Saga Vestmannaeyja I./ VIII. Þjóðlífslýsingar, 4. hluti
Bæjarhús í Vestmannaeyjum fyrrum og allt fram á síðasta hluta 19. aldar hafa verið torfhýsi, með hlöðnum grjót- og torfveggjum og torfþaki, útveggir þykkir, 4—5 feta háir eða að minnsta kosti innst. Skarsúð á baðstofu eða langbönd með reisifjöl, sem hér var almennara. Húsatorf var hér slæmt og bannaður skurður á því lengra en álnarlöngu. Voru oft notuð snydduþök og snyddurnar skaraðar og stungnar. Í tróð var notað lyng og rofalýja. Húsin voru byggð í röð, aðalhúsin 1—3 og bæjardyr í miðið. Eldhús inn af bæjardyrum. Timburstafnar voru víðast, en sums staðar torfstafnar með skanzglugga. Húsakynni hafa verið lítil og fátækleg hjá mörgum. Hjá efnaðri bændum mun þó hafa verið sæmilega hýst jafnan, eftir því sem gerðist hér á landi. Húsabyggingar á jörðum á öndverðri 19. öld og fram yfir miðbik aldarinnar sem hér segir, og mun hafa verið lengi svipað fyrrum. Venjuleg bæjarhús, baðstofa, búr, eldhús og löng bæjargöng. Baðstofur 4,6—8 álnir á lengd og sums staðar 12 álna langar. Baðstofur undir súð með sperrum og bitum og tilheyrandi stöfum, langbönd báðum megin og mænisás, skipt í stafgólf. Þil fyrir útidyrastafni. Frá bæjardyrum bæjargöng alllöng, 5—8 álnir, upp til 12 álna, eftir úttektum. Eldhús frá 3—6 álnir. Á fáeinum bæjum skemmur og fiskgeymsluhús. Hjallur eða kró í Skipasandi fylgdi jörðum. Samkvæmt skoðunargerðinni frá 1861 eru á 12 bæjum baðstofur taldar í ágætu eða í góðu standi, á 13 bæjum í bærilegu standi og á 14 bæjum slæmar og sums staðar nærri fallnar. Af gripahúsum fjós fyrir 1 eða 2 nautgripi, oft innangengt úr bæjargöngum í fjósið, sums staðar sumarfjós, lambhúskofar og hestakofar og taðhús. Sauðfé bænda lifði mest á útigangi og hafðist við ból. Heygarðar hafa verið á jörðunum lengi og síðar heytóttir. Í seinni úttektum eða frá því fyrir miðbik 19. aldar eru taldar heytóttir og ennþá eru sums staðar heygarðar við líði. Síðar koma hlöður á hverjum bæ og eru þær orðnar almennar um 1840. Umhverfis voru húsagarðar, sums staðar nefndir húsaveggir, hlaðnir af grjóti. Má sjá slíka húsagarða hér enn. Samkvæmt skoðunargerðinni frá 1861 voru skálar á Miðhúsum og Oddsstöðum eystri og á tveim bæjum á Vilborgarstöðum. Gömlu skálarnir voru oftast hlaðnir í tótt, með grjótveggjum og óþiljaðir að innan, með timburþili á stafni. Sváfu sjómenn í skálunum á vertíðinni. Húsagarðar voru að bæjarbaki og voru þar sums staðar stórir hvannagarðar, og var hvönnin notuð til manneldis. Þar sem moldargólf voru í baðstofum og nær alls staðar í bæjargöngum var stráð hvítum fjörusandi. Gólfin voru sópuð með fugla- eða vængjasópum. Við suma bæi voru brunnar. Nýbyggingar og fullar endurbyggingar bæjarhúsa kostaði landsdrottinn. Viðhald jarðarhúsa og túngarða hvíldi á leiguliða. Stjórnin leyfði 1799, að nota mætti rekavið til húsabygginga á kóngsjörðunum hér, en neitað var um að Jarðabókarsjóður stæði straum af byggingum húsa, er þáverandi sýslumaður Jón Guðmundsson, seinna sýslumaður í Skaftafellssýslu, hafði farið fram á við stjórnina. Hús öll á jörðum voru hér eign jarðeiganda, þar til fram um miðbik 19. aldar, sem og tómthúsin. Þetta breytist smám saman. Bændur fá leyfi til að byggja upp húsin fyrir eigið fé og eru eigendur þeirra framvegis. Verðmæti gömlu húsanna er greitt eftir mati. Nýju húsin voru oft byggð á öðrum stað en gömlu bæjarhúsin og koma eigi framar jörðinni við. Peningshús fylgja ennþá nokkrum jörðum. Samkvæmt fasteignamatinu frá 1922 voru aðeins á einni jörð, Vestra-Norðurgarði, íbúðarhús, sem voru eign jarðeiganda. Hús þessi voru keypt af jarðeiganda 1892, sbr. landshöfðingjabréf 23. jan. 1892. Bærinn í Norðurgarði er eini bærinn hér með gömlu lagi og stafnþiljum fram á hlaðið.
