Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982/Slysavarnardeildin Eykyndill

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. mars 2016 kl. 15:38 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. mars 2016 kl. 15:38 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) (Ný síða: <center><big><big>'''Slysavarnadeildin Eykyndill'''</big></big></center><br> Þegar ég var beðin um að skrifa nokkrar línur um starfsemi Slysavar...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Slysavarnadeildin Eykyndill



Þegar ég var beðin um að skrifa nokkrar línur um starfsemi Slysavarnadeildarinnar Eykyndils í Sjómannadagsblaðið, fór ég að blaða í fundargerðarbókum deildarinnar.
Mér varð strax ljóst að hartnær 50 ára saga deildarinnar yrði ekki sögð í stuttri grein, því að þar má í raun og veru lesa um þá þróun í slysavarnar- og björgunarmálum, sem orðið hefur í þjóðfélaginu á þessu tímabili.
Öll sú saga tengist lífi og starfi fólksins hér í bæ. Þar má lesa um harmleiki á hafinu, í litlum og vanbúnum bátum, og hvernig félagskonur létu sig varða, og unnu að, hverju því máli er varðaði öryggi manna á sjó, og verða mátti til hjálpar og björgunar.
Flestar af forvígiskonum Eykyndils eru nú horfnar af sjónarsviðinu, en verk þeirra báru birtu fram á veginn og lýsa þeim er á eftir koma. Hinn 25. mars árið 1934 var stofnuð Kvennadeild í Slysavarnafélagi Íslands í Vestmannaeyjum með 266 félögum.
í stjórn voru kosnar frú Silvía Guðmundsdóttir formaður, frú Dýrfinna Gunnarsdóttir ritari, frú Katrín Árnadóttir gjaldkeri. Meðstjórnendur þær frú Elínborg Gísladóttir, frú Magnea Þórðardóttir, frú Soffía Þórðardóttir og frú Þorgerður Jónsdóttir.
Hin nýstofnaða deild hlaut nafnið „Eykyndill", mun frú Dýrfinna Gunnarsdóttir hafa átt hugmyndina að nafni deildarinnar. Frumkvæði að stofnun deildarinnar áttu þeir Páll Bjarnason skólastjóri og Ólafur Lárusson héraðslæknir, miklir áhugamenn um slysavarnar- og björgunarmál. Veittu þeir mikla hjálp og góðan stuðning við stofnun deildarinnar.
Bæjarbúar sýndu þessu starfi strax mikinn velvilja. Sá velvilji hefur ekki minnkað með árunum, það finnum við svo vel í starfi okkar.
Ég hef stundum verið spurð: Hvernig starfið þið hjá Eykyndli, og hvað gerið þið? Er nokkuð um þetta starf að segja?
Ég mun nú reyna að segja ofurlítið frá starfi deildarinnar, ef einhver, sem þessar línur les, hefði gaman af, að frétta hvernig starfið gengur fyrir sig. Það má segja að aðalstarf okkar í Eykyndli, sé fjáröflun. Samkvæmt lögum S.V.F.Í. ber deildum að senda sjötíu og fimm prósent af tekjum sínum til S.V.F.Í. Þetta fé fer í sameiginlegan sjóð, til tækjakaupa og eflingar slysavarnar- og björgunarstarfinu vítt og breitt um landið.
Margar björgunarsveitir eru þannig settar, að þær eiga mjög auðvelt með að afla fjár fyrir starfsemi sína, en því miður eru þær björgunarsveitir miklu fleiri, sem hafa nánast enga möguleika til að afla sér fjár, vegna þess hve þær eru í fámennum sveitum eða byggðarlögum.
Með því að senda vissan hluta af tekjum okkar, stuðlum við að því, að hægt er að kaupa björgunarbúnað og annað, sem til þarf, handa þeim björgunarsveitum, sem mesta hafa þörfina hverju sinni. Ég bendi á, að það er ekki svo lítið atriði fyrir okkur Vestmanneyinga að björgunarsveitirnar hér í bænum, og í næsta nágrenni við okkur, séu vel búnar björgunartækjum og búnaði. Það má minna á að á árinu 1981 var 21 manni frá Vestmannaeyjum bjargað á land úr strönduðum bátum. Það sýnir okkur hve starf björgunarsveitanna er þýðingarmikið og hve nauðsynlegt er að allur björgunarbúnaður sé til staðar ef á þarf að halda.
Samkvæmt lögum deildarinnar skal halda aðalfund í janúar, þar eru lagðir fram endurskoðaðir reikningar, fyrir liðið ár, og ársskýrsla deildarinnar.
Samkvæmt ársuppgjöri fyrir árið 1981 sendi deildin kr. 57.363,05 til Slysavarnafélags Íslands. Áheit og gjafir til Eykyndils fara óskiptar til deildarinnar, og eru það talsverðar fjárhæðir árlega.
Á síðasta aðalfundi voru samþykktar eftirfarandi tillögur:
Að gefa Stýrimannaskóla Vestmannaeyja Sigmundsgálga til kennslu og æfinga fyrir nemendur skólans.
Að gefa Björgunarfélagi Vestmannaeyja fjarskiptatæki og kr. 5.000,00 til kaupa á björgunartækjum.
Að gefa Hjálparsveit skáta hér í bæ kr. 12.000,00 til kaupa á fjarskiptatæki. Að gefa úr minningarsjóði frú Sigríðar Magnúsdóttur kr. 11.840,00 til kaupa á hjartarita til nota fyrir Sjúkrahús Vestmannaeyja.
Samþykkt var að senda bréf til bæjarstjórnar Vestmannaeyja með áskorun um að veita hjálpar- og björgunarsveitum hér í bæ, fjárhagsaðstoð til kaupa á, og endurnýjunar á björgunarbúnaði. Ennfremur að leggja ökufæra slóð suður með strönd nýja hraunsins.
Ritari deildarinnar, Rósa Magnúsdóttir, tók saman útdrátt úr starfi Eykyndils yfir árið 1981. Þar kemur ljóslega fram hvernig félagsstarfið er. Og birtist hér sá útdráttur, með leyfi ritara.
Oftast er fundarsókn góð og konur afar áhugasamar um starfið. Almennir fundir voru fjórir þ.ám. afmælisfundur í mars. Á þann fund komu þeir Óskar Sigurpálsson lögregluþjónn og Vignir Guðnason forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar hér. Voru þeir að kynna okkur margþætt þjálfunartæki sem áhugi var á að kaupa til Íþróttamiðstöðvarinnar.
Samþykkt var á fundinum að gefa kr. 5.000,00 til kaupa á þessum tækjum. Skemmti- og matarfundurinn var haldinn að vanda í október, var þar mikið fjör og skemmtiefnið heimasamið að mestu og auðvitað flutt af félagskonum. Nú fengum við góðan gest á fundinn. Var það Þórunn Þórðardóttir frá Ferðafélagi Íslands, sem verið hefur leiðsögumaður okkar undanfarnar fjórar sumarferðir. Nokkur alvara var þó einnig á fundinum, formaður Sigríður Björnsdóttir las bréf er skrifað hafði verið til Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, þar sem hvatt er til þess að stuðla að því að Sigmundsgálginn komi sem fyrst í báta og skip hér í Vestmannaeyjum.
Samþykkt var á fundinum að Eykyndill legði fram kr. 5.000,00 í byggingarframkvæmdir verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum í tilefni árs fatlaðra. Einnig að færa Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum kr. 5.000,00 til kaupa á björgunarspili.
Einnig var sagt nokkuð frá aðalfundi S.V.F.Í. að Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu í sumar. En þar komu fram eftirfarandi tillögur frá Eykyndli: Aðalfundur S.V.F.Í., haldinn að Laugum í Þingeyjarsýslu, felur stjórn félagsins að vinna að því, að sett veri reglugerð er lögskipi hið nýja björgunartæki, sem er sjálfvirkur öryggisbúnaður til sjósetningar á gúmíbjörgunarbátum, og kveðið verði á um að búnaður þessi verði í öllum íslenskum skipum, stórum sem smáum. Og seinni tillagan: aðalfundur S.V.F.Í. 1981, haldinn að Laugum í S-Þingeyjarsýslu, skorar á útgerðarmenn og skipstjóra á íslenskum skipum og bátum að sjá svo um, að um borð séu ullarnærföt, fyrir alla skipshöfnina, sem auðvelt sé að grípa til. Báðar þessar tillögur voru samþykktar.
Mörg bréf hafa verið skrifuð á árinu, um ýmsilegt sem betur má fara hér í bæ og eru undirtektir yfirleitt góðar, en stundum má bíða nokkurn tíma eftir að lagfæringar séu gerðar.
Haldin var hjólreiðakeppni við Barnaskólann, ásamt J.C.V. og lögreglunni. Fór hún vel fram og var mikill áhugi hjá krökkunum.
Haldið var skemmtikvöld að Hraunbúðum, dvalarheimili aldraðra. Þar var spilað bingó og á spil, kaffi drukkið og dansað í lokin. Mjög ánægjulegt kvöld. Sumarferð var farin yfir eina helgi. Var nú ekki farið á hálendið eins og oft áður, heldur á Snæfellsnes, ferðin var vel heppnuð að vanda.
Frá Slysavarnadeildinni Hraunprýði í Hafnarfirði komu 57 konur hingað í helgarferð. Áttum við skemmtilegt kvöld með þeim yfir kaffisopa með spaugi og spjalli.
Dagana 18.-20. september var samæfing björgunarsveitarmanna svæðis 10, haldin hér í Vestmannaeyjum, en það eru sveitir úr Rangár- og Skaftafellssýslu ásamt Björgunarfélagi Vestmannaeyja. Buðum við hópnum til kvöldverðar og var það mjög ánægjulegt samsæti.
Félagar úr björgunarsveit Björgunarfélags Vestmannaeyja hafa farið í skýlið á Faxaskeri til að líta eftir að allt sé þar í lagi. Einnig hafa þeir málað skýlið utan og innan fyrir okkur. Áheit og gjafir bárust Eykyndli á árinu bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum. Notuðum við það fé til stuðnings málum er telja má til slysavarna hér heima í Eyjum. Heldur lítið hefur gengið með félagsheimilið Bása í ár, og er orsökin sú að ekki eru öll félögin, sem þar eiga hlut að máli, jafn vel í stakk búin fjárhagslega.
Hefðbundnar fjáröflunarleiðir voru farnar, þ.e. hlutavelta, basar, kaffisala á sjómannadaginn o.fl.
Gekk þetta vel að vanda, enda leggja konur fram mikla vinnu með glöðu geði við þetta. Einnig voru seldir happdrættismiðar, merki og árbækur S.V.F.Í. Eru nú 316 konur í Eykyndli.
Þetta var nú það helsta sem á dagana dreif árið 1981. Hér hefur verið stiklað á stóru, og mörgu sem hefði átt erindi fyrir augu lesenda, hef ég orðið að sleppa. Eg vona að þeir, sem þessar línur lesa, verði fróðari um störf Eykyndils.

Núverandi stjórn Eykyndils skipa þessar konur:
Sigríður Björnsdóttir formaður
Lára Þorgeirsdóttir gjaldkeri
Rósa Magnúsdóttir ritari
og meðstjórnendur þær
Eygló Einarsdóttir, Gyða Steingrímsdóttir,
Martea Guðmundsdóttir og Oktavía Andersen

Sigríður Björnsdóttir, formaður.