðist við þingsetu í Reykjavík 28. ágúst 1886.
Jón í Mandal stýrði Mýrdælingi fram til aldamóta, og á honum fór Jón í síðustu hákarlalegu, sem farin var héðan á opnu skipi. Var það 14. apríl 1893. Hásetahlutur úr þeim róðri var 5 krónur 96 aurar. Mun hafa verið skipt í 22 til 24 hluti, þar af 18—19 mannshluti, því að svo margir menn reru hér venjulega á gömlu áttæringunum. Verðið á hákarlalifur var þá 10 krónur tunnan (120 lítrar).
Þegar Jón hætti formennsku á Mýrdælingi, tók hann við sexæringnum Björgu af Kristjáni bróður sínum, sem þá réðst fyrir sexæringinn Farsæl, sem Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) hafði verið formaður með, en Hjalti flutti héðan suður í Hafnir. Jón var formaður með Björgu til 1905, og hætti þá sinni löngu og farsælu formennsku.
Árið 1907 smíðaði Ástgeir í Litlabæ mótorbátinn Gústav VE 126 fyrir Jón og tengdason hans, Stefán í Ási. Var Gústav í þá tíð með stærri bátum hér, hálft tíunda tonn og með 10 hestafla Dan-vél, tveggja strokka. Jón átti ⅕ hluta í Gústav, en Stefán í Ási ⅘ hluta, og gerðu þeir hann út á línu- og netaveiðar fram til 1927, en endalok Gústavs urðu þau, að hann sökk út af Snæfellsnesi 1929; mannbjörg varð.
Eftir að Jón hætti að róa á vetrarvertíð, hirti hann sjálfur um sinn fisk. Jón í Mandal mun hafa verið einn fyrstur manna hér að veiða síld í reknet og reyna þá veiðiaðferð. Átti hann lengi lítið fjögurra manna far, sem hét Nói og var sexróinn bátur. Var Nói oftast notaður við síldveiðarnar.
Þegar komið var að sumarmálum, mánaðamótum apríl-maí, fóru menn að huga að hvort væri síldarlegt. Sæist súlukast eða önnur líklegheit á sjónum og væri blítt veður, var farið í drift til beituöflunar. Brást þá varla fiskur, ef beitt var með nýrri síld. Venjulega var drifið með 4-6 net á þessum smáferjum og veiðisvæðið ofast austur af Urðum og í Flóanum. Eftir að farið var að nota þorskalínuna til veiða, var oftast mokfiskirí af löngu á grynnstu fiskimiðum yfir vorvertíðina, en hún stóð yfir frá lokum (11. maí) til Jónsmessu (24. júní). Var þá róið á þessum litlu sexrónu bátum, sem flestir voru með færeysku lagi og 4 til 6 menn á hverjum báti. Munu hafa verið gerðir hér út um 50 bátar á vorvertíð, þegar þeir voru flestir. Sjósókn var afar hörð á þessum litlu fleyjum og mikil keppni á milli skipshafna á þeim. Fyrsti vorbáturinn var keyptur hingað frá Færeyjum árið 1899. Bátinn áttu þeir Guðjón Jónsson, Oddsstöðum og Magnús Jónsson sýslumaður. Báturinn hét Höfrungur, og var Guðjón formaður með hann til 1907, en þá var farið að stunda löngufiskiríið á mótorbátum. Flestir litlu vorróðrabátanna urðu þá skjöktbátar mótorbátanna. Jón Ingimundarson var talinn einn af beztu fjallamönnum Eyjanna, meðan hann stóð upp á sitt bezta. Í fleiri sumur seig hann Stórhellana í Hellisey til súlnatekju. Voru það talin erfiðustu og mestu sig í Vestmannaeyjum og ekki fær nema úrvals sigmönnum. Eru hvergi eins löng og mikil rið og í Stórhellunum. Þá vann Jón þá þrekraun að klífa upp á stóra Kerlingarbælið í Elliðaey, sem er neðarlega í miðju bergi sunnan í eyjunni, beint niður af Kerlingu. Þessi fjallaferð Jóns var mjög umtöluð og lengi í minnum höfð, því að ekki voru sagnir um, að nokkur maður hefði fyrr né síðar komizt þar upp, þó oft hafi það verið reynt. Jón stundaði fjallaferðir og lundaveiðar fram á elliár og lá lengst af við, síðast í Yztakletti.
Jón Ingimundarson var kvæntur Sigríði Guðmundsdóttur, og eignuðust þau tvö börn, sem upp komust. Sigríður dóttir þeirra giftist Stefáni Gíslasyni frá Hlíðarhúsi (Hól), og bjuggu þau lengi í Ási, en síðar á Sigríðarstöðum í Stórhöfða. Hálfdan, sonur Jóns og Sigríðar, lézt um tvítugsaldur á sóttarsæng. Fóstursonur þeirra Mandalshjóna er Þórarinn Guðmundsson á Jaðri, bróðursonur Sigríðar. Þórarinn var hér formaður um tugi ára, glöggur og mikill fiskimaður á sinni tíð. Einnig ólu þau hjón upp dótturson sinn, Jón I. Stefánsson, góðkunnan Vestmannaeying, sem nú býr í Mandal.
Guðmundur, tengdafaðir Jóns í Mandal og afi Þórarins á Jaðri, fórst hér í hákarlalegu á opnu skipi í suðvestan roki, sem hafði brostið á mjög snögglega. Var ekki vitað með vissu, hvar skipið hafði legið, en gizkað á vestur af Geirfuglaskeri. Rak eina ár af skipinu á Torfmýri. Formaðurinn hét Jón, frá Lágafelli í Landeyjum. Ekki eru sagnir um, að annað hákarlaskip hafi farizt héðan frá Eyjum.
Jón í Mandal var með hærri mönnum á vöxt og vel þrekinn. Hann andaðist á heimili sínu 21. apríl 1937.
Eyjólfur Gíslason