Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1992/Sjómannadagurinn 1991

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. september 2015 kl. 13:33 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. september 2015 kl. 13:33 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big>Sjómannadagurinn 1991</big></big> Árið 1991 var sjómannadagurinn haldinn sunnudaginn 2. júní en eins og venja er, hófust hátíðahöldin á laugardeginum kl. 13:3...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Sjómannadagurinn 1991

Árið 1991 var sjómannadagurinn haldinn sunnudaginn 2. júní en eins og venja er, hófust hátíðahöldin á laugardeginum kl. 13:30 við Friðarhöfn. Þar var að vanda keppt í róðri og milli róðra voru gamalkunnug atriði, svo sem koddaslagur og sjóskíðasýningar. En einnig var bryddað upp á nýjungum svo sem kappróðri á fiskikörum, kappsundi í flotbúningum og keppni í netabætningum. Þá fór einnig fram knattspyrnukeppni með nýstárlegu sniði.

Um kvöldið var borðhald í þremur samkomuhúsum þar sem Helgi og Hermann Ingi skemmtu matargestum og síðan voru dansleikir í fjórum húsum, Kiwanishúsinu, Hallarlundi, Samkomuhúsinu og Alþýðuhúsinu. Hljómsveitirnar Mömmustrákar, Papar, Atlantic og Eymenn léku fyrir dansi á þessum skemmtunum sem flestar voru fjölsóttar.

Á sunnudeginum hófust hátíðahöldin að vanda með messu í Landakirkju þar sem séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson prédikaði. Eftir messu minntist síðan Einar J. Gíslason drukknaðra sjómanna við minnisvarðann ásamt því að Lúðrasveit Vestmannaeyja lék.

Kl. 15:30 hófst svo skemmtidagskrá á Stakkó þar sem flutt var ræða dagsins, sjómenn voru heiðraðir og viðurkenningar veittar fyrir björgunarafrek og afrek laugardagsins. Þá skemmti hljómsveitin Papar og Leikfélag Vestmannaeyja ásamt því sem lúðrasveitin lék. Í safnahúsinu var sérstök sýning á bátateikningum og líkönum.

Slysavarnadeildin Eykyndill var að vanda með kaffisölu í Alþýðuhúsinu. Kl. 17 var bryddað upp á því nýmæli að hafa kvikmyndasýningu í Samkomuhúsinu og var þar sýnd mynd um fiskveiðar, tekin um borð í Breka og Suðurey.

Síðan lauk dagskrá sjómannadagsins með dansleik í Hallarlundi.

Sjómannadagsblað Vestmannaeyja kom út, mikið rit og vandað, undir ritstjórn Sigurgeirs Jónssonar.

Hátíðahöldin fóru vel fram og án nokkurra óhappa.
Aðalstjórn Sjómannadagsráðs 1991 skipuðu þessir:
Formaður: Stefán Einarsson
Gjaldkeri: Ebeneser Guðmundsson
Ritari: Þorsteinn Árnason.