Á margbýlisjörðunum í Kirkjubæ og á Vilborgarstöðum stóðu bæirnir í röð og snéru móti suðri, með sameiginlegum steinstéttum og hlaði. Nokkrir bæir stóðu fram af hlaðinu og aðalbæjarröðinni og kölluðust þeir Hlaðbæir. Langar og miklar traðir lágu heim frá túngarðshliði. Þar fyrir utan var hinn sameiginlegi bæjarstöðull. Miklar breytingar hafa orðið hér síðan um aldamótin síðustu, hús og bæir færðir úr bæjarröðinni og byggðir annars staðar og gefin ný nöfn.
Getið er áður húsabygginga úr steini, Landakirkju og gamla barnaskólans. Um 1880 var byggð Austurbúðin, mikið og reisulegt hús, úr höggnu móbergi úr Hettugrjótum undir Heimakletti. Veggir og gaflar eru tvíhlaðnir og settir blágrýtisstuðlar langsum og allt bundið með kalki og húðað.
Á seinni áratugum 19. aldar var farið að reisa timburhús. Við sjálfa verzlunarstaðina voru nokkur eldri íbúðarhús, lítil, einlyft, bikuð utan, sum með múrbindingu. Sams konar hús og þekkjast í öðrum kauptúnum frá dögum dönsku selstöðukaupmannanna. Elzta húsið hér er eitt af vörugeymsluhúsum Garðsverzlunar, sem enn er uppistandandi, Kornhúsið, um 150 ára.
Fyrsta tvílyfta timburhúsið með nýtízkusniði, er hér var byggt, var húsið Frydendal, reist 1883—1884 af finnskum viði. Húsið er nú verzlunar- og íbúðarhús.
. | |||
Helztu húsasmiðir hér á síðasta hluta 19. aldar voru þeir Árni Einarsson, Jón Vigfússon, Sigurður Sveinsson í Nýborg, sigldur snikkari, og Sveinn Jónsson, síðar kaupmaður í Reykjavík. Þeir kenndu og útskrifuðu sveina í iðn sinni.
Síðar Magnús Ísleifsson, Helgi Jónsson, Jóhann Jónsson, Erlendur Árnason, Guðjón Jónsson, Kristján Jónsson, Guðmundur Magnússon, Ágúst Jónsson, Snæbjörn Bjarnason, Guðmundur Böðvarsson, Magnús Magnússon. Múrarar: Júlíus Jónsson, Sigurður Jónsson, Ágúst Benónýsson. Marga fleiri mætti telja, ef rúm leyfði. Á seinni árum fjölgaði smiðum. Húsagerð jókst og komst smám saman í það horf, sem nú er. Lóðasamningar frá 1904—1944 eru um 600. Hús úr járnbentri steinsteypu eru nær eingöngu byggð nú og með nýtízkusniði. Meisturum í ýmsum iðngreinum hefir fjölgað mjög á síðustu árum. Iðnaðarmannafélag er hér starfandi. Form. þess er Guðjón Scheving. Félagið var stofnað 1931. Form. iðnráðs er Haraldur Eiríksson.
Byggingasamþykkt Vestmannaeyja er frá 4. okt. 1937. Byggingafulltrúi er Óskar Kárason, áður Sveinbjörn Gíslason. Skipulagsuppdráttur fyrir Vestmannaeyjar er í gildi. Reglugerð um skipun slökkviliðs- og brunamála er frá 19. des. 1931. Slökkviliðsstjóri er Hafsteinn Snorrason. Umboðsmaður Brunabótafélags Íslands er Bjarni Magnússon.
Hús í Dölum 1815:
Baðstofa, 6 álnir lengd, 2¾ alin breidd, í góðu standi. Eldhús, 4¾ alin l., 2¼ alin br., í góðu standi. Búr, 3 álnir l., 1½ alin br., í þolanlegu standi. Bæjardyr, 5½ alin l., 1½ alin br., í þolanlegu standi, með hurð og stöfum. Fjós, 6 álnir l., 1½ alin br., álag 2 rd. Húsagarður og heygarður, í slæmu standi, álag 1 rd. Hjallur í Skipasandi, grjótbyrgi¹).
Úttekt á Vesturhúsum (vestri bænum) 10. ágúst 1835: Baðstofa, 8 álnir l., 4 álnir br., með 3 bitum, 8 stöfum, 2 langböndum, sín hvorum megin, mænisás, í tveim stafgólfum, hurð fyrir. Eldhús, 6½ alin l., 2⅝ alin br., með 2 sperrum, 2 bitum og tilhlýðilegum stöfum, 2 langböndum, stæðilegt. Innifjós, 4½ alin l., 2 álnir br., með 2 bitum, 2 sperrum og langböndum. Bæjargöng, 6 álnir l., 2 álnir br., með 3 sperrum, bitum og stöfum, 2 langböndum, í tveim stafgólfum, í öðru móleður, hurð og þil fyrir útidyrum. Húsagarðar 22 faðmar. Heygarður 5 faðmar. Túngarðar 33 faðmar. Hjallur í Skipasandi, 4½ alin l., 2¼ alin br., með 2 sperrum, 2 bitum og tilhlýðilegum stöfum, 2 langböndum hvorum megin. Fiskigarðar.
Úttekt á Kornhól 13. júní 1847:
Baðstofa, 8 álnir l., 4 álnir br., með sperrum, bitum og langböndum og lofti. Eldhús, 9 álnir l., 3 álnir br., með 5 sperrum, tilsvarandi bitum og 3 langböndum sín hvorum megin, reft yfir, 2 hurðir fyrir. Bæjaranddyri, 3½ alin l., 1¼ alin br., með bitum, sperrum og tilhlýðilegum stöfum, langbönd, mænisás, þil, hurð. Smiðja, 6 álnir l., 4 álnir br., með sperrum og langböndum. Kró í Skanzinum, 6 álnir l., 3 álnir br. Túngarðar 90 faðmar, fiskigarðar, byrgi.
Hús á Miðhúsum 1867:
Baðstofa, 5 álnir l., 3½ alin br., með gamalli súð, þili og hurð á öðrum enda, stæðileg að veggjum og viðum. Skáli, 6 álnir l., 3½ alin br., með 4 sperrum, tilheyrandi stöfum, 4 langböndum hvorum megin, mænisás, þil og hurð í öðrum enda, 2 litlir gluggar. Eldhús, stæðilegt að viðum og veggjum, 7½ alin l., 2½ alin br. Bæjargöng álíka, með þili og hurð fyrir útidyrum. Hlaða, 3 álnir l., 3 álnir br., með 2 sperrum, þili og hurð. Fjós, 5½ alin l., 2 álnir br., gamalt, en stæðilegt, slæm þekja. Húsagarðar 18 faðmar. Túngarðar 16 faðmar.
Hús í Eystra-Stakkagerði 1858:
Baðstofa, 12½ alin l., 3¼ alin br. Bæjargöng, 3¼ alin l., 1¼ alin br. Húsagarðar 5 faðmar. Túngarðar 180 faðmar. Fiskigarðar. Kró í Skipasandi, byrgi í Fiskhellum.
Lýsing á húsum á jörðinni Presthúsum frá 7. sept. 1901:
Húsin á jörðinni voru ein af þeim fáu eiginlegu jarðarhúsum, er ennþá voru hér. Baðstofa, innan við 6 álnir l., 4½ alin br., með 1½ alin háum veggjum af grjóti og torfi, með skarsúð og torfi utan yfir. Í húsinu eru 5 sperrur, 2 vegglægjur og tilheyrandi stafir. Húsið er þiljað innan og hurð á járnum fyrir göngum. Í öðrum enda er þil með sex rúðu glugga. Fjalagólf. Bæjardyr, 6½ alin l., 2½ alin br., með grjótveggjum og torfþaki. Í húsinu eru 4 sperrur, 8 stafir, 2 vegglægjur og 4 langbönd á hvorri hlið og raftur. Fyrir útidyrum, sem eru á timburgafli að sunnan, er ólæst hurð á járnum. Eldhús, 6 álnir l.,
4 álnir br., með grjótveggjum, grjótgafli og torfþaki, 4 sperrur og bitar, 2 vegglægjur og mænisás. Skarsúð á suðurhlið, en raftur að norðan. Húsin öll virt samtals á 105 krónur²).
Lýsing á staðarhúsum á prestssetrinu Ofanleiti: Hér skal lýst staðarhúsum á prestssetrinu Ofanleiti frá því um miðja 18. öld og fram á öndverða 19. öld. Á þeim 65 árum, sem elztu úttektargerðirnar ná yfir, eru húsakynni hér lítið breytt og sennilegt, að þau hafi lengi verið svipuð því, sem hér er lýst.
1746 er talið bænhús á Ofanleiti í 3 stafgólfum. Bæjarhúsin: Klefi í tveim stafgólfum, með 8 sperrukjálkum, 8 stöfum, 2 áföllum og 1 bita. Sængurhús í þrem stafgólfum, með 2 bitum, 4 sperrum, 8 stöfum, þiljað innan, gamalt fjalagólf í húsinu, lítill pallur í miðju. Á húsinu eru 3 glergluggar, einn með 13, annar með 9 og þriðji með 2 rúðum. Skáli í 3 stafgólfum. Bæjardyr með 3 stöfum og 3 sperrum, þil með glugga á með 7 rúðum. Sérstakt hús, stofa í þrem stafgólfum, þiljað innan með fjalagólfi, loft í því. Eldhús í fjórum stafgólfum, 1811 er eldhúsið talið 9 álnir á lengd. Búr í þrem stafgólfum. Fjós með fjórum básum, fimm básar seinna. Hesthús fyrir 4 hesta. Smiðja í þrem stafgólfum. Húsagarðsskemma í þrem stafgólfum. Heimahjallur og hjallur í Skipasandi. Húsagarður kringum staðinn. Túngarðar umhverfis túnið. Fiskigarða á 5 tilgreindum stöðum átti Ofanleiti og grjótbyrgi í Fiskhellum. Seinna, 1782, eru talin 2 grjótbyrgi og fiskkró. Mun það vera stóra grjótborgin á Efri-Brimhólum fyrir neðan Hvíld, er stóð fram yfir aldamótin síðustu. — Úttekt á Ofanleiti framkvæmdi 8. júní 1746 Ólafur Gíslason prófastur, síðar biskup í Skálholti. Má af ofangreindu sjá, að vel hefir verið hýst á Ofanleiti fyrr á tímum. Skálinn og sængurhúsið svokallaða á Ofanleiti stóð þar til í tíð séra Jóns Austmanns, er lét rífa hvoru tveggja og byggði nýtt baðstofuhús á staðnum, í 6 stafgólfum, um 13 álnir á lengd. Séra Brynjólfur Jónsson byggði nýtt hús á Ofanleiti 1863, 14 álnir á lengd og 6 álnir á breidd. Uppi á loftinu voru 2 herbergi og niðri 4. Á uppboði 1861 var selt timbur og brak úr Ofanleitisstofu tilheyrandi dánarbúi madömu Þórdísar Austmann og hljóp það 59 rd.
Lýsing á staðarhúsum á prestssetrinu Kirkjubæ:
Um húsakynni á prestssetrinu Kirkjubæ er lítið kunnugt. Gera má með vissu ráð fyrir, að þar hafi fyrrum verið vel hýst eftir því, sem ráða má nokkuð af hinum fornu máldögum, og eigi síður en á Ofanleiti, því að fyrrum mun Kirkjubær hafa verið Ofanleiti öllu fremri. Prestssetursbærinn í Kirkjubæ hefir verið mjög hrörlegur um miðja 17. öld og fúinn að viðum, svo að þeir voru í öllum bænum, er verið hefir stór, virtir á 2 hndr. 95 álnir. Bæjarhús í Kirkjubæ, er séra Páll Jónsson skáldi tók við af Önnu Guðmundsdóttur, ekkju séra Bjarnhéðins, voru sem hér segir: Baðstofa í fjórum stafgólfum, 7 álnir l., 3½ alin br., 5 sperrur og 10 tilheyrandi stuttstafir, 2 stafgólf austast af baðstofunni afþiljuð með 1 glugga með 6 rúðum. Búr. Önd milli búrs og skála í tveim stafgólfum. Skáli í þrem stafgólfum, 5 álnir l., 3½ alin br. Loft í skálanum og gluggi á með 4 rúðum og gluggi niðri. Eldhús í þrem og hálfu stafgólfi. Bæjardyr, 8½ alin l., 2½ alin br. Bænhús í þrem stafgólfum. Fjós fyrir 3 kýr. Húsagarðar 10 faðmar. Heygarðar 20 faðmar. Túngarðar 180 faðmar. Úttektin var framkvæmd af Steingrími Jónssyni prófasti í Odda, síðar biskupi. Með prófasti voru við úttektina Jón Einarsson hreppstjóri í Nýjabæ og Einar Sigurðsson bóndi og meðhjálpari á Vilborgarstöðum, faðir Árna Einarssonar ³).
Kastali:
Baðstofa, 8 álnir l., 3 álnir br., með fjórum sperrum, bitum og tilheyrandi stöfum, steinveggir, tilslegnir að innan. 6 álnir af þilinu er undir súð, sem er felld með raftvið. Hæð undir bita 2¼ alin, ofan bita 2 álnir. Eldhús, 5 álnir l., 3½ alin br., með 2 sperrum, 1 bita og 2 langböndum hvorum megin, mænisás. Raftviður er í eldhúsinu, hurð fyrir. Bæjargöng, 4 álnir l., l¼ alin br., með 2 bitum, sperrum og 1 langbandi. Reft yfir. Húsagarðar 7 faðmar. Fiskigarðar fylgja. Kálgarður 60 ferfaðmar. Festugjald fyrir tómthúsið Kastala var 8 rd. 1855, sbr. byggingarbréf 28. jan. nefnt ár.
Ömpuhjallur 1855:
Baðstofa, 4½ alin l., 3½ alin br., með bitum, stöfum og sperrum, og móleður. Súð. Húsið stæðilegt að veggjum og viðum. Baðstofugöng, 3 álnir l., 1 alin br., með raft á súð. Eldhús, 3 álnir l., 3 álnir br. Taðhús, 2 álnir, með bitum, stöfum og sperrum, langbönd hvorum megin. Kró í Skipasandi. Fiskigarður í standi. Stór kálgarður. Öll voru húsin stæðileg að veggjum og viðum.
Tómthúsunum hér fór heldur fækkandi undir lok 19. aldar, enda var nú undir sveitarstjórnina að sækja um húsmennskuleyfi, sbr. lög 20. maí 1863. Lengi voru lóðir með tómthúsum eigi fastákveðnar eða útmældar með vissri stærð, sbr. landsh.br. 1882. Kálgarðsstæðin, er tómthúsunum fylgdu, fóru stækkandi, er lengra leið, og eftir miðja öldina er fyrst getið kartöflugarða við úttektir á jörðum. Í byggingarbréfi fyrir húsinu Fagurlyst 1882 er talin fylgja 272 ferfaðma lóð, — fyrir Garðstaði, frá 1895, 350 ferfaðma lóð og þar af 30 ferfaðmar undir stakkstæði, — fyrir Sjólyst, frá 1897, 220 ferfaðmar, auk 90 ferfaðma matjurtagarðs, stakkstæðis 60 ferfaðma og króarstæðis 9½ ferfaðm. Verð á tómthúsum var um miðja 19. öld frá 80 og yfir 200 rd. Síðar á öldinni 300—600 kr.⁴)
Lengi neitaði sveitarstjórnin í Vestmannaeyjum um leyfi til að reisa tómthús. Horfði mál þetta óvænlega fyrir framtíð eyjanna, er unga fólkið varð að flýja þaðan, til þess að geta stofnað bú. Fóru ýmsir þá til Ameríku. Loks eftir aldamótin síðustu, árin 1901—1904, leyfði sveitarstjórnin byggingu 6 tómthúsa og skyldi 400 ferfaðma lóð fylgja hverju. Tómthúslóðir, er seinna voru útmældar, voru nokkru minni, 350 ferfaðmar. Síðan var með öllu upphafið bannið við að reisa hús og stofna til nýrra heimila hér. Stækkaði kaupstaðurinn mjög ört hin seinni árin. Venjuleg húslóð hér er 600 ferálnir.
Hér er enginn lækur eða á. Í Herjólfsdal er Lindin fræga, með hleðslu umhverfis frá landnámstíð eyjanna. Vatnslind dálítil er á Stórhöfða. Andrésarbrunnar voru í sandinum undir Klifi. Segir í mælingargerð frá 4. apríl 1787, að þar sé nægilegt vatn, en lítið um það annars staðar. Eitt aðalvatnsbólið hér var Vilpa, lítil tjörn í dæld í Vilborgarstaðatúni, sem vatnsrennsli safnaðist að. Umhverfis var hleðsla.
Brunnar hafa frá fornri tíð verið hér við marga bæi og sótt í þá vatn til daglegra þarfa. Brunnarnir voru djúpir, hlaðnir upp og steinþrep niður að ganga. 1787 er talið, að brunnar séu við flesta bæi hér. Í seinni tíð voru brunnar á þessum stöðum: Í Kirkjubæ fyrir vestan Suðurbæinn eystri. Þessi brunnur þornaði aldrei og var notaður aðallega. Annar brunnur var hjá Staðarbænum og fram af hlaðinu var upphlaðin vatnsþró, Runkatjörn, efst í Bænhússtúninu. Lítill brunnur var norður af Staðarbænum og reft yfir hann. Vatn úr honum var talið hollt sjúklingum. Á Vilborgarstöðum voru tveir brunnar, annar hjá Vilpu sjálfri, en hinn hjá Norðurbænum. Brunnur var og á Miðhúsum, og hjá Kornhól og Gjábakka var forn brunnur. Tveir brunnar voru hjá Ofanleiti, annar þeirra mjög djúpur, prýðilega hlaðinn með mörgum þrepum. Var í hann sótt frá hinum bæjunum fyrir ofan Hraun. Brunnur var og í Draumbæ. Í Dölum var og góður brunnur. Brunnarnir fylltust í rigningatíð, en í þurrkatíð vildu þeir þorna upp. Vatn var borið