Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Þegar Sigurfari fórst

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. mars 2016 kl. 15:41 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. mars 2016 kl. 15:41 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) (Ný síða: '''Árni Guðmundsson:'''<br> <center><big><big>'''Þegar Sigurfari fórst'''</big></big></center><br> Vertíðina 1951 var ég skipverji á mótorbátnum Ver VE 118. Ver, sem va...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Árni Guðmundsson:

Þegar Sigurfari fórst


Vertíðina 1951 var ég skipverji á mótorbátnum Ver VE 118. Ver, sem var 36 brl., var byggður í Njarðvík árið 1944 og hét þá Bragi, í eigu samnefnds útgerðarfélags. Bræðurnir frá Goðalandi, Jón og Karl Guðmundssynir, ásamt Björgvin Jónssyni frá Garðstöðum, höfðu nýlega keypt bátinn til Eyja.
Róðrar hófust í janúar með línu, svo sem venja var á þeim árum. Afli var tregur og réð þar mestu rysjótt tíðarfar. Um miðjan mars var skipt yfir á net og lagt undir Sand. Fengust nokkrir góðir afladagar, en flotinn elti fiskinn vesturundir Þjórsárhraun, þar virtist hann gufa upp.
Í byrjun apríl fór að aflast á Selvogsbankahrauni og virtist mikill fiskur vera á stóru svæði. Nær allir bátar úr Eyjum áttu net sín á bankanum, svo var einnig á Ver.
Um klukkan tvö eftir miðnætti 14. apríl var haldið úr höfn. Við áttum netin á ,,Hausnum" á Selvogsbanka. Um klukkan sjö að morgni var byrjað að draga í ágætu veðri. Reyndist mikill afli í netunum. Er líða tók á morguninn þótti sýnt að veðrabrigði væru í nánd því að dökkan bakka dró upp á austurloftið og um leið byrjaði að kula af austri. Það stóðst á endum að þegar búið var að draga fjórar trossur var lestin full og miðkassinn á dekkinu.
Sífellt hafði bætt í vindinn meðan á drætti stóð svo að ekki voru tök á að leggja síðustu trossuna, var hún því bundin niður í netakassann sem var aftast á hekkinu. Nú var sjóbúið sem best því að búast mátti við erfiðu heimstími, vindur og sjór beint á móti. Heimferðin gekk hægt því að oft þurfti að slá af og nokkuð töfðumst við vegna þess að netakassinn brotnaði ásamt fleiru.
Um kl. 20 vorum við farnir að nálgast Smáeyjar, en þá skellur yfir glórulaus bylur svo að ekki sést fram fyrir stefni. Nú varð að fara með mikilli gát því að engin var ratsjáin og skyggnið ekkert. Um miðnætti náðum við uppundir Eiðið og andæfðum við ljósdufl ásamt fleiri bátum sem sífellt fjölgaði. Algjörlega var ófært fyrir Klettinn vegna hvassviðris og bylsins sem alltaf var jafn svartur. Þorgeir á Lundanum lá inni í Kambshelli um nóttina og var hjálp að því að stundum grillti í afturljósið á Lundanum þegar andæft var.
Það mun hafa verið um kl. 1:30 að við vorum ræstir og sagt að hraða okkur upp því að bátur væri að sökkva skammt frá okkur. Þegar upp var komið sást óglöggt bátur sem var kominn að því að sökkva. Báturinn var siginn á skammdekk og gufustrók lagði upp úr púströrinu. Sjá mátti áhöfnina standa í stöðugum austri. Sýnt var að ekki mátti dragast að ná mannskapnum frá sökkvandi bátnum sem við vissum nú að var Sigurfari VE 138. Skipstjóri var Óskar Ólafsson frá Garðstöðum en hann var jafnframt eigandi ásamt Einari Sigurjónssyni.
Sigurfari var á heimleið er mikill leki kom að bátnum 10 sjómílur norðvestur af Þrídröngum. Það var mikið afrek skipshafnar að halda bátnum á floti upp undir Eiðið í jafnvondu veðri og var þennan dag, en tæpara mátti það ekki standa. Stóran þátt átti Vonin VE 113 í giftusamlegri björgun áhafnar því að Guðmundur Vigfússon skipstjóri beindi ljóskastaranum á Sigurfara.
Í annarri tilraun tókst að ná áhöfninni frá borði en Sigurfari hvarf í sortann og barst upp í Hettugrjótin norðan í Heimakletti.
Nú var orðið þröngt um borð í Ver, 36 tonna bát þrauthlöðnum af fiski með 20 menn innanborðs. En allir voru ánægðir hvernig til hafði tekist. Verst var að heldur var matarlítið um borð. En það voru smámunir og einhvern tíma hlaut að lægja. Og það gerðist undir morgun, þá fór að rofa til og vindur gekk meira til suðurs.
Nú var haldið í Faxasund og fyrir Klettinn og lagst að Bæjarbryggjunni um fótaferðartíma. Þar má segja að langri og erfiðri sjóferð hafi lokið sem farin var fyrir réttum 35 árum. Skipstjórarnir, Jón Guðmundsson á Ver og Óskar Ólafsson á Sigurfara, eru nú báðir látnir. Þeir voru góðir aflamenn og sómi sinnar stéttar.

Ég óska sjómönnum til hamingju með daginn.
Árni á Eiðum.