Pallakrær

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. desember 2005 kl. 13:48 eftir Sigurgeir (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. desember 2005 kl. 13:48 eftir Sigurgeir (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Pallakrærnar voru sérstakur hluti af atvinnusögu Vestmannaeyja. Þær eru nú horfnar á braut en settu mikinn svip á svæðið við höfnina áður fyrr.

Fiskvinnsluhús byggð á steinstöplum

Eftir að fiskveiðar jukust hér upp úr aldamótunum 1900 með vélvæðingu bátaflotans og með tilkomu öflugri veiðarfæra, voru byggð mörg fiskhús á steinstöplum er gerðir voru í sjónum fram af Strandvegi því að allir vildu vera með fiskikrær sínar sem næst sjónum.

Þessar fiskikrær, Pallakrærnar eða Pallarnir eins og byggingarnar voru oftast nefndar, enda voru þetta byggingar á pöllum, náðu austan frá Bæjarbryggju og vestur með StrandvegiDrífandahúsinu þar sem síðar reis húsið Gefjun og nú stendur hús Miðstöðvarinnar. Aðalathafnasvæðið var þar sem frystihús Fiskiðjunnar og Ísfélagsins risu síðar. Annesarvik var nær beint norðan við hús Miðstöðvarinnar og fékk nafn sitt af því að maður að nafni Anders Asmundsen bjargaði þar barni frá drukknun.

Byggt skipulagslítið og af vanefnum

Þessar fiskikrær, sem skiptu tugum, voru byggðar skipulagslítið og margar hverjar af talsverðum vanefnum. Þarna fór fiskvinnslan fram. Öllu var ekið á handvögnum til og frá krónni. Aðgerðarmenn tóku við fiskinum þegar bátarnir komu að og keyrðu hann upp í kró. Þar var svo gert að fiskinum, hann flattur, þveginn og saltaður. Síðan varð að keyra hrognum og lifur frá krónni vestur í Brasið sem kallað var, í lifrarbræðsluskúra vestar við Strandveginn. Í vestustu krónni var mögulegt á stórstraumsflóði að sigla bátum upp að krónni og henda fiskinum upp og inn um dyr sem voru á norðurgaflinum.

Sjór til fiskþvotta tekinn úr höfninni

Gat var á króargólfinu og hlemmur yfir. Upp um þetta gat var sjór tekinn til fiskþvotta og honum ausið í stór ker eða ámur. Á háfjöru var sjór einnig sóttur á handvögnum niður á bryggju. Niður um þetta gat og milli gisinna gólfborðanna í krónni fór síðan sjórinn til baka þegar búið var að þvo fiskinn úr honum en bannað var að kasta fiskúrgangi niður um gatið og var sérstakur eftirlitsmaður sem fylgdist með því að ekki væri kastað úrgangi þar niður. Engu að síður slæddist þó alltaf eitthvað með, t.d. af lifrarbroddum, og var það lengi vel iðja athafnasamra peyja að tína lifrarbrodda undir Pöllum og selja í lifrarbræðslu. Fram til þess tíma að beinamjölsverksmiðjan tók til starfa var það einnig starfi aðgerðarmanna að keyra öllum úrgangi, fiskhryggjum og hausum niður á bryggju, setja þar úrganginn um borð í skjögtbát og róa síðan út fyrir hafnarmynnið, út fyrir Klettsnef, þar sem öllu var hent í sjóinn. Þar heitir síðan Beinakelda.

Gatið í gólfinu einnig notað sem salerni

Vinna aðgerðarmanna