í tréfötum og skjólum, á vatnsgrindum, okum og á vatnsankerum. Úr Herjólfsdal var vatn flutt á hestum, nú á bílum. Ull var stundum flutt til þvottar í Herjólfsdal, og þvottur þveginn þar eða skolaður eða við brunnana undir Klifi eða undir Stóru-Löngu. Við silfurbrunnana í Herjólfsdal uppi undir Fjósaklettum var sagt, að konur hefðu áður þvegið lín sín. Búpeningi var á sumrum brynnt í Daltjörninni og í Vilpu. Þegar neyzluvatn þraut í brunnum og Vilpu, var það sótt í Lindina í Herjólfsdal og í Andrésarbrunna, sem og undir Stóru-Löngu. Þar hafa menn snemma haft ámur og keröld og sett undir bergrunann, sem þar er mikill, og safnað vatni. Þannig segir í lýsingu eyjanna frá 1749, að safnað sé rennslinu úr berginu, að rennslið sé einn pottur á dag og hinir dönsku noti vatnið í te. Vatnsrennslið mun vera mun meira, en mikið af því hefir farið til spillis. Í vatnskerin undir Löngu var sótt vatn handa erlendum skipum og er enn.
Andrésarbrunnarnir voru gleymdir, en á sömu slóðum undir Hlíðarbrekkum var gert vatnsból fyrir alllöngu, fyrst grafin vatnsþró handa fé, síðan var þarna gerður brunnur. Seinna var gerður nýr brunnur nær kauptúninu og kallaður Nýi Póstur til aðgreiningar frá Gamla Pósti, eldra brunninum. Nýi Póstur var aðalvatnsbólið hér í þurrkatíð, eftir að hætt var með öllu að sækja í Vilpu. Í Póstinum var nægilegt vatn, en helzt þurfti við vatnssókn að sæta sjávarföllum, og vatnið var dálítið sjómengað, líkt og brunnvatn sums staðar á Suðurnesjum. Hætt er nú að sækja vatn í Póstinn, síðan nýja vatnsþróin var gerð í Herjólfsdal. Þar munu í þurrkatíð fást 4—5 tonn af vatni á dag. Við öll hús hér eru steinsteyptir brunnar og í þá safnað vatni af húsþökum. Með þessu er séð fyrir neyzluvatni. Húsþökin og brunnarnir þurfa góða umhirðu til þess að vatnið haldist gott. Sums staðar erlendis er séð fyrir vatnsþurftum á líkan hátt. Vatnsleiðsla í húsum er hér allvíða. Í sumum húsum er leiðsla úr Sjóveitunni til notkunar við vatnssalerni.
Vandkvæði nokkur hafa verið um neyzluvatn og þeir, sem hafa litla brunna, mátt spara fremur vatnið, er þurrkasamt hefir verið. Fiskur var fyrrum þveginn úr sjó til þess að spara vatnið. Algengast var að sjá fólk skolpa föt og plögg upp úr sjávarlónum, einkum í Stokkalóni, en þetta var áður en menn almennt komu sér upp brunnum við hús sín og þannig bætt úr vatnsleysinu. Víst er, að utan eyjanna hefir verið gert meira úr vatnsleysinu en ástæða er til.
Heimildir í þessum hluta:
1) Extract af skoðunarforrétting kansellíráðs og sýslumanns W. Thorarensens 10. júní 1815.
2) Umboðsreikn. V.E., Úttektarb. V.E., Uppboðsb. V.E., XXII, 4, Þj.skj.s.
3) Úttektir 1746, 1782, 1790, 1810, 1811, og 1822. Úttektarbækur Rangárvallaprófastsdæmis, Þjóðskj.s., Umboðsr. og uppboðsbækur V.E., Þjóðskj.s.
4) Bréfabók Vestmannaeyjasýslu.