Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Mannskaðinn mikli 1901

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. september 2013 kl. 14:38 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. september 2013 kl. 14:38 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: <br> <br> <br> <center> Úr fórum Árna Árnasonar</center> <big><big><center> Mannskaðinn mikli 1901</center></big></big> <big><center>Athugasemdir [[Magnús Guðmundsson (Vestur...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Mannskaðinn mikli 1901
Athugasemdir Magnúsar á Vesturhúsum


Í 5. tbl. Víðis, dagsett 24. f. m.: Um mannskaðann mikla við Vestmannaeyjar 16. maí 1901 er meðal annars sagt svo frá: „Magnús Guðmundsson formaður og bóndi í Vesturhúsum sá í kíki sínum, hvað gerðist. Brá hann þegar við og safnaði mönnum í skyndi. Farið var út á vertíðarskipinu Friði. Nálægt 30 menn voru á skipinu og rösklega róið út.“
Eins og víst margir muna er þetta alröng frásögn, en þar sem ég er nefndur í þessu sambandi og svona rangt skýrt frá, vil ég biðja Víði fyrir eftirfarandi leiðréttingu.

Þennan umrædda uppstigningardag, þegar slysið vildi til, var ég, ásamt nokkrum fleiri karlmönnum, staddur á heimili Höllu systur minnar að Kirkjubæ. Sátum við þar að kaffiborði.
Þá var það, að Halla systir mín kemur inn auðsjáanlega hrædd og segir: „Guð hjálpi mér, ég held, að skipið ætli að farast, þeir ausa með tveim trogum.“
Við þutum út, og var ég fyrstur norður fyrir húsið, og þá var skipið að fara í kaf. Við karlmennirnir hlupum allir því nær strax niður í Sand og vorum mjög fljótir. Þegar við komum þangað, var þar fjöldi manns og var þá Hannes Jónsson hafnsögumaður að fara út til björgunar á öðru fjallaskipinu, sem þá var nýkomið af landi. Kallaði ég þá yfir hópinn og spurði, hverjir vildu koma með mér. Urðu fleiri til þess en með þurfti.
Hlupum við þá til skips þess, sem var við Miðbúðarbryggju, og, sem einnig var nýkomið undan Eyjafjöllum. Var formaður á því skipi Friðrik Benónýsson, nú í Gröf, og kom hann út til björgunar, en vildi ekki vera formaður, og tók ég það þá að mér, enda voru þar með margir af mínum góðu vertíðarhásetum.
Bæði þessi skip voru stórir sexræðingar og víst góðir bátar. Ég hygg, að á hvoru skipi hafi verið yfir 20 manns, og það hef ég séð best róið, enda böguðu ekki sjóklæði. Það er heldur ekki rétt, að Björn hafi siglt fram hjá Ystakletti, því skip hans sökk alllangt í suðuraustur af Klettsnefi. En þegar við komum út að skipinu, sem mun hafa verið um hálfri stundu eftir að slysið vildi til, var skipið komið á móts við Klettsnef. Þarna náðust 8 lík – 5 karlar og 3 stúlkur.
Mig minnir, að 6 dögum eftir þetta hörmulega slys, drukknaði ásamt hásetum sínum, austur við Bjarnarey, Magnús Guðlaugsson í Fagurlyst. Hann var síðari maður Guðrúnar Þorkelsdóttur, móður Jóhanns Jósefssonar alþingismans. Á þeim sama bát og nærfellt í sama stað drukknaði faðir Jóhanns og fyrri maður Guðrúnar, Jósef Valdason.
Þegar Magnús drukknaði, var ég nýkominn af sjó og var að koma heim. Þegar ég sé, að bátur er að leggja í Álinn. Tók ég þá sjónauka góðan, er ég átti, og horfði til bátsins og þekkti hann þegar. Rétt í sama bili féll stórsjór yfir bátinn að aftan, og sá ég ekki bátinn meir.
Hljóp ég strax niður eftir. Hafði slysið sést af Skansinum og var Gísli Lárusson að safna fólki á vertíðarskipið Friður, sem var áttræðingur og, sem Gísli var formaður með í mörg ár. Ég var einn, sem fór með Gísla, því að hann var formaður þeirrar farar.
Við sigldum austur undir Bjarnarey nokkru sunnar en slysið vildi til, en eins og von var til, sáum við ekkert til bátsins. En það kom okkur saman um, að ekki væri áttræðingnum leggjandi í álinn, svo mikill var stórsjórinn þar.
Sigldum við svo fyrir vestan álinn og norður fyrir Bjarnarey til þess að vita, hvort þar væru tveir bátar, er vantaði og menn óttuðust um. Voru þeir undir eyjunni.
Formaður á öðrum bátnum var Stefán Gíslason, nú á Sigríðarstöðum.
Þessi för á skipinu Friður var líka farin til að leita að þeim og hjálpa þeim, ef þurft hefði. Þegar þeir sáu okkur koma, lögðu báðir bátarnir af stað heimleiðis undan eynni, enda var þá sjó farið að lægja og suðurfallið að enda. Sigldum við svo heimleiðis með bátunum. En mjög varð að beita áttræðingnum til vinds, svo að hann hlypi ekki langt fram úr litlu bátunum.

Